Færsluflokkur: Trúmál

Þetta myndi engu máli skipta

Skortur á trúarlegri innrætingu í leik- og grunnskólum er ekki það sem stendur Ríkiskirkjunni fyrir þrifum, síður en svo. Banabitinn er og verður afnám (að mestu) vélskráningar hvítvoðunga í trúfélög. Þessi ótrúlega og freklega ríkisaðstoð við Ríkiskirkjuna hefur verið hryggjarstykkið sem hefur haldið henni uppréttri. Jú, það og svo auðvitað að ríkið hefur nær alltaf séð um að skaffa henni pening af því að félagsmenn hafa aldrei verið áfjáðir í að greiða félagsgjöldin. Það má því vel setja kristinfræði sem skyldufag í skólum mín vegna. Það væri gamaldags og hallærislegt í veraldlegu nútíma samfélagi, en það myndi ekki skipta neinu máli. Það eina sem það myndi gera er að varpa ljósi á þá staðreynd að ef ríkið tyggur þetta ekki ofan í börnin, þá verður það ekki gert sem segir okkur að foreldrar eru afar latir til verksins í þeim efnum.

Hvað það varðar að kristin trú hafi verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi í þúsund ár, þá er nokkuð til í því. Má þar nefna sem dæmi stöðu konunnar og samkynhneigðra sem Ríkiskirkjan hélt niðri þar til fyrir stuttu síðan. Konur voru hálf réttlausar, fengu atkvæðisréttinn seint og illa og gátu ekki orðið prestar fyrr en langt var liðið á síðustu öld og þá aðeins með harðfylgi og seiglu. Samböndum samkynhneigðra var líkt við sorphauga sem er ekki fallegt, en skiljanlegt ef hrætt og illa innrætt fólk með ákveðna gerð hugarfars er vel að sér í Biblíufræðum. Þetta ber að hafa í huga þegar talað er um áhrif trúarinnar.

Þetta útspil popúlistanna í Miðflokknum kemur ekki á óvart. Það er kjánalegt og gamaldags, eins og Miðflokkurinn, en mun ekki skipta neinu máli.


mbl.is Kristinfræði verði kennd á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ástæðan?

Nú er dagljóst að Ríkiskirkjan hefur skroppið saman undanfarin 20 ár og hefur sú hnignun orðið hraðari í seinni tíð. Skráðum fækkar ört; árið 1998 voru um 90% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna, en það hlutfall er nú komið niður í 65%. Ekkert bendir til þess að þessari þróun verði snúið við og því er undarlegt að nú sé gengið frá samningi sem virðist miðast við þessar gömlu og úreltu forsendur. Á þessum tímapunkti ætti ríkið að horfa til vilja þjóðarinnar og minnka umfang ríkisstyrkja umtalsvert. Engin ástæða er til annars.

En ríkið hefur á öllum stundum verið pínlega meðvirkt þegar kemur að Ríkiskirkjunni. Hægt er að skera niður í heilbrigðisþjónustu og annarri nauðsynlegri kjarnastarfsemi ríkisins, en aldrei virðist vilji til þess að spara milljarðana sem fara í hítina sem flestir Íslendingar vilja ekki sjá.

Hér tapaðist sannarlega gullið tækifæri. Vonandi koma dugmeiri stjórnmálamenn að þessu máli næst.


mbl.is Gengið skrefi lengra í aðskilnaði ríkis og kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, við þurfum í raun ekki að tala mikið um hana ...

Óskiljanlegt er það sem fram kemur í þessari frétt að ríkið beri siðferðislega ábyrgð gagnvart Ríkiskirkjunni vegna þess, að því er virðist, að það leyfði sér að halda henni uppi fjárhagslega í öll þessi ár sem hún hefur verið á framfæri þess. Að segja að ríkið verði að tryggja að eitthvað komi í staðinn fyrir ölmusuna er kjánalegt í besta falli því ef ríkið hefði ekki staðið vörð um hag Ríkiskirkjunnar væri hún löngu horfin og nær gleymd.

Ríkiskirkjan hefur ávallt glímt við það vandamál að ætlað félagsfólk hennar hefur ekki viljað borga félagsgjaldið. Þetta sama fólk hefur borgað fyrir aðild að alls konar félögum, en einhvern veginn hefur það ekki fengið sig til að borga trúartollinn og því hefur ríkið þurft að innheimta fyrir hana og, í seinni tíð, láta hana hafa aur eftir að formlegri innheimtu var hætt. Trúfélög hafa notið þess að fá pening fyrir alla þá sem skráðir eru í þau skv. Þjóðskrá og hefur aldrei orðið dráttur á þeim greiðslum. Aðeins trúfélög hafa notið þessarar þjónustu, sem í denn var sett á þegar Ríkiskirkjan hafði nær 100% hlutdeild á trúarmarkaðnum, ekkert annað félagsform hefur getað beðið ríkið um að innheimta fyrir sig. Ljóst er að gjaldkerar fjölmargra félaga hefði í gegnum tíðina vel þegið sömu innheimtu- og greiðsluþjónustu, en ekki fengið. Að segja að ríkið beri siðferðislega ábyrgð á Ríkiskirkjunni eftir áratuga meðgjöf gengur þvert á alla sanngirni og skynsemi.

Ríkið ber því ekki neina ábyrgð, lagalega né siðferðislega, á örlögum Ríkiskirkjunnar þegar kemur að því að hún þarf að standa á eigin fótum og raunverulega sækja styrk sinn í félagatalið. Fleiri, fleiri tugir milljarða hafa í gegnum tíðina og engin ástæða er til að bæta við það eftir fullan aðskilnað. Nú er kominn tími til að sjá hvernig hún plumar sig upp á eigin spýtur. Ráðafólk hennar ætti að fagna því að geta þá loksins sett sína upphæð á gíróseðilinn í stað þess að þurfa að sífra og væla utan í ríkinu um hana.

Og varðandi fækkun í Ríkiskirkjunni þá er skýrt að breyting á vélskráningu nýfæddra barna í trúfélag vegur býsna þungt þar. Áður var nýfætt barn vélskráð í trúfélag móður, en í dag þurfa báðir foreldrar að vera skráðir í sama félag til að það gerist. Þetta er skárra, en samt algjör óþarfi og í raun móðgun við nýfædda krílið að gera ráð fyrir að það muni taka trú skv. merkingu í Þjóðskrá. Þessi vélskráning hefur í marga áratugi verið lífæð Ríkiskirkjunnar. Þegar þar verður messufall er fyrirséð að fækki þegar færri börn koma inn á meðan eldri félagar hverfa á braut.

Innan sjá ára mun markaðshlutdeild Ríkiskirkjunnar, sem er í raun uppblásin og ómarktæk, fara undir 50%. Þegar það gerist verður nauðsynlegt að skera á alla þræði á milli hennar og ríkisins. Ef ekki, þá hlýtur sú krafa að öll félagi fái notið félagsgjaldaþjónustu ríkisins að fá byr undir báða vængi.

Nóg hefur verið tala um Ríkiskirkjuna í gegnum tíðina og langflestir komnir með dauðleið á því. Hættum því þessu masi, skerum á öll fjárhagsleg tengsl og lokum málinu. Jarðasamningurinn verður gerður upp og mismunurinn greiddur, en ekki er ólíklegt að Ríkiskirkjan standi í skuld fyrir ríkið vegna hans ef forsendur eru veraldlega reiknaðar. Hvernig sem allt fer, þá þarf að setja punkt fyrir aftan þetta Ríkiskirkjumál, tími er til þess kominn!


mbl.is Við þurfum að tala um þjóðkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkistrú á fallandi fæti ...

Hér er örstutt samantekt á hagtölum síðasta árs þegar kemur að ríkissýninni á trúarlíf þjóðarinnar.

Fyrst er áhugavert að skoða hlutfallstölur. Í gegnum tíðina hafa fylgjur Ríkiskirkjunnar nefnt það sem sem helstu rök fyrir ríkisstyrkveitingu að svo margir séu í hana skráðir og yljar þetta fólk sér við það að einu sinni voru nær 100% þjóðarinnar lögskráð þar. Nú er þessi tala komin niður í 65% og hefur hún lækkað um tvö prósentustig árlega undanfarin fjögur ár. Miðað við það verður hlutfallið komið undir 50% innan 7-8 ára.

Auðvitað ættum við umsvifalaust að fara að skoða ríkisstyrkveitingar til trúfélaga nú þegar ljóst er að þetta apparat er á fallandi fæti. Þrátt fyrir höfðinglegar styrkveitingar frá ríkinu í gegnum tíðina hefur þróunin verið niður á við nær öll ár síðan 1998 og því er ljóst að þetta hrun verður ekki tengt við fjárhagslega kröm.

hlutfall 2019

Svo er ekki síður áhugavert að skoða fjöldatölur sem auðvitað liggja allar niður á við hjá Ríkiskirkjunni. Þar hlýtur helsta áhyggjuefnið að vera jöfn og stöðug fækkun í hópi barna, en þau eru framtíðar andlag sóknargjaldanna góðu og þegar þeim fækkar verður gjöfin frá ríkin rýrari. Þessi þróun hefur verið niður á við frá árinu 1998 þegar börn voru 70.700 talsins, en teljast nú vera 54.250. Þetta er sérstaklega áhugavert þegar sést að í dag telur þjóðin tæplega 357 þúsund manns, en var rúmlega 272 þúsund árið 1998. Því hefur börnum fækkað um 16.500 á meðan landsmönnum fjölgar um 85 þúsund. Í það minnsta blæs ekki byrlega fyrir Ríkiskirkju framtíðarinnar þegar seiðastofninn skreppur jafn mikið saman og raun ber vitni.

felagatal 2019

Sú krafa meirihluta þjóðarinnar um aðskilnað ríkis og Ríkiskirkju er hávær og réttmæt. Þessar tölur sýna að ekki er hægt að hunsa þessar raddir mikið lengur því í dag er pínlegt hvernig reynt er að púkka upp á hnígandi fyrirbæri í íslensku þjóðlífi með öllum mögulegum leiðum.

Ríkiskirkjan mun vel lifa af aðskilnað. Hún mun skreppa saman niður í raunstærð sem er töluvert fyrir sunnan 50%, en þá væri auðvitað tekið mið af þeim fjölda sem tíma að borga félagsgjöldin í heimabankankanum. Greiðsluvilji þarf hins vegar ekki að vera forsenda trúar ekki frekar en að ríkisstyrkurinn í dag er það. Ríkiskirkjan myndi að mínu mati styrkjast við þetta því hún myndi með þessu reka af sér eymingjaímyndina sem hún hefur í huga margra; gömul ölmusustofnun sem er sífellt sífrandi, kvartandi og veinandi. Það hlýtur að vera eftirsóknarverð staða fyrir alla sem að koma og bera hlýjar tilfinningar til hennar.


Ríkiskirkjan rýrnar enn

Þjóðskráin birti í dag nýjustu tölur um meinta trúfesti íslensku þjóðarinnar og sýna þær að nú eru innan við 2/3 hluti þjóðarinnar skráður í Ríkiskirkjuna. Þetta hlutfall hefur verið í frjálsu falli undanfarin ár og er engin ástæða til að ætla að það sé að breytast.

Þessi tölfræði segir ekkert til um raunverulega trúfesti þjóðarinnar því eini tilgangur hennar er að vera andlag fjárausturs til Ríkiskirkjunnar. Einhverjir hafa orðið spældir vegna margvíslegra hluta sem forsvarsmenn Ríkiskirkjunnar hafa gert, en ég hef enga trú á því að einhver mótmæli fólks í gegnum talnaleik í Þjóðskrá séu merki um breytingu á trú þeirra.

Hins vegar er ánægjulegt að geta vísað í þessa talnaleikfimi þegar það fólk tjáir sig um þessi mál með vísan í þessa talnasúpu. Ár hvert hefur það fólk þurft að lækka töluna sem einu sinni var nær 100% en 90% og nú styttist í að hún verði nær 50% eða 60%. Þegar 50% markinu verður náð hljóta allir að vera því sammála að þá er þessari björgunaraðgerð lokið. Hvernig sem þessu verður velt fram og til baka þá munu opinberar tölur sýna að minnihluti þjóðarinnar tilheyrir Ríkiskirkjunni og á þeim tímapunkti á hún ekkert tilkall til þess ríkisstuðnings sem í tíðina hefur verið hannaður svo hún þyrfti ekki að líða fyrir auman greiðsluvilji félaga sinna.

Í millitíðinni verður gaman að fylgjast með þessu hruni því við sem höfum ánægju af góðum staðtölum höfum alltaf fengið verk fyrir hjartað þegar þessu talnatrosi hefur verið hent á borðið eins og ónýtu þorskslori.


... og enn gefur hún eftir

Nýjar tölur birtust nýlega á vef Hagstofunnar sem sýna að staða Ríkiskirkjunnar er sífellt verri. Árið 1998 var hún sögð vera dálæti 89,91% þjóðarinnar (allir vita þó að þessi tala var bara tilkomin vegna vélskráningar ríkisins á nýfæddum börnum í félagatal hennar). Nýjustu upplýsingar sýna að þessi tala er nú komin niður í 67,22% og er það lækkun um 2,67 prósentustig á milli ára. Annað merkilegt er að þetta er mesta lækkun á milli ára frá árinu 1998 og því er ekkert sem bendir til annars en að nú flæði enn hraðar undan Ríkiskirkjunni. Árið 1998 réttlættu sjálfskipaðir málsvarar Ríkiskirkjunnar forréttindastöðu hennar með því að í henni væru 90% þjóðarinnar (spurning er hvort Jesús Jósepsson hefði skrökvað svona, þekkjandi tilurð tölunnar?).

En svona lítur hnignun Ríkiskirkju út á veraldlegu grafi:

Þróun 1998-2018

Þarna má greinilega sjá spíralinn niður á við. Eftir eru 17,23% í að þetta hlutfall fari undir 50% og skv. þessum tölum lækkaði hlutfallið um það á síðustu 14 árum. Því má gera því skóna að Hagstofukristið fólk muni telja minnihluta þjóðarinnar innan þess tíma þrátt fyrir alla meðgjöfina, hjálpina, stuðninginn og bellibrögðin í gegnum tíðina.

Hvernig munu málpípurnar hljóma þá? Hvernig munu þær finna réttlætingu á þessu öllu saman þegar óhappafleyið er sokkið undir 50% markið?

PS. Áhugavert er að velta vöngum yfir því hvenær Ríkiskirkjan raunverulega fellur undir 50% markið. Ég reiknaði meðaltal fækkunar síðustu fimm og tíu árin og framreiknaði hnignunina m.v. það. Ef stuðst er við meðaltal síðustu tíu ára gerist það árið 2032, en ef horft er til meðaltals síðustu fimm ára mun bjallan glymja 2028.

Ríkiskirkjan undir 50%?

Hvernig sem allt veltur þá er ekki langt í þetta og þessu virðist ekki verða afstýrt nema með guðlegri íhlutun.


Fjórðungur skilaði sér til baka

Frásögn Rúv af hremmningin íslenska safnaðarins í Noregi er áhugaverð að því leyti að hún sýnir hversu bjöguð og vitlaus ríkisvædd trúar- og lífskoðanaskráning er. Í fréttinni er talað um að söfnuðurinn hafi mest talið tíu þúsund félaga, en þegar norska ríkið krafðist þess að allir yrðu skráðir úr honum svo hægt væri að sjá raunverulega hversu margir skiluðu sér til baka voru það 2-3 þúsund manns sem skiluðu sér aftur á endanum eða 20-30%. Líklegt má telja að forsvarsfólk safnaðarins hafi lagt nokkuð á sig til að fá fólk til að skrá sig, en það virðist ekki hafa skilað árangri.

Hvernig væri útkoman hér heima ef hið sama væri gert hér. Öll trúfélagaskráning yrði þurrkuð út og þeir sem vildu myndu skrá sig aftur. Að mínu mati þyrfti bara að núllstilla skráningu þeirra sem ríkið vélskráði í trúfélag við fæðingu, sem er mikill meirihluti skráðra, engin ástæða er til þess að rugla í fólki sem hefur haft fyrir því sjálft að hlutast til um skráningu sína, en það fólk er í litlum minnihluta.

Mig grunar að heimtur yrðu rýrar. Fáir myndu hafa fyrir því að skrá sig aftur og fjárhagslegum stoðum yrði kippt undan Ríkiskirkjunni sem reiðir sig hvað mest á ölmusu ríkisins. Hún myndi þurfa að senda út eigin gíróseðla og bíða svo í eftirvæntingu um hvað kæmi inn á reikninginn.

En það mun ekki gerast. Ráðamenn eru meðvitaðir um hversu háð Ríkiskirkjan er fjárhagsstuðningi ríkisins og þrátt fyrir fögur fyrirheit flestra flokka um algjöran aðskilnað ríkis og kirkju virðist enginn þeirra hafa dug né kjark til þess að drífa það mál í gang.

Samt gerist það ár frá ári að það fækkar hlutfallslega í Ríkiskirkjunni og brátt fer að gæta margföldunaráhrifa þeirra fækkunar. Þá munu þessar tölur breytast hraðar og hraðar, trú á Íslandi í óhag.


Allt á niðurleið

Tölur um hlutfall Íslendinga sem fengið hafa lögskráningu í trúfélag, flestir í boði vélskráningarþjónustu íslenska ríkisins, fara hríðlækkandi ár frá ári. Grafið hér undir sýnir að fram til ársins 2005 var lítil hreyfing á þessu hlutfalli, en síðan þá hefur það verið í frjálsu falli og eykst hraðinn líklega frá ári til árs úr þessu þegar fækkar nýfæddum börnum sem rennt er í gegnum vélskráningarþjónustuna.

Þetta er bara tímanna tákn og kærkomin leiðrétting á kolröngum staðtölum. Það er nefnilega þannig að staðtölur eiga að vera réttar og gefa góðar upplýsingar um stöðu þeirra mála sem þær taka til. Þegar kemur að trúmálum á Íslandi hafa allar staðtölur verið svo gjörsamlega úr takti við veruleikann að engu lagi hefur verið líkt. En nú rofar til, leiðréttingin er hæg og bítandi, en þróttmeiri með hverju árinu sem líður. Á síðasta ári lækkaði þetta hlutfall um 1,89 prósentustig og er það langmesta lækkun í 20 ár.

Til hamingju, Íslendingar, með sífellt réttari hagtölur frá Trúar- og lífsskoðanaeftirliti íslenska ríkisins. Þetta er að koma ...

Hagstofutrúaðir


Nýfæddu börnin æpa eftir Ríkiskirkjuskráningu ...

Á fyrstu þremur mánuðum ársins skráðu 168 einstaklingar í Ríkiskirkjuna á meðan 802 kvöddu hana. Þannig fækkaði félögum í heildina um 634. Ekki há tala, þannig lagað, en þegar haft er í huga að Íslendingum fjölgaði á sama tíma þá er bersýnilegt að hlutdeild Ríkiskirkjunnar á trúarmarkaðnum rýrnaði nokkuð. Væri Ríkiskirkjan skráð í Kauphöllina myndi hún þurfa að gefa út afkomuviðvörun og hlutabréf hennar myndu lækka í verði.

Hins vegar er áhugavert að skoða hvaða fólk það er sem 'skráði' sig í Ríkiskirkjuna. Ef tölur Þjóðskrár eru skoðaðar kemur í ljós að það voru 87 börn undir 15 ára og yngri aldri sem skráðu sig í Ríkiskirkjuna eða um 52% þeirra sem bættust í hópinn þar. Líklega eru nýfædd börn í miklum meirihluta í þessum hópi, sem er skiljanlegt því allir vita að skráning í trúfélag er það fyrsta sem nýfæddir einstaklingar hyggja að.

Af þessum tölum má ráða að Ríkiskirkjan græðir vel á sjálfvirkri skráningu ríkisins á nýfæddum börnum í trúfélög. Allir vita að þetta er auðvitað algjör vitleysa og snýst um allt annað en hag barnsins, en þannig er þetta samt. M.v. þessar tölur eru því árlega skrá um 350-400 nýfædd börn í trúfélag sem þau vita ekki að er til, hvað þá að þau hafi óskað eftir því. Áður fyrr voru þessar tölur mun hærri, en þá var bara farið eftir trúfélagi móður. Nú þurfa báðir foreldrar hins vegar að vera skráðir í sama trúfélag og virðist það eiga að veita góða vissu fyrir því að nýfædda barnið muni tileinka sér sama átrúnað.

Hvernig sem allt veltur þá er verið að vinda ofan af kolröngum staðtölum Trúarregistu ríkisins sem hafa verið falsaðar og afmyndaðar í gegnum tíðina með margvíslegum bellibrögðum. Ekki er langt síðan að rúmlega 90% þjóðarinnar var skráð í Ríkiskirkjuna skv. þessari falsregistu, en nú er það hlutfall komið undir 70%. Á endanum mun þetta hlutfall fara langt undir 50%, en það mun taka tíma. Ég kýs altént að trúa því og enginn getur sagt neitt við því :)


Um sóknargjöld og ráðaleysi lukkuriddara

Þegar Ríkiskirkjan hefur sjálf reynt að innheimta sóknargjöld hefur það alltaf gengið afar illa. Félagsmenn hafa ætíð verið tregir til að gjalda Ríkiskirkjunni það sem hún telur að henni ber og bendir það til þess að félagsmenn telja sig ekki vera að fá sannvirði fyrir peninginn. Svona er þetta hjá öllum öðrum félögum en trúfélögum; þau innheimta félagsgjöldin sjálf og félagsmenn geta sjálfir ákveðið hvort þeir greiði eða ekki.

En ekki Ríkiskirkjan. Óumdeilt er að núverandi fyrirkomulag á ríkisstyrkjum í formi sóknargjalda er tilkomið vegna tregðu Ríkiskirkjufólks til að borga. Þetta gengur jafnt yfir öll trúfélög, en þetta ráðslag er innblásið af stórkostlegri tregðu Hagstofukristinna þegar kemur að því að opna budduna.

Ég sá nýverið graf sem kynnt var á Leikmannastefnu Ríkiskirkjunnar í fyrra, en af því má skilja að ríkið skuldi Ríkiskirkjunni tæpa sex milljarða vegna vangoldinna sóknargjalda. Þetta er engin smá fjárhæð og sem dæmi um nefna að fyrir hana mætti byggja 375 íbúðir í fjölbýli með 80 fm. flatarmál. Því er ljóst að einhverjir innan stofnunarinnar telja að þeir hafi verið hlunnfarnir og að um háar fjáræðir sé að tefla.

Ríkisstyrkur til Ríkiskirkjun 2008-17

Allt framangreint er þó gamlar fréttir. Ríkiskirkjan hefur vælt og sífrað í mörg ár og kveinkað sér undan óbilgirni og ósanngirni þess sem mokar í hana peningum. Þetta ramakvein þekkja allir og flestir komnir með hundleið á. Á meðan sóknarbörnum fækkar eiga greiðslur að hækka, eins undarlegt og það er.

Og þá er komið að tilefni þessara greinaskrifa. Ég hef margoft spurt af hverju Ríkiskirkjan segir ekki upp sambandi sínu við ríkið fyrst henni finnst að sér vegið í því. Af hverju sendir hún ekki út eigin greiðsluseðla með þeirri upphæð sem hún telur hæfilega til skráðra félaga? Ekki er verið að tala um fjarstæðukennt fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda því öll önnur félög hérlendis haga sínum málum svona.

Í gegnum tíðina hafa nokkrir lukkuriddarar veitt aum andsvör án þess að svara spurningunni. Þeir hafa vælt, kveinað, sífrað og andskotast með fádæma djöfulgangi út í ríkið án þess að svara spurningunni. Ekki er hægt að kenna um ólæsi eða lélegum lesskilningi, held ég, því þessir lukkuriddarar kunna ýmislegt fyrir sér. Því stendur spurningin enn án svars.

Af hverju tekur Ríkiskirkjan ekki innheimtu sóknargjalda í eigin hendur og bætir þannig fjárhag sinn til ókominnar framtíðar?

Svar óskast, lukkuriddarar og aðrir málsmetandi aðilar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband