Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Geir eignar sér það góða, en slær striki yfir það vonda!

Geir HaardeEftirfarandi er hluti ræðu Geirs H. Haarde sem hann flutti á 37. landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2007. Hægt er að skoða ræðuna í heild sinni hér, en áhugavert er að sjá í þessum kafla hvernig Geir eignar sér fyrirvaralaust allt það sem vel hefur gengið hérlendis fram að þessum tíma. Engir fyrirvarar eru settir, engir varnaglar slegnir. Allt er Sjálfstæðisflokknum, undir styrkri og fumlausri forystu Geirs, að þakka. Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Geirs, stóð einn aukningu í velmegun hérlendis:

Síðustu sextán ár undir nær samfelldri stjórnarforystu okkar sjálfstæðismanna hafa verið þjóðinni farsæl. Við höfum náð að styrkja efnahagslegu stöðu þjóðarinnar með þeim hætti að aðdáun hefurvakið víða um heim. Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist um 60% frá árinu 1995 og á sama tíma hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður þannig að hann má heita skuldlaus. Vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru ekki lengur að sliga skattgreiðendur þessa lands. Af þessari kaupmáttaraukningu hafa tæp 20% komið til á yfirstandandi kjörtímabili.

Áherslur okkar sjálfstæðismanna á aukið viðskiptafrelsi, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir hafa gerbreytt efnahagslífinu til hins betra. Atvinnuleysi, sem er landlægt böl í mörgum nágrannalöndum, er sem betur fer víðs fjarri okkur.

Það gengur vel í atvinnulífinu. Hefðbundnir atvinnuvegir, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, halda áfram að þróast og taka breytingum við hlið nýrra greina og eru mikilvæg undirstaða byggðar um land allt.

Útrás íslenskra fyrirtækja hefur bæði skapað ungu fólki ný og spennandi atvinnutækifæri og verðmæta reynslu en einnig fært þjóðarbúinu nýjar tekjur úr ýmsum áttum. Lífskjörin í landinu hafa stórbatnað og mun meira en í nálægum löndum. Það er meira til skiptanna en áður fyrir alla.

Aukið frelsi á öllum sviðum hefur gert mannlífið í landinu fjölbreyttara og það er eftirsóknarverðara en áður að búa á Íslandi. Óvíða er betra að ala upp börn en hér á landi og víða um land er aðstaða foreldra og fjölskyldna til sérstakrar fyrirmyndar. Íslendingum fjölgar hratt, fæðingartíðni er hærri en í flestum sambærilegum löndum. Nýja fæðingarorlofskerfið er að skila sínu.

[...]

Staða okkar í alþjóðasamfélaginu hefur styrkst og Íslendingar njóta virðingar á alþjóðavettvangi. Við höfum náð að vinna farsællega úr gjörbreyttri stöðu eftir að bandaríska varnarliðið hvarf úr landi. Á Keflavíkurflugvelli bíða ótal möguleikar úrvinnslu á vegum hins nýjar þróunarfélags sem þar er að störfum.

Frelsi var leiðarljós þeirra breytinga sem innleiddar voru á tíunda áratugnum undir forystu okkar flokks. Þá var verið að brjótast úr viðjum fortíðar og innleiða stjórnunarhætti nútímans í efnahags- og stjórnmálum. Það hefur gefið þá góðu raun sem við vissum fyrir.

Krafturinn í íslensku samfélagi á sér engin takmörk. Ísland er orðið það sem við sjálfstæðismenn lofuðum - land tækifæranna. 

Þá er áhugavert að sjá ályktun um efnahags- og skattamál sem samþykkt var á þessum fundi, en þar er 'ábyrgð' Sjálfstæðisflokksins á stöðu efnahagsmála hérlendis áréttuð.

Íslenskt efnahagslíf hefur blómstrað á undanförnum árum undir styrkri forystu sjálfstæðismanna. Frá árinu 1996 hefur hagvöxtur verið um 4,5% á ári að meðaltali og landsframleiðslan hefur aukist um helming á þessum tíma.

Afar lítið var gert úr áhrifum ytri aðstæðna í þessum efnum. Þau virtust aldrei vigta neitt sérlega mikið og bliknuðu eiginlega í samanburði við stjórnvísi Sjálfstæðismanna með Geir í fararbroddi.

Geir er alveg til í að eigna sér heiðurinn af því sem mestmegnis var skapað hér heima í gegnum stjóriðjuvæðingu og almenna þenslu á heimsvísu í fjármálakerfi heimsins. Geir telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi, undir hans stjórn, gert allt ofangreint að veruleika.

Hvers vegna getur hann þá ekki gengist við því að þessar sömu aðgerðir hafi máské leitt þjóðina í glötun? Er minni hans virkilega svo valkvæmt að hann sjái þetta ekki? Er hann virkilega eins og efnahagslegur gullfiskur, hvers minni núllstillist á nokkurra sekúndna fresti? Það getur reyndar ekki verið því nógu lengi barði hann sér á brjóst og eignaði sér allt þegar vel gekk.

En það var auðvitað þá :)


Rannsóknir á stofnfrumum

StofnfrumaÉg vona að þetta mikla framfaramál verði sett aftur á dagskrá í Bandaríkjunum með hraði. Fjöldi fólks sem glímir við alvarleg veikindi hefur í fá önnur hús að venda og því er nauðsynlegt að rannsóknum á stofnfrumum verði hraðað eins mikið og hægt er.

Þá er ekki verið að tala um að vísindamenn hafi ótakmarkað leyfi til þess að rækta stofnfrumur, enda verður að umgangast þær með tilhlýðilegri virðingu. Þannig þarf að setja þessu sviði skorður, lagalegar og siðferðilegar. En hvernig sem allt veltur, þá þarf fyrst og fremst að huga að rétti þeirra sem nú lifa og ekki síst þeirra sem eiga eftir að fæðast og verða hrjáðir af þessum sjúkdómum! Ef það er hægt að lina þjáningar og bæta líf þeirra sem þjást af illvígum sjúkdómum, þá ber okkur að leita allra leiða til þess.

Auðvitað eru aðrar leiðir færar í meðferð og meðhöndlun á illvígum sjúkdómum á borð við Parkinson's, en rannsóknir á stofnfrumum eru taldar vera ein þeirra sem geta skilað skjótustum árangri.

Hvað varðar þann klofning sem kaþólskir biskupar vara við, þá er dagljóst af þessari frétt að dæma að þeir eru sjálfir þrælsekir um að ala á þessum klofningi sjálfir. Þeir ættu að reyna að láta af blygðunarlausri stjórnsemi sinni gagnvart öðrum og gefa okkur hinum frí ... svona einu sinni.

Að lokum hver ég lesendur til þess að líta á myndbandið hér að neðan. Þar er að finna viðtal sem Katie Couric tók við Michael J. Fox, en hann er illa haldinn af Parkinson's. Það er ekki hægt að horfa á þetta án þess að vera forviða vegna þeirrar forpokuðu andstöðu við rannsóknir á stofnfrumum sem hægt er að finna víða.

YouTube: Myndband með Michael J. Fox og Katie Couric


mbl.is Stofnfrumur aftur í umræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum einstaklinga, ekki lista!

SkjaldarmerkiUm nokkurt skeið hef ég velt því fyrir mér hvernig hægt sé að gera lýðræði beinna og skilvirkara hérlendis. Í mínum huga er ein leið best - að kjósa einstaklinga, ekki lista. Flokkar munu áfram velja fólk á lista sína með þeim aðferðum sem þeir kjósa, með uppstillingu eða prófkjöri, og þeir listar rata á kjörseðla. Hins vegar munu kjósendur merkja beint við nöfn þeirra frambjóðenda sem þeir telja hæfasta hverju sinni af einum eða fleiri listum. Þeir geta því kosið fólk af mörgum listum, hæfa einstaklinga sem þeir telja að geta gert gagn á Alþingi, óháð tengslum við stjórnmálaflokka.

Ég sé það fyrir mér að með þessu fyrirkomulagi geti kjósendur valið sér þann meirihluta sem þeir telja heppilegastan, en um leið geti þeir valið þann minnihluta sem þeir telji að muni veita meirahlutanum best aðhald. Í mínum huga er listakosning sambærileg við að fá dós af Quality Street súkkulaðikonfekti. Það eru nokkrir góðir molar í dósinni, en mest er þó um mola sem manni er sama um. Svo eru alltaf molarnir sem enginn vill og ganga aldrei út, sama hversu lengi dósin er á borðinu. Þannig verður maður að taka það slæma með því góða, en sumt af þessu slæma er bara svo virkilega slæmt.

Þetta kerfi þyrfti að útfæra betur, en helsta spurningin er sú hvort það eigi að vera einn atkvæðaseðill á landsvísu eða sér seðill í hverju kjördæmi. Persónulega líst mér betur á að einn atkvæðaseðill gildi fyrir landið, enda eiga þingmenn að starfa fyrir landið í heild sinni og því má segja að það sé óeðlilegt að þeir sé kosnir í kjördæmum. Það fyrirkomulag gerir það að verkum að þingmenn þurfa frekar að hygla sínu kjördæmi umfram önnur, en það býður heim hættunni á hrossakaupum og eiginhagsmunahyggju.

Í flestum flokkum er gott fólk sem mér hugnast að hafa á þingi, en að sama skapi er í öllum flokkum fólk sem ég vil ekki sjá á þingi undir neinum kringumstæðum. Sem barnfæddur Sjálfstæðismaður vil ég geta kosið flokkinn minn, en ef ekki verða róttækar breytingar á því framboði fólks sem á honum verður, þá sé ég það ekki ganga eftir. Með því að velja einstaklinga get ég valið það Sjálfstæðisfólk sem ég ber traust til og hafnað hinum. Þá vil ég einnig velja allt það frambærilega fólk sem er að finna í hinum flokkunum, annars vegar til þess að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og hins vegar til að vera í þróttmikilli stjórnarandstöðu.

Nú spyrja flokksjálkarnir af hverju þeir geti ekki bara kosið listann sinn áfram; allar breytingar séu, jú, ekki nema til ills. Ég bendi þeim á að þeir geta eftir sem áður kosið listann sinn með því að merkja bara við fólk á þeim lista. Það er minnsta málið. Hins vegar er það afar sorglegt ef fólk er það fast í farinu að það sjái ekki einn eða tvö góða kosti á öðrum listum. En þannig er lífið.

Enn ein rökin fyrir því að hafa þetta fyrirkomulag og einn lista á landsvísu er jöfnun vægis kjósenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að atkvæði kjósenda á landsbyggðinni skuli hafa meira vægi en atkvæða okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Reglan á að vera einn kjósandi, eitt atkvæði.

Hvað á svo að velja mörg nöfn? Ég get ekki sagt til um það, en að mínu mati eiga þau að vera á milli 20 og 40 talsins. Það er þó það atriði sem erfiðast yrði að útfæra.

Hugsanlega getur þetta kerfi leitt til þess að hlutur kvenna færi minnkandi um stund, enda eru íslenskar þingkonur almennt hlédrægari en starfsbræður þeirra. Mér er sagt að þær séu almennt betri til vinnu á þingi en karlar, en það vegur ekki þungt ef enginn veit af því. Á því verður að taka.

Það verður magnað að geta kosið Pétur Blöndal, Steingrím J., Helga Hjörvar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur, Össur Skarphéðinsson, Bjarna Benediktsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmund Jónasson.

Ég sleppi Framsókn.


Varnarlaus?

VarnarlausIngibjörg Sólrún, varnarmálaráðherra, greindi nýverið frá því að hugsanlega verði loftrýmisvörn Breta í desember afþökkuð. Með þessu verður vonandi gert langt hlé á einni hlægilegustu og fáránlegustu ráðstöfun í sögu íslenska lýðveldisins, þ.e. að fá útlenda dáta til að verja okkur endrum og sinnum og auglýsa svo hvenær það er gert. Ergo, óvinir Íslands vita þannig hvenær við erum varin og hvenær ekki. Það er snjallt. Ofursnjallt, jafnvel!

Hér er lítið dæmi til að lýsa þessu fyrir þá sem ekki skilja málið alveg. Ísland kaupir loftrýmisgæslu af t.d. Bretum í desember. Í nóvember og janúar nýtur þessarar gæslu ekki við. Ef ég er óvinur Íslands, hvenær vel ég að ráðast á landið?

  • í nóvember
  • í desember
  • í janúar
  • Ísland á engan óvini

Svari hver fyrir sig!

Ég vorkenni því fólki sem er svo vænibrjálað að það sér hættu á báða bóga. Fjendur í hverjum skugga. Launráð við hvert fótmál. Það fólk vill hervæðingu, hervæðingarinnar vegna. Vopnvæðingu, vopnvæðingarinnar vegna. Glórulausa eyðslu í hernaðarbrölt ... af því að það er svo svalt?

Sem betur fer virðist skynsemin þó ætla að ráða.


Gjöreyðingarvopnið Sarah Palin

Sarah PalinÞað er ekki annað hægt en að hafa gaman af vandræðum John McCain í tengslum við Sarah Palin. Nú þykist ég vita að kallinn dauðsjái eftir þessu gönuhlaupi, enda hefur Sarah Palin ekki fært honum neitt nema hörmungar. Það sést best á því að opinberir stuðningsmenn Palin í byrjun hafa fyrir löngu síðan þagnað og dregið sig í hlé, enda hljóta þeir manna best að sjá hversu mikið skaðræði hún hefur reynst. Getur verið að lýsingin flagð undir fögru skinni eigi vel við hér? :)

Hið eina ógnvænlega í stöðunni er að nú er hún þekkt á landsvísu í BNA og höfðar 100% til öfgatrúaðra þar á bæ sem munu kjósa hana hvað sem á dynur. Því hafa stjórnmálaskýrendur ytra gert því skóna að hún sé svo uppfull af ranghugmyndum um sjálfa sig, vægi sitt og ágæti að hún sé nú þegar búin að ákveða framboð eftir fjögur ár. Hún hefur líklega verið búin að ákveða þetta fyrir löngu síðan, því hún hefur stundum talað um framboðið sem 'Palin-McCain' framboðið, þ.e. sett sjálfa sig í bílstjórasætið.

Sarah Palin er líklega eitt það versta sem hent getur Bandaríkin og heiminn í heild sinni. Öfgakenndar skoðanir hennar í aðra röndina og skelfileg fáfræði í hina ættu að hringja einhverjum bjöllum. Palin, Biblían og kjarnorkuhnappurinn? Það er þrenning sem ég vil ekki sjá. Ég vona því að hún sjái að sér og láti sér nægja að vera fylkisstjóri í Alaska :) En mig grunar að skyttan frá Wasilla, sem eltir úlfana uppi í þyrlu og murkar úr þeim lífið, muni ekki taka neinum sönsum. Godzilla frá Wasilla mun fara sínu fram, enda veit hún sjálf að enginn í þessum heimi er betri til að leiða Bandaríkin. Það sem hún veit ekki er að hún er ein um þá skoðun!

Mun Guð hjálpa oss öllum ef það gerist? :)


mbl.is Palin veldur spennu í búðum McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor er meiri óreiðumaður?

SkuldirNú er talað mikið um óreiðumenn og það er hart ráðist að útrásarmönnum sem áður voru almennt vegsamaðir. Egill Helgason gerði áðan harða atlögu að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem, einn þessara útrásarmanna, hafði manndóm í sér til þess að mæta í sjónvarpsþátt og skýra mál sitt. Aðrir í þeim klúbbi létu ekki sjá sig.

Almennt virðist mál manna að staðan í dag geti alfarið skrifast á útrásarmennina, þessa djöfla í mannsmynd sem engu eira sem á vegi þeirra verður. Davíð Oddsson kallaði þá óreiðumenn um daginn og sagði að íslenska þjóðin ætti ekki að taka til eftir slíka menn. En þá kemur spurningin sem hefur leitað á mig undanfarið ... hvor er meiri óreiðumaður, sá sem fyllir út í opinn víxil eða sá sem gefur hann út?

Davíð Oddsson er yfirhönnuður þessa kerfis sem við búum við í dag. Hann hefur lengst allra setið í stóli forsætisráðherra og deilt þar og drottnað með harðri hendi. Hans vilji var algjör og þeir sem ekki voru honum sammála viku úr vegi (Þjóðhagsstofnun?). Þannig er ljóst að Davíð gerir ekkert sem er honum á móti skapi. Þegar hann lét af störfum sem forsætisráðherra hvarf hann til starfa í Seðlabankanum þar sem hann hélt áfram um þá þræði sem hann vildi. Nær viðstöðulaust tók við af honum fjármálaráðherra til margra ára, Geir Haarde, og hagaði störfum sínum sem forsætisráðherra þannig að ekki er hægt að merkja af þeim að hann teldi neina vá við sjóndeildarhringinn.

Reyndin er sú að þessir menn sköpuðu það umhverfi sem útrásarmennirnir hrærðust í. Davíð og Geir hafa verið fyllilega meðvitaðir um ábyrgðir íslenska ríkisins vegna bankanna í mörg ár, en hafa kosið að gera ekkert í málunum. Þeir gáfu út víxilinn, óútfylltan.

Í gær, laugardag, kom Geir fram í sjónvarpinu og sagði frá því með mærðarlegum svip að konu hans hefði borist ávaxtakarfa með eftirfarandi skilaboðum:

Takk fyrir að lána okkur hann Geir.

Svo kímdi Geir og þótti þetta augsýnilega afar 'kjút'. En er ekki rétt að spyrja hvort þjóðin geti verið jafn þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum verið með Geir að láni þar sem hann gerði ekki neitt? Vorum við ekki þannig líka með Davíð að láni meðan hann gerði ekki neitt? Þeir gáfu víxilinn út án þess að fylla inn í upphæðina og þeir brugðust ekki við þegar útrásarmennirnir skrifuðu sífellt inn hærri og hærri upphæðir. Þeir geta ekki borið við skorti á upplýsingum því fjöldi fólksNú þykjast þeir vera að taka til í stöðunni og telja sig vera að þjóna almenningi á Íslandi vel í störfum sínum.

Í mínum huga líki ég stöðunni frekar við þátt í þáttaröðinni CSI: Iceland þar sem hinir grunuðu eru fengnir til þess að taka til á vettvangi eigin glæps. Meðan á tiltektinni stendur geta þeir beint sjónum almennings að öllum öðrum en sjálfum sér.

Þrjár spurningar í lokin:

1/ Höfðu Davíð og Geir aldrei heyrt um þau gömlu sannindi að ekki eigi að skrifa upp á hærri skuldbindingar en þær sem viðkomandi hefur efni á?

2/ Hvor er meiri óreiðumaður:

  • sá sem tók við óútfyllta víxlinum
  • sá sem gaf út óútfyllta víxilinn

3/ Hvor klúðraði málum meira:

  • sá sem sótti fram
  • sá sem átti að standa vörð 

Í mínum huga eru svörin við þessum spurningum augljós.

PS. Ef við erum með Geir að láni ... getum við þá ekki bara skilað honum?

PSS. Erum við með Davíð að láni? Er hægt að skila honum? 

PSSS. Rétt er að það komi fram að ég starfa hjá Hagkaupi sem er í eigu Haga sem er í eigu Gaums sem er, að hluta til, í eigu Jóns Ásgeirs (held ég). Ég hef aldrei hitt Jón Ásgeir og hef engin tengsl við hann utan þessara.


Árás á Ísland afstýrt ... til 20. september!

Innrás 2008Ég svaf svo vært í nótt.

Allt frá því að Frakkarnir hættu að fljúga yfir landinu hef ég verið viti mínu fjær af ótta yfir því að nú gæti einhver ráðist á landið mitt. Nú væri landið öllum opið.

En ég svaf vært í nótt.

Um allan heim brugga vondir menn Íslandi launráð. Þeir sitja um landið og sæta færis að ráðast hér inn með offorsi við fyrsta tækifæri. En ekki núna.

Nú sef ég rótt.

Því nú gæta mín Bandaríkjamenn sem fljúga linnulítið yfir landið, rétt eins og Frakkarnir hér í denn. Æ, hvað ég var öruggur þá. Næstum eins öruggur og núna. Ég hreinlega elska Kanana og loftrýmisgæsluna þeirra.

Og nú sef ég vært.

En nú fer að naga mig, nístandi kvíðinn! Verður ráðist á okkur 21. september? Eða kannski 22. september? Eða bíða óvinir Íslands til 25. september? Óvissan er þrúgandi!!!

Því Kaninn fer 20. september!!!

Hvað verður um litlu okkur, alein úti í ballarhafi? Berskjölduð gegn árásum, aumingja litlu við. Væri kannski gott að eiga svolítið af klasasprengjum núna? Eða S-400 loftvarnaflaugum? Stinger-flugskeyti? Gripen orrustuþotur? Þrjú þúsund manna þungvopnað herlið?

Væri það ekki 'kúl'?

PS. Ég velti því fyrir mér, svona út frá herfræðilegum sjónarhóli, hvort það sé alltaf snjallt að gefa út fréttatilkynningar þegar landið er varið og tilgreina hvenær við erum óvarin. Er það ráðlegt að gefa óvinum okkar upp nákvæmlega hvenær við erum veik fyrir og hvenær ekki? Kannski á þetta bara að pirra þá? Við erum varin í júní og fram í miðjan júlí og svo aftur í september. Þeir hugsa auðvitað með sér, allir óvinir Íslands;

Við getum ekki ráðist á Ísland frá miðjum júlí og fram í lok ágúst því Bandaríkjamenn koma í september og reka okkur í burtu aftur. Nei, við skulum bara láta þetta eiga sig og ráðast á einhvern annan í staðinn.

Er þetta máské kjarninn í þessari 'snjöllu' varnaráætlun? Að láta líta út eins og við séum með svo heimskulega varnaráætlun að óvinir okkar telji að hún hljóti að vera snjallasta og besta varnaráætlun í heimi. Máské?

En nú sef ég vært ... til 20. september!


Lausn fundin á risavöxnu umhverfisvandamáli?

PlastpokarÁ vefnum wired.com er að finna áhugaverða frétt um sextán ára kanadískan vísindamann sem vann mikið afrek á dögunum. Venjulegir innkaupapokar úr plasti eru mikið skaðræði í umhverfinu, enda  tekur það náttúruna afar langan tíma að brjóta þá niður, jafnvel þúsundir ára. Daniel Burd hafði lengi velt þessu fyrir sér og þóttist viss um að það væru bakteríur sem ynnu á plastinu, jafnvel þótt það tæki svo langan tíma. Hann gerði því röð tilrauna þar sem hann gróf tætta plastpoka í ólíkum gerðum jarðvegs íblönduðum geri og vættum með venjulegu kranavatni. Með þessu gat hann einangrað tvær gerðir baktería sem voru einstaklega áfjáðar í að japla á plastinu.

Burd fann út að við ákjósanlegar kringumstæður hakka þessar bakteríur plastið í sig á þremur mánuðum í stað þúsunda ára. Úrgangurinn verður vatn og örlítið kolefni. Vísindamaðurinn ungi fullyrðir að einfalt sé að útbúa afkastamikla 'akra' þar sem plast er grafið í hentugan svörð svo það geti horfið á þremur mánuðum. Ég hvet forráðamenn Sorpu til þess að kynna sér þetta mál og gera tilraunir með þetta hér heima. Þetta gæti verið áhugavert samstarfsverkefni með einhverjum háskólanna.

Innkaupapokar eru afar fjandsamlegir umhverfinu, en líklega hagkvæmasta lausnin á því vandamáli sem þeim er ætlað að leysa, þ.e.a.s. fyrir utan endurnýtanlega taupoka. Ég heyrði í þætti á BBC World Service um daginn að nú ætti að banna þá alfarið í Úganda, en þar er akurlendi víða orðið ónothæft vegna mikillar plastmengunar. Undir þunnri moldarhulu er þykkt lag af plasti sem einangrar jarðveginn frá súrefni, regni og ljúfu faðmlagi sólar. Nokkur önnur lönd eru að feta þennan sama veg og er þess skemmst að minnast að Kína hefur nú bannað að plastpokar séu ókeypis í verslunum. Fyrir utan umhverfismengun sem hlýst af pokunum sjálfum fara 37 milljón olíutunnur árlega í framleiðslu innkaupapoka fyrir kínverskan markað.

Plast er líka löngu orðið stórt vandamál í hafsvæðum jarðar. Dæmi um þetta er Kyrrahafssorpeyjan, en hún er að mestu leyti úr plastúrgangi sem hefur safnast fyrir í miðju Kyrrahafinu eftir að hafa borist þangað með hafstraumum. Menn greinir á um stærð hennar, en að lágmarki er hún tvöfalt stærri en Texas-fylki sem er sjöfalt stærra en Ísland! Þessi sorpfláki eru orðinn svo stór að mannkyn hefur ekki efni á því að taka á vandanum, enda verkefni af óþekktri stærðargráðu að ná í sorpið og koma því fyrir kattarnef. Áætlað er að þessi sorpeyja muni stækka veldislægt á næstu árum. Óljóst er hvaða áhrif hún hefur á umhverfið, en það eitt að hún varnar sólinni að lýsa upp gríðarlega stóran hafflöt er mál sem krefst rannsóknar. Við, sem neytendur, getum gert tvennt til að vinna gegn þessu vandamáli; minnkað plastnotkun og komið því plasti sem við notum fyrir kattarnef.

Vísindamaðurinn ungi fékk fjölda verðlauna fyrir uppgötvun sína og er vel að þeim kominn. Hann er skýrt dæmi þess að það er hægt að leggja mikið til umhverfisins og ekki þarf endilega til þess mikið fjármagn eða dýra aðstöðu. Það sem mestu máli skiptir er einbeittur hugur og góður vilji til verka!


Sígarettuframleiðendur fjarlægja skaðleg efni úr sígarettum!

Ljúffeng, góð og meinholl sígaretta!Auðvitað ekki? :) Þetta er samt flott fyrirsögn!

Meðan það er leyfilegt að flytja inn og selja sígaréttur eru svona fréttir í besta falli hlægilegar og í versta falli sorglegar. Ég man t.d. eftir því þegar gamla brennið Victory-V var tekið úr sölu hér í gamla daga, en sú ráðstöfun var gerð í óþökk minnar og Björgvins mjólkurfræðings í Osta- og smjörsölunni, en báðir vorum við eldheitir unnendur brennisins. "Fáðu þér brenni, knægt!", hætti að hljóma bræðslunni og í staðinn norpuðum við hér á skerinu án hins bráðdrepandi brennis, en sem betur fer gat ég stytt mér stundir með meinhollum reykingum. Svo þegar brennið kom aftur í sölu, og þá án hins bráðdrepandi og ógeðslega aukefnis sem lýðheilsuyfirvöld höfðu séð ofsjónum yfir, var það óætt og vont. En við höfðum sígarettur, sem betur fer!

Svo man fólk á mínum aldri eftir þeirri skýru og viðvarandi hættu sem stafaði af Tab neyslu hér á árum áður, en yfirvöld í lýðheilsumálum höfðu reiknað út að ef einnar baðkarsfylli af Tab var neytt daglega í tuttugu ár þá hækkuðu nokkuð líkur á krabbameini eða heimsku eða einhverju öðru. Ég man reyndar ekki hvort Tabið var tekið af markaði, en ef svo var ekki þá hljóta gamlir Tab-fíklar að týna tölunni hvað úr hverju, enda komnir á tíma. Söknuðurinn eftir Tabinu var þó ekki eins sár og ella sökum þess að maður gat keypt sér sígarettu og reykt og reykt og reykt ... góðar stundir!

Þá rifja ég einnig upp ógæfuna sem hlaust af því að Lucky Charms var selt hérlendis og hreinlega teflt fram af Nathan & Olsen, hlaðið eiturefnum, til að vega að heilsu íslensku þjóðarinnar. Lýðheilsuyfirvöld brugðust skjótt við og bönnuðu þennan vágest, en fyrir það kunnum við þeim auðvitað miklar þakkir fyrir. Í valinn féllu einnig Count Chocula, Boo Berry og Frankenberry, en upprisu þeirra er beðið með óþreyju! Meðan á þessu stóð var nú gott að getað drepið tímann með því að fá sér hollan og góðan kost, sígarettu!

Og er hægt að minnast þessara dökku kafla í sögu íslensku þjóðarinnar án þess að geta bláu M&M eiturpillunnar? Á tímabili varð M&M að smyglvarningi þegar agentar íslenskrar lýðheilsugæslu gerðu það útlægt. Maður norpaði á götuhornum og beið eftir M&M díler og fékk smá yl í kroppinn með því að reykja eina sígarettu!

Nú man ég ekki eftir því hvaða bráðdrepandi efni voru í þessum vörum, en mér er stórlega til efs að Pólóníum 210 hafi verið þar að finna. Eða blásýru. Nú, eða arseník. Hvað þá dímetýlnítrósamín. Svo ekki sé minnst á brennisteinsvetni.

Ég fletti upp áhugaverðri grein á Vísindavefnum og þar eru talin upp nokkur efni sem hvert og eitt er talið nokkuð hættulegra heilsu manna en þetta ágæta glúkósamín sem Lýsi er gert að fjarlægja úr vörum sínum, en það efni er líklega bara hollt. Á netinu er að finna fjölda greina sem segja að samtals séu 2.000 til 2.500 skaðleg efni í sígarettum, en til að gæta allrar sanngirni þá held ég mig við töluna sem nefnd er á Vísindavefnum, 2.000. Efst á listanum eru þessi ágætu efni sem virðast algjörlega hafa farið fram hjá útsendurum lýðheilsueftirlitsins:

  • Nikótín
  • Tjara
  • Kolsýrlingur
  • Akrýlónitril
  • Ammoníak
  • Arsenik
  • Benzen
  • Benzóapýren
  • Blásýra
  • Brennisteinsvetni
  • Dímetýlnítrósamín
  • Formaldehýð
  • Hýdrazín
  • Metanól
  • Pólóníum 210
  • Úretan

Af hverju er Lucky Charms talið hættulegra en Marlboro? Hvernig er hægt að segja að Victory-V sé skaðlegra en Winston? Er Tab virkilega óhollara en filterslaus Camel? Getur verið að blátt M&M sé verri kostur fyrir heilsuna en Capri?

Getur það virkilega verið? Er þetta rétt forgangsröðun?


mbl.is Lýsi fjarlægir efni úr vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítur er grænn!

Hvítt og svartÍ áhugaverðri grein í á businessweek.com rekur Greg Blonder augljós rök fyrir því að hvítur er grænn. Bendir hann á að fjölmargar leiðir séu í dag færar til þess að sporna gegn hnattrænni hlýnun; skógrækt, notkun kjarnorku til orkuframleiðslu, 'bio' eldsneyti o.s.frv. Á endanum telur höfundur að við séum oft föst í þeim hugsanahætti að flókin vandamál krefjist flókinna lausna. Ég ætla ekki að rekja efni greinarinnar hér, enda hvet ég lesendur Blogg Schmogg til þess að hyggja að henni sjálfir. Þó vil ég stinga undan höfundi og rekja meginatriði greinar hans, en það er að hvít málning sé vanmetin sem liður í vörnum móður jarðar. Ljóst yfirborð endurvarpar hitageislum sólar, en hún baðar jörðina linnulítið með 1.350 vöttum af orku á hvern fermetra hvern einasta klukkutíma sem við njótum ásjónu hennar. Hvítt húsþak endurvarpar megninu af þessari orku meðan rautt eða grænt þak dregur megnið af henni í sig.

Niðurstaðan er því sú að það eigi í auknum mæli að kaupa hvíta málningu og mála allt hvítt sem hægt er að mála. Það að lýsa malbik á vegum myndi endurvarpa mikilli orku aftur út í geiminn, en þess er skemmst að minnast að malbik á vegarspotta við Akureyri hreinlega bráðnaði á dögunum í mikilli hitabylgju. Ljós malbiksblanda á bílastæðum og inngötum í hverfum myndi skila sér strax í minni hita.

Hvítur er grænn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband