Færsluflokkur: Bloggar

Hreinir sveinar Páfagarðs

Benedikt XVIEnn og aftur vilja hreinu sveinarnar í herdeildum Ratzinger páfa hlutast til um líf fólks. Þarna vildu þeir setja líf níu ára telpu á spil fyrir tvo frumuklasa sem hefðu líklega dregið hana til dauða, hefðu þeir fengið að þroskast betur. Þeir víluðu ekki fyrir sér að tefla lífi hennar í tvísýnu og sýndu þannig að þeir mátu líf hennar einskís meðan gjörðir þeirra sem vildu henni vel brutu í bága við þrúgandi kennisetningar kirkjunnar. Virðing þeirra fyrir lífi hennar er mun minni en ótti þeirra við að gengið sé gegn einhverju mest þrúgandi valdboði gagnvart konum sem til er.

Mér finnst það huggulegt ... að hreinu sveinar Ratzinger páfa skuli vera tilbúnir til að fórna níu ára gömlu barni bara til þess að standa á eigin 'prinsippi'. Það er grand og stórmannlega gert af þessum hreinu og guðlegu sveinum! Ég er viss um að móðir og læknir telpunnar kunna þeim maklegar þakkir fyrir hlýhug á þessum erfiðu tímum! Nei, bíddu við ... þau voru víst bannfærð fyrir að bjarga lífi hennar. Hafi þessir óþokkar ævarandi skömm fyrir að láta líf barnsins ganga fyrir hagsmunum kaþólsku kirkjunnar! Þetta óhelga tvíeyki er best komið á ísköldum freranum sem bíður þeirra sem reknir eru út á túndrurnar utan ylvolgs faðms kirkjunnar. Þau hefðu auðvitað átt að treysta hreinu sveinum Ratzinger páfa og þannig sent telpuna út í nær vísan dauðdaga. Þá væru þeir góðir kaþólikkar.

Nú eru þeir bara vondir fyrrverandi kaþólikkar ... eða þannig!

Tengt efni: BBC - World Have Your Say


mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur má ef duga skal!

Þessi tillaga gengur ekki nógu langt. Ég vil geta valið fólk úr öllum flokkum, þ.e. valið mér þann meirihluta sem ég vil sjá, en um leið minnihlutann til að veita honum aðhald. Í flestum flokkum er að finna fólk sem mér hugnast og vil ég geta valið það allt saman til setu á Alþingi. Það er því leitt að enn skuli val kjósenda vera takmarkað við einn flokk. Þetta er gamaldags hugsunarháttur sem við þurfum að losna undan.

Ég bendi á fyrri hugleiðingar mínar um þetta mál sem og góða grein Púkans.


mbl.is Leggja fram frumvarp um persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru engar konur?

Það er skondið að sjá að þegar haldið er Jafnréttisþing, væntanlega til þess að rétta skarðan hlut kvenna, að þá séu karlar fyrirferðarmeiri í fréttaflutningi tengdu því. Í tengdri frétt er talað við Þórólf Árnason og í þessari frétt er fjallað um erindi Ólafs Þ. Stephensen. Hér er svo fjallað um framsögu félagsmálaráðherra á þinginu. Tvö-eitt fyrir karla!

Hvar eru konurnar? Hafa þær ekkert um þetta mál að segja?


mbl.is Akkur í að hafa konur í ábyrgðarstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Epísk fýluköst seðlabankastjóra ...

Talaðu við höndina ...Það er svo fyndið að sjá að eldri og virðulegir menn á borð við Davíð Oddsson geti verið í fýlu út í fólk í kringum sig. Og þetta eru engin aumingjaleg amatör fýluköst; ó nei, þetta eru epískar fýlu-epísóður sem jafnvel eiga sinn þátt í að steypa heilu þjóðunum fyrir björg.

Davíð Oddsson var t.d. (og er) í fýlu út í forseta vorn og hvað gerist? Hefðbundnir fundir forsætisráðherra og forseta lögðust af eftir að Ólafur Ragnar smeygði sér inn á Bessastaði. Og við munum öll eftir sársaukanum í andliti Davíðs þegar hann þurfti að segja "heill forseta vorum og fósturjörð" við setningu Alþingis. Hann bægslaðist nú reyndar við að skýra það út að hann væri ekki að hylla forsetann, svona í alvörunni, heldur væri þetta spurning um kommusetningu. Í mínum huga snerist það mest um kommasetningu, en það er annað mál. Þarna var á ferðinni svo harmrænt og magnað fýlukast að jafnvel mergjuðustu sagnaritarar fortíðar og samtíðar hefðu ekki getað kokkað annað eins upp.

En það var þá.

Nú er Davíð í öðru fýlukasti og virðist það birtast í samskiptum (lesist: samskiptaleysi) hans við bankamálaráðherra. Á tímum þegar Davíð vissi með 100% óyggjandi vissu að hér færi allt til fjandans var fýlan svo mikil að hann hafði ekki fyrir því að slá á þráðinn til bankamálaráðherra og segja honum af þessu. Það var nú ekki eins og það væri hundrað í hættunni, held ég ... bara hagur og heill íslensku þjóðarinnar. En það er ekki næg ástæða til þess að rjúfa svona dásamlegt fýlukast. Fýlukast sem verður ritað á spjöld sögunnar sem eitt það frábærasta allra tíma. Móðir, amma og langamma allra þeirra fýlukasta sem eftir munu fylgja.

En þefskyn þessa mikla meistara fýlukastsins er samt hálf bjagað þessa dagana :) Já, hann telur sig Messías endurborinn og hyggur að þjóðin muni breiða út faðminn og bjóða hann velkominn þegar hann býður sig aftur fram í pólitík. En hann veit ekki það sem allir vita, nema nokkrir þeirra helbláustu.

Nú er þjóðin í fýlu út í hann! Ætli honum finnist það ekki ósanngjarnt?

PS. Nú furðar bankamálaráðherra sig á því að Davíð skyldi ekki hafa samband við hann. En af hverju rölti hann aldrei í heimsókn til Davíðs?


Mittismálið og systurnar í Saumastofunni

NálEinhvern veginn virðist alltaf auðveldara að fjasa um það sem illa er gert eða það sem aflaga fer. Glaðhlökkunin í okkur er slík að við getum yljað okkur endalaust við slíkar vangaveltur og haft mikið gaman af. Nú ætla ég að gera breytingu á og tala um frábærar systur í Faxafeninu sem hafa vakandi auga með mittismáli mínu.

Reglulega fer ég með föt í þrengingu eða styttingu í Saumastofuna, Faxafeni, þar sem systurnar Súsanna og Lára ráða ríkjum. Þessar yndislegu konur taka mér alltaf fagnandi, eru eldsnöggar og fumlausar í sínum vinnubrögðum og taka ekki mikið fyrir. Mér líður alltaf vel eftir stutta heimsókn þar sem ég afhendi eða tek á móti fötum. Svo er það þannig að þær systur þekkja líklega best mittismál mitt hverju sinni, enda heimsæki ég þær um leið og einhver breyting verður þar á. Fyrir gamlan og ósveigjanlegan skarf er alltaf gott að koma þar sem hann þekkir til :)

Buxurnar mínar ganga í endurnýjun lífdaga eftir að systurnar hafa farið höndum um þær. Þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki sá sveigjanlegasti í háttum og því gleður það mig óendanlega mikið að geta gengið sem lengst í sömu buxunum. Enda má spyrja hvort eitthvað sé þægilegra í þessum heimi en að smeygja sér í föt sem bara passa? Ég held ekki.

En fyrir utan öll þægindi þá eru heimsóknir til systranna eitt besta sparnaðarráð sem hægt er að finna á þessum síðustu og verstu tímum. Gjaldskrá þeirra er hófleg, jafnvel svo að furðu sætir, og í raun ekki í takti við þá frábæru þjónustu sem þær veita. Það er því ráð að taka fram gömlu uppáhalds flíkina sem hefur verið á bekknum um stund vegna þess að hún passar illa eða er rifin. Ég er næsta viss um að Saumastofusystur geti blásið í hana lífi fljótt og örugglega. Ef ekki, þá átti hún sér ekki viðreisnar von hvort eð er.


Hvar er Sarah Palin?

Sarah PalinÞessa dagana fer lítið fyrir skjaldmey repúblikana í Bandaríkjunum, Sarah Palin. Hún hefur komið illa sködduð út úr viðtölum undanfarið þannig að best þykir að hafa hana ekki í sviðsljósinu, enda veldur hún flokknum minnstum skaða þannig. Samhengislaus svör hennar við spurningum fréttamanna um grundvallar atriði sýna glögglega að hún er algjörlega úti á þekju í öllu sem ekki snertir elgsveiðar, Wasilla Assembly of God og að kíkja yfir Berings sundið til að hafa gætur á Rússum.

Skammt er stórra högga á milli. Bæjarstýran frá Wasilla, sem öllu átti að bjarga, er nú sem steinvala í skótaui John McCain. Kallgreyið hlýtur að sjá eftir því að hafa valið hana og vonar líklega helst að hún fara að ráðum sumra flokkssystkina sinna og dragi sig í hlé. Það mun líklega ekki gerast, því Sarah Palin er kona sem ekki blikkar þegar til kastanna kemur. Því verður áhugavert að sjá hvað kemur frá henni á næstunni.

Ég reikna með að nú sé Palin í viðamikilli endurhæfingarmeðferð til að gera hana snakkhæfa (lesist: minna skaðlega) fyrir kappræður við Joe Biden. John McCain hlýtur að vakna í svitabaði þegar hann hugsar til þess að villimærin og elgsskelfirinn frá Alaska eigi eftir að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpi án þess að hafa allan texta forskrifaðan. Ætli hann líti ekki á hana núna sem 'weapon of mass destruction' sem engu eirir? Hvernig sem allt veltur, þá verður áhugavert að sjá Sarah Palin óforskrifaða og í beinni!

Afar áhugavert :)


Innrás er yfirvofandi

HummerÍ dag er sorgardagur hjá varnarsinnum - þeim sem unna föðurlandinu í alvöru. Í dag stöndum við berskjölduð gagnvart rússneska birninum. Í dag erum við varnarlaus. Í dag fer Kaninn. Á morgun kemur Rússinn.

Frá byrjun september og til dagsins í dag hafa Bandaríkjamenn haft okkur í faðmi sínum undir merkjum loftrýmisgæslu. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef haft rangt fyrir mér hvað varðar þessi útsýnisflug erlendra herja yfir landinu. Mér hefur fundist þetta vera mikill óþarfi og peningaaustur í ekki neitt, en annað kemur á daginn þegar málið er skoðað ofan í kjölinn.

Ef við lítum á tímabilið 1.-20. september á þessu ári kemur í ljós að ekki var reynt á ráðast inn í landið á þessum tíma! Ekki einu sinni! Þetta eru stórkostlega fréttir og ekki síst fyrir kalsára varnarsinna því nú hefur málflutningur þeirra sannast! Meðan Íslendingar stunda virka varnarstefnu þá er ekki ráðist á okkur.

Mér fannst þetta nokkuð áhugavert. Því prófaði ég að skipta árinu 2008 upp í 20 daga tímabil og gerði úttekt á því hversu oft ráðist hefur verið á landið meðan það hefur ekki notið pössunar Kananna eða Frakkanna. Ég tók reyndar sérstaklega frá tímabilið 5. maí til 20. júní þegar Frakkarnir flugu hér yfir fram og til baka, óvinum okkar til mikillar skelfingar.

Niðurstöður mínar er á þessa leið:

Fjöldi innrása

Þegar þessar tölur eru skoðaðar kemur í ljós að ekkert var ráðist á okkur meðan Kaninn og Frakkar vernduðu okkur og sýnir það auðvitað hversu nauðsynleg þessi pössun þeirra var og er. Hins vegar kemur kemur á óvart lítill fjöldi innrása þar fyrir utan, enda var landið varnarlaust. Ég hallast reyndar að því að 'líberal' fjölmiðlar hafi hreinlega þaggað niður fréttir af innrásum og því séu fregnir af þeim ekki í þeim heimildum sem ég studdist við. Þetta er verðugt rannsóknarefni.

Þannig held ég að tvennt sé fullreynt í þessum efnum:

  • það er ekki ráðist á okkur meðan erlendir herir passa landið
  • 'líberal' fjölmiðlar hafa þaggað niður fréttir af innrásum

Nú tekur við hörmungatíð. Í dag fer Kaninn. Á morgun kemur Rússinn.


Almennt siðgæði (c)

Einkaleyfi á almennu siðgæði?Er ekki rétt að Guðlaugur Þór útskýri hvers vegna hann vill leita eftir ráðgjöf hjá Ríkiskirkjunni í þessu máli meðan hann nefnir t.d. ekki samtök á borð við Siðmennt sem þó hafa jafna stöðu í málinu? Þó er líklega meiri þörf á því að hann skýri hvers vegna hann vill yfir höfuð leita að fyrra bragði til Ríkiskirkjunnar? Henni verður líklega heimilt, eins og flestum öðrum, að senda inn álit sitt á þessu máli þegar það kemur til umfjöllunar í þinginu. Hví er knýjandi þörf á því að tekið sé sérstakt tillit til skoðana hennar?

Það er býsna bjagað að álit Ríkiskirkjunnar skuli vera látið vega þyngra umfram aðra álitsgjöf. Auðvitað á að taka tillit til þess sem hún segir, ef hún kýs að tjá sig um málið, en það álit á ekki að hafa meira vægi en annarra væntanlegra álitsgjafa.

En það er auðvitað bara álit vantrúarseggs. Forherts, jafnvel :)


mbl.is Á að leyfa staðgöngumæðrun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt lyklaborð

iPodÞað er ofursvalt að sjá nýjar græjur og það fara alltaf um mann straumar sem Apple sendir eitthvað frá sér, þó ekki sé nema enn einn nýr iPod. En aðalfréttirnar eru þær að nú er loksins komið íslenskt lyklaborð í iPhone og iPod Touch og var tími til kominn. Það hefur verið pínlegt að sjá gallharða áhangendur Steve Jobs nota norskt eða danskt lyklaborð.

En fyrst Qatar fékk eigið lyklaborð, þá áttum við það inni!!!


mbl.is Apple kynnir nýja iPod-spilara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlað samþykki

LíffæragjöfÍslendingar eiga að stefna að því að vera sjálfum sér nógir í þessum efnum. Við eigum skilyrðislaust að festa það í lög að heilbrigðisyfirvöld hafi sjálfkrafa rétt til þess að taka líffæri úr látnu fólki nema skýr yfirlýsing hins látna um hið gagnstæða liggi fyrir.

Ég hef áður skrifað um þetta mál og fullyrði þar hiklaust að það sé fullkomnasta birtingarmynd eigingirni að neita líffæragjöf. Burtséð frá því hvort fólk haldi að eitthvað taki við eftir þetta jarðlíf, þá er nokkuð ljóst að líkamar okkar gagnast engum, hvorki okkur né öðrum, eftir okkar dag. Hins vegar geta þeir gagnast öðrum og það verður að vera það sjónarmið sem ræður.

Því skora ég á málsmetandi menn að festa ætlað samþykki í lög og stuðla þannig að bættri heilsu landsmanna. Sú ráðstöfun myndi einnig létta þrýstingi af aðstandendum sem virðast frekar hallast að því að neita yfirvöldum um leyfi til líffæratöku. Líklega kemur þar til virðing og væntumþykja í garð þess látna, en á þessari stundu getur fólk líklega ekki gert sér fulla grein fyrir því hverju það er að neita.

Ég bendi á eftirfarandi greinar í þessu samhengi:

Þetta eru sannarlega lífsnauðsynlegir varahlutir! Umgöngumst líffærin sem slík.


mbl.is Líffæraflutningar endurskoðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband