Esjan fyrir alla!

VegstikurUndanfarna mánuði hef ég vanið komur mínar á Esjuna og hefur það stúss haft mikil og góð áhrif á mig. Ég er þess fullviss að Esjan getur reynst öðrum jafn vel og enn betur ef hún fær smá aðhlynningu frá viðeigandi deild innan Reykjavíkurborgar.

Í mínum huga er auðveldlega hægt að gera Esjuna aðgengilegri fyrir fólk sem er að rífa sig af stað eftir langa kyrrsetu, en hún er frábær sem vettvangur æfinga fyrir alla. Í dag er leiðin upp fjallið mörkuð með nokkrum stikum, en það er mislangt á milli þeirra og því óhentugt að nota þær sem viðmið í markmiðasetningu. Leiðin upp að 4. stiku er um 2,5 km. að lengd og hefur hækkað um 400 metra þegar komið er á leiðarenda. Ef þessari leið væri skipt upp í 6-10 leggi væri auðvelt fyrir kyrrsetufólk að setja sér það raunhæfa markmið að ganga fyrst 250-400 metra nokkrum sinnum og bæta svo við þegar þrekið fer að aukast. Nú er vel hægt að segja að 250-400 metra göngutúr sé afar ómerkilegt markmið, en Esjan er þannig gerð að hún lætur fólk streða hvern einasta metra. Því er betra að byrja rólega og byggja svo hægt og bítandi ofan á þann árangur sem næst í stað þess að ætla sér um of og springa svo á limminu. Málið er að það er ekki vegalengdin sem er erfið, heldur hækkunin. Hækkunina þarf að brytja niður í viðráðanlega skammta þannig að fjallið verði aðgengilegt fyrir byrjendur. Ef það gerist, þá munu vinsældir Esjunnar aukast, sérstaklega meðal þeirra sem eru að byrja að hreyfa sig aftur eftir langt hlé.

ÆfingEinnig er tilvalið að setja upp aðstöðu til æfinga á fjallinu eða við rætur þess. Í þeim efnum geta menn sótt hugmyndir í Öskjuhlíðina þar sem er að finna skemmtilega gönguleið sem brotin er upp með æfingatækjum á borð við það sem sést á meðfylgjandi mynd. Með svona aðstöðu myndi fjallið umbreytast í skemmtilegasta og sérstæðasta æfingasvæði í heimi! Á sama hátt mætti gera fólki auðveldara að setjast niður við og við og hvíla lúin bein.

Þá mætti setja upp skemmtilega aðstöðu við bílastæðin sem gerði teygjur auðveldari. Það myndi fækka tognunum á fjallinu og gera puðið árangursríkara. Á því svæði væri upplagt að setja upp einfaldar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja nýta sér fjallið til að komast í form.

Esjan hefur gert mörgum mikið gagn sem sést á þeim fjölda fólks sem sækir hana vikulega. Með þeim viðbótum sem lýst er hér að ofan mætti gera fjallið mun þægilegra viðureignar fyrir alla og þá sér í lagi fyrir fólk sem er að rífa sig upp úr kyrrsetunni eftir mislangt hlé. Viðbætur þessar eru ódýrar og einfaldar í innleiðingu, en gætu líklega orðið ein besta fjárfesting í bættri heilsu sem um getur!

Mynd: Dísin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Skagfirðingurinn, skáldið og Vestur-Íslandingurinn Stephan G. Stephansson kom í pólagrímsferð til Íslands á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann kom að sjálfsögðu til Reykjavíkur þar sem Esjan varð honum yrkisefni:

Falla Hlés-í faðminn út

firðir nesjagrænir.

Náttklædd Esjan ofanlút

er að lesa bænir.

Árni Gunnarsson, 6.9.2008 kl. 13:30

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

les. pílagrímsferð.

Árni Gunnarsson, 6.9.2008 kl. 13:30

3 identicon

Flott færsla hjá þér og góðar hugmyndir. Vantar markvissa uppbyggingu fyrir útivist og líkamsrækt á höfuðborgarsvæðinu. Esjan er þar góður kostur en vissulega þarf að huga að ýmsu þannig að vel sé og að fólk nýti sér það sem stendur til boða.

Eggert Vébjörnsson 6.9.2008 kl. 15:50

4 identicon

Rétt er það, Esjan er ekki einungis mikil gluggaprýði heldur einkar árangursrík til líkamsræktar.  Það væri ekki galin hugmynd að bæta líkamsræktaraðstöðuna við rætur fjallsins en mér þætti það afleit hugmynd að hrófla meira við Esjunni en nú þegar er orðið með því að setja upp tæki, bekki eða annað slíkt. 

...désú 6.9.2008 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband