Launasamningur presta, versti gjörningur síðustu aldar?

Áhugasömum er bent á frábæra greinaröð Brynjólfs Þorvarðarsonar á vantru.is þar sem hann fer yfir samning þann sem í dag er einn stærsti íhluturinn í öndunarvél Ríkiskirkjunnar því án hans væri hún fyrir löngu síðan búin að veslast upp. Greinarnar eru þrjár, hver annarri betri:

Við lesturinn sést vel að hótanir trúaðra um að rifta samningnum eru innantómt píp enda vita forstjórar Ríkiskirkjunnar vel að núverandi fyrirkomulag er guðlega gott hvað hana varðar. Hvað ríkið hins vegar varðar þá er það næstum því djöfullega slæmt.

Njótið lestursins, trúaðir sem vantrúaðir :) og hafðu þökk fyrir, Vantrú!


Forsetinn og biðstöðin á Bessastöðum

Þær eru ömurlegar, fréttirnar af því að nafni minn ætli að bjóða sig fram aftur og hálfu verra er að hann er bara að gera þetta til þess að drepa tímann. Hann ætlar bara að vera forseti þar til annað betra býðst. Þarna er forsetaembættinu mikil óvirðing sýnd þegar því er breytt í biðstöð fyrir gírugan gaur sem vill eitthvað allt annað.

Verði okkur að góðu!


mbl.is Ólafur Ragnar gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust til Ríkiskirkjunnar er hverfandi

Vonsvikinn prestur ...Ný könnun Gallup sýnir að þjóðin heldur áfram að snúa baki við Ríkiskirkjunni, en það sést á því að fyrir átta árum naut hún trausts um 60% þjóðarinnar, en það hlutfall er komið niður í 28% í dag. Þetta eru marktækar tölur sem sýna að áfram flæðir undan Ríkiskirkjunni og því er hljómurinn undarlegur í orðum Heydalaklerks í Mogganum í dag þar sem hann segir, „Nú hafa margir áhyggjur af, að sambúðin kunni að laskast ef ekki verður kveðið á um þjóðkirkju og kristinn sið í stjórnarskrá.“ Þarna les hann auðvitað kolrangt í stöðuna, enda hafa fáir áhyggjur af stöðu kirkjunnar. Aukinheldur er þetta samband stórlaskað í dag, enda var það frá fyrstu tíð byggt á kolröngum grunni. Þjóðinni stendur eiginlega bara á sama um kirkjuna, en vill í öllu falli ekki samkrull hennar og ríkisins. Það vilja bara þeir allra trúuðustu sem rifja upp orð Jesúss þar sem hann biðlar til ríkisvaldsins um aðstoð og biður um að fá að komast undir pilsfaldinn hjá ríkjandi valdhöfum.

En áfram flæðir undan kirkjunni, máské einhvers konar syndafall? Í öllu falli skiptir það ekki máli, aðalatriðið er að þessari þróun verður ekki við snúið, sama hversu mikið prelátar Ríkiskirkjunnar kveina og biðja. Þeir eru altént ekki bænheyrðir, en hver veit ... vegir stjórans eru órannsakanlegir og hann getur hreinlega verið að bænheyra þá með því afhroði sem kirkjan bíður þessa dagana :)

Hver veit?


mbl.is Gunnlaugur Stefánsson: Kirkjan og þjóðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biblían á sakamannabekk?

Biblían
Áhugaverð staða er komin upp ef kæra Péturs Maack á henur Snorra Óskarssyni nær fram að ganga. Snorri gerir nefnilega ekkert annað en að gala upp og enduróma kreddufullar skoðanir Biblíunnar á hinum ýmsu málum, en þó reyndar aðallega samkynhneigð.

Nú veit ég að menn segja að Biblían amist ekki við samkynhneigð karla heldur aðeins sumu því sem samkynhneigðir karlar hafa gaman af að gera. Þetta er auðvitað aumur fyrirsláttur og bara tæknileg flóttaleið fyrir fólk sem veit að það, vegna trúar sinnar, verður að halda á lofti ömurlegri fordæmingu sem á ekki að koma trú eða almennu siðferði við.

Því má segja að Biblían verði dregin fyrir dómstóla því það er hún sem er 'höfuðpaurinn' í þessu, Snorra greyinu er ekki sjálfrátt vegna trúar sinnar.

Áhugavert verður að sjá hvernig fram vindur :)
PS. Ég bendi á grein Davíðs Þórs Jónssonar þar sem hann veltir fyrir sér rörsýn margra kristinna þegar þeir einblína á samkynhneigð en velja að láta margar aðrar álíka 'syndir' óátaldar. Sumir eru líklega bara syndugri en aðrir?

mbl.is Kærir Snorra til lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færri börn í kirkjum, en fleiri fullorðnir með þeim ...

Trú í skólum ...Dregið hefur úr heimsóknum í kirkjur borgarinnar þegar eðlilegar og sanngjarnar reglur hafa verið settar um aðkomu trúar í leik- og grunnskólum. Nú þykir ekki alveg sjálfsagt að skólarnir sturti krökkunum umorðalaust inn í kirkjur borgarinnar eins og Aðalkirkjuklerkur virðist vilja, heldur nýta þeir tímann í desember til þess að einbeita sér að hefðbundnum lærdómi og svo undirbúningi fyrir jólin í bland.

En Aðalkirkjuklerkur hittir naglann á höfuðið í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 þegar hann segir:

"Þá er svarið það að það er töluvert fleiri fólk sem kemur í barnamessurnar með börnin sín ..."

Þarna lýsir presturinn í Aðalkirkjunni hvernig trúaðir foreldrar taka á þessu máli, en þeir sjálfir flykkst í kirkjur með börnum sínum. Þarna sannast mál mitt og annarra í gegnum tíðina að trúaðir myndu sjálfir sjá um trúarlegt uppeldi barna sinna þegar á reyndi og er það ekki gleðilegri ráðstöfun* en vélræn færibandaafgreiðsla skólanna í gegnum tíðina? Þannig virðast nýjar reglur Reykjavíkurborgar vera að koma út á besta veg fyrir allmarga. Fyrir kirkjuna táknar þetta færri börn, en fleiri fullorðna.

Þó er ákveðinn hópur vesalings fólks sem tapar á þessu og það eru þeir 'trúuðu' foreldrar sem eru þó ekki nógu mikið trúaðir til þess að nenna að fara í kirkju með börnin sín. En eru það ekki bara sauðirnir sem hvort sem er voru og eru einskís virði? Hagstofutrúað fólk sem telur sig kristið og hreykir sér af því á sunnudögum í sófanum heima eða í bloggfærslum, en nennir svo ekki að lufsast í kirkju með börnin sín á meðan það telur t.d. ekki eftir sér að bregða sér í bíó eða á pöbbinn? Ég tel að þessi síun sé bara góð fyrir kirkjuna því nú má greina þá sem eru 'alvöru' trúaðir með kirkjusókn.

Loks er áhugavert að sjá hversu auðvelt það reynist Aðalkirkjuklerki að brigsla skólafólki um dómgreindarbrest þegar það dansar ekki í takt við hans tónlist. Lesa má úr orðum prests að hann telji stjórnendur skóla vitgranna vitleysingja sem geti ómögulega haft sjálfstæða skoðun í þessu máli. Sumir gætu kallað þetta hroka, en ég læt það vera og kenni því um að klerkur sé hálf smeykur við þessa vakningarbylgju sem bersýnilega kemur við kaunin á honum.

* Þetta breytir reyndar ekki þeirri skoðun minni að rangt sé að innræta ungum börnum trú, en foreldrar hafa vissulega til þess fullt og óskorað leyfi.


Einkaréttur kristinna á fyrirgefningunni ...

Í nýjustu bloggfærslu sinni fullyrðir Ríkiskirkjuklerkurinn, Þórhallur Heimisson, að nú sé bannað að fyrirgefa í skólum Reykjavíkur. Eftirfarandi er fyrsta málsgreinin í þessum pistli hans:

Í Faðir vorinu erum við hvött til að fyrirgefa öðrum það sem þeir gera okkur. Nú er það bannað í skólum Reykjavíkur.

Þegar maður sér svona skelfilegan og ömurlegan málflutning, þá spyr maður sig hvað valdi. Hvað kemur svona manni, sem virðist upplýstur og skynsamur, til þess að láta svona fram hjá sér fara? Og hvað er það sem hann er í raun að segja?

Hann virðist vera að segja að litlu vantrúarbörnin í leik- og grunnskólunum geti ekki fyrirgefið nema í gegnum kristna trú. Hann virðist segja að lítil börn geti á engan hátt fundið hjá sér að sættast við náunga sinn nema með því að falla fram í dauðans ótta við hinn ríkiskristna guð. Ég hlýt að spyrja mig hvernig þessi maður talar til barna. Eru þetta virkilega skilaboðin sem hann færir þeim? Taktu kristna trú eða þú munt aldrei geta fyrirgefið? Taktu kristna trú eða þú munt tærast upp að innan í hatri og vanlíðan sem mun byggjast upp af því að þú getur ekki fyrirgefið? Ég segi það hreint út að ég tel að þessi maður eigi ekkert erindi í barnafræðslu miðað við þetta. Skynvilla hans virðist svo mikil að hann getur ekki rætt við leik- og grunnskólabörn á eðlilegan hátt.

En hvað veldur þessu? Hvað fær mann, sem virðist ágætur sómadrengur, til þess að segja svona skelfilegan hlut? Fyrst og fremst kenni ég um óttanum sem nú virðist heltaka klerkinn þegar hann sér flæða undan kristinni trú með ógnarhraða. Mig grunar að hann telji sína trú harla ómerkilega ef meirihluti þjóðarinnar eru ekki skráð á hennar band í Þjóðskrá. Það er nefnilega fátt persónulegt við íslenska afbrigðið af kristni, ríkistengingin hefur náð að berja allt slíkt úr henni.

Það er áhugavert að spyrja sig hvenær fólk hér heima velur kristnina? Hvenær fær það raunverulegt færi á því að velja fyrir sig þegar valið er alltaf tekið af þeim? Strax við fæðingu hafa börn verið skráð í trúfélag. Í leik- og grunnskólum hefur trú verið höfð fyrir þeim. Öllum hefur hingað til verið smalað eins og sauðfé í ferminguna. Ríkið innheimtir félagsgjöld fyrir trúfélögin. Þetta er trúartrekt sem allri íslensku þjóðinni hefur verið troðið í gegnum, en nú lítur út fyrir að brestir séu í trektinni.

Klerkurinn sér þetta og er skelfingu lostinn. En í stað þess að hafa trú á guði sínum og dásamlegri forsjá hans, ræðst hann á Reykjavíkurborg. Er það ekki merki um skelfilegt og ömurlegt trúleysi?

En ég, sem vantrúaður og óalandi einstaklingur, fyrirgef ríkiskirkjuklerknum því hann veit eigi hvað hann gjörir. Óttinn hefur augsýnilega rænt hann allri trú.


Tvær léttar og skemmtilegar spurningar ...

Íslenska þjóðkirkjanHér eru tvær einfaldar og laufléttar spurningar fyrir þig.

  1. Ef þú ert í trúfélagi, skráðir þú þig sjálf(ur) í það?
  2. Ef svo er ekki, játarðu raunverulega það afbrigði trúar sem það félag stendur fyrir?

Ef þú svaraðir 'nei' við báðum spurningum, þá ættir þú að lesa áfram. 

Af hverju ættirðu að íhuga að skrá þig úr trúfélaginu þínu? Jú, ef þú varst skráð(ur) í það við fæðingu, þá var sjálfkrafa gert ráð fyrir því að þú myndir ekki hafa neina skoðun á málinu seinna meir. Það var s.s. gert ráð fyrir því að þú myndir sjálfkrafa taka 'trú' móður þinnar. Líklega gekk hún í gegnum það sama.

Með því að íhuga gildi þessarar skráningar þá ertu að taka upplýsta og sjálfstæða ákvörðun, nokkuð sem þú fékkst ekki að gera rétt eftir fæðingu :) Þú ert að ákveða sjálf(ur) hvað hentar þér best í stað þess að ríkið og trúfélagið taki þá ákvörðun fyrir þig.

Athugaðu þótt þú svarir báðum spurningunum neitandi að þá ertu síður en svo ein(n) á báti. Langflestir Íslendingar voru við fæðingu skráðir í trúfélag, á hverju þeir höfðu svo seinna meir ekki neina sjálfstæða skoðun. En með því að íhuga þetta, þá ertu að taka upplýsta ákvörðun fyrir þig. Þú ert aldrei of ung(ur) eða of gamall/gömul til þess að huga að þessum málum.

Vera má að þú komist að þeirri niðurstöðu að þér finnist þú eiga heima í trúfélaginu og það er þá bara frábært. Svo er hinn möguleikinn sá að ef þú skoðar málið ofan í kjölinn að þá kemstu að því að það er engin ástæða fyrir þig að vera skráð(ur) í þetta trúfélag. Ef svo er, þá er rökrétt fyrir þig að breyta þeirri skráningu og skrá þig annað tveggja í annað trúfélag eða þá hreinlega utan trúfélaga.

Íhugaðu þetta fyrir 1. desember nk., en þá eru n.k. fardagar í þjóðskrármálum hérlendis. Ekki sætta þig við ríkisskráningu í trúfélag ef þú trúir raunverulega ekki.

Tengill á eyðublað á vef Þjóðskrár.

 


Spor í rétta átt, en letilega gengið ...

Ég var of fljótur á mér að fagna þessu frumvarpi og læt bréf sem ég sendi rétt áðan til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, hingað inn í staðinn fyrir upprunalegu færsluna sem er auðvitað bara kjánaleg og mér til vansa þegar hún er lesin núna. Hún er hins vegar hér neðar fyrir þá sem vilja kætast aðeins yfir vitleysunni í mér. Í færslunni geri ég grín að Rögnu Árnadóttur, en það má þó segja henni til hróss að hún ætlaði að leiðrétta þetta mál alla leið og ekki gefa neinn afslátt frá sjálfsögðum mannréttindum nýfæddra barna.

--- Nýtt innlegg, sett inn 2. nóvember kl. 22:31 ----

Sæll, Ögmundur.

Ég var að fara yfir lýsingu á nýju frumvarpi til laga um lífsskoðunarfélög og hnaut um þetta:

Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess. Sama gildir ef foreldrar eru utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

Það er enginn rökstuðningur fyrir því í frumvarpinu af hverju þetta eigi að vera svona. Af hverju er rétt að ætla barni það að verða múslimskt eða kristið bara vegna þess að foreldrar þess játa þá trú? Að sama skapi mætti taka gömlu klisjuna um af hverju nýfætt barn tveggja vinstri grænna foreldra er ekki skráð beint í flokkinn, en ég sleppi því. Að sama skapi sleppi ég því að taka gömlu klisjuna um nýfædd börn tveggja sjálfstæðismanna því ég veit að þér finndist fátt fáránlegra en að þau væri vélrænt skráð í flokk foreldra þeirra.

Ég tel að með þessu frumvarpi sé hvort tveggja verið að

  • gera lítið úr trú og lífskoðunum fólks með því að kenna ómálga börn við þær og
  • gera lítið úr eðlilegum og sjálfsögðum mannréttindum nýfæddra barna

Frumvarpið gerir nefnilega ekki ráð fyrir því að eðlilegur réttur barnsins hafi hingað til verið brotinn með þessu gallaða fyrirkomulagi, heldur að áður hafi bara verið brotið gegn rétti föður sem ekki var í sama trúfélagi og móðirin. Þetta gengur gegn  Réttur barnsins er þarna fyrir borð borinn, því miður. Ég hafði vænst þess að það yrði fastar stigið í lappirnar í þessum efnum, en þarna er bara stigið hálft skref og frekar máttleysislega til jarðar stigið! Ég leyfi mér að vitna í orð lögfræðings Mannréttindastofu sem ég tek upp úr frétt á mbl.is:

Í áliti Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu, um málið kemur fram að ekki sé að sjá að neinir hagsmunir felist í því, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag. „Þetta snýst ekki um rétt móðurinnar eða rétt föðurins til að barnið sé skráð með öðru hvoru þeirra í trúfélag. Hagsmunir barnsins eiga alltaf að vera hafðir að leiðarljósi fram yfir hagsmuni foreldranna, og það er erfitt að sjá að sé hagsmunamál fyrir barnið að vera skráð í eitthvert tiltekið trúfélag við fæðingu.

Þarna er lögfræðingur Jafnréttisstofu á því að verið sé að brjóta á rétti hins nýfædda barns. Eins og áður sagði, þá virðist frumvarp þitt aðeins gera ráð fyrir að brotið hafi verið gegn rétti föðurins, sem er miður.

Ég vona að þetta séu bara fyrstu drög og að í næstu mynd frumvarpsins verði betur hugað að rétti hins nýfædda barns til þess að vera ekki merkt kristið, múslimskt eða hverju öðru tagi sem hengja má á það. Því neita ég að trúa að þú sért fylgjandi því að skrá einstaklinga félög án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja! Með því er lítið gert úr einstaklingnum sjálfum, sem og því félagi sem hann er, fyllilega óviljugur, skráður í.

Við vitum reyndar báðir að ástæða þess að börn hafa hingað til verið skráð í trúfélög er sú að með því er myndaður grunnurinn að framtíðartekjustofni þjóðkirkjunnar. Það er bara ekki næg ástæða til þess að brjóta á rétti nýfæddra barna.

Það er engin rík og knýjandi ástæða, sé hagsmunagæsla gagnvart trúfélögum undanskilin, til þess að skrá nýfædd börn í trúfélag. Ef svo er, þá þarf sú rökfærsla að fylgja með frumvarpinu. Innanríkisráðuneytið setur niður við svona frumvarpsgerð, því miður. Einhvern veginn vaknar sú tilfinning að réttur nýfæddra barna hafi verið skiptimynt í einhverjum pólitískum hrókeringum. Vonandi er það ekki raunin!

Með baráttukveðjum og von um að réttur allra nýfæddra barna verði réttur en ekki bara þeirra sem eiga trúarlega ósamstíga foreldra!

- Ólafur Jón Jónsson

--- Upprunalega færslan ----

Þetta er sannkallað gæfuskref sem þarna er stigið enda hreint og klárt brot gegn ómálga börnum að skrá þau í félög hvers konar og þá sér í lagi félög sem eru jafn gildishlaðin og trúfélög.

Ég vona að ráðherra standi fastur fyrir og láti þetta mál ekki daga uppi líkt og gerðist í tíð Rögnu Árnadóttur, þv. dómsmálaráðherra, en hún hafði lofað þessari sjálfsögðu og eðlilegu mannréttindabót. Mannréttindi barnanna voru þó ekki meira virði en svo að þessu einfalda, en mikilvæga, máli var kippt út á elleftu stundu vegna annarra og mikilvægari hagsmuna.


mbl.is Ótilgreind staða við fæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti ánægður með aðskilnað trúar og skóla ...

Það er áhugavert að sjá að meirihluti, þótt naumur sé, er ánægður með ákvörðun Reykjavíkurborgar að skilja að trú og skóla. Áhugavert er að sjá að stuðningurinn er töluvert meiri á meðal yngra fólks en eldri og staðfestir það að þjóðin mun fyrr en síðar vaxa upp úr Guðstrú sinni að miklu leyti. Ljóst er að það fjarar nú hratt undan Ríkiskirkjunni þegar dálæti á henni virðist vera bundið við eldra fólk sem, í takt við lífsins gang, mun hverfa af félagatali hennar fyrr en síðar.

Þetta vita forstjórar Ríkiskirkjunnar og þess vegna berjast þeir um á hæl og hnakka gegn hverju skrefi í átt að sanngirni í trúmálum hérlendis. En þeir þekkja ekki eigin vitjunartíma, kallagreyin, og í stað þess að berjast fyrir ósanngjörnu og þrúgandi fyrirkomulagi í trúmálum hérlendis, þá ættu þeir frekar að einbeita sér að núverandi sauðum sem telja má trygga í stað þess að einblína alltaf á þann möguleika að geta kristnað alla þjóðina á beinu bretti í leik- og grunnskólum.

Svo er bara fínn bissniss í því að vera með nokkur þúsund manna söfnuð því ef allir greiða tíund skv. boði Biblíunnar þarf ekki nema 10 sauði til þess að fjármagna laun eins prests. Hann fær vissulega ekki 250% hærri laun en lögreglumaður úr þeim bítum, en deilir þess í stað kjörum með sauðum sínum.

Var það ekki það sem Jesús Jósepsson gerði fyrir utan það að hann tók aldrei pening fyrir sína þjónustu?


Sóknarnefnd íhugar að kæra Reykjavíkurborg

Hnugginn ...Í viðtali við nefndarmann í sóknarnefnd Grafarvogskirkju í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að nefndin ætli að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur Reykjavíkurborg vegna nýlegrar ákvörðunar um að greina á milli trúarlífs og almenns skólastarfs í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Þessi ágæti maður barmaði sér yfir þessu, enda veit hann sem er að á undanförnum áratug, og jafnvel lengur, hefur fjarað hratt undan kristinni trú. Þá er ég ekki að tala um að þjóðin sé að afkristnast heldur er að koma í ljós að þjóðin hefur aldrei verið almennilega kristin því henni hefur aldrei verið gefið færi á því. Það hefur nefnilega verið svo um hnúta búið í langan tíma að þjóðin hefur ekki haft frjálst val þegar kemur að kristinni trú. Þetta er hægt að rekja í nokkrum megin atriðum:

Þjóðin er, með ofbeldi og yfirgangi, neydd til þess að taka kristni árið 1000. Þannig eru nær allir Íslendingar taldir kristinnar trúar frá upphafi, en það var öðru nær.

Kristin kirkja ríkti hér með ægivaldi í gegnum aldirnar og sölsaði m.a. undir sig eignir og varð ótrúlega valdamikil í gegnum undirlægjuhátt íslenskrar þjóðar gagnvart henni.

Á vorum tímum hefur staða kirkjunnar verið svo treyst með m.a. eftirfarandi ráðstöfunum:

  • Börn eru við fæðingu skráð í trúfélag móður (sem venjulega var skráð í Ríkiskirkjuna). Þetta hefur ekkert að gera með trú þessara nýfæddu barna, þarna er bara verið að raða framtíðar greiðendum sóknargjalda á garðann. Það er máské plús ef börnin taka trúna í alvöru seinna meir, en það skiptir í raun ekki máli.
  • Ríkiskirkjan fékk greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum þar sem hún lagði inn sk. 'barnatrú'.
  • Nær undantekningarlaust var öllum börnum sópað, í skólatíma, í gegnum fermingarferlið og með því 'staðfest' að þau væri sannkristin. Allar gjafirnar höfðu auðvitað aldrei nein áhrif á börnin.
  • Félagsgjöld í Ríkiskirkjuna (og önnur trúfélög) hafa verið innheimt í gegnum skattkerfið þótt það sé undarlegt til þess að hugsa að stærsti félagsskapur á Íslandi skuli ekki treysta sér til þess að sjá um þá innheimtu sjálfur, en svarið er auðvitað það að það var vitað frá byrjun að einungis örfáir myndu borga félagsgjöld í Ríkiskirkjuna sjálfviljugir (sjá bréf frá biskupnum sjálfum).

Ef Höttur á Egilsstöðum fengi sömu meðgjöf og Ríkiskirkjan fær, þá væri það langstærsta fótboltafélag landsins á pappírunum. Hins vegar væru laumu KR-ingar og Framarar út um allt, en mest þó fólk sem engan áhuga hefði á fótbolta :) 

En svona hafa þjónar kirkjunnar vanist því að vera í sjálftökustöðu og þeirri hugsun að þeim beri allt. Í raun er þeim bara vorkunn, greyjunum, því þeir eru í raun eins og geirfuglar eftir aldalangt uppihald á kostnað þjóðarinnar.

Nú víkur því hins vegar við að þessari ömurlegu sjálftökustöðu er ógnað. Ég get vel sett mig í spor agenta Ríkiskirkjunnar þegar þeir horfa fram á eftirfarandi hamfarir:

Nýfædd börn verða ekki skráð sjálfkrafa í trúfélög. Verði þessar áætlanir innanríkisráðherra að veruleika, verður grunninum kippt undan ömurlegri tölfræði sem Ríkiskirkjan hefur grímulaust notað í gegnum tíðina eins og hækju. Í áðurnefndu viðtali sagði sóknarnefndarmaðurinn t.d. að 90% barna væru í Ríkiskirkjunni. Það er ósatt á tvo vegu. Fyrir það fyrsta eru 79% barna skráð í Ríkiskirkjuna skv. tölum Hagstofu og risastór meirihluti þeirrar skráningar er vegna vélrænnar jötuskráningar ríkisins. Það er því vottur um mikið metnaðarleysi hjá Ríkiskristnum að hampa þessari tölu.

Kirkjan á ekki greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum fyrir trúboð sitt. Lengi býr að fyrstu gerð og það veit Ríkiskirkjan. Ef það næst að leggja 'barnatrúna' inn hjá litlum börnum, þá lifir hún sterkt með þeim. Þetta þekki ég sjálfur því ég var illa haldinn af barnatrúarvírusnum í langan tíma. Það er nefnilega afar áhrifaríkt þegar litlum leikskólabörnum er sagt að Jesús sé besti vinur barnanna. Af hverju ættu þau að rengja það? Hressi presturinn í skólanum sagði þeim það og þau eiga að trúa öllu sem haft er fyrir þeim í skólanum.

Syndir kirkjunnar eru nú miskunnarlaust bornar á torg. Hver ömurleg fréttin upp af annarri úr ranni kirkjunnar rekur nú aðra og svo hefur verið lengi. Þessi meinti handhafi og verndari almenns og góðs siðferðis stendur ekki sjálfur undir þeim kröfum sem hann gerir til annarra. Hvers er þá að vænta?

Íslenska þjóðin treystir ekki Ríkiskirkjunni. Aðeins 29% þjóðarinnar sögðu bera yfir meðallagi traust til kirkjunnar og þar af lítil 5% sem bera til hennar fullkomið traust. Aðeins 19% segja vera ánægð með störf núverandi biskups, en það er reyndar annað mál. Þessar tölur lýsa ekki þeirri meintu undirstöðu íslensks samfélags sem Ríkiskirkjan er sögð vera. Þær lýsa mun frekar stofnun sem veldur úlfúð og sundurþykkju í samfélaginu og sundrar þjóðinni frekar en hitt. Þær lýsa stofnun hverra innviðir eru fúnir og feysknir. Og ef rýnt er í tölurnar sést að það er eldra fólkið sem helst treystir kirkjunni, fólkið sem er verst haldið af barnatrúarvírusnum, yngra fólkinu stendur meira á sama.

Þjóðin vill aðskilnað ríkis og Ríkiskirkju. Skv. Þjóðarpúlsi Capacent-Gallup vilja 3/4 Íslendinga að skilið verði á milli ríkis og kirkju. Þetta er auðvitað ömurleg staða fyrir stofnun sem hefur byggt alla sína tilveru á því að vera í öndunarvél hjá ríkisvaldinu. Hvernig er hægt að ætlast til þess að svona stofnun geti plumað sig á eigin forsendum? Þetta vita forstjórar Ríkiskirkjunnar og þetta hræðast þeir ósegjanlega mikið.

Þetta er ekki fögur upptalning ef þú ert agent Ríkiskirkjunnar. Hins vegar er þetta nokkuð rétt lýsing á stöðunni hjá þjóð sem er að vakna af trúardoðanum og byrjuð að taka sjálfstæða afstöðu til trúar. Þjóðar sem ekki lætur sér lengur það að góðu verða sem að henni var rétt þegar hún var í leikskóla.

Það eru spennandi tímar í hönd. Ríkiskirkjan mun minnka til mikilla muna, en hún mun síður en svo hverfa því þrátt fyrir allt er töluverður fjöldi Íslendinga sem telur sig eiga samleið með henni (þótt Ríkiskirkjan sjálf trúi því ekki). Aðrir Íslendingar munu binda trúss sitt við önnur trúfélög, sem er alveg ágætt. En sá hluti þjóðarinnar sem opinberlega verður talinn sem vantrúaður eða trúlaus mun stækka óðfluga. Röng tölfræði Hagstofunnar verður leiðrétt og allir munu vel við una :)

Amen.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband