Færsluflokkur: Trúmál

Fækkun fermingarbarna

Þessi þróun, sem þarna er lýst, er óhjákvæmileg í dag. Gamla viðmiðunartalan, 80-90%, er táknmynd gamla tímans þegar börn höfðu óbeint ekkert val um hvort þau fermdust eða ekki og því er ánægjulegt að sjá þessa tölu lækka enda bendir sú lækkun til þess að börnin séu farin að taka upplýstari ákvörðun og að mínu viti er hún sú að þau telji sig ekki hafa nægar forsendur til þess að taka ákvörðun um að tengjast einu trúfélagi umfram annað á svo ungum aldri. Fermingin á auðvitað að eiga sér stað þegar fólk er komið á sjálfræðisaldurinn, enda veigamikil ákvörðun sem ekki á að neyða nokkurn mann til þess að taka.

Að sama skapi er áhugavert að sjá að presturinn telur þau börn sem nú kjósi kirkjulega fermingu vera staðfastari í því vali sínu. Gott ef svo er, en það breytir ekki því að hrifnæm börn á þessum aldri geta ekki tekið þessa ákvörðun, sér í lagi þegar haft er í huga að þeim eru t.d. settar skorður þegar kemur að útivistartíma þar sem þeim er ekki treyst til þess að meta hann sjálf.

Það að selja sig undir vald guðs er síður en svo léttvæg ákvörðun og á að vera tekin án utanaðkomandi þrýstings og lokkandi seiðs gjafaglýjunnar sem auðvitað er megin ástæða þess að mörg börn kjósa að ganga þennan veg. Þetta eru leifar af gamalli og fornfálegri hefð sem ber að breyta og aðlaga að nútíma samfélagi. Ferming á þessum aldri þjónar alls ekki hagsmunum barnsins, tímasetningin er einungis miðuð við þarfir trúfélagsins og þá sér í lagi Ríkiskirkjunnar sem hefur hagnast hvað mest á þessu fyrirkomulagi í gegnum tíðina. Rikiskirkjan veit hins vegar vel að ef ferming færi fram eftir að sjálfræðisaldri væri náð, myndu afar fáir feta þann veg og það hræðist hún næstum því jafn mikið eins og ef hætt yrði að skrá nýfædda hvítvoðunga í trúfélag móður.


mbl.is Mismikil þátttaka í fermingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta skynsamlegt eða nauðsynlegt?

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið þarf á hverri krónu að halda eru framlög til Ríkiskirkjunnar aukin. Þetta er afar undarleg ráðstöfun og verður enn undarlegri þegar haft er í huga að í bæklingi sem fylgir með trú Ríkiskirkjunnar má sjá eftirfarandi leiðbeiningar:

5Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. [Matt. 6:5-6]

Ekki aðeins er bent á þann möguleika að fólk geti stundað sína trú upp á sitt einsdæmi án mikillar fyrirhafnar, höfundur kversins beinlínis upplýsir hina leiðitömu um að þeir eigi alls ekki að fara í kirkju því það geri bara hræsnarar. Hið alsjáandi auga mun píra inn í skúmaskotið og gefa hinum leiðitama fín og flott verðlaun.

En hvað vissi sá sem mælti þessi orð? Það er bersýnilega ekkert mark á honum takandi! Mokum því meira fé í deyjandi kirkju, framlengjum dauðastríðið aðeins því einhvers staðar verða hræsnararnir (ekki mín orð!) að vera.

PS. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það jaðrar við dónaskap að vitna í Biblíuna máli mínu til stuðnings og biðst ég fyrirfram forláts á því. En eins og langflestir hlaðborðskristnir gera þá valdi ég að taka úr henni kafla sem hentar mér, hinar bábiljurnar læt ég vera að sinni.

PSS. Ég feitletraði textann sem ráðsmenn ríkissjóðs geta vitnað í þegar þeir gyrða í brók og skera enn frekar niður framlög til Ríkiskirkjunnar. Hann er afdráttarlaus, en þó örugglega þannig að auðveldlega er hægt að snúa honum algjörlega á hvolf og lesa úr honum að hægri vísi til vinstri og að niður snúi í norðvestur eins og títt er um margt í handbókinni. En við sem kunnum bara að lesa og skilja texta eins og hann kemur fyrir verðum bara að láta okkur nægja að skilja þetta eins og það er.


mbl.is Framlög til þjóðkirkjunnar hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú á hröðu undanhaldi í Bretlandi

Í dag segja um 48% Breta að þeir aðhyllist ekki nein trúarbrögð á meðan um 20% segjast tilheyra Church of England, en voru 40% fyrir þrjátíu árum síðan. Þetta kemur fram í könnuninni British Social Attitudes Survey sem gerð var nýverið í þrítugasta skiptið.

Nóg sagt.


Endalok þráhyggju kaþólskra?

Hressandi er að sjá nýjan páfa, sem hlýtur að vera einn sá besti í langan, langan, langan tíma, mæla gegn þráhyggju kaþólskra þegar kemur að samkynhneigð, fóstureyðingum og smokknum. Það er viðsnúningur frá andúðarboðskap forvera hans sem sáust ekki fyrir í einþykkju sinni og höfðu slæm áhrif á viðkvæma sauði kaþólskunnar með ljótu orðfæri sínu og illri breytni.

Vonandi geta þessir þjáðu sauðir nú látið af þessu vonda andófi gegn sjálfsögðum mannréttindum og heilbrigðisráðstöfunum enda hlýtur þessi óskeikuli páfi að hafa rétt fyrir sér.


Kaflinn sem gleymist í sunnudagaskólunum ...

Syndaflóðið og kettlingurinn


Betur má ef duga skal, Francis páfi!

Francis og gullið!Þessi páfi er líklega einn sá skársti í langan tíma, enda virðist hann hafa jarðbundnari sýn á lífið í kringum sig en forverar hans sem gengust upp í því að skrýðast gulli og silfri. Forveri hans, Ratzinger páfi, virtist ekki finna sig betur en þegar hann var skrýddur prjáli og purpura í fallegu rauðu skónum sínum.

Það sem Francis getur gert núna er skipa svo fyrir að kaþólska kirkjan gangi í það að selja allan auðinn sem hún hefur sölsað undir sig í gegnum tíðina því þar eru raunverulegu peningarnir, ekki í því hvort prestar kaupi ögn ódýrari bíla. Nú reynir á páfann Francis því ef hann vill í alvöru ná í fjármagn til þess að fæða svöng börn þá er bjargræðið innan seilingar, í raun allt um kring í gulli hlöðnum kirkjum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Francis leggja blóm á gulli hlaðið altari. Líklega væri hægt að kaupa nokkrar máltíðir fyrir svöng börn fyrir það góss sem þarna sést.


mbl.is Páfi finnur til vegna bílakaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkum fermingaraldurinn, það segir kaþólskur prestur!

Ég get ekki annað en tekið undir með Paddy Byrne, nafntoguðum kaþólskum presti í Írlandi, þegar hann segir að ráð sé að seinka fermingunni fram á fullorðinsárin. Aðal ástæðuna segir hann vera þrýsting á fjölskyldur sem hneigjast ekki að trú að fara í gegnum þetta ferli.

Byrne tiltekur að þróunin í Suður-Ameríku sé sú að verið sé að seinka trúarlegum stiklum eins og fermingu til þess að viðtakendur hafi upplýstara og betra val og lætur að því liggja að börn á hefðbundnum fermingaraldri séu ekki í stakk búin til þess að taka sjálfstæða og upplýsta afstöðu til fermingarinnar.

Áhugavert er að sjá að Byrne segir að það ýti mikið undir þetta að 85% barna skili sér ekki aftur í kirkju eftir fyrstu altarisgönguna sem væntanlega er vegna þess að þau hafa ekki áhuga á kirkjunni og því sem hún býður. Þá nefnir hann sem dæmi um trúarhita nútímamannsins að meirihluti foreldra sem væflast þó í kirkju óski þess helst að þar sé þráðlaust netsamband svo þeir geti skoðað Facebook.

Er þetta ekki nokkuð sem trúfélög hérlendis ættu að skoða í stað þess að hella allt of ungum börnum í gegnum fermingartrektina? Ljóst er að börnin geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þetta mál og því er undarlegt að ekki megi bíða þar til þau eru orðin lágmark 18 ára svo valið verði raunverulega þeirra. Það er rétt að enda þennan pistil á orðum Byrn þar sem hann segir:

It's time for a wake-up call, to be pragmatic and honest in changing the way we do our business.

Amen!


Páskabingó Vantrúar

Júblandi Jesús!Við sem ögn eldri erum munum vel eftir þeim leiðinlega degi sem Föstudagurinn langi var í denn þegar ekkert skemmtilegt mátti gera. Leiðindi skyldi einkenna þennan dag og vei þeim sem dirfðist að láta sér detta eitthvað annað í hug.

Í dag, á tímum aukinnar upplýsingar, er yfirbragð þessa föstudags allt annað og betra og má almenningur t.d. gera sér glaðan dag með því að fara í bíó, en það var gjörsamlega óhugsandi fyrir ekki svo mörgum árum síðan. En samt er ekki allt sem sýnist hér í landi Drottins í miðju ballarhafi! Kristilega gleðilöggan hefur nefnilega enn enn ærinn starfa á þessum undarlega degi.

Mig langar þannig til þess að benda á skemmtilegan viðburð sem orðinn er að árlegri hefð, sem er Páskabingó Vantrúar sem haldið verður kl. 13 á Austurvelli nk. föstudag, þann langa og áður ótrúlega leiðinlega. Allir unnendur gleði og bingóglaums eru boðnir velkomnir.

Þó er rétt að vara við því að árið 2013 á tímum upplýsingar er það lögbrot að spila bingó á Föstudeginum langa. Það er nefnilega þannig að hér áður fyrr þótti góðum og gegnum kristlingum ekki við hæfi að einhver gæti mögulega skemmt sér á þessum ömurlega degi og því var þetta bann bundið í lög. Því fara bingóspilarar á tæpasta vað með því að spila bingó á Föstudeginum langa og storka Guði, Ríkiskirkju og landslögum.

Sjáumst á Austurvelli :)


Hvenær eiga kristin gildi ekki við?

Ef mér telst rétt til þá var ályktun allsherjar- og menntamálanefndar samþykkt fyrr í dag, en í henni er að finna eftirfarandi kolamola:

Trúmál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.
Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.

Í fyrri málsgreininni er talað um að 'kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr', en í þeirri seinni er talað um að hyggja eigi að þessum gildum 'þegar það á við'.

Líklega þarf maður að vera ofsalega vel og innilega kristinn til þess að skilja þetta. Skilja að þótt kristin gildi séu frábær, æðisleg, geggjuð og best í heimi, þá skuli bara hafa þau að leiðarljósi þegar hentar, þegar það á við, þegar aðrir alvöru hagsmunir eru ekki í myndinni. Ef ég vissi ekki betur, þá myndi ég segja að það sé meiri pólitískur fyrirvarafnykur af þessari niðursuðu en einlægur vilji til þess að ganga erinda Drottins. En hvað veit ég, sem trúi ekki á himnadrauginn. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem rennur upp fyrir manni þegar maður kynnist Guði og heyrir hana tala í fyrsta sinn.

Landsfundarfulltrúar! Gangið á Guðs vegum ... en bara þegar það hentar :)

PS. Það er gaman að sjá einkaframtaksflokkinn slá vendilegri skjaldborg um trúna. Líklega vita dátar hans sem er að trúin getur ekki lifað nema í öndunarvél ríkisins svona eins og Jesús Jósepsson spáði fyrir í denn.


Rottweiler Guðs segir upp!

Einn gírugasti og metnaðargjarnasti páfi allra tíma, Ratzinger, segir af sér með nokkurra tíma fyrirvara. Skiljanlega veltir fólk því fyrir sér af hverju þessi einarði embættismaður, sem oft var uppnefndur Rottweiler Guðs sökum samskiptahörku sinnar, láti nú af embætti. Kannski að eitthvað af eftirtöldum atriðum geti komið þar við sögu:

Ég valdi bara 10 atriði af handahófi, en enginn þarf að fara í grafgötur um að af nógu er að taka. Eins og einhver myndi segja, Guð veit að undir þessum steini eru margar flær! 

Kannski hefur kallkvölin bara verið orðinn þreyttur á því að fá sífellt svekkjandi pósta um kynlífshneyksli og ofbeldi presta um allan heim í pósthólfið sitt. Kannski kynntist hann konu? Já, eða karli? Kannski var hann orðinn þreyttur á gullinu og prjálinu? Kannski var samviskan farin að naga hann óþægilega mikið vegna dauða fólks í Afríku vegna smokkablætis kaþólsku kirkjunnar? Eða kannski vill hann bara ekki verða elliær á páfastóli eins og flestir forverar hans.

Ég óska Rottweiler Guðs til hamingju með starfslokin, hans verður sárt saknað. Ekki.


mbl.is Páfinn segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband