Föstudagur, 31. október 2008
Snilli Ratzinger páfa ...
Ratzinger páfi tekur þetta mál engum vettlingatökum. Hann hefur látið útbúa próf sem grisjar út menn með óheilbrigðar tilheigingar í kynferðismálum. Prófið mun vera sérstaklega hannað til þess að greina merki um hvers konar afbrigðileika skv. skilgreiningu kaþólsku kirkjunnar, en þar virðist hún vera á heimavelli ef marka má þá hrinu hneykslismála sem á henni hefur dunið skv. tengdri frétt. Þá er viðhorf verðandi presta til karlmennsku sérstaklega kannað, en auðvitað þarf að kanna slíkt vendilega áður en menn undirgangast (eða ekki, eftir atvikum) ævilangt skírlífi.
En verðandi prestar verða að samþykkja að undirgangast prófið. Úbbs!
Og ég veit að hraustir kaþólskir menn með tilhneigingar til samkynhneigðar, tvíkynhneigðar eða barnagirndar, fálæti gagnvart skírlífi og ranghugmyndir um karlmennsku munu svo sannarlega samþykkja að undirgangast prófið.
Af hverju ætti þeir ekki að samþykkja það?
Þetta er skothelt plan hjá Ratzinger páfa. Enginn nema einn fluggáfaðasti og snjallasti maður heims gæti fundið upp svona brilljant snilld.
Amen ... eftir efninu.
Kynhvöt kaþólskra presta könnuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 30. október 2008
Varnarlaus?
Hér er lítið dæmi til að lýsa þessu fyrir þá sem ekki skilja málið alveg. Ísland kaupir loftrýmisgæslu af t.d. Bretum í desember. Í nóvember og janúar nýtur þessarar gæslu ekki við. Ef ég er óvinur Íslands, hvenær vel ég að ráðast á landið?
- í nóvember
- í desember
- í janúar
- Ísland á engan óvini
Svari hver fyrir sig!
Ég vorkenni því fólki sem er svo vænibrjálað að það sér hættu á báða bóga. Fjendur í hverjum skugga. Launráð við hvert fótmál. Það fólk vill hervæðingu, hervæðingarinnar vegna. Vopnvæðingu, vopnvæðingarinnar vegna. Glórulausa eyðslu í hernaðarbrölt ... af því að það er svo svalt?
Sem betur fer virðist skynsemin þó ætla að ráða.
Þriðjudagur, 28. október 2008
Gjöreyðingarvopnið Sarah Palin
Það er ekki annað hægt en að hafa gaman af vandræðum John McCain í tengslum við Sarah Palin. Nú þykist ég vita að kallinn dauðsjái eftir þessu gönuhlaupi, enda hefur Sarah Palin ekki fært honum neitt nema hörmungar. Það sést best á því að opinberir stuðningsmenn Palin í byrjun hafa fyrir löngu síðan þagnað og dregið sig í hlé, enda hljóta þeir manna best að sjá hversu mikið skaðræði hún hefur reynst. Getur verið að lýsingin flagð undir fögru skinni eigi vel við hér? :)
Hið eina ógnvænlega í stöðunni er að nú er hún þekkt á landsvísu í BNA og höfðar 100% til öfgatrúaðra þar á bæ sem munu kjósa hana hvað sem á dynur. Því hafa stjórnmálaskýrendur ytra gert því skóna að hún sé svo uppfull af ranghugmyndum um sjálfa sig, vægi sitt og ágæti að hún sé nú þegar búin að ákveða framboð eftir fjögur ár. Hún hefur líklega verið búin að ákveða þetta fyrir löngu síðan, því hún hefur stundum talað um framboðið sem 'Palin-McCain' framboðið, þ.e. sett sjálfa sig í bílstjórasætið.
Sarah Palin er líklega eitt það versta sem hent getur Bandaríkin og heiminn í heild sinni. Öfgakenndar skoðanir hennar í aðra röndina og skelfileg fáfræði í hina ættu að hringja einhverjum bjöllum. Palin, Biblían og kjarnorkuhnappurinn? Það er þrenning sem ég vil ekki sjá. Ég vona því að hún sjái að sér og láti sér nægja að vera fylkisstjóri í Alaska :) En mig grunar að skyttan frá Wasilla, sem eltir úlfana uppi í þyrlu og murkar úr þeim lífið, muni ekki taka neinum sönsum. Godzilla frá Wasilla mun fara sínu fram, enda veit hún sjálf að enginn í þessum heimi er betri til að leiða Bandaríkin. Það sem hún veit ekki er að hún er ein um þá skoðun!
Mun Guð hjálpa oss öllum ef það gerist? :)
Palin veldur spennu í búðum McCain | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 12. október 2008
Hvor er meiri óreiðumaður?
Nú er talað mikið um óreiðumenn og það er hart ráðist að útrásarmönnum sem áður voru almennt vegsamaðir. Egill Helgason gerði áðan harða atlögu að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem, einn þessara útrásarmanna, hafði manndóm í sér til þess að mæta í sjónvarpsþátt og skýra mál sitt. Aðrir í þeim klúbbi létu ekki sjá sig.
Almennt virðist mál manna að staðan í dag geti alfarið skrifast á útrásarmennina, þessa djöfla í mannsmynd sem engu eira sem á vegi þeirra verður. Davíð Oddsson kallaði þá óreiðumenn um daginn og sagði að íslenska þjóðin ætti ekki að taka til eftir slíka menn. En þá kemur spurningin sem hefur leitað á mig undanfarið ... hvor er meiri óreiðumaður, sá sem fyllir út í opinn víxil eða sá sem gefur hann út?
Davíð Oddsson er yfirhönnuður þessa kerfis sem við búum við í dag. Hann hefur lengst allra setið í stóli forsætisráðherra og deilt þar og drottnað með harðri hendi. Hans vilji var algjör og þeir sem ekki voru honum sammála viku úr vegi (Þjóðhagsstofnun?). Þannig er ljóst að Davíð gerir ekkert sem er honum á móti skapi. Þegar hann lét af störfum sem forsætisráðherra hvarf hann til starfa í Seðlabankanum þar sem hann hélt áfram um þá þræði sem hann vildi. Nær viðstöðulaust tók við af honum fjármálaráðherra til margra ára, Geir Haarde, og hagaði störfum sínum sem forsætisráðherra þannig að ekki er hægt að merkja af þeim að hann teldi neina vá við sjóndeildarhringinn.
Reyndin er sú að þessir menn sköpuðu það umhverfi sem útrásarmennirnir hrærðust í. Davíð og Geir hafa verið fyllilega meðvitaðir um ábyrgðir íslenska ríkisins vegna bankanna í mörg ár, en hafa kosið að gera ekkert í málunum. Þeir gáfu út víxilinn, óútfylltan.
Í gær, laugardag, kom Geir fram í sjónvarpinu og sagði frá því með mærðarlegum svip að konu hans hefði borist ávaxtakarfa með eftirfarandi skilaboðum:
Takk fyrir að lána okkur hann Geir.
Svo kímdi Geir og þótti þetta augsýnilega afar 'kjút'. En er ekki rétt að spyrja hvort þjóðin geti verið jafn þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum verið með Geir að láni þar sem hann gerði ekki neitt? Vorum við ekki þannig líka með Davíð að láni meðan hann gerði ekki neitt? Þeir gáfu víxilinn út án þess að fylla inn í upphæðina og þeir brugðust ekki við þegar útrásarmennirnir skrifuðu sífellt inn hærri og hærri upphæðir. Þeir geta ekki borið við skorti á upplýsingum því fjöldi fólksNú þykjast þeir vera að taka til í stöðunni og telja sig vera að þjóna almenningi á Íslandi vel í störfum sínum.
Í mínum huga líki ég stöðunni frekar við þátt í þáttaröðinni CSI: Iceland þar sem hinir grunuðu eru fengnir til þess að taka til á vettvangi eigin glæps. Meðan á tiltektinni stendur geta þeir beint sjónum almennings að öllum öðrum en sjálfum sér.
Þrjár spurningar í lokin:
1/ Höfðu Davíð og Geir aldrei heyrt um þau gömlu sannindi að ekki eigi að skrifa upp á hærri skuldbindingar en þær sem viðkomandi hefur efni á?
2/ Hvor er meiri óreiðumaður:
- sá sem tók við óútfyllta víxlinum
- sá sem gaf út óútfyllta víxilinn
3/ Hvor klúðraði málum meira:
- sá sem sótti fram
- sá sem átti að standa vörð
Í mínum huga eru svörin við þessum spurningum augljós.
PS. Ef við erum með Geir að láni ... getum við þá ekki bara skilað honum?
PSS. Erum við með Davíð að láni? Er hægt að skila honum?
PSSS. Rétt er að það komi fram að ég starfa hjá Hagkaupi sem er í eigu Haga sem er í eigu Gaums sem er, að hluta til, í eigu Jóns Ásgeirs (held ég). Ég hef aldrei hitt Jón Ásgeir og hef engin tengsl við hann utan þessara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2010 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sunnudagur, 5. október 2008
Kvennafræðarinn Benedikt XVI
Benedictus XVI, oft nefndur Rottweiler Guðs, áréttaði nýlega þá afstöðu kaþólsku kirkjunnar að smokkurinn sé verkfæri djöfulsins. Hann orðaði það reyndar ekki þannig en meiningin er sú sama. Allt sem hindrar sæði karlsins í leit sinni að náttstað í innstu rökum konunnar er andstætt vilja kaþólsku kirkjunnar. Smokkurinn er þannig meðal óvina númer eitt í Vatikaninu. Sem er magnað, því hann káfar ekkert upp á alla kátu karlana sem þar búa! Sem gerir málið enn skrýtnara því af hverju hafa þeir svona sterkar skoðanir á hlut sem er þeim algjörlega framandi? Undarlegt!
Þetta er afar áhugaverð staðreynd, áréttingin, þegar litið er til aukinna umsvifa kaþólsku kirkjunnar í fátækrahverfum í bandarískum stórborgum sem og í Afríku. Linnulaus áróður kaþólskra presta þar gegn smokknum hefur aukið tíðni þunguna unglingsstúlkna í Bandaríkjunum og hert á útbreiðslu AIDS í Afríku. Þannig er þessi afstaða kaþólsku kirkjunnar ekki aðeins kjánaleg, heldur er hún einnig hreint og beint skaðleg og hættuleg almannahagsmunum. Þannig mætti réttilega skilgreina kaþólsku kirkjuna sem heilbrigðisvá sem greiðir með vísvitandi hætti fyrir útbreiðslu einnar hættulegustu veiru sem herjað hefur á mannkyn.
Sorglegt er að fjöldi fólks telur sig bundið af þessum kreddum sem sjálfskipaður kynlífssérfræðingurinn Benedikt XVI áréttaði um daginn. Fjörutíu ár voru víst liðin frá því að síðast var hnykkt á þeim og því nokkur von til þess að gamlir, hrumir og elliærir páfar hefðu hreinlega gleymt þeim. En það er öðru nær. Nú sýpur það fólk sem síst skyldi seyðið af þessari vondu ráðagerð. Kaþólska kirkjan beinir sjónum sínum aðallega að því fólki sem býr við hvað mesta eymd, enda er það auðmótanlegt og auðsveigt til hlýðni við kreddukenningar hennar. Þannig verða þeir verst úti sem síst skyldu!
En batnandi mönnum er best að lifa. Ég bind nú reyndar ekki miklar vonir við að Benedikt XVI geri leiðréttingu á þessu, en hver veit. Líklega er besti möguleiki þeirra fjölmörgu sem fara illa út úr þessu máli sá að nýr páfi sjái að sér og geri leiðréttingu.
Það er þó ekki líklegt ... því miður.
Fordæming getnaðarvarna staðfest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 1. október 2008
Mittismálið og systurnar í Saumastofunni
Einhvern veginn virðist alltaf auðveldara að fjasa um það sem illa er gert eða það sem aflaga fer. Glaðhlökkunin í okkur er slík að við getum yljað okkur endalaust við slíkar vangaveltur og haft mikið gaman af. Nú ætla ég að gera breytingu á og tala um frábærar systur í Faxafeninu sem hafa vakandi auga með mittismáli mínu.
Reglulega fer ég með föt í þrengingu eða styttingu í Saumastofuna, Faxafeni, þar sem systurnar Súsanna og Lára ráða ríkjum. Þessar yndislegu konur taka mér alltaf fagnandi, eru eldsnöggar og fumlausar í sínum vinnubrögðum og taka ekki mikið fyrir. Mér líður alltaf vel eftir stutta heimsókn þar sem ég afhendi eða tek á móti fötum. Svo er það þannig að þær systur þekkja líklega best mittismál mitt hverju sinni, enda heimsæki ég þær um leið og einhver breyting verður þar á. Fyrir gamlan og ósveigjanlegan skarf er alltaf gott að koma þar sem hann þekkir til :)
Buxurnar mínar ganga í endurnýjun lífdaga eftir að systurnar hafa farið höndum um þær. Þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki sá sveigjanlegasti í háttum og því gleður það mig óendanlega mikið að geta gengið sem lengst í sömu buxunum. Enda má spyrja hvort eitthvað sé þægilegra í þessum heimi en að smeygja sér í föt sem bara passa? Ég held ekki.
En fyrir utan öll þægindi þá eru heimsóknir til systranna eitt besta sparnaðarráð sem hægt er að finna á þessum síðustu og verstu tímum. Gjaldskrá þeirra er hófleg, jafnvel svo að furðu sætir, og í raun ekki í takti við þá frábæru þjónustu sem þær veita. Það er því ráð að taka fram gömlu uppáhalds flíkina sem hefur verið á bekknum um stund vegna þess að hún passar illa eða er rifin. Ég er næsta viss um að Saumastofusystur geti blásið í hana lífi fljótt og örugglega. Ef ekki, þá átti hún sér ekki viðreisnar von hvort eð er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 28. september 2008
Hvar er Sarah Palin?
Þessa dagana fer lítið fyrir skjaldmey repúblikana í Bandaríkjunum, Sarah Palin. Hún hefur komið illa sködduð út úr viðtölum undanfarið þannig að best þykir að hafa hana ekki í sviðsljósinu, enda veldur hún flokknum minnstum skaða þannig. Samhengislaus svör hennar við spurningum fréttamanna um grundvallar atriði sýna glögglega að hún er algjörlega úti á þekju í öllu sem ekki snertir elgsveiðar, Wasilla Assembly of God og að kíkja yfir Berings sundið til að hafa gætur á Rússum.
Skammt er stórra högga á milli. Bæjarstýran frá Wasilla, sem öllu átti að bjarga, er nú sem steinvala í skótaui John McCain. Kallgreyið hlýtur að sjá eftir því að hafa valið hana og vonar líklega helst að hún fara að ráðum sumra flokkssystkina sinna og dragi sig í hlé. Það mun líklega ekki gerast, því Sarah Palin er kona sem ekki blikkar þegar til kastanna kemur. Því verður áhugavert að sjá hvað kemur frá henni á næstunni.
Ég reikna með að nú sé Palin í viðamikilli endurhæfingarmeðferð til að gera hana snakkhæfa (lesist: minna skaðlega) fyrir kappræður við Joe Biden. John McCain hlýtur að vakna í svitabaði þegar hann hugsar til þess að villimærin og elgsskelfirinn frá Alaska eigi eftir að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpi án þess að hafa allan texta forskrifaðan. Ætli hann líti ekki á hana núna sem 'weapon of mass destruction' sem engu eirir? Hvernig sem allt veltur, þá verður áhugavert að sjá Sarah Palin óforskrifaða og í beinni!
Afar áhugavert :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 20. september 2008
Innrás er yfirvofandi
Í dag er sorgardagur hjá varnarsinnum - þeim sem unna föðurlandinu í alvöru. Í dag stöndum við berskjölduð gagnvart rússneska birninum. Í dag erum við varnarlaus. Í dag fer Kaninn. Á morgun kemur Rússinn.
Frá byrjun september og til dagsins í dag hafa Bandaríkjamenn haft okkur í faðmi sínum undir merkjum loftrýmisgæslu. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef haft rangt fyrir mér hvað varðar þessi útsýnisflug erlendra herja yfir landinu. Mér hefur fundist þetta vera mikill óþarfi og peningaaustur í ekki neitt, en annað kemur á daginn þegar málið er skoðað ofan í kjölinn.
Ef við lítum á tímabilið 1.-20. september á þessu ári kemur í ljós að ekki var reynt á ráðast inn í landið á þessum tíma! Ekki einu sinni! Þetta eru stórkostlega fréttir og ekki síst fyrir kalsára varnarsinna því nú hefur málflutningur þeirra sannast! Meðan Íslendingar stunda virka varnarstefnu þá er ekki ráðist á okkur.
Mér fannst þetta nokkuð áhugavert. Því prófaði ég að skipta árinu 2008 upp í 20 daga tímabil og gerði úttekt á því hversu oft ráðist hefur verið á landið meðan það hefur ekki notið pössunar Kananna eða Frakkanna. Ég tók reyndar sérstaklega frá tímabilið 5. maí til 20. júní þegar Frakkarnir flugu hér yfir fram og til baka, óvinum okkar til mikillar skelfingar.
Niðurstöður mínar er á þessa leið:
Þegar þessar tölur eru skoðaðar kemur í ljós að ekkert var ráðist á okkur meðan Kaninn og Frakkar vernduðu okkur og sýnir það auðvitað hversu nauðsynleg þessi pössun þeirra var og er. Hins vegar kemur kemur á óvart lítill fjöldi innrása þar fyrir utan, enda var landið varnarlaust. Ég hallast reyndar að því að 'líberal' fjölmiðlar hafi hreinlega þaggað niður fréttir af innrásum og því séu fregnir af þeim ekki í þeim heimildum sem ég studdist við. Þetta er verðugt rannsóknarefni.
Þannig held ég að tvennt sé fullreynt í þessum efnum:
- það er ekki ráðist á okkur meðan erlendir herir passa landið
- 'líberal' fjölmiðlar hafa þaggað niður fréttir af innrásum
Nú tekur við hörmungatíð. Í dag fer Kaninn. Á morgun kemur Rússinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Föstudagur, 12. september 2008
Almennt siðgæði (c)
Er ekki rétt að Guðlaugur Þór útskýri hvers vegna hann vill leita eftir ráðgjöf hjá Ríkiskirkjunni í þessu máli meðan hann nefnir t.d. ekki samtök á borð við Siðmennt sem þó hafa jafna stöðu í málinu? Þó er líklega meiri þörf á því að hann skýri hvers vegna hann vill yfir höfuð leita að fyrra bragði til Ríkiskirkjunnar? Henni verður líklega heimilt, eins og flestum öðrum, að senda inn álit sitt á þessu máli þegar það kemur til umfjöllunar í þinginu. Hví er knýjandi þörf á því að tekið sé sérstakt tillit til skoðana hennar?
Það er býsna bjagað að álit Ríkiskirkjunnar skuli vera látið vega þyngra umfram aðra álitsgjöf. Auðvitað á að taka tillit til þess sem hún segir, ef hún kýs að tjá sig um málið, en það álit á ekki að hafa meira vægi en annarra væntanlegra álitsgjafa.
En það er auðvitað bara álit vantrúarseggs. Forherts, jafnvel :)
Á að leyfa staðgöngumæðrun? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Íslenskt lyklaborð
Það er ofursvalt að sjá nýjar græjur og það fara alltaf um mann straumar sem Apple sendir eitthvað frá sér, þó ekki sé nema enn einn nýr iPod. En aðalfréttirnar eru þær að nú er loksins komið íslenskt lyklaborð í iPhone og iPod Touch og var tími til kominn. Það hefur verið pínlegt að sjá gallharða áhangendur Steve Jobs nota norskt eða danskt lyklaborð.
En fyrst Qatar fékk eigið lyklaborð, þá áttum við það inni!!!
Apple kynnir nýja iPod-spilara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)