Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 2. júní 2010
Af hverju páfinn þarf aldrei að biðjast afsökunar!
Í nýjasta tölublaði Time er fjallað um Ratzinger páfa og þá erfiðu stöðu sem hann er í. Það er lýsandi fyrir stöðu páfa að yfirskrift greinarinnar er Why Being Pope Means Never Having To Say You're Sorry eða Af hverju það að vera páfi merkir að þú þurfir aldrei að biðjast afsökunar.
Í greininni er fjallað um ömurlega stöðu Ratzinger páfa sem virðist eiga afar erfitt, svona almennt, að játa mistök og biðjast afsökunar. Það er t.d. tekið dæmi um það að þegar hann var bara aumur kardináli árið 2000 þá var hann beðinn um að skrifta um syndir kaþólsku kirkjunnar hvað varðar hinn illræmda Rannsóknarrétt. Þegar Ratzinger kvaddi sér hljóðs sagði hann: "that even men of the church, in the name of faith and morals, have sometimes used methods not in keeping with the Gospel in the solemn duty of defending the truth" eða "að stundum þyrftu jafnvel kirkjunnar menn, í nafni trúar sinnar og siðferðis, að beita aðferðum sem ekki samræmdust Guðspjallinu til að vinna þá heilögu skyldu sína að verja sannleikann." Svo mörg voru þau iðrunarorðin og er það dagljóst að Ratzinger kardinála, nú Ratzinger páfi, fannst Rannsóknarrétturinn hafa farið fram með eðlilegum hætti í starfsemi sinni. Hann um það, en það kemur líklega ekki á óvart að Ratzinger hafði viðurnefnið Rottweiler Guðs í sinni tíð, svo harðsnúinn þótti hann og harðfylginn. Það var því vel valið þegar Ratzinger var ráðinn til að stýra þeirri stofnun í Páfagarði sem tók við af Rannsóknarréttinum. Það þarf mann með ákveðna gerð innréttingar til að stýra slíkri deild og Ratzinger sýndi vel að hann var réttur maður í því starfi.
Eitt af því sem Ratzinger páfi á erfitt með að horfast í augu við í dag er að þegar hann var erkibiskup í München árið 1980 þá brást hann rangt við í máli níðingsprets sem undir honum þjónaði. Níðingurinn slapp billega meðan fórnarlamb eða lömb hans kvöldust. Svo er auðvitað illæmt bréfið sem hann skrifaði öllum biskupum árið 2001 þar sem hann lagði línurnar varðandi það hvernig ætti að þagga niður níðingsmál innan vébanda kirkjunnar. Ratzinger hefur nefnilega alltaf þótt meira vænt um kirkjuna sína en sauðina sem til hennar teljast, enda er af nógu að taka þar sem 1,1 milljarður manna sauðast þar inni. En bréfið illræmda virðist hafa verið listasmíð því í mars sl. sagði biskup í Brasilíu að mál níðingspresta væru innanhússmál kirkjunnar og ættu ekkert erindi til veraldlegra yfirvalda. Orðrétt sagði hann "að það væri hálf skrýtið ef kirkjan ásakaði einn af sonum sínum." Einmitt, það er hálf skrýtið ef maður er kaþólikki.
Svo er þetta allt mun erfiðara fyrir vikið þegar haft er í huga að páfi á ekki að geta gert mistök. Páfi hefur ávallt verið talinn óskeikull og óbrigðull, en það er öðru nær. Sakaskrá hans er þvílík að hann ætti að vera hokinn af öllum þessum syndum, er það er öðru nær. Rottweilerinn biðst ekki fyrirgefningar, enda hvernig getur óskeikull páfi iðrast? Hver getur veitt honum aflausn synda hans? Í Markúsarguðspjalli segir:
Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.
Markúsarguðspjall, 9:42
Ratzinger páfi er að fullu samsekur þegar hann hefur bæði aðstoðað brotamann með beinum hætti að komast undan réttvísinni og lagt öðrum reglurnar um hvernig þeir geri slíkt hið sama. Hvar er þá mylnusteinninn hans?
Vandi kaþólsku kirkjunnar liggur líklega í bjagaðri sjálfsmynd og uppblásni sjálfsmati. Hún telur sig vera fulltrúa Guðs hér á jörðu og, sem slík, óbrigðul og óskeikul. Páfagarður er sem sagt sendiráðs almáttugs Guðs hér á jörðu og Ratzinger páfi er sendiherrann með allri þeirri friðhelgi sem slíkri vegtyllu fylgir. Og þar er komið svarið við spurningunni sem kastað var fram í upphafi, Ratzinger páfi telur sig yfir slíkt hafinn!
Dramb er falli næst, segir gamalt máltæki, og það sannast hressilega hér.
Sunnudagur, 30. maí 2010
Kaþólska kirkjan er sannarlega EKKI afl til góðs í þessum heimi
Það er auðvelt fyrir meintan skírlífisbiskupinn að lýsa því yfir að stundum verði mæður bara að deyja með ófæddum börnum sínum, enda er hann ekki að tala um sitt eigið líf. Þetta kristallar viðhorf kaþólskunnar til kvenna, en konur eru álitnar það verðlausar innan vébanda hennar að þær geta aldrei vænst þess að fá nokkurn frama í faðmi feitu kirkjunnar. Nei, slíkt er alfarið frátekið fyrir meinta skírlífa kalla.
Ég vek athygli á grein sem ég skrifaði í byrjun nóvember á síðasta ári eftir að hafa horft á kappræður á milli málsvara kaþólsku kirkjunnar annars vegar og andstæðinga hennar hins vegar. Því miður er ekki hægt að finna þessar kappræður í heild sinni á Netinu, eftir því sem ég best fæ séð, en hér og hér er hægt að horfa á snillinginn Stephen Fry. Hann fer þarna prýðilega vel yfir það hvers vegna kaþólska kirkjan er ekki afl til góðs í þessum heimi!
Ég hvet alla sem hafa áhuga á því að kynna sér þetta að lesa greinina og svo þær athugasemdir sem eftir fylgja. Þar má glögglega sjá að kaþólska kirkjan er ekki afl til góðs þrátt fyrir fánýtar tilraunir kaþólskra til að sýna fram á annað.
Hvað varðar fréttina, þá á þessi nunna, sem var bannfærð af kirkjunni, eftir að þakka þetta miskunnarverk fyrr en síðar :)
![]() |
Nunna bannfærð fyrir fóstureyðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 18. maí 2010
Þessar tölur eru marklausar
Það er löngu sannað og viðurkennt að staðtölur um trúfélagaskráningu hérlendis eru marklausar í besta falli og meinlega villandi í því versta. Það er ekki hægt að taka mark á skráningu þar sem ómálga ungabörn eru skráð, óforspurð, í trúfélag móður þar sem þau lafa inni þar til þau gera eitthvað í því sjálf að eigin frumkvæði.
Dagljóst er að þessar tölur litu öðruvísi út ef trúaðir þyrftu sjálfir að ganga frá sínum skráningarmálum sjálfir. Ég fullyrði að þá væru 10-15% skráð í Ríkiskirkjuna skv. opinberum staðtölum. Hins vegar segði það ekki neitt um trúfesti þjóðarinnar almennt því ég er fullviss um að hún er meiri en svo. Hins vegar er hún ekki þessi 78% í Ríkiskirkju og svo öll hin prósentin sem skráð eru í sértrúarsöfnuði á borð við kaþólsku kirkjuna. Mig grunar að það séu um 30% þjóðarinnar sem gætu talist trúuð (eingetnaður, fjöföldun fiska, náungi röltir á vatni, rís upp dauður). Hinum er annað hvort sama eða þá meinilla við trú!
Trúfélagaskráning hérlendis er bara verkfæri til að tryggja fjármögnun fokdýrrar Ríkiskirkju. Þess vegna hefur, hingað til, ekki mátt ljá því máls að gera þessa skráningu frjálsa. Dómsmálaráðherra hefur þó tekið af skarið og lýst því yfir að endurskoða eigi þetta fyrirkomulag.
Ljóst er þó að þetta framfaramál mun verða tafið á öllum stigum og því er mikilvægt að dómsmálaráðherra standi í lappirnar og láti ekki sveigja sig af leið. Það er nefnilega engin knýjandi þörf fyrir því að skrá ómálga hvítvoðunga í trúfélag.
Ekki nema þú hafir fjárhagslegan hag af því fyrirkomulagi!
![]() |
78,8% í þjóðkirkjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 8. maí 2010
Var kaþólska kirkjan bara skattaskjól?

En hver var ástæðan, að mati Jóns Vals? Jú, hún var sú að bændur vildu koma sér undan því að greiða skatta af jörðunum. Má þá ekki segja að þessar meintu 'gjafir' til kirkjunnar hafi ekki verið annað en ólöglegir málamynda gerningar og að kaþólska kirkjan hafi í raun bara verið ómerkilegt skattaskjól? Svona gerningum yrði rift í dag og þeir að engu gerðir
Var kaþólska kirkjan á Íslandi þá bara einhvers konar Tortola síns tíma? Eiginleg aflandseyja í miðju landi þar sem fátækir bændur gátu, á afarkjörum, keypt sér frið frá skattheimtunni? Jón Valur hefur fært sannfærandi rök fyrir því að svo sé! Ekki sel ég það dýrara en ég keypti :)
PS. Fær orðið hvítflibbaglæpur ekki réttu merkingu sína þarna? :)
Föstudagur, 30. apríl 2010
Dauðahryglan

Samtök sem ganga út á mismunun eiga sér engan tilverurétt í siðuðu þjóðfélagi og má einu gilda hvaðan þau telja sig hafa umboð sitt. Það að mismuna fólki á grunni kynhneigðar er villimannslegt og langt frá því sem siðað og gott fólk ætti að sætta sig við og samþykkja.
Öruggt er að afstaða Ríkiskirkjunnar til samkynhneigðar verði til þess að almenningur, hin góða og hófstillta alþýða landsins, endurskoði hug sinn til hennar. Dauðahryglan heyrðist í dag, endalokin eru nærri! Og segja má að það sé nokkuð ljóðrænt að það fólk, hommar og lesbíur, sem kirkjan hefur hvað mesta vanþóknun á skuli verða aflvakinn sem flýtir fyrir endalokum hennar.
![]() |
Tóku ekki afstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 9. febrúar 2010
Á ég að veita barninu mínu trúarlegt uppeldi?
Þessi pistill er skrifaður í kjölfar lesturs greinar á tru.is sem ber sömu yfirskrift. Í greininni, sem er örugglega öll skrifuð í miklum kærleika og af góðum vilja, er talað um gildi trúar og trúarlegs uppeldis á þann hátt að nauðsynlegt er að svara.
Höfundur greinarinnar fer ekki í neinar grafgötur um það að í huga hans er skólinn boðunarstöð kristinnar trúar þegar hann skrifar eftirfarandi:
Skólinn er fræðslustofnun sem er fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning barnanna á kristinni trú jafnt sem öðrum trúarbrögðum og stuðla að umburðarlyndi og víðsýni.
Sem betur fer er meginhlutverk skólans að miðla almennri og vísindalegri þekkingu, en trúaráherslan er þó of rík. Að ætla að skólanum sé fyrst og fremst gert að auka skilning barna á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum er kolrangt og fer langt út fyrir þann ramma sem trúarfræðslu er markaður. Skólinn er veraldleg stofnun og á að starfa sem slík.
Höfundur varpar svo fram annarri fullyrðingu:
Því betur sem börn eru að sér í kristinni trú, því meiri möguleika hafa þau á að bera hana saman við aðrar kenningar og þannig hafna henni eða halda á grundvelli þekkingar. Ef börnin eru ekki alin upp í trú, fara þau á mis við það frelsi sem felst í að geta hafnað trúnni á grunvelli reynslu og þekkingar.
Ef það er raunverulegur vilji höfundar að börn geti borið saman ólíkar trúarstefnur, þá hlýtur hann að ætla það að allar trúarstefnur fái jafn mikið vægi í skólanum. Það er lítið vit í því að kynna kristna trú 90% tímans og allar aðrar 10% tímans og halda að það gefi börnunum málefnalegan grunn til að byggja á þegar þau velta fyrir sér trú. Það er gróf blekking að ætla það að núverandi fyrirkomulag trúfræðslu gefi börnum grunn til að meta ólíkar trúarstefnur á jafnréttisgrunni. Það vita allir sem vilja vita að frá því að frá því að börn eru 5-6 ára er sungið og trallað fyrir þau að "Jesú sé besti vinur barnanna". Eftirfandi vísa er sjaldan kveðin í leik- og grunnskólum landsins:
Múhammeð er besti vinur barnanna,
Múhammeð er besti vinur barnanna.
Alltaf er hann hjá mér,
aldrei fer hann frá mér.
Múhammeð er besti vinur barnanna.
Nei, Jesús er besti vinur barnanna og svo er sagt að börnin eigi að vera hæf til þess að meta hvort Múhammeð geti verið vinur þeirra líka? Að halda því fram að trúfræðsla í íslenskum skólum miði að því að gera börnum kleift að velja og hafna trú er beinlínis rangt. Trúfræðsla í íslenskum skólum er trúboð, ríkisstyrkt og grímulaust trúboð.
Það er margt í þessari grein á tru.is sem er fádæma varasamt, en ég læt nægja að fjalla um þessi tvö atriði. Höfundur gefur sér að það að trúa sé hið eina rétta og það sést gjörla í öllum textanum að eina rétta trúin sé sú kristna. Að lokum spyr ég bara eftirtalinna spurninga varðandi kristna trú þegar hún er boðuð og innrætt í skólum. Er það sú kristna trú ...
- sem segir að við fæðumst bersyndug og endum líklega flest í helvíti?
- sem fullyrðir að örkin hans Nóa hafi verið til?
- sem segir að samkynhneigðir séu annars flokks fólk?
- sem segir að Guð hafi skapað allt sem fyrirfinnst á jörðu?
- sem boðar að heimurinn sé sex þúsund ára gamall?
- sem segir að laugardagur sé hvíldardagurinn?
- sem segir að sunnudagurinn sé hvíldardagurinn?
- sem segir að konan sé óæðri manninum og beri að þekkja sinn stað?
- sem segir að smokkurinn sé vítisvél Satans?
- sem segir að heimurinn muni farast vegna synda mannsins?
- sem segir að bara sumir muni bjargast eftir þær skelfilegu hamfarir?
- sem segir að Gamla og Nýja testimentið séu jafn rétt?
- sem segir að ekkert sé að marka Gamla testamentið og bara sumt í því nýja?
Hvaða útgáfu af kristinni trú er rétt að innræta börnum í skólum? Það er úr svo miklu að velja!
Föstudagur, 25. desember 2009
Barnatrúin fallega
Kirkjan og heimili viðkomandi er nákvæmlega einu staðirnir þar sem svona stúss er við hæfi. Það er gjörsamlega fjarstæðukennt að boða trú í leik- og grunnskólum ef trú á að vera persónuleg. En þetta er langsterkasta leið kirkjunnar til þess að viðhalda tilveru sinni og því sækir hún af krafti í börnin. Ég hef oft spurt, og aldrei fengið nein svör, um hversu mikils virði sú trú er sem innrætt er litlum börnum án þess að þau geti nokkuð haft um hana að segja? Hversu persónuleg er sú trú?
Í mínum huga er þessi trú hin sk. 'barnatrú', sem að mínu mati er aumasta birtingarmynd trúarinnar. Að trúa á eitthvað vegna þess að einhver hafði það fyrir þér þegar þú varst óviti? Við fyrstu skoðun virðist það vera nokkuð sem kirkjan ætti alls ekki að geta sætt sig við, en það er öðru nær. 'Barnatrúin' virðist bara vera besta leið kirkjunnar til að viðhalda ört smækkandi hópi sauða sinna og tilgangurinn helgar meðalið. Því er róið af festu í barnaskarann og spilað og trallað að Jesú sé besti vinur barnanna. Markhópurinn er 5-6 ára börn sem er uppálagt að trúa öllu sem fullorðna fólkið segir þeim. Þetta er sko trúboð í lagi.
Hvað er betra fyrir kirkjuna en heilu árgangar barna sem komast til manns og finnst sem þau verði að trúa á boðskap hennar? Vita ekki nákvæmlega af hverju þau trúa eða hverju þau trúa, en þeim finnst þau trúa einhverju. Þetta fólk segir aðspurt "að það eigi sína 'barnatrú'", sem er alltaf skýrt merki þess að innrætingin í æsku heldur dyggilega langt fram á fullorðinsárin.
Trúaðir virðast ekki hafa meiri trú á sinni trú en svo að þeir telji að enginn muni leita eftir henni ef hún er ekki innprentuð í sinni viðkomandi í blautri barnæsku. Að enginn muni, á fullorðins árum, finna raunverulega þrá til að leita eftir guði sínum, hver svo sem hann síðan er, án þess að hafa verið 'forritaður' í æsku. Nei, í hugum trúaðra virðist þetta vera nær útilokað og því þarf að þarf að kasta út veiðarfærunum í leik- og grunnskólum.
Ef kirkjan sættir sig við slíkan grundvöll fyrir sína trú, þá er lítið í hennar tilveru varið.
PS. Ég skora á alla þá sem þetta lesa og segjast eiga sína 'barnatrú' að taka sér nokkrar mínútur í að íhuga hvers vegna hún er til staðar. Íhuga hvort viðkomandi hafi einhvern tíma leitað sjálfur eftir henni eða hvort henni hafi verið komið fyrir af öðrum. Ef viðkomandi man ekki eftir öðru ástandi en því að eiga sína 'barnatrú', þá er hún líklega tilkomin vegna markvissrar og snjallrar íhlutunar kirkjunnar og þá hefur viðkomandi líklega aldrei tekið upplýsta afstöðu fyrir sjálfan sig í þessum efnum. Það þarf ekki margar mínútur til þess að hyggja að þessu, en þær geta leitt magnaðan sannleika í ljós.
Hægt er að styðjast við eftirfarandi spurningalista:
- Hef ég átt mína 'barnatrú' frá því ég man eftir mér?
- Ef svo er, var ég sjálf(ur) leitandi í minni trú eða bara ég bara óviti í leikskóla sem fékk heimsókn frá presti?
Þessi spurningalisti er í þróun og verður vonandi birtur aftur eftir endurskoðun.
![]() |
Má bara rifja upp sögu Jesú og Maríu í kirkjum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 15. desember 2009
Aðskiljum skóla og kirkju
Það er vert að vekja athygli á góðri grein á visir.is, en hún hefur yfirskriftina Aðskilnaðarstefnan í skólum. Þar fara höfundar yfir það hvernig skólinn brýtur, í ákveðnum tilfellum, á mannréttindum skjólstæðinga sinna með grófum hætti þegar ákveðin börn eru tekin frá skólafélögum sínum og sett afsíðis þegar hjólað er í trúmálin á skólatíma.
Ég hef áður sagt að það er ekkert í skólastarfinu sem virkar sundrandi nema trúin. Það þarf enginn nemandi að fara afsíðis þegar stærðfræði, lestur eða skrift eru kennd. Stöku nemandi þarf reyndar að fá frí í leikfimi, en það á sér iðulega eðlilegar skýringar og þær allar afar veraldlegar. En þegar trúin er sett á dagskrá myndast gjá á milli þeirra barna sem sett eru út í horn, oft börn innflytjenda sem síst mega við því, og hinna sem eftir sitja.
Lausnin er afar einföld: skólastarf á að vera veraldlega grundvallað. Það á ekki ekki að fara með krakkana í messu og presturinn á ekki að heimsækja skólann til að spila og tralla. Það á að kenna trúarbragðafræði, en kristinfræðin er afleit tímaskekkja. Fermingarfræðslan og kynning á henni eiga ekki að vera á skólatíma, enda kemur hún skólanum ekkert við.
Trúarlegt uppeldi á ekkert erindi í skólana. Trúuðum foreldrum ætti að vera það mikið gleði- og ánægjuefni að sjá sjálfir um þennan þátt í uppeldinu. Það hefur hver sína nálgun að trúnni og þannig getur skólinn í raun ekki sinnt þessu fyrir fjöldann. Sumir trúa því að jörðin sé sex þúsund ára gömul meðan aðrir taka það ekki eins hátíðlega. Sumir trúa því að Jesús Jósepsson hafi verið eingetinn meðan aðrir telja það hálfgerða tröllasögu. Sumir trúa því að Nói hafi siglt um í örkinni sinni forðum daga meðan jörðin var hvítþvegin af synd með miklu flóði á meðan aðrir eru ekki eins sannfærðir um það :) Á þessu sést að skólinn getur einfaldlega ekki sinnt þessu hlutverki burtséð frá því hvort hann svo eigi að sinna því.
Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er hávær í þjóðfélaginu í dag og ekki að ósekju. Ég legg til að við byrjum á smærra skrefi; að aðskilja skóla og kirkju, börnunum okkar til heilla!
Sunnudagur, 13. desember 2009
Tæplega 97% hafna Kristilega þjóðarflokknum skv. könnun
Í nokkrar vikur hef ég kannað hug þjóðarinnar til væntanlegs framboðs Kristilega þjóðarflokksins og eru niðurstöðurnar þær að 96,5% þjóðarinnar telja ekki þörf á framlagi þessa flokks í stjórnmálaflóru hérlendis á meðan 3,5% telja að hann eigi erindi við þjóðina.
Þetta eru býsna magnaðar niðurstöður því forsvarsmenn Kristilega þjóðarflokksins hafa sagt mikla þörf fyrir flokkinn meðal þjóðarinnar, en skv. þessu bíður hún ekki beinlínis með öndina í hálsinum :)
Miðvikudagur, 9. september 2009
Nú tapaði Ríkiskirkjan sál ... og nokkur þúsund krónum!
Ég fékk ánægjulegt símtal áðan. Ónefndur vinur og kammerat til margra ára tilkynnti mér að hann hefði gert sér ferð og sagt sig úr Ríkiskirkjunni. Þessar fréttir komu mér þægilega á óvart og gerðu góðan dag enn betri. Við ræddum þessi mál um stund og vorum báðir sammála um að þessi ríkisforsjá í trúmálum væri ólíðandi þegar kemur að sjálfvirkri skráningu hvítvoðunga í trúfélag móður og að vonandi myndu verða breytingar á þeirri óhelgu venju bráðlega.
Það kætti félaga minn enn meira að hafa gert þetta á þessum degi, 09.09.09, því ef þessari dagsetningu er snúið á haus kemur beint símanúmer Satans í ljós, 666.
Hið sorglega í málinu, hins vegar, er að margt fólk er í sömu sporum og þessi félagi minn var ... að vera skráð í trúfélag sem því er í besta falla sama um og í versta falli illa við. Það fólk ætti nú að bregðast við á þessum degi símanúmers Satans og ná í eyðublað á vef Hagstofunnar og skakka þennan ljóta leik. Það er einfalt og auðvelt að fylla þetta út og ef niðurstaðan er sú að viðkomandi skráir sig utan trúfélags þá getur hann verið ánægður með að trúfélagstíund hans rennur eftirleiðis til Háskóla Íslands þar sem honum er betur varið.
Í dag eru fréttir af svona dáð að verða æ algengari og er það vel. Það er illt að fjöldi fólks skuli sætta sig við að sitja á þeim bekk sem þeim var skikkaður þegar það fæddist. Ef fólk trúir, þá á það að vera skráð í trúfélag ... við hin eigum ekki að þurfa að sætta okkur við það!