Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Flott forgangsröðun
Í fréttum á Stöð 2 rétt í þessu var talað um aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni og ég hélt að ég hefði heyrt vitlaust þegar talað var um að hún ætlar að leggja til fjórar milljónir í þetta verkefni. Ég var svo handviss um að þetta ættu auðvitað að vera fjórir milljarðar!
En svo kemur í ljós að milljónirnar eru fjórar og virðist sú upphæð vera góður mælikvarði á það hversu mikið vor ágæta ríkisstjórn beitir sér í þessu máli. Til gamans birt ég hér vefslóð sem sýnir nokkra útgjaldaliði í frumvarpi að fjárlögum ríkisins árið 2008. Þar sést að þessi upphæð er harla lítilvæg þegar hún er borin saman við úthlutun til margra verkefna. Ég er ekki að draga úr mikilvægi þeirra verkefna, síður en svo, en baráttan við verðbólguna hlýtur að vera mikilvægari en margvísleg safnavinna.
3. umræða - Séryfirlit 2: Sundurliðun óskiptra liða í A-hluta
Það er pínlegt að sjá hvað mínir menn í ríkisstjórn draga lappirnar. Geir Haarde virðist gefa sér meiri tíma í að koma fram í fjölmiðlum og verja aðgerðarleysið í stað þess að gera eitthvað markvert. Vera má að þetta sé hluti af snilldarlegri aðgerðaáætlun gegn verðbólgunni, en það mætti þá upplýsa pöpulinn um hvað sé í gangi.
Fjórar milljónir. Þokkalegur ráðherrabíll kostar meira en það.
Er þetta forgangsröðunin?
4 milljónir í aðgerðir vegna verðbólgunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. apríl 2008
Missa solemnis
Það kæmi mér ekki á óvart þótt bestvinur minn og ungfrú góð, Hlynur Halldórsson, hafi einhvern tíma samið 'manifesto' fyrir sjálfan sig og í því sé m.a. að finna eftirfarandi yfirlýsingu:
Ég, Hlynur Halldórsson, mun ekki linna látum fyrr en ég hefi komið örlítilli menningu í búrann Ólaf Jón Jónsson. Ég mun beita margvíslegum brögðum til að ná þessu markmiði mínu. Ég mun ekki láta tómlegt blikið í augum búrans letja mig á nokkurn hátt!
Þetta virðist vera undirrót þess að endrum og sinnum býður þessi höfðingi mér á tónleika Sinfóníunnar og nú síðast í kvöld, en þá fórum við að njóta Missa solemnis eftir Beethoven. Með Sinfóníunni söng Óperukórinn sem og fjórir einsöngvarar. Ashkenazy stjórnaði með miklum tilþrifum og það var gaman að sjá hann þeytast um pallinn!
Verkið er afar fallegt og áhugavert. Ágæt sýningarskrá gerði svo upplifunina enn ánægjulegri með því að kynna stuttlega tilurð þess og sögu. Ég hvet lysthafendur til þess að smella á krækjuna hér að ofan og kynna sér sögu verksins, en hún er löng og áhugaverð.
Nokkrum árangri var náð í kvöld, en ekki er HLH öfundsverður af þessu brölti. Hins vegar skora ég á hann að láta ekki deigan síga; jafnvel hinir mestu búrar eiga sér nokkurrar viðreisnar von!
Bloggar | Breytt 11.4.2008 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. apríl 2008
Al Gore
Í morgun naut ég þeirra forréttinda að sitja við fótskör meistara Al Gore og hlusta á það hörmungaerindi sem hann flytur allri heimsbyggð. Ég bauð mömmu í bíó hér í denn þegar myndin An Inconvenient Truth var sýnd og var um sama fyrirlestur að ræða í grunninum, en hann hafði þó tekið nokkrum breytingum. Ég er Glitni þakklátur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að mæta á fyrirlesturinn. Of oft eru svona gestir fráteknir fyrir aðra en sauðsvartan pöpulinn, en að þessu sinni fengu allir jafna möguleika.
Al Gore er frábær ræðuskörungur. Hann kom efninu fumlaust og skýrt frá sér og fléttaði snilldar vel saman máli og myndum. Ég fann að hann átti stóran hóp skoðanasystkina í sætum Háskólabíós, enda var snillingnum klappað lof í lófa þegar hann lauk tölu sinni. Framsetningin er líka sláandi. Bornar eru saman ljósmyndir af jöklum sem teknar eru með 25 ára millibili; á þeim fyrri eru jöklar, á þeim seinni nakið berg eða stöðuvötn. Loftmyndaröð af Larsen B ísflæminu sem sýndi hvernig hún liðaðist í sundur á nokkrum dögum. Vísindamenn höfðu áður áætlað að hún myndi halda saman í allt að 100 ár. Niðurstöður mælinga sem sýna óþekktar stærðir í magni kolefnis í andrúmsloftinu. Aukin tíðni hvers kyns hamfara; fellibylja, flóða og skógarelda. Skeytingarleysi og afneitun alríkisstjórnvalda í Bandaríkjunum. Útbreiðsla hvers konar óværu og sjúkdóma með meiri hlýnun. Af nógu er að taka, upptalningin er ömurleg.
Auðvitað er málflutningur Al Gore umdeildur. Margir sjá ofsjónum yfir því hvað hann hefur fram að færa og í hvaða búning hann setur hlutina. Ég varð eiginlega hálf spældur yfir því að sjá ekki Jón Glúm Baldvinsson hlaupa upp á svið og tækla kallinn; það hefði gert góðan fund enn eftirminnilegri. Sjálfur hef ég fulla trú á því að Gore byggi fyrirlestur sinn á bestu fáanlegu gögnum og því gefi þetta nokkuð raunsanna mynd.
Hins vegar er hægt að leika sér að þeirri hugmynd að kallinn bæti aðeins í og máli hlutina með ögn dekkri litum en raunverulega þarf, eins og margir segja hann gera. Þá spyr ég mig hvernig yrði ef hægt væri að deila í það sem Gore var að lýsa með tveimur? Þremur? Eða fimm? Hvað ef aðeins fimmtungur þess sem hann lýsti í morgun gengi eftir? Í mínum huga er það engu að síður næg ástæða til þess að við grípum hart inn í. Gore segir að 25 milljón tonn af kolefni fari í sjóinn daglega. Ef þau eru ekki nema fimm milljónir, veitir það okkur rétt til að slá slöku við og gera ekki neitt? Sjórinn verður þá bara fimm sinnum lengur að breytast í sýrubað, en það gerist á endanum. Gore segir að daglega fari um 70 milljón tonn af kolefni út í andrúmsloftið. Væri það ásættanlegt ef þetta væru bara um 15 milljónir tonna?
Við höfum ekki efni á því að bíða. Það er margt sem einstaklingurinn getur gert sem skiptir máli. Endurvinnum dagblöð, fernur, gosflöskur og dósir. Látum einn plastpoka nægja í stað tveggja þegar við verslum. Skiptum út ljósaperum og notum umhverfisvænar perur. Lesum skjöl af skjánum í vinnunni í stað þess að prenta allt á pappír. Ef við prentum eitthvað, endurvinnum þá pappírinn. Þeir sem eru komnir með bláu tunnuna frá Reykjavíkurborg eiga að skila henni strax og fá í staðinn Endurvinnslutunnuna frá Gámaþjónustunni, hún er margfalt betri og notadrýgri. Gerum umhverfisvænt ennþá vænna. Veljum hvítt, ef við höfum ekki skoðun á litnum. Kolefnisjöfnum! Hættum að ræsta fram mýrar landsins. Notum svo metan-gasið sem Sorpa getur framleitt í magni til að knýja bílana okkar og drífum í alvöru vetnisvæðingu. Látum börnin okkar, þegar þau hafa aldur og þroska til, taka strætó í stað þess að skutla þeim út um allt. Þetta og miklu meira til er hægt að gera án þess að gera neinar stórvægilegar breytingar á lífsstíl eða venjum.
Þetta skiptir allt máli.
Það er við hæfi að enda þetta á tilvitnun í Winston Churchill, en hann var í miklu uppáhaldi hjá pabba mínum. Þessi orð lét hann falla þegar hann sá fyrir yfirgang nasista í Evrópu meðan flestir aðrir skelltu við skollaeyrum:
"The era of procrastination, of half-measures, of soothing and baffling expedients, of delays, is coming to its close. In its place we are entering a period of consequences."
Málið er að við sem nú erum á fullorðins aldri töpum ekki miklu á því að bíða og gera ekki neitt. Þeim mun meir mun það hins vegar bitna á börnunum okkar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. apríl 2008
Sígarettuframleiðendur fjarlægja skaðleg efni úr sígarettum!
Auðvitað ekki? :) Þetta er samt flott fyrirsögn!
Meðan það er leyfilegt að flytja inn og selja sígaréttur eru svona fréttir í besta falli hlægilegar og í versta falli sorglegar. Ég man t.d. eftir því þegar gamla brennið Victory-V var tekið úr sölu hér í gamla daga, en sú ráðstöfun var gerð í óþökk minnar og Björgvins mjólkurfræðings í Osta- og smjörsölunni, en báðir vorum við eldheitir unnendur brennisins. "Fáðu þér brenni, knægt!", hætti að hljóma bræðslunni og í staðinn norpuðum við hér á skerinu án hins bráðdrepandi brennis, en sem betur fer gat ég stytt mér stundir með meinhollum reykingum. Svo þegar brennið kom aftur í sölu, og þá án hins bráðdrepandi og ógeðslega aukefnis sem lýðheilsuyfirvöld höfðu séð ofsjónum yfir, var það óætt og vont. En við höfðum sígarettur, sem betur fer!
Svo man fólk á mínum aldri eftir þeirri skýru og viðvarandi hættu sem stafaði af Tab neyslu hér á árum áður, en yfirvöld í lýðheilsumálum höfðu reiknað út að ef einnar baðkarsfylli af Tab var neytt daglega í tuttugu ár þá hækkuðu nokkuð líkur á krabbameini eða heimsku eða einhverju öðru. Ég man reyndar ekki hvort Tabið var tekið af markaði, en ef svo var ekki þá hljóta gamlir Tab-fíklar að týna tölunni hvað úr hverju, enda komnir á tíma. Söknuðurinn eftir Tabinu var þó ekki eins sár og ella sökum þess að maður gat keypt sér sígarettu og reykt og reykt og reykt ... góðar stundir!
Þá rifja ég einnig upp ógæfuna sem hlaust af því að Lucky Charms var selt hérlendis og hreinlega teflt fram af Nathan & Olsen, hlaðið eiturefnum, til að vega að heilsu íslensku þjóðarinnar. Lýðheilsuyfirvöld brugðust skjótt við og bönnuðu þennan vágest, en fyrir það kunnum við þeim auðvitað miklar þakkir fyrir. Í valinn féllu einnig Count Chocula, Boo Berry og Frankenberry, en upprisu þeirra er beðið með óþreyju! Meðan á þessu stóð var nú gott að getað drepið tímann með því að fá sér hollan og góðan kost, sígarettu!
Og er hægt að minnast þessara dökku kafla í sögu íslensku þjóðarinnar án þess að geta bláu M&M eiturpillunnar? Á tímabili varð M&M að smyglvarningi þegar agentar íslenskrar lýðheilsugæslu gerðu það útlægt. Maður norpaði á götuhornum og beið eftir M&M díler og fékk smá yl í kroppinn með því að reykja eina sígarettu!
Nú man ég ekki eftir því hvaða bráðdrepandi efni voru í þessum vörum, en mér er stórlega til efs að Pólóníum 210 hafi verið þar að finna. Eða blásýru. Nú, eða arseník. Hvað þá dímetýlnítrósamín. Svo ekki sé minnst á brennisteinsvetni.
Ég fletti upp áhugaverðri grein á Vísindavefnum og þar eru talin upp nokkur efni sem hvert og eitt er talið nokkuð hættulegra heilsu manna en þetta ágæta glúkósamín sem Lýsi er gert að fjarlægja úr vörum sínum, en það efni er líklega bara hollt. Á netinu er að finna fjölda greina sem segja að samtals séu 2.000 til 2.500 skaðleg efni í sígarettum, en til að gæta allrar sanngirni þá held ég mig við töluna sem nefnd er á Vísindavefnum, 2.000. Efst á listanum eru þessi ágætu efni sem virðast algjörlega hafa farið fram hjá útsendurum lýðheilsueftirlitsins:
- Nikótín
- Tjara
- Kolsýrlingur
- Akrýlónitril
- Ammoníak
- Arsenik
- Benzen
- Benzóapýren
- Blásýra
- Brennisteinsvetni
- Dímetýlnítrósamín
- Formaldehýð
- Hýdrazín
- Metanól
- Pólóníum 210
- Úretan
Af hverju er Lucky Charms talið hættulegra en Marlboro? Hvernig er hægt að segja að Victory-V sé skaðlegra en Winston? Er Tab virkilega óhollara en filterslaus Camel? Getur verið að blátt M&M sé verri kostur fyrir heilsuna en Capri?
Getur það virkilega verið? Er þetta rétt forgangsröðun?
Lýsi fjarlægir efni úr vörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Urð og snjór, upp í mót ...
Í kvöld átti ég mína bestu stund á fjallinu. Ég og Villi kafari lögðum á fjallið um hálf sex og var þá orðið nokkuð rökkurt. Á leiðinni sáum við að vindstyrkur á Kjalarnesi var 4 m/s og reiknaði ég með því að þar af leiðandi væri nokkur gjóla á fjallinu, en það gat ekki verið meir fjarri sanni því allan þann tíma sem við vorum með fjallinu bærðist vart hár á höfði.
Við félagarnir kveiktum á framljósunum og lögðum í hann. Ákváðum við að fara upp í einni lotu, enda er það í raun besta leiðin. Það er nefnilega býsna þreytandi að stoppa og hvíla sig þegar allt kemur til alls, eins skrýtið og það er - vöðvarnir stífna og það verður erfitt að fara af stað aftur. Áfram paufuðumst við í gegnum fannfergið sem alla jafna náði upp í miðja kálfa, en var ósjaldan mun dýpra. Þannig sukkum við nokkrum sinnum gjörsamlega í djúpum sköflum sem gerði ferðalagið ekki auðveldara. Við áttum því láni að fagna að tveir göngumenn höfðu farið fyrr í dag á fjallið og nutum við þess að geta fetað í fótspor þeirra. Það hefði þó ekki verið verra að ryðja þarna nýja slóð, en það gerist þá bara síðar.
Eins og reynslan hefur kennt okkur, þá eru fyrstu metrarnir erfiðastir og er spottinn upp að stiku 2 nokkuð strembinn. En þegar hann er að baki virðist maður ná upp ákveðnum takti og eftirleikurinn verður mun auðveldari. Sú var raunin og við brutumst upp brekkuna, einbeittir. Í rökkrinu fundum við svo stiku fjögur eftir nokkra leit og var kærkomið að sjá þessa þolinmóðu vinkonu. Við stöldruðum hjá henni örstutta stund, vættum þurrar kverkar og héldum svo niður á við. Sú ferð var tíðindalítil fyrir utan það að áfram nutum við einstakrar veðurblíðu og þannig lauk bestu ferð minni á fjallið.
Nú höfum við félagarnir ákveðið að ganga á fjallið alla þriðjudaga og fimmtudaga strax eftir vinnu og láta veður og vinda hafa sem minnst áhrif á þá áætlun. Svo ætla ég að vera kominn að fjallsrótum á hádegi alla sunnudaga og eru þeir sem vilja slást í hópinn velkomnir.
Hraðar ... hærra!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Marklausar staðtölur
Þessi frétt fjallar um marklausustu staðtölur sem haldið er utan um hérlendis og eru þó til nokkrar býsna fánýtar. Þær segja ekkert til um trúfesti eða trúleysi íslensku þjóðarinnar meðan hvítvoðungar eru sjálfkrafa skráðir í trúfélag móður þeirra. Hið eina rétta í stöðunni er að hætta þeirri skráningu og taka upp það fyrirkomulag að trúfastir sjái sjálfir um að skrá sig og sína í trúfélag, hafi þeir þörf til þess.
Blaðamaður tiltekur í fréttinni að líklega gefi staðtölurnar ekki rétta mynd af ástandinu því einhverjir eigi eftir að skrá sig í trúfélag. Að sama skapi má spyrja um alla þá sem eiga eftir að skrá sig úr því trúfélagi sem þeir eru skráðir í, en ætla má að þeir séu umtalsvert fleiri.
Því er eðlilegast að skrá alla úr Ríkiskirkjunni sem nú eru til hennar taldir nema þá sem hafa að eigin frumkvæði óskað eftir vist þar. Líklega mætti undanskilja starfsmenn Rikiskirkjunnar, en þeir ættu svo sem ekki að telja eftir sér að ganga frá skráningunni sjálfir. Eftir það myndu trúfastir gæta þess sjálfir að Þjóðskrá endurspeglaði þeirra viðhorf í trúmálum. Þá loksins yrðu þessar staðtölur einhvers virði og þess verðar að haldið sé utan um þær.
Hlutfallsleg fækkun í þjóðkirkjunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 21. október 2007
Number One Son
Í dag brá ég mér á Esjunni í fylgd Number One Son, en það hefur lengið verið ætlun okkar að fara saman. Number Two Son komst ekki sökum þess að hann þurfti að vinna þannig að við vorum tveir sem röltum í dag. Mæting mín á fjallið hefur verið stopul undanfarið sökum slælegs veðurs og meiðslanna ógurlegu, en nú ætla ég að trekkja mig í gamla farið. Kálfinn var alveg til friðs enda var farið hægt og yfirvegað yfir. Ferðin var afar fín, en ég fann að það munaði aðeins um þetta tímabil þar sem ég hefi lítt sinnt fjallinu. Þó er von til þess að maður verður fljótari að ná sér á strik aftur en í sumar þegar maður byrjaði kaldur og frá grunni.
Number One Son fetaði sig einbeittur upp fjallið alla leið að stiku 4 og hafði almennt lítið fyrir því. Ferðin niður fjallið tók töluvert meira á, sem olli nokkurri undran. Við fórum þetta hægt og örugglega og ég reyndi að leiða drenginn í allan sannleikann um undraheima fjallsins; vonandi hefur hann fengið ögn breytta sýn á þessa gersemi sem bíður ætíð þolinmóð við túnfótinn. Nú er bara að gera þessar ferðir að föstum liðum í dagskrá vikunnar enda ættum við að vera að rölta þetta tvisvar sinnum saman.
Góður, Number One Son!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 12. október 2007
Halo 3
Tölvuleikurinn Halo 3 náði 300 milljón dala sölu fyrstu vikuna sem hann bauðst trylltum spilurum. Annað eins þekkist varla og er aðeins hægt að horfa til vinsælustu kvikmyndar þessa árs, Spider-Man 3, til að finna álíka tölur í afþreyingariðnaðinum. Leikurinn tók inn 170 milljón dala fyrsta daginn í Bandaríkjunum sem hann var í sölu samanborið við 104 milljón dala tekjur af Spider-Man 3 á heimsvísu. Stærstu tölvuleikir dagsins í dag eru framleiddir og markaðssettir nákvæmlega eins og kvikmyndir enda þarf ekki skoða grannt til að finna líkindi þar á milli. Háum fjárhæðum er nú varið í þróun og framleiðslu leikjanna sem skilar sér í mun betri og magnaðri upplifun fyrir spilara.
Skrifari veðjar á að það líði ekki á löngu uns tölvuleikur verði vinsælasta vara afþreyingariðnaðarins og slái út allar þær kvikmyndir sem nú tróna á toppnum. Gagnvirk upplifun í góðum tölvuleik jafnast fyllilega á við að horfa á góða kvikmynd og því er þessi þróun í raun óumflýjanleg.
Game on!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. október 2007
Gallabuxur
"Þessar fara þér örugglega vel! Nýjasta tískan, mjög smart!", sagði hún þolinmóð og bar fram enn einar buxurnar, þessar gráar. "En ég vil bara svona ljósbláar gallabuxur eins og ég er í og hef alltaf verið í". Hún hugsaði sig um, tók dýfu ofan í buxnasúpuna og birtist von bráðar með buxurnar, öðruvísi gráar með skrýtnum vösum, sem myndu bylta lífi mínu. "En ég vil bara svona ljósbláar gallabuxur eins og ég er í". Enn dýfði hún sér og kom upp með svartar buxur úr silkimjúku gallaefni sem voru örugglega mjög flottar. "En hvað um þessar?", spurði hún með þolinmæði sem konum eru einum gefin. "Þessar eru geggjaðar!" og sýndi mér dökkbláu gallabuxurnar með útsaumuðu vösunum sem eru víst að trylla alla í New York og Tokyo.
"Vér höndlum breytingar illa", sagði ég og kvaddi með trega.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. september 2007
Norðurljósin
Fótómakker minn, Villi kafari og húsamús, hafði samband í gegnum Messenger rétt áðan og tilkynnti mér að hann hefði fylgst með norðurljósum fremja gjörning sinn yfir höfuðstaðnum fyrr í kvöld. Ég vitnaði þau sjálfur fyrir u.þ.b. tveimur vikum síðan og gáfu þau fögur fyrirheit um fjölda næturferða á komandi vetri til að festa þau á mynd. Liðinn vetur er varðaður mörgum ferðum vítt og breitt um nærlendur höfuðborgarinnar og dagljóst má telja að komandi kuldatíð verður ekki síðri í þeim efnum.
Það vita ekki nema þeir sem sjálfir hafa reynt að það er fátt sem jafnast á við það að standa undir stjörnubjörtum himni í jökulkaldri stillu og keppast við að fanga litríkar ljósaslæðurnar sem á endanum gera ekki annað en að ganga manni úr greipum. Norðurljósin eru svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, og í eltingarleiknum við þau sannast hið fornkveðna að það er ferðin sem mestu máli skiptir, ekki áfangastaðurinn. Heitt kakó á brúsa, loðfrolla á kolli og góður félagsskapur ... lífið verður vart betra.
Töfra síðustu ljósatíðar og forleikinn að þeirri næstu má sjá hér.
Swiss Miss!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)