Endalok þráhyggju kaþólskra?

Hressandi er að sjá nýjan páfa, sem hlýtur að vera einn sá besti í langan, langan, langan tíma, mæla gegn þráhyggju kaþólskra þegar kemur að samkynhneigð, fóstureyðingum og smokknum. Það er viðsnúningur frá andúðarboðskap forvera hans sem sáust ekki fyrir í einþykkju sinni og höfðu slæm áhrif á viðkvæma sauði kaþólskunnar með ljótu orðfæri sínu og illri breytni.

Vonandi geta þessir þjáðu sauðir nú látið af þessu vonda andófi gegn sjálfsögðum mannréttindum og heilbrigðisráðstöfunum enda hlýtur þessi óskeikuli páfi að hafa rétt fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Væri ekki meira smart að hafa áhyggjur af sinni eigin trú? Eða hvort er meira smart? Að hanga út í glugga og njósna um nágranna sína og hneyklast á öllu sem þér líkar ekki, eða reyna að bæta samskiptin á þínu eigin heimili? Ég er eins langt frá kaþólskri trú og hægt er nema hverfa frá kristni yfirhöfuð, en ég skal segja þér það að fráfarandi páfi var vanmetnasti páfi sögunnar, og það af allt öðrum ástæðum en meðalljónið gerir sér grein fyrir. Það kemur allt í ljós og þá muntu sjá eftir að mæra þetta meðalmenni sem nú er arftaki hans. Hvað sem segja má ljótt um fráfarandi páfa þá setti hann af stað byltingu sem fór framhjá nema þeim sem hafa augu til að sjá, byltingu sem verður aldrei tekin aftur, og mun hafa ákveðið úrslitavald í mannkynssögunni. Hann lýsti sig í raun skeikulann, ef þú ferð að skoða það betur, og afsalaði ákveðnu valdi fyrir hönd allra páfa sem á eftir honum koma. Hann setti páfadóminn sem slíkan af vissum stalli, sem hann mun aldrei aftur rata á.

T 21.9.2013 kl. 01:14

2 identicon

Fattaði ekki að þú sérst trúlaus. Sá þetta með "sköpunarsinnann" og hélt þig einn af svoleiðis kristnum, en þeir eiga margir sameiginlegt að vera meira fyrir að hnýta í kaþólikka en rækta eigin trú, og sumar kirkjur, eins og Aðventkirkjan, hafa and-kaþólsku sem órjúfanlegan hluta af guðfræði sinni. Þá segi ég samt það sama. Hafðu áhyggjur af þér sjálfum og þínum líkum. Nú eða Þjóðkirkjunni, því hún er þó eign þín á ákveðinn hátt sem skattborgara og Íslendings, þó þú takir ekki mark á henni. Vandamál kaþólikka skipta minnstu máli og Þjóðkirkjan er bara nákvæmlega ekkert skárri. Kaþólikkar eru fjölmennur hópur manna, sem líkt og manna er siður, hugsa mest um sig og sína og sitt eigið líf. Þeir hafa ekki margir þráhyggju gagnvart öðru fólki (en hefur þú þráhyggju gagnvart þeim?) og hafa fæstir nógan áhuga á samfélagsmálum til að leiða hugann mikið af samkynhneigðum eða fóstureyðingum. Smokka nota þeir velflestir og hegða sér ekkert öðruvísi í kynferðismálum en ókaþólskir í dag. Hafðu þínar alhæfingar fyrir þig. Ég hef búið meðal þeirra árum saman og veit betur en að taka mark á þér.

T 21.9.2013 kl. 01:19

3 Smámynd: Óli Jón

T: Takk fyrir þetta undarlega innlegg. Þú hvetur mig til þess að láta mig kaþólsku kirkjuna ekki varða og segir að þeir hugsi mest um sitt eigið líf. Vera má að það eigi um flesta kaþólikka, en hinir sem messa gegn réttindum samkynhneigðra, berjast gegn rétti kvenna yfir eigin líkama og neita milljónatugum um þá sjálfsögðu heilbrigðisráðstöfun sem smokkurinn er, þeir eru stórhættulegir og þess verðir að staðin sé varðstaða gegn þeim. Það má t.d. vel vera að flestir þeirra noti smokka, en þeir kvitta samt upp á algjört smokkabann með stuðningi sínum við kaþólskuna, bann sem hefur kostað milljónir manna og kvenna lífið um allan heim. Að því leyti eru þeir sauðir sem ætla sjálfum sér eitt, en öðrum annað. Þá er ég viss um að margir kaþólikkar fara í fóstureyðingu, en það sama á við um hana, tvöfalt siðgæði kaþólikka er síst til fyrirmyndar þar.

Hvað varðar fyrri pistil þinn um hve frábær Ratzinger páfi er, þá verð ég hreinlega að viðurkenna að ég hef ekki grun um hvað þú ert að röfla þar. Ratzinger páfi hélt hlífiskildi yfir prestum sem misnotuðu börn, hann herti róðurinn gegn samkynhneigðum, hann herti róðurinn gegn fóstureyðingum og hann herti róðurinn gegn smokknum. Hann hrakyrti m.a.s. bandarískar nunnur fyrir að setja ekki meiri tíma í þessa málaflokka, en tímanum vörðu þær í að starfa með fátæku og veiku fólki. Þú verður því að útskýra betur í hvaða veruleika þessi frábæri páfi þinn þreifst því ekki var það í þessum við hrærumst í.

Óli Jón, 21.9.2013 kl. 01:42

4 identicon

Ekki er hann "minn" páfi og víst var hann glæpamaður, líkt og flestir páfar hafa verið. En hann var stórmerkilegur sem slíkur, því hann lýsti því yfir að hann væri ekki óskeikull. Þar með hrapaði hann af himinháum stalli og kom í veg fyrir nokkur páfi komist á hann framar. Ef orð þín væru óskeikul og háheilög að dómi annarra og þú myndir leiðrétta þá, þá værir þú stórmerkilegur samt sem áður. Breytir engu þó þú værir mafíuforyngi. Ef þú byggir yfir raunverulegri þekkingu á kaþólskri trú og sögulegu samhengi og því hvaða áhrif fordæmi páfa hefur, þá myndir þú aldrei segja að núverandi páfi sé merkilegri maður en forveri hans. Hann hefur á sér ákveðna væmnislikju til að höfða til fjöldans, en hann er ekki að gera neitt nýtt, róttækt eða merkilegt. Kaþólsk trú er ekki fylgni við ákveðið yfirvald og valdsmenn. Það eru meira að segja til kaþólskar fríkirkjur, ekki tengdar Vatikaninu, og ein slík starfaði lengi opinberlega hér á Íslandi. Flestir kaþólikkar eru ekki sammála páfa og páfagarði nema um örfáa hluti, en telja þó ekki þörf á að skilja við kirkjuna á þennan hátt. Það er vegna þess að samkvæmt kaþólskri guðfræði er kaþólska kirkjan ekki af þessum heimi. Kaþólskur þýðir alheimslegur eða alltumlykjandi á íslensku. Kirkjan hér á jörðu er spegilmynd kirkjunnar á himni. Verður aldrei nema lélegt bergmál hennar, vísbending og ófullkomin. Þannig líta kaþólskir á kirkjuna, ef þeir eru menntaðir. Ef þeir eru ekki menntaðir þá er kirkjan hefðir og venjur og siðir, tengd föðurlandsást og hollustu við þjóðina ef þeir búa í Suður Evrópu eða Ameríku, (ég sagði ekki það væri rökrétt, ég er að tala um hvernig þeir upplifa hlutina), og það er af tryggð við eigin menningu og arfleið sem þeir eru kaþólikkar, ekki af andstöðu við aðra eða aðdáun á páfanum. Flestir hörðustu stuðningsmenn IRA á Írlandi eru lítið trúaðir í raun. Án þess að leggja blessun mína yfir þau viðbjóðslegu samtök, þá skal ég segja þér það að ef þú lest þér nóg til til að skilja afhverju svo er, að hálftrúlausir menn, þar á meðal ófáir hommar, á Norður Írlandi styðji kirkjuna á svo öfgafenginn hátt, þá ertu byrjaður að skilja hugarheim kaþólikka og hvað það er að vera kaþólikki. Ég verð ekki einn þeirra og páfinn þeirra verður ekki minn þó ég hafi eytt mestallri æfi minni í þeirra löndum. Páfinn hefði ólíkt minna út á þig að setja en mig og mínir líkar voru brenndir af forverum hans.

T 21.9.2013 kl. 03:24

5 Smámynd: Einar Karl

'T' segir:

Kirkjan hér á jörðu er spegilmynd kirkjunnar á himni. ... Þannig líta kaþólskir á kirkjuna, ef þeir eru menntaðir.

Þetta held ég sé kolröng fullyrðing. Nema T sé hér að tala um kaþólikka sem eru menntaðir í guðfræði og eru trúaðir.

Almennt er það svo að þeim mun meiri menntun sem fólk hefur, þeim mun minna trúir það á fyrirbæri eins og Guð og himnaríki.

Menntað fólk í kaþólskum ríkjum hugsar flest mjög lítið um kirkjuna dagsdaglega og áhrif kaþólsku kirkjunnarí löndum eins og Írlandi og Spáni hafa (góðu heilli) snarminnkað síðustu ár og áratugi. Er nú svo að prestaskólar kaþólskra í þessum löndum eiga í mesta basli með að fá yfirhöfuð einhverja stúdenta sem vilja gerast prestar.

Einar Karl, 21.9.2013 kl. 10:31

6 identicon

Ég var að meina menntaðir í trúnni sjálfri. Það fer eftir stétt hvort þú þekkir guðfræðina eða ekki í mörgum löndum, en kemur því ekkert við hvort þú hefur lært guðfræði eða ekki. Svona eins og íbúar Suður Evrópu eru almennt mjög vel að sér um arkitektúr og byggingarstíl. Það er ekki einkenni á ákveðnu menntunarstigi eins og á Íslandi, heldur fylgir því að tilheyra ákveðinni stétt. Og meira að segja ómenntaður Suður Evrópubúi veit meira um byggingarstíla en hinn dæmigerði Íslendingur með háskólapróf sem þekkir þá ekki strax í sundur né getur tímagreint þá. Ég hef búið meðal menntaðra sem ómenntaðra kaþólikka. Þeir gefa trú sinni jafn lítinn gaum. Kannski er það satt að fyrir einhverjum áratugum skipti trúin ómenntaða almennt meira máli. Það er ekki raunveruleikinn lengur. Venjulegt fólk út um allan heim hefur alltaf haft mestan áhuga á eigin hag, eigin fólk og eigin daglega lífi. Þegar ríkjandi gildi og valdhafar beina því ekki lengur í neina ákveðna átt eða gera kröfur á það umfram það, er þetta það eina sem fólk almennt hefur áhuga á, fyrir utan nokkrar sjaldgæfar manngerðir sem hafa alltaf fylgt mannkyninu. Í dag er það sjónvarpið sem ræður ríkjum. Ekki páfinn.

T 21.9.2013 kl. 13:59

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vá!

Jón Steinar Ragnarsson, 25.9.2013 kl. 04:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband