Laugardagur, 6. september 2008
Esjan fyrir alla!
Undanfarna mánuði hef ég vanið komur mínar á Esjuna og hefur það stúss haft mikil og góð áhrif á mig. Ég er þess fullviss að Esjan getur reynst öðrum jafn vel og enn betur ef hún fær smá aðhlynningu frá viðeigandi deild innan Reykjavíkurborgar.
Í mínum huga er auðveldlega hægt að gera Esjuna aðgengilegri fyrir fólk sem er að rífa sig af stað eftir langa kyrrsetu, en hún er frábær sem vettvangur æfinga fyrir alla. Í dag er leiðin upp fjallið mörkuð með nokkrum stikum, en það er mislangt á milli þeirra og því óhentugt að nota þær sem viðmið í markmiðasetningu. Leiðin upp að 4. stiku er um 2,5 km. að lengd og hefur hækkað um 400 metra þegar komið er á leiðarenda. Ef þessari leið væri skipt upp í 6-10 leggi væri auðvelt fyrir kyrrsetufólk að setja sér það raunhæfa markmið að ganga fyrst 250-400 metra nokkrum sinnum og bæta svo við þegar þrekið fer að aukast. Nú er vel hægt að segja að 250-400 metra göngutúr sé afar ómerkilegt markmið, en Esjan er þannig gerð að hún lætur fólk streða hvern einasta metra. Því er betra að byrja rólega og byggja svo hægt og bítandi ofan á þann árangur sem næst í stað þess að ætla sér um of og springa svo á limminu. Málið er að það er ekki vegalengdin sem er erfið, heldur hækkunin. Hækkunina þarf að brytja niður í viðráðanlega skammta þannig að fjallið verði aðgengilegt fyrir byrjendur. Ef það gerist, þá munu vinsældir Esjunnar aukast, sérstaklega meðal þeirra sem eru að byrja að hreyfa sig aftur eftir langt hlé.
Einnig er tilvalið að setja upp aðstöðu til æfinga á fjallinu eða við rætur þess. Í þeim efnum geta menn sótt hugmyndir í Öskjuhlíðina þar sem er að finna skemmtilega gönguleið sem brotin er upp með æfingatækjum á borð við það sem sést á meðfylgjandi mynd. Með svona aðstöðu myndi fjallið umbreytast í skemmtilegasta og sérstæðasta æfingasvæði í heimi! Á sama hátt mætti gera fólki auðveldara að setjast niður við og við og hvíla lúin bein.
Þá mætti setja upp skemmtilega aðstöðu við bílastæðin sem gerði teygjur auðveldari. Það myndi fækka tognunum á fjallinu og gera puðið árangursríkara. Á því svæði væri upplagt að setja upp einfaldar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja nýta sér fjallið til að komast í form.
Esjan hefur gert mörgum mikið gagn sem sést á þeim fjölda fólks sem sækir hana vikulega. Með þeim viðbótum sem lýst er hér að ofan mætti gera fjallið mun þægilegra viðureignar fyrir alla og þá sér í lagi fyrir fólk sem er að rífa sig upp úr kyrrsetunni eftir mislangt hlé. Viðbætur þessar eru ódýrar og einfaldar í innleiðingu, en gætu líklega orðið ein besta fjárfesting í bættri heilsu sem um getur!
Mynd: Dísin
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 2. september 2008
Ætlað samþykki
Íslendingar eiga að stefna að því að vera sjálfum sér nógir í þessum efnum. Við eigum skilyrðislaust að festa það í lög að heilbrigðisyfirvöld hafi sjálfkrafa rétt til þess að taka líffæri úr látnu fólki nema skýr yfirlýsing hins látna um hið gagnstæða liggi fyrir.
Ég hef áður skrifað um þetta mál og fullyrði þar hiklaust að það sé fullkomnasta birtingarmynd eigingirni að neita líffæragjöf. Burtséð frá því hvort fólk haldi að eitthvað taki við eftir þetta jarðlíf, þá er nokkuð ljóst að líkamar okkar gagnast engum, hvorki okkur né öðrum, eftir okkar dag. Hins vegar geta þeir gagnast öðrum og það verður að vera það sjónarmið sem ræður.
Því skora ég á málsmetandi menn að festa ætlað samþykki í lög og stuðla þannig að bættri heilsu landsmanna. Sú ráðstöfun myndi einnig létta þrýstingi af aðstandendum sem virðast frekar hallast að því að neita yfirvöldum um leyfi til líffæratöku. Líklega kemur þar til virðing og væntumþykja í garð þess látna, en á þessari stundu getur fólk líklega ekki gert sér fulla grein fyrir því hverju það er að neita.
Ég bendi á eftirfarandi greinar í þessu samhengi:
- Líffæragjafi nema annað sé tekið fram
- Þörfin fyrir líffæri kallar á nýja löggjöf
- Bretland: Lögum um líffæragjafir breytt?
Þetta eru sannarlega lífsnauðsynlegir varahlutir! Umgöngumst líffærin sem slík.
Líffæraflutningar endurskoðaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 1. september 2008
Árás á Ísland afstýrt ... til 20. september!
Allt frá því að Frakkarnir hættu að fljúga yfir landinu hef ég verið viti mínu fjær af ótta yfir því að nú gæti einhver ráðist á landið mitt. Nú væri landið öllum opið.
En ég svaf vært í nótt.
Um allan heim brugga vondir menn Íslandi launráð. Þeir sitja um landið og sæta færis að ráðast hér inn með offorsi við fyrsta tækifæri. En ekki núna.
Nú sef ég rótt.
Því nú gæta mín Bandaríkjamenn sem fljúga linnulítið yfir landið, rétt eins og Frakkarnir hér í denn. Æ, hvað ég var öruggur þá. Næstum eins öruggur og núna. Ég hreinlega elska Kanana og loftrýmisgæsluna þeirra.
Og nú sef ég vært.
En nú fer að naga mig, nístandi kvíðinn! Verður ráðist á okkur 21. september? Eða kannski 22. september? Eða bíða óvinir Íslands til 25. september? Óvissan er þrúgandi!!!
Því Kaninn fer 20. september!!!
Hvað verður um litlu okkur, alein úti í ballarhafi? Berskjölduð gegn árásum, aumingja litlu við. Væri kannski gott að eiga svolítið af klasasprengjum núna? Eða S-400 loftvarnaflaugum? Stinger-flugskeyti? Gripen orrustuþotur? Þrjú þúsund manna þungvopnað herlið?
Væri það ekki 'kúl'?
PS. Ég velti því fyrir mér, svona út frá herfræðilegum sjónarhóli, hvort það sé alltaf snjallt að gefa út fréttatilkynningar þegar landið er varið og tilgreina hvenær við erum óvarin. Er það ráðlegt að gefa óvinum okkar upp nákvæmlega hvenær við erum veik fyrir og hvenær ekki? Kannski á þetta bara að pirra þá? Við erum varin í júní og fram í miðjan júlí og svo aftur í september. Þeir hugsa auðvitað með sér, allir óvinir Íslands;
Við getum ekki ráðist á Ísland frá miðjum júlí og fram í lok ágúst því Bandaríkjamenn koma í september og reka okkur í burtu aftur. Nei, við skulum bara láta þetta eiga sig og ráðast á einhvern annan í staðinn.
Er þetta máské kjarninn í þessari 'snjöllu' varnaráætlun? Að láta líta út eins og við séum með svo heimskulega varnaráætlun að óvinir okkar telji að hún hljóti að vera snjallasta og besta varnaráætlun í heimi. Máské?
En nú sef ég vært ... til 20. september!
Föstudagur, 15. ágúst 2008
Má Síminn ljúga og ljúga og ljúga?
Nú er Síminn byrjaður að auglýsa aftur að Frelsið stoppi tímann og að Frelsaðir geti talað og talað og talað og talað og talað og talað ... (ókeypis). Málið er að ef fólk tekur tilboði Símans og Frelsast þá getur það orðið býsna dýrkeypt. Það er nefnilega ekkert að marka Símenn þegar þeir segja að Frelsaðir geti talað og talað og talað ... (ókeypis)! Sleipir textasmiðir, útsmognir markaðsmenn og hálir auglýsingamenn hafa farið höndum um raunveruleikann og bjagað hann þar til upp er niður og hægri vísar til vinstri.
En látum verk þessara snjöllu Símanna dæma sig sjálft. Hér er texti úr nýjustu auglýsingunni sem nú er sýnd af mikilli ákefð í sjónvarpi:
Frelsi stöðvar tímann.
Fylltu á Frelsið með símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað og talað.
Síminn.
Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að eftir þriggja mínútna símtal stöðvi Síminn gjaldmælinn og leyfi fólki að tala og tala og tala ... (ókeypis). Það er engin stjarna sem vísar í smátt letur, það er ekkert smátt letur í auglýsingunni, það er enginn fyrirvari kynntur. Loforðið stendur eitt og óskorað. Þú borgar fyrstu þrjár mínúturnar og svo ekki söguna meir. Eða hvað?
Ef Frelsaðir hafa fyrir því að fara inn á vef Símans þá sjá þeir að þetta dásamlega tilboð Símans er bara gullslegin gildra sem ætlað er að lokka fólk í Frelsi sem reynist svo bara Helsi þegar öllu er á botninn hvolft. Í Frelsuðum heimi Símanna er gjaldmælirinn nefnilega settur í gang aftur (hljóðlega) eftir 30 mínútna símtal og þá fær sá Frelsaði að blæða og blæða og blæða (drjúgt) meðan hann talar og talar og talar (dýrt).
Nú getur háll og vatnsgreiddur Símaður líklega reynt að bera það fyrir sig að hann hafi gert ærleg mistök í textagerð í öllu kynningarefni fyrir endurnýjaða Frelsis kynningu. Slíkt er þó fjarri sanni. Það kemur glögglega í ljós þegar eldri útgáfa sjónvarps auglýsingarinnar er skoðuð, en þar er textinn á þessa leið:
Frelsi stöðvar tímann.
Fylltu á Frelsið með GSM símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað fyrir núll krónur.
Síminn.
Lygin er ekki eins ber, en hún er jafn ljót. Ofurflottir Símenn hafa þar unnið fyrir kaupinu sínu þegar þeir gerðu textann óljósari, veiðilegri, safaríkari. Þannig völdu þeir ekki að skýra tilboð sitt, lýsa það og einfalda ... nei, þeir völdu að fara lengri leiðina, geri lygina þokukenndari, sölulegri, girnilegri. Nú eru þeir konungar alheims, rokkstjörnur í hæstu hæðum, guðir meðal manna. Þeir eru á toppi tilverunnar!
Því hvað er betra en að rukka og rukka og rukka meðan Frelsaðir tala og tala og tala?
PS. Ég vísa í gamla færslu sem Davíð Örn Sveinbjörnsson skrifaði í fyrra um þetta sama mál. Já, þetta er gamalt mál og sýnir hversu gírugur Síminn er í auglýsingamennsku sinni.
Þá er áhugavert að kynna sér auglýsingar á vef mbl.is og kynningu á vef Símans í .pdf skjali. Þar kemur glögglega í ljós að engir varnaglar eru slegnir og að ekki er með nokkrum hætti hægt að skilja auglýsingarnar öðruvísi en svo að þarna sé verið að kynna frábært tilboð sem henti vel á krepputímum.
Að lokum er rétt að birta eldri útgáfu auglýsingarinnar sem hægt er að skoða á YouTube. Áhugasamir verða að ímynda sér nýju útgáfu textans og að fyrirvarinn í lokin sé horfinn, en að öðru leyti hefur hún ekki breyst. Stelpurnar eru jafn yndislegar, stöðumælavörðurinn jafn undrandi ... og hlauparinn jafn ringlaður, rétt eins og við hin :)
Fimmtudagur, 24. júlí 2008
Átak í þjónustu við ferðamenn
Fyrir nokkru síðan tilkynnti ríkisstjórn landsins að hún hyggðist standa fyrir landkynningarátaki og verja til þess á annað hundrað milljón króna. Það átti að kosta einhverja markaðsherferð, minnir mig, sem er ágætt út af fyrir sig. Hins vegar kom fram afar áhugaverð tillaga hér á blogginu um að þessum fjármunum væri betur varið með því að útbúa loftmyndir af landinu sem t.d. Google og Yahoo gætu notað á kortavefjum sínum. Í dag eru Reykjavík, Reykjanesið og afmarkaðir hlutar Vesturlands sýndir í þokkalegri upplausn í Google Maps, en aðrir hlutar landsins eru í mun lakari gæðum. Betur má þó ef duga skal!
Tökum tvö dæmi um staði á landinu:
Hvor vefslóðin gagnast erlendum ferðamanni betur til að glöggva sig á staðháttum?
Besta rástöfunin í þjónustu við ferðamenn er að tryggja erlendum aðilum aðgang að hágæða ljósmyndum af landinu. Þessir aðilar (Google, Yahoo, Microsoft) munu seint sjá sér hag í því að gera landinu fullnægjandi skil á kortavefjum sínum og því þarf að koma að þessu verkefni með beinum hætti. Samhliða þarf að gera örnefnagrunn Landmælinga, gagnagrunn LUKR og sambærilega grunna aðgengilega svo hægt sé að bjóða almennilega framsetningu á gögnum á vefnum. Bein aðkoma að verkefninu myndi að auki tryggja samræmda framsetningu landsins, en hér má sjá hvað gerist þegar ólíkum myndum er skeytt saman. Úr verður fráhrindandi sýn á landið sem auðveldlega mætti forðast.
Án þess að hafa nokkuð fyrir mér í þessum efnum þá grunar mig að ofangreint myndi kosta eitthvað álíka og sex vikna skemmti- og útsýnisflug Frakka yfir landinu. Það sýnir að þetta er bara spurning um forgangsröðun, ekki peninga.
Laugardagur, 5. júlí 2008
Helgi Hóseason
Á leið minni til vinnu keyri ég reglulega fram hjá þeim stað þar sem Helgi Hóseason stendur vaktina staðfastlega og minnir á sjálfsagða kröfu sína þess efnis að skírnarsáttmáli hans verði ógildur. Það sést glögglega að karlinn er farinn að gamlast þar sem hann stendur tinandi í öllum veðrum með skiltið sitt.
Þegar ég sé kallinn spyr ég mig ætíð hvers vegna Ríkiskirkjan leysir hann ekki undan þessum sáttmála sem hann undirgekkst ómálga og staðfesti ólögráða, að eigin sögn, tilneyddur. Hún telur sig víst ekki þess umkomna að ógilda sáttmála á milli einstaklings og Himnafeðganna sem er merkilegt í ljósi þess að hún telur sig umkomna til þess að koma honum á. Þetta er illskiljanlegt.
Er það ekki kærleiksverk af hálfu Ríkiskirkjunnar og Þjóðskrár að leita allra leiða til þess að verða við ósk Helga Hóseasonar? Geta góðir og snjallir menn ekki sest niður og fundið leið til þess að verða við eðlilegri ósk gamals manns sem augsýnilega þráir fátt heitar en þetta? Að mínu viti þarf ekkert annað en gott hjartalag og einbeittan vilja til þess að þetta mál geti fengið farsælan enda fyrir alla aðila.
Mynd: Elvar Freyr
Nánar um málið.
Föstudagur, 27. júní 2008
Kallinn hjólar um París!
Við fórum s.s. á milli helstu staða í miðborg Parísar og hófum ferðina hjá suðursökkli Eiffel-turnsins. Í hópnum voru u.þ.b. 20 manns á öllum aldri og gekk öllum jafn vel að hjóla. Þetta voru mestmegnis ferðalangar frá BNA sem voru þarna að kaupa þjónustu af löndum sínum. Það var auðheyrt að það snart streng í hjörtum margra í hópnum að heyra að Dimitri er frá Texas og einhver táraðist af gleði, held ég. Dimitri var afar afslappaður og þægilegur leiðsögumaður sem kunni gjörla þá list að niðursjóða mikið af upplýsingum í agnarlitla mola sem runnu ljúflega niður. Ég kann honum mætar þakkir fyrir hans tillegg til dagsins.
Annars er gaman að segja frá því að við félagarnir hittum (lesist: töluðum við) þrjár manneskjur í dag; tvo leiðsögumenn frá Fat Tire og svo ferðafélaga okkar í túrnum. Það magnaða var að allar þessar manneskjur höfðu gríðarlegan áhuga á Ísandinu góða og lýstu því yfir að þangað skyldu þau fara fyrr en síðar. Ljóst var að áhuginn risti djúpt þannig að ekki var um hefðbundið kurteisishjal að ræða. Leiðsögumennirnir voru báðir miklir útivistarjaxlar og voru afar spenntir fyrir þeim möguleikum sem bjóðast heima til að kynnast náttúrunni í sinni hráustu mynd. Það var afar gaman að finna hversu mikill þessi áhugi er og það kom mér á óvart að allir þeir sem við töluðum eitthvað við af ráði voru svo fíknir í klakann sem raun ber vitni.
Þriðji aðilinn, Lyndsay frá Ohio í Bandaríkjunum (mig minnir að það sé rétta fylkið) var reyndar í öðrum klassa en þessir tveir áðurnefndum félagar því fyrsta orðið sem ég heyrði hana segja var Sturlungasaga! Þá kemur í ljós að hún er að kynna sér gamla sagnaarfinn okkar meðan hún stundar laganám í Bretlandi. Og gott ef hún er ekki líka að rýna í íslenskuna okkar líka :) Þessi bandaríska freyja vissi nefi sínu lengra þegar kom að Íslandi og hún trompaði leiðsögumennina í öllum deildum því hún hefur þegar komið á Frónið góða. Þetta er lítill heimur og býsna skemmtilegur. Maður fer í hjólatúr um París og hittir fullt af Íslandsvinum ... getur þetta gerst einhvers staðar annars staðar en í Frakklandi?
Á morgun er svo komið að erindi ferðarinnar, en þá byrjar Blizzard Worldwide Invitational 2008 Nerd Fest. Við félagarnir erum s.s. hingað komnir til að berja Starcraft 2 eigin augum og þegar þessi orð eru skrifuð eru átta tímar uns nördunum verður hleypt að miðaafgreiðslunni. Ég vona að mér gefist ráðrúm á morgun til að setja nokkrar línur inn á bloggið, en það verður að mæta afgangi.
En taro adun!
To Lyndsay: If you are reading this, it means you did Google your name and Sturlungasaga :) Welcome to my blog! I hope you will keep on reading the old sagas, study Icelandic and visit us often. Remember, Icelanders love when foreigners know something about our country so it'll not be a surprise if we award you The Great and Magnificent Medal of Knowledge of All Things Icelandic or something like that for your extensive knowledge of ... well, all things Icelandic! Take care and remember ... 'Sturlungasaga' is a magical word in Iceland!!! :) Use it sparingly and wisely!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 23. júní 2008
Af hlandsprengdum og villuráfandi sauð
Sorglegt er að sjá hvernig Jón Valur heggur enn í sömu knérunn í nýjustu blogg-grein sinni, Falskenning til að réttlæta ranglæti gagnvart börnum, þar sem hann finnur fordómum sínum gagnvart einhleypum konum og lesbíum farveg. Það sést glögglega að hann klæðir þessa fordóma sína í búning kristninnar af því að hann skilgreinir andstæðinga sína í málinu sem 'rangtrúaða og andkristna'. Það virðist vera að ófáar konur séu óalandi og óferjandi í augum Jóns Vals sem einn virðist hafa réttan skilning á eðli allra mála og sem einn er blessaður með þeirri náðargáfu að hafa ávallt rétt fyrir sér. En virðing og gæska virðast naumt skammtaðar ef dæma má af þessum orðum prédikarans:
Myndi þetta fólk, sem samdi og samþykkti lögin fyrir þær einhleypu og lesbíurnar, ...
Úff, 'þær einhleypu og lesbíurnar', þessar konur sem enga náð hljóta fyrir augum hins réttsýna. Hvað vilja þessar fraukur eiginlega upp á dekk? Þekkja þær ekki sinn stað í gangverki lífsins? Hann tilgreinir einnig femínista og meinta offorsstefnu þeirra og gefur augsýnilega lítið fyrir hvort tveggja. Þá virðast 'viðhlæjendur' femínista ekki hótinu skárri pappírar en þær sjálfar. Æi, þessar konur, alltaf eitthvað að derra sig.
Nú þykist ég vita að Jón Valur telji mig á villigötum, enda er ég forhertur villutrúarseggur. Hann mun áminna mig um að hann sé ekki á móti konum heldur sé hann að standa vörð um rétt barnanna. Hann hreinlega elski lesbíur en leggi fæð á syndugt líferni þeirra! Jón Valur hefur oft mælt fyrir rétti barna sem fæðast í þennan heim með þyngri bagga á herðum en föðurleysi. Þannig er hann andvígur fóstureyðingum, en fyllilega fylgjandi fósturforvörnum. Og þó ekki ... við verðum að muna eftir óláns smokknum, því illa vélabragði Belsebúbbs! Norður og niður fari það lævísa apparat sem tálmar krossför hins heilaga sæðis karlsins í atlögu sinni að skauti konunnar. Svo vill Jón Valur spyrja þingmennina sem sömdu 'einhleyprakellingaoglesbíu'-lögin hvort þeir myndu vilja hafa fæðst föðurlausir, en ef við lifðum skv. lögmáli Jóns Vals væri ekki einu sinni hægt að spyrja suma þessarar spurningar, þ.e. föðurlausu eymingjana sem engan tilverurétt eiga í heimsmynd hans.
En hvað veldur þessu ókristilega viðhorfi séra Jóns Vals? Hvað veldur þessum eilífðar hlandspreng sem iðulega virðist plaga hann þegar málefni kvenna ber á góma? Getur verið að þegar konur standa ekki við eldavélina berfættar og barnþungar, réttilega og kyrfilega þungaðar af húsbónda sínum og herra, þá séu þær bara ekki alveg eins mikils virði og við karlar? Er ekki bara árans ónæði af þessum kellingum þegar þær eru að ybba gogg?
Já, þessar bévítans kellingar og þetta endalausa réttindaraus þeirra! Hvenær tekur það enda!?!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Föstudagur, 13. júní 2008
Um 85 milljarðar vefsíðna
Ég bendi áhugafólki um vefinn (og afritun hans) að kíkja á The Internet Archive. Þetta er frábært verkefni sem Brewster Kahle setti á koppinn árið 1996. Kahle þessi hafði hagnast nokkuð á sölu fyrirtækja og þótti við hæfi að setja á laggirnar þjónustu sem safnaði saman 'öllu' efni netsins, þ.e. markmiðið var að taka afrit af Internetinu :) svona frómt frá sagt. Þetta metnaðarfulla markmið náðist auðvitað aldrei, en það er líka allt í lagi að setja markið hátt.
Síðustu magntölur segja að árið 2006 hafi gagnamagnið numið 2 petabætum og fitnað um 20 terabæti mánaðarlega. Til samanburðar fitnaði grunnurinn um 12 terabæti mánaðarlega árið 2003. Í grunninum er að finna afrit af 85 milljörðum vefsíðna ásamt megninu af tengdri grafík. Það má jafnvel finna gamlar kvikmyndir í fullri lengd þarna. Þess má geta að árið 2002 fóru forráðamenn IA að kröfu lögmanna Vísindakirkjunnar og fjarlægðu mikinn fjölda vefsíðna sem fjölluðu um kirkjuna, iðulega í óþökk eigenda þeirra og höfunda. Þannig hefur starfsemin ekki verið algjörlega óumdeild, en reynt hefur verið að gæta þess að innihald gagnageymslur IA gefi sem réttasta mynd af efni Netsins á hverjum tíma.
IA er frá upphafi verið skilgreint sem bókasafn og stendur nú fræðimönnum til boða án endurgjalds, sem og netverjum öllum. Ég skora á lesanda þessa bloggs að hverfa aftur í tímann og kíkja á eftirfarandi heimildir úr hirzlum IA:
- mbl.is
- visir.is
- fjolnet.is
- torg.is
- google.com (25 milljón vefsíður!)
- apple.com
- microsoft.com
- fyrstu vefþreifingar skrifara :)
Respice, adspice, prospice :)
Landsbókasafn hefur safnað .is-vefefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 9. júní 2008
Guðdómleg spádómsgáfa
Í nótt sem leið bylti ég mér á alla kanta því það sóttu að mér andar. Ég gat vart sofið fyrir þessari ásókn og fannst mér sem ég væri í beinu sambandi við hið óræða. Andarnir sýndu mér margt og sýnirnar voru torræðar í byrjun, en tóku smám saman á sig skýrari myndir. Einn af öðrum heimsóttu mig aldnir meistarar úr fornri tíð og töluðum tungum sem ég skildi ekki ... ekki alveg strax! Draugar fortíðar, nútíðar og framtíðar gerðu sér dælt við mig og voru atlot þeirra fálmkennd í fyrstu en urðu brátt einbeittari. Tölur röðuðust upp í spaklegar raðir, tungl himins skipuðu sér í fylkingar, ótal sundurlausar raddir urðu að einni, tryllingslegir litir tóku á sig form regnbogans, tætingslegir tónar urðu að dásamlegri sinfóníu og ég, efasemdarmaðurinn, sá að ég gat lesið framtíðina eins og væri hún opin bók! Ég? sem hef ætíð efast! Ég get rýnt í þoku morgundagsins og séð það landslag sem mun marka ókomna tíma. Ég get lesið vilja almættisins! Ég sé í gegnum holt og hæðir!! Ég er spámaður í mínu föðurlandi!! Ég er Alfa og Ómega!!!!
Ég sé ... ég sé ... já, ÉG SÉ ... að notaðir iPhone símar munu hrapa í verði í kvöld!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)