Fimmtudagur, 18. desember 2008
Veljum trú eða trúleysi fyrir aðra
Er ekki illa komið fyrir trú þegar hægt er að velja hana fyrir fólk, sér í lagi ómálga börn, að þeim óforspurðum? Hver er eiginlega tilgangurinn með því að skrá hvítvoðunga í trúfélag móður? Hvernig er hægt að réttlæta það að ungabarn sé skráð í trúfélag? Gerir sú ráðstöfun ekki hreinlega lítið úr trúnni? Gerir hana að andlausum valmöguleika á eyðublaði í stað einhvers sem fólk velur sér af sannfæringu?
Hreinlegast væri að viðurkenna bara að þessi nauðungarskráning er bara fjárhagsleg ráðstöfun sem, enn í dag, þjónar Ríkiskirkjunni best. Án þessarar skráningar væru ekki rúmlega 80% þjóðarinnar skráð í hana við fæðingu. Kannski skiptir það máli að hver maður á sjálfræðisaldri borgar 10 þúsund krónur til þess trúfélags sem viðkomandi er skráður í? Nei, það getur varla verið?!
Því ætti hin ágæta Katrín Jakobsdóttir að ganga skrefinu lengra og spyrja hvort það sé raunveruleg ástæða til þess að skrá ómálga börn í trúfélag. Allt skynsamt fólk mun ekki eiga í nokkrum vandræðum með að svara þeirri spurningu rétt :)
Hver stýrir trúnni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 17. desember 2008
Réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu
Í dag er vík á milli stjórnvalda og þjóðar. Hluti þjóðarinnar vill breytingar og aðgerðir, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hundsa háværar raddir fólksins. Þetta er hægt að laga ef fólkið hefur rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu ef lágmarks stuðningur fæst, t.d. með undirskriftum 1/4 eða 1/3 einstaklinga á kjörskrá. Ef lágmarks stuðningur fæst er boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers niðurstaða væri bindandi fyrir viðkomandi mál.
Þessi ráðstöfun gæti verið góður varnagli ef þjóð og ríkisstjórn stíga ekki í takt. Með þessu fyrirkomulagi fengist raunverulegt lýðræði þar sem þjóðin gæti tekið málin í sínar hendur ef hún telur stjórnvöld hafa leiðst út á villigötur. Auðvitað þyrfti að innbyggja í svona ferli ákveðnar leikreglur til þess að fyrirbyggja misnotkun. Þetta myndi byggja undir virkt lýðræði alla daga ársins í stað þess að það sé bara virkt á fjögurra ára fresti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2010 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 9. desember 2008
Skylduskráning hvítvoðunga í félög ...
Þetta er afar ánægjuleg frétt. Það er hreint og klárt ofbeldi að skrá ómálga barn í eitthvað félag við fæðingu þess, hvort sem um er að ræða trúfélag eða ekki. Þegar börn komast á sjálfræðisaldur er rétt að þau hafi sjálf frumkvæði að því að skrá sig í það félag sem þau vilja tilheyra, ef eitthvað er.
Ég hef reyndar alltaf verið undrandi yfir því að forkólfar Ríkiskirkjunnar skuli hallir undir þetta fyrirkomulag því það ómerkir í raun allar staðtölur um skráningu í trúfélög. En kannski finnst þeim þessi fantasíuskráning betri en hrollkaldur veruleikinn sem tæki við. En þar finnst mér þá skorta á trú viðkomandi á eigin málstað.
Ég vona sannarlega að þessi yfirlýsing Jafnréttisstofu verði enn eitt lóðið á vogarskálina sem leiði til þess að þetta ólýðræðislega fyrirkomulag verði afnumið hið allra fyrsta. Ég er þó um leið efins að svo verði því það vita allir sem vilja vita að þetta fyrirkomulag er í raun öndunarvél Ríkiskirkjunnar því án þess væru ekki rúmlega 80% þjóðarinnar innskráð þar. Mér er til efs að það hlutfall væri hærra en 10%. Það segir hins vegar ekkert um trúfesti þjóðarinnar. Ég þykist vita að hún sé meiri og sterkari en það.
Líklega gerist ekki neitt ... en það kostar ekkert að vona :)
Siðmennt fagnar áliti Jafnréttisstofu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 10.12.2008 kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 7. desember 2008
Birtum atburðaskrána!
Er ekki ástæða til þess í dag að gera atburðaskrá (e. log file) líðandi stundar aðgengilega almenningi? Þetta er alþekkt fyrirbrigði úr upplýsingatækni þar sem hver aðgerð er skráð í atburðaskrá þannig að hægt sé að rekja hluti til baka, gerist þess þörf. Þannig er hægt að rekja hvaða aðgerðir t.d. leiddu til kerfishruns eða villu í kerfinu.
Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í New York, hefur lýst því yfir að hann hafi þungar áhyggjur af því að nú verði gerð axarsköft þegar misvitrir menn véli um hluti sem þeir þekkja ekki. Þetta þarf að fyrirbyggja með öllum ráðum og gagnsæi er besta leiðin til þess. Skv. greiningu Jóns skiptir hvert prósent í lækkun á verðmæti bankanna okkur verulegu máli því í dag er það metið á 30 milljarða króna. Þannig leggjast tvö prósent sig út á 60 milljarða o.s.frv. Eins og einhver sagði, "milljarður hér og milljarður þar, brátt verða þeir að alvöru fjárhæðum!"
Fundargerðir, minnispunktar og annað sem tengist störfum ákveðinna manna ætti að standa öllum til boða á Netinu. Þar gætu áhugasamir litið á þessi gögn og rýnt í þau til að sannreyna að allt sé með felldu. Vera má að það þurfi ákveðna leynd yfir samningaviðræðum, en niðurstöður þeirra ættu alltaf að vera háðar ákveðnum fyrirvörum og einn þessara fyrirvara ætti að vera opinber birting niðurstaðnanna og allra tengdra gagna.
Þetta er auðvelt í innleiðingu og einfalt í framkvæmd. Og það sem meira er, þetta er nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja að mál séu til lykta leidd í bakherbergjum, reykfylltum eða ekki. Nú er verið að ráða ráðum um framtíð þjóðarinnar og flestir þeirra sem að því koma voru leikmenn í þeim leikjum sem leiddu til hrunsins hjá okkur eða gerðu afleiðingar hrunsins alvarlegri en ella. Það er því alveg sjálfsagt að þjóðin geti litið yfir öxlina á þeim.
Ef þessir menn hafa ekkert að fela, er þetta þá ekki sjálfsagt mál?
Föstudagur, 5. desember 2008
Epísk fýluköst seðlabankastjóra ...
Það er svo fyndið að sjá að eldri og virðulegir menn á borð við Davíð Oddsson geti verið í fýlu út í fólk í kringum sig. Og þetta eru engin aumingjaleg amatör fýluköst; ó nei, þetta eru epískar fýlu-epísóður sem jafnvel eiga sinn þátt í að steypa heilu þjóðunum fyrir björg.
Davíð Oddsson var t.d. (og er) í fýlu út í forseta vorn og hvað gerist? Hefðbundnir fundir forsætisráðherra og forseta lögðust af eftir að Ólafur Ragnar smeygði sér inn á Bessastaði. Og við munum öll eftir sársaukanum í andliti Davíðs þegar hann þurfti að segja "heill forseta vorum og fósturjörð" við setningu Alþingis. Hann bægslaðist nú reyndar við að skýra það út að hann væri ekki að hylla forsetann, svona í alvörunni, heldur væri þetta spurning um kommusetningu. Í mínum huga snerist það mest um kommasetningu, en það er annað mál. Þarna var á ferðinni svo harmrænt og magnað fýlukast að jafnvel mergjuðustu sagnaritarar fortíðar og samtíðar hefðu ekki getað kokkað annað eins upp.
En það var þá.
Nú er Davíð í öðru fýlukasti og virðist það birtast í samskiptum (lesist: samskiptaleysi) hans við bankamálaráðherra. Á tímum þegar Davíð vissi með 100% óyggjandi vissu að hér færi allt til fjandans var fýlan svo mikil að hann hafði ekki fyrir því að slá á þráðinn til bankamálaráðherra og segja honum af þessu. Það var nú ekki eins og það væri hundrað í hættunni, held ég ... bara hagur og heill íslensku þjóðarinnar. En það er ekki næg ástæða til þess að rjúfa svona dásamlegt fýlukast. Fýlukast sem verður ritað á spjöld sögunnar sem eitt það frábærasta allra tíma. Móðir, amma og langamma allra þeirra fýlukasta sem eftir munu fylgja.
En þefskyn þessa mikla meistara fýlukastsins er samt hálf bjagað þessa dagana :) Já, hann telur sig Messías endurborinn og hyggur að þjóðin muni breiða út faðminn og bjóða hann velkominn þegar hann býður sig aftur fram í pólitík. En hann veit ekki það sem allir vita, nema nokkrir þeirra helbláustu.
Nú er þjóðin í fýlu út í hann! Ætli honum finnist það ekki ósanngjarnt?
PS. Nú furðar bankamálaráðherra sig á því að Davíð skyldi ekki hafa samband við hann. En af hverju rölti hann aldrei í heimsókn til Davíðs?
Bloggar | Breytt 23.3.2010 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 2. desember 2008
Geir eignar sér það góða, en slær striki yfir það vonda!
Eftirfarandi er hluti ræðu Geirs H. Haarde sem hann flutti á 37. landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2007. Hægt er að skoða ræðuna í heild sinni hér, en áhugavert er að sjá í þessum kafla hvernig Geir eignar sér fyrirvaralaust allt það sem vel hefur gengið hérlendis fram að þessum tíma. Engir fyrirvarar eru settir, engir varnaglar slegnir. Allt er Sjálfstæðisflokknum, undir styrkri og fumlausri forystu Geirs, að þakka. Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Geirs, stóð einn aukningu í velmegun hérlendis:
Síðustu sextán ár undir nær samfelldri stjórnarforystu okkar sjálfstæðismanna hafa verið þjóðinni farsæl. Við höfum náð að styrkja efnahagslegu stöðu þjóðarinnar með þeim hætti að aðdáun hefurvakið víða um heim. Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist um 60% frá árinu 1995 og á sama tíma hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður þannig að hann má heita skuldlaus. Vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru ekki lengur að sliga skattgreiðendur þessa lands. Af þessari kaupmáttaraukningu hafa tæp 20% komið til á yfirstandandi kjörtímabili.
Áherslur okkar sjálfstæðismanna á aukið viðskiptafrelsi, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir hafa gerbreytt efnahagslífinu til hins betra. Atvinnuleysi, sem er landlægt böl í mörgum nágrannalöndum, er sem betur fer víðs fjarri okkur.
Það gengur vel í atvinnulífinu. Hefðbundnir atvinnuvegir, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, halda áfram að þróast og taka breytingum við hlið nýrra greina og eru mikilvæg undirstaða byggðar um land allt.
Útrás íslenskra fyrirtækja hefur bæði skapað ungu fólki ný og spennandi atvinnutækifæri og verðmæta reynslu en einnig fært þjóðarbúinu nýjar tekjur úr ýmsum áttum. Lífskjörin í landinu hafa stórbatnað og mun meira en í nálægum löndum. Það er meira til skiptanna en áður fyrir alla.
Aukið frelsi á öllum sviðum hefur gert mannlífið í landinu fjölbreyttara og það er eftirsóknarverðara en áður að búa á Íslandi. Óvíða er betra að ala upp börn en hér á landi og víða um land er aðstaða foreldra og fjölskyldna til sérstakrar fyrirmyndar. Íslendingum fjölgar hratt, fæðingartíðni er hærri en í flestum sambærilegum löndum. Nýja fæðingarorlofskerfið er að skila sínu.
[...]
Staða okkar í alþjóðasamfélaginu hefur styrkst og Íslendingar njóta virðingar á alþjóðavettvangi. Við höfum náð að vinna farsællega úr gjörbreyttri stöðu eftir að bandaríska varnarliðið hvarf úr landi. Á Keflavíkurflugvelli bíða ótal möguleikar úrvinnslu á vegum hins nýjar þróunarfélags sem þar er að störfum.
Frelsi var leiðarljós þeirra breytinga sem innleiddar voru á tíunda áratugnum undir forystu okkar flokks. Þá var verið að brjótast úr viðjum fortíðar og innleiða stjórnunarhætti nútímans í efnahags- og stjórnmálum. Það hefur gefið þá góðu raun sem við vissum fyrir.
Krafturinn í íslensku samfélagi á sér engin takmörk. Ísland er orðið það sem við sjálfstæðismenn lofuðum - land tækifæranna.
Þá er áhugavert að sjá ályktun um efnahags- og skattamál sem samþykkt var á þessum fundi, en þar er 'ábyrgð' Sjálfstæðisflokksins á stöðu efnahagsmála hérlendis áréttuð.
Íslenskt efnahagslíf hefur blómstrað á undanförnum árum undir styrkri forystu sjálfstæðismanna. Frá árinu 1996 hefur hagvöxtur verið um 4,5% á ári að meðaltali og landsframleiðslan hefur aukist um helming á þessum tíma.
Afar lítið var gert úr áhrifum ytri aðstæðna í þessum efnum. Þau virtust aldrei vigta neitt sérlega mikið og bliknuðu eiginlega í samanburði við stjórnvísi Sjálfstæðismanna með Geir í fararbroddi.
Geir er alveg til í að eigna sér heiðurinn af því sem mestmegnis var skapað hér heima í gegnum stjóriðjuvæðingu og almenna þenslu á heimsvísu í fjármálakerfi heimsins. Geir telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi, undir hans stjórn, gert allt ofangreint að veruleika.
Hvers vegna getur hann þá ekki gengist við því að þessar sömu aðgerðir hafi máské leitt þjóðina í glötun? Er minni hans virkilega svo valkvæmt að hann sjái þetta ekki? Er hann virkilega eins og efnahagslegur gullfiskur, hvers minni núllstillist á nokkurra sekúndna fresti? Það getur reyndar ekki verið því nógu lengi barði hann sér á brjóst og eignaði sér allt þegar vel gekk.
En það var auðvitað þá :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2010 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Religulous
Eldri drengurinn minn bauð mér í bíó í kvöld. Þessi bíóferð hefur verið á dagatalinu í nokkurn tíma og var það því með nokkurri eftirvæntingu sem við feðgar skeiðuðum vestur á Mela til að berja augum myndina Religulous. Ég var búinn að biðja ofurheitt til æðri máttarvalda um það að myndin myndi nú byrja á réttum tíma, en var ekki bænheyrður því við þurftum að sitja í 20 mínútur undir auglýsingum. Af hverju æðri máttarvöld bænheyra mig ekki í þessum efnum er ofar mínum skilningi, en nóg um það.
Religulous er samantekt á ferðalagi Bill Maher um heiminn þar sem hann ræðir við fulltrúa hinna ýmsu trúarbragða. Hann setur sinn stíl á þetta, en Maher er annálaður grínisti og sést handbragð hans víða í myndinni. Maher hefur lítið álit á trú og öllu því sem henni fylgir og myndin gengur einmitt út á það. Hann málar viðmælendur út í horn á svo fyndinn og skemmtilegan hátt að unun er að fylgjast með. Bill Maher þekkir öll helstu trúarbrögðin prýðilega og er því vel snakkhæfur við trúarnöttara af öllum gerðum. Í myndinni fer hann þó bara yfir kristna trú og nokkrar af afleiðum hennar, sem og íslam.
Ég hvet allt þenkjandi fólk til þess að kíkja í bíó, allir munu fá eitthvað fyrir sinn snúð. Trúaðir munu styrkjast í trú sinni og trúleysingjar verða enn vantrúaðri. En altént er það svo að Maher spyr áleitinna spurninga sem þarfnast svara við og verður hver og einn verður að svara eftir eigin sannfæringu.
Í mínum huga eru svörin alveg á hreinu!
Föstudagur, 28. nóvember 2008
Ríkisstyrkt innræting fyrir yngstu börnin: Trúarbrögðin okkar
Ég vek athygli á frábærri grein á vantru.is þar sem fjallað er um nýja bók, Trúarbrögðin okkar, sem Námsgagnastofnun gaf nýverið út og er ætluð til kennslu í yngstu bekkjum grunnskólanna.
Nú tek ég fram að ég hef ekki lesið umrædda bók, en sú eina setning sem vitnað er til í greininni á vantru.is er nægilega slæm ein og sér til að verðskulda þennan pistil:
Trúarbrögðin kenna okkur að þykja vænt um hvort annað og þau hjálpa okkur til að eignast vini. Ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða gerðust færri slæmir hlutir í heiminum. Þá gætum við lifað saman eins og ein stór fjölskylda.
Ergo: Af því að við trúum ekki öll á sama fyrirbærið, þá er í þessum heimi stríð og ófriður. Málið er líklega þó það að það er alltaf hinum að kenna, þeim sem ekki trúa því sama og þú!
Það er skelfilegt að þetta skuli vera haft fyrir smábörnum sem eru í þeirri stöðu að meðtaka allt sem sagt er í skólanum sem algjörum og endanlegum sannleik. Börn í grunnskóla eiga ekki að setja neinn fyrirvara við námsefnið, enda lítum við svo á að þar sé verið að kenna þeim vísindaleg fræði sem eiga að verða grunnur fyrir frekara námi. Það að segja að allt væri gott í heiminum ef allir færu eftir boðskap trúarinnar er hreinlega ósatt. Það er kórrétt sem greinarhöfundur, Óli Gneisti Sóleyjarson, ýjar að þegar hann spyr hvort trúin stuðli að friði eða ofbeldi. Helstu átakalínur í heiminum í dag eru dregnar skv. trúarlegum forsendum og svo hefur verið um árhundruð.
Ég hef sagt það áður að trúin sundrar frekar en sameinar þegar um tvenn eða fleiri trúarbrögð er að ræða. Trúaðir hafa alltaf rétt fyrir sér og því hljóta allir sem aðhyllast aðra trú að hafa rangt fyrir sér. Í besta falli hefur sá trúaði meðaumkun með hinum ræflunum sem sjá ekki rétta ljósið og í versta falli reynir hann að gera eitthvað í því. En nóg um það.
Margoft hef ég lýst því hvað ég hef mikla meðaumkun með trúuðum að þeir telji sig þurfa að sækja svo stíft í raðir smábarna sem raun ber vitni, sá þar purrkunarlaust fræi sínu meðan börnin eru algjörlega móttækileg. Frjáls hugsun er þarna til trafala, skilyrðislaus innræting er besta leiðin í þeirra huga. Í minum huga er hann lélegur, málstaður þeirra sem fara svona að.
Einskorðum kennsluefni grunnskóla við vísindalegt efni ... skiljum trú og önnur hindurvitni eftir við útidyrnar.
Krækja: Trúarbrögðin "okkar" á vantru.is
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Rannsóknir á stofnfrumum
Ég vona að þetta mikla framfaramál verði sett aftur á dagskrá í Bandaríkjunum með hraði. Fjöldi fólks sem glímir við alvarleg veikindi hefur í fá önnur hús að venda og því er nauðsynlegt að rannsóknum á stofnfrumum verði hraðað eins mikið og hægt er.
Þá er ekki verið að tala um að vísindamenn hafi ótakmarkað leyfi til þess að rækta stofnfrumur, enda verður að umgangast þær með tilhlýðilegri virðingu. Þannig þarf að setja þessu sviði skorður, lagalegar og siðferðilegar. En hvernig sem allt veltur, þá þarf fyrst og fremst að huga að rétti þeirra sem nú lifa og ekki síst þeirra sem eiga eftir að fæðast og verða hrjáðir af þessum sjúkdómum! Ef það er hægt að lina þjáningar og bæta líf þeirra sem þjást af illvígum sjúkdómum, þá ber okkur að leita allra leiða til þess.
Auðvitað eru aðrar leiðir færar í meðferð og meðhöndlun á illvígum sjúkdómum á borð við Parkinson's, en rannsóknir á stofnfrumum eru taldar vera ein þeirra sem geta skilað skjótustum árangri.
Hvað varðar þann klofning sem kaþólskir biskupar vara við, þá er dagljóst af þessari frétt að dæma að þeir eru sjálfir þrælsekir um að ala á þessum klofningi sjálfir. Þeir ættu að reyna að láta af blygðunarlausri stjórnsemi sinni gagnvart öðrum og gefa okkur hinum frí ... svona einu sinni.
Að lokum hver ég lesendur til þess að líta á myndbandið hér að neðan. Þar er að finna viðtal sem Katie Couric tók við Michael J. Fox, en hann er illa haldinn af Parkinson's. Það er ekki hægt að horfa á þetta án þess að vera forviða vegna þeirrar forpokuðu andstöðu við rannsóknir á stofnfrumum sem hægt er að finna víða.
YouTube: Myndband með Michael J. Fox og Katie Couric
Stofnfrumur aftur í umræðuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 2. nóvember 2008
Kjósum einstaklinga, ekki lista!
Um nokkurt skeið hef ég velt því fyrir mér hvernig hægt sé að gera lýðræði beinna og skilvirkara hérlendis. Í mínum huga er ein leið best - að kjósa einstaklinga, ekki lista. Flokkar munu áfram velja fólk á lista sína með þeim aðferðum sem þeir kjósa, með uppstillingu eða prófkjöri, og þeir listar rata á kjörseðla. Hins vegar munu kjósendur merkja beint við nöfn þeirra frambjóðenda sem þeir telja hæfasta hverju sinni af einum eða fleiri listum. Þeir geta því kosið fólk af mörgum listum, hæfa einstaklinga sem þeir telja að geta gert gagn á Alþingi, óháð tengslum við stjórnmálaflokka.
Ég sé það fyrir mér að með þessu fyrirkomulagi geti kjósendur valið sér þann meirihluta sem þeir telja heppilegastan, en um leið geti þeir valið þann minnihluta sem þeir telji að muni veita meirahlutanum best aðhald. Í mínum huga er listakosning sambærileg við að fá dós af Quality Street súkkulaðikonfekti. Það eru nokkrir góðir molar í dósinni, en mest er þó um mola sem manni er sama um. Svo eru alltaf molarnir sem enginn vill og ganga aldrei út, sama hversu lengi dósin er á borðinu. Þannig verður maður að taka það slæma með því góða, en sumt af þessu slæma er bara svo virkilega slæmt.
Þetta kerfi þyrfti að útfæra betur, en helsta spurningin er sú hvort það eigi að vera einn atkvæðaseðill á landsvísu eða sér seðill í hverju kjördæmi. Persónulega líst mér betur á að einn atkvæðaseðill gildi fyrir landið, enda eiga þingmenn að starfa fyrir landið í heild sinni og því má segja að það sé óeðlilegt að þeir sé kosnir í kjördæmum. Það fyrirkomulag gerir það að verkum að þingmenn þurfa frekar að hygla sínu kjördæmi umfram önnur, en það býður heim hættunni á hrossakaupum og eiginhagsmunahyggju.
Í flestum flokkum er gott fólk sem mér hugnast að hafa á þingi, en að sama skapi er í öllum flokkum fólk sem ég vil ekki sjá á þingi undir neinum kringumstæðum. Sem barnfæddur Sjálfstæðismaður vil ég geta kosið flokkinn minn, en ef ekki verða róttækar breytingar á því framboði fólks sem á honum verður, þá sé ég það ekki ganga eftir. Með því að velja einstaklinga get ég valið það Sjálfstæðisfólk sem ég ber traust til og hafnað hinum. Þá vil ég einnig velja allt það frambærilega fólk sem er að finna í hinum flokkunum, annars vegar til þess að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og hins vegar til að vera í þróttmikilli stjórnarandstöðu.
Nú spyrja flokksjálkarnir af hverju þeir geti ekki bara kosið listann sinn áfram; allar breytingar séu, jú, ekki nema til ills. Ég bendi þeim á að þeir geta eftir sem áður kosið listann sinn með því að merkja bara við fólk á þeim lista. Það er minnsta málið. Hins vegar er það afar sorglegt ef fólk er það fast í farinu að það sjái ekki einn eða tvö góða kosti á öðrum listum. En þannig er lífið.
Enn ein rökin fyrir því að hafa þetta fyrirkomulag og einn lista á landsvísu er jöfnun vægis kjósenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að atkvæði kjósenda á landsbyggðinni skuli hafa meira vægi en atkvæða okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Reglan á að vera einn kjósandi, eitt atkvæði.
Hvað á svo að velja mörg nöfn? Ég get ekki sagt til um það, en að mínu mati eiga þau að vera á milli 20 og 40 talsins. Það er þó það atriði sem erfiðast yrði að útfæra.
Hugsanlega getur þetta kerfi leitt til þess að hlutur kvenna færi minnkandi um stund, enda eru íslenskar þingkonur almennt hlédrægari en starfsbræður þeirra. Mér er sagt að þær séu almennt betri til vinnu á þingi en karlar, en það vegur ekki þungt ef enginn veit af því. Á því verður að taka.
Það verður magnað að geta kosið Pétur Blöndal, Steingrím J., Helga Hjörvar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur, Össur Skarphéðinsson, Bjarna Benediktsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmund Jónasson.
Ég sleppi Framsókn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)