Færsluflokkur: Vefurinn

Lygar, fjárans lygar og lélegar skoðanakannanir!

GosiUm daginn vældi bloggari nokkur og var eymingjalegur vegna þess að fram kom skoðanakönnun hverrar niðurstöður voru ekki í samræmi við hans sýn á málin. Skoðanakönnun þessi var unnin af markaðsrannsóknafyrirtækinu MMR, en það gefur sig út fyrir að beita viðurkenndum aðferðum og vanda vinnubrögð sín.

Máli sínu til stuðnings vísaði bloggarinn aumi á könnun sem Útvarp Saga framkvæmdi á vef sínum. Þeirri könnun svaraði væntanlega sú hjörð fólks sem hlustar á þá stöð og er á engan hátt þverskurður íslenskrar þjóðar. Þetta gerir bloggarinn oft þegar niðurstöður kannana Útvarps Sögu falla að hans sjónarmiðum og einnig fá niðurstöður kannanna Íslands í dag á visir.is að fljóta með.

Vandamálið er að skoðanakannanir Útvarps Sögu og Íslands í dag eru gjörsamlega ómarktækar. Þær ganga gegn öllum góðum venjum og starfsháttum við gerð skoðanakannana og eru þannig skaðleg innlegg í umræðuna því þær bera á borð bjagaðar og rangar niðurstöður sem skekkja umræðuna. Sumpart hafa þær kannski gott skemmtana- og afþreyingargildi, en er þá ekki bara betra að segja góðan brandara?

Ég hef áður gert þessum ruslkönnunum skil í pistli, en tel rétt að ítreka þetta aftur. Almenningur er oft berskjaldaður þegar kemur að upplýsingum og margir taka því sem birtist t.d. á bloggvefjum sem áreiðanlegum sannleika. Fátt gæti þó verið fjær sannleikanum þegar kemur að svona netkönnunum.

Því er ráð að biðja bloggara og aðra að gæta hófs þegar kemur að því að birta niðurstöður netkannana sem staðreyndir. Það má að sumu leyti líkja þessu við hreinar og klárar lygar, enda veit þetta fólk innst við beinið að það er að færa hálfsannleik á borð, en gerir það samt því hann þjónar tilgangi sínum vel.

En kannsi er stundum leyfilegt að ljúga? Kannski helgar tilgangurinn stundum meðalið?


Um 85 milljarðar vefsíðna

Skjalasafn :)Ég bendi áhugafólki um vefinn (og afritun hans) að kíkja á The Internet Archive. Þetta er frábært verkefni sem Brewster Kahle setti á koppinn árið 1996. Kahle þessi hafði hagnast nokkuð á sölu fyrirtækja og þótti við hæfi að setja á laggirnar þjónustu sem safnaði saman 'öllu' efni netsins, þ.e. markmiðið var að taka afrit af Internetinu :) svona frómt frá sagt. Þetta metnaðarfulla markmið náðist auðvitað aldrei, en það er líka allt í lagi að setja markið hátt.

Síðustu magntölur segja að árið 2006 hafi gagnamagnið numið 2 petabætum og fitnað um 20 terabæti mánaðarlega. Til samanburðar fitnaði grunnurinn um 12 terabæti mánaðarlega árið 2003. Í grunninum er að finna afrit af 85 milljörðum vefsíðna ásamt megninu af tengdri grafík. Það má jafnvel finna gamlar kvikmyndir í fullri lengd þarna. Þess má geta að árið 2002 fóru forráðamenn IA að kröfu lögmanna Vísindakirkjunnar og fjarlægðu mikinn fjölda vefsíðna sem fjölluðu um kirkjuna, iðulega í óþökk eigenda þeirra og höfunda. Þannig hefur starfsemin ekki verið algjörlega óumdeild, en reynt hefur verið að gæta þess að innihald gagnageymslur IA gefi sem réttasta mynd af efni Netsins á hverjum tíma.

IA er frá upphafi verið skilgreint sem bókasafn og stendur nú fræðimönnum til boða án endurgjalds, sem og netverjum öllum. Ég skora á lesanda þessa bloggs að hverfa aftur í tímann og kíkja á eftirfarandi heimildir úr hirzlum IA:

Respice, adspice, prospice :)


mbl.is Landsbókasafn hefur safnað .is-vefefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netkannanir - verkfæri Djöfulsins?

KristalskúlaNýlega lenti ég í rimmu við forhertan átrúanda skoðanakannanna Útvarps Sögu sem virðist leggja áreiðanleika þeirra að jöfnu við tilvist þyngdarafls eða festuna í tíðni flóðs og fjöru. Þessi ágæti maður gat ekki undir neinum kringumstæðum skilið að skoðanakannanir Útvarps Sögu eru ekkert nema brandari - en þó ekki því þær virðast hafa eitthvað vægi í skoðanamótun og í almennri umræðu. Þannig getur brandarinn snúist fljótt upp í öndverðu sína, sér í lagi ef hann ljær öfga- og jaðarskoðunum meira vægi en þeim í raun ber.

Ég vil byrja á því að taka fram að eftirfarandi skrif mín taka ekki einungis til kannana Útvarps Sögu því þau eiga einnig við kannanir sem er að finna á vefjum Bylgjunnar, Vísis, blog.is og í raun flestra annarra fréttamiðla. Ég mun þó hafa Útvarp Sögu sem tákngerving þessara könnuða, enda er kveikjan að skrifum mínum Netkönnun sem framkvæmd var á vef hennar.

Svo er gott að taka fram að margar þeirra kannanna sem eru framkvæmdar eru aðeins til gamans. Þannig er, í þessum skrifuðu orðum, að finna könnun á www.stod.is þar sem spurt er hvort þar eigi að sýna bíómyndir eða þætti. Ég hygg að enginn starfsmaður dagskrárdeildar á þeim bæ eigi nokkurn tíma eftir að kíkja á niðurstöðurnar og nýta þær sem ítargagn við uppsetningu dagskrár á Stöð 2. En ef einhverjir hafa gaman af því að svara þessu, þá er markmiðinu náð.

Verkfæri Belsebúbbs?Hins vegar eru svo til Netkannanir sem forsvarsaðilar kynna sem marktækar og vitna í þær sýknt og heilagt sem óskeikulan vitnisburð um vilja íslensku þjóðarinnar. Dæmi um það er könnun sem Útvarp Saga gerði á dögunum, en spurt var "Á að greiða úr ríkissjóði fyrir tæknifrjóvgun einhleypra kvenna?". Niðurstaða Netkönnunarinnar var sú að rúmlega 72% voru því mótfallin. Nú er það þannig að forhertir andstæðingar þess að einhleypar konur geti farið í tæknifrjóvgun hér heima hafa stokkið á þessa könnun og segja hana túlka vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Þannig hefur þessi könnun bjagað og skekkt umræðuna og gert mikið ógagn. Nú þekki ég ekki hug þjóðarinnar í þessum efnum, en ég hef meiri trú á samlöndum mínum en svo. Ég hef enga trú á því að 3/4 þeirra séu svo forpokuðir að vilja neita einhleypum konum um þennan sjálfsagða rétt. Og þar kem ég að efni þessarar bloggfærslu minnar.

Ég fer yfir fjögur atriði í tengslum við gerð Netkannana, en þau eru:

  • Úrtak
  • Möguleiki á smölun
  • Framsetning og samhengi
  • Tæknin

Þessi atriði skipta öll meginmáli þegar kemur að gerð og framkvæmd Netkannana. Rétt er að skilgreina orðið 'Netkönnun' hér að neðan, en það er könnun sem framkvæmd er á vef sem opinn er almenningi án þess að notuð séu neinar aðferðir til að auðkenna notendur með sérstökum hætti, t.d. með því að senda þeim auðkenni í pósti eða með rafrænum skilríkjum. Ég tók t.d. þátt í slíkri könnun/kosningu um daginn þegar ég greiddi atkvæði um nýjan VR samning. Þá fékk ég auðkenni sent í pósti, en án þess gat ég ekki kosið, sem tryggði svo einnig að hver félagsmaður í VR get ekki kosið nema einu sinni.

ÚRTAK
Það kannast allir við að hafa heyrt eða lesið álíka lýsingu: "Í úrtakinu voru 1200 Íslendingar, valdir af handahófi úr Þjóðskrá, á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu. Svarhlutfall var 63%" Þetta er fyrsta lykilatriðið þegar kemur að könnun á viðhorfi fólks - að þeir sem spurðir eru séu raunverulegt þversnið þess hóps hvers viðhorf verið er að kanna. Það er til víðfrægt dæmi um þetta frá því á öndverðri síðustu öld. Tímaritið Literary Digest ætlaði að spá fyrir um úrslit forsetakosninganna árið 1936. Niðurstöðurnar sýndu að frambjóðandi Repúblikana, Alf Landon, myndi hafa sannfærandi sigur á andstæðingi sínum, sitjandi forseta Franklin D. Roosevelt. Úrslit urðu hins vegar þau að Landon vann sigur í tveimur fylkjum meðan Roosevelt sigraði í hinum 46. Aðeins einu sinni í sögu BNA hefur forsetaframbjóðandi tapað eins illilega í forsetakosningum.

Þegar farið var að rýna í hvers vegna svo mikill munur var á niðurstöðum könnunarinnar annars vegar og kosninganna hins vegar kom í ljós að þrátt fyrir rísavaxið úrtak (10 milljón manns, 20% svarhlutfall), þá var úrtakið meingallað. Úrtakið var nefnilega áskrifendaskrá Literary Digest, en hún samanstóð af vel stæðum Repúblikönum sem voru síður en svo dæmigert þversnið bandarísku þjóðarinnar. Þeir sögðust allir myndu kjósa Landon og því fór sem fór. Þess ber að geta að þarna byrjaði að halla undan fæti hjá Literary Digest og árið 1938 sameinaðist það öðrum tímaritum svo úr varð Time Magazine.

Svo ég noti Útvarp Sögu aftur sem dæmi - getur einhver sannað að hlustendahópur hennar sé fullkomið þversnið íslensku þjóðarinnar? Getur einhver sannað að fullkomið þversnið af því fullkomna þversniði taki þátt í skoðanakönnun á vef hennar? Í könnuninni sem ég vísa í að ofan tóku 323 manns þátt. Getur einhver fullyrt að þetta úrtak sé fullkomið þversnið af hlustendahópi Útvarps Sögu sem er fullkomið þversnið íslensku þjóðarinnar?

SMÖLUN
Ég gerði einfalda könnun í mínum fjölskyldu- og vinahópi þar sem ég spurði nokkurra spurninga. Hver aðili svaraði aðeins einu sinni, en úrtakið er frekar bjagað og skekkt að því leyti að þarna er bara um að ræða þversnið af rjóma íslensku þjóðarinnar. Spurningarnar voru:

  • Ef ég bæði þig að heimsækja tiltekinn vef og taka þátt í skoðanakönnun þar, hvernig myndirðu bregðast við?
  • Ef ég bæði þig um að kjósa eitt ákveðið atriði í könnuninni, hvernig myndirðu bregðast við?

Ég sendi út 20 skeyti og fékk 18 svör til baka þannig að svarhlutfall var 90%. Niðurstöður eru þær að 55% eru tilbúin að heimsækja vef og kjósa að minni beiðni, 6% vilja það ekki og 39% eru óákveðin. SVo kemur í ljós að 50% eru reiðubúin að greiða atkvæði í samræmi við óskir mínar, 27% segjast vilja fylgja eigin sannfæringu (sem getur oft farið saman við mína) og 23% eru óákveðin.

Það sýnir sig því að auðvelt er að smala fólki í Netkannanir og að auðvelt er að fá fólk til að kjósa fyrir sig. Ég tek það fram að enginn þessara aðila myndi nokkurn tíma selja atkvæði sitt svo auðveldlega í alvöru kringumstæðum, en það er léttvægt þegar um er að ræða aumar Netkannanir.

FRAMSETNING OG SAMHENGI
Miklu máli skiptir hvernig spurningar eru settar fram, en það er auðveldlega hægt að gildishlaða þær með ýmsum aðferðum. Skoðum t.d. eftirfarandi spurningar:

  • Á ríkið að borga kostnað vegna X?
  • Á X rétt á því að ríkið borgi kostnað fyrir hann?
  • Er rétt að ríkið borgi kostnað fyrir X?
  • Er sanngjarnt að ríkið borgið kostnað fyrir X?

Þarna er um að ræða blæbrigðamun í framsetningu sem getur haft áhrif á svarendur. Sérþjálfaðir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem sjá um gerð kannana hafa mikla reynslu af gerð svona spurninga og gæta þess í hvívetna að þær séu eins hlutlausar og kostur er. Hver semur spurningarnar sem notaðar eru í Netkönnunum?

Þá er rétt að skoða í hvaða samhengi Netkannanir eru settar fram. Hvar er í vísað í Netkönnuna í dagskrá fjölmiðils? Er það eftir þátt eða í grein þar sem fjallað er um viðkomandi málefni með ákveðnum og afgerandi hætti? Er fyllst hlutleysis gætt þegar minnt er á könnunina?

TÆKNIN
Þá er komið að veigamesta þættinum í framkvæmd Netkannana. Það muna margir eftir því þegar Sveppi grínari vann Edduna hér í denn eftir að hann aftengdi sk. vefkökur (e. cookies) og kaus svo sjálfan sig nokkur hundruð sinnum. Það var auðvitað meinfyndið og flott ... og þarft, því það sýndi vel hversu brigðul tæknin er.

Í dag eru tvær megin aðferðir notaðar til að 'tryggja' öryggi í Netkönnunum:

  • Vefkökur
  • Skráning IP-talna

VefkökurHægt er að eiga við vefkökur á margan hátt, t.d. eyða þeim. Þessi lífæð vefjarins er afar nauðsynleg, en um leið afar viðkvæm og ófullkomin. Þannig þarf ekki annað en að útiloka (e. block) eða eyða vefkökum til að sami einstaklingur geti kosið mörgum sinnum í sömu könnuninni þegar þær eru notaðar sem öryggistæki. Vefkökur eru því harla léleg trygging fyrir því að sami aðili geti ekki kosið mörgum sinnum. Meðfylgjandi mynd (nr. 1) sýnir þetta ferli í myndrænu formi þar sem þetta er hringrás sem kjósandi getur farið eins oft og hann vill og nennir. En ég taldi þetta ekki vera nægilega skýrt og því setti ég upp Netkönnun á blogginu hjá mér þar sem ég spurði; "Eru netkannanir áreiðanlegar?" Svo tók ég upp stutt myndband þar sem ég kýs 10 sinnum í röð á einni mínútu sem gerði það að verkum að 10 höfðu svarað og voru 100% þeirri á því að Netkannanir væru óáreiðanlegar. YouTube klippuna má sjá hér að neðan.

IP tölurSkráning IP-talna er í raun öruggari aðferð til að koma í veg fyrir að sama aðili kjósi oft. Hún hefur hins vegar þann stóra galla að hún kemur að sama skapi í veg fyrir að aðrir bak við sömu IP-tölu geti kosið. Þetta á við alls staðar þar sem margar tölvur eru bak við eldvegg, svo sem í fyrirtækjum eða á heimilum. Ég starfa hjá fyrirtæki sem hefur aðgang að neti sem nokkur hundruð starfsmanna nýta sér. Okkar samskipti á Netinu, þessara hundruða sem hér starfa, fara í gegnum einn eldvegg. Þannig erum við öll með sömu IP-töluna. Því gerist það þegar eitthvert okkar kýs t.d. í Netkönnun á vef Útvarps Sögu kemst ekkert okkar hinna að á eftir. Því talar þessi eini aðili, sem fyrstur komst að, fyrir hönd okkar allra. Meðfylgjandi mynd (nr. 2) sýnir þetta í hnotskurn. Eitt atkvæði kemst út fyrir eldvegginn og er talið með, en bak við eldvegginn krauma skoðanir fjöldans sem ekki komast að. Þessi eini aðili hefur því talað fyrir fjöldann og gefur þannig ranga mynd af vilja hans.

NIÐURSTÖÐUR
Í ljósi ofangreinds er óhætt að fullyrða að Netkannanir eru afar óvönduð og vond leið til að mæla skoðanir almennings á hinum ýmsu málum, enda fá þær falleinkunn á öllum sviðum. Því fullyrði ég að Netkannanir geri ekkert nema ógagn, þeirra innlegg í almenna umræðu er skaðlegt og eru áhrif þeirra bara neikvæð. Þær bjaga og skekkja og ekki er úr vegi að lýsa þeim sem verkfæri Djöfulsins í almennri umræðu, svo neikvæð eru áhrif þeirra.

Í könnunninni sem ég gerði, og vitnað er í hér að ofan, var þriðja spurningin sem var svona:

  • Hver er afstaða þín til skoðanakannana á Netinu hvað varðar áreiðanleika?

Enginn svarenda taldi Netkannanir áreiðanlegar, 72% töldu þær óáreiðanlegar og 28% höfðu ekki skoðun á málinu. Þetta segir mikið um vægi Netkannana, en þær virðast ekki njóta neins trausts. Réttilega, að mínu mati.

Ég skora því á fjölmiðlafólk, bloggara og aðra Netverja að hætta að vitna í Netkannanir. Óvissa og efi í almennri umræðu er nægur fyrir þótt ekki sé bætt við þeirri afbökuðu og fölsku veruleikasýn sem þær miðla. Höldum okkur við staðreyndir því þannig verður umræðan markvissari og betri. Notum Netkannanir til hluta sem hæfa, s.s. til að kanna hver er uppáhalds Pokémon þjóðarinnar og hvort Superman geti ráðið við Hulk ... ekki til að drepa t.d. umræðu um réttindi einhleypra kvenna á dreif.

Lifið heil.

 

YouTube klippan: Kjóstu 10x í sömu könnun á einni mínútu!


Gígabæti hér og gígabæti þar!

millionaireHér kemur stutt saga um tvo stórkaupmenn sem seldu sams konar vöru á markaði. Varan þótti ætíð vera dýr, hvert stykki kostaði tvöþúsundogfimmhundruðkall, og báru stórkaupmennirnir það ætíð fyrir sig að þeir hefðu mikinn kostnað af því að útvega og selja vöruna og því gætu þeir ekki haft verðið lægra. Nú bar svo við að smákaupmaður nokkur hóf að selja sams konar vöru, nema hvað hann bauð hana þannig að viðskiptavinir hans borguðu lítið eitt meira en þess í stað gátu þeir tekið eins mikið af vörunni og þeir vildu. Þegar þetta var raunin gátu stórkaupmennirnir skyndilega boðið viðskiptavinum sínum það að þeir borguðu að sama skapi lítið eitt meira og gátu þá á móti tekið næstum því eins og þeir vildu af vörunni.

Það þarf ekki snilling til að sjá að sagan sem hér fór á undan er hryllingssaga og flestir lesendur eru væntanlega búnir að sjá að stórkaupmennirnir eru Síminn og Vodafone, en smákaupmaðurinn er Hive. Varan er svo niðurhal gagna frá útlöndum.

Það er stórmerkilegt að hugsa til þess að Síminn selur hvert gígabæti af útlandaniðurhali á tvöþúsundogfimmhundruðkall, Vodafone telur sig geta haft hagnað af því að selja það á helmingi þess verðs. Eftir að hafa varið þessa svívirðilega verðlagningu í langan tíma með því að bera sig aumlega geta þessir stórkaupmenn allt í einu selt lágmark 40 gígabæti á þúsundkall! Er ekki eitthvað skrýtið við þetta? Vara sem áður þurfti að kosta hundraðþúsundkall (40 x 2.500) selst nú á þúsundkall eða eitt prósent af því verði sem áður var sagt þurfa til að standa undir kostnaði og skila eðlilegri álagningu! Oft er munurinn reyndar mun meiri, því sk. öllu getur ótakmarkað niðurhal innifalið mun meira gagnamagn en þetta. Best er þó að nota 40 gígabætin sem viðmiðun. Hvernig víkur því við að allt í einu skuli þetta vera hægt?

Það er hald mitt að íslenskir netnotendur hafi um langan tíma verið hafðir að ginningarfíflum þegar stórkaupmennirnir Síminn og Vodafone gátu komist upp með það. Við borguðum hundraðfalt verð (sbr. dæmið hér að ofan) í skjóli þess að annað hvort höfðu þessi fyrirtæki með sér samantekin ráð eða með framtaksleysi sínu héldu niðri eðlilegri samkeppni. Í raun réttri er hér um að ræða mál sem líkja má beint við stóra olíusamráðsmálið, en samkeppnisyfirvöld og Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki haft döngun í sér til að kanna þetta. Netnotendur bjuggu við okurkjör í helköldum faðmi risanna þar til peðið Hive kom til skjalanna. Den tid, den sorg?

Skulda stóru símafyrirtækin netnotendum ekki afsökunarbeiðni vegna þessa? Ótakmarkað? Hmmm!!Ef ef svo er, er það líklegt að hún komi einhvern tíma fram?

Í lokin má einni spyrja hvort eðlilegt geti talist að fyrirtæki geti auglýst "ótakmarkaða" notkun sem síðan er í raun takmörkuð þegar á hólminn er komið? Eru þessi vinnubrögð ekki dæmi um svik og blekkingar af versta tagi í viðskiptum? Hvenær varð "ótakmarkað" að "svolítið mikið, en alls ekki ótakmarkað ef þú lest skilmálana til enda, sem við vitum að þú gerir bara alls ekki!"? Er endalaust hægt að slá upp slagorðum sem byggja á fölskum forsendum í grunninum og skáka endalaust í skjóli endalausra skilmála og sex punkta leturs?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband