Kaflinn sem gleymist í sunnudagaskólunum ...

Syndaflóðið og kettlingurinn


Betur má ef duga skal, Francis páfi!

Francis og gullið!Þessi páfi er líklega einn sá skársti í langan tíma, enda virðist hann hafa jarðbundnari sýn á lífið í kringum sig en forverar hans sem gengust upp í því að skrýðast gulli og silfri. Forveri hans, Ratzinger páfi, virtist ekki finna sig betur en þegar hann var skrýddur prjáli og purpura í fallegu rauðu skónum sínum.

Það sem Francis getur gert núna er skipa svo fyrir að kaþólska kirkjan gangi í það að selja allan auðinn sem hún hefur sölsað undir sig í gegnum tíðina því þar eru raunverulegu peningarnir, ekki í því hvort prestar kaupi ögn ódýrari bíla. Nú reynir á páfann Francis því ef hann vill í alvöru ná í fjármagn til þess að fæða svöng börn þá er bjargræðið innan seilingar, í raun allt um kring í gulli hlöðnum kirkjum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Francis leggja blóm á gulli hlaðið altari. Líklega væri hægt að kaupa nokkrar máltíðir fyrir svöng börn fyrir það góss sem þarna sést.


mbl.is Páfi finnur til vegna bílakaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkum fermingaraldurinn, það segir kaþólskur prestur!

Ég get ekki annað en tekið undir með Paddy Byrne, nafntoguðum kaþólskum presti í Írlandi, þegar hann segir að ráð sé að seinka fermingunni fram á fullorðinsárin. Aðal ástæðuna segir hann vera þrýsting á fjölskyldur sem hneigjast ekki að trú að fara í gegnum þetta ferli.

Byrne tiltekur að þróunin í Suður-Ameríku sé sú að verið sé að seinka trúarlegum stiklum eins og fermingu til þess að viðtakendur hafi upplýstara og betra val og lætur að því liggja að börn á hefðbundnum fermingaraldri séu ekki í stakk búin til þess að taka sjálfstæða og upplýsta afstöðu til fermingarinnar.

Áhugavert er að sjá að Byrne segir að það ýti mikið undir þetta að 85% barna skili sér ekki aftur í kirkju eftir fyrstu altarisgönguna sem væntanlega er vegna þess að þau hafa ekki áhuga á kirkjunni og því sem hún býður. Þá nefnir hann sem dæmi um trúarhita nútímamannsins að meirihluti foreldra sem væflast þó í kirkju óski þess helst að þar sé þráðlaust netsamband svo þeir geti skoðað Facebook.

Er þetta ekki nokkuð sem trúfélög hérlendis ættu að skoða í stað þess að hella allt of ungum börnum í gegnum fermingartrektina? Ljóst er að börnin geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þetta mál og því er undarlegt að ekki megi bíða þar til þau eru orðin lágmark 18 ára svo valið verði raunverulega þeirra. Það er rétt að enda þennan pistil á orðum Byrn þar sem hann segir:

It's time for a wake-up call, to be pragmatic and honest in changing the way we do our business.

Amen!


Páskabingó Vantrúar

Júblandi Jesús!Við sem ögn eldri erum munum vel eftir þeim leiðinlega degi sem Föstudagurinn langi var í denn þegar ekkert skemmtilegt mátti gera. Leiðindi skyldi einkenna þennan dag og vei þeim sem dirfðist að láta sér detta eitthvað annað í hug.

Í dag, á tímum aukinnar upplýsingar, er yfirbragð þessa föstudags allt annað og betra og má almenningur t.d. gera sér glaðan dag með því að fara í bíó, en það var gjörsamlega óhugsandi fyrir ekki svo mörgum árum síðan. En samt er ekki allt sem sýnist hér í landi Drottins í miðju ballarhafi! Kristilega gleðilöggan hefur nefnilega enn enn ærinn starfa á þessum undarlega degi.

Mig langar þannig til þess að benda á skemmtilegan viðburð sem orðinn er að árlegri hefð, sem er Páskabingó Vantrúar sem haldið verður kl. 13 á Austurvelli nk. föstudag, þann langa og áður ótrúlega leiðinlega. Allir unnendur gleði og bingóglaums eru boðnir velkomnir.

Þó er rétt að vara við því að árið 2013 á tímum upplýsingar er það lögbrot að spila bingó á Föstudeginum langa. Það er nefnilega þannig að hér áður fyrr þótti góðum og gegnum kristlingum ekki við hæfi að einhver gæti mögulega skemmt sér á þessum ömurlega degi og því var þetta bann bundið í lög. Því fara bingóspilarar á tæpasta vað með því að spila bingó á Föstudeginum langa og storka Guði, Ríkiskirkju og landslögum.

Sjáumst á Austurvelli :)


Hvenær eiga kristin gildi ekki við?

Ef mér telst rétt til þá var ályktun allsherjar- og menntamálanefndar samþykkt fyrr í dag, en í henni er að finna eftirfarandi kolamola:

Trúmál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.
Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.

Í fyrri málsgreininni er talað um að 'kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr', en í þeirri seinni er talað um að hyggja eigi að þessum gildum 'þegar það á við'.

Líklega þarf maður að vera ofsalega vel og innilega kristinn til þess að skilja þetta. Skilja að þótt kristin gildi séu frábær, æðisleg, geggjuð og best í heimi, þá skuli bara hafa þau að leiðarljósi þegar hentar, þegar það á við, þegar aðrir alvöru hagsmunir eru ekki í myndinni. Ef ég vissi ekki betur, þá myndi ég segja að það sé meiri pólitískur fyrirvarafnykur af þessari niðursuðu en einlægur vilji til þess að ganga erinda Drottins. En hvað veit ég, sem trúi ekki á himnadrauginn. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem rennur upp fyrir manni þegar maður kynnist Guði og heyrir hana tala í fyrsta sinn.

Landsfundarfulltrúar! Gangið á Guðs vegum ... en bara þegar það hentar :)

PS. Það er gaman að sjá einkaframtaksflokkinn slá vendilegri skjaldborg um trúna. Líklega vita dátar hans sem er að trúin getur ekki lifað nema í öndunarvél ríkisins svona eins og Jesús Jósepsson spáði fyrir í denn.


Rottweiler Guðs segir upp!

Einn gírugasti og metnaðargjarnasti páfi allra tíma, Ratzinger, segir af sér með nokkurra tíma fyrirvara. Skiljanlega veltir fólk því fyrir sér af hverju þessi einarði embættismaður, sem oft var uppnefndur Rottweiler Guðs sökum samskiptahörku sinnar, láti nú af embætti. Kannski að eitthvað af eftirtöldum atriðum geti komið þar við sögu:

Ég valdi bara 10 atriði af handahófi, en enginn þarf að fara í grafgötur um að af nógu er að taka. Eins og einhver myndi segja, Guð veit að undir þessum steini eru margar flær! 

Kannski hefur kallkvölin bara verið orðinn þreyttur á því að fá sífellt svekkjandi pósta um kynlífshneyksli og ofbeldi presta um allan heim í pósthólfið sitt. Kannski kynntist hann konu? Já, eða karli? Kannski var hann orðinn þreyttur á gullinu og prjálinu? Kannski var samviskan farin að naga hann óþægilega mikið vegna dauða fólks í Afríku vegna smokkablætis kaþólsku kirkjunnar? Eða kannski vill hann bara ekki verða elliær á páfastóli eins og flestir forverar hans.

Ég óska Rottweiler Guðs til hamingju með starfslokin, hans verður sárt saknað. Ekki.


mbl.is Páfinn segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aflátsbréf á léttgreiðslum

Aflátsbréf útgefið af Jhann TetzalÓtrúlegt er til þess að hugsa að kaþólska kirkjan sé enn að innheimta afborganir af aflátsbréfum. Fyrir þá sem eru of hugmyndasnauðir til þess að ímynda sér þá snilld sem aflátsbréfin voru í eina tíð, þá voru þau fjáröflunarleið fyrir feita páfa og presta til þess að fjármagna það ljúfa líf sem þeir lifðu. Þeir sáu sér leik á borði og græddu á tá og fingri á syndum sauða sinna. Í raun var syndin þeim svo verðmæt að þeir skilgreindu ótrúlegustu hluti sem synd, enda var þá hægt að setja verðmiða á fyrirgefningu Guðs, syndaaflausnina, og byrja að rukka.

Þetta var fyrir mörg hundruð árum síðan og hefur flest siðað fólk staðið í þeirri trú að kaþólska kirkjan hafi fyrir löngu síðan aflagt þessa ógeðfelldu leið til þess að ræna almúgann, en það er öðru nær. Nú berast fréttir frá Svisslandi um að langþreytt þarlend fjölskylda hafi verið búin að fá nóg af því að greiða afborganir í 655 ár fyrir syndir forfeðra sinna eins og Guð sjálfur hefur mælt fyrir. Þegar kaþólska kirkjan senda aflátsbréfið í innheimtu hjá veraldlegum dómstólum komst skynsamt fólk að þeirri niðurstöðu að auðvitað væri þetta ranglátt, siðlaust og spillt og dæmdu því kaþólskunni í óhag.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir og ekki síst fyrir langlundargóðu Svissarana. En illt er til þess að hugsa að maddaman feita í Róm sé enn að gera sér syndir forfeðranna að féþúfu. Líklega er það þó skiljanlegt því það kostar auðvitað skildinginn að skrýða Ratzinger páfa gulli og purpura dag hvern. Því eru allar matarholur þar á bæ vel þegnar og skiptir þá engu að skuldararnir séu komnir langt umfram fjórða ættlið frá upprunalega syndaselnum.

Hér er kaþólsk snilld í sinni allra fegurstu mynd :)


Þingskjal 658, um niðurfærslu mannréttinda nýfæddra barna ...

Eftirfarandi bréf var sent rétt í þessu á þingmennina Björgvin G. Sigurðsson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Skúla Helgason, Björn Val Gíslason, Lúðvík Geirsson og Birgittu Jónsdóttur.

-- + --

Fyrirsögn: Sár vonbrigði með störf ykkar eins og þeim er lýst í þingskjali 658 

"Viðtakendur.

Með bréfi þessu vil ég lýsa sárum vonbrigðum mínum varðandi þann heigulshátt og lydduskap sem birtist í þingskjali 658. Í þessu skjali sést glögglega að fjárhagslegir hagsmunir Ríkiskirkjunnar eru teknir fram fyrir sjálfsögð og eðlileg mannréttindi nýfæddra barna þegar þið vélið þannig um mál að mikilvægara sé að tryggja tekjustofna kirkjunnar til framtíðar í stað þess að virða réttindi ómálga Íslendinga til þess að velja sér sína eigin félagaaðild.

Þetta er sorglegt og pínlegt mál fyrir þennan hóp sem hafði ekki dug né dáð til þess að standa í lappirnar þegar á reyndi.

En þetta eru nú bara ómálga smábörn sem verið er að véla um í þessu máli. Hvers virði eru réttindi þeirra þegar þau eru borin saman við veraldlega hagsmuni Ríkiskirkjunnar sem hefur enga trú á því að alfaðirinn, og hvað þá trúaðir sauðir hennar, fylli kornhlöður hennar? Þið hafið með þessum bréfaskrifum ykkar svarað þeirri spurningu með afgerandi hætti, að litlu málleysingjarnir séu bara aum og veigalítil peð á taflborði þar sem tekist er á um alvöru og veigamikla hagsmuni eins og fjármögnun Ríkiskirkjunnar.

Hafið maklegar þakkir fyrir.


Með tilhlýðilegri virðingu,

- Ólafur Jón Jónsson"


Og síðan lögðu þeir leið sína í Háskólann í Reykjavík ...

... hmmmm, eða ekki! Þeir hafa líklega aldrei óskað eftir því að fá að gefa Biblíuna í tímum í háskólum landsins sökum þess að þar er fólk sem getur tekið upplýsta og málefnalega afstöðu til skáldsögunnar. Þá er nú ólíkt betra að herja á litlu börnin sem standa berskjölduð gagnvart trúboðunum sem koma hoknir af iðrun og iðandi synd í þjónustu guðs síns. Þar eiga menn smávægilega von um einhverja eftirtekju, guði sínum til dýrðar.

Stundum kalla svo gæjar sig veiðimenn Guðs. Mér finnst þetta vera eins og að veiða fisk í tunnu; auðvelt, en algjörlega laust við allan metnað!


mbl.is Hafa ekkert á móti Biblíunni í Suðurhlíðarskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullkorn frá Pat Robertson ...

Hinn elliæri boðberi sannkristinna gilda, Pat Robertson, verpti enn einu fúlegginu í kristilegum sjónvarpsþætti nýverið þegar hann ráðlagði einhverri mannleysu að taka upp islamskan sið svo hann gæti með rétti gengið í skrokk á konu sinni. Mannleysa þessi kvartaði sáran undan því að kona hans virti hann ekki sem húsbónda, en hann virðist reikna með því að konan sé honum sjálfkrafa undirgefin sökum kyns síns.

Áhugavert er að sjá hinn ofurruglaða Robertson fabúlera um raunir þessa eymingja. Hann hvetur ræfilinn til þess að standa í hárinu á konunni og láta hana ekki komast upp með moðreykinn. Hann segir að auðvitað hafi menn ekki velþóknun á barsmíðum, en það verði samt að gera eitthvað í þessu máli. Konan er óalandi og óferjandi, gölluð á marga vegu og virðist ekkert gott eiga skilið. Enginn hafi agað hana þegar hún var að alast upp og því sé hún bara með kellingaskæting á fullorðinsaldri.

Í lokin hvetur hann kallinn svo til þess að flytja til Sádi-Arabíu, líklega svo hann geti nú danglað hressilega í þessa kellingu sem þekkir ekki sinn sess í lífinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband