Mittismálið og systurnar í Saumastofunni

NálEinhvern veginn virðist alltaf auðveldara að fjasa um það sem illa er gert eða það sem aflaga fer. Glaðhlökkunin í okkur er slík að við getum yljað okkur endalaust við slíkar vangaveltur og haft mikið gaman af. Nú ætla ég að gera breytingu á og tala um frábærar systur í Faxafeninu sem hafa vakandi auga með mittismáli mínu.

Reglulega fer ég með föt í þrengingu eða styttingu í Saumastofuna, Faxafeni, þar sem systurnar Súsanna og Lára ráða ríkjum. Þessar yndislegu konur taka mér alltaf fagnandi, eru eldsnöggar og fumlausar í sínum vinnubrögðum og taka ekki mikið fyrir. Mér líður alltaf vel eftir stutta heimsókn þar sem ég afhendi eða tek á móti fötum. Svo er það þannig að þær systur þekkja líklega best mittismál mitt hverju sinni, enda heimsæki ég þær um leið og einhver breyting verður þar á. Fyrir gamlan og ósveigjanlegan skarf er alltaf gott að koma þar sem hann þekkir til :)

Buxurnar mínar ganga í endurnýjun lífdaga eftir að systurnar hafa farið höndum um þær. Þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki sá sveigjanlegasti í háttum og því gleður það mig óendanlega mikið að geta gengið sem lengst í sömu buxunum. Enda má spyrja hvort eitthvað sé þægilegra í þessum heimi en að smeygja sér í föt sem bara passa? Ég held ekki.

En fyrir utan öll þægindi þá eru heimsóknir til systranna eitt besta sparnaðarráð sem hægt er að finna á þessum síðustu og verstu tímum. Gjaldskrá þeirra er hófleg, jafnvel svo að furðu sætir, og í raun ekki í takti við þá frábæru þjónustu sem þær veita. Það er því ráð að taka fram gömlu uppáhalds flíkina sem hefur verið á bekknum um stund vegna þess að hún passar illa eða er rifin. Ég er næsta viss um að Saumastofusystur geti blásið í hana lífi fljótt og örugglega. Ef ekki, þá átti hún sér ekki viðreisnar von hvort eð er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gott mál ( mittismál )

sendi kveðjur góðar

Ásta Birna 1.10.2008 kl. 11:50

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þú ert nú ekkert svo gamall...skarfur.

Markús frá Djúpalæk, 2.10.2008 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband