Laugardagur, 7. maí 2011
Afsökunarbeiðni
Föstudagur, 22. apríl 2011
Kaþólskir barma sér
Í frétt á Reuters kemur fram að forstjórum kaþólsku kirkjunnar þykir að sér vegið þegar þeir fá ekki umvöndunarlaust að ausa úr djúpum og myrkum fordómabrunni sínum yfir samkynhneigða. Einn af millistjórnendunum í Vatikaninu, Silvano Maria Tomasi, bar sig sérstaklega aumlega á fundi hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og þótti miður að kaþólska kirkjan þyrfti að sæta átölum fyrir linnulausar og ljótar árásir á samkynhneigða. Eymingja Silvano.
Honum finnst það vera grundvallar mannréttindi að geta hrakyrt, smánað og gert lítið úr stórum þjóðfélagshópi og telur alveg ótækt að aðrir skuli hafa rétt til þess að segja kirkjunni til syndanna vegna þessa.
Við höfum öll mikla samúð með kaþólsku kirkjunni í þessu efnum, reikna ég með, og þá sérstaklega þegar spjátrungurinn Silvano bendir á að ríki geti nú vel sett lög gegn óeðli samkynhneigðarinnar. Hann segir orðrétt; "En ríki geta og verða að lögstýra hegðun, þ.m.t. hvers konar kynferðislegri hegðun."
Svo klykkir þessi dásamlegi dánumaður út með því að setja samkynhneigð flokk með barnagirnd og sifjaspelli og segir óbeint að það verði hreinlega að banna hana með lögum.* Þessi flokkun á samkynhneigð tíðkast víða og þ.m.t. hér heima þar sem besti kaþólikki í heimi flokkar t.d. barnagirnd óhikað og vífilengjulaust með samkynhneigð, sbr. þessa grein.
Guð blessi okkur öll og sérstaklega kaþólikkana sem eru óþreytandi í baráttu sinni gegn samkynhneigðum þar sem þeir ganga alveg örugglega erinda himnaþrenningarinnar. Ég er viss um að þeir eiga í vændum sérstakan stað hjá Jesúsi Jósepssyni fyrir verk sín.
* Þegar því er lokið, þá mun hann mæla fyrir því að jörðin verði aftur talin flöt og að hún sé miðja alheims. Svo mun hann stinga upp á því að sala aflátsbréfa verði tekin upp aftur því einhvern veginn verður að vera hægt að hvítþvo svarta samvisku kaþólikka í framtíðinni og hvað er betra til þess en skínandi flott aflátsbréf frá www.páfinn.is?
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Dropinn holar steininn
Það er ekki undarlegt að forstjórar Ríkiskirkjunnar séu áfjáðir í að komast í veiðilendurnar í leik- og grunnskólunum því þeir finna vel að nú fjarar hratt undan bákninu. Þrátt fyrir fádæma meðgjöf undanfarnar aldir, þá fækkar óðum í sauðahjörð Ríkiskirkjunnar, enda skynjar fólk að það er holur hljómur í boðskap hennar.
Íslensk þjóð þarf að standa í lappirnar og halda trú fyrir utan veggja skólanna enda á hún ekkert erindi þar. Trúuðum er auðvitað frjálst að innræta börnum sínum trú heima hjá sér, sá réttur hefur ekki verið tekinn af þeim, en vissulega ættu þeir að sleppa því og leyfa barninu að ráða sínum málum sjálfu þegar það hefur aldur til.
Dæmin sýna bara að trúaðir foreldrar nenna ekki að tala um trú við börn sín og því sækir Ríkiskirkjan sem áróður sinn í leik- og grunnskólana þar sem litlu börnin geta ekki greint á milli þeirra staðreynda sem þeim eru kynntar í almennu námsefni og hindurvitnanna og furðusagnanna sem prestarnar færa á borð. Þetta líkar Ríkiskirkjunni vel, enda eru litlu börnin auðveld bráð, og í þeim plantar hún ólánsfræinu sem spírar upp í að verða þessi svokallaða barnatrú sem svo margir eiga, en vita ekki hvers vegna, og ruglar bara marga í ríminu.
En fréttir dagsins eru góðar og fyrir það ber að þakka! Guði, jafnvel?
Fækkar í þjóðkirkjunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 9. apríl 2011
Vantrúarbingó um páskana
Ég hvet alla til þess að mæta í Vantrúar-bingóið um páskana, enda er þetta léttur og skemmtilegur leikur sem allir geta tekið þátt í. Líklegt er að skondin og skrýtin verðlaun verði í boði þannig að eftir einhverju er að slægjast. Þá er boðið upp á fínar veitingar í ofanálag.
Sumir spyrja sig oft í hinum ýmsu kringumstæðum hvað Jesús myndi gera og í þessu tilfelli er því auðsvarað ... hann myndi auðvitað skella sér í bingó á páskum :)
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. mars 2011
Tapararnir í Stjórnlagaþingskosningunni
Mér finnst óhemju skondið að fylgjast með málflutningi örfárra þeirra sem töpuðu í kosningu til Stjórnlagaþings. Daginn eftir að þjóðin hafnaði þessum einstaklingum, yfirleitt með afar afgerandi hætti, byrjuðu þeir að gera lítið úr Stjórnlagaþingi og voru svo ekki lengi að hoppa á Hæstaréttarskútuna og eru nú sammála því að kosningarnar hafi verið svo ólöglegar og svo bjagaðar að við ættum helst að leita ráðgjafar hjá gömlum austantjaldsþjóðum í þeim efnum í framtíðinni. Þetta er einstaklega kjánalegt og barnalegt.
Ég get vel skilið að það hafi verið sárt að vera hafnað, en þetta er bara kjánalegt og viðkomandi aðilum til hraklegrar minnkunar. Jafnið ykkur og snúið ykkur að verðugri málum!
Sjálfur vona ég að Stjórnlagaráð muni koma saman hið fyrsta og samþykkja að aðskilja skuli ríki og Ríkiskirkju hið snarasta, en það samband er grasserandi mein í samfélagi okkar.
Og svo mörg voru þau orð!
Fimmtudagur, 24. febrúar 2011
Lygar, fjárans lygar og lélegar skoðanakannanir!
Um daginn vældi bloggari nokkur og var eymingjalegur vegna þess að fram kom skoðanakönnun hverrar niðurstöður voru ekki í samræmi við hans sýn á málin. Skoðanakönnun þessi var unnin af markaðsrannsóknafyrirtækinu MMR, en það gefur sig út fyrir að beita viðurkenndum aðferðum og vanda vinnubrögð sín.
Máli sínu til stuðnings vísaði bloggarinn aumi á könnun sem Útvarp Saga framkvæmdi á vef sínum. Þeirri könnun svaraði væntanlega sú hjörð fólks sem hlustar á þá stöð og er á engan hátt þverskurður íslenskrar þjóðar. Þetta gerir bloggarinn oft þegar niðurstöður kannana Útvarps Sögu falla að hans sjónarmiðum og einnig fá niðurstöður kannanna Íslands í dag á visir.is að fljóta með.
Vandamálið er að skoðanakannanir Útvarps Sögu og Íslands í dag eru gjörsamlega ómarktækar. Þær ganga gegn öllum góðum venjum og starfsháttum við gerð skoðanakannana og eru þannig skaðleg innlegg í umræðuna því þær bera á borð bjagaðar og rangar niðurstöður sem skekkja umræðuna. Sumpart hafa þær kannski gott skemmtana- og afþreyingargildi, en er þá ekki bara betra að segja góðan brandara?
Ég hef áður gert þessum ruslkönnunum skil í pistli, en tel rétt að ítreka þetta aftur. Almenningur er oft berskjaldaður þegar kemur að upplýsingum og margir taka því sem birtist t.d. á bloggvefjum sem áreiðanlegum sannleika. Fátt gæti þó verið fjær sannleikanum þegar kemur að svona netkönnunum.
Því er ráð að biðja bloggara og aðra að gæta hófs þegar kemur að því að birta niðurstöður netkannana sem staðreyndir. Það má að sumu leyti líkja þessu við hreinar og klárar lygar, enda veit þetta fólk innst við beinið að það er að færa hálfsannleik á borð, en gerir það samt því hann þjónar tilgangi sínum vel.
En kannsi er stundum leyfilegt að ljúga? Kannski helgar tilgangurinn stundum meðalið?
Þriðjudagur, 22. febrúar 2011
Traust þjóðar til Ríkiskirkju dalar enn
Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sést að Ríkiskirkjan nýtur stuðnings 33% þjóðarinnar sem hlýtur að teljast áfellisdómur yfir stofnun sem fær jafn mikla meðgjöf frá ríkinu og raun ber vitni. Á sama tíma vilja 75% þjóðarinnar aðskilnað á milli ríkis og Ríkiskirkju.
Áhugavert er að skoða þessar tölur í samhengi við það að ekkert fyrirbæri á Íslandi nýtur jafn mikilla forréttinda og Ríkiskirkjan. Vert er að hafa eftirfarandi í huga:
Langflestir Íslendingar voru skráðir í Ríkiskirkjuna við fæðingu. Þetta hefur þó ekkert með trúarstaðfestu að gera, enda fer þessi skylduskráning eftir trúfélagi móður sem að sama skapi hafði ekkert um hana að segja.
Ríkið innheimtir ófáa milljarða á ári fyrir Ríkiskirkjuna í klúbbgjöld. Hún er því afar vel fjármögnuð og líður ekki skort, svona veraldlega séð. Almenn samstaða virðist þannig vera um það að trúaðir muni aldrei borga félagsgjöld í trúfélag sitt og þess vegna eru þessir trúarskattar innheimtir með almennum sköttum. Þó er undarlegt að hugsa til þess að fólk greiðir sjálfviljugt félagsgjöld í íþróttafélögum, spilaklúbbum, félagasamtökum o.s.frv.
Ríkistrúin er beinlínis boðuð í leik- og grunnskólum. Möguleikar Ríkiskirkjunnar til þess að innræta litlum börnum trú hafa í gegnum tíðina verið fáheyrðir. Hún hefur notið þess að geta, fyrirvaralaust, fullyrt það við leik- og grunnskólabörn að Jesús sé besti vinur barnanna, einmitt á þeim aldri þegar þau gagnrýna ekkert sem fyrir þeim er haft, sérstaklega í skólanum. Hafa ber í huga að Ríkiskirkjan hefur aldrei barist fyrir því að fá að fara í tíma hjá háskólastúdentum og boða Ríkistrúna þar, enda yrði eftirtekjan rýr og það veit hún. Nei, ómótaðir hugar leik- og grunnskólabarna henta best fyrir trúarlegt innræti, það vita allir.
Börnum er smalað í ferminguna. Á ákveðnum tímapunkti í lífi grunnskólabarna hefur þeim verið smalað saman, purrkunarlítið, og troðið í gegnum fermingarfræðslu. Ekki er langt síðan að þessi fræðsla fór m.a.s. fram á skólatíma í mörgum tilfellum. Ég man t.d. þegar ég bægslaðist um á þessu færibandi að okkur var gert að mæta minnst 10x í kirkju á tímabilinu og taka helst foreldra með. Það er ekki nema von að enn mælist einhver kirkjusókn þegar stórum hópum barna og foreldrum þeirra er gert að mæta.
Ríkismessur í Ríkisútvarpi. Á Íslandi nýtur Ríkiskirkjan þeirra forréttinda að geta komið áróðri sínum til pöpulsins í gegnum ríkisstyrktan fjölmiðil. Það er nefnilega þannig að það nægir ekki að hafa kirkju í hverju hverfi þar sem kirkjubjöllur valda ónæði og óyndi í tíma og ótíma. Nei, það þarf líka að útvarpa messunum.
Í ljósi alls þessa er það stórmerkilegt að einungis þriðjungur þjóðarinnar skuli treysta Ríkiskirkjunni. Sjálfur hefði ég haldið að þessi tala ætti að vera 60-70%, eingöngu vegna þess hve öflug áróðurs- og innréttingarmaskína hennar er. En þrátt fyrir þessa maskínu eru 67% þjóðarinnar á því að Ríkiskirkjan sé ekki traustsins verð og 75% þjóðarinnar vilja rjúfa tengsl hennar við ríkið.
Ef ég væri forstjóri Ríkiskirkjunnar þá hefði ég miklar áhyggjur af þessu og myndi íhuga það vel að krefjast þess að allir væru látnir játa Ríkistrúna með lagaboði og jafnvel e.k. trúarlögreglu. Það virðist vera það eina sem gæti mögulega bjargað henni og í raun eina ríkisúrræðið sem Ríkiskirkjan hefur ekki nýtt sér hingað til.
En auðvitað ætti hann frekar að hlusta á þjóð sína og verða við óskum hennar. Væri það ekki hið kristilega í stöðunni?
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
Hvað er einstakt við kristið siðferði?
Ég skora á alla þá sem telja sig fylgjandi þessu gönuhlaupi þingmannanna ginnheilögu að skilgreina hér í athugasemd hvað það er sem er einstakt við kristið siðferði. Hvað hefur kristið siðferði umfram almenna kurteisi og góða mannasiði? Af hverju geta kristnir foreldrar ekki náð sjálfir í Nýja testamentið og gefið börnum sínum? Af hverju geta þeir ekki sjálfir lufsast í kirkju með börnin sín?
Komið nú með alvöru svör en ekki bara 'það er bara eitthvað svo fallegt' eins og Guðni Ágústsson jarmaði ámátlega þegar spyrill í Kastljósi gekk á hann í fjórða skipti eftir svari við þessari sömu spurningu. Guðni, þrátt fyrir að vera skjaldsveinn kristins siðferðis í þessum umrædda Kastljóss-þætti, vissi ekki sjálfur hvað var svona einstakt við þetta sk. kristna siðferði.
Látið nú í ykkur heyra! Hvað er svona merkilegt við kristið siðferði?
Starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Sunnudagur, 19. desember 2010
Kaþólikkar og samkynhneigð börn í 10. bekk
Í dæmigerðu kaþólsku ólundarkasti hampar Jón Valur Jensson, aðal kaþólikki Íslands, því að aðeins 2% stráka í 10. bekk hafi sofið hjá sama kyni og aðeins 1% stúlkna skv. nýlegri könnun. Þessu slær hann fram til þess að sýna fram á að samkynhneigðir séu svo lítill hópur að þeir eigi engan rétt á því sem við teljum vera sjálfsögð og eðlileg réttindi.
Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2008 kom í ljós að 4% kjósenda sögðust vera samkynhneigðir og það í 'sannkristnasta' landi heims. Það má gera ráð fyrir að Íslendingar séu eins innréttaðir og Bandaríkjamenn þegar kemur að kynhneigð, enda er mannskepnan afar einsleit skepna, svona heilt yfir litið. Út frá því má ætla að 12.694 Íslendingar hafi verið samkynhneigðir 1. janúar 2010. Á sama tíma voru 9.672 sálir skráðar á galeiðu kaþólskunnar hérlendis. Þannig voru rúmlega 3 þúsund fleiri Íslendingar samkynhneigðir en kaþólskir. Líklega eru sumir kaþólikkanna hýrir í þokkabót, en þora bara ekki að viðurkenna það sökum sleggjudómara á borð við Jón Val.
Ef samkynhneigðir, sökum fæðar sinnar, eiga ekki skilin sjálfsögð og eðlileg mannréttindi eins og flest okkur skynjum þau, af hverju ætti þá ekki að neita kaþólikkum um þessi sömu réttindi? Kaþólikkar eru, jú, bara lítill sértrúarsöfnuður sem heldur fram öfgakenndum skoðunum á íslensku samfélagi og leggst gegn baráttu annarra minnihlutahópa fyrir sjálfsögðum réttindum.
Ég bara spyr :)
PS. Ástæða þess að ég skrifa þetta hér en ekki sem athugasemd hjá Jóni Val er sú að hann útilokaði mig frá skrifum á bloggvef sínum og er ég þar í hópi fjölda fólks sem hefur kveðið kallskarnið í kútinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hann er ólatur að bregða bannsleggjunni á loft þótt enginn jarmi sárar en hann þegar hann sjálfur kennir á eigin meðölum, en Jón Valur er enn mest bannaði bloggari hér á Moggablogginu sökum öfgakenndra skoðana sinna. En það er gaman að sjá að réttsýnir bloggarar eru að veita Jóni Val nauðsynlegt aðhald í athugasemdaþræðinum sem fylgir ólundarkastinu hans.
PSS. Svo er auðvitað verðugt að velta fyrir sér hvaða fróun Jón Valur fær út úr því að skrifa um meinta fæð samkynhneigðra skólabarna? Af hverju sér hann ástæðu til þess að leggja 14-15 ára börn í einelti á opinberum vettvangi bara vegna þess eins að þau eru samkynhneigð? Hann gerir að umræðuefni að lífsánægja samkynhneigðra stúlkna í 10. bekk virðist minni en gagnkynhneigðra kynsystra sinna. Getur verið að hann átti sig ekki á því að hann er, með virkum hætti og einbeittum vilja, að stuðla að þessari skelfilegu óhamingju með ljótum og eineltiskenndum skrifum sínum?
PSSS. Loks bendi ég á könnun sem sýnir að í sumum tilfellum er fylgni á milli kirkjusóknar og þunglyndis á meðal nemenda í grunnskólum í Bandaríkjunum. Ég reikna með að Jón Valur muni sýna fram á, fullur af Guðlegri og kaþólskri réttlætiskennd, að allir þessir óhamingjusömu nemendur séu líklega bara allir hommar og lesbíur og því sé óyndi þeirra auðskiljanlegt :)
Trúmál | Breytt 24.12.2010 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (95)
Mánudagur, 29. nóvember 2010
54,6% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna og fer fækkandi, ef ...
Metnaðarleysi agenta Ríkiskirkjunnar hefur lengi farið í taugarnar á mér og þá sérstaklega þegar kemur að staðtölum. Þeir þreytast ekki á því að japla og tönnlast á þeirri staðreynd að um 85% séu skráð í Ríkiskirkjuna og snara þessari staðtölu fram sem Guðs helgaðri sönnun þess að Íslendingar séu að miklum meirihluta til kristin þjóð. Þessir agentar virðast lostnir heilagri blindu þegar þeir vitna í þessa staðtölu því þeir hunsa þá staðreynd að við fæðingu eru allir Íslendingar skráðir í trúfélag móður og að sú ríkisvædda félagaskráning hljóti að skekkja þessa tölu nokkuð. Þarna kemur frjálst val þó ekkert við sögu því 1-2 daga börn velja sér ekki trúfélag upp á eigin spýtur. Það þarf enga snillinga til að selja vöru þegar meirihluta þjóðarinnar er gert að kaupa þessa vöru við fæðingu :)
Því ákvað ég að reikna gróflega út hver staðan væri í dag ef þessari ríkisskráningu á ungabörnum í trúfélög hefði verið hætt árið 1980. Forsendur eru eftirfarandi:
- Í upphafi árs 1980 voru skráðir um 227.000 Íslendingar í þjóðskrá.
- Gefið er að þá hafi 95% þjóðarinnar verið skráð í Ríkiskirkjuna, um 215.000 sálir (þ.m.t. ég!).
- Gefið er að 95% látinna eftirleiðis séu Ríkiskirkjufólk.
- Gefið er að 5% þeirra sem fæðast 1980 eða síðar skrái sig í Ríkiskirkjuna við sextán ára aldur.
Hafa ber í huga að vissulega eru mun fleiri sem telja sig kristna við sextán ára aldursmarkið en þessi 5%. Hins vegar snýst málið ekki um trúfesti þjóðarinnar í þessu tilfelli heldur ginnhelga registu ríkisvaldsins yfir frelsaðar og guðlausar sálir.
Niðurstaðan er sú að í dag væru tæplega 55% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna og færi það hlutfall lækkandi um rúmlega 1% árlega næstu árin. Þannig má ætla að árið 2020 væru rúmlega 40% þjóðarinnar ríkisskráð í ylvolgan faðm Ríkiskirkjunnar. Á þessu sést hversu verðmæt þessi ríkisskráning á ungabörnum er Ríkiskirkjunni því án þessarar sjálfvirku ríkisþreskivélar á akri Drottins myndu hlöður hennar tæmast hratt og örugglega og þar með ríkisáskriftin að sóknargjöldum og öllu því góða lífi sem þeim fylgir.
Hér er hægt að sjá útreikningana á bak við þessa mögnuðu útkomu: Greining 1980-2009.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)