Föstudagur, 30. maí 2008
Til hamingju, einhleypar konur!
Í aðdraganda málsins komu út úr tréverkinu kredduseggir og úrtölufólk sem getur ekki unnt einhleypum konum þess að geta notið þessa réttar síns. Sem betur fer var yfirgnæfandi meirihluti þingheims á því að hafa þessar ólánsraddir að engu og naut þetta góða mál stuðnings 53 þingmanna.
Ágætu konur! Nú er ekkert annað eftir en að nýta sumarið vel, halda kasóléttar upp á næstu jól og koma svo með fullt af nýjum Íslendingum þegar nær dregur nýju vori! :)
Enn og aftur, til hamingju!!!
Þingi frestað fram í september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mánudagur, 26. maí 2008
Skíðadagar í Bláfjöllum!
Þeir sem eru á mínum aldri, 40plús, geta auðveldlega greint hlýnun hérlendis með því að bera saman fjölda skíðadaga í Bláfjöllum nú og fyrir 25 árum síðan. Í denntíð var stöðugur straumum af rútum frá Reykjavík upp í Bláfjöll og gátu skíðamenn rennt allan liðlangan daginn, alla daga (eða þannig). Í dag er öldin önnur. Nú heyrir það til undantekninga ef opið er í Bláfjöllum og iðulega standa steinnibburnar upp úr grunnri fönninni.
Hlýnun? Kólnun? Óbreytt ástand? Hvað heldur þú?
Hlýnun ekki ógn á Íslandi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 25. maí 2008
Lausn fundin á risavöxnu umhverfisvandamáli?
Á vefnum wired.com er að finna áhugaverða frétt um sextán ára kanadískan vísindamann sem vann mikið afrek á dögunum. Venjulegir innkaupapokar úr plasti eru mikið skaðræði í umhverfinu, enda tekur það náttúruna afar langan tíma að brjóta þá niður, jafnvel þúsundir ára. Daniel Burd hafði lengi velt þessu fyrir sér og þóttist viss um að það væru bakteríur sem ynnu á plastinu, jafnvel þótt það tæki svo langan tíma. Hann gerði því röð tilrauna þar sem hann gróf tætta plastpoka í ólíkum gerðum jarðvegs íblönduðum geri og vættum með venjulegu kranavatni. Með þessu gat hann einangrað tvær gerðir baktería sem voru einstaklega áfjáðar í að japla á plastinu.
Burd fann út að við ákjósanlegar kringumstæður hakka þessar bakteríur plastið í sig á þremur mánuðum í stað þúsunda ára. Úrgangurinn verður vatn og örlítið kolefni. Vísindamaðurinn ungi fullyrðir að einfalt sé að útbúa afkastamikla 'akra' þar sem plast er grafið í hentugan svörð svo það geti horfið á þremur mánuðum. Ég hvet forráðamenn Sorpu til þess að kynna sér þetta mál og gera tilraunir með þetta hér heima. Þetta gæti verið áhugavert samstarfsverkefni með einhverjum háskólanna.
Innkaupapokar eru afar fjandsamlegir umhverfinu, en líklega hagkvæmasta lausnin á því vandamáli sem þeim er ætlað að leysa, þ.e.a.s. fyrir utan endurnýtanlega taupoka. Ég heyrði í þætti á BBC World Service um daginn að nú ætti að banna þá alfarið í Úganda, en þar er akurlendi víða orðið ónothæft vegna mikillar plastmengunar. Undir þunnri moldarhulu er þykkt lag af plasti sem einangrar jarðveginn frá súrefni, regni og ljúfu faðmlagi sólar. Nokkur önnur lönd eru að feta þennan sama veg og er þess skemmst að minnast að Kína hefur nú bannað að plastpokar séu ókeypis í verslunum. Fyrir utan umhverfismengun sem hlýst af pokunum sjálfum fara 37 milljón olíutunnur árlega í framleiðslu innkaupapoka fyrir kínverskan markað.
Plast er líka löngu orðið stórt vandamál í hafsvæðum jarðar. Dæmi um þetta er Kyrrahafssorpeyjan, en hún er að mestu leyti úr plastúrgangi sem hefur safnast fyrir í miðju Kyrrahafinu eftir að hafa borist þangað með hafstraumum. Menn greinir á um stærð hennar, en að lágmarki er hún tvöfalt stærri en Texas-fylki sem er sjöfalt stærra en Ísland! Þessi sorpfláki eru orðinn svo stór að mannkyn hefur ekki efni á því að taka á vandanum, enda verkefni af óþekktri stærðargráðu að ná í sorpið og koma því fyrir kattarnef. Áætlað er að þessi sorpeyja muni stækka veldislægt á næstu árum. Óljóst er hvaða áhrif hún hefur á umhverfið, en það eitt að hún varnar sólinni að lýsa upp gríðarlega stóran hafflöt er mál sem krefst rannsóknar. Við, sem neytendur, getum gert tvennt til að vinna gegn þessu vandamáli; minnkað plastnotkun og komið því plasti sem við notum fyrir kattarnef.
Vísindamaðurinn ungi fékk fjölda verðlauna fyrir uppgötvun sína og er vel að þeim kominn. Hann er skýrt dæmi þess að það er hægt að leggja mikið til umhverfisins og ekki þarf endilega til þess mikið fjármagn eða dýra aðstöðu. Það sem mestu máli skiptir er einbeittur hugur og góður vilji til verka!
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Vantrú kristinna alþingismanna
Ég er að horfa á Alþingisrásina núna og finn fyrir depurð þegar ég sé hvað kristnir alþingismenn virðast hafa mikla vantrú á sinni trú. Hvað þeir virðist treysta henni skammt til þess að halda sjó á eigin verðleikum. Hvað þeir virðast telja það klárt að þjóðin afkristnist í einni sviphendingu ef kristin trú fær ekki áframhaldandi ítök í leikskólunum og grunnskólunum.
Mér finnst það sorglegt hvað þeir virðast tengja áframhaldandi velgengni trúar sinnar því að hún fái greiðan og óheftan aðgang að litlu leikskólabörnunum og örlítið eldri grunnskólabörnunum. Mér finnst það sorglegt að þeir skuli ekki treysta trúuðum foreldrum fyrir því að sjá um trúarlegt uppeldi barna sinna. Mér finnst í raun skelfilega sorglegt hvernig vantrú þeirra virðist mun sterkari en trú.
En sorglegast er þó hversu auðvelt þeim reynist að troða á rétti allra þeirra sem ekkert vilja með trú hafa.
Miðvikudagur, 21. maí 2008
Netkannanir - verkfæri Djöfulsins?
Nýlega lenti ég í rimmu við forhertan átrúanda skoðanakannanna Útvarps Sögu sem virðist leggja áreiðanleika þeirra að jöfnu við tilvist þyngdarafls eða festuna í tíðni flóðs og fjöru. Þessi ágæti maður gat ekki undir neinum kringumstæðum skilið að skoðanakannanir Útvarps Sögu eru ekkert nema brandari - en þó ekki því þær virðast hafa eitthvað vægi í skoðanamótun og í almennri umræðu. Þannig getur brandarinn snúist fljótt upp í öndverðu sína, sér í lagi ef hann ljær öfga- og jaðarskoðunum meira vægi en þeim í raun ber.
Ég vil byrja á því að taka fram að eftirfarandi skrif mín taka ekki einungis til kannana Útvarps Sögu því þau eiga einnig við kannanir sem er að finna á vefjum Bylgjunnar, Vísis, blog.is og í raun flestra annarra fréttamiðla. Ég mun þó hafa Útvarp Sögu sem tákngerving þessara könnuða, enda er kveikjan að skrifum mínum Netkönnun sem framkvæmd var á vef hennar.
Svo er gott að taka fram að margar þeirra kannanna sem eru framkvæmdar eru aðeins til gamans. Þannig er, í þessum skrifuðu orðum, að finna könnun á www.stod.is þar sem spurt er hvort þar eigi að sýna bíómyndir eða þætti. Ég hygg að enginn starfsmaður dagskrárdeildar á þeim bæ eigi nokkurn tíma eftir að kíkja á niðurstöðurnar og nýta þær sem ítargagn við uppsetningu dagskrár á Stöð 2. En ef einhverjir hafa gaman af því að svara þessu, þá er markmiðinu náð.
Hins vegar eru svo til Netkannanir sem forsvarsaðilar kynna sem marktækar og vitna í þær sýknt og heilagt sem óskeikulan vitnisburð um vilja íslensku þjóðarinnar. Dæmi um það er könnun sem Útvarp Saga gerði á dögunum, en spurt var "Á að greiða úr ríkissjóði fyrir tæknifrjóvgun einhleypra kvenna?". Niðurstaða Netkönnunarinnar var sú að rúmlega 72% voru því mótfallin. Nú er það þannig að forhertir andstæðingar þess að einhleypar konur geti farið í tæknifrjóvgun hér heima hafa stokkið á þessa könnun og segja hana túlka vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Þannig hefur þessi könnun bjagað og skekkt umræðuna og gert mikið ógagn. Nú þekki ég ekki hug þjóðarinnar í þessum efnum, en ég hef meiri trú á samlöndum mínum en svo. Ég hef enga trú á því að 3/4 þeirra séu svo forpokuðir að vilja neita einhleypum konum um þennan sjálfsagða rétt. Og þar kem ég að efni þessarar bloggfærslu minnar.
Ég fer yfir fjögur atriði í tengslum við gerð Netkannana, en þau eru:
- Úrtak
- Möguleiki á smölun
- Framsetning og samhengi
- Tæknin
Þessi atriði skipta öll meginmáli þegar kemur að gerð og framkvæmd Netkannana. Rétt er að skilgreina orðið 'Netkönnun' hér að neðan, en það er könnun sem framkvæmd er á vef sem opinn er almenningi án þess að notuð séu neinar aðferðir til að auðkenna notendur með sérstökum hætti, t.d. með því að senda þeim auðkenni í pósti eða með rafrænum skilríkjum. Ég tók t.d. þátt í slíkri könnun/kosningu um daginn þegar ég greiddi atkvæði um nýjan VR samning. Þá fékk ég auðkenni sent í pósti, en án þess gat ég ekki kosið, sem tryggði svo einnig að hver félagsmaður í VR get ekki kosið nema einu sinni.
ÚRTAK
Það kannast allir við að hafa heyrt eða lesið álíka lýsingu: "Í úrtakinu voru 1200 Íslendingar, valdir af handahófi úr Þjóðskrá, á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu. Svarhlutfall var 63%" Þetta er fyrsta lykilatriðið þegar kemur að könnun á viðhorfi fólks - að þeir sem spurðir eru séu raunverulegt þversnið þess hóps hvers viðhorf verið er að kanna. Það er til víðfrægt dæmi um þetta frá því á öndverðri síðustu öld. Tímaritið Literary Digest ætlaði að spá fyrir um úrslit forsetakosninganna árið 1936. Niðurstöðurnar sýndu að frambjóðandi Repúblikana, Alf Landon, myndi hafa sannfærandi sigur á andstæðingi sínum, sitjandi forseta Franklin D. Roosevelt. Úrslit urðu hins vegar þau að Landon vann sigur í tveimur fylkjum meðan Roosevelt sigraði í hinum 46. Aðeins einu sinni í sögu BNA hefur forsetaframbjóðandi tapað eins illilega í forsetakosningum.
Þegar farið var að rýna í hvers vegna svo mikill munur var á niðurstöðum könnunarinnar annars vegar og kosninganna hins vegar kom í ljós að þrátt fyrir rísavaxið úrtak (10 milljón manns, 20% svarhlutfall), þá var úrtakið meingallað. Úrtakið var nefnilega áskrifendaskrá Literary Digest, en hún samanstóð af vel stæðum Repúblikönum sem voru síður en svo dæmigert þversnið bandarísku þjóðarinnar. Þeir sögðust allir myndu kjósa Landon og því fór sem fór. Þess ber að geta að þarna byrjaði að halla undan fæti hjá Literary Digest og árið 1938 sameinaðist það öðrum tímaritum svo úr varð Time Magazine.
Svo ég noti Útvarp Sögu aftur sem dæmi - getur einhver sannað að hlustendahópur hennar sé fullkomið þversnið íslensku þjóðarinnar? Getur einhver sannað að fullkomið þversnið af því fullkomna þversniði taki þátt í skoðanakönnun á vef hennar? Í könnuninni sem ég vísa í að ofan tóku 323 manns þátt. Getur einhver fullyrt að þetta úrtak sé fullkomið þversnið af hlustendahópi Útvarps Sögu sem er fullkomið þversnið íslensku þjóðarinnar?
SMÖLUN
Ég gerði einfalda könnun í mínum fjölskyldu- og vinahópi þar sem ég spurði nokkurra spurninga. Hver aðili svaraði aðeins einu sinni, en úrtakið er frekar bjagað og skekkt að því leyti að þarna er bara um að ræða þversnið af rjóma íslensku þjóðarinnar. Spurningarnar voru:
- Ef ég bæði þig að heimsækja tiltekinn vef og taka þátt í skoðanakönnun þar, hvernig myndirðu bregðast við?
- Ef ég bæði þig um að kjósa eitt ákveðið atriði í könnuninni, hvernig myndirðu bregðast við?
Ég sendi út 20 skeyti og fékk 18 svör til baka þannig að svarhlutfall var 90%. Niðurstöður eru þær að 55% eru tilbúin að heimsækja vef og kjósa að minni beiðni, 6% vilja það ekki og 39% eru óákveðin. SVo kemur í ljós að 50% eru reiðubúin að greiða atkvæði í samræmi við óskir mínar, 27% segjast vilja fylgja eigin sannfæringu (sem getur oft farið saman við mína) og 23% eru óákveðin.
Það sýnir sig því að auðvelt er að smala fólki í Netkannanir og að auðvelt er að fá fólk til að kjósa fyrir sig. Ég tek það fram að enginn þessara aðila myndi nokkurn tíma selja atkvæði sitt svo auðveldlega í alvöru kringumstæðum, en það er léttvægt þegar um er að ræða aumar Netkannanir.
FRAMSETNING OG SAMHENGI
Miklu máli skiptir hvernig spurningar eru settar fram, en það er auðveldlega hægt að gildishlaða þær með ýmsum aðferðum. Skoðum t.d. eftirfarandi spurningar:
- Á ríkið að borga kostnað vegna X?
- Á X rétt á því að ríkið borgi kostnað fyrir hann?
- Er rétt að ríkið borgi kostnað fyrir X?
- Er sanngjarnt að ríkið borgið kostnað fyrir X?
Þarna er um að ræða blæbrigðamun í framsetningu sem getur haft áhrif á svarendur. Sérþjálfaðir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem sjá um gerð kannana hafa mikla reynslu af gerð svona spurninga og gæta þess í hvívetna að þær séu eins hlutlausar og kostur er. Hver semur spurningarnar sem notaðar eru í Netkönnunum?
Þá er rétt að skoða í hvaða samhengi Netkannanir eru settar fram. Hvar er í vísað í Netkönnuna í dagskrá fjölmiðils? Er það eftir þátt eða í grein þar sem fjallað er um viðkomandi málefni með ákveðnum og afgerandi hætti? Er fyllst hlutleysis gætt þegar minnt er á könnunina?
TÆKNIN
Þá er komið að veigamesta þættinum í framkvæmd Netkannana. Það muna margir eftir því þegar Sveppi grínari vann Edduna hér í denn eftir að hann aftengdi sk. vefkökur (e. cookies) og kaus svo sjálfan sig nokkur hundruð sinnum. Það var auðvitað meinfyndið og flott ... og þarft, því það sýndi vel hversu brigðul tæknin er.
Í dag eru tvær megin aðferðir notaðar til að 'tryggja' öryggi í Netkönnunum:
- Vefkökur
- Skráning IP-talna
Hægt er að eiga við vefkökur á margan hátt, t.d. eyða þeim. Þessi lífæð vefjarins er afar nauðsynleg, en um leið afar viðkvæm og ófullkomin. Þannig þarf ekki annað en að útiloka (e. block) eða eyða vefkökum til að sami einstaklingur geti kosið mörgum sinnum í sömu könnuninni þegar þær eru notaðar sem öryggistæki. Vefkökur eru því harla léleg trygging fyrir því að sami aðili geti ekki kosið mörgum sinnum. Meðfylgjandi mynd (nr. 1) sýnir þetta ferli í myndrænu formi þar sem þetta er hringrás sem kjósandi getur farið eins oft og hann vill og nennir. En ég taldi þetta ekki vera nægilega skýrt og því setti ég upp Netkönnun á blogginu hjá mér þar sem ég spurði; "Eru netkannanir áreiðanlegar?" Svo tók ég upp stutt myndband þar sem ég kýs 10 sinnum í röð á einni mínútu sem gerði það að verkum að 10 höfðu svarað og voru 100% þeirri á því að Netkannanir væru óáreiðanlegar. YouTube klippuna má sjá hér að neðan.
Skráning IP-talna er í raun öruggari aðferð til að koma í veg fyrir að sama aðili kjósi oft. Hún hefur hins vegar þann stóra galla að hún kemur að sama skapi í veg fyrir að aðrir bak við sömu IP-tölu geti kosið. Þetta á við alls staðar þar sem margar tölvur eru bak við eldvegg, svo sem í fyrirtækjum eða á heimilum. Ég starfa hjá fyrirtæki sem hefur aðgang að neti sem nokkur hundruð starfsmanna nýta sér. Okkar samskipti á Netinu, þessara hundruða sem hér starfa, fara í gegnum einn eldvegg. Þannig erum við öll með sömu IP-töluna. Því gerist það þegar eitthvert okkar kýs t.d. í Netkönnun á vef Útvarps Sögu kemst ekkert okkar hinna að á eftir. Því talar þessi eini aðili, sem fyrstur komst að, fyrir hönd okkar allra. Meðfylgjandi mynd (nr. 2) sýnir þetta í hnotskurn. Eitt atkvæði kemst út fyrir eldvegginn og er talið með, en bak við eldvegginn krauma skoðanir fjöldans sem ekki komast að. Þessi eini aðili hefur því talað fyrir fjöldann og gefur þannig ranga mynd af vilja hans.
NIÐURSTÖÐUR
Í ljósi ofangreinds er óhætt að fullyrða að Netkannanir eru afar óvönduð og vond leið til að mæla skoðanir almennings á hinum ýmsu málum, enda fá þær falleinkunn á öllum sviðum. Því fullyrði ég að Netkannanir geri ekkert nema ógagn, þeirra innlegg í almenna umræðu er skaðlegt og eru áhrif þeirra bara neikvæð. Þær bjaga og skekkja og ekki er úr vegi að lýsa þeim sem verkfæri Djöfulsins í almennri umræðu, svo neikvæð eru áhrif þeirra.
Í könnunninni sem ég gerði, og vitnað er í hér að ofan, var þriðja spurningin sem var svona:
- Hver er afstaða þín til skoðanakannana á Netinu hvað varðar áreiðanleika?
Enginn svarenda taldi Netkannanir áreiðanlegar, 72% töldu þær óáreiðanlegar og 28% höfðu ekki skoðun á málinu. Þetta segir mikið um vægi Netkannana, en þær virðast ekki njóta neins trausts. Réttilega, að mínu mati.
Ég skora því á fjölmiðlafólk, bloggara og aðra Netverja að hætta að vitna í Netkannanir. Óvissa og efi í almennri umræðu er nægur fyrir þótt ekki sé bætt við þeirri afbökuðu og fölsku veruleikasýn sem þær miðla. Höldum okkur við staðreyndir því þannig verður umræðan markvissari og betri. Notum Netkannanir til hluta sem hæfa, s.s. til að kanna hver er uppáhalds Pokémon þjóðarinnar og hvort Superman geti ráðið við Hulk ... ekki til að drepa t.d. umræðu um réttindi einhleypra kvenna á dreif.
Lifið heil.
YouTube klippan: Kjóstu 10x í sömu könnun á einni mínútu!
Sunnudagur, 11. maí 2008
Kristilegt siðgæði - reiðarslag fyrir frjálst val?
Nú þurfa þeir sem unna frjálsu vali og vilja eðlileg mannréttindi að snúa bökum saman. Í bloggfærslu í dag segir alþingismaðurinn Sigurður Kári eftirfarandi:
Þau tímamót urðu í starfi okkar sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis á föstudag að við afgreiddum fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntamál kennara og skólastjórnenda.
Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta. Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.
Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.
Þarna virðist alþingismaðurinn gefa það í skyn að ákvæði um 'kristilegt siðgæði' verði áfram haldið inni í lögum um leik- og grunnskóla. Ef rétt er, þá er þetta sorgleg staða og snautleg afgreiðsla frá fulltrúa flokks sem telur sig setja einstaklinginn og frelsi hans í öndvegi. Þó ber að hafa í huga að þetta er flokkurinn sem rær að því öllum árum að einkavæða heilbrigðiskerfið á meðan hann treystir í sessi ríkisvæðingu trúarinnar.
Þetta er á skjön við alla skynsama hugsun og þá þróun sem er að verða í trúmálum á Vesturlöndum þar sem skynsemin er að verða trúnni yfirsterkari. En það er örugglega þetta sem veldur þessu krampakennda viðbragði. Trúin er á undanhaldi, en ríkir hagsmunir Ríkiskirkjunnar ohf. valda því að það verður að nýliða inn í hana með öllum leiðum, jafnvel með því að boða trúna leik- og grunnskólabörnum sem ekki eru í neinni aðstöðu til þess að gagnrýna það 'tilboð', heldur er uppálagt að taka öllu með opnum hug sem fólk í valdstöðu boðar í skólunum. Þetta er í hæsta máta ógeðfellt og sorglegt.
Sigurður Kári, alþingismaður, treystir því ekki að trúaðir foreldrar geti axlað þá ábyrgð að ala börn sín upp í trú. Því vill hann tryggja áfram greiðan aðgang Ríkiskirkjunnar að smábörnum landsins á þeim stað sem mest á að tryggja þeim hlutlaust umhverfi - í skólanum!
Það er aumt að Ríkiskirkjan þurfi á þessari meðgjöf að halda. En líklega er það mat manna á borð við Sigurð Kára að hún geti ekki lifað án hennar!
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Mánudagur, 5. maí 2008
Hundrað milljónum vel varið, ó já!
Rétt í þessu heyrði ég, í fréttum Stöðvar 2, að það kostar okkur 100 milljónir króna að fá þessa flugsveit til þess að verja okkur, í sex vikur, fyrir þeim sífelldu árásum sem við verðum daglangt fyrir. Ég var einmitt svo hræddur um að nú næðu óvildarmenn Íslands að ráðast á okkur án fyrirstöðu, en þeir verða altént að slá þeim áformum sínum á frest í sex vikur! Frábært!!! Rosalega er ég feginn, og þó. Innrásarliðið kemur þá upp úr miðjum júní, sem er auðvitað pirrandi því þá ætlaði ég að ganga sem aldrei fyrr. Það verður auðvitað frekar ömurlegt og geggt glatað að verða fyrir innrás í júní. Mín fyrrverandi á líka afmæli þá og ég óska henni ekki þess að halda upp á þann ágæta viðburð undir járnhamri innrásarliðs. Kannski verður þetta ömurlega leiðinlegt innrásarlið sem tekur ekkert tillit til fólks sem vill ganga eða halda upp á afmælið sitt! Væri það ekki enn meira glatað?
Því spyr ég, getum við ekki bara borgað 300-400 milljónir í viðbót (hálfur milljarður er reyndar svolítið flott tala) og verið þannig örugg gegn innrás í allt sumar? Ég held að verðbólgupínd alþýðan kynni nú að meta slíkt úr hendi ríkisstjórnarinnar. Það er svo fúlt að vera hernuminn að sumri til, en ekki svo mikið um haust. Hvað þá vetur! Það er bara fínt að vera hernuminn að vetri til, maður gerir hvort eð er ekki neitt. En ekki að sumarlagi!
Plís!!! Ekki láta gera innrás í sumar!!! Það er svo ömurlegt!!! Fáum Frakkana til að vera lengur!!! Gera menn sér enga grein fyrir því hvað íslenska sumarið er stutt og sjaldgæft? Við hættum bara að verða veik á meðan, þá er hægt að taka þennan hálfa milljarð af framlagi til heilbrigðismála. Svo má líka taka fjórar milljónirnar sem ríkisstjórnin setti í baráttuna gegn verðbólgunni. Þær myndu kaupa þjónustu Frakkana í 1,7 daga! Við værum örugg þá! Það væri fínt að fá flugsveitina yfir helgi til að verja okkur.
Svo eru þoturnar líka svo flottar! Grrrrrrrrrrrrrrr!!!
Sjónarspil í háloftunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 2. maí 2008
Ofnotkun og röng notkun sýklalyfja
Þetta er stórt vandamál í dag og verður risavaxið vandamál í framtíðinni. Í fangelsum í Rússlandi eru löngu komnar fram tegundir af berklum sem engin lækning er við og eru aðrar sýkingar að bætast í þann flokk. Í þætti á BBC World Service heyrði ég að þetta sé, að hluta til, tilkomið vegna
- ofnotkunar á sýklalyfjum
- rangrar notkunar á sýklalyfjum
Börn í dag mega varla fá nefrennsli án þess að í þau sé sprautað eða troðið sýklalyfjum. Það eitt og sér er ekki aðalvandamálið heldur það að þessar sýkingar hafa í langflestum tilfellum ákveðinn líftíma. Börnin fá sýklalyf sem ætluð eru til notkunar í viku eða álíka. Tveimur dögum eftir að byrjað er að nota sýklalyfin fer börnunum að batna og þá er noktun lyfjanna hætt. Þar liggja mistökin því þannig öðlast sýklarnir ónæmi fyrir lyfjunum.
Á fyrstu 2-3 dögunum drepa lyfin veikustu sýklana meðan þeir harðgerari finna fyrir verkun lyfsins og aðlaga sig aðeins að því. Þegar notkun lyfsins er hætt eru veiku sýklarnir dauðir, en þeir harðgerari lifa eftir, ögn betur í stakk búnir til þess að lifa næsta lyfjagjöf af. Þannig styrkjast sýklarnir smátt og smátt gagnvart notkun lyfjanna uns kemur að því að þau hætta alveg að bíta á þá. Þetta er þróun í sinni allra smæstu og tærustu mynd; hæfustu sýklarnir lifa, styrkjast og dafna meðan veikari afbrigði deyja og hverfa.
Í þættinum á BBC World Service var fólk hvatt til að íhuga vel hvort nauðsyn sé á að nota sýklalyf. Það að barn sé með nefrennsli eða smá hósta réttlætir ekki alltaf slíkt inngrip. Ef hins vegar það er valið að nota sýklalyf, skal gæta þess að klára meðferðina því þannig aukast líkurnar á því að allir óæskilegu sýklarnir drepist, ekki bara þeir veiku.
Þróun ónæmis gegn sýklalyfjum hafin hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Bensínlítrinn á 250 kall!
Orkumálaráðherra Qatar lætur hafa eftir sér að ekki sé útilokað að olíufatið fari á $200 fyrir lok þessa árs. Slíkt myndi gera það að verkum að bensínlítrinn færi í 250 krónur hérlendis. Þetta ætti, fyrir utan alla aðra áhrifaþætti, að reka stjórnvöld og málsmetandi menn hérlendis til þess að íhuga aðrar leiðir í orkumálum fyrir landann.
Við höfum nokkrar leiðir og allar góðar:
- rafmagn
- vetni
- metan
Rafmagn
Það eru gömul sannindi og ný að nú eru til rafmagnsbílar sem myndu henta landanum prýðilega. Góð reynsla er af hinum norska Think City sem frændur vorir nýta sér í æ ríkari mæli innanbæjar. Þegar ég var í Osló nýverið sá ég þessa smáu og lipru bíla þeytast um í umferðinni, hljóðláta og lausa við mengun. Ef einhver þjóð á að geta nýtt sér rafmagn þá er það sú íslenska.
Vetni
Þróun vetnisbíla er komin það langt á veg að þeir eru að verða tilbúnir til fjöldaframleiðslu og sölu. Íslendingar hafa barið sér á brjóst og bent á þessa einu áfyllingarstöð sem er að finna hér, en betur má ef duga skal. Það þarf að setja upp net vetnisstöðva þannig að það sé raunhæft fyrir almenning að kaupa slíka bíla. Stjórnvöld þurfa að koma að því máli með ívilnunum og styrkjum, enda er þetta þjóðþrifamál.
Hvað varðar framleiðslu vetnisins þá gerum við það með því að virkja í Breiðafirði. Þar býr gríðarlega mikil orka í sjávarföllunum, en sá galli er á gjöf Njarðar að flæði hennar er óstöðugt, enda fylgir það flóði og fjöru. Þá er besta leiðin í stöðunni að forða orkunni sem virkjuð er í vetnisformi. Þannig ætti að myndast nægt framboð vetnis til innanlandsnotkunar auk þess sem hægt væri að flytja út grænasta vetni í heimi, auðvitað í vetnisknúðum flutningaskipum.
Helsti gallinn við vetni er sá að nokkur hluti orkunnar fer forgörðum þegar rafmagni er snúið yfir í vetnið. Hins vegar má reikna með því að hægt verði að ráða einhverja bót á því í framtíðinni. Það sem eftir stendur er að við erum með orku sem daglega fer í súginn; orku sem er sú grænasta og besta sem völ er á. Það er betra að forða henni í vetni í stað þess að láta hana renna út í sandinn, í orðanna fyllstu merkingu.
Metan
Hvernig þætti þér, lesandi góður, að borga 84 krónur fyrir bensínlítrann í dag? Það er það verð sem eigendur metan-knúinna bíla eru að borga í dag. Að eiga og reka metanbíl hlýtur að vera eins og keyra um á tímavél, í hverri þú ferðast langt aftur í tímann í hvert skipti sem þú fyllir á - til tíma þar sem bensín var á skikkanlegu verði. Þá er metan vænn kostur fyrir náttúruna 113 metanbílar menga eins og einn bensínbíll!
Úr sorphaugunum í Álfsnesi er hægt að vinna nægjanlega mikið metan-gas árlega til að knýja um 4 þúsund bíla. Það munar um minna! Auðveldlega er hægt að auka þessa framleiðslu, ef vilji er fyrir hendi. Nánari upplýsingar má finna á metan.is.
Er þetta er draumur sérhvers Íslendings? Að við getum orðið sjálfstæð í orkumálum og séum ekki háð fáránlegum sveiflum í orkuverði á erlendum mörkuðum? Búum við ekki best í haginn fyrir börnin okkar með því að grípa til aðgerða strax í dag og vinna að því að gera þessa drauma að veruleika. Í besta falli gengur allt upp og við lifum hamingjusöm um aldur og ævi og í versta falli losnum við við trukkabílstjórana af götunum.
Það er til nokkurs að vinna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Menning, menning, menning
Framhald varð á menningar innrætingu Búrans í gærkvöldi þegar Eydís, bekkjarsystur úr HR og ferðafélagi til Egyptalands, bauð honum að heyra og sjá Sir Willard White í Óperunni. Sá ágæti náungi er einn mesti strigabassi sem búrinn hefur í heyrt og söng eins og dimmraddaður spörfugl. Dagskráin var helguð lífshlaupi Paul Robeson, en sá var afar snjall listamaður og mikill mannréttindafrömuður. Umgjörðin var einföld og stílhrein; söngvarinn á sviði með tveimur tónlistarmönnum, annar hverra gegndi einnig hlutverki sögumanns. Sýningin leið vel áfram og tveir tímar runnu hjá ljúflega, jafnvel þótt gumpurinn hvíldi í einum hörðustu sætum sem um getur.
Því var þetta kvöld allt hið besta og hafði búrinn mikið gaman af. Vatnið holar steininn og svona menningardropar munu kannski verða til þess að á endanum kemst smá menning í búrann. Annað eins hefur nú gerst!
PS. Það var gaman að koma í Gamla bíó eftir áratuga fjarveru. Búrinn rifjaði upp góðar stundir á svölunum þegar poppi og öðru lauslegu var látið rigna yfir bíógesti á gólfinu, öllum til ómældrar gleði. Ekki varð þess vart að stúkugestir héldu þennan sið þetta kvöld, en hver veit nema einn og einn hafi látið eitthvað smálegt gossa niður? Vonandi!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)