Til hamingju, einhleypar konur!

Samþykkt lög um tæknifrjóvgun ...Mikið hagsmunamál er nú höfn. Rétt í þessu var frumvarp til laga um rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar samþykkt á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað sérkafli að árið 2008 skuli einhleypar konur þurfa lagasetningu til að ná fram þessum eðlilega og náttúrulega rétti sínum til barneigna en aðalmálið nú er þó að það er að baki.

Í aðdraganda málsins komu út úr tréverkinu kredduseggir og úrtölufólk sem getur ekki unnt einhleypum konum þess að geta notið þessa réttar síns. Sem betur fer var yfirgnæfandi meirihluti þingheims á því að hafa þessar ólánsraddir að engu og naut þetta góða mál stuðnings 53 þingmanna.

Ágætu konur! Nú er ekkert annað eftir en að nýta sumarið vel, halda kasóléttar upp á næstu jól og koma svo með fullt af nýjum Íslendingum þegar nær dregur nýju vori! :)

Enn og aftur, til hamingju!!!


mbl.is Þingi frestað fram í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá er bara næst að lögleiða ættleiðingu barna fyrir einstæða karlmenn ekki satt?

Steini 30.5.2008 kl. 14:43

2 Smámynd: Óli Jón

Ég er algjörlega sammála. Auðvitað eiga einhleypir karlar rétt á því að eignast börn eins og einhleypar konur, en líffræðilega eru þeir ekki eins vel til þess fallnir og þarf ekki mikla snillinga til að greina í hverju munurinn liggur. Þá er ættleiðing auðvitað besti, og í raun eini kosturinn.

Ég vona að skrifari hafi ekki ekki átt von á öðru svari en þessu, eða hvað?

Óli Jón, 30.5.2008 kl. 15:15

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Hvers konar rugl er þetta ? hvernig getur það verið réttur einhvers að eignast barn? Kona, hvort heldur sem hún er einhleyp eða ekki getur auðvitað sængað hjá karli í þessum tilgangi ef henni sýnist svo, en að láta þjóðfélagið skaffa sér barn og það á kostnað skattborgaranna, af því bara að hana langi til þess, er algjörlega fráleitt.

Ætli það næsta verði ekki að einhleypur karl heimti að ríkið skaffi honum konu til að ganga með hans eigið afkvæmi. Skrifaði einu sinni pistil um þetta.

Þóra Guðmundsdóttir, 30.5.2008 kl. 16:29

4 Smámynd: Óli Jón

Hér er sama gamla klisjan komin; ríkistryggjum körlum aðgang að legi kvenna svo þeir geti eignast börn. Mér finnst sorglegt að fólk, og þá sér í lagi konur, skuli ekki sjá þann líffræðilega mun sem er á konum og körlum. Ef grannt er skoðað kemur í ljós að við erum nefnilega ekki eins frá náttúrunnar hendi.

Til að kona geti eignast barn þarf aðeins smávægilegt (og oft ekki tímafrekt) framlag frá körlum, en til að karl geti eignast barn þarf ólíkt stærra og meira framlag frá konu. Þetta er svipað og sagan um hænuna og svínið sem ákváðu að fara í samlokugerð og sérhæfa sig í gerð beikonsamloku með eggi. Hænan komst ágætlega frá málinu, en bissnissinn gekk heldur nærri svíninu. Við skulum því fara varlega í að alhæfa um þessi mál. Hins vegar tel ég fyllilega sanngjarnt að einhleypir karlmenn geti fengið leigumóður fyrir sig, ef þeir geta fundið viljuga konu. Það er ekkert í vegi fyrir því.

Þessi nýsamþykktu lög gera einhleypum konum kleift að verða þungaðar án þess að þurfa að fara að því með óheiðarlegum hætti. Auðvitað er þeim í lófa lagið að lokka til sín álitlegan karl til samræðis um helgar, en er það heiðarlegt? Er þetta það siðferði sem við viljum hafa í heiðri? "Farðu á djammið um helgina, væna, og nældu þér í einn góðan." Jaðrar þetta ekki við hálfgert hórmang?

Snýst þessi ólund athugasemdaskrifara og skoðanasystkina hennar kannski um kostnaðinn við aðgerðina? Einhleypar konur hafa hingað til ekki sett það fyrir sig að halda til Danmerkur með öllum þeim kostnaði sem því fylgir til að ná fram þessum rétti sínum. Ég þykist vita að þær myndu ekki setja fyrir sig þann kostnað sem þessu fylgir hér heima. Þeirra sýn er stærri en svo að þær láti krónur og aura hafa áhrif á sig.

Snýst þetta kannski um barnalífeyrinn og barnabætur? Finnst ólundarliðinu þessar konur vera að svíkja út fé með því að fá greitt frá ríkinu með ófeðruðu barni sínu? Getur ekki verið að barnið, frekar en móðirin, eigi rétt á þessum greiðslum? En getur ekki einnig verið að móðirin - einhleypa konan sem hefur alla sína tíð niðurgreitt allan samfélagslegan kostnað barnafólks með sínum sköttum - eigi rétt á því að hennar skattfé nýtist henni að sama skapi?

Snýst þetta kannski um að að skilyrða barneignir því að konur eigi kall? Það eru til ótal ástæður fyrir því að konur eru einhleypar og flestar þeirra hafa ekkert með konuna sjálfa að gera. Eigum við að hegna henni fyrir að vera ein með því að neita henni um þann rétt að eignast barn? Eigum við að krefjast þess að hún gefi sig frekar að ömurlegu og/eða ástlausu sambandi bara til að verða þess verðug að eignast barn? Hugsar ólundarliðið kannski sem svo að hún hljóti að vera lélegt efni í móður fyrst hún getur ekki fundið sér kall? Myndi hún skána sem móðir ef hún næði sér í kall, sama hversu aumur hann væri?

Eigum við, sem örþjóð í miðju hafi, ekki að fagna því að konur vilji eignast börn? Í flest öllum þróuðum ríkjum fækkar barneignum þannig að í vanda stefnir. Er það því ekki fagnaðarefni þegar fullkomlega heilbrigðar og góðar konur (upp til hópa, altént) vilja gefa sig að barneignum?

Eru þessi nýju lög ekki bara eitt mesta barnalán Íslands í langan tíma?

Óli Jón, 30.5.2008 kl. 17:21

5 identicon

Allt gott að segja um rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar. Ég sakna hinsvegar umræðu um rétt barna sem verða til vegna tæknifrjóvgunar. Þessi börn verða „föðurlaus“, og eru svipt þeim mannréttindindum á að vita um uppruna sinn. Þarna virðist réttur kvenna kaffæra rétt tilvonandi barna.

Árni H. Kristjánsson 30.5.2008 kl. 21:01

6 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Mín gagnrýni beinist að þeirri skoðun að fólki finnist að það eigi einhvert rétt til að eignast barn. Mér finnst að enginn eigi rétt á því.

Fólk getur átt rétt á öllu mögulegu en barneignir eru ekki eitt af því. 

Börn eiga hins vegar rétt á því að almennilega sé um þau hugsað ef og þegar þau koma í heiminn en það er allt of oft misbrestur á því.

Þóra Guðmundsdóttir, 30.5.2008 kl. 22:22

7 Smámynd: Óli Jón

Ég samþykki það fúslega að auðvitað er best ef ástríkur faðir er í myndinni, en það er hreinlega ekki alltaf mögulegt. Hins vegar verðum við að vera okkur samkvæm ef við ætlum einhleypum konum að lifa skv. ákveðnum viðmiðum og reglum sem aðrir þurfa ekki að hlíta. Ef við teljum föðurleysi vera slíkt vandamál sem margir vilja telja það vera, þá hljótum við að íhuga inngrip hjá konum sem nú eiga ófeðruð börn - hvað þá konum sem eru þungaðar af barni sem ekki er hægt að feðra! Við getum ekki komið í veg fyrir þetta 'skelfilega ástand' hjá einhleypum konum ef við síðan líðum það annars staðar. Það er hámark hræsninnar og skinhelginnar!

Eitt skal yfir alla ganga!

Óli Jón, 31.5.2008 kl. 03:04

8 identicon

Það er grátlegt að hlusta á suma tala um rétt fólks fyrir hinu og þessu. Til dæmis réttur kvenna til þess að eignast börn - ef ekki finnst maki þá með tæknifrjóvgun. Í þessu sambandi hef ég ekkert heyrt á það minnst hver réttur þessara barna til að vita hver er faðir þess og í framhaldi að af því hver er amma og afi og svo framvegis í föðurætt. Það er enginn að tala um rétt þessara barna. Ég held að ráðið við þessu sé sú að það eigi að setja lög um gjafasæði á þá leið að réttur barnsins verði tryggt á þá leið að barnið eigi rétt á að fá að vita hver sé faðirinn - engin nafnleynd þar!

booboo 31.5.2008 kl. 11:45

9 Smámynd: Óli Jón

Nafnleysi virðist henta skrifara prýðilega og vænti ég þess að hann hefði aldrei sett þessa athugasemd hér inn ef hann hefði þurft að standa við hana undir nafni. Það er því broslegt að hann skuli vilja banna nafnleysi þegar kemur að sæðisgjöf.

Ef nafnleysis nyti ekki við í sæðisgjöf má reikna með að framboð þess myndi minnka umtalsvert. Það er engum greiði gerður með því. Svo má geta þess að margir sæðisgjafar gefa nú heimild til þess að það megi hafa upp á þeim hvenær sem er eða þá þegar barn verður 18 ára. Slíkt er hið besta mál, en verður að vera val sæðisgjafans.

Konur geta auðveldlega náð sér í nafnlaust sæði með því 'að lokka til sín einhvern álitlegan' eins og áður hefur komið fram. Það er ekki heiðarlegt né öruggt og því er tæknifrjóvgun góð lausn fyrir einhleypar konur sem vilja verða þungaðar. Niðurstaðan er sú sama, aðferðin er öruggari.

Óli Jón, 31.5.2008 kl. 13:29

10 Smámynd: booboo

Þú getur væntanlega flett upp mínu nafni ef þú vilt hjá moggablogginu.

Það er grátlegt að þú skulir þykjast vera svo mikill mannéttindasinni en minnist aldrei einu orði á rétt barnanna sem verða síðan fullorðnir einstaklingar,  en það er klárlega verið að brjóta á rétti þeirra  í þessu máli að mínu mati.

 Auðvitað eða sennilega myndi sæðisgjöfum fækka en það er hjákátlegt atriði miðað við það að það sé vísvitandi verið að brjóta á framtíðarrétti einstaklings. 

Ég hef aldrei heyrt neitt um það að sæðisgjafi geti /eða/ og gera það gefa heimild til þess að það megi hafa upp á þeim. Getur þú lagt fram einhverja sönnun fyrir þessa fullyrðingu þína?

Bragi Sigurðsson 

booboo , 31.5.2008 kl. 22:53

11 Smámynd: Óli Jón

Ég hef fyllilega meðgengið það að auðvitað sé betra að barn þekki báða foreldra sína. Hins vegar er dagljóst að fjölmörg börn alast upp hjá einu foreldri og verða ekki verri fyrir vikið. Í mínum huga skiptir mestu máli að barninu sé búið ástríkt og traust heimili og það geta einstæðar mæður vel gert í dag.

Ég vísa í framsöguræðu heilbrigðisráðherra með frumvarpinu þar sem hann vitnar í niðurstöður nefndar sem vann að undirbúningi málsins. Þar segir hann að rannsóknir sýni að það þurfi ekki að hafa áhrif á börn að alast upp hjá aðeins einu foreldri. Ég treysti því að í nefndinni hafi þessi mál verið skoðuð frá öllum hliðum.

Hvað varðar þetta samþykki sæðisgjafa um að börn þeirra geti haft upp á þeim seinna meir, þá er þetta form að ryðja sér til rúms erlendis og nefnist þar Open Donor Program. Ég vísa í ítarefni á vefjunum storkklinik.dk og cryobank.com. Ég tel einsýnt að við munum taka þetta fyrirkomulag upp hérlendis áður en langt um líður, enda sjálfsagt mál og knýjandi nú þegar frumvarp um rétt einhleypra kvenna til tæknifrjóvgunar er orðið að lögum.

Óli Jón, 1.6.2008 kl. 02:26

12 Smámynd: booboo

Það er alveg rétt að börn verða ekki endilega verri fyrir vikið að alast upp hjá aðeins öðru foreldrinu. Það er hinsvegar alveg ljóst að börn sem fá ekki notið umgengni við annað foreldrið verður oftast nær fyrir einhverjum skaða. Ég  kemst að þessari  niðurstöðu af greinum sem ég hef lesið hér og þar.  Þú segir að heilbriðismálaráðherra hafi sagt í sinni framsöguræðu að nefndin hafi skilað þá niðurstöðu að það þurfi ekki að hafa slæm áhrif að alast aðeins upp hjá einu foreldri og þú segist treysta það álit. Ég er þér ekki sammála og treysti því áliti ekki.

Margt í þínum skrifum segir mér að þér finnst aðalatriðið í þessu máli að konur geti eignast börn með tæknifrjóvgun - en réttindi barnsins virðast skipta þér litlu máli. Mitt mat er að tæknifrjóvgun fyrir konur sem geta ekki eða vilja ekki verða þungaðar með hefðbundnum hætti er bara staðreynd sem er komin til að vera og verður ekki breytt (það breytir engu um hvaða skoðun maður hefur á því). Það sem er hinsvegar miður er að réttur barnanna til að kynnast föðurfjöldskyldu sem er verið að hunsa, og það er brot á manréttindum.   

Ég skoðaði vefsíðu storkklinik.dk og einnig California cryobank.com sem þú bentir á varðandi "open donor program". Á vefsíðu Storkklinik segir að þeir noti aðeins sæði "anonome donorer" en það er hinsvegar hægt að fá sæði frá "Abne skandinaviske donorer". Það er vissulega hægt að túlka það þannig að hin hefðbundna aðferð er að barnið mun aldrei fá upplýsingar um föður, en hin nýja aðferð sem er val hjá sæðisgjafa er sú að barnið getur farið fram á það þegar 18 ára aldri er náð að fá fund með föður. Barnið á rétt á einum fundi, en það er ekki tekið fram hvernig fundur það er. Cryobank.com er með nákvæmari upplýsingar um hvernig open donor program virkar. Það er þannig að þegar afkvæmið hefur náð 18 ára aldri hefur það rétt á að eiga fund með sæðisgjafanum (eða föður ef skyldi kalla). Sæðisgjafinn ræður því sjálfur hvort að þessi fundur er í formi símtals, tölvupósts, eða það að hittast. Samkvæmt samkomulaginu þarf aðeins 1 fundur að eiga sér stað og eins og áður er sagt ræður sæðisgjafinn formið. Enfremur er sagt að þeir sem eru í "open donor program" hópnum fara í þann flokk sem kallast "limited collection and distribution of open donor vials". Þetta þýðir að sæði viðkomandi verður ekki selt eins oft og hjá hinum sem aftur þýðir að viðkomandi sæðisgjafi mun ekki feðra eins mörg afkvæmi. Mér skilst að sæðisgjafar þurfa að uppfylla mjög ströng skilyrði um heilbrigði til þess að fá að gefa, og mér skilst á uplýsingum úr ýmsum áttum að þessir sæðisgjafar geta átt tug og jafnvel hundruð barna, það eru dæmi um það (ég man eftir einu dæmi af viðtali við slíkan mann í fréttaþætti 60 minutes fyrir 1 til 2 árum, hann átti rúmlega 100 börn). Engin tölfræði er gefin upp varðandi þáttöku í "open donor program" versus anonymous donors.

Nú vil ég bara ljúka þesum skrifum með því að segja að það er mjög gott að börn geti komið í heiminn og alist upp þar sem ríkir ást og kærleikur og ég geri ráð fyrir að konur sem eignast börn þar sem að faðirinn er ekki inni í myndinni geta búið þeim gott heimili. Það kemur hinsvegar á óvart að þjóðfélag eins og Ísland sem þykist vera svo framsækið og vel menntað skuli samþykkja svona lög án þess að skoða málið nánar. Í þessu landi eru barnaverndarlög, barnaverndarnefndir, barnaverndarstofa á vegum félagsmálaráðurneytis, barnavernd af ýmsu tagi. Lögin eru samþykkt til að mæta eftirspurn kvenna sem langar að eignast barn en réttindi barnsins er til þess að vita allan uppruna sinn og umgengni við halfan ættlegginn er hunsað. Þetta er skrýtið og algerlega á skjön við sjálfsmynd þessarar þjóðar. 

booboo , 1.6.2008 kl. 14:46

13 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Mér finnst merkilegt að booboo ofl. skrifi hér eins og getnaður barna með sæði frá nafnlausum sæðisgjöfum sé einhver nýjung hér á landi.

Nú hafa samkynhneigðar konur í staðfestri samvist getað um nokkuð skeið eignast börn með þessum hætti hérlendis. Einnig hafa íslensk hjón lengi getað eignast börn með gjafasæði, ef sæði eiginmannsins er af einhverjum ástæðum ekki nothæft. Þannig að þetta er ekkert nýtt.

"Steina" vil ég svo benda á að það þarf enga lagabreytingu til að leyfa ættleiðingar einhleypra karla. Karlar hafa nákvæmlega sama rétt og konur til ættleiðinga samkvæmt lögum.

Svala Jónsdóttir, 1.6.2008 kl. 20:34

14 Smámynd: Óli Jón

Ég ítreka að ég skil vel öll þau sjónarmið sem koma fram varðandi rétt barna til að þekkja föður sinn. Sitt sýnist hverjum. Það er hins vegar mitt mat að ef valið stendur á milli þess að þetta líf verði til eða ekki til, þá kýs ég að þetta líf verði til, jafnvel þótt það alist upp föðurlaust. Pétur Blöndal orðaði þetta ágætlega í ræðu sinni um frumvarpið; "hver á að spyrja ófæddu börnin hvort þau hefðu viljað fæðast?" Þetta eru auðvitað afar flóknar tilvistarlegar hugleiðingar, en réttmætar.

Hvernig sem allt veltur er gott að sjá að fólk hefur skoðun á þessu máli. En best finnst mér að lögin skulu vera orðin að veruleika. Loksins!

Óli Jón, 2.6.2008 kl. 15:19

15 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Veistu ekki að offjölgun er stórvandamál í heiminum í dag ? Þú lætur eins og það sé bráðnauðsynlegt að fjölga fólki með öllum tiltækum ráðum.

Varðandi föðurleysið, þá hefur reynslan sýnt að fólk leggur mikið á sig og er oft tilbúið að kosta miklu til í þeim tilgangi að hafa uppá föður sínum samanber börn hermanna ofan af Velli. Þó ekki væri nema þess vegna er algjörlega fráleitt að vera vísvitandi að stofna til fleiri vandamála af því tagi. Nóg er um þau sem verða af "náttúrulegum" ástæðum.

Þóra Guðmundsdóttir, 2.6.2008 kl. 23:41

16 Smámynd: Óli Jón

Offjölgun er ekki vandamál sem þróuð ríki glíma við. Þvert á móti er lækkandi fæðingartíðni að valda því að margar þjóðir verða t.d. í vandræðum að fjármagna lífeyriskerfi og sjá um gamla fólkið vegna fólksfæðar. Íslendingar mega alveg við duglegri fjölgun, jafnvel þótt lífeyrismálin hjá okkur séu í góðu lagi.

Hvað varðar seinna atriðið, þá verðum við að vera ósammála um þetta í meginatriðum.

Óli Jón, 2.6.2008 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband