Færsluflokkur: Bloggar

Al Gore

Al GoreÍ morgun naut ég þeirra forréttinda að sitja við fótskör meistara Al Gore og hlusta á það hörmungaerindi sem hann flytur allri heimsbyggð. Ég bauð mömmu í bíó hér í denn þegar myndin An Inconvenient Truth var sýnd og var um sama fyrirlestur að ræða í grunninum, en hann hafði þó tekið nokkrum breytingum. Ég er Glitni þakklátur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að mæta á fyrirlesturinn. Of oft eru svona gestir fráteknir fyrir aðra en sauðsvartan pöpulinn, en að þessu sinni fengu allir jafna möguleika.

Al Gore er frábær ræðuskörungur. Hann kom efninu fumlaust og skýrt frá sér og fléttaði snilldar vel saman máli og myndum. Ég fann að hann átti stóran hóp skoðanasystkina í sætum Háskólabíós, enda var snillingnum klappað lof í lófa þegar hann lauk tölu sinni. Framsetningin er líka sláandi. Bornar eru saman ljósmyndir af jöklum sem teknar eru með 25 ára millibili; á þeim fyrri eru jöklar, á þeim seinni nakið berg eða stöðuvötn. Loftmyndaröð af Larsen B ísflæminu sem sýndi hvernig hún liðaðist í sundur á nokkrum dögum. Vísindamenn höfðu áður áætlað að hún myndi halda saman í allt að 100 ár. Niðurstöður mælinga sem sýna óþekktar stærðir í magni kolefnis í andrúmsloftinu. Aukin tíðni hvers kyns hamfara; fellibylja, flóða og skógarelda. Skeytingarleysi og afneitun alríkisstjórnvalda í Bandaríkjunum. Útbreiðsla hvers konar óværu og sjúkdóma með meiri hlýnun. Af nógu er að taka, upptalningin er ömurleg.

Auðvitað er málflutningur Al Gore umdeildur. Margir sjá ofsjónum yfir því hvað hann hefur fram að færa og í hvaða búning hann setur hlutina. Ég varð eiginlega hálf spældur yfir því að sjá ekki Jón Glúm Baldvinsson hlaupa upp á svið og tækla kallinn; það hefði gert góðan fund enn eftirminnilegri. Sjálfur hef ég fulla trú á því að Gore byggi fyrirlestur sinn á bestu fáanlegu gögnum og því gefi þetta nokkuð raunsanna mynd.

Hins vegar er hægt að leika sér að þeirri hugmynd að kallinn bæti aðeins í og máli hlutina með ögn dekkri litum en raunverulega þarf, eins og margir segja hann gera. Þá spyr ég mig hvernig yrði ef hægt væri að deila í það sem Gore var að lýsa með tveimur? Þremur? Eða fimm? Hvað ef aðeins fimmtungur þess sem hann lýsti í morgun gengi eftir? Í mínum huga er það engu að síður næg ástæða til þess að við grípum hart inn í. Gore segir að 25 milljón tonn af kolefni fari í sjóinn daglega. Ef þau eru ekki nema fimm milljónir, veitir það okkur rétt til að slá slöku við og gera ekki neitt? Sjórinn verður þá bara fimm sinnum lengur að breytast í sýrubað, en það gerist á endanum. Gore segir að daglega fari um 70 milljón tonn af kolefni út í andrúmsloftið. Væri það ásættanlegt ef þetta væru bara um 15 milljónir tonna?

Við höfum ekki efni á því að bíða. Það er margt sem einstaklingurinn getur gert sem skiptir máli. Endurvinnum dagblöð, fernur, gosflöskur og dósir. Látum einn plastpoka nægja í stað tveggja þegar við verslum. Skiptum út ljósaperum og notum umhverfisvænar perur. Lesum skjöl af skjánum í vinnunni í stað þess að prenta allt á pappír. Ef við prentum eitthvað, endurvinnum þá pappírinn. Þeir sem eru komnir með bláu tunnuna frá Reykjavíkurborg eiga að skila henni strax og fá í staðinn Endurvinnslutunnuna frá Gámaþjónustunni, hún er margfalt betri og notadrýgri. Gerum umhverfisvænt ennþá vænna. Veljum hvítt, ef við höfum ekki skoðun á litnum. Kolefnisjöfnum! Hættum að ræsta fram mýrar landsins. Notum svo metan-gasið sem Sorpa getur framleitt í magni til að knýja bílana okkar og drífum í alvöru vetnisvæðingu. Látum börnin okkar, þegar þau hafa aldur og þroska til, taka strætó í stað þess að skutla þeim út um allt. Þetta og miklu meira til er hægt að gera án þess að gera neinar stórvægilegar breytingar á lífsstíl eða venjum.

Þetta skiptir allt máli.

Það er við hæfi að enda þetta á tilvitnun í Winston Churchill, en hann var í miklu uppáhaldi hjá pabba mínum. Þessi orð lét hann falla þegar hann sá fyrir yfirgang nasista í Evrópu meðan flestir aðrir skelltu við skollaeyrum:

"The era of procrastination, of half-measures, of soothing and baffling expedients, of delays, is coming to its close.  In its place we are entering a period of consequences."

Málið er að við sem nú erum á fullorðins aldri töpum ekki miklu á því að bíða og gera ekki neitt. Þeim mun meir mun það hins vegar bitna á börnunum okkar!


Halo 3

Halo 3Tölvuleikurinn Halo 3 náði 300 milljón dala sölu fyrstu vikuna sem hann bauðst trylltum spilurum. Annað eins þekkist varla og er aðeins hægt að horfa til vinsælustu kvikmyndar þessa árs, Spider-Man 3, til að finna álíka tölur í afþreyingariðnaðinum. Leikurinn tók inn 170 milljón dala fyrsta daginn í Bandaríkjunum sem hann var í sölu samanborið við 104 milljón dala tekjur af Spider-Man 3 á heimsvísu. Stærstu tölvuleikir dagsins í dag eru framleiddir og markaðssettir nákvæmlega eins og kvikmyndir enda þarf ekki skoða grannt til að finna líkindi þar á milli. Háum fjárhæðum er nú varið í þróun og framleiðslu leikjanna sem skilar sér í mun betri og magnaðri upplifun fyrir spilara.

Skrifari veðjar á að það líði ekki á löngu uns tölvuleikur verði vinsælasta vara afþreyingariðnaðarins og slái út allar þær kvikmyndir sem nú tróna á toppnum. Gagnvirk upplifun í góðum tölvuleik jafnast fyllilega á við að horfa á góða kvikmynd og því er þessi þróun í raun óumflýjanleg.

Game on!


Fjörutíu og níu mínútur

FjallamaðurÍ dag náði ég mínum besta árangri á Esjunni hingað til þegar ég rölti, másandi og masandi, upp í fjórðu stiku á rétt innan við 49 mínútum. Hið gamla markmið mitt, að ná þangað á 45 mínútum, er innan seilingar og vonast ég eftir að ná því fyrir mánaðamótin. Þá tekur við spurning hvort ég haldi áfram að reyna við fjórðu stiku eða hvort ég hækki mig um eina. Hvort tveggja hefur sína kosti og galla ... ég spái í þetta áfram uns 45 mínútna markinu er náð. Ég hvíli fram á þriðjudag og fer þá.

Urð og grjót ...


Fimmtíu mínútur

Mánuðurinn í tölumÍ kvöld náði ég mánaðar gömlu markmiði þar ég einsetti mér að fara upp að vegstiku 4 á Esjunni á 50 mínútum eða skemur fyrir lok júlí. Nú liggur fyrir að fara þessa sömu leið á 45 mínútum eða skemur fyrir miðjan ágúst sem ég vona að náist.

Göngustígarnir á fjallinu voru illa farnir eftir úrhellið um daginn. Yfirlag hafði sópast af stígnum á mörgum stöðum og vatnið hafði skorið djúpar rákir þar sem það rann ólgandi niður hlíðarnar. Vinnufólk á fjalli á framundan margar hjólböruferðir með möl til að bæta skaðann.

Ég mun veifa þeim þegar ég fer hjá!


Myndavél sem grennir

Grennri og flottari!Á vafri um vefinn fann ég lýsingu á nýrri myndavél frá HP, R937. Þetta er afar glæsileg vél og virðist helsti kostur hennar liggja í því að á henni er 3,6" snertiskjár sem þekur allt bak vélarinnar. Þegar ég las mig betur til um eiginleika vélarinnar rak ég fljótt augun í það að með henni er hægt að grenna viðfangsefni hennar. Já, það er komin myndavél sem grennir það sem hún fangar!

Áhugasamir geta kynnt sér þessa stórmerku nýjung í ljósmyndaheiminum með því að smella hér. Héðan í frá þarf ekki að bíða uns ljósmyndin er komin í tölvu og Photoshop til að "gera lítið" úr myndefninu, nú er hægt að ganga frá því strax í vélinni. Nú geta allir virst þvengmjóir og glæsilegir nokkrum sekúndum eftir myndatökuna. Nú verður gaman að lifa!


Kæfisvefn

SvefnvanaÉg hef ekki grun um hvað hefur gerst þarna og mun því ekki tjá mig um það. Hvernig sem allt veltur er það grafalvarlegt ef fólk er að sofna eða dotta undir stýri. Mitt innlegg í umræðuna er að benda á kæfisvefn sem mögulega orsök, en þetta er vandamál sem hrjáir býsna marga. Það leiðir af sjálfu sér að eitthvað hlýtur að gefa eftir ef fólk fær ekki eðlilega hvíld í svefni.

Áhugasamir geta kynnt sér prýðilega grein um þetta ástand á doktor.is. Ég hvet loks alla þá sem finna fyrir þrálátri dagsyfju að hyggja að kæfisvefni sem orsök. Það er nokk auðvelt að greina hana og meðhöndla.


mbl.is Dottaði undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf ábending

GlugginnÉg var í boði áðan og tók þar nokkrar ljósmyndir sem ekki er í frásögu færandi. Myndavélin er iðulega nálæg, enda ómissandi hluti af daglegum farangri mínum. Málið er að ég smellti af nokkrum myndum eins og ég geri iðulega og líklega eru margar þeirra alveg prýðilega. Punkturinn er hins vegar sá að meðal gesta í boðinu var einn fremsti ljósmyndari sem lýðveldið hefur alið og kom hann að máli við mig þegar ég var að fara. Hann benti mér afar kurteisislega á það að maður verður að sýna verkfærinu og iðninni þá lágmarks virðingu sem tilheyrir. Í mínu tilfelli líkaði honum það ekki að ég tók nokkrar myndir án þess að líta í gegnum glugga myndavélarinnar. "Maður á að líta í gegnum vélina og bíða eftir rétta andartakinu", sagði þessi snillingur.

Málið er að þetta er auðvitað laukrétt. Engin stórkostleg uppgötvun eða ný sannindi. Aðeins ábending varðandi grunnatriði sem maður hefur ekki í raun hugað mikið að, líklega vegna þess að maður kemur á ská inn í ljósmyndunina eins og laumufarþegi sem læðist um borð í skjóli nætur.

Gætum að grunninum í öllu því sem við gerum. Ef grunnurinn er réttur verður yfirbyggingin yfirleitt góð. Í framtíðinni mun ég altént gæta að því að horfa í gegnum vélina þegar ég tek myndir og virða þannig þetta verkfæri eins og vera ber.


BBC World Service

BBC World ServiceUndanfarin tvö ár hef ég nær einungis hlustað á BBC World Service fyrir utan stutta hörmungartíð þegar rof varð á endurvarpi hennar hérlendis. Þar er að finna fjölbreytta og afar vandaða umfjöllun um margvíslegustu málefni.

Hvern einasta dag síðan Alan Johnston, fréttaritara BBC á Gaza-svæðinu, var numinn á brott hefur BBC World Service fjallað um hann og haldið máli hans á lofti. Umræðan hefur verið hófstillt og málefnaleg og hefur farið um völlinn víðan og endilangan. Ég hygg að það sé ekki síst þessari þrautseigju að þakka að þessi árangur skuli vera að nást.

Ég hvet alla til að stilla á FM 94,3 (í Reykjavík) og hlusta á útvarp eins og það verður best. BBC World Service heldur einnig úti einum besta fréttavef sem í boði er, slóðin að honum er bbc.co.uk/worldservice.


mbl.is Fulltrúi Hamas heitir lausn Johnstons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak!

Ekkert að borga!Þetta útspil Reykjavíkurborgar er gott veganesti á þeirri vegferð sem fara þarf til að draga úr mengun í borginni. Það er ánægjulegt að í stað þess að hækka álögur á mengunarvalda skuli vera farið í þveröfuga átt; þeir sem menga minna finna fyrir því í buddunni. Það er svo sem ekkert að því að setja á mengunarskatta, en þetta er skemmtileg nýbreytni.

Nú þarf að draga vagninn enn lengra áfram. Fjölga þarf vistvænum bílum og nýta það eldsneyti sem við eigum hér innanlands, metan-gasið góða. Þar er að finna eldsneytisforða sem nægt gæti til að knýja nokkur þúsund bíla án nokkurrar aukamengunar. Hugsum djarft þegar kemur að vetnisvæðingu, við getum orðið Kuwait norðursins.

Í dag skal hugað að framtíð meðan góðum verkum í nútíð er fagnað!


mbl.is Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri rétturinn

Það er vel að þessar öldur, koddar, eyru og hausar skuli vera líta dagsins ljós og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar mætti bæta um betur og afnema "hægri réttinn" því hann hefur ekkert gott í för með sér.

Ég nefni tvær götur í Reykjavík þar sem þessi ófögnuður ræður ríkjum, en það eru Engjasel og Langirimi. Þegar keyrt er um þessar slóðir eru ökumenn í stöðugri hættu með að það skjótist í veg fyrir þá ökumaður sem telur sig eiga fullan rétt (sem hann og á, því miður). Þarna mætast voldugar aðalgötur og aumir hliðarvegir og aumi hliðarvegurinn á réttinn. Mig hefur lengi undrað það að þarna skuli til þess bærir menn hafa ákveðið að setja EKKI biðskyldumerki á hliðargöturnar. Það er óskiljanleg ráðstöfun sem þarfnast rökstuðnings.

Ég skora á valdhafandi aðila í umferðarmálum að eyða hægri réttinum með því að setja biðskyldumerki á hliðargöturnar. Það getur ekki talist snjallt eða heppilegt að vera með svona fáránlegar undantekningar frá meginreglunni. Það vita allir hvenær þeir eru að fara um aðalgötu eða koma af hliðargötu og svo lengi sem maður sér ekki bið- eða stöðvunarskyldumerki á maður að eiga réttinn. Með hægri réttinum er nagandi réttaróvissa í allri umferð af því að hann er fáránleg ráðstöfun í annars mjög rökvísu og góðu reglukerfi umferðarinnar.

Áhugavert væri að sjá staðtölur um slys á gatnamótum þar sem frumskógarlögmál hægri réttarins blívur. Mig grunar að það sé sorgleg lesning!


mbl.is Öldur, koddar, eyru og hausar fyrir 52 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband