Hvor er meiri óreiðumaður?

SkuldirNú er talað mikið um óreiðumenn og það er hart ráðist að útrásarmönnum sem áður voru almennt vegsamaðir. Egill Helgason gerði áðan harða atlögu að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem, einn þessara útrásarmanna, hafði manndóm í sér til þess að mæta í sjónvarpsþátt og skýra mál sitt. Aðrir í þeim klúbbi létu ekki sjá sig.

Almennt virðist mál manna að staðan í dag geti alfarið skrifast á útrásarmennina, þessa djöfla í mannsmynd sem engu eira sem á vegi þeirra verður. Davíð Oddsson kallaði þá óreiðumenn um daginn og sagði að íslenska þjóðin ætti ekki að taka til eftir slíka menn. En þá kemur spurningin sem hefur leitað á mig undanfarið ... hvor er meiri óreiðumaður, sá sem fyllir út í opinn víxil eða sá sem gefur hann út?

Davíð Oddsson er yfirhönnuður þessa kerfis sem við búum við í dag. Hann hefur lengst allra setið í stóli forsætisráðherra og deilt þar og drottnað með harðri hendi. Hans vilji var algjör og þeir sem ekki voru honum sammála viku úr vegi (Þjóðhagsstofnun?). Þannig er ljóst að Davíð gerir ekkert sem er honum á móti skapi. Þegar hann lét af störfum sem forsætisráðherra hvarf hann til starfa í Seðlabankanum þar sem hann hélt áfram um þá þræði sem hann vildi. Nær viðstöðulaust tók við af honum fjármálaráðherra til margra ára, Geir Haarde, og hagaði störfum sínum sem forsætisráðherra þannig að ekki er hægt að merkja af þeim að hann teldi neina vá við sjóndeildarhringinn.

Reyndin er sú að þessir menn sköpuðu það umhverfi sem útrásarmennirnir hrærðust í. Davíð og Geir hafa verið fyllilega meðvitaðir um ábyrgðir íslenska ríkisins vegna bankanna í mörg ár, en hafa kosið að gera ekkert í málunum. Þeir gáfu út víxilinn, óútfylltan.

Í gær, laugardag, kom Geir fram í sjónvarpinu og sagði frá því með mærðarlegum svip að konu hans hefði borist ávaxtakarfa með eftirfarandi skilaboðum:

Takk fyrir að lána okkur hann Geir.

Svo kímdi Geir og þótti þetta augsýnilega afar 'kjút'. En er ekki rétt að spyrja hvort þjóðin geti verið jafn þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum verið með Geir að láni þar sem hann gerði ekki neitt? Vorum við ekki þannig líka með Davíð að láni meðan hann gerði ekki neitt? Þeir gáfu víxilinn út án þess að fylla inn í upphæðina og þeir brugðust ekki við þegar útrásarmennirnir skrifuðu sífellt inn hærri og hærri upphæðir. Þeir geta ekki borið við skorti á upplýsingum því fjöldi fólksNú þykjast þeir vera að taka til í stöðunni og telja sig vera að þjóna almenningi á Íslandi vel í störfum sínum.

Í mínum huga líki ég stöðunni frekar við þátt í þáttaröðinni CSI: Iceland þar sem hinir grunuðu eru fengnir til þess að taka til á vettvangi eigin glæps. Meðan á tiltektinni stendur geta þeir beint sjónum almennings að öllum öðrum en sjálfum sér.

Þrjár spurningar í lokin:

1/ Höfðu Davíð og Geir aldrei heyrt um þau gömlu sannindi að ekki eigi að skrifa upp á hærri skuldbindingar en þær sem viðkomandi hefur efni á?

2/ Hvor er meiri óreiðumaður:

  • sá sem tók við óútfyllta víxlinum
  • sá sem gaf út óútfyllta víxilinn

3/ Hvor klúðraði málum meira:

  • sá sem sótti fram
  • sá sem átti að standa vörð 

Í mínum huga eru svörin við þessum spurningum augljós.

PS. Ef við erum með Geir að láni ... getum við þá ekki bara skilað honum?

PSS. Erum við með Davíð að láni? Er hægt að skila honum? 

PSSS. Rétt er að það komi fram að ég starfa hjá Hagkaupi sem er í eigu Haga sem er í eigu Gaums sem er, að hluta til, í eigu Jóns Ásgeirs (held ég). Ég hef aldrei hitt Jón Ásgeir og hef engin tengsl við hann utan þessara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Semsagt það ætti að dæma byssuframleiðandan fyrir morð sem framið er með byssuni sem hann framleiddi ?

Eða allavega gera hann samsekan.

 Ekki rökrétt hugsun hjá þér.

Birgir Guðjónsson 12.10.2008 kl. 16:48

2 Smámynd: Óli Jón

Birgir: Þetta er alls ekki góð líking, enda ekki sambærileg mál.

Ráðamenn hefðu átt að skilgreina ásættanlega áhættu þjóðarinnar t.d. við 100-200 milljarða og gera eftirlitsaðilum grein fyrir því að umsvif bankanna mættu ekki fara fram úr þeim ramma. Byssuframleiðandi getur ekki sett sambærilegar hömlur á notkun skotvopna sinna og því er þetta ekki samanburðarhæft.

Andvaraleysi ráðamanna íslensku þjóðarinnar, meðvitað eða ómeðvitað (óvíst er hvort er verra), gerði það að verkum að engar hömlur voru settar. Þeir eiga því í raun meiri sök á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni en flestir, ef ekki allir, aðrir. Þeir höfðu varðstöðuna, en sofnuðu á verðinum.

Óli Jón, 12.10.2008 kl. 17:05

3 identicon

Ég er að mörgu leyti sammála þessu hjá þér Birgir því þeirra er að hafa eftirlitið.  Ef útrásarmennirnir eru að gera allt rétt - fara að lögum og viðhafa viðskipti sem voru samþykkt ekki bara hér á Íslandi heldur um víða veröld þá er fátt um það að segja - enda höfum við notið skattagreiðslna þeirra með bros á vör síðustu árin.  Mér sýnist hið sanna í málinu vera það að Seðlabankinn hefur ekki tryggt baklandið það óx ekki eins og útrásin.  Ef ekki var vilji til þess að láta þetta tvennt fylgjast að - nú eða geta þá hefði klárlega átt að taka í taumana miklu fyrr.  Staðreyndin er sú að þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri þetta ógnarinnar vesen - stærðirnar hér eru bara öfgafyllri en annars staðar miðað við landsframleiðslu.  Bankar þeirra Breta eru ekki í sérlega góðum málum og eru nú komnir á sama stað og Glitnir fyrir 2 vikum.  Hvað mun fylgja í kjölfarið þar?  Ætli Brown dugi að pirra sig út í okkur Íslendinga þá?  Nei þetta verður seint þessum 25 mönnum að kenna sem fóru geyst - það er okkur að kenna sem áttum að fylgjast með því að útrásin væri ekki meiri en svo að varnir héldu ... takk fyrir pistilinn.

Ingveldur 12.10.2008 kl. 17:28

4 Smámynd: Vilhjálmur Hallgrímsson

Ég tek fyllilega undir þetta með þér Óli Jón.

það er ljóst að það fjármálaástand sem ríkir nú á Íslandi á sér töluverðan aðdraganda . . . sennilega um 8 ár.

Það lítur út fyrir að Davíð Odsson sé helsti arkitektinn að því fjármálaumhverfi sem nú hefur hlotið algjört skipbrot. Stjórnvöld síðustu ára tókst að breyta Íslandi í risastórt spilavíti þar sem áhættusæknir spilafíklar hafa fengið að leika lausum hala og að auki haft ríkisábyrgð á spilamennsku sinni. Á þessum tíma hafa svæsnir fjárglæframenn eins og Hannes Smárason litið dagsins ljós og þrifist ágætlega í þessu umhverfi sem virðist algerlega eftirlitslaust.

Á sama tíma er klippt á bremsuslöngurnar með því að leggja þjóðhagsstofnun niður?

Nú er allt þjóðfélagið í sárum. Ég hef lært það í skyndihjálp hjá Rauðakrossinum að það fyrsta sem á að gera þegar komið er á slysstað er að koma í veg fyrir frekari slys. Það væri best gert með því að fjarlægja strax meinsemdina sem nú situr í Seðlabankanum. Davíð Oddsson virðist enn fá tækifæri að gera fjármálalegt líf okkar enn ömurlegra en nú er. Stýrivextirnir eru enn 15,5% sem virðist ekki vera í neinu samhengi við ástandið.

Ég vona að fréttir vikunnar verði nú með þeim hætti að Íslendingar finni fyrir því að það sé verið að taka til, klippa burt fúnu sprotana og að við fáum aftur á tilfinninguna að það sé enn framtíð í þessu annars ágæta landi okkar. Landið er fínt en stjórnarfarið spillt, Losum okkur við meinsemdirnar og fyrirbyggjum að þær finni aftur fótfestu, látum þá sem eru ábyrgir fyrir ástandinu axla ábyrgð.



Vilhjálmur Hallgrímsson, 12.10.2008 kl. 17:31

5 Smámynd: Johann Trast Palmason

aldrei aftur X-D.

Johann Trast Palmason, 12.10.2008 kl. 18:19

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Óli Jón: Davíð ber ábyrgð, Jónas Fr. hjá Fjármálaeftirlitinu ber ábyrgð, Geir ber ábyrgð, Árni Matt ber ábyrgð, Halldór Ásgríms, Ingibjörg Sólrún ...

Jón Ásgeir, Björgúlfarnir, Sigurður Einarsson, Hannes Smárason og Karl Wernersson eru saklausir!

Hvílík einföldun - þvílík forheimska!

Ég vona að VG og Samfylkingin sendi þig út að útskýra þessi mál!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.10.2008 kl. 21:55

7 identicon

Takk fyrir góðan pistil Óli. Mér finnst mál að útskýra þetta með leiðréttri myndhverfingu Davíðs Oddssonar um brennuvargana, sem hann hagaði eftir hentisemi.

Hann kvað þjóðina vilja verðlauna brennuvargana og hengja slökkviliðið, en auðvitað er sú myndlíking alveg út í hött. Hann og Geir Haarde byggðu risavaxið hús úr skraufþurrum pappa, hleyptu svo inn í það ofvirkum börnum, dældu í þau eldspýtum og skelltu skollaeyrum við reykskynjurunum. Þannig er myndlíkingin.

Ekki nóg með það heldur gengust ríkisstjórnir Davíðs, Geir & co. í ábyrgð fyrir þau pappahús erlendis sem þeir leyfðu börnunum að æða í með þarlendar eldspýtur.

Börnin eru svo sem lögráða í þessu tilviki, en ef þau brutu engin lög, þá liggur sökin hjá þeim sem byggðu húsið.

Ríkisvaldið brást á margvíslegan hátt - Allir muna hvernig Davíð kallaði þingmenn afturhaldskommatitti og notaði allskyns fúkyrði í blindri trú sinni á kaldastríðshugsjónir. Hans mun að eilífu vera minnst á Íslandi sem aðalhöfund þess að skuldsetja næstu kynslóðir 21. aldarinnar - Njörfa þær niður. Að gútta sjálfstæði okkar. Er það ekki kaldhæðið að kalla sig "Sjálfstæðis"flokk og bjóða sjálfstæði okkar út?

Í þessum ummæladálki eru Guðbjörn og Birgir hér á sorglegum villigötum sem að öllum líkindum eru pólitískar að uppruna. Davíð og hans mátar munu engu bjarga - Það verður undir okkur hinum komið, og okkar fyrsta verk á að vera að fá nýja þjóðfélagsverkfræðinga! Frá hruninu hafa Geir & co. klúðrað nánast öllu sem hægt er. Ég skora á einhvern að nefna mér hvað fara hefði mátt verr af því sem þeir hafa áorkað!

Rúnar Þór Þórarinsson 12.10.2008 kl. 22:15

8 Smámynd: Óli Jón

Guðbjörn: Ég sagði ekkert um að útrásarmennirnir bæru enga ábyrgð. Hins vegar benti ég á að í mínum huga er sökin stærri hjá ráðamönnum þjóðarinnar því þeir höfðu alltaf í hendi sér að setja þær hömlur á starfsemi bankanna sem þörf var á. Viðvörunarbjöllur glumdu reglulega, en þeir kusu að aðhafast ekkert.

Ef við horfum kalt á málið þá unnu útrásarmennirnir sína vinnu ... ráðamenn ekki. Það breytir því ekki að auðvitað bera útrásarmennirnir sína ábyrgð (svona til þess hausinn springi ekki af öxlunum á þér). En til áréttingar þá er ábyrgð Davíðs og Geirs meiri. Við skulum gæta þess að halda því til haga.

Hvað varðar Fjármálaeftirlitið, þá starfar það skv. þeim lögum sem Alþingi setur því. Ef Fjármálaeftirlitinu hefðu verið lagðar þær línur að takmarka heildarábyrgð ríkissjóðs við ákveðna upphæð, þá er ég viss um að það hefði verið gert. En það gerðist ekki vegna þess að ráðamenn þjóðarinnar unnu ekki sína vinnu. Þeim þótti frekar gott að fá þær háu skatttekjur sem útrásarmennirnir skiluðum hingað inn. Því kusu þeir, meðvitað eða vegna þess að þeir voru óhæfir, að gera ekki neitt.

Hvað varðar hnútuköst og háðsglósur í garð VG ... er það virkilega það sniðugasta í dag? Væri staðan svona ef þeir hefðu staðið vaktina? Ég veit að þetta þótti sniðugt meðan frjálshyggjan vildi einkavæða allt ... að gera grín að Steingrími J. með hreindýramosann í skegginu. En í dag? Getur ekki verið að Steingrímur J. sé bara að koma býsna vel undan vetri núna? En prófum endilega að gera svolítið grín að VG núna ... vegna þess að þeir hafa klúðrað öllu ... eða þannig!

Annars kann ég ágætan brandara um VG. Hefurðu heyrt þennan um það ef VG hefði verið í ríkisstjórn undanfarin ár og hefði verið á móti stjórnlausum vexti bankanna allan tímann. Þá væri engin fjármálakreppa í dag!

Fyndið :)

Óli Jón, 12.10.2008 kl. 22:30

9 Smámynd: Heidi Strand

Í norska sjónvarpinu var viðtal við fjármálaspeking. Hann sagði að íslenska þjóðin hafa í fleiri ár lifað um efni fram. Ójafnvægi voru á milli innflutning og útflutningur og við höfum tekið mikið lán og er þetta stór hluti vandans.
Þessi skuldasúpu sem við sitjum í eru vegna ofurlán fjárfesta. Upphæðin hækkar með hverjum degi og óvissan er algjör. Það kemur að skuldadögunum líka fyrir þeirra sem komu okkur í þessari stöðu.

Heidi Strand, 12.10.2008 kl. 23:03

10 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Það var gaman í góðærunum og ljúft að njóta ávaxtanna sem þau færðu okkur.  Sjaldan þakkar kálfurinn ofeldið.  Nú er búið að taka þetta allt frá okkur og skilja okkur eftir með gjaldeyris-körfulánin sem við tókum í góðri trú - okkar eigin trú - svo nú verðum við að láta einhvern líða fyrir það - bara ekki okkur sjálf.

Hengjum Jón Ásgeir og útrásarvíkinganna og Davíð, bara ekki mig

Kveðja, Björn bóndi.

Sigurbjörn Friðriksson, 12.10.2008 kl. 23:18

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill, og ég er algjörlega sammála þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.10.2008 kl. 10:39

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er skrýtið þegar Hannes Hólmsteinn sagði hrunið nú ekki vera kapítalismanum að kenna heldur nokkru vondum kapítalistum. Það er í raun í þessum sama stíl. - Þó er það einmitt samkvæmt kenningunum sem Hannes byggir á að gert er ráð fyrir að maðurinn sé í eðli sínu eigingjarn og hámarkandi um eigin hag, og að þátttakendur við markaðstorgið hugsi aðeins og um sig og sinn hag en markaðstorgið virki græðgina öllum til góðs. Það er ekki svo sjaldan sem Hannes Hólmsteinn hefur lýst auðmönnum og „græðgi“ þeirra sem grunnstoðum kapítalsismans - það sem knýr kerfið og færi öllum auð og hagsæld.

Það er því fráleitt þegar smiðir kerfisins ætla að kenna fremstu leikmönnum leiksins um. Það voru smiðir og hönnuðir leiksins sem báru ábyrgð á að hann byggði á traustum grundvelli, og hefði skýrar leikreglur og að kerfið þyldi leikinn sem boðið var til. Það var ekki hlutverk þátttakendanna að gæta að kerfinu sjálfu. - Þeirra eina hlutverk var samkvæmt skilgreiningu að vera eigingjarnir og hámarkandi og fara að skýrum skráðum leikreglum.

Helgi Jóhann Hauksson, 13.10.2008 kl. 11:13

13 identicon

Góður pistill.

Birgir, varðandi ábyrgð byssuframleiðenda á skotmorðum vil ég benda þér á að það hafa í öllum siðmenntuðum ríkjum verið sett LÖG um meðferð skotvopna og LÖG sem banna einni manneskju að myrða aðra. Þannig að líkingin þín er fáránleg.

Hulda 13.10.2008 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband