Tæplega 97% hafna Kristilega þjóðarflokknum skv. könnun

Kristilegt framboð - 97% höfnunÍ nokkrar vikur hef ég kannað hug þjóðarinnar til væntanlegs framboðs Kristilega þjóðarflokksins og eru niðurstöðurnar þær að 96,5% þjóðarinnar telja ekki þörf á framlagi þessa flokks í stjórnmálaflóru hérlendis á meðan 3,5% telja að hann eigi erindi við þjóðina.

Þetta eru býsna magnaðar niðurstöður því forsvarsmenn Kristilega þjóðarflokksins hafa sagt mikla þörf fyrir flokkinn meðal þjóðarinnar, en skv. þessu bíður hún ekki beinlínis með öndina í hálsinum :)


Kaþólska kirkjan er EKKI afl til góðs

Nei!Ég var að skoða prýðilegar umræður sem haldnar voru undir merkjum Intelligence Squared og höfðu sem yfirskrift fullyrðinguna The Catholic church is a force for good in the world eða Kaþólska kirkjan er afl til góðs í heimi þessum. Voru þessar umræður sýndar á BBC, en ég sá þær síðar á Youtube. Samþykk framangreindri fullyrðingu voru John Onaiyekan, erkibiskup í Abuja í Kenýa og þingmaður Íhaldsflokksins Anne Widdecombe. Ósammála voru höfundurinn Christopher Hitchens og leikarinn Stephen Fry.

Þessi fjögur héldu hver sína framsögu og síðan var tekið við spurningum úr sal, en þar sátu rúmlega tvö þúsund manns og hlýddu á. Það er skemmst frá því að segja að í byrjun umræðnanna voru tæplega 680 fundargesta sammála því að kaþólska kirkjan væri afl til góðs meðan rétt rúmlega 1100 voru því ósammála. Um 350 fundargestir höfðu ekki gert upp hug sinn. Þegar umræðunum lauk hafði enn hallað á kaþólikkana því þá voru aðeins tæplega 268 sem töldu hana góða meðan rúmlega 1870 voru ósammála.

Það var magnað að sjá hversu sterkur málflutningur minna manna (Hitchens og Fry) var meðan raddir hinna voru hjáróma og máttlausar. Þetta er til marks um nýja tíma þegar ítök trúarinnar fara hratt dvínandi og er það vel. Almenningur er byrjaður að skynja þetta og því mun fjara hratt undan kirkjum á borð við þá kaþólsku í náinni framtíð.

Ég hvet alla til þess að kíkja á þessar umræður á Youtube og eru tenglar í alla fimm hlutana hér að neðan:

Youtube: 1 | 2 | 3 | 4 | 5


Nú tapaði Ríkiskirkjan sál ... og nokkur þúsund krónum!

Hamingja :)Ég fékk ánægjulegt símtal áðan. Ónefndur vinur og kammerat til margra ára tilkynnti mér að hann hefði gert sér ferð og sagt sig úr Ríkiskirkjunni. Þessar fréttir komu mér þægilega á óvart og gerðu góðan dag enn betri. Við ræddum þessi mál um stund og vorum báðir sammála um að þessi ríkisforsjá í trúmálum væri ólíðandi þegar kemur að sjálfvirkri skráningu hvítvoðunga í trúfélag móður og að vonandi myndu verða breytingar á þeirri óhelgu venju bráðlega.

Það kætti félaga minn enn meira að hafa gert þetta á þessum degi, 09.09.09, því ef þessari dagsetningu er snúið á haus kemur beint símanúmer Satans í ljós, 666.

Hið sorglega í málinu, hins vegar, er að margt fólk er í sömu sporum og þessi félagi minn var ... að vera skráð í trúfélag sem því er í besta falla sama um og í versta falli illa við. Það fólk ætti nú að bregðast við á þessum degi símanúmers Satans og ná í eyðublað á vef Hagstofunnar og skakka þennan ljóta leik. Það er einfalt og auðvelt að fylla þetta út og ef niðurstaðan er sú að viðkomandi skráir sig utan trúfélags þá getur hann verið ánægður með að trúfélagstíund hans rennur eftirleiðis til Háskóla Íslands þar sem honum er betur varið.

Í dag eru fréttir af svona dáð að verða æ algengari og er það vel. Það er illt að fjöldi fólks skuli sætta sig við að sitja á þeim bekk sem þeim var skikkaður þegar það fæddist. Ef fólk trúir, þá á það að vera skráð í trúfélag ... við hin eigum ekki að þurfa að sætta okkur við það!


Skiljum að ríki og Ríkiskirkju

Frelsi, ekki helsi!Þjóðin gengur í gegnum miklar hremmingar þessa dagana og þarf svo sem ekkert að fjölyrða um það. Skorið er niður á öllum stöðum og er enginn liður í þjónustu ríkisins undanskilinn. Heilbrigðis- og menntakerfi munu verða fyrir skerðingu, löggæsla er í algjöru lágmarki, börn fá ekki mat í skólum og svo mætti lengi telja. Á þessum tímapunkti er því rétt að huga að því hvernig hægt er að skera niður kostnaðarliði hjá ríkinu sem engan veginn eiga heima þar.

Það er dagljóst að rekstur Ríkiskirkjunnar er klárlega nokkuð sem ekki á að sjást í ríkisreikningi. Árlega renna ófáir milljarðar til hennar sem væri mun betur varið þar sem allir landsmenn geta notið. Þetta er gömul krafa og eðlileg og nú er rétti tíminn til þess að gera þetta þjóðþrifamál að veruleika.

Skiljum að ríki og kirkju vegna þess að það er fjárhagslega hagkvæmt og ekki síður vegna þess að það er siðferðislega rétt!


Hinsegin fólk og allt það lið: Það er ekki sama Jón og séra Jón :)

Nú fara margir mikinn og belgja sig út vegna Hinsegin daga. Eitt dæmið er ljótur póstur frá Jóni Val þar sem hann grætur nokkrar milljónir sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita sem styrk til samkynhneigðra til kynningar á réttindamálum sínum. Ekki aðeins telur Jón Valur að peningunum sé illa varið, hann segir einnig að sökum þess að samkynhneigðir telji, skv. hans eigin tölum, ekki nema um 2,3% þjóðarinnar, eigi þeir engan rétt á nokkrum hlut.

Það er tvennt sem er skondið að skoða í þessu samhengi sem sýnir glögglega hvernig Jón Valur er einstaklega ósamkvæmur sjálfum sér.

  • Hann sér eftir 12 milljónum til samkynhneigðra - Jón Valur sér hins vegar ekkert athugavert við að viðgerð á turni Hallgrímskirkju skuli hafa farið 260 milljón krónur fram úr áætlun og kosti nú ríki og borg rúmlega hálfan milljarð króna. Hefði þeim peningum ekki verið betur varið annars staðar?
  • Þeir hópar sem telja 2,3% þjóðarinnar eiga lítinn sem engan rétt - Jón Valur tilheyrir litlum sértrúarsöfnuði hér heima sem telur um 2,5% þjóðarinnar. Smæð þessa örhóps breytir því þó ekki að hann telur þessa flís í mannlegu samfélagi eiga allan rétt og að þjóðfélagið allt skuli sitja og standa eftir hentugsemi hans.

Það er því ljóst að ekki er sama Jón og séra Jón :)

Ástæða þess að ég skrifa þetta hér en ekki við haturspistil Jóns Vals er sú að hann er búinn að útiloka mig frá því að setja athugasemdir við óráðsskrif hans. Það eru því ekki margar aðrar leiðir færar til að leiðrétta rausið í kallinum, því miður.


Um Bakþanka

Um Bakþanka í helgarútgáfu Fréttablaðsins frá því um síðustu helgi vil ég segja eftirfarandi:

Úrslitaleikur í svokallaðri álfukeppni í knattspyrnu er ekki heimssögulegur viðburður.

Lifið heil.


Dónaskapur og íþróttablæti hjá Rúv!

Svona er þetta!Rétt í þessu ætlaði ég að stilla á fréttir á Rúv, en gríp í tómt. Það er nefnilega fótboltaleikur einhvers staðar í heiminum sem er augljóslega mun merkilegri og fréttnæmari en staðan í íslensku þjóðfélagi þennan dag. Þessi dagur er svo ekkert einsdæmi því þetta gerist merkilega oft.

Það er óskiljanlegt að fótboltaleikur skuli trompa fréttir í dagskrá Rúv. Íþróttablæti Ríkisvarpsins er með þvílíkum endemum að það er ekki fyrir fákunnandi og fréttaþyrstan mann að skilja. Það má ekki maður hlaupa, henda spjóti eða sparka bolta einhvers staðar án þess að dagskrá Rúv riðlist fram og til baka svo hægt sé að sýna beint frá.

En það er svo sem ekkert að gerast hér heima sem jafnast á við kappleik Bandaríkjanna og Brasilíu. Auðvitað er ekkert merkilegra í dag en þessi æðislegi fótboltaleikur. Boltinn trompar Icesave hvaða dag sem er! Icesave verður hvort eð er ekki nema hálf billjón króna á endanum sem er hverfandi mál meðan fótboltinn lifir að eilífu!

Þetta er helber dónaskapur og kolvitlaus áhersluröðun hjá forsvarsmönnum Ríkisvarpsins. Hafi þeir mikla skömm fyrir!


Viltu styrkja Háskólann um 10 þúsund krónur á ári?

Í dag hafa Íslendingar takmörkuð fjárráð sem birtist í því að niðurskurður er framundan á öllum sviðum. Nú er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að beina þeim fáu krónum sem við eigum á rétta staði. Meðal þess sem skorið verður niður er skólakerfið og munu háskólarnir finna fyrir hnífnum eins og aðrar stofnanir.

Það gleymist hins vegar að flestir Íslendingar hafa það í hendi sér að styrkja Háskóla Íslands með beinum hætti með einfaldri aðgerð. Þetta eru þeir Íslendingar sem voru við fæðingu skráðir í trúfélag móður, án þess að biðja um það, og hafa æ síðan hangið þar inni. Árlega greiða þeir rúmlega 10 þúsund krónur í sjóði viðkomandi trúfélags, venjulega Ríkiskirkjunnar, ásamt öðrum greiðslum. Það er ekki hægt að koma sér undan þessum greiðslum, en það er hægt að hafa áhrif á hvert þær renna.

Ef viðkomandi skráir sig úr því trúfélagi sem hann var skráður í við fæðingu og tilgreinir sig utan trúfélags, renna þessar greiðslur til Háskóla íslands. Fyrir hverja þúsund sem kjósa að bregðast svona við fær Háskóli Íslands 10 milljónir sem hann getur nýtt til góðra verka.

Í dag er nokkur vakning með ungs fólks hvað þetta varðar og leyfi ég mér að birta spjallþráð af Facebook sem sýnir þetta glögglega. Það gerir sér grein fyrir að þessir fjármunir nýtast mun betur hjá Háskólanum en trúfélaginu. Þetta er ánægjuleg þróun sem hefur einnig þann kost í för með sér að hún leiðréttir meingallaðar staðtölur um trúfesti þjóðarinnar.

Eyðublað má nálgast á vef Þjóðskrár og faxa þangað. Þetta er því einfalt og tekur ekki nema nokkrar mínútur. Hins vegar skilar þetta sér í betri starfsaðstöðu fyrir Háskólann á tímum þegar sótt er að honum og þjóðin þarf mikið á honum að halda.

----------------------------------------

Facebook - sóknargjald


Góði Guð, er smokkurinn þá ekki svo slæmur!?

Kaþólskir smokkarÍ gær heyrði ég þau ánægjulegu tíðindi að alnæmis-faraldurinn í Suður-Afríku virðist á ekki jafn ágengur og áður skv. frétt BBC World Service. Þrátt fyrir þetta er staðan verulega slæm þar ytra, en öll merki batnaðar eru góð og vonandi reynist hið fornkveðna satt að mjór sé mikils vísir.

Skv. frétt BBC má rekja þetta að hluta til aukinni notkunar smokksins sem flestir heilvita menn vita og gera sér grein fyrir að er lífsnauðsynlegur, í orðsins fyllstu merkingu, í baráttunni við þann gamla fjanda, alnæmið. Því er sorglegt að jafn áhrifamikil stofnun og kaþólska kirkjan skuli ítrekað beita sér fyrir því að sauðir hennar njóti ekki smokksins. Ótal og mörgum sinnum hefur kaþólsku kirkjunni verið gerð grein fyrir þessum einföldu staðreyndum, en hún þráast ætíð við. Hvers vegna, það er óútskýrt mál.

Vonandi ratar þessi fyrrnefnda frétt inn á borð til Ratzinger páfa og vonandi les hann hana með opnum hug. En ég myndi þó ekki veðja á það!


Ljósmyndir, söl og vatnshrútar ...

Í dag fór ég á skemmtilega ljósmyndasýningu á Eyrarbakka, en hún var haldin í heimahúsi í tengslum við hátíðina Vor í Árborg. Sýnandi, Dísin á Flickr, tók á móti okkur og bauð söl um leið og við skráðum okkur í gestabók. Dísin þessi hefur um langa hríð verið einn af mínum uppáhalds ljósmyndurum á Flickr og því var gaman að hitta hana og fá að sjá nokkrar af myndum hennar í góðri stærð.

En það var ekki bara hægt að sjá glæsilegar ljósmyndir þarna því afi sýnanda hafði einnig opnað vinnustofu sína þar sem sjá mátti ógrynni kunnuglegra og framandi verkfæra. Sá gamli hafði augsýnilega verið liðtækur handverksmaður alla sína tíð og ljóst var að borgarbarnið kom ekki að tómum kofunum hjá honum. Ég handlék hníf úr fyrri heimsstyrjöldinni, sá skáp sem minnti helst á ferða altaristöflu, fékk innsýn inn í hvernig strokkur er búinn til auk sem sem virkni vatnshrúta var gaumgæfilega reifuð.

Ljósmyndir, söl og vatnshrútar ... hvað er betra til?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband