Ályktun neyðarkrísuþings Ríkiskirkjunnar ...

Aukakirkjuþing sendir frá sér eftirfarandi texta eftir krísu- og neyðarfund í gær vegna komandi atkvæðagreiðslu um Ríkiskirkjuna og stjórnarskrá:

Aukakirkjuþing hvetur kjósendur til að minnast þess að hin evangelíska lúterska þjóðkirkja er samofin menningu og sögu íslensku þjóðarinnar sem og annarra norrænna þjóða. Þjóðkirkjan er opin, lýðræðisleg almannahreyfing sem heldur uppi þjónustu og mannræktarstarfi um land allt. Hún er því mikilvæg grunnstoð íslensks samfélags. Því hvetur þingið til þess að áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að staða [og] réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð.

Staða og réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verða einfaldlega best tryggð með því að allir sitji við sama borð. Í dag er Ríkiskirkjan eins og flóðhestur á mauraþúfu, slíkur er aðstöðumunurinn. Ekkert hinna trú- og lífsskoðunarfélaganna má sín mikils gagnvart flóðhestinum sem fær marga milljarða árlega frá ríkinu.

Mig grunar þó að Ríkiskirkjan sé ekki til í að jafna muninn alveg því það hentar alveg ágætlega að sumir séu jafnari en aðrir!

Í framhaldi af því er áhugavert að sjá að krísuþingið ályktaði um peningamál, enda gengur apparatið fyrir þeim. Ekki láta þeir svo lítið að hóta uppsögn á samningnum við ríkið og láta reyna á greiðsluvilja allra þeirra sem nú eru skráðir í sauðatal Ríkiskirkjunnar :) Nei, krísuþingsfólk veit auðvitað sem er að þjóðin myndi ekki borga gíróseðilinn og því er, þrátt fyrir allt, betra að beita agentum ríkissjóðs við innheimtu á trúarskattinum.

Máské ættu einkunnarorð kirkjunnar að vera biðjandi, betlandi, þrúgandi?


mbl.is Ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúuðum fækkar og baráttan gegn kaþólskum kreddum

trúuðum fækki hratt á heimsvísu eru fyrirsjáanleg tíðindi. Eyjan birti í gær frétt þess efnis þar sem kemur fram að trúuðum hefur fækkað um 17% hérlendis, en það er sjötta mesta fækkun á heimsvísu. Þetta kemur auðvitað ekki á óvart því óumflýjanlegt er að með aukinni upplýsingu minnki þörf mannsins til þess að trúa á ímyndaðar verur.

Hins vegar er forsendubrestur í þessari frétt en hann er sá að þau 17% sem gengu af trúnni hérlendis hafi verið trúuð fyrir, en það er í langflestum tilvikum kolrangt. Þetta er einfaldlega fólk sem hefur vankað úr djúpu trúardái sem því var komið í í æsku og tengist ekkert trú. Svo er ástatt um fjölmarga aðra og því má reikna með að svona fréttir verði æ algengari í framtíðinni.

Þá er gaman að sjá nunnur í Bandaríkjunum sprikla gegn stöðnuðu karlaveldi kaþólsku kirkjunnar, en stelpurnar þykja hafa vafrað um of frá kreddufullri trúarkenningu kirkjunnar. Þær vilji t.d. aukin réttindi kvenna þegar kemur að getnaðarvörnum og fóstureyðingum og þá styðji þær réttindi samkynhneigðra sem er auðvitað eitur í beinum forpokuðu skarfanna í Vatikaninu.

Enn flæðir því undan Vatikaninu og þeirri vanhelgu og ljótu stefnu sem það rekur. Vonandi halda nunnurnar fast við sinn keip því þeirra viðhorf er nútímalegt og í takt við tíðarandann á meðan kreddur Vatikansins eru næsta mannskemmandi.


Trúin missir tökin í Bandaríkjunum

Á vef NPR, almenningsútvarps Bandaríkjanna, er frétt um niðurstöður nýrrar könnunar sem Gallup gerði á trúarlífi þarlendra, en þar kemur margt áhugavert í ljós. Stóru kirkjudeildirnar láta mikið undan og birtist það í því að einungis 44% Bandaríkjamanna bera mikið traust til kirkjunnar eða skipulagðra trúarbragða.

Trúarbragðafréttaritari stöðvarinnar telur að þetta sé ekki merki um minni trúarhita, en tilgreinir þó að ungt fólk hneigist æ minna til trúar. Það er í takt við þróun annars staðar þar sem trúin skorðast meir við eldra fólk sem sýnir sig t.d. í gránandi kirkjugestum hérlendis. Þannig er trúin á undanhaldi þegar yngra fólk eldist trúlaust, sem er hið náttúrulega ástand hins upplýsta manns, eða jafnvel hreinlega vantrúað en fjöldi vantrúaðra hefur tvöfaldast í BNA á undanförnum 20 árum. Það er skriða sem ekki verður stöðvuð úr þessu. Litlar og óháðar kirkjudeildir virðast þó vera að sækja í sig veðrið vestra og eru tekin dæmi um litla söfnuði sem hafa vaxið og dafnað.

Það er einstakt gleðiefni að kaþólska kirkjan kemur sérlega illa út úr þessari þróun, en sem dæmi er það tiltekið að fjöldi presta kirkjunnar muni helmingast á næstu tíu árum, en sú stétt telur nú 18 þúsund sálir. Kaþólska kirkjan fer auðvitað ekki varhluta af aukinni upplýsingu fólks, enda höfðar fornlegur og úreltur boðskapur hennar lítið til nútímafólks, en stór áhrifaþáttur í hnignun hennar eru auðvitað straumur af kynlífshneykslismálum sem hafa skekið kirkjuna að grunni. Ekki þarf að undra að upplýst fólk vilji síður binda trúss sitt við hana í dag eftir ótal fréttir af misbeitingu, nauðgunum, yfirhylmingu og allt það makk sem yfirmenn kirkjunnar hafa staðið í. Þetta verður til þess að kreddukenndur boðskapur hennar hefur æ minni áhrif til heilla fyrir heiminn.

Ég hvet fólk til þess að kíkja á fyrrnefnda grein, enda á hún fullt erindi við heim sem stendur á krossgötum. Hann er kominn vel á veg í átt að almennu trúleysi, en glímir ennþá við þann mikla áhrifamátt sem enn býr í leifum stóru kirkjudeildanna. Þegar hann þverr, þá herðist enn á þessari góðu þróun.


Stóra spurningin!

Nennir ÓRG að sitja út kjörtímabilið eða hleypur hann á eftir einhverju betra þegar honum hentar?

Ég veðja á að hann renni frekar en nenni ...


Guðleg Smugumið Gídeonistanna í Hafnarfirði

Þetta er þægileg leið fyrir Gídeonista til þess að dreifa kverinu sínu og nauðsynlegt fyrir þá til þess að réttlæta tilveru sína. Það er nefnilega ólíkt betra fyrir þá að geta sagt að þeir hafi náð að dreifa kverinu til allra skólabarna í ákveðnum skólum í stað þess að 1% skólabarna, eða réttara sagt foreldrar þeirra, hafi lagt sig eftir að ná í það.

Reyndar er kjánalegt að skilgreina Nýja testamentið sem fræðsluefni og þarna er farið þægilega í kringum þetta vandræðalega mál, en líklega helgar Guðslegur tilgangurinn þetta súra meðal. Þetta kver er innsti kjarninn í boðun kristinna og þeir ættu í raun, ef það er einhver döngun í þeim, að vera hundfúlir yfir þessari niðurfærslu úr boðunarbók niður í fræðsluefni. En þeir hafa bersýnilega ekki metnað í meira og láta sér þetta því að góðu verða. Að skilgreina Nýja testamentið sem fræðsluefni og setja það þannig í sama flokk og t.d. bók um fluguveiðar er augsýnilega ásættanlegt á meðan það opnar leið að nýjum og óplægðum ökrum í trúboðinu.

Í Hafnarfirði velja þeir auðveldustu leiðina, rétt eins og Jesús Jósepsson lagði fyrir. Reyndar kemur ekki fram í greininni að Gídeonistarnir ætli að nýta sér þessi Smugumið, en mig grunar að þeir stökkvi í þau, óðfúsir, enda eru gjöfulustu fiskimiðin fyrir hausaveiðara Drottins að finna í yngstu bekkjum skólakerfisins.


mbl.is Gídeon dreifi áfram í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskristnir í Noregi uppburðarmeiri en íslenskir

Ánægjulegt er að sjá að ríkiskristnir í Noregi skuli hafa meiri trú á sinni trú en íslenskir kollegar þeirra sem hræðast ekkert meir en að í sundur slitni á milli ríkis og kirkju þeirra. Jafnvel Kölski sjálfur virðist ekki orka jafn sterkt á íslensku ríkissauðina eins og nagandi óttinn við uppsögn ríkis á löngu volæðissambandi. Vonandi verður þetta framtak Norsaranna ríkistrúuðum hérlendis hvatning til góðra verka svo þeir geti hafið sig upp úr svartagallsrausinu og tuðinu, lausir úr helsi ríkishrammsins.

Heja Norge!!


mbl.is Aðskilnaður ríkis og kirkju í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja meiri pening til Ríkiskirkjunnar

Í frétt á Eyjunni kemur fram að leikmannastefna Ríkiskirkjunnar telur að ríkið sé að snuða hana um lágmark 25% af þeim tekjum sem henni ber. Mín spurning er afar einföld:

Af hverju rukkar Ríkiskirkjan ekki sjálf sín eigin félagsgjöld fyrst hún telur sig eiga svona mikla inneign hjá íslensku þjóðinni?

Svarið er álíka einfalt. Þrátt fyrir mikinn bægslagang vita agentar Ríkiskirkjunnar að heimtur yrðu rýrar ef hún myndi senda út valkvæma greiðsluseðla til þeirra 190.734 sálna sem í hana eru skráðar og voru flestar skráðar í hana ómálga við fæðingu. Þetta er vitað og því sættir Ríkiskirkjan sig, kvartandi og jarmandi, við minnkandi framlög frá ríki því hún veit að þrátt fyrir að þau skreppi saman, þá er trúarskatturinn það allra besta sem hún getur nokkurn tíma vonast eftir að fá.

Lítil er trú Ríkiskirkjufólksins á greiðsluvilja sauða sinna, en þeim mun meira er raunsæi þeirra :)


Ríkiskirkjan, hin feyskna og fúna grunnstoð

Sú grunnstoð sem biskup talar um er ekki beisnari en svo að hann telur hana ekki geta þrifist nema með aðkomu og aðstoð ríkisvaldsins. Þannig telur biskup kirkjuna ekki geta tórt nema því aðeins að

  • flest nýfædd börn séu skráð í félagatal hennar (myndi einhver skrá sig annars?)
  • kirkjan fái að stunda trúboð í leik- og grunnskólum (því gott að messa yfir börnum sem geta ekki tekið málefnalega afstöðu til boðskapsins eða hreinlega staðið upp og farið)
  • ríkið innheimti klúbbgjöldin (myndi einhver borga annars?)

Sú meginstoð sem biskup talar um er feyskin, fúin og nær algjörlega rúin trausti. Hún á lítið erindi til íslensku þjóðarinnar og það kæmi fljótlega í ljós ef hún nyti ekki verndarinnar og ylsins úr holhönd ríkisvaldsins.

Þetta veist biskup, sá vantrúaðasti af okkur öllum, enda hefur hann enga trú á því að ríkiskirkjan geti plumað sig á eigin verðleikum. Hann er skipstjóri á sökkvandi skútu og hefur ekki við að ausa.


mbl.is Siðferðisgildin ekki horfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáir hafa jafn litla trú á Ríkiskirkjunni og einmitt biskupinn sjálfur

Karl Sigurbjörnsson, biskup, hefur ekki meiri trú á verðgildi Ríkiskirkjunnar en svo að hann vill að stór meirihluti nýfæddra barna séu skráð í hana við fæðingu. Hann veit auðvitað að aðeins agnar lítill hluti þessara barna myndu sjálf hafa fyrir því að sækjast eftir aðild að Ríkiskirkjunni og það myndi fara afar illa með fjárhag hennar.

En skondnast er að sjá að hagsmunir trúfélaganna (lesist Ríkiskirkjunnar) eru honum ofar og framar í huga en hagsmunir barnanna þegar hans eigin orð eru skoðuð:

"Breytingin er íþyngjandi fyrir trúfélögin og gengur gegn hagsmunum barnsins."

Þarna sést glögglega að það fyrst og fremst eru það trúfélögin sem tapa á þessu og, jú, þetta gengur svo líka gegn meintum hagsmunum barnsins :) Þess vegna verður að skrá nýfædd og heittrúuð börn í trúfélag þar sem trú er ekki skilyrði fyrir þátttöku. Og er það ekki hálf aumt fyrir meinta Þjóðkirkju að hún gefi svo auðveldlega afslátt af þessari sjálfsögðu kröfu um trú gegn því að fá ríkulega launað í krónum og aurum? Mér finnst eins og hún sé búin að verðmeta trúna og skv. hennar eigin útreikningum fer verðgildið ört lækkandi eins og sést af lítilþægni hennar þegar trúarskatturinn hefur verið lækkaður á undanförnum árum, en samt gapir og gín kirkjan og teygir sig eftir silfrinu. Jú, hún tuðar aðeins, en hún veit að undir engum kringumstæðum gæti hún gert betur. Eins og einhver sagði hér í denn, þetta verður ekki betra. En þetta er bara leikur um krónur og aura og í þeim skollaleik eru sálir barnanna bara skiptimynt, þægilegar leiðir að fjárhagslegum markmiðum. Gleymum því að trú eigi að vera persónuleg og látum ríkisskráningu ráða. Það er besta og gjöfulasta trúin.

En hann er líklega bara að gera það sem Jesús Jósepsson lagði fyrir hér í denn þegar hann mælti fyrir um að ríkið skyldi skrá flest nýfædd börn í trúfélag. Væri það ekki hálf nöturlegt og ömurlegt ef hann réri svona hart að þessu vegna einhvers annars?


mbl.is Veruleg þáttaskil í trúmálapólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Breytingin er íþyngjandi fyrir trúfélögin og gengur gegn hagsmunum barnsins."

Þetta segir aðalbiskup Ríkiskirkjunnar í umsögn sinni um 509. þingmál um trúfélög. Hann forgangsraðar þessu alveg hreint prýðilega vel þarna þegar hann telur hagsmuni kirkjunnar upp á undan hagsmunum barnsins. Honum eru s.s. hagsmunir Ríkiskirkjunnar ofar í huga en hagsmunir barnsins, en eitthvað í þróunarmynduðu vantrúar- og guðleysissiðferði mínu segir mér að þessu ætti að vera öfugt varið.

Alþingi stendur nú á þeim tímamótum að geta afnumið það mannréttindabrot sem felst í ríkisskráningu barna í trúfélag sem hingað til hefur venjulega verið Ríkiskirkjan. Þannig hefur ríkið raðað á garða Ríkiskirkjunnar og skapað henni þannig, án nokkurrar fyrirhafnar af hennar hálfu, trúarskattsstofn til framtíðar. Biskup veit mætavel að fæstir myndu greiða trúarskattinn til Ríkiskirkjunnar sjálfviljugir sem sést best í varnaðarorðum hans í umsögn til Alþingis árið 2002 þegar það var skoðað að þeir sem stæðu utan trúfélaga greiddu engan trúarskatt:

Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun.

Biskup vissi sem var að stórfelldur halli yrði debet megin í bókhaldi Ríkiskirkjunnar þegar tugþúsundir Íslendinga myndu renna á flótta og spara sér þannig nokkra þúsundkalla árlega, en þetta eru einmitt Íslendingarnir sem hafa verið lokaðir inni í þessu kerfi með ríkisskráningu ungbarna í trúfélag. Algjörlega er ótækt í hans huga að menn hafi af því fjárhagslegan ávinning að standa utan trúfélaga ... slíkt getur ekki vitað á gott!

Aldrei hvarflar af biskupi að láta reyna á greiðsluvilja kristinna með því að Ríkiskirkjan sjálf sendi út sína eigin greiðsluseðla. Hann hefur nefnilega enga trú á því að fólk myndi almennt borga. Sá horfellir sem hann sér fyrir sér er skelfilegri en plágurnar sjö allar samanlagðar! Greiðsluseðlar Ríkiskirkjunnar myndu almennt gulna og tærast frekar en að verða greiddir, þetta veit biskup og því vill hann að trúarskatturinn sé lagður á alla, óháð trú, enda er hún aukaatriði í rekstrarlegu samhengi þess foráttufleys sem Ríkiskirkjan er.

Ég vona að alþingismenn sjái í gegnum sorgarsífur biskups og hyggi frekar að hagsmunum þeirra skjólstæðinga sinna sem ekki geta tjáð sig, nýfæddu barnanna. Ég vona að þeir sjái sanngirnina í því að börnin sjái sjálf um skráningu í trúfélög þegar þau hafa aldur og þroska til í stað þess forneskjulega fyrirkomulags sem nú er við lýði. Þá vona ég að þeir sjái að núverandi fyrirkomulag er hannað fyrir trúfélög, ekki sauðina, og að í núverandi kerfi eru sauðirnir pikkfastir í svo fjárheldri greiðslurétt að engum er þaðan undankomu auðið nema þegar dauðinn knýr dyra og réttir fram lokagreiðsluseðilinn til innheimtu!

Hagsmunum barna okkar er best borgið með því að þau ákveði sinn veg sjálf. En biskupinn hefur ekki þá trú á tilboði Ríkiskirkjunnar að það muni laða að sér börnin og því vill hann að þeim sé sjálfkrafa steypt í greiðsluréttina þar sem, m.a. fyrir hans orð, þau þurfa að dúsa og borga allt til dauðadags.

En af hverju ættu Íslendingar almennt að hafa trú á tilboði Ríkiskirkjunnar fyrst biskupinn sjálfur sér engin verðmæti í því? Mér er spurn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband