Sunnudagur, 29. apríl 2018
Allt á niðurleið
Tölur um hlutfall Íslendinga sem fengið hafa lögskráningu í trúfélag, flestir í boði vélskráningarþjónustu íslenska ríkisins, fara hríðlækkandi ár frá ári. Grafið hér undir sýnir að fram til ársins 2005 var lítil hreyfing á þessu hlutfalli, en síðan þá hefur það verið í frjálsu falli og eykst hraðinn líklega frá ári til árs úr þessu þegar fækkar nýfæddum börnum sem rennt er í gegnum vélskráningarþjónustuna.
Þetta er bara tímanna tákn og kærkomin leiðrétting á kolröngum staðtölum. Það er nefnilega þannig að staðtölur eiga að vera réttar og gefa góðar upplýsingar um stöðu þeirra mála sem þær taka til. Þegar kemur að trúmálum á Íslandi hafa allar staðtölur verið svo gjörsamlega úr takti við veruleikann að engu lagi hefur verið líkt. En nú rofar til, leiðréttingin er hæg og bítandi, en þróttmeiri með hverju árinu sem líður. Á síðasta ári lækkaði þetta hlutfall um 1,89 prósentustig og er það langmesta lækkun í 20 ár.
Til hamingju, Íslendingar, með sífellt réttari hagtölur frá Trúar- og lífsskoðanaeftirliti íslenska ríkisins. Þetta er að koma ...
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 15. apríl 2018
Nýfæddu börnin æpa eftir Ríkiskirkjuskráningu ...
Á fyrstu þremur mánuðum ársins skráðu 168 einstaklingar í Ríkiskirkjuna á meðan 802 kvöddu hana. Þannig fækkaði félögum í heildina um 634. Ekki há tala, þannig lagað, en þegar haft er í huga að Íslendingum fjölgaði á sama tíma þá er bersýnilegt að hlutdeild Ríkiskirkjunnar á trúarmarkaðnum rýrnaði nokkuð. Væri Ríkiskirkjan skráð í Kauphöllina myndi hún þurfa að gefa út afkomuviðvörun og hlutabréf hennar myndu lækka í verði.
Hins vegar er áhugavert að skoða hvaða fólk það er sem 'skráði' sig í Ríkiskirkjuna. Ef tölur Þjóðskrár eru skoðaðar kemur í ljós að það voru 87 börn undir 15 ára og yngri aldri sem skráðu sig í Ríkiskirkjuna eða um 52% þeirra sem bættust í hópinn þar. Líklega eru nýfædd börn í miklum meirihluta í þessum hópi, sem er skiljanlegt því allir vita að skráning í trúfélag er það fyrsta sem nýfæddir einstaklingar hyggja að.
Af þessum tölum má ráða að Ríkiskirkjan græðir vel á sjálfvirkri skráningu ríkisins á nýfæddum börnum í trúfélög. Allir vita að þetta er auðvitað algjör vitleysa og snýst um allt annað en hag barnsins, en þannig er þetta samt. M.v. þessar tölur eru því árlega skrá um 350-400 nýfædd börn í trúfélag sem þau vita ekki að er til, hvað þá að þau hafi óskað eftir því. Áður fyrr voru þessar tölur mun hærri, en þá var bara farið eftir trúfélagi móður. Nú þurfa báðir foreldrar hins vegar að vera skráðir í sama trúfélag og virðist það eiga að veita góða vissu fyrir því að nýfædda barnið muni tileinka sér sama átrúnað.
Hvernig sem allt veltur þá er verið að vinda ofan af kolröngum staðtölum Trúarregistu ríkisins sem hafa verið falsaðar og afmyndaðar í gegnum tíðina með margvíslegum bellibrögðum. Ekki er langt síðan að rúmlega 90% þjóðarinnar var skráð í Ríkiskirkjuna skv. þessari falsregistu, en nú er það hlutfall komið undir 70%. Á endanum mun þetta hlutfall fara langt undir 50%, en það mun taka tíma. Ég kýs altént að trúa því og enginn getur sagt neitt við því :)
Trúmál | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 5. febrúar 2018
Um sóknargjöld og ráðaleysi lukkuriddara
Þegar Ríkiskirkjan hefur sjálf reynt að innheimta sóknargjöld hefur það alltaf gengið afar illa. Félagsmenn hafa ætíð verið tregir til að gjalda Ríkiskirkjunni það sem hún telur að henni ber og bendir það til þess að félagsmenn telja sig ekki vera að fá sannvirði fyrir peninginn. Svona er þetta hjá öllum öðrum félögum en trúfélögum; þau innheimta félagsgjöldin sjálf og félagsmenn geta sjálfir ákveðið hvort þeir greiði eða ekki.
En ekki Ríkiskirkjan. Óumdeilt er að núverandi fyrirkomulag á ríkisstyrkjum í formi sóknargjalda er tilkomið vegna tregðu Ríkiskirkjufólks til að borga. Þetta gengur jafnt yfir öll trúfélög, en þetta ráðslag er innblásið af stórkostlegri tregðu Hagstofukristinna þegar kemur að því að opna budduna.
Ég sá nýverið graf sem kynnt var á Leikmannastefnu Ríkiskirkjunnar í fyrra, en af því má skilja að ríkið skuldi Ríkiskirkjunni tæpa sex milljarða vegna vangoldinna sóknargjalda. Þetta er engin smá fjárhæð og sem dæmi um nefna að fyrir hana mætti byggja 375 íbúðir í fjölbýli með 80 fm. flatarmál. Því er ljóst að einhverjir innan stofnunarinnar telja að þeir hafi verið hlunnfarnir og að um háar fjáræðir sé að tefla.
Allt framangreint er þó gamlar fréttir. Ríkiskirkjan hefur vælt og sífrað í mörg ár og kveinkað sér undan óbilgirni og ósanngirni þess sem mokar í hana peningum. Þetta ramakvein þekkja allir og flestir komnir með hundleið á. Á meðan sóknarbörnum fækkar eiga greiðslur að hækka, eins undarlegt og það er.
Og þá er komið að tilefni þessara greinaskrifa. Ég hef margoft spurt af hverju Ríkiskirkjan segir ekki upp sambandi sínu við ríkið fyrst henni finnst að sér vegið í því. Af hverju sendir hún ekki út eigin greiðsluseðla með þeirri upphæð sem hún telur hæfilega til skráðra félaga? Ekki er verið að tala um fjarstæðukennt fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda því öll önnur félög hérlendis haga sínum málum svona.
Í gegnum tíðina hafa nokkrir lukkuriddarar veitt aum andsvör án þess að svara spurningunni. Þeir hafa vælt, kveinað, sífrað og andskotast með fádæma djöfulgangi út í ríkið án þess að svara spurningunni. Ekki er hægt að kenna um ólæsi eða lélegum lesskilningi, held ég, því þessir lukkuriddarar kunna ýmislegt fyrir sér. Því stendur spurningin enn án svars.
Af hverju tekur Ríkiskirkjan ekki innheimtu sóknargjalda í eigin hendur og bætir þannig fjárhag sinn til ókominnar framtíðar?
Svar óskast, lukkuriddarar og aðrir málsmetandi aðilar.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 1. febrúar 2018
Helgidagafriður er úrelt fyrirbæri
Þetta frumvarp er kærkomið enda kjánalegt að heilu þjóðfélagi skuli vera haldið í slíkri gíslingu sem raun ber vitni. Vonandi verður þetta samþykkt á yfirstandandi þingi, í framhaldi af því verður hægt að skoða sjálfvirka skráningu nýfæddra barna í trúfélag. Eins merkilegt og það er þá virðast nýfædd börn ólmust í skráningu í Ríkiskirkjuna því aldurshópurinn 0-1 árs er stærstur allra aldurshópa.
Eitt skref í einu, þannig verður undið ofan af vitleysunni :)
Vilja afnema lög um helgidagafrið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 11. janúar 2018
Ég vil að ríkið innheimti sóknargjöld
Sóknargjöld, þessi meintu félagsgjöld sem margir vilja kalla, tilheyra þessum undarlegu fyrirbærum í þjóðfélaginu sem fáir átta sig á. Nú er það þannig að sagt er að ríkið innheimti þessi gjöld, en samt fær enginn greiðsluseðil, sundurliðun á skattskýrslu eða afdrátt af launaseðli. Ríkið er því ekki að innheimta þessi gjöld, heldur eru þau tekin úr sameiginlegum sjóðum borgaranna og því borga, í raun, allir sóknargjöld.
Ég hef skrifað margar greinar um sóknargjöld og hvatt til þess að þau verði afnumin í núverandi mynd. Nú ætla ég að víkja aðeins af leið og mælast til þess að raunveruleg innheimta sóknargjalda verði tekin upp. Mín vegna má ríkið sjá um innheimtuna alveg ókeypis, en gjaldið verður að vera sérgreint og aðeins tekið af þeim sem skráðir eru í trú- eða lífsskoðunarfélag. Ríkið heldur skrá yfir þetta fólk og því eru engin tækni- eða framkvæmdaleg vandamál sem gætu tálmað málið.
Það er mín stað- og bjargfasta trú að allir Íslendingar geti fylkt sér um þessa tillögu og gert hana að sinni. Hún er sanngjörn gagnvart öllum. Aðeins þeir sem eiga að greiða munu fá rukkun. Trú- og lífsskoðunarfélög verða ekki fyrir búsifjum því tryggt verður að ríkið muni sjá um innheimtuna án kostnaðar fyrir þau. Til að gera þetta enn betra fyrir þessi félög yrði tryggt að þau gætu sjálf ákveðið hvaða upphæð yrði innheimt án þess að einhver opinber starfsmaður kæmi nálægt því. Gjaldið gæti því verið 500 kall eða fimm þúsund kall á mánuði, það væri alfarið þeirra val. Öll gjöld myndu innheimtast því ríkið sæi um það. Allir græða; félögin, félagar þeirra og þeir sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga.
Er þetta ekki gott markmið fyrir árið 2018?
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Mánudagur, 24. apríl 2017
Linnulaus heimtufrekja Ríkiskirkjunnar
Ótrúlegt er að sjá hvernig stofnun sem í gegnum tíðina hefur sjaldnast treyst sér til að sækja fjármögnun til félagsmanna sinna telur sig geta galdrað fram einhverjar upphæðir og fullyrað að þjóðin skuldi henni. Þessi ólánsgaleiða, sem telur sig eiga hjarta þjóðarinnar skuld vælir og sífrar um óréttlæti og mismunun af því að hún fær ekki endalaust af óverðskuluðum peningum. Kirkjusókn dregst saman, kirkjur standa nær tómar á messutímum og þeir fáu sem þar sitja eru hoknir og gráir.
Áhugavert er að skoða hvernig þessi gengi þessarar gráu stofnunar hefur þróast í gegnum tíðina. Árið 1998 voru Íslendingar rétt um 272 þúsund talsin og þá töldust vélskráðir félagar Ríkiskirkjunnar um 245 þúsund. Árið 2017 hefur Íslendingum fjölgað um 66 þúsund, en þá fækkar sauðum Ríkiskirkjunnar um 5400. Þetta gerist þrátt fyrir að enginn hefur fjárhagslegan ávinning af því að skrá sig úr himnabandalaginu, enda myndi slíkt verða til þess að fótunum yrði kippt undan apparatinu á örstuttum tíma eins og gamli biskupinn hræddist.
Ég ítreka fyrri áskoranir mínar til Ríkiskirkjunnar um að hún láti reyna á greiðsluvilja þjóðarinnar með því að afþakka ölmusuna frá ríkinu, sem hún telur hvort eð er smánarlega litla, og sendi þess í stað greiðsluseðla til allra svokallaðra félagsmanna sinna. Við vitum auðvitað að það mun aldrei gerast því öll yfirstjórn Ríkiskirkjunnar veit að heimtur yrðu hraksmánarlega litlar.
Nei, prelátar hennar munu halda áfram að sífra og suða, tafsa og tuða í vorkunnarlegri þrá eftir meiri pening. Hún er ofalin og spillt af meðgjöf síðustu fjölmargra áratuga og eins og langt leiddur fíkill getur hún ekki hugsað sér að hætta.
Árið 1998 voru 89,91% þjóðarinar vélskráð í Ríkiskirkjuna og í dag þessi tala komin niður í 69,89%. Í raun á hún skilið vorkunn okkar því hún hefur tapað allri reisn, sjálfsvirðingu og dug.
Til hamingju, Biskupsstofa og Kirkjuráð, fyrir enn eitt ömurlega betlibréfið. Þið eruð fákunnandi á flestum sviðum, en á betlibréfasviðinu brillerið þið hreinlega.
Safna skuldum við þjóðkirkju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 16. febrúar 2017
Gamlar kallar að hlutast til um kynlíf annarra
Hún er mögnuð, þrásækni gamalla kristinna kalla, að vilja hlutast til um kynlíf annarra. Allt frá því að kynlífsfræðingurinn Páll postuli fór að argast út í alls konar kynlífstengda hluti sem sjálfskipaður og fjölkunnugur sérfræðingur á því sviði, hafa gamlir og úrillir kallar haft skoðun á því hverjir elska hverja og með hvaða fangbrögðum ástarlífsins fólk tjáir þá ást. Nei, hommar og lesbíur eru ömurlegt fólk í hugum þessara þráhyggnu kynlífsspekúlanta og aðeins kynlíf að hætti trúboðanna er réttmætt og hreint.
En hið jákvæða við þetta er að þessir gömlu og fúlu kallar hafa síðasta söludag og þegar hann rennur upp tekur við frjálslyndara og víðsýnna fólk sem hefur fullan skilning á því að fólk er alls konar og að það vilji gera alls konar hluti. Þá verða kynlífsfræði Páls postula sett út í horn því þau eru forneskjuleg, grimmileg og fjandsamlega fjölda fólks.
Gleðin er í fjölbreytileikanum, ekki fúllyndi gamalla kalla sem hafa þráhygginn áhuga á kynlífi annarra.
Höfnuðu biskupaskýrslu um samkynhneigð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mánudagur, 13. febrúar 2017
Ríkiskirkjan þarf meiri pening og óheftan aðgang að leikskólabörnum
Þetta er það eina sem getur bjargað henni (og þó ekki). Á hverju einasta ári rýrnar Ríkiskirkjan þrátt fyrir fádæma stuðning ríkisins við hana í formi peninga og forréttinda.
Þetta ár er það fyrsta hvar innan við 70% þjóðarinnar eru skráð í Ríkiskirkjuna. Höfum í huga að ekki eru mörg ár síðan að þessi tala var í kringum 92%. Hið skondna í stöðunni er að fjölmennasti hópurinn sem sækir um aðild að Ríkiskikrkjunni eru nýfædd börn :) Já, 65 nýfædd börn óskuðu eftir því að vera skráð í félagatal hennar á síðasta ári. Er það ekki frábært? Auðvitað tekur Ríkiskirkjan þeim fagnandi, enda munu þau breytast í peningamyllur eftir 18 ár þegar ríkið byrjar að ausa peningum í kirkjuna vegna þessara umsókna. En þessum umsækjendum fer fækkandi eftir að reglum um skráningu nýfæddra barna í trúfélag móður var breytt, sem er vel, því eins og allir eru sammála um eru engar haldbærar ástæður fyrir því af hverju skrá þarf nýfædd börn í svo gildishlaðið félag sem Ríkiskirkjan er.
Nú er farið að þrengast verulega að Ríkiskirkjunni sem frá stofnun hefur aldrei þurft að reiða sig á neitt annað en kjánalega mikinn stuðning frá ríkisvaldinu. Sauðirnir hafa aldrei viljað borga trúartollinn og því var ríkið látið sjá um það.
En nú sverfir að. Þjóðinni er alls ekki illa við Ríkiskirkjuna, henni er bara alveg slétt sama. Hún skilur ekki af hverju ríkið sturtar öllum þessum peningum í hana árlega, enda vill þjóðin betri nýtingu á þessum fjármunum.
Í fyrra var hlutfall Hagstofutrúaðra 71,55%, í ár er það 69,9%, á næsta ári dettur það í 68,5% og svo koll af kolli. Þessu verður ekki breytt nema með lögskráningu allra Íslendinga í Ríkiskirkjuna, það eitt mun bjarga henni frá því að hverfa eins og ryk í vindi.
Meirihlutinn hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 15.2.2017 kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 13. október 2016
Nýr spútnik brotlendir eftir sneypuför
Jæja, það kvarnast úr þessari ólánsfylkingu þegar Spútnik og kó eru reknir úr henni með skömm enda á hún hvergi innstæðu nema á Útvarpi Sögu og allir sem eitthvað vita geta giskað á ástæðu þess. Skoðanakannir Útvarps Sögu hafa þó reyndar þann kost að benda oftast á þann kost sem þjóðin sem heild hefur mesta andstyggð á og engin breyting virðist þar á.
Farvel, Spútnik, enginn nema Jón Valur saknar þín.
Sumir rekast bara illa í flokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 15. júlí 2016
Undanhald trúar í Bandaríkjunum
Pew Research Center kannar stöðugt hugi fólks til margvíslegustu mála og á dögunum var kannað hvernig trúfesti Bandaríkjamanna væri háttað. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þetta var gert, en niðurstöður þessarar könnunar eru hins vegar nýmæli því í þær sýna nú að trúlausir eru nú stærsti einstaki þjóðfélagshópurinn í Bandaríkjunum ef horft er á þau út frá trú. Grafið undir greininni sýnir helstu niðurstöður könnunarinnar, en áhugavert er að hlutfall trúlausra hækkar um 50% á milli áranna 2008 og 2016 þegar það fer úr 14% í 21%. Kaþólikkar sleikja sárin því þeir eru nú 20% í stað 23% fyrir átta árum. Boðunarkirkjan heldur sínum 20%, en hvítir mótmælendur fara úr 19% í 14%.
Þá er áhugavert að sjá að þeim fækkar sem telja guðshús skipta mál í úrlausn félagslegra álitamála, en þeir voru 75% árið 2008 en eru 58% nú átta árum síðar. Þá fækkar þeim einnig sem telja mikilvægt að forseti Bandaríkjanna hafi sterkar taugar til trúar; voru 72% en eru nú 62%.
Allt bendir þetta í sömu átt. Með ungu fólki kemur fálæti í garð trúar á meðan hún á sér helst vígi í efri aldurshópum. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá hvernig þetta endar ef svo fer sem horfir.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)