Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skiljum að ríki og Ríkiskirkju

Frelsi, ekki helsi!Þjóðin gengur í gegnum miklar hremmingar þessa dagana og þarf svo sem ekkert að fjölyrða um það. Skorið er niður á öllum stöðum og er enginn liður í þjónustu ríkisins undanskilinn. Heilbrigðis- og menntakerfi munu verða fyrir skerðingu, löggæsla er í algjöru lágmarki, börn fá ekki mat í skólum og svo mætti lengi telja. Á þessum tímapunkti er því rétt að huga að því hvernig hægt er að skera niður kostnaðarliði hjá ríkinu sem engan veginn eiga heima þar.

Það er dagljóst að rekstur Ríkiskirkjunnar er klárlega nokkuð sem ekki á að sjást í ríkisreikningi. Árlega renna ófáir milljarðar til hennar sem væri mun betur varið þar sem allir landsmenn geta notið. Þetta er gömul krafa og eðlileg og nú er rétti tíminn til þess að gera þetta þjóðþrifamál að veruleika.

Skiljum að ríki og kirkju vegna þess að það er fjárhagslega hagkvæmt og ekki síður vegna þess að það er siðferðislega rétt!


Viltu styrkja Háskólann um 10 þúsund krónur á ári?

Í dag hafa Íslendingar takmörkuð fjárráð sem birtist í því að niðurskurður er framundan á öllum sviðum. Nú er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að beina þeim fáu krónum sem við eigum á rétta staði. Meðal þess sem skorið verður niður er skólakerfið og munu háskólarnir finna fyrir hnífnum eins og aðrar stofnanir.

Það gleymist hins vegar að flestir Íslendingar hafa það í hendi sér að styrkja Háskóla Íslands með beinum hætti með einfaldri aðgerð. Þetta eru þeir Íslendingar sem voru við fæðingu skráðir í trúfélag móður, án þess að biðja um það, og hafa æ síðan hangið þar inni. Árlega greiða þeir rúmlega 10 þúsund krónur í sjóði viðkomandi trúfélags, venjulega Ríkiskirkjunnar, ásamt öðrum greiðslum. Það er ekki hægt að koma sér undan þessum greiðslum, en það er hægt að hafa áhrif á hvert þær renna.

Ef viðkomandi skráir sig úr því trúfélagi sem hann var skráður í við fæðingu og tilgreinir sig utan trúfélags, renna þessar greiðslur til Háskóla íslands. Fyrir hverja þúsund sem kjósa að bregðast svona við fær Háskóli Íslands 10 milljónir sem hann getur nýtt til góðra verka.

Í dag er nokkur vakning með ungs fólks hvað þetta varðar og leyfi ég mér að birta spjallþráð af Facebook sem sýnir þetta glögglega. Það gerir sér grein fyrir að þessir fjármunir nýtast mun betur hjá Háskólanum en trúfélaginu. Þetta er ánægjuleg þróun sem hefur einnig þann kost í för með sér að hún leiðréttir meingallaðar staðtölur um trúfesti þjóðarinnar.

Eyðublað má nálgast á vef Þjóðskrár og faxa þangað. Þetta er því einfalt og tekur ekki nema nokkrar mínútur. Hins vegar skilar þetta sér í betri starfsaðstöðu fyrir Háskólann á tímum þegar sótt er að honum og þjóðin þarf mikið á honum að halda.

----------------------------------------

Facebook - sóknargjald


Skilið endilega EKKI auðu!

Ætlarðu að refsa gömlu flokkunum fyrir getu- og/eða aðgerðarleysið og skila auðu?

Veltu þá eftirfarandi fyrir þér:

  • Gömlu flokkarnir fá 63 þingsæti ef 10% skila auðu!
  • Gömlu flokkarnir fá 56 þingsæti ef 10% kjósa annað!

Hvort virkar betur?

Kjóstu Borgarahreyfinguna, X-O!


Góður páskadagur ...

Þessi dagur hefur verið hinn besti. Ég hef getað nýtt þennan dag til ýmissa verka sem um langt árabil voru bönnuð, s.s.:

  • verslað
  • farið í bíó
  • keypt mér skyndibita

og fleira og fleira. Er ekki gott að vera til?

Batnandi þjóð er best að lifa :)


Skilið endilega auðu!

Skilaðu auðu!Nú virðist einn af hverjum tíu kjósendum ætli að skila auðu ef marka má frétt Stöðvar 2 sem ég heyrði í fyrrakvöld. Þessu fagna ég afar mikið því það merkir einfaldlega að mitt atkvæði vegur þeim mun meira. Fyrir hvert atkvæði sem fer autt í kjörkassann verður mitt atkvæði áhrifaríkara.

Því segi ég við þá sem eru að velta þessu fyrir sér að skila endilega auðu, en hafið í huga að það jafngildir því að því lýsið þið yfir að skoðun ykkar hafi ekkert vægi. Að þið hafið ekkert til málanna að leggja. Að ykkar sjónarmið sé einskís virði.

En skilið fyrst og fremst auðu svo mitt atkvæði vegi þyngra. Plís!!!


Áfallahjálp?

Ég var að lesa frétt á visir.is þess efnis að starfsfólki Menntaskólans í Kópavogi hafi verið veitt áfallahjálp sökum þess að einn starfsfélagi þeirra var nýverið dæmdur fyrir að hafa barnaklám í vörslum sínum. Vissulega er þetta skelfilegur glæpur, en þarf virkilega að bjóða fólki áfallahjálp vegna þessa? Rétt er að tilgreina að þessi grein er ekki skrifuð vegna þessa tilgreinda atviks, heldur allra þeirra tilvika þar sem fólki er boðin áfallahjálp í ótrúlegustu kringumstæðum.

Það rifjaðist upp fyrir mér gömul frétt á mbl.is þar sem danskur læknir gagnrýnir áfallahjálpargleði samtímans. Hann segir, nokkurn veginn, að það sé verið að aumingjavæða samfélagið ef það þarf alltaf að veita áfallahjálp í hvert skipti sem eitthvað bjátar á.

Mér finnst skiljanlegt að fólk fái áfallahjálp þegar það hefur lent í lífsháska eða orðið vitni að slíku. En það þarf ekki áfallahjálp í hvert skipti sem einhverjar breytingar verða á högum fólks. Ég leyfi mér að vitna í orð danska læknisins hér:

Það hlýtur að enda með ósköpum ef samfélag okkar er þannig, að fólk lætur bugast við minnsta áfall. Það verður að búa fólk undir að það kann að verða vitni að einhverju óþægilegu um ævina og sem það verður að takast á við sjálft, ...

Er það ekki umhugsunarvert?


Hausatalning: Konur klikka gjörsamlega!

VRÉg var að fara yfir frambjóðendur í kosningum til forystu í VR. Þessar kosningar hafa ekki farið fram hjá neinum því margir telja að núverandi forysta hafi klikkað gjörsamlega og er líklega margt til í því. Mikil umræða hefur verið um þessi mál í fjölmiðlum, á blogginu og manna á milli.

Það var því með ákveðinni tilhlökkun sem ég renndi mér inn á vef VR í dag til að kynna mér frambjóðendur. Þarna hlyti að vera úrval fólks, karla og kvenna, sem byðu sig fram til forystu í stærsta verkalýðsfélagi landsins sem hefur umsjón með risavöxnum lífeyrissjóði.

Fyrst fór ég inn á vefsíðu þar sem frambjóðendur til formannskjörs voru kynntir, en þeir eru þrír. Þegar vefsíðan spratt fram á skjánum sá ég bara þrjá kalla, en engin var konan. "Piff", hugsaði ég, "mikið rosalega hljóta þá að vera margar konur í boði sem væntanlegir stjórnarmenn!"

Svo spratt upp vefsíðan með yfirliti yfir frambjóðendur í stjórnarkjöri og ég sá ekkert nema kalla. "Piff, piff, piff," sagði ég, "ég á bara eftir að skruna aðeins niður vefsíðuna því ég sé ekki nema helming hennar núna." Ég byrjaði að skruna og engin var konan! "Hmmmm, ég þarf augsýnilega að fara aftur yfir listann," sagði ég við sjálfan mig, "það hlýtur að vera í það minnsta ein valkyrja þarna!" En það var sama hvað ég leitaði; þetta voru allt synir einhverra, engin var dóttirin!

Aðalheiður BjarnfreðsdóttirÞað fyrsta sem ég hugsaði var að "auðvitað eiga einhverjar kellingar ekkert erindi í stjórn verkalýðsfélags!" Í huga mínum sá ég fyrir mér Gvend jaka þar sem hann fór fyrir hópi harðsnúinna karla, grjótharður og flottur. En þá mundi ég eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem hafði svo sannarlega í fullu tré við Jakann! Þar var fimm barna móðir sem lét sig verkalýðsmál varða í tæplega hálfa öld. Á kvennafrídeginum 24. október 1975, sem var mikill blíðviðrisdagur, flutti Aðalheiður barátturæðu og var í henni að finna eftirfarandi kafla:

Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið í heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna.

Á þessum tíma var konan að vakna, það er algjörlega klárt mál. En mér finnst eins og konan hafi dottað aðeins í þessum kosningum hjá VR. Og velur aldeilis tímann til þess! Nú þegar þjóðin (og VR félagar) þarf sérstaklega mikið á öllum góðum eiginleikum hennar að halda, þá dottar hún. Ekki er hægt að kenna körlum um þetta því enginn karl stóð í vegi fyrir konum þarna.

Ég vil taka fram að þessi pistill er skrifaður vegna þess að ég er hundfúll út í konur vegna þessa. Ég er hrikalegt karlrembusvín, en ekki algjört! Ég vil fleiri konur út um allt í þjóðfélaginu. Ég tel að þeirra sé sérstaklega þörf í réttindabaráttunni og lífeyrissjóðsmálum, enda eru þetta málaflokkar sem brenna mikið á öllum. Ég á litla, yndislega frænku sem þarfnast þess að vel sé búið í haginn fyrir hana þegar hún vex úr grasi, að hún getið notið alls til jafns við karla. Þess vegna er það þeim mun sorglegra að sjá bara ellefu karla í boði sem eru örugglega ágætir, flestir.

En þeir eru engar konur, svo mikið er víst!


Einlæg afsökunarbeiðni forsætisráðherra

Þjóðinni hlýtur að þykja vænt um þessa afsökunarbeiðni Geirs H. Haarde, forsætisráðherra:

Hafi mér orðið eitthvað á, þá þykir mér það leitt.

Þarna fylgir sannarlega hugur máli. Iðrun og auðmýkt drjúpa af hverju orði.

PS. Geir finnst honum ekkert hafa orðið á :) fyrir þá sem ekki skilja brandarann hjá honum.


Réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu

UndirskriftalistarÍ dag er vík á milli stjórnvalda og þjóðar. Hluti þjóðarinnar vill breytingar og aðgerðir, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hundsa háværar raddir fólksins. Þetta er hægt að laga ef fólkið hefur rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu ef lágmarks stuðningur fæst, t.d. með undirskriftum 1/4 eða 1/3 einstaklinga á kjörskrá. Ef lágmarks stuðningur fæst er boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers niðurstaða væri bindandi fyrir viðkomandi mál.

Þessi ráðstöfun gæti verið góður varnagli ef þjóð og ríkisstjórn stíga ekki í takt. Með þessu fyrirkomulagi fengist raunverulegt lýðræði þar sem þjóðin gæti tekið málin í sínar hendur ef hún telur stjórnvöld hafa leiðst út á villigötur. Auðvitað þyrfti að innbyggja í svona ferli ákveðnar leikreglur til þess að fyrirbyggja misnotkun. Þetta myndi byggja undir virkt lýðræði alla daga ársins í stað þess að það sé bara virkt á fjögurra ára fresti.


Birtum atburðaskrána!

Endurskoðandi ...Er ekki ástæða til þess í dag að gera atburðaskrá (e. log file) líðandi stundar aðgengilega almenningi? Þetta er alþekkt fyrirbrigði úr upplýsingatækni þar sem hver aðgerð er skráð í atburðaskrá þannig að hægt sé að rekja hluti til baka, gerist þess þörf. Þannig er hægt að rekja hvaða aðgerðir t.d. leiddu til kerfishruns eða villu í kerfinu.

Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í New York, hefur lýst því yfir að hann hafi þungar áhyggjur af því að nú verði gerð axarsköft þegar misvitrir menn véli um hluti sem þeir þekkja ekki. Þetta þarf að fyrirbyggja með öllum ráðum og gagnsæi er besta leiðin til þess. Skv. greiningu Jóns skiptir hvert prósent í lækkun á verðmæti bankanna okkur verulegu máli því í dag er það metið á 30 milljarða króna. Þannig leggjast tvö prósent sig út á 60 milljarða o.s.frv. Eins og einhver sagði, "milljarður hér og milljarður þar, brátt verða þeir að alvöru fjárhæðum!"

Fundargerðir, minnispunktar og annað sem tengist störfum ákveðinna manna ætti að standa öllum til boða á Netinu. Þar gætu áhugasamir litið á þessi gögn og rýnt í þau til að sannreyna að allt sé með felldu. Vera má að það þurfi ákveðna leynd yfir samningaviðræðum, en niðurstöður þeirra ættu alltaf að vera háðar ákveðnum fyrirvörum og einn þessara fyrirvara ætti að vera opinber birting niðurstaðnanna og allra tengdra gagna.

Þetta er auðvelt í innleiðingu og einfalt í framkvæmd. Og það sem meira er, þetta er nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja að mál séu til lykta leidd í bakherbergjum, reykfylltum eða ekki. Nú er verið að ráða ráðum um framtíð þjóðarinnar og flestir þeirra sem að því koma voru leikmenn í þeim leikjum sem leiddu til hrunsins hjá okkur eða gerðu afleiðingar hrunsins alvarlegri en ella. Það er því alveg sjálfsagt að þjóðin geti litið yfir öxlina á þeim.

Ef þessir menn hafa ekkert að fela, er þetta þá ekki sjálfsagt mál?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband