Ríkiskirkjan í ólgusjó

Hnugginn ...Skv. kvöldfréttum Stöðvar 2 mánudaginn 10. október sl. hafa Sameinuðu þjóðirnar gert athugasemd við það sjálftökufyrirkomulag sem Ríkiskirkjan nýtur í leik- og grunnskólum landsins. Sagt er að það brjóti gegn almennum mannréttindum hvernig kirkjan hefur getað látið greipar sópa um saklausa hugi barna sem engar forsendur hafa til þess að meta hvort kristin trú sé eitthvað sem henti þeim (dramatísk framsögn er mín). Í fréttatímanum var þetta sagt:

Þjóðkirkjan er sögð eiga of greiðan aðgang að grunnskólum.

Það blæs því ekki byrlega fyrir þessari 'meginstoð' í íslensku samfélagi sem margir vilja kalla. Hvert hneykslismálið rekur annað; biskup er í ólgusjó, nýtt frumvarp er í burðarliðnum sem tekur fyrir vélræna Guðsregisteringu nýfæddra barna og kirkjunni eru settar eðlilegar skorður í aðkomu hennar að leik- og grunnskólabörnum til þess að bæta mannréttindabrot sem Sameinuðu þjóðirnar staðfesta í nýrri skýrslu. Nú er ómögulegt um að segja hvernig Ríkiskirkjunni tekst að nýliða í raðir sínar þegar búið er að hefta aðgang hennar að litlu börnunum og gefa þeim þannig sjálfsagt tækifæri til þess að taka upplýstari ákvörðun um trúmál seinna meir. Ljóst er hins vegar að forstjórar hennar eru svartsýnir á að þjóðin muni flykkjast að Þjóðskránni til þess að skrá sig um borð í trúarskútuna.

Ef ég færi fyrir Ríkiskirkjunni, þá myndi ég ákalla almáttugan Guð og biðja hann um hjálp, en líklega gæti ekki einu sinni hann snúið þessari þróun við! :)


Nú er mikilvægt að ráðherra standi í lappirnar!

Árið 2009 sagðist þáverandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, ætla að afnema þennan ójöfnuð og mannréttindabrot. Hún náði þó ekki að standa í lappirnar og málið náði ekki í gegn.

Ég vona að innanríkisráðherra verði betur ágengt í þetta sinn, enda er þetta ein ógeðfelldasta aðferð til þess að innlima einstaklinga í félög sem um getur. Ráðherra fær baráttukveðjur frá mér og jafnvel óskir um Guðs blessun ef það hjálpar eitthvað!


mbl.is Sjálfvirk skráning í trúfélög afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátur og gnístran sannkristinna tanna

Jón Valur Jensson, páfiKristni þjóðarflokkurinn (lesist: Jón Valur Jensson) kvartar sárt undan því að kristni muni missa spón úr aski sínum ef öðrum lífsskoðunum fólks verði gert jafn hátt undir höfði. Þetta þarf auðvitað ekkert að koma á óvart, enda sannkristnir vanir því að njóta hvers konar forréttinda, hlunninda og gæða sem öðrum hefur ekki staðið til boða og Kristni þjóðarflokkurinn (lesist: Jón Valur Jensson) er bara tákngervingur þess í þessu samhengi. Reyndar er það svo að þessi forgjöf hefur í gegnum árhundruðin verið lífæð trúarinnar og ekki hvað síst á allra síðustu árum þegar það fjarar undan henni með ótrúlegum hraða þrátt fyrir allar þær varnir sem um hana eru slegnar.

Kristni þjóðarflokkurinn (lesist: Jón Valur Jensson) telur að það sé ekki fullgild lífsskoðun að hópa sér saman um virðingu fyrir manninum, sýna öðrum kærleika og tillitssemi og koma hreinlega fram við aðra með sanngirni og hluttekningu. Sökum þess að það er ekki búið að skella ímynduðum og ósýnilegum vini ofan á þessa lífssýn, þá er hún einskís virði. Hún hljóti að vera einskís virði sökum þess að fólk sem aðhyllist hana gerir það af fúsum og frjálsum vilja í stað þess að beygja sig undir hana í ógnarlegum lífsótta við ægilega hefnd yfirvaldsins ef viðkomandi fer út af sporinu. Svo hlýtur það auðvitað að vera hálf kjánalegt að reyna að vera góður í þessu lífi nema þú eygir von um stórkostleg verðlaun í því næsta. Að vera góð manneskja án þess að skara eld að eigin 'handan-lífs-köku' er náttúrulega fáránleg vitleysa og ætti því ekki að geta talist alvöru lífsskoðun.

Kristni þjóðarflokkurinn (lesist: Jón Valur Jensson) getur þó hreinlega ekki séð er að lögin eiga auðvitað að ganga í hina áttina, þ.e. að afnema forréttindi allra trúfélaga. Ég er klár á því að Jón Valur telur ekki eftir sér að borga sín klúbbgjöld í sína kirkju án þess að ríkið hafi um það milligöngu, en hver veit? Máské veit hann innst inni að hann myndi kannski eyða þessum krónum í slikkerí og gos ef hann hefði um það val. Kannski? En það er gott að hann hafi ekkert val því þannig streyma spesíurnar í gilda sjóði trúfélaganna, altént þessara 'alvöru' trúfélaga sem telja sína félaga í milljónum og milljörðum, en eins og allir vita er hans helsta huggun í lífinu sú að tilheyra einum stærsta trúarklúbbi heimsins, að vera sauður í einni stærstu hjörðinni.

Kristni þjóðarflokkurinn (lesist: Jón Valur Jensson) ýjaði að því um daginn að þessi sofandi dreki myndi brátt bregða blundi og vippa sér fram á sjónarsviðið, væntanlega til varnar öllum 'alminlegum' lífsskoðunum (lesist: kristnum). Ég vona reyndar að svo verði því þá verður raunverulega hægt að sjá hversu fáir aðhyllast þær öfgaskoðanir sem flokkurinn stendur fyrir.

Það verður skondið :)


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamlegur fulltrúi kristinna gilda

Michele Bachmann og mannvitsbrekkan Sarah Palin eru dásamlegar sendingar, beint úr Guðs ranni.

En þrátt fyrir að þær séu skondnar í takmarkalítilli vitleysu sinni, þá væri það algjör bölvun fyrir gjörvalla heimsbyggð ef önnur þeirra næði kjöri sem forseti BNA. Reyndar er það þannig með Michele Bachmann að í raun yrði maðurinn hennar kjörinn því hún, sem góð og gegn kristin kona, telur að hún þurfi að lúta hans vilja í einu og öllu. Enda er það svo að hann hefur stýrt henni eins og viljalausu vélmenni í gegnum þann frama sem hún hefur notið. Kellingargreyið virðist bara ekki geta tekið sjálfstæða ákvörðun skv. því sem hún segir sjálf!

Já, sannarlega er hún frábær sending beint úr himnaranni :) ... eitt það besta sem kristnir geta teflt fram þar ytra!


mbl.is „Enga samkynhneigða í herinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunun í skólakerfinu

Í myndinni Mad Hot Ballroom er fylgst með nokkrum 10-11 ára gömlum börnum í New York þar sem þau taka þátt í dansnámskeiðum í boði grunnskólans þar í borg. Námskeiðin standa öllum nemendum til boða, en samt ekki, því alltaf eru einhverjar undanskildir vegna 'trúar' þeirra.

Það eru til mýmörg dæmi um hliðstæða mismunun í leik- og grunnskólum hér heima þar sem 'öðruvísi trúuð' börn eru tekin frá þegar 'rétttrúuðu' börnin fara t.d. í kirkjuferð eða fá prestinn í heimsókn til þess að árétta við þau að Jesús sé besti vinur barnanna.

Er svona vitleysa boðleg í dag? Er þetta virkilega það sem leik- og grunnskólar eiga að standa fyrir, að stuðla að mismunun á grundvelli ímyndaðrar trúarsannfæringar smábarna? Það er skiljanlegt þegar fullorðið fólk tekur slíkar ákvarðanir fyrir sjálft sig, en algjörlega óskiljanlegt þegar börnin þurfa að líða fyrir svona.

Það er vegna þessa og margs annars sem tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar þurfa að fá framgöngu þótt ögn útþynntar séu í dag og bitlausari en þær ættu að vera.

PS. Trúuð börn eru ekki til! Hins vegar eru til börn sem telja sig trúuð vegna þess að fullorðnir einstaklingar hafa sagt þeim á hvaða guð í allra guðaflórunni þau skuli trúa. Sorglegt er að til er fjöldi fólks sem gerir sér þessa 'trúarsannfæringu' barnanna að góðu og gerir hana t.d. að andlagi margvíslegrar mismununar og flokkunar.


Ríkiskirkjan

Og svo eru til þeir sem segja að það sé ekki ríkiskirkja á Íslandi :)

Ríkiskirkjan

 Sjá: stjornlagarad.is/starfid/frumvarp


Meirihluti Íslendinga í Gallupkönnun vill láta slíta í sundur ríki og Ríkiskirkju

Spurt var: "Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðskilnaði ríkis og kirkju?" Könnunin var gerð í kringum mánaðamótin júní-júlí af Capacent Gallup  sem hluti af Þjóðarpúlsinum. Fjöldi svarenda var rúmlega 1300. Meirihluti landsmanna vill skilja að ríki og Ríkiskirkju, samkvæmt henni:

  • 58,0 prósent sögðust hlynnt því að skilið yrði á milli.
  • 20,0 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg.
  • 22,0 prósent sögðust andvíg því að skilið yrði á milli.

Til hamingju, Íslendingar! Þetta eru góðar fréttir fyrir þá, sem unna Íslandi, íslenskri þjóð, trúfrelsi og réttlæti.*

* Þessi niðurstaða hlýtur að vera afgerandi marktæk sé tekið mið af túlkun á annarri könnun sem gerð var nýverið.


Ertu skráð(ur) í Ríkiskirkjuna, en veist ekki hvers vegna?

Mikill meirihluti þess fólks sem skráð er í Ríkiskirkjuna er þar vegna þess að það var skráð í hana við fæðingu, en örlítill minnihluti hefur óskað sérstaklega eftir því að verða skráð til leiks þar. Ég hvet alla sem þannig er ástatt um að velta því vel fyrir sér hvort sú skráning endurspegli raunverulegan vilja þeirra og ef svo er ekki, að gera þá bragarbót á. Þetta er einfalt réttlætismál og leiðrétting á fyrirkomulagi sem aldrei hefði átt að verða að veruleika. Það er ekkert nema kolrangt að ætla það að smábörn erfi trú móður sinnar, en þannig er kerfið reyndar sett upp hér heima. Að þessu er stuðlað með öllum tiltækum ráðum og helst með því að innræta fólki hina sk. barnatrú.

Hér eru góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að skrá sig úr Ríkiskirkjunni á Netinu. Mundu að ef þú hefur velþóknun á því sem Ríkiskirkjan hefur fram að færa, þá skaltu ekki breyta þessari skráningu. Ef þér er hins vegar sama, sem er lang líklegast, eða ert hreinlega andsnúinn því sem Ríkiskirkjan stendur fyrir, þá er sannarlega kominn tími til þess að breyta þessari skráningu!


Íslendingar eru forritaðir til þess að trúa á Guð

LífsspursmálFram kemur í könnun Gallup að mikill meirihluti Íslendinga trúi á Guð eða æðri máttarvöld.

Þetta kemur auðvitað ekki á óvart sé haft í huga hversu yfirþyrmandi mikil trúarlega innrætingin hefur verið á undanförnum árum. Lengi býr að fyrstu gerð, segir einhvers staðar, og það veit Ríkiskirkjan vel.

Og hvernig er þessari 'yfirburðastöðu' náð? Jú, með því að skrá öll börn í trúfélag móður (sem er venjulega í Ríkiskirkjunni), með því að herja á þau í leik- og grunnskólum þar sem þeim er vendilega talin trú um að Jesús sé besti vinur barnanna af sendiherrum Jesúss og með því að smala krakkaræflunum svo í gegnum fermingarfræðsluna þar sem þau eru látin kvitta undir býsna stór og afgerandi loforð. Í raun eru stórmerkilegt að 99% þjóðarinnar skuli ekki segjast vera endurfædd dag hvern í Jesúsi.

En í dag er að flæða undan trúnni og vendipunkturinn verður þegar skilið verður á milli Ríkiskirkjunnar og ríkisins. Þegar ekki verður hægt að herja á smábörnin í leik- og grunnskólum þegar þau hafa ekkert vit til þess að taka upplýsta afstöðu til tilboðs Jesúss og þegar þau hafa ekki verið skráð óforspurð í trúfélag móður.

Dropinn holar steininn, þetta er allt á réttri leið. Mikill meirihluti þjóðarinnar vill aðskilnað ríkis og Ríkiskirkju annars vegar og skóla og Ríkiskirkju hins vegar. Það tekur smá tíma að vinda ofan af innrætingu áratuganna og aldanna sem á undan eru gengin, en það mun takast fyrr en síðar.


mbl.is Íslendingar trúa á Guð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um samband ríkis og kirkju

Þegar fjallað er um samband ríkis og kirkju í tengslum við endurskoðun á stjórnarskrá, þá er eitt atriði sem vegur lang þyngst og það er réttur hvers einstaklings til trúfrelsis, hvort sem er til trúar eða vantrúar.

Með því að fjarlægja úr stjórnarskrá öll ákvæði sem varða þjóðkirkjuna sérstaklega, en halda inni og styrkja þau ákvæði sem tryggja öllum þetta frelsi, er verið að stuðla að heilbrigðara þjóðfélagi sem einkennist af jöfnuði. Að hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá brýtur á réttindum þeirra sem annað tveggja trúa ekki eða taka ekki afstöðu til trúar. Slíkt ákvæði þjónar bara þeim hluta þjóðarinnar sem trúir, en hver er tilgangurinn? Af hverju þarf eitt afbrigði átrúnaðar sérstaka vernd ríkisins? Gegn hvaða öflum stendur þessi átrúnaður svo veikur fyrir að hann þarf fulltingi ríkisvaldsins í vörnum sínum? Ég fullyrði að helstu meinsemd þjóðkirkjunnar sé í raun að finna innan vébanda hennar sjálfrar í hópi þess fólks sem telur hana svo veika, hefur í raun svo litla trú á henni, að henni verði ekki lífs auðið nema undir verndarvæng ríkisins. Þetta fólk er helsti dragbítur þjóðkirkjunnar í dag og það á ekki að binda birtingarmynd fordóma þess og vantrúar í stjórnarskrá.

Ég bendi á áhugaverða mynd á wikipedia.org, en hún sýnir yfirlit yfir þau lönd sem enn hafa þjóðkirkjur. Þetta er fámennur klúbbur og það fækkar óðum í honum. Íslendingar eiga að skipa sér í raðir þeirra sem meta trúfrelsi að verðleikum og skera á tengsl ríkis og kirkju því trúfrelsi er ekki einungis frelsi til þess að velja sér yfirnáttúrulegan átrúnað, það er í jafn ríkum mæli frelsið til þess að hafna öllum átrúnaði eða hreinlega standa algjörlega á sama um trú. Stjórnarskrárverndaður átrúnaður gagnast aðeins hluta þjóðarinnar á meðan fullkomið trúfrelsi gagnast henni allri.

Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp nútímalegt viðhorf þegar kemur að trúmálum og fylgjum í fótspor þeirra þjóða sem stigið hafa það heillaskref að koma á fullkomnu trúfrelsi. Það væri nöturlegt og ömurlegt hlutskipti að daga uppi sem nátttröll í samfélagi þjóðanna með ríkisverndaðan átrúnað á meðan framsæknar þjóðir hafa tryggt þegnum sínum eðlilegt frelsi í trúmálum.

---

Erindi á vef Stjórnlagaráðs: http://stjornlagarad.is/erindi/nanar/item33633/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband