Viltu styrkja Háskólann um 10 þúsund krónur á ári?

Í dag hafa Íslendingar takmörkuð fjárráð sem birtist í því að niðurskurður er framundan á öllum sviðum. Nú er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að beina þeim fáu krónum sem við eigum á rétta staði. Meðal þess sem skorið verður niður er skólakerfið og munu háskólarnir finna fyrir hnífnum eins og aðrar stofnanir.

Það gleymist hins vegar að flestir Íslendingar hafa það í hendi sér að styrkja Háskóla Íslands með beinum hætti með einfaldri aðgerð. Þetta eru þeir Íslendingar sem voru við fæðingu skráðir í trúfélag móður, án þess að biðja um það, og hafa æ síðan hangið þar inni. Árlega greiða þeir rúmlega 10 þúsund krónur í sjóði viðkomandi trúfélags, venjulega Ríkiskirkjunnar, ásamt öðrum greiðslum. Það er ekki hægt að koma sér undan þessum greiðslum, en það er hægt að hafa áhrif á hvert þær renna.

Ef viðkomandi skráir sig úr því trúfélagi sem hann var skráður í við fæðingu og tilgreinir sig utan trúfélags, renna þessar greiðslur til Háskóla íslands. Fyrir hverja þúsund sem kjósa að bregðast svona við fær Háskóli Íslands 10 milljónir sem hann getur nýtt til góðra verka.

Í dag er nokkur vakning með ungs fólks hvað þetta varðar og leyfi ég mér að birta spjallþráð af Facebook sem sýnir þetta glögglega. Það gerir sér grein fyrir að þessir fjármunir nýtast mun betur hjá Háskólanum en trúfélaginu. Þetta er ánægjuleg þróun sem hefur einnig þann kost í för með sér að hún leiðréttir meingallaðar staðtölur um trúfesti þjóðarinnar.

Eyðublað má nálgast á vef Þjóðskrár og faxa þangað. Þetta er því einfalt og tekur ekki nema nokkrar mínútur. Hins vegar skilar þetta sér í betri starfsaðstöðu fyrir Háskólann á tímum þegar sótt er að honum og þjóðin þarf mikið á honum að halda.

----------------------------------------

Facebook - sóknargjald


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórgott mál.  Endilega allir að drífa sig. 

Teitur Atlason 17.6.2009 kl. 10:48

2 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Mæðrastyrksnefnd varð ofar Háskóla Íslands á mínum lista varðandi "styrkinn", þar er þörfin bráðnauðsynleg.  Ég er líka duðhræddur við að Guðfræðideild fái of mikið af þessum styrk.  

Páll A. Þorgeirsson, 17.6.2009 kl. 16:21

3 Smámynd: Óli Jón

Páll: Málið er að þú getur ekki valið að láta 10 þúsund kallinn renna til Mæðrastyrksnefndar, því miður. Hann rennur annað hvort til trúfélags eða Háskólans. Því er það svo að ef fólk er ekkert sérlega staðfast í trúnni, þá ætti það að hyggja að því að skrá sig úr trúfélaginu, sem venjulega er Ríkiskirkjan, og skrá sig utan trúfélags. Þá rennur 10 þúsund kallinn á betri stað en ella.

Svo ættum við auðvitað öll að láta eitthvað af hendi rakna til Mæðrastyrksnefndar þar fyrir utan.

Óli Jón, 17.6.2009 kl. 17:05

4 identicon

Ég er löngu búin að skrá mig úr Þjóðkirkjunni og er fegin því að í dag skuli mínir peningar renna beint til Háskólans. Ég hvet alla til að ná í eyðublaðið og drífa í þessu, strax.

Frjáls 17.6.2009 kl. 17:44

5 identicon

Mér lýst vel á þetta. Þá getur Háskólinn útskrifað fleiri hámenntaða fræðinga, doktorar í innherjaviðskiptum, hvernig stofna á lífeyrissjóð sem lánar sjálfum manni kúlulán og svo náttúrulega aðalatriðið, hvernig ræna eigi  bankana innanfrá og komast  upp með það.

Þetta er akkúrat það sem okkur vantar nú til dags.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson 17.6.2009 kl. 21:06

6 Smámynd: Óli Jón

Rafn: Einmitt, því Háskólinn útskrifar bara svikafræðinga sem hafa það eitt að markmiði að rupla og ræna. Það koma auðvitað engir sálfræðingar, líffræðingar, verkfræðingar, guðfræðingar, læknar, kennarar, íslenskufræðingar, hjúkrunarfræðingar, heimspekingar eða aðrir fræðingar úr háskólanum. Þetta eru bara allt saman svikulir og undirförulir arðræningjar og hagsmunapotarar.

Flott innlegg, takk fyrir það :)

Óli Jón, 17.6.2009 kl. 21:13

7 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Hef verið að velta þessu fyrir mér undanfarið. Líklega betri kostur að styrkja háskólann en einhver hindurvitni og rugl sem hefur í gegnum aldirnar verið notað til að kúga almenning.

Hitt er samt í raun fáránlegt og hlýtur að teljast ólíðandi brot gegn réttindum einstaklings, að hann skuli umfram aðra skyldaður til að greiða skatt til Háskólans á þeim forsendum einum að vilja ekki undirgangast eitthvað trúrarugl og greiða því tíund!

Kristján H Theódórsson, 17.6.2009 kl. 23:45

8 Smámynd: Óli Jón

Kristján: Ég er algjörlega sammála þér varðandi þennan fáránlega trúarskatt. Það er trú mín að í denn hafi framsýnir menn séð að fólk myndi í unnvörpum skrá sig úr trúfélögum ef það gæti sparað sér 10 þúsund kall á ári og því sett þennan Háskóla-krók á málið. Enda kemur það á daginn að það er enginn veraldlegur ávinningur í því að skrá sig úr trúfélagi sem viðkomandi var sjanghæjaður í við fæðingu og því láta nær allir það bara vera.

Óli Jón, 18.6.2009 kl. 00:04

9 identicon

Ég er 100% sammála Kristján H. Það er ósanngjarnt og vitlaust að vantrúaðir skuli þurfa að borga þennan skatt á við trúaða. Mjög heimskt.

Frjáls 18.6.2009 kl. 00:11

10 Smámynd: Óli Jón

Frjáls: Og ég er 100% sammála þér :)

Óli Jón, 18.6.2009 kl. 00:14

11 Smámynd: Helga

mér finnst þessi umræða komin á pínu lágt plan þó allir hafi að vísu sínar skoðanir.  Kirkjan og starfsemin þar snýr að svo miklu meiri þáttum heldur en beinni trú...  Hún rekur fjölskylduþjónustu, prestar veita neyðparþjónustu við allar aðstæður og ég er hrædd um að hver sem er háskólamenntaður geti ekki hluapið inn í þær aðstæður....  Í kreppunni í vetur hefur kirkjan verið full af fólki að leita sér viðtala og aðstoðar... Kirkjan hefur meira að segja sumsstaðar beitt sér fyrir því að skapa aðstæður sem hvetja atvionnulausa til að koma og finna til sín.... í stað þess að dag uppi heima....  Í kirkjum er dagskrá fyrir eldri borgara yfirleitt mjög öflug.. bæði eldri borgara starf og annað... Kirkjurnar í hverju hverfi fyrir sig bjóða upp á allskyns þjónustu fyrir börn og fullorðna sem hafa lent illa út úr lífinu.... t.d. Æskulýðsstarf bæði sérsniðið að börnum sem hafa orðið undir í lífinu og til styrktar  öðrum.  Kirkjan hefur víða verið með mikilvægan stuðning við alkóhólista...  Kirkjan hefur passað upp á að ungar mæður einangrist síður með sín ungabörn með því að bjóða upp á mömmumorgna.....   Kórstarf er víða í boði ókeypis.  Fullorðinskórar, Gospelkórar, Stúlknakórar, drengjakórar, barnakórar......  Og svona gæti ég haldið áfram að telja......  Kirkjan hefur starfrækt hjálparstofnun sem fór mikið inn á við í vetur og bæði safnaði og úthlutaði mat og fjármunum til illa staddra fjölskyldna.

Það er fíflalegt að reyna að vega að þeirri þjónustu sem mér finnst hafa staðið uppúr í vetur þegar að hefur kreppt.  Ekki hefur ríkið staðið sig þar, en það hefur kirkjan.  Það er Háskólunum ekki til framdráttar að  grafa markvisst undan því viðkvæma starfi sem fram fer í kirkjum landsins!!!!!

Helga , 18.6.2009 kl. 00:54

12 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Helga! Ég held að þú sért komin á hálan ís að tala um fíflagang og lágt plan hjá þeim sem hafa þá skoðun að kirkjur landsins geti séð um sig á grundvelli áhuga þeirra sem þær vilja styðja.

Vafalaust margt gott og þarft sem þar fer fram enginn efar það. En því ekki að vinna það starf án þess að nánast lögþvinga alla til greiðslu galds án tillits til hvort þeir telji sig trúa þeim boðskap sem starfið grundvallast á.

Vill svo til að annað apparat, nefnilega ríkissjóði er formlega ætlað hlutverk og inneimtir af okkur gjald til að sinna okkar aðskiljanlegustu þörfum á flestum sviðum. 

 Vilji s.k. söfnuðir af ýmsum toga bæta þar betur um, er það einfaldlega þeirra mál hvernig það er fjármagnað, en skattheimturétt á allan almenning skulu þeir ekki hafa!

Kristján H Theódórsson, 18.6.2009 kl. 01:53

13 identicon

Eru ríkiskirkjuprestar því almennt sammála um að ríkiskirkjan sé ekki lengur trúfélag heldur einhverskonar allsherjar hjálpar- og góðgerðarstofnun? Ég hef tekið eftir því að sumir þessara ríkisstarfsmanna eru nánast hættir að tala um jesú og guð og þá kappa alla en þeim mun meira um almenn næsheit og náungakærleik. Það er þannig séð ágætt en ég held að slík stefnubreyting hafi ekki verið samþykkt á æðstu stöðum.

Bjarki 18.6.2009 kl. 09:42

14 Smámynd: Óli Jón

Helga: Takk fyrir þitt innlegg. Í mínum huga er þetta spurning um hvert peningum er beint. Það má vel vera að Ríkiskirkjan sinni ákveðnu þjónustuhlutverki, en við verðum ætíð að hafa í huga að það er ekki ókeypis. Árlega kostar rekstur Ríkiskirkjunnar upp undir sex milljarða króna og skv. öllu eru það peningar sem gætu farið á aðra staði.

Þú talar t.d. um félagslega þjónustu sem Ríkiskirkjan veitir. Af hverju má ekki skera niður fjármuni til hennar vegna þessa og veita þeim inn í félagsþjónustuna þar sem við erum með fagfólk í hverri stöðu? Þú talar um tómstundaiðju fyrir aldraða. Af hverju má ekki skera niður fjárveitingar til Ríkiskirkjunnar vegna þessa og veita þeim inn á aðra staði. Hvernig væri staðan í félagslega kerfinu ef framlög til Ríkiskirkjunnar væru skorin niður um helming og mismuninum beint til stofnana? Ég er viss um að starfsemi þeirra myndi eflast svo mikið að fæstir myndu sakna Ríkiskirkjunnar.

Svo á spurningin sem fram kemur hér að ofan réttmæt. Er Ríkiskirkjan trúfélag eða hjálpar- og afþreyingarstofnun? Það verður svo ætíð að hafa í huga að Ríkiskirkjan getur, eðli málsins samkvæmt, ekki þjónað öllum. Það eru fjölmargir sem geta ekki, trúar sinnar vegna, nýtt sér þjónustu hennar. Hérlendis eru fjölmargir sem hafa annan átrúnað en Ríkiskirkjan boðar og enn aðrir sem engu trúa. Skv. því má segja að sex milljarða framlag ríkisins til Ríkiskirkjunnar gagnist aðeins hluta þjóðarinnar meðan það myndi gagnast henni allri ef því væri veitt inn til veraldlegra stofnana.

Óli Jón, 18.6.2009 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband