Réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu

UndirskriftalistarÍ dag er vík á milli stjórnvalda og þjóðar. Hluti þjóðarinnar vill breytingar og aðgerðir, en stjórnvöld skella við skollaeyrum og hundsa háværar raddir fólksins. Þetta er hægt að laga ef fólkið hefur rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu ef lágmarks stuðningur fæst, t.d. með undirskriftum 1/4 eða 1/3 einstaklinga á kjörskrá. Ef lágmarks stuðningur fæst er boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers niðurstaða væri bindandi fyrir viðkomandi mál.

Þessi ráðstöfun gæti verið góður varnagli ef þjóð og ríkisstjórn stíga ekki í takt. Með þessu fyrirkomulagi fengist raunverulegt lýðræði þar sem þjóðin gæti tekið málin í sínar hendur ef hún telur stjórnvöld hafa leiðst út á villigötur. Auðvitað þyrfti að innbyggja í svona ferli ákveðnar leikreglur til þess að fyrirbyggja misnotkun. Þetta myndi byggja undir virkt lýðræði alla daga ársins í stað þess að það sé bara virkt á fjögurra ára fresti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Í Danmörku hefur stjórnarandstaðan sterkan möguleika, þar þarf aðeins 1/3 þingmanna til að knýja fram þjóðaratkvæði.

Skrifaði einmitt færslu um þjóðaratkvæði í morgun.

Haraldur Hansson, 17.12.2008 kl. 16:48

2 Smámynd: Sigurbjörg

Það er meira en vík á milli þjóðar og ríkisstjórnar, það er heilt úthaf á milli.  En kanski er það rétt að þeir taki mark á undirskriftarlistum. Margt furðulegra hefur gerst.

Sigurbjörg, 17.12.2008 kl. 21:15

3 identicon

Hvernig væri bara að takmarka völd stjórnmálamanna og vera svo ekki með nefið endalaust ofan í nágrönnum okkar. Ég vil ekki þurfa að taka afstöðu til hinna og þessara mála allt árið í kring, nóg annað hef ég að gera svo ég vil bara fá að lifa mínu lífi án afskipt frá fólki sem ég ekki þekki og ekki vil þekkja.

Er til of mikils mælst að biðja fólk að hætta að skipta sér af öðrum og snúa sér að því að auðga sitt eigið líf? Þarf alltaf að vera með krumlurnar í vösum manns til að fjármagna hugmyndir annarra um gott líf? 

Ég legg til að við skilgreinum grundvallaréttindi mjög þröngt í stjórnarskránni og stjórnmálamönnum verði þannig sniðinn þröngur stakkur til að setja lög um hitt og þetta.

Rosalega er maður uppbyggjandi fyrir jólin :)

Vilhjálmur Andri Kjartansson 18.12.2008 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband