Færsluflokkur: Bloggar

Kallinn hjólar um París!

Kallinn á hjóli!Kallinn fór á hjóli um París! Það hljómar ótrúlega, en er dagsatt. Ég og Hlynur lögmaður renndum okkur á stálfákum um borgina undir traustri forystu og leiðsögn Dimitri frá Fat Tire Bike Tours. Við höfum þrammað þetta fram og til baka í gær og í morgun, en þessi hjólatúr var alveg ný vídd. Og hvílíkur ferðamáti sem þetta er! Borgin liðaðist fram hjá okkur meðan við læddumst á milli gagnmerkra áfangastaða. Ég get heilshugar mælt með svona sýnisferðum ef veðrið er í lagi. Mig grunar reyndar að glansinn fari aðeins af ef það rignir, hvað þá ef hann blæs í ofanálag.

Við fórum s.s. á milli helstu staða í miðborg Parísar og hófum ferðina hjá suðursökkli Eiffel-turnsins. Í hópnum voru u.þ.b. 20 manns á öllum aldri og gekk öllum jafn vel að hjóla. Þetta voru mestmegnis ferðalangar frá BNA sem voru þarna að kaupa þjónustu af löndum sínum. Það var auðheyrt að það snart streng í hjörtum margra í hópnum að heyra að Dimitri er frá Texas og einhver táraðist af gleði, held ég. Dimitri var afar afslappaður og þægilegur leiðsögumaður sem kunni gjörla þá list að niðursjóða mikið af upplýsingum í agnarlitla mola sem runnu ljúflega niður. Ég kann honum mætar þakkir fyrir hans tillegg til dagsins.

Annars er gaman að segja frá því að við félagarnir hittum (lesist: töluðum við) þrjár manneskjur í dag; tvo leiðsögumenn frá Fat Tire og svo ferðafélaga okkar í túrnum. Það magnaða var að allar þessar manneskjur höfðu gríðarlegan áhuga á Ísandinu góða og lýstu því yfir að þangað skyldu þau fara fyrr en síðar. Ljóst var að áhuginn risti djúpt þannig að ekki var um hefðbundið kurteisishjal að ræða. Leiðsögumennirnir voru báðir miklir útivistarjaxlar og voru afar spenntir fyrir þeim möguleikum sem bjóðast heima til að kynnast náttúrunni í sinni hráustu mynd. Það var afar gaman að finna hversu mikill þessi áhugi er og það kom mér á óvart að allir þeir sem við töluðum eitthvað við af ráði voru svo fíknir í klakann sem raun ber vitni.

Lyndsey, pabbi hennar og Hlynur lögmaðurÞriðji aðilinn, Lyndsay frá Ohio í Bandaríkjunum (mig minnir að það sé rétta fylkið) var reyndar í öðrum klassa en þessir tveir áðurnefndum félagar því fyrsta orðið sem ég heyrði hana segja var Sturlungasaga! Þá kemur í ljós að hún er að kynna sér gamla sagnaarfinn okkar meðan hún stundar laganám í Bretlandi. Og gott ef hún er ekki líka að rýna í íslenskuna okkar líka :) Þessi bandaríska freyja vissi nefi sínu lengra þegar kom að Íslandi og hún trompaði leiðsögumennina í öllum deildum því hún hefur þegar komið á Frónið góða. Þetta er lítill heimur og býsna skemmtilegur. Maður fer í hjólatúr um París og hittir fullt af Íslandsvinum ... getur þetta gerst einhvers staðar annars staðar en í Frakklandi?

Hlynur lögmaður - fer hann yfir?Á morgun er svo komið að erindi ferðarinnar, en þá byrjar Blizzard Worldwide Invitational 2008 Nerd Fest. Við félagarnir erum s.s. hingað komnir til að berja Starcraft 2 eigin augum og þegar þessi orð eru skrifuð eru átta tímar uns nördunum verður hleypt að miðaafgreiðslunni. Ég vona að mér gefist ráðrúm á morgun til að setja nokkrar línur inn á bloggið, en það verður að mæta afgangi.

En taro adun!

To Lyndsay: If you are reading this, it means you did Google your name and Sturlungasaga :) Welcome to my blog! I hope you will keep on reading the old sagas, study Icelandic and visit us often. Remember, Icelanders love when foreigners know something about our country so it'll not be a surprise if we award you The Great and Magnificent Medal of Knowledge of All Things Icelandic or something like that for your extensive knowledge of ... well, all things Icelandic! Take care and remember ... 'Sturlungasaga' is a magical word in Iceland!!! :) Use it sparingly and wisely!

Af hlandsprengdum og villuráfandi sauð

Já, svona skulu þær vera!Sorglegt er að sjá hvernig Jón Valur heggur enn í sömu knérunn í nýjustu blogg-grein sinni, Falskenning til að réttlæta ranglæti gagnvart börnum, þar sem hann finnur fordómum sínum gagnvart einhleypum konum og lesbíum farveg. Það sést glögglega að hann klæðir þessa fordóma sína í búning kristninnar af því að hann skilgreinir andstæðinga sína í málinu sem 'rangtrúaða og andkristna'. Það virðist vera að ófáar konur séu óalandi og óferjandi í augum Jóns Vals sem einn virðist hafa réttan skilning á eðli allra mála og sem einn er blessaður með þeirri náðargáfu að hafa ávallt rétt fyrir sér. En virðing og gæska virðast naumt skammtaðar ef dæma má af þessum orðum prédikarans:

Myndi þetta fólk, sem samdi og samþykkti lögin fyrir þær einhleypu og lesbíurnar, ...


Úff, 'þær einhleypu og lesbíurnar', þessar konur sem enga náð hljóta fyrir augum hins réttsýna. Hvað vilja þessar fraukur eiginlega upp á dekk? Þekkja þær ekki sinn stað í gangverki lífsins? Hann tilgreinir einnig femínista og meinta offorsstefnu þeirra og gefur augsýnilega lítið fyrir hvort tveggja. Þá virðast 'viðhlæjendur' femínista ekki hótinu skárri pappírar en þær sjálfar. Æi, þessar konur, alltaf eitthvað að derra sig.

Nú þykist ég vita að Jón Valur telji mig á villigötum, enda er ég forhertur villutrúarseggur. Hann mun áminna mig um að hann sé ekki á móti konum heldur sé hann að standa vörð um rétt barnanna. Hann hreinlega elski lesbíur en leggi fæð á syndugt líferni þeirra! Jón Valur hefur oft mælt fyrir rétti barna sem fæðast í þennan heim með þyngri bagga á herðum en föðurleysi. Þannig er hann andvígur fóstureyðingum, en fyllilega fylgjandi fósturforvörnum. Og þó ekki ... við verðum að muna eftir óláns smokknum, því illa vélabragði Belsebúbbs! Norður og niður fari það lævísa apparat sem tálmar krossför hins heilaga sæðis karlsins í atlögu sinni að skauti konunnar. Svo vill Jón Valur spyrja þingmennina sem sömdu 'einhleyprakellingaoglesbíu'-lögin hvort þeir myndu vilja hafa fæðst föðurlausir, en ef við lifðum skv. lögmáli Jóns Vals væri ekki einu sinni hægt að spyrja suma þessarar spurningar, þ.e. föðurlausu eymingjana sem engan tilverurétt eiga í heimsmynd hans.

En hvað veldur þessu ókristilega viðhorfi séra Jóns Vals? Hvað veldur þessum eilífðar hlandspreng sem iðulega virðist plaga hann þegar málefni kvenna ber á góma? Getur verið að þegar konur standa ekki við eldavélina berfættar og barnþungar, réttilega og kyrfilega þungaðar af húsbónda sínum og herra, þá séu þær bara ekki alveg eins mikils virði og við karlar? Er ekki bara árans ónæði af þessum kellingum þegar þær eru að ybba gogg?

Já, þessar bévítans kellingar og þetta endalausa réttindaraus þeirra! Hvenær tekur það enda!?!


Til hamingju, einhleypar konur!

Samþykkt lög um tæknifrjóvgun ...Mikið hagsmunamál er nú höfn. Rétt í þessu var frumvarp til laga um rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar samþykkt á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað sérkafli að árið 2008 skuli einhleypar konur þurfa lagasetningu til að ná fram þessum eðlilega og náttúrulega rétti sínum til barneigna en aðalmálið nú er þó að það er að baki.

Í aðdraganda málsins komu út úr tréverkinu kredduseggir og úrtölufólk sem getur ekki unnt einhleypum konum þess að geta notið þessa réttar síns. Sem betur fer var yfirgnæfandi meirihluti þingheims á því að hafa þessar ólánsraddir að engu og naut þetta góða mál stuðnings 53 þingmanna.

Ágætu konur! Nú er ekkert annað eftir en að nýta sumarið vel, halda kasóléttar upp á næstu jól og koma svo með fullt af nýjum Íslendingum þegar nær dregur nýju vori! :)

Enn og aftur, til hamingju!!!


mbl.is Þingi frestað fram í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðadagar í Bláfjöllum!

Hnattræn hlýnunÞeir sem eru á mínum aldri, 40plús, geta auðveldlega greint hlýnun hérlendis með því að bera saman fjölda skíðadaga í Bláfjöllum nú og fyrir 25 árum síðan. Í denntíð var stöðugur straumum af rútum frá Reykjavík upp í Bláfjöll og gátu skíðamenn rennt allan liðlangan daginn, alla daga (eða þannig). Í dag er öldin önnur. Nú heyrir það til undantekninga ef opið er í Bláfjöllum og iðulega standa steinnibburnar upp úr grunnri fönninni.

Hlýnun? Kólnun? Óbreytt ástand? Hvað heldur þú?


mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundrað milljónum vel varið, ó já!

Innrás!!! Gott að við höfum Frakkana!!!Rétt í þessu heyrði ég, í fréttum Stöðvar 2, að það kostar okkur 100 milljónir króna að fá þessa flugsveit til þess að verja okkur, í sex vikur, fyrir þeim sífelldu árásum sem við verðum daglangt fyrir. Ég var einmitt svo hræddur um að nú næðu óvildarmenn Íslands að ráðast á okkur án fyrirstöðu, en þeir verða altént að slá þeim áformum sínum á frest í sex vikur! Frábært!!! Rosalega er ég feginn, og þó. Innrásarliðið kemur þá upp úr miðjum júní, sem er auðvitað pirrandi því þá ætlaði ég að ganga sem aldrei fyrr. Það verður auðvitað frekar ömurlegt og geggt glatað að verða fyrir innrás í júní. Mín fyrrverandi á líka afmæli þá og ég óska henni ekki þess að halda upp á þann ágæta viðburð undir járnhamri innrásarliðs. Kannski verður þetta ömurlega leiðinlegt innrásarlið sem tekur ekkert tillit til fólks sem vill ganga eða halda upp á afmælið sitt! Væri það ekki enn meira glatað?

Því spyr ég, getum við ekki bara borgað 300-400 milljónir í viðbót (hálfur milljarður er reyndar svolítið flott tala) og verið þannig örugg gegn innrás í allt sumar? Ég held að verðbólgupínd alþýðan kynni nú að meta slíkt úr hendi ríkisstjórnarinnar. Það er svo fúlt að vera hernuminn að sumri til, en ekki svo mikið um haust. Hvað þá vetur! Það er bara fínt að vera hernuminn að vetri til, maður gerir hvort eð er ekki neitt. En ekki að sumarlagi!

Plís!!! Ekki láta gera innrás í sumar!!! Það er svo ömurlegt!!! Fáum Frakkana til að vera lengur!!! Gera menn sér enga grein fyrir því hvað íslenska sumarið er stutt og sjaldgæft? Við hættum bara að verða veik á meðan, þá er hægt að taka þennan hálfa milljarð af framlagi til heilbrigðismála. Svo má líka taka fjórar milljónirnar sem ríkisstjórnin setti í baráttuna gegn verðbólgunni. Þær myndu kaupa þjónustu Frakkana í 1,7 daga! Við værum örugg þá! Það væri fínt að fá flugsveitina yfir helgi til að verja okkur.

Svo eru þoturnar líka svo flottar! Grrrrrrrrrrrrrrr!!!


mbl.is Sjónarspil í háloftunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofnotkun og röng notkun sýklalyfja

SýklarÞetta er stórt vandamál í dag og verður risavaxið vandamál í framtíðinni. Í fangelsum í Rússlandi eru löngu komnar fram tegundir af berklum sem engin lækning er við og eru aðrar sýkingar að bætast í þann flokk. Í þætti á BBC World Service heyrði ég að þetta sé, að hluta til, tilkomið vegna

  • ofnotkunar á sýklalyfjum
  • rangrar notkunar á sýklalyfjum

Börn í dag mega varla fá nefrennsli án þess að í þau sé sprautað eða troðið sýklalyfjum. Það eitt og sér er ekki aðalvandamálið heldur það að þessar sýkingar hafa í langflestum tilfellum ákveðinn líftíma. Börnin fá sýklalyf sem ætluð eru til notkunar í viku eða álíka. Tveimur dögum eftir að byrjað er að nota sýklalyfin fer börnunum að batna og þá er noktun lyfjanna hætt. Þar liggja mistökin því þannig öðlast sýklarnir ónæmi fyrir lyfjunum.

Á fyrstu 2-3 dögunum drepa lyfin veikustu sýklana meðan þeir harðgerari finna fyrir verkun lyfsins og aðlaga sig aðeins að því. Þegar notkun lyfsins er hætt eru veiku sýklarnir dauðir, en þeir harðgerari lifa eftir, ögn betur í stakk búnir til þess að lifa næsta lyfjagjöf af. Þannig styrkjast sýklarnir smátt og smátt gagnvart notkun lyfjanna uns kemur að því að þau hætta alveg að bíta á þá. Þetta er þróun í sinni allra smæstu og tærustu mynd; hæfustu sýklarnir lifa, styrkjast og dafna meðan veikari afbrigði deyja og hverfa.

Í þættinum á BBC World Service var fólk hvatt til að íhuga vel hvort nauðsyn sé á að nota sýklalyf. Það að barn sé með nefrennsli eða smá hósta réttlætir ekki alltaf slíkt inngrip. Ef hins vegar það er valið að nota sýklalyf, skal gæta þess að klára meðferðina því þannig aukast líkurnar á því að allir óæskilegu sýklarnir drepist, ekki bara þeir veiku.


mbl.is Þróun ónæmis gegn sýklalyfjum hafin hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínlítrinn á 250 kall!

OrkaOrkumálaráðherra Qatar lætur hafa eftir sér að ekki sé útilokað að olíufatið fari á $200 fyrir lok þessa árs. Slíkt myndi gera það að verkum að bensínlítrinn færi í 250 krónur hérlendis. Þetta ætti, fyrir utan alla aðra áhrifaþætti, að reka stjórnvöld og málsmetandi menn hérlendis til þess að íhuga aðrar leiðir í orkumálum fyrir landann.

Við höfum nokkrar leiðir og allar góðar:

  • rafmagn
  • vetni
  • metan

Rafmagn
Það eru gömul sannindi og ný að nú eru til rafmagnsbílar sem myndu henta landanum prýðilega. Góð reynsla er af hinum norska Think City sem frændur vorir nýta sér í æ ríkari mæli innanbæjar. Þegar ég var í Osló nýverið sá ég þessa smáu og lipru bíla þeytast um í umferðinni, hljóðláta og lausa við mengun. Ef einhver þjóð á að geta nýtt sér rafmagn þá er það sú íslenska.

Vetni
Þróun vetnisbíla er komin það langt á veg að þeir eru að verða tilbúnir til fjöldaframleiðslu og sölu. Íslendingar hafa barið sér á brjóst og bent á þessa einu áfyllingarstöð sem er að finna hér, en betur má ef duga skal. Það þarf að setja upp net vetnisstöðva þannig að það sé raunhæft fyrir almenning að kaupa slíka bíla. Stjórnvöld þurfa að koma að því máli með ívilnunum og styrkjum, enda er þetta þjóðþrifamál.
Hvað varðar framleiðslu vetnisins þá gerum við það með því að virkja í Breiðafirði. Þar býr gríðarlega mikil orka í sjávarföllunum, en sá galli er á gjöf Njarðar að flæði hennar er óstöðugt, enda fylgir það flóði og fjöru. Þá er besta leiðin í stöðunni að forða orkunni sem virkjuð er í vetnisformi. Þannig ætti að myndast nægt framboð vetnis til innanlandsnotkunar auk þess sem hægt væri að flytja út grænasta vetni í heimi, auðvitað í vetnisknúðum flutningaskipum.
Helsti gallinn við vetni er sá að nokkur hluti orkunnar fer forgörðum þegar rafmagni er snúið yfir í vetnið. Hins vegar má reikna með því að hægt verði að ráða einhverja bót á því í framtíðinni. Það sem eftir stendur er að við erum með orku sem daglega fer í súginn; orku sem er sú grænasta og besta sem völ er á. Það er betra að forða henni í vetni í stað þess að láta hana renna út í sandinn, í orðanna fyllstu merkingu.

Metan
Hvernig þætti þér, lesandi góður, að borga 84 krónur fyrir bensínlítrann í dag? Það er það verð sem eigendur metan-knúinna bíla eru að borga í dag. Að eiga og reka metanbíl hlýtur að vera eins og keyra um á tímavél, í hverri þú ferðast langt aftur í tímann í hvert skipti sem þú fyllir á - til tíma þar sem bensín var á skikkanlegu verði. Þá er metan vænn kostur fyrir náttúruna 113 metanbílar menga eins og einn bensínbíll!
Úr sorphaugunum í Álfsnesi er hægt að vinna nægjanlega mikið metan-gas árlega til að knýja um 4 þúsund bíla. Það munar um minna! Auðveldlega er hægt að auka þessa framleiðslu, ef vilji er fyrir hendi. Nánari upplýsingar má finna á metan.is.

Er þetta er draumur sérhvers Íslendings? Að við getum orðið sjálfstæð í orkumálum og séum ekki háð fáránlegum sveiflum í orkuverði á erlendum mörkuðum? Búum við ekki best í haginn fyrir börnin okkar með því að grípa til aðgerða strax í dag og vinna að því að gera þessa drauma að veruleika. Í besta falli gengur allt upp og við lifum hamingjusöm um aldur og ævi og í versta falli losnum við við trukkabílstjórana af götunum.

Það er til nokkurs að vinna!


Menning, menning, menning

Willard WhiteFramhald varð á menningar innrætingu Búrans í gærkvöldi þegar Eydís, bekkjarsystur úr HR og ferðafélagi til Egyptalands, bauð honum að heyra og sjá Sir Willard White í Óperunni. Sá ágæti náungi er einn mesti strigabassi sem búrinn hefur í heyrt og söng eins og dimmraddaður spörfugl. Dagskráin var helguð lífshlaupi Paul Robeson, en sá var afar snjall listamaður og mikill mannréttindafrömuður. Umgjörðin var einföld og stílhrein; söngvarinn á sviði með tveimur tónlistarmönnum, annar hverra gegndi einnig hlutverki sögumanns. Sýningin leið vel áfram og tveir tímar runnu hjá ljúflega, jafnvel þótt gumpurinn hvíldi í einum hörðustu sætum sem um getur.

Því var þetta kvöld allt hið besta og hafði búrinn mikið gaman af. Vatnið holar steininn og svona menningardropar munu kannski verða til þess að á endanum kemst smá menning í búrann. Annað eins hefur nú gerst!

PS. Það var gaman að koma í Gamla bíó eftir áratuga fjarveru. Búrinn rifjaði upp góðar stundir á svölunum þegar poppi og öðru lauslegu var látið rigna yfir bíógesti á gólfinu, öllum til ómældrar gleði. Ekki varð þess vart að stúkugestir héldu þennan sið þetta kvöld, en hver veit nema einn og einn hafi látið eitthvað smálegt gossa niður? Vonandi!!!


Flott forgangsröðun

Stop!Í fréttum á Stöð 2 rétt í þessu var talað um aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni og ég hélt að ég hefði heyrt vitlaust þegar talað var um að hún ætlar að leggja til fjórar milljónir í þetta verkefni. Ég var svo handviss um að þetta ættu auðvitað að vera fjórir milljarðar!

En svo kemur í ljós að milljónirnar eru fjórar og virðist sú upphæð vera góður mælikvarði á það hversu mikið vor ágæta ríkisstjórn beitir sér í þessu máli. Til gamans birt ég hér vefslóð sem sýnir nokkra útgjaldaliði í frumvarpi að fjárlögum ríkisins árið 2008. Þar sést að þessi upphæð er harla lítilvæg þegar hún er borin saman við úthlutun til margra verkefna. Ég er ekki að draga úr mikilvægi þeirra verkefna, síður en svo, en baráttan við verðbólguna hlýtur að vera mikilvægari en margvísleg safnavinna.

3. umræða - Séryfirlit 2: Sundurliðun óskiptra liða í A-hluta

Það er pínlegt að sjá hvað mínir menn í ríkisstjórn draga lappirnar. Geir Haarde virðist gefa sér meiri tíma í að koma fram í fjölmiðlum og verja aðgerðarleysið í stað þess að gera eitthvað markvert. Vera má að þetta sé hluti af snilldarlegri aðgerðaáætlun gegn verðbólgunni, en það mætti þá upplýsa pöpulinn um hvað sé í gangi.

Fjórar milljónir. Þokkalegur ráðherrabíll kostar meira en það.

Er þetta forgangsröðunin?


mbl.is 4 milljónir í aðgerðir vegna verðbólgunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Missa solemnis

Það kæmi mér ekki á óvart þótt bestvinur minn og ungfrú góð, Hlynur Halldórsson, hafi einhvern tíma samið 'manifesto' fyrir sjálfan sig og í því sé m.a. að finna eftirfarandi yfirlýsingu:

Ég, Hlynur Halldórsson, mun ekki linna látum fyrr en ég hefi komið örlítilli menningu í búrann Ólaf Jón Jónsson. Ég mun beita margvíslegum brögðum til að ná þessu markmiði mínu. Ég mun ekki láta tómlegt blikið í augum búrans letja mig á nokkurn hátt!

BeethovenÞetta virðist vera undirrót þess að endrum og sinnum býður þessi höfðingi mér á tónleika Sinfóníunnar og nú síðast í kvöld, en þá fórum við að njóta Missa solemnis eftir Beethoven. Með Sinfóníunni söng Óperukórinn sem og fjórir einsöngvarar. Ashkenazy stjórnaði með miklum tilþrifum og það var gaman að sjá hann þeytast um pallinn!

Verkið er afar fallegt og áhugavert. Ágæt sýningarskrá gerði svo upplifunina enn ánægjulegri með því að kynna stuttlega tilurð þess og sögu. Ég hvet lysthafendur til þess að smella á krækjuna hér að ofan og kynna sér sögu verksins, en hún er löng og áhugaverð.

Nokkrum árangri var náð í kvöld, en ekki er HLH öfundsverður af þessu brölti. Hins vegar skora ég á hann að láta ekki deigan síga; jafnvel hinir mestu búrar eiga sér nokkurrar viðreisnar von!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband