Rangur maður á sakamannabekk

Þessi yfirheyrsla var löngu tímabær og illt er að höfuðpaurinn sjálfur, Ratzinger páfi, hafði náð að læðast burt af sviðinu því hans sök er mikil í þessu máli. Vonandi verður kauði kallaður fyrir nefndina og látin standa skil á ljótum gjörðum sínum! Þá er ljóst að í tíð forvera Ratzinger áttu sér stóð vond myrkraverk, en sá kall er nú horfinn og mun því ekki þurfa að sitja á sakamannabekk.
mbl.is „Ekkert umburðarlyndi“ segir páfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum klukkan glymur ...

Trúarskráning 1998-2013Enn og aftur meitlast utan af höfuðkirkju Íslendinga, þeirri kirkju sem misfyndnir segja þá sem þjóðin fylkir sér um. Þegar þessi frétt er lesin er gott að hafa í huga að þetta er líklega flest fólk sem var skráð í Ríkiskirkjuna við fæðingu og hefur aldrei með einum eða öðrum hætti orðið vart við þá skráningu enda hefur það aldrei verið spurt um þann gjörning eftir að það komst til vits og ára. Svo er gott að hyggja að því að þetta fólk hefur engan fjárhagslegan ávinning af þessari leiðréttingu á kolröngum staðtölum. Ríkiskirkjan skaddast hins vegar nokkuð fjárhagslega og þess vegna sér hún mikið eftir þessum villuráfandi sauðum sem nú hættir sér út á það andlega berangur sem fylgir skráningu utan trúfélaga.

En fyrir mitt leyti óska ég þessu fólki til hamingju með að hafa tekið afstöðu. Þær óskir mínar ná einnig til þeirra hundrað sem skráðu sig í Ríkiskirkjuna, að því gefnu að sú ákvörðun hafi verið upplýst og meðvituð sem er ekki gefin forsenda þegar kemur að skráningu í Ríkiskirkjuna, því þeir hafa bersýnilega velt sinni trúarvitund fyrir sér og fundið sér stað innan vébanda hennar. Vel gert!

Alltaf verður skýrara og skýrara að nú flæðir undan Ríkiskirkjunni og ríkisstyrktri trú þrátt fyrir allan ríkisstyrkinn! Helsta hald hennar nú er skráning hvítvoðunga í trúfélag, sem hún græðir mest á, trúboð í gegnum skólakerfið og ríkisstyrkur þegar kemur að trúartollinum því afar fáir myndu borga hann sjálfviljugir.

Og svo er einnig skemmtilegt að rangar staðtölur verða ögn réttari við þetta og þannig kvarnast utan af þeirri flökkusögu að 76% þjóðarinnar játi kristna trú :) sem er gott. Enginn vill rangar staðtölur svo allir geta unað sáttir við. 


mbl.is Eitt þúsund manns gengu úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg grein á bleikt.is

Þessi grein fer víða hérlendis um þessar mundir enda fjallar hún um átakanlega og sorglega atburðarás. Að mínu mati er álíka átakanlegt og sorglegt að orsakavaldinum, guði kristinna, er gert afar hátt undir höfði í þessum pistli og það algjörlega óverðskuldað því það var hann sem skapaði þetta vandamál í byrjun.

Það var guð kristinna sem lagði fyrir foreldrana að taka syni þeirra ekki eins og hann var. Það var guð kristinna sem sagði að sonurinn myndi ekki komast inn í himnaríki að öllu óbreyttu, að tilfinningar hans gerðu hann á einhvern hátt óverðugan. Það var guð kristinna sem notaði orðið 'viðurstyggð' yfir hátterni sonarins og litaði þannig hugi trúuðu foreldranna svo mikið að þau þurftu að hugsa sig um í langan tíma áður en þau, með semingi, tóku soninn í sátt.

Eitt það sorglegasta í þessu öllu saman er að í niðurlagi pistilsins kemur fram að foreldrarnir biðji til guðs kristinna um miskunn og fyrirgefningu, en af hverju ætti hann að miskunna þeim og fyrirgefa? Þau fóru eftir orði hans, þau litu á son sinn sem syndugan kynvilling og útskúfuðu hann í langan tíma með einum eða öðrum hætti. Í augum guðs kristinna gerðu þau allt rétt.

Þessi grein er því nokkuð hættuleg að mínu mati því í henni er ekki bent á hinn brotlega í málinu, þann sem syndavæddi eðlilegar tilfinningar sonarins og tærði með boðum sínum og bældi þá hlýju sem hann átti að fá frá foreldrum sínum. Fordómar gegn samkynhneigð eru nefnilega heimatilbúnir. Í dýraríkinu eru til fjölmargar dýrategundir sem hafa þessar kenndir, en aðeins einni þeirra er kennt að hatast út í þær og allir vita hver stendur þar að baki! Þeim aðila ber ekki að þakka fyrir neitt í þessu samhengi, það er óverðskuldað, nema auðvitað við viljum halda í þessa ljótu og meiðandi fordóma, þá ber að þakka margfalt! Myndum við þakka manni fyrir að búa um brotinn fótlegg ef það var hann sem vísvitandi braut hann? Myndum við þakka einhverjum fyrir að bjarga okkur frá drukknun bara af því að honum mistókst að drekkja okkur? Myndum við þakka brennuvargnum fyrir að slökkva bálið þegar húsið er brunarústir einar? Nei, það myndum við ekki gera og ég bið lesendur um að hafa það í huga við lestur pistilsins því þá sjá þeir að hinn brotlegi er allt í einu orðinn hetjan í handritinu.

Hafa skal það sem réttara reynist.

Svona í lokin, lesið eftirfarandi vers eins og þau eru skrifuð. Afsökunarmenn reyna að snúa út úr þessum skýra texta, sem ku vera innblásinn anda guðs kristinna, með því að tala um lélegar þýðingar, ólíka merkingu orða í frumritum o.s.frv. Dæmi hver fyrir sig.

- http://www.snerpa.is/net/biblia/mose-3.htm vers 18:22
- http://www.snerpa.is/net/biblia/kor-1.htm vers 6:9
- http://www.snerpa.is/net/biblia/rom.htm vers 1:26-27

PS. Rétt er að halda því til haga að þessir fordómar, sem stundum eru banvænir eins og dæmin sanna, koma bæði úr Gamla og Nýja testamentinu.


Leikskólabörn heimsækja kirkju

Á tímum sífellt meira gránandi kirkjusauða er það auðvitað stórkostlegt fréttaefni þegar börn heimsækja kirkju. Þetta eru reyndar leikskólabörn sem áttu líklega ekki frumkvæðið að þessari heimsókn, en þau fóru samt engu að síður. Kirkjan hlýtur að fagna þessu því þarna er markhópurinn, agnar lítil börn sem hafa ekki vitsmuni eða þroska til þess að meta tilboð kirkjunnar og boðskap hennar. Þetta er auðvitað besti hópurinn til þess að hafa á bekkjunum.

En til hamingju, kirkja, það komu börn í heimsókn sem virðist svo furðulegt og skrýtið að það ratar í Moggann sem frétt!

PS. En er samt ekki skondið að mamman í fréttinni virðist ekki hafa drifið í þessari heimsókn fyrr en ljóst var að leikskólinn myndi ekki sjá um þennan þátt trúaruppeldisins fyrir hana? Þetta virðist nokkuð dæmigert fyrir 'sannkristna' foreldra hérlendis, þeir treysta flestir á það að ríki og sveitarfélög sjái um innlagningu trúarinnar í börnin ... svona eins og Jesús vildi hafa það.


mbl.is Leikskólabörn fóru í kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrattinn og amman

Stundum er grátlega leiðinlegt að geta ekki 'lækað' einstakar athugasemdir við bloggfærslur hér. Aldrei hef ég þó fundið jafn illilega fyrir þessu eins og þegar ég las færsluna Af refsingum á miðöldum og úti í Afríku þar sem amman tók hús á skrattanum í athugasemdakerfinu.

Þetta er of gott til þess að láta það fram hjá sér fara!

PS. Ritningargreinin sem vísað er til er í 3. Mósebók 20:15 ... hún er umlukin öðrum miðaldargullkornum á báða bóga, hverju öðru kjánalegra.


Hvað gerir ráðherra sjálfur?

Auðvitað er fyrirsjáanlegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tali mærðarlega til fulltrúa Ríkiskirkjunnar á Kirkjuþingi, það gera allir almennilegir stjórnmálamenn sem vita hvað til síns friðar heyrir. Hún er væntanlega að bera í bætifláka fyrir það að landsfundur flokksins hafnaði kristilegum gildum um daginn, en þá hentaði ekki að hafa þessi úrvals gildi sem mælistiku á rétt og rangt.

En hún vill að ríkið herði róðurinn í innsetningu trúar í hugi lítilla barna og í framhaldi af því væri áhugavert að sjá hvers konar trúarlífi innanríkisráðherra lifir með sínum börnum. Fer hún reglulega með þau í kirkju? Lætur hún þau fara með bænir reglulega? Ræðir hún trúmál við þau? Kannar hún hug þeirra til annarra trúarbragða? Segir hún þeim skemmtilegar dæmisögur úr Biblíunni, t.d. söguna um það þegar Guð drekkti nær öllum á jörðinni í syndaflóðinu, líka börnum og kettlingum? Fer hún með þau í sunnudagaskóla? Lætur hún þau biðja borðbænir? Lætur hún þau jesúsa sig þegar einhver hnerrar? Þetta eru eðlilegar og sjálfsagðar spurningar til stjórnmálamanns og ráðherra sem vill efla og treysta ríkisforsjá í málaflokki sem er líklega sá sem er best til þess fallinn að vera án afskipta ríkisins. Svo vitnað sé í orð Jesúss sjálfs þá eiga kristnir menn bara að vera heima hjá sér, lokaðir einir inni í herbergi, þegar þeir nálgast guð sinn. Í besta falli þarf að treysta húsnæðislánakerfið og leigumarkað til þess að fólk geti farið eftir þessum fyrirmælum.

Ég efast reyndar ekki um vilja innanríkisráðherra í þessum efnum, en mér þætti þó gaman og áhugavert að sjá hennar framlag til innsetningar á trú í hugi barna sinna, þ.e. innsetningu á þeirri barnatrú sem ráðherra telur svo frábæra og sanngjarnt að lesa inn í hugi barna sem hafa ekki vitsmunalegar forsendur til þess að vega og meta á eigin verðleikum. Það væri nefnilega nokkuð skondið ef hún ætlar sér að treysta alfarið á ríkið í þeim efnum!


mbl.is Ráðherrar virði mannréttindi allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkun fermingarbarna

Þessi þróun, sem þarna er lýst, er óhjákvæmileg í dag. Gamla viðmiðunartalan, 80-90%, er táknmynd gamla tímans þegar börn höfðu óbeint ekkert val um hvort þau fermdust eða ekki og því er ánægjulegt að sjá þessa tölu lækka enda bendir sú lækkun til þess að börnin séu farin að taka upplýstari ákvörðun og að mínu viti er hún sú að þau telji sig ekki hafa nægar forsendur til þess að taka ákvörðun um að tengjast einu trúfélagi umfram annað á svo ungum aldri. Fermingin á auðvitað að eiga sér stað þegar fólk er komið á sjálfræðisaldurinn, enda veigamikil ákvörðun sem ekki á að neyða nokkurn mann til þess að taka.

Að sama skapi er áhugavert að sjá að presturinn telur þau börn sem nú kjósi kirkjulega fermingu vera staðfastari í því vali sínu. Gott ef svo er, en það breytir ekki því að hrifnæm börn á þessum aldri geta ekki tekið þessa ákvörðun, sér í lagi þegar haft er í huga að þeim eru t.d. settar skorður þegar kemur að útivistartíma þar sem þeim er ekki treyst til þess að meta hann sjálf.

Það að selja sig undir vald guðs er síður en svo léttvæg ákvörðun og á að vera tekin án utanaðkomandi þrýstings og lokkandi seiðs gjafaglýjunnar sem auðvitað er megin ástæða þess að mörg börn kjósa að ganga þennan veg. Þetta eru leifar af gamalli og fornfálegri hefð sem ber að breyta og aðlaga að nútíma samfélagi. Ferming á þessum aldri þjónar alls ekki hagsmunum barnsins, tímasetningin er einungis miðuð við þarfir trúfélagsins og þá sér í lagi Ríkiskirkjunnar sem hefur hagnast hvað mest á þessu fyrirkomulagi í gegnum tíðina. Rikiskirkjan veit hins vegar vel að ef ferming færi fram eftir að sjálfræðisaldri væri náð, myndu afar fáir feta þann veg og það hræðist hún næstum því jafn mikið eins og ef hætt yrði að skrá nýfædda hvítvoðunga í trúfélag móður.


mbl.is Mismikil þátttaka í fermingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta skynsamlegt eða nauðsynlegt?

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið þarf á hverri krónu að halda eru framlög til Ríkiskirkjunnar aukin. Þetta er afar undarleg ráðstöfun og verður enn undarlegri þegar haft er í huga að í bæklingi sem fylgir með trú Ríkiskirkjunnar má sjá eftirfarandi leiðbeiningar:

5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. [Matt. 6:5-6]

Ekki aðeins er bent á þann möguleika að fólk geti stundað sína trú upp á sitt einsdæmi án mikillar fyrirhafnar, höfundur kversins beinlínis upplýsir hina leiðitömu um að þeir eigi alls ekki að fara í kirkju því það geri bara hræsnarar. Hið alsjáandi auga mun píra inn í skúmaskotið og gefa hinum leiðitama fín og flott verðlaun.

En hvað vissi sá sem mælti þessi orð? Það er bersýnilega ekkert mark á honum takandi! Mokum því meira fé í deyjandi kirkju, framlengjum dauðastríðið aðeins því einhvers staðar verða hræsnararnir (ekki mín orð!) að vera.

PS. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það jaðrar við dónaskap að vitna í Biblíuna máli mínu til stuðnings og biðst ég fyrirfram forláts á því. En eins og langflestir hlaðborðskristnir gera þá valdi ég að taka úr henni kafla sem hentar mér, hinar bábiljurnar læt ég vera að sinni.

PSS. Ég feitletraði textann sem ráðsmenn ríkissjóðs geta vitnað í þegar þeir gyrða í brók og skera enn frekar niður framlög til Ríkiskirkjunnar. Hann er afdráttarlaus, en þó örugglega þannig að auðveldlega er hægt að snúa honum algjörlega á hvolf og lesa úr honum að hægri vísi til vinstri og að niður snúi í norðvestur eins og títt er um margt í handbókinni. En við sem kunnum bara að lesa og skilja texta eins og hann kemur fyrir verðum bara að láta okkur nægja að skilja þetta eins og það er.


mbl.is Framlög til þjóðkirkjunnar hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú á hröðu undanhaldi í Bretlandi

Í dag segja um 48% Breta að þeir aðhyllist ekki nein trúarbrögð á meðan um 20% segjast tilheyra Church of England, en voru 40% fyrir þrjátíu árum síðan. Þetta kemur fram í könnuninni British Social Attitudes Survey sem gerð var nýverið í þrítugasta skiptið.

Nóg sagt.


Endalok þráhyggju kaþólskra?

Hressandi er að sjá nýjan páfa, sem hlýtur að vera einn sá besti í langan, langan, langan tíma, mæla gegn þráhyggju kaþólskra þegar kemur að samkynhneigð, fóstureyðingum og smokknum. Það er viðsnúningur frá andúðarboðskap forvera hans sem sáust ekki fyrir í einþykkju sinni og höfðu slæm áhrif á viðkvæma sauði kaþólskunnar með ljótu orðfæri sínu og illri breytni.

Vonandi geta þessir þjáðu sauðir nú látið af þessu vonda andófi gegn sjálfsögðum mannréttindum og heilbrigðisráðstöfunum enda hlýtur þessi óskeikuli páfi að hafa rétt fyrir sér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband