"Breytingin er íþyngjandi fyrir trúfélögin og gengur gegn hagsmunum barnsins."

Þetta segir aðalbiskup Ríkiskirkjunnar í umsögn sinni um 509. þingmál um trúfélög. Hann forgangsraðar þessu alveg hreint prýðilega vel þarna þegar hann telur hagsmuni kirkjunnar upp á undan hagsmunum barnsins. Honum eru s.s. hagsmunir Ríkiskirkjunnar ofar í huga en hagsmunir barnsins, en eitthvað í þróunarmynduðu vantrúar- og guðleysissiðferði mínu segir mér að þessu ætti að vera öfugt varið.

Alþingi stendur nú á þeim tímamótum að geta afnumið það mannréttindabrot sem felst í ríkisskráningu barna í trúfélag sem hingað til hefur venjulega verið Ríkiskirkjan. Þannig hefur ríkið raðað á garða Ríkiskirkjunnar og skapað henni þannig, án nokkurrar fyrirhafnar af hennar hálfu, trúarskattsstofn til framtíðar. Biskup veit mætavel að fæstir myndu greiða trúarskattinn til Ríkiskirkjunnar sjálfviljugir sem sést best í varnaðarorðum hans í umsögn til Alþingis árið 2002 þegar það var skoðað að þeir sem stæðu utan trúfélaga greiddu engan trúarskatt:

Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun.

Biskup vissi sem var að stórfelldur halli yrði debet megin í bókhaldi Ríkiskirkjunnar þegar tugþúsundir Íslendinga myndu renna á flótta og spara sér þannig nokkra þúsundkalla árlega, en þetta eru einmitt Íslendingarnir sem hafa verið lokaðir inni í þessu kerfi með ríkisskráningu ungbarna í trúfélag. Algjörlega er ótækt í hans huga að menn hafi af því fjárhagslegan ávinning að standa utan trúfélaga ... slíkt getur ekki vitað á gott!

Aldrei hvarflar af biskupi að láta reyna á greiðsluvilja kristinna með því að Ríkiskirkjan sjálf sendi út sína eigin greiðsluseðla. Hann hefur nefnilega enga trú á því að fólk myndi almennt borga. Sá horfellir sem hann sér fyrir sér er skelfilegri en plágurnar sjö allar samanlagðar! Greiðsluseðlar Ríkiskirkjunnar myndu almennt gulna og tærast frekar en að verða greiddir, þetta veit biskup og því vill hann að trúarskatturinn sé lagður á alla, óháð trú, enda er hún aukaatriði í rekstrarlegu samhengi þess foráttufleys sem Ríkiskirkjan er.

Ég vona að alþingismenn sjái í gegnum sorgarsífur biskups og hyggi frekar að hagsmunum þeirra skjólstæðinga sinna sem ekki geta tjáð sig, nýfæddu barnanna. Ég vona að þeir sjái sanngirnina í því að börnin sjái sjálf um skráningu í trúfélög þegar þau hafa aldur og þroska til í stað þess forneskjulega fyrirkomulags sem nú er við lýði. Þá vona ég að þeir sjái að núverandi fyrirkomulag er hannað fyrir trúfélög, ekki sauðina, og að í núverandi kerfi eru sauðirnir pikkfastir í svo fjárheldri greiðslurétt að engum er þaðan undankomu auðið nema þegar dauðinn knýr dyra og réttir fram lokagreiðsluseðilinn til innheimtu!

Hagsmunum barna okkar er best borgið með því að þau ákveði sinn veg sjálf. En biskupinn hefur ekki þá trú á tilboði Ríkiskirkjunnar að það muni laða að sér börnin og því vill hann að þeim sé sjálfkrafa steypt í greiðsluréttina þar sem, m.a. fyrir hans orð, þau þurfa að dúsa og borga allt til dauðadags.

En af hverju ættu Íslendingar almennt að hafa trú á tilboði Ríkiskirkjunnar fyrst biskupinn sjálfur sér engin verðmæti í því? Mér er spurn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.4.2012 kl. 20:21

2 Smámynd: Reputo

Sammála, og við skulum ekki gleyma því að biskup er ekkert annað en launaður hagsmunagæsluaðili svipað og Friðrik Arngrímsson hjá LÍÚ, talsmenn tóbaks- olíu- og skotvopna iðnaðanna í Ameríkuhreppi o.s.frv. Markmið þessara manna er hægt að telja á fingrum annarar handar og þau eru að setja þrýsting á þingmenn varðandi lagabreytingar, fegra ímynd viðkomandi stofnunar og sjá til þess að peningaflæðið hætti ekki. Ef menn halda að biskup sé eitthvað öðruvísi ættu þeir að kynna sér störf hans undanfarin ár. Maður fær óbragð í munninn við lestur umsagnar hans.

Reputo, 2.4.2012 kl. 21:43

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm nákvæmlega, fyrst og fremst eiginhagsmunaseggur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.4.2012 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband