Hausatalning: Konur klikka gjörsamlega!

VRÉg var að fara yfir frambjóðendur í kosningum til forystu í VR. Þessar kosningar hafa ekki farið fram hjá neinum því margir telja að núverandi forysta hafi klikkað gjörsamlega og er líklega margt til í því. Mikil umræða hefur verið um þessi mál í fjölmiðlum, á blogginu og manna á milli.

Það var því með ákveðinni tilhlökkun sem ég renndi mér inn á vef VR í dag til að kynna mér frambjóðendur. Þarna hlyti að vera úrval fólks, karla og kvenna, sem byðu sig fram til forystu í stærsta verkalýðsfélagi landsins sem hefur umsjón með risavöxnum lífeyrissjóði.

Fyrst fór ég inn á vefsíðu þar sem frambjóðendur til formannskjörs voru kynntir, en þeir eru þrír. Þegar vefsíðan spratt fram á skjánum sá ég bara þrjá kalla, en engin var konan. "Piff", hugsaði ég, "mikið rosalega hljóta þá að vera margar konur í boði sem væntanlegir stjórnarmenn!"

Svo spratt upp vefsíðan með yfirliti yfir frambjóðendur í stjórnarkjöri og ég sá ekkert nema kalla. "Piff, piff, piff," sagði ég, "ég á bara eftir að skruna aðeins niður vefsíðuna því ég sé ekki nema helming hennar núna." Ég byrjaði að skruna og engin var konan! "Hmmmm, ég þarf augsýnilega að fara aftur yfir listann," sagði ég við sjálfan mig, "það hlýtur að vera í það minnsta ein valkyrja þarna!" En það var sama hvað ég leitaði; þetta voru allt synir einhverra, engin var dóttirin!

Aðalheiður BjarnfreðsdóttirÞað fyrsta sem ég hugsaði var að "auðvitað eiga einhverjar kellingar ekkert erindi í stjórn verkalýðsfélags!" Í huga mínum sá ég fyrir mér Gvend jaka þar sem hann fór fyrir hópi harðsnúinna karla, grjótharður og flottur. En þá mundi ég eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem hafði svo sannarlega í fullu tré við Jakann! Þar var fimm barna móðir sem lét sig verkalýðsmál varða í tæplega hálfa öld. Á kvennafrídeginum 24. október 1975, sem var mikill blíðviðrisdagur, flutti Aðalheiður barátturæðu og var í henni að finna eftirfarandi kafla:

Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið í heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna.

Á þessum tíma var konan að vakna, það er algjörlega klárt mál. En mér finnst eins og konan hafi dottað aðeins í þessum kosningum hjá VR. Og velur aldeilis tímann til þess! Nú þegar þjóðin (og VR félagar) þarf sérstaklega mikið á öllum góðum eiginleikum hennar að halda, þá dottar hún. Ekki er hægt að kenna körlum um þetta því enginn karl stóð í vegi fyrir konum þarna.

Ég vil taka fram að þessi pistill er skrifaður vegna þess að ég er hundfúll út í konur vegna þessa. Ég er hrikalegt karlrembusvín, en ekki algjört! Ég vil fleiri konur út um allt í þjóðfélaginu. Ég tel að þeirra sé sérstaklega þörf í réttindabaráttunni og lífeyrissjóðsmálum, enda eru þetta málaflokkar sem brenna mikið á öllum. Ég á litla, yndislega frænku sem þarfnast þess að vel sé búið í haginn fyrir hana þegar hún vex úr grasi, að hún getið notið alls til jafns við karla. Þess vegna er það þeim mun sorglegra að sjá bara ellefu karla í boði sem eru örugglega ágætir, flestir.

En þeir eru engar konur, svo mikið er víst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Þú hreykir þér af því að vera karlrembusvín. En nú heimtar þú af konum að þær séu til þjónustu þegar þér hentar! Dætur þínar og frænkur munu ekki njóta jafnréttis á meðan menn eins og þú hreykið ykkur af því að vera karlrembusvín.

Fyrir ekki svo löngu síðan, þegar ég var að gefast upp á jafnréttisbaráttunni vegna ofureflis karla, þá hélt ég að þegar dætur karlrembusvína og valdamanna kæmust á legg þá myndu þeir vilja breyta þjóðfélaginu til að dætur þeirra hefðu jafna möguleika. En það gerðist ekki, því þeir bara búa í haginn fyrir dætur sínar inni í sínum valdastofnunum og hinar geta étið það sem úti frýs!

Margrét Sigurðardóttir, 11.3.2009 kl. 07:09

2 identicon

Það skildi þó aldrei vera að konur eigi eiginmenn heima sem ekki vilja að þær blandi sér í slaginn??

Hildur Mósesdóttir 11.3.2009 kl. 08:04

3 identicon

Vá hvað þið misskilð innihaldið í þessu bloggi!

Hversu mikið verður kvartað undan því að engar konur eru í stjórn VR í kjölfar kosninganna? Ef konur vilja komast í valdastöður þá verða þær að bera sig eftir því, ef engin kona býður sig fram er orðið ansi erfitt að kjósa konur í þær! 

Gulli 11.3.2009 kl. 08:32

4 Smámynd: Óli Jón

Margrét: Auðvitað hefur þú rétt fyrir þér, þetta er körlum að kenna. Litlar og vanmáttugar konur hafa ekkert um þetta mál að segja!

Hildur: Auðvitað hefur þú rétt fyrir þér, þetta er körlum að kenna. Litlar og vanmáttugar konur hafa ekkert um þetta mál að segja!

Gulli: Það er magnað að þú skulir hafa náð að sjá punktinn í greininni og það þrátt fyrir að þú sért kall! Ég held að þú hljótir m.a.s. að vera karlrembusvín í ofanálag!

Óli Jón, 11.3.2009 kl. 09:43

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég náði alveg punktinum í færslunni og er alveg sammála þér. Og ég er kona.

Og mikið gott að karl vekur athygi á því að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með að engin kona skuli vilja taka þátt í þessu. Veit reyndar um eina sem ætlaði að bjóða sig fram en hætti við vegna þes að reglurnar voru frumskógur og mjög erfitt að finna einhvern sem gat skýrt þær.....

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.3.2009 kl. 10:31

6 Smámynd: Óli Jón

Góð vinkona mín hefur lamið mig í hausinn í allan morgun og skammað mig fyrir hvernig ég setti fram greinina hér að ofan. Að það hafi t.d. verið óheppilegt að koma með orðið 'karlrembusvín' þar auk annars. Að ég hefði ekki átt að svara andmælendum mínum eins og ég gerði. Það má vel vera og er líklega rétt, enda fundið út með skynsemi kvenna sem iðulega trompar skynsemi okkar karla.

Hins vegar breytir það ekki því að konur klikkuðu gjörsamlega í VR kosningunum. Ég fullyrði að konur hefðu náð glæsilegri kosningu ef góðar konur hefðu boðið sig fram til stjórnarsetu. En nú verður VR karlaveldi næstu árin og það er konum að kenna, því miður. Það er mikill viðsnúningur frá því sem áður var!

En þá kemur að því sem ég vildi sagt hafa. Ef ekki má benda á að konur geti klikkað, þá erum við í slæmum málum. Ef karlar eru alltaf taldir bera sökina, þá er umræðan á villigötum.

Óli Jón, 11.3.2009 kl. 10:32

7 identicon

Ég þakka þitt innlegg Óli Jón og tek undir það sem mér skilst vera kjarni málsins hér.

Hvernig stendur á því að engar konur voru í framboði hjá VR?

Að mínu mati þurfa bæði konur og menn hjá VR (sérstaklega í forystunni)að  spyrja sig áleitinna spurninga um orsakir, og leita leiða til að hvetja fleiri konur til að taka ábyrgð og bjóða sig fram til forystu.

Við höfum séð það á undanförnum mánuðum að allir Íslendingar þurfa að taka höndum saman til að byggja upp nýtt samfélag, ekki bara á þingi heldur einnig hjá félagasamtökum eins og VR. Við þurfum að sjá breiðar fylkingar, unga og aldna, konur og karla til að byggja trausta framtíð.

Björk 11.3.2009 kl. 10:34

8 Smámynd: Óli Jón

Katrín: Takk fyrir þetta. Við erum nokkrir, og mun fleiri en marga grunar, sem viljum miklu fleiri konur í fararbroddi. En karlar hafa setið, réttilega, undir því í áratugi að þetta sé allt okkur að kenna, en nú tel ég að það sé vel hægt að skamma konur fyrir framtaksleysi. Í þessu tilfelli er skömmin alfarið hjá þeim, því miður. Það væri hugsanlega betra ef einhver hefði lagt stein í götu kvenna, því þá væri hægt að ráðast að viðkomandi og gera ráðstafanir. En svo er ekki og því er þetta illviðráðanlegra fyrir vikið.

Björk: Takk fyrir þitt innlegg, sömuleiðis. Við erum sammála um þetta. Konur stóðu hjá í þetta skiptið og sáu vagninn fara hjá. Vonandi verða þær virkari næst og stökkva um borð!

Óli Jón, 11.3.2009 kl. 10:47

9 identicon

Hvernig dettur þér í hug að kenna konum um þetta? Þær eru bara fórnarlömb áralangrar kúgunar í ósanngjörnu karlasamfélagi. Þetta er bara enn eitt dæmið um fordóma karla gagnvart konum.

Gunnhildur 11.3.2009 kl. 10:59

10 identicon

Óli Jón, það voru bæði konur og ekki síður menn sem brugðust þarna.

Samfélaginu verður ekki breytt af einum hópi, við þurfum að taka saman höndum!

Jafnrétti og jafnvægi í samfélaginu er ekki eingöngu kvennamál, það er mál okkar allra!

Björk 11.3.2009 kl. 12:02

11 identicon

Auðvitað eiga konur líka að bera sig eftir embættum í anda jafnréttis og lýðræðis.

Kannski er samt eitthvað í reglum VR sem útilokar konur frá framboði. Þær eru amk. mjög furðulegar að ýmsu öðru leyti.

Sverrir 11.3.2009 kl. 15:30

12 Smámynd: kiza

Gunnhildur o.fl.; Það hefur hinsvegar akkúrat ekkert upp á ástandið að segja að væla inni á annara manna bloggum yfir 'stóru vondu strákunum', þá frekar að hunskast út og reyna að gera eitthvað í málunum. Bjóða sig fram, plögga einhverja/einhvern eða a.m.k. mæta þá og kjósa.

Ég verð að segja að sem kona, jafnréttissinni og manneskja að ég er komin með upp í KOK af svona fórnarlamba-feminisma sem virðist ráða völdum innan margra kvenréttindahreyfinga..  

-Jóna.

kiza, 16.3.2009 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband