Um sóknargjöld og ráðaleysi lukkuriddara

Þegar Ríkiskirkjan hefur sjálf reynt að innheimta sóknargjöld hefur það alltaf gengið afar illa. Félagsmenn hafa ætíð verið tregir til að gjalda Ríkiskirkjunni það sem hún telur að henni ber og bendir það til þess að félagsmenn telja sig ekki vera að fá sannvirði fyrir peninginn. Svona er þetta hjá öllum öðrum félögum en trúfélögum; þau innheimta félagsgjöldin sjálf og félagsmenn geta sjálfir ákveðið hvort þeir greiði eða ekki.

En ekki Ríkiskirkjan. Óumdeilt er að núverandi fyrirkomulag á ríkisstyrkjum í formi sóknargjalda er tilkomið vegna tregðu Ríkiskirkjufólks til að borga. Þetta gengur jafnt yfir öll trúfélög, en þetta ráðslag er innblásið af stórkostlegri tregðu Hagstofukristinna þegar kemur að því að opna budduna.

Ég sá nýverið graf sem kynnt var á Leikmannastefnu Ríkiskirkjunnar í fyrra, en af því má skilja að ríkið skuldi Ríkiskirkjunni tæpa sex milljarða vegna vangoldinna sóknargjalda. Þetta er engin smá fjárhæð og sem dæmi um nefna að fyrir hana mætti byggja 375 íbúðir í fjölbýli með 80 fm. flatarmál. Því er ljóst að einhverjir innan stofnunarinnar telja að þeir hafi verið hlunnfarnir og að um háar fjáræðir sé að tefla.

Ríkisstyrkur til Ríkiskirkjun 2008-17

Allt framangreint er þó gamlar fréttir. Ríkiskirkjan hefur vælt og sífrað í mörg ár og kveinkað sér undan óbilgirni og ósanngirni þess sem mokar í hana peningum. Þetta ramakvein þekkja allir og flestir komnir með hundleið á. Á meðan sóknarbörnum fækkar eiga greiðslur að hækka, eins undarlegt og það er.

Og þá er komið að tilefni þessara greinaskrifa. Ég hef margoft spurt af hverju Ríkiskirkjan segir ekki upp sambandi sínu við ríkið fyrst henni finnst að sér vegið í því. Af hverju sendir hún ekki út eigin greiðsluseðla með þeirri upphæð sem hún telur hæfilega til skráðra félaga? Ekki er verið að tala um fjarstæðukennt fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda því öll önnur félög hérlendis haga sínum málum svona.

Í gegnum tíðina hafa nokkrir lukkuriddarar veitt aum andsvör án þess að svara spurningunni. Þeir hafa vælt, kveinað, sífrað og andskotast með fádæma djöfulgangi út í ríkið án þess að svara spurningunni. Ekki er hægt að kenna um ólæsi eða lélegum lesskilningi, held ég, því þessir lukkuriddarar kunna ýmislegt fyrir sér. Því stendur spurningin enn án svars.

Af hverju tekur Ríkiskirkjan ekki innheimtu sóknargjalda í eigin hendur og bætir þannig fjárhag sinn til ókominnar framtíðar?

Svar óskast, lukkuriddarar og aðrir málsmetandi aðilar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Eru flokkarnir á Alþingi ekki með neina stefnu í þessum málum?

Ég myndi fyrst vilja spara í glæpamynda-flóðinu í rúv-sjónvarpi frekar en að rukka inn í sunnudagaskólann.

Jón Þórhallsson, 5.2.2018 kl. 14:23

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sammála Jón Þórhallsson! Fyrr skal skera niður hjá rúv-sjónvapi.

Helga Kristjánsdóttir, 6.2.2018 kl. 00:50

3 Smámynd: Óli Jón

Þið svarið ekki spurningunni:

Af hverju tekur Ríkiskirkjan ekki innheimtu sóknargjalda í eigin hendur og bætir þannig fjárhag sinn til ókominnar framtíðar?

Óli Jón, 6.2.2018 kl. 03:57

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég efast ekki um að innheimta sóknargjalda yrði slakari fengi fólk gíróseðla fyrir þeim. Ég man hins vegar ekki til þess að það fyrirkomulag hafi einhvern tíma verið við lýði eins og þú heldur fram. Eða hvenær var það?

Þorsteinn Siglaugsson, 6.2.2018 kl. 08:52

5 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hins vegar er það kannski réttmæt krafa að það sé einhver X mikill fjöldi fólks á bak við hvern prest svo að það megi réttlæta hans starf.

Ef að Þjóðkirkjan vil trekkja meira fólk að sínum kirkjum að þá þyrfti hún að auglýsa hvað ætti að fjalla um í messunni.

=AÐ ÞAÐ SÉ EINHVERSKONAR SPURNING Í ÖLLUM FYRISÖGNUMSEM AÐ ÞJÓÐKIRKJAN LÆTUR FRÁ SÉR  eins og er hjá öllm fyrirlesurum sem að halda fyrirlestra.

Sem að fólk á að keppast við að svara í eigin huga og með öðrum.

Jón Þórhallsson, 6.2.2018 kl. 09:48

6 Smámynd: Óli Jón

Í byrjun reyndu prestar og sóknarnefndir að innheimta, en félagsmenn reyndust svo skuldseigir að fela þurfti hinu opinbera að innheimta með þeim aðferðum og úrræðum sem því standa til boða. Í fundargerð frá Selfossi 1958 sést að þar hefur fólk myndast við að innheimta sjálft, en með litlum árangri. Þar segir:

Sigurður Óli Ólafsson, reikningshaldari las upp reikninga kirkjunnar fyrir árið 1957, rekstursreikning og efnahagsreikning. Skuldir vegna kirkjubyggingarinnar eru nú eingöngu fastar umsamdar skuldir, að upphæð tæp ½ milljón. Sóknargjöld taldi hann að gerðu lítið betur en að standa straum af skuldum kirkjunnar og öðrum reksturskostnaði. Alltaf væru nokkrir erfiðleikar á innheimtu sóknargjaldanna og hefur formaður sóknarnefndar lagt mikla vinnu í að ná þeim inn.

Áhugavert er að skoða hvernig Ríkiskirkjufólk virtist einhuga um að allir ættu að borga og þar með kom fram hugtakið utankirkjumenn, en frá fyrstu tíð varð ljóst að ef allir borguðu ekki, myndi straumurinn liggja frá kirkjunni. Þessi krafa um að allir þurfi að borga, refjalaust, hefur örugglega oft komið fram í hugum gjaldkera annarra félaga í gegnum tíðina, en eina félagið sem hefur gert hana að veruleika með margvíslegum fantaskap er Ríkiskirkjan.

Óli Jón, 6.2.2018 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband