Kallinn hjólar um París!

Kallinn á hjóli!Kallinn fór á hjóli um París! Það hljómar ótrúlega, en er dagsatt. Ég og Hlynur lögmaður renndum okkur á stálfákum um borgina undir traustri forystu og leiðsögn Dimitri frá Fat Tire Bike Tours. Við höfum þrammað þetta fram og til baka í gær og í morgun, en þessi hjólatúr var alveg ný vídd. Og hvílíkur ferðamáti sem þetta er! Borgin liðaðist fram hjá okkur meðan við læddumst á milli gagnmerkra áfangastaða. Ég get heilshugar mælt með svona sýnisferðum ef veðrið er í lagi. Mig grunar reyndar að glansinn fari aðeins af ef það rignir, hvað þá ef hann blæs í ofanálag.

Við fórum s.s. á milli helstu staða í miðborg Parísar og hófum ferðina hjá suðursökkli Eiffel-turnsins. Í hópnum voru u.þ.b. 20 manns á öllum aldri og gekk öllum jafn vel að hjóla. Þetta voru mestmegnis ferðalangar frá BNA sem voru þarna að kaupa þjónustu af löndum sínum. Það var auðheyrt að það snart streng í hjörtum margra í hópnum að heyra að Dimitri er frá Texas og einhver táraðist af gleði, held ég. Dimitri var afar afslappaður og þægilegur leiðsögumaður sem kunni gjörla þá list að niðursjóða mikið af upplýsingum í agnarlitla mola sem runnu ljúflega niður. Ég kann honum mætar þakkir fyrir hans tillegg til dagsins.

Annars er gaman að segja frá því að við félagarnir hittum (lesist: töluðum við) þrjár manneskjur í dag; tvo leiðsögumenn frá Fat Tire og svo ferðafélaga okkar í túrnum. Það magnaða var að allar þessar manneskjur höfðu gríðarlegan áhuga á Ísandinu góða og lýstu því yfir að þangað skyldu þau fara fyrr en síðar. Ljóst var að áhuginn risti djúpt þannig að ekki var um hefðbundið kurteisishjal að ræða. Leiðsögumennirnir voru báðir miklir útivistarjaxlar og voru afar spenntir fyrir þeim möguleikum sem bjóðast heima til að kynnast náttúrunni í sinni hráustu mynd. Það var afar gaman að finna hversu mikill þessi áhugi er og það kom mér á óvart að allir þeir sem við töluðum eitthvað við af ráði voru svo fíknir í klakann sem raun ber vitni.

Lyndsey, pabbi hennar og Hlynur lögmaðurÞriðji aðilinn, Lyndsay frá Ohio í Bandaríkjunum (mig minnir að það sé rétta fylkið) var reyndar í öðrum klassa en þessir tveir áðurnefndum félagar því fyrsta orðið sem ég heyrði hana segja var Sturlungasaga! Þá kemur í ljós að hún er að kynna sér gamla sagnaarfinn okkar meðan hún stundar laganám í Bretlandi. Og gott ef hún er ekki líka að rýna í íslenskuna okkar líka :) Þessi bandaríska freyja vissi nefi sínu lengra þegar kom að Íslandi og hún trompaði leiðsögumennina í öllum deildum því hún hefur þegar komið á Frónið góða. Þetta er lítill heimur og býsna skemmtilegur. Maður fer í hjólatúr um París og hittir fullt af Íslandsvinum ... getur þetta gerst einhvers staðar annars staðar en í Frakklandi?

Hlynur lögmaður - fer hann yfir?Á morgun er svo komið að erindi ferðarinnar, en þá byrjar Blizzard Worldwide Invitational 2008 Nerd Fest. Við félagarnir erum s.s. hingað komnir til að berja Starcraft 2 eigin augum og þegar þessi orð eru skrifuð eru átta tímar uns nördunum verður hleypt að miðaafgreiðslunni. Ég vona að mér gefist ráðrúm á morgun til að setja nokkrar línur inn á bloggið, en það verður að mæta afgangi.

En taro adun!

To Lyndsay: If you are reading this, it means you did Google your name and Sturlungasaga :) Welcome to my blog! I hope you will keep on reading the old sagas, study Icelandic and visit us often. Remember, Icelanders love when foreigners know something about our country so it'll not be a surprise if we award you The Great and Magnificent Medal of Knowledge of All Things Icelandic or something like that for your extensive knowledge of ... well, all things Icelandic! Take care and remember ... 'Sturlungasaga' is a magical word in Iceland!!! :) Use it sparingly and wisely!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Passaðu nú uppá hið íslenska sagnauppeldi þinnar útlensku vinkonu, Óli Jón minn og gættu þess að hún komist ekki í einhver femínisk fræði um hana Hallgerði T...... því þau fræði hafa hingað til þótt öllu spilla.

Svo öfunda ég þig hræðilega að vera á nördahátíð. 

Aðalheiður Ámundadóttir, 27.6.2008 kl. 22:28

2 Smámynd: Óli Jón

Sæl, Aðalheiður gargandi

Ég gætti þess vandlega að ljóstra engu uppi um t-nefnda Hallgerði vinkonu þína langbrók. Lyndsay hin bandaríska verður að fá að upplifa og reyna hana upp á eigin spýtur :) En ég velti fyrir mér hvort Skarphéðinn hafi jafn góð áhrif á hana og þig. Hann er bara auðvitað 'the ultimate bad boy'. Jesse James, Billy the Kid og hvað þeir hétu allir eiga ekkert í þann svarta Skarphéðinn!

Hvað varðar nörderíið ... hvað get ég annað sagt annað en að í dag og um þessa helgi er gott að vera nörd :) Extra gott, jafnvel!!

Óli Jón, 27.6.2008 kl. 22:55

3 identicon

Það kemur þessu kannski ekki við, en það er til bjór sem bragðast ágætlega og er kallaður Fat tire og er mynd af manni á reiðhjóli á honum ef mig minnir rétt.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson 28.6.2008 kl. 16:35

4 identicon

Have fun in the sun brósi! :)

Systa 28.6.2008 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband