Áhugaverð lestur úr Biblíunni

Ég bendi á áhugaverða pistla frá Illuga Jökulssyni sem hann flutti nýverið á Rás 1.

Því miður er takmarkaður birtingartími á vefnum og því hvet ég áhugasama til þess að njóta hið fyrsta.

Góðar stundir.


Þetta gengur ekki upp!

Rúmlega fimm þúsund manns, mest aldrað fólk, bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum, sumir hverjir í rúmlega 500 daga og samt eru til extra peningar fyrir Ríkiskirkjuna. Þessi gjafmilda og eymingjagóða nefnd vill ausa fé í hundraða milljóna vís í Ríkiskirkjuna. Þegar slíkar niðurstöður eru bornar á torg hlýtur maður að reikna með því að þessi alvöru verkefni ríkisins, þessi verkefni sem skipta einhverju máli, séu þegar full fjármögnuð. En þegar um fimm þúsund manns bíða eftir aðgerðum og ráðamenn kjósa að ausa meira fé í trúarpyttinn, þá er ljóst að forgangsröðunin er röng. Vera má að hlutaðeigandi séu með þessu að tryggja sér betri vist í handanlífinu, en dagljóst má telja að þau gæði gagnast þessum fimm þúsund lítt.

Eitthvað stemmir ekki í þessari jöfnu.


mbl.is Yfir 5.000 bíða eftir aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hreppir hnossið?

Nú þegar bænakvakið eftirsótta fær ekki lengur inni í Rúv þá hlýtur spurningin að vera hvaða útvarpsstöð önnur hreppir þetta hnoss? M.v. þá miklu eftirspurn sem kristnir nefna í kvörtunarpistlum sínum ætti ekki að vera erfitt að finna kvakinu annað heimili á öldum ljósvakans. Aðrar stöðvar hljóta því að standa í langri röð og biðja blíðlega um að fá að útvarpa þessum vinsælum dagskrárliðum.

En svo má auðvitað alltaf biðja fyrir endurkomu kvaksins á Rúv :) bænin er, jú, öruggasta leiðin til þess að ná sínu fram. 


mbl.is Orði kvöldsins og Morgunbæn hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum því eins og kristnitakan hérlendis

Líkindin á milli þessarar frásagnar og 'fallegu' sögunnar af því hvernig Íslendingar voru neyddir til þess að taka upp kristna trú eru sláandi mikil. Í báðum tilfellum er fólkinu gefið það 'frjálsa' val að taka upp nýjan sið eða deyja ella sem auðvitað verða seint taldir jafn góðir kostir.

Leitt er að sjá þessa endurgerð hryllingssögunnar um norsku biskupana Friðrek og Þangbrand, en sá síðarnefndi fór með ofbeldi um Ísland í viðleitni sinni til þess véla og neyða landsmenn til þess að láta af meintum barbarisma. Þrátt fyrir hernaðarlega yfirburði náði Þangbrandur þó ekki betri árangri en svo að fáir þáðu tilboð hans og einhverjir 'kusu' frekar að deyja og sækja sinn rétt í Valhöll frekar en að selja sig undir vald og pínu þess guðs sem Brandur bauð. Eftir að hafa skrönglast um landið um nokkra hríð lyppaðist hann aftur til Noregs og lýsti þeirri skoðun sinni fyrir Ólafi konungi blátönn að Íslendingar myndu líklega ekki láta segjast sem auðvitað pirraði nafna minn umtalsvart, enda metnaðarfullur mjög. Svo hefur nú kannski spilið inn í að elska guðs hans er auðvitað afar skilyrt og því hefur blátönnin talið öruggast að tryggja sér handanvist með afgerandi hætti. Hann hneppti því nokkra syni íslenskra höfðingja í gíslingu og sendi aftur sveit manna hingað til þess að reka kristniboðið ofan í kokið á Íslendingum með góðu eða illu.

Skemmst er frá því að segja að Íslendingar tóku upp þennan nýja sið með í augum glýjuglampann sem stafaði frá nýfægðum norskum sverðum og spjótum, en kristnu sölu- og ofbeldismennirnir þurftu þó m.a. að slá af fyrstu meginkröfu boðorðanna sem er krafa hins óörugga guðs um að enginn skuli aðra guði hafa. Já!, Íslendingar fengu s.s. formlega undanþágu frá fyrsta boðorðinu sem sýnir hversu brátt norskum sölumönnum trúarlegu snákaolíunnar var orðið í brók því ef eitthvað er þá ætti þetta ákveðna boðorð að vera það síðasta sem tekið væri út af borðinu, en raunin varð sú að það var það fyrsta sem fauk. Þessir norsarar voru bersýnilega miklir prinsippmenn!

Já, það er nöturlegt að sjá söguna endurtaka sig í austrinu því hún er ljót og helsti boðskapur hennar er sá að hægt er að koma jafnvel versta málstað fyrir borð með næglega miklum yfirgangi og sannfærandi hótunum um dauða og limlestingar.

PS. Skyldi þessi frásögn af vösku trúarsölumönnunum eystra verða fléttuð inn í trúfræðilega kennslu í grunnskólum til þess að sýna hvernig sagan endurtekur sig? Það er auðvitað sumpart áhugavert fyrir litlu krílin að geta fylgst með þessari framvindu í rauntíma, en fyrst og fremst grunar mig þó að þau muni helst fyllast sorg vegna framvindunnar hérlendis fyrir rúmlega 1000 árum síðan ef atburðirnir í austrinu eru rétt útskýrðir fyrir þeim.


mbl.is Reka kristna menn frá Mosul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmlega 400 manns segja sig úr Ríkiskirkjunni

Þetta hlýtur að vera forstjórum Ríkiskirkjunnar mikið áhyggjuefni því svona fréttir hafa sést reglulega á þriggja mánaða fresti í fjölmiðlum um langt árabil. Hún rétt nær að halda sjó hvað fjölda sauða varðar þrátt fyrir töluverða fjölgun Íslendinga á tímabilinu og þrátt fyrir að nýfæddu Guðsblessuðu börnin eru langlanglangflest vélskráð í hana við fæðingu. Sérhver þenkjandi maður sér það í hendi sér að ríkisskráning hvítvoðunga er það eina sem heldur einhverju lífi í sauðatali Ríkiskirkjunnar og skal því engan undra að Ríkiskirkjan stendur grimman vörð um þessa vélskráningu, enda er hún líklega algjörlega í samræmi við það sem Jesús Jósepsson lagði fyrir á sínum tíma.

En þetta þokast í rétta átt, hægt og bítandi :)


mbl.is Nærri fimm hundruð úr Þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólabörn mega alls ekki fá Nýja testamentið

Eldur og brennisteinnEymingja skólabörnin í Reykjavík, öll sem eitt hreinlega sólgin í Nýja testamentið, glíma við óyfirstíganlegar hindranir í árangurslausri leit sinni að Bláu bókinni. Það er nefnilega þannig að settar hafa verið margvíslegar óyfirstíganlegar hindranir í veg þeirra sem gera það að verkum að algjörlega er vonlaust fyrir litlu afhelguðu og trúlausu krílin að nálgast Bláa kverið sem er auðvitað forsendan fyrir því að Guð almáttugur, sem virðist þó ekki eiga roð í Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, finni leið að trúarsneyddum hjörtum þeirra.

Ef aðeins það væri hægt að nálgast Bláa kveðlinginn með öðrum hætti en í gegnum trúboð í skólum. Ég sé fyrir mér heim þar sem trúarsvelt skólabörn geta farið í bókabúð og keypt Bláu skáldsöguna (sem er auðvitað fráleitt mál í sjálfu sér, að börnin myndu vilja borga fyrir þetta), flett henni upp á Internetinu eða lagt leið sína til ríkisstyrktra félagasamtaka á borð við Gídéónístana og fengið fabúlasjónina þar ókeypis (með ríkisstyrk, auðvitað).

Nei, trúlaus skólabörnin í Reykjavík eiga ekki örugga vist vísa í handanlífinu á meðan ríkisstyrktum Gídéónístum er meinað að stunda trúboð sitt á fengsælustu miðunum, í grunnskólanum þar sem börnunum er uppálagt að trúa öllu því sem þeim sem sagt. Þetta eru metnaðarfullir veiðimenn sem þarna fara um, en standa nú frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum í starfi sínu fyrir almáttugan Guð sem þó má sín einskís gagnvart Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar eins og áður kom fram. Þó mun þessi Guð einhvern tíma hafa látið rigna eldi og brennisteini yfir saklaust fólk fyrir minni sakir þannig að honum virðist ekki finnast þetta stórmál og ef honum er slétt sama, gæjanum sem getur farið sínu fram með eldi og brennisteini, hvað eru aðrir þá að pípa?

Tímamót hjá Framsókn ...

Ógnvænlegt og áhugavert verður að sjá hvaða háspilum Framsóknartvennan í Reykjavík muni spila út til þess að þjóna nýjum umbjóðendum sínum sem skriðu undan steinum rétt fyrir kosningar. Ljóst er að það var ekki flugvallarmálið sem kom tvíeykinu inn í Reykjavík, þar voru að verki mun dýpri og dekkri kenndir. Þetta sést t.d. á því að nokkrir öfgafyllstu og umdeildustu einstaklingar [1|2] samtímans fylktu sér á bak við sorglegan málstað Maddömunnar, kátir og hreifir.

En nú er Framsókn í Reykjavík komin með nýjan hóp viðskiptavina í kjölfar útspils sem formaður flokksins virðist samþykkja án fyrirvara. Þessi nýi hópur mun krefjast þess að Framsókn vinni fyrir kaupinu sínu og því mun flokkurinn, í Reykjavík altént, þurfa að hækka fordómatilboð sín jafnt og þétt. Það er einfaldlega bara úr svo djúpum brunni að ausa þegar fólk bægslast um í fordóma- og haturslauginni.

Það besta við þessi tímamót er þó það að nú hefur forysta flokksins val. Hún getur séð að sér og skipt yfir í manneskjulegri áherslur. Kjósendur myndu jafnvel fyrirgefa flokknum með tíð og tíma þann ljóta leik sem leikinn var í þeirri tapstöðu sem flokkurinn var kominn í hér í höfuðstaðnum. Þarna var drukknandi fólk að reyna hvað það gat til þess að halda pólitísku lífi og þótt engin reisn sé yfir bjargræðinu þá getum við flest okkar reynt að setja okkur í þeirra spor þótt við getum á engan hátt samþykkt útkomuna.

En velji Framsókn að halda áfram á þessari braut sem hún hefur nú opinberlega markað sér, hvort sem var í stundarbrjálæði taphræðslunnar eða með kaldri og hatursfullri yfirvegun, þá erum við sem þjóð í vondum málum.

Ísland fyrir Íslendinga? ... það kemur líklega í ljós!


Nokkur gullkorn úr stefnuskrá Kristna trúarbandalagsins

Jæja, það er gaman að sjá að Jón Valur hefur nú loksins staðið upp af koppnum, hysjað upp um sig brókina og tilkynnt um framboð sitt í öllum kosningum hérlendis sem í vændum eru nema auðvitað sveitarstjórnakosningunum eftir mánuð því hann hefur, jú, ekki haft nema 2-3 ár til þess undirbúa þetta. En dagljóst má telja að þessi þróttmikli einleikur á stjórnmálasviðinu myndi sópa að sér atkvæðum og myndi örugglega fá 50-100 hér í Reykjavík á góðum degi.

Ég gerði mér það til skemmtunar að fara í gegnum þá stefnuskrá Jóns Vals sem hengd var við frétt um framboðið á visir.is, en þar má margt misjafnt finna. Þar má finna nokkur skondin atriði eins og t.d. þetta gullkorn um trúfrelsi á Íslandi (áhugavert er að sjá að hinn sannkristni Moggi er ekki að flýta sér að birta þessa mikilvægu frétt):

Löghelgað verði í stjórnarskrá, að þrátt fyrir trúfrelsi á Íslandi njóti kristinn siður hér forgangs ...


Dagljóst er að kristinn siður mun auðvitað ekki eiga neinn uppdrátt hérlendis nema hann njóti forgangs á öllum sviðum. Auðvitað samræmist slíkt fullu trúfrelsi í heimi þeirra sem lifa nú síðustu góðu daga þess siðs. Við hin sjáum bara óttablandna ofsahræðslu í þessum orðum.

Svo kemur þessi sykurmoli um mál sem tengjast fjölskyldunni:

Fjölskyldumál  [Aths.: byrja skal hér á pósitífum áherzlum.]
Kristin stjórnmálasamtök hafna hjúskaparvígslu samkynhneigðra í kristnum kirkjum, þar sem hún gengur gegn orði Guðs og fyrirmælum frelsarans.
Kristin stjórnmálasamtök taka afstöðu gegn hinum fráleitlega kostnaðarsömu útgjöldum ríkisins til "kynbreytingar".

Ég get ekki einu sinni byrjað að ímynda mér hvers konar svartagallsraus hefði ratað inn í þennan hörmungakafla ef ekki hefði verið athugasemd þess efni að þarna skyldi teflt út pósitífum áherslum. En þetta ku allt vera afar jákvætt og dejligt í heimi sannkristinna. En manni hryllir við þeirri hugsun um hvernig þessi kafli hefði getað litið út ef Jón Valur hefði ekki áminnt sjálfan sig um að hafa hann á jákvæðu nótunum.

Svo kemur Jón Valur að einhverjum opinberum styrkveitingum til Samtakanna 78 sem miða að því að rétta af hallann sem verður til vegna fordómarauss hans og skoðanabræðra hans:

Bannað verði að opinbert fé sé notað til að kosta útsendingu fólks úr Samtökunum 78 eða öðrum slíkum samtökum til að hafa áhrif á afstöðu unglinga í kynferðismálum; foreldrafundir fái a.m.k. neitunarvald í þeim málum ...


Mig grunar að Jón Valur hafi nú ekki verið jafn snöggur til mótmæla og andstöðu þegar Gídeón-kónarnir seildust í ríkiskassann hér í denn og snöpuðu peninga, en það var allt önnur Ella, ægilega gagnkynhneigð, karlmannleg og innblásin Guðlegu testosteróni. Það er ekki sama hver á í hlut, Guðs útvaldir eða Guðs útkastaðir!

Um ríkiskerfið segir Jón Valur:

Ríkiskerfið
Fækka ber ríkisstarfsmönnum og draga úr rekstri óarðbærra ríkisstofnana; að leggja sumar þeirra niður kemur vel til greina, en fyrst ber að kanna, hve mjög þetta kerfi hefur þanizt út á síðustu áratugum og hvort eða hverju það hefur skilað, með hliðsjón af útgjöldunum.


Þeir rétti upp hönd sem sjá fyrir sér Ríkiskirkjuna þegar talað er um óarðbærar ríkisstofnanir! Það er gott að Jón Valur skuli sjá þessa matarholu í sparnaðarmálum og mun ég styðja hann með ráð og dáð í því að skera duglega niður í þeim óarðbæra bissniss (fyrir þjóðina, altént) sem rekstur Ríkiskirkjunnar er.

Í allri þessari upptalningarþulu saknaði ég þess að það gleymdist að telja upp það sem ætti að vera aðal baráttumál Kristilega stjórnmálaaflsins, nefnilega lögbindingu þeirrar heilögu skyldu Rúv að sýna þættina um Bibleman í öll mál. Það myndi sannarlega fá unga fólkið til þess að biðja um bláu bókina í skólanum :)

PS. Og hvernig er hægt að fullyrða að Jón Valur hafi einn haldið um fjaðurstafinn við samningu téðrar stefnuskrár? Jú, hin tilgerðarlega 'z' er fangamark hans, andlegu spörðin sem koma upp um kauða. Þeir sem nenna að plægja í gegnum þetta manifesto sjá að enginn annar hefur nennt að koma að samsetningu þess því zetan ríður þar þvers og kruss um héröð.


Tilraunin sem mistókst!

Æi, ef aðeins Ríkiskirkjan gæti varið stöðu sína í krafti þess að hún hefur um áratuga skeið verið styrkt um ótalda milljarða tugi í gjafafé, að hún hefur í gegnum tíðina fengið lungann af öllum nýfæddum börnum sjálfkrafa inn í félagatal sitt og að hún hefur um langt árabil haft greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum með boðskap sinn (hún hefur þó ekki viljað halda úti sömu þjónustu í framhalds- og háskólum, enda verra og leiðinlegra að eiga við fólk sem hefur sjálfstæða skoðun á söluvarningnum).

Hvað þarf meira til? Skylduskráningu í kristin trúfélög? Meira af seðlum? Fleiri kirkjur? Orð dagsins í Rúv kvölds, morgna, hádeginu, eftirmiðdaginn, með fyrra og seinna kaffinu og alls staðar þar á milli? Hvenær verður biskupi ljóst að þessi tilraun hefur fyrir löngu mistekist? Að Ríkiskirkjan er 10-20% trúfélag, ekki 70-90%? Að hún er að lognast út af sem sýnir sig í því að kirkjugestir eru almennt gamlir og gráhærðir (nema um þessar mundir þegar fermingarbörnin eru að ná í gjafirnar sínar) og valfrjáls nýliðun yngra fólks er gjörsamlega að mistakast þrátt fyrir t.d. ríkisskráningu við fæðingu? Í vefslóðinni hér undir sést hin raunverulega ásýnd Ríkiskirkjunnar, gömul og grá:

Lestur Passíusálma í Hallgrímskirkju: http://bit.ly/1hXkTqN

Biskup sjálfur hefur t.d. ekki nokkra einustu trú á því að sauðir hans muni í krafti trúarhitans borga sóknargjöld af fúsum og frjálsum vilja eins og kemur fram í bréfi til Alþingis árið 2002 þar sem hann segir m.a.:

"Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega árhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir þvi hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun."

Bréfið: http://bit.ly/1ji4hFF

Vonandi hætta forkólfar Ríkiskirkjunnar þessu sífellda sífri um að enginn vilji kaupa það sem þeir selja. Það er leiðinleg sölumennska og gerir fyrst og fremst lítið úr vörunni.

Gleðilega páska! :)
mbl.is Trúnni sópað undir teppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkan glymur kaþólskunni ...

Ánægjulegt er að sjá að hinn almenni kaþólikki gengur í berhögg við fordómafullar kenningar kirkjunnar í þeim hluta heimsins sem fengið hefur að njóta ávaxta upplýsingar og velmegunar. Þar hafnar þessi dæmigerði kaþólikki fordómum kaþólskunnar með hegðun sinni og villuskoðunum. Þetta kemur fram nýlega þegar 12 þúsund meintir kaþólikkar í 12 löndum voru spurðir um viðhorf sín til ýmissa lykilmála sem ógna allsherjarreglu og almennu siðferði eins og t.d. notkun smokksins. Þar sem menntunarstig er hærra hafnar fólk þessum bábiljum, en þar sem það er lægra umfaðmar fólk fordómana. Þannig kemur t.d. ekki á óvart að síðasta vígi kaþólskunnar er að finna í Afríku sem á um nokkurn veg að fara uns hún kemst að sömu niðurstöðu og heimsálfur sem geta boðið borgurum sínum betra hlutskipti.

Ég hvet alla áhugasama til þess að smella á krækjuna hér ofar og kynna sér niðurstöður könnunarinnar. Heilt yfir er þetta gleðileg og skemmtileg lesning, sérstaklega fyrir þá sem unna almennri heilbrigðri skynsemi og vilja sjá fordóma og kreddur á bak og burt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband