Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 29. maí 2007
Kolefnissprengjan
Ég var að lesa magnaða grein í Viðskiptablaðinu sem græninginn Ólafur Teitur Guðnason ritar. Þar fjallar nafni minn um framræsingu votlendis sem farið var í með oddi og egg á árunum frá 1941 og allt fram til 1987. Ræst var fram votlendi hvers flatarmál telur um 4% af heildar flatarmáli Íslands með ríkisstyrktum greftri skurða sem samanlagt eru 32 þúsund kílómetrar að lengd. Þetta eru magntölur sem forvígismenn gömlu Ráðstjórnarríkjanna hefðu vel getað verið afar stoltir af. Það er margt hryggilegt við þetta, en eitt þó umfram allt annað og það er að nú rýkur kolefni úr sprökþurrum sverðinum sem áður var bundið í mýrum.
Ólafur Teitur bendir á í grein sinni að í gegnum framrás tímans hafi ómælt magn lífræns efnis sokkið ofan í votlendisbreiður landsins og varðveist þar sökum þess að það komst ekki í snertingu við súrefni. Um leið og mýrarnar voru ræstar fram komst súrefni að þessum lífmassa sem byrjaði þá umsvifalaust að rotna og gefa frá sér kolefnið sem allt er að drepa. Maður hefði svo sem haldið að nokkrar fúamýrar geti nú ekki vegið þungt þegar áhrif þeirra eru borin saman við kolefnislosun þá sem verður til við eldsneytisbruna ökutækja okkar og skipaflota, en það gæti ekki verið fjær veruleikanum.
Ólafur Teitur greinir frá því að árið 2004 hafi nettó losun kolefnis hérlendis numið 3,5 milljónum tonna, þ.e. þegar búið er að jafna heildarlosun á móti náttúrulegri bindingu. Sérfræðingar áætla hins vegar að fyrrum fúamýrar séu að skila frá sér allt að 7,2 milljónum tonna af kolefni árlega eða rúmlega tvöfaldu því magni sem við erum beint ábyrg fyrir! Sé þetta umreiknað í bílaígildi með ríflegum vikmörkum er hægt að segja að þurrlendislosunin jafnist á við kolefnismengun frá 450 þúsund bílum hið minnsta til allt að 1,8 milljón bíla!
Það hefur verið gerð tilraun með endurheimt á votlendi fyrir norðan sem fólst í því að gömlum uppgreftri var einfaldlega ýtt aftur ofan í skurði. Á tiltölulega skömmum tíma jafnaði landið sig aftur og byrjaði þannig á ný að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið. Þessi aðgerð kostaði afar lítil fjárútlát, en skilaði miklum ávinningi. Ljóst er að ekki er alls staðar hægt að beita svo einföldum aðferðum við endurheimt á mýrum landsins, en telja má að ef horft er á kolefnislosun og bindingu sérstaklega muni nokkuð dýrari aðgerðir þó vera að skila mun meiri ávinningi en skógrækt.
Ég hef mært framtak það sem hefur yfirskriftina Kolviður, enda tel ég þar á ferð afar þarft verkefni. Hins vegar sést að mestum árangri í baráttunni við kolefnið er hægt að ná með endurheimt mýrlendis. Ég mun halda því áfram að kolefnisjafna bílinn minn í gegnum Kolvið, en ég mun líka reka tána í steinvölur og moldarhauga næst þegar ég rölti fram hjá gömlum fráveituskurðum og leggja þannig mitt af mörkum til að endurheimta votlendið. Ég þykist vita að keldusvínið verður mér þakklátt fyrir vikið.
Áhugasamir geta hringt á skrifstofu Viðskiptablaðsins og keypt tölublaðið sem geymir þessa frábæru grein. Það er gefið út 25. maí 2007 og síminn er 511-6622.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins
Það versta hefur gerst, Framsókn "hélt" velli. Ég sé fyrir mér formann flokksins í fréttatímum dagsins þar sem hann segir; "Ég kannast ekki við það að flokkurinn hafi fengið slæma niðurstöðu úr kosningunum. Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi goldið sérstök afhroð". Það er nefnilega svo magnað að minni Framsóknarflokksins er afar valkvæmt og kristallast það í fádæma slæmu og valbundnu minni formannsins sem aldrei virðist muna eftir því sem aflaga fer. Það er næsta víst að rósrauðu lonjettunum verður brugðið á nefið í dag og niðurstöður kosninganna túlkaðar sem stórkostlegur varnarsigur. Það er ekki langt síðan kjósendur kusu með einbeittum hætti gegn Framsókn í borginni þrátt fyrir magnaða brosherferð frambjóðandans hér, en engu að síður voru úrslitin túlkuð á besta veg og Framsókn fékk sætin sín. Það er gott að brosa!
Annars er Framsóknarflokkurinn magnað fyrirbæri, hann hefur eins bjagaða sjálfsmynd og mest getur orðið. Það er best að lýsa þessu í máli sem hann skilur og leita líkinga í sveitinni (hann hefur augsýnilega enga skírskotun í borgarlífinu!!):
- Sýn Framsóknarflokksins: Stæltur og glæstur veðhlaupahestur sem sigrar hvert hlaupið á fætur öðru og hreppir stöðugt silfrið.
- Raunveruleikinn: Aflóga og draghölt trunta sem er ætíð dregin í mark af sigurvegaranum. Fær ætíð annað tækifæri í haganum meðan það ætti í raun að leiða hana bak við skúr og lóga henni.
Þó er í raun ekki við Framsókn að sakast vegna góðs gengi hennar eftir hörmuleg kosningaúrslit. Ábyrgðin liggur hjá Sjálfstæðisflokknum því það er hann sem ætíð leiðir þessa höltu truntu að jötunni, kembir henni og klappar og í því liggur niðurlæging hans. Flokkurinn treystir sér augsýnilega ekki í ríkisstjórn nema með auðsveipum Framsóknarflokknum sem tekur þakklátur við hverju því sem að honum er rétt, en er svo jafn snöggur upp á lagið að stinga Sjálfstæðisflokkinn í bakið um leið og hann getur. Það sannaðist þegar forsætisráðuneytið var vélað yfir til Framsóknar hér í denn. Þá lagðist Framsókn lágt, en Sjálfstæðisflokkurinn lægra.
Ég vona að forystumenn Sjálfstæðisflokksins sjái nú að sér og lesi raunverulegan hug kjósenda úr könnuninni - fólk vill ekki Framsókn! En nú sé ég formann flokksins á Stöð 2 í þessum rituðu orðum að verja Framsókn. Verið er að leggja línurnar fyrir niðurlægingu næstu fjögurra ára og í augum formannsins er draghalta Framsóknartruntan óðum að breytast í veðhlaupahestinn glæsta.
Oj!
![]() |
Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 7. maí 2007
Sparkað í fjallkonuna!
Er ekki ótrúlegt að í dag skuli finnast svo illa innrætt fólk að það leggji lykkju á leið sína til að spilla fyrir arnarvarpi? Í mínum huga er þetta sama fólk og mun bráðlega ganga að fjallkonunni á Austurvelli og sparka hana í sköflunginn.
Tilvera arnarins hérlendis er viðkvæmt fjöregg sem allir verða á leggjast á eitt um að vernda og hlú að. Það er ekki hægt að hafa einhverja arfaklikkaða vitleysinga vaðandi uppi í einhverju dæmalausu fýlukasti og spilla fyrir viðveru þessa tignarlega og gamla borgara landsins sem í raun á mun meiri tilverurétt hér á þessari eyju en margur annar. Þetta aumingjalið á að hýða í opinberri athöfn á Lækjartorgi þannig að blæði úr skutnum.
Mynd: Icelandic Geographic
![]() |
Illa lítur út með arnarvarp nú í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Þar skall hurð nærri hælum!
Það er eins gott að óvildarmenn íslenska lýðveldisins skuli ekki hafa áttað sig á því að um nokkurt skeið höfum við verið algjörlega varnarlaus því líklega hefðu þeir brugðist skjótt við og ráðist hér inn meðan lag var til. Hér er eftir mörgu að seilast og því er ég altént afar feginn því að óvinir okkar létu það vera að ráðast á okkur. Það hefði eiginlega verið frekar óhentugt og jafnvel bara leiðinlegt.
Nú er hins vegar fokið í öll skjól hjá þeim, enda þurfa þeir nú að glíma við harðvítuga léttsveit lýðveldisins (lesist: varalið) og frændur okkar, Norðmenn og Dani, sem hafa hingað ekki getað litið upp frá byssuskeftunum enda uppteknir til að hrinda árásum á eigin lönd.
Ætli Norðmenn og Danir finni fyrir sömu aukningu í öryggistilfinningu, nú þegar þeir hafa greiðan aðgang að léttsveit lýðveldisins? Ætli þeir hrósi ekki happi yfir því að nú skuli þeir geta kallað til þessa óvígu sveit? Hin þríeina fylking Íslendinga, Dana og Norðmanna mun skjóta illmennum heimsins skelk í bringu og mun þeir aldrei hætta sér hingað á mitt Norður-Atlantshaf því ekki vilja þeir fá vonda lexíu í hennar boði!
![]() |
Sameiginleg sýn á þróun öryggismála staðfest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Brandari á alþjóðlegri stærðargráðu!
Áður en farið er í að spyrja hvort það eigi að styrkja varnir landsins, er þá ekki nær að kanna hvort það sé yfir höfuð nauðsyn að halda uppi vörnum? Er þetta sífellda varnarhjal ekki bara afleiðing kalbletta í sálarlífi manna sem enn telja möguleika á því að aftur geti skollið á kalt stríð? Hverjir eru líklegir til að sitja úti í heimi og gera áætlanir um fjandsamlega yfirtöku íslenska ríkisins? Rússar? Talibanar? Ég er á því að niðurstaða úr skoðanakönnun sem þessari sé 'pöntuð', þ.e. að spurningar séu þannig fram settar að það sé býsna erfitt að svara þeim á nema einn veg án þess að líta út fyrir að vera landráðamaður. Var spurt í þessari könnun hvort svarendur teldu virkilega þörf á varnarliði? Var viðhorf almennings til þess grundvallarþáttar rannsakað nægilega?
Í mínum huga á að styrkja löggæslu hérlendis, en það á ekki að gera með kvartþúsund manna hópi sem hleypur um víðan völl í Henson-göllum með ullarhúfur. Ef við höfum efni á slíkum hópi á bakvakt (orðið 'varalið' ber það með sér að það er einungis kallað út endrum og sinnum), höfum við þá ekki jafn mikið efni á því að bæta t.d. 50 föstum stöðugildum í aðallið lögreglu? Það er ljóst (í mínum huga, altént) að þetta er fyrsti vísir að hervæðingu hérlendis og er til nokkuð fyndnara en tilhugsun um íslenskan her? Er hugmyndin um íslenskan her ekki það arfavitlausasta sem nokkur maður hefur látið út úr sér? Ég hvet lesendur til að segja eftirfarandi upphátt:
- í réttstöðu, fyrsti flokkur Hlíðarendadeildar
- fram og hægri snú, Þorbjörn majór
- hentu þér á jörðina og gerðu fimmtíu armbeygjur, óbreyttur Friðrik
- mundaðu skammbyssuna rétt, Friðfinnur liðþjálfi
- skv. skipun frá Gunnari ofursta ...
- Björn marskálkur mun fylgjast með hersýningu dagsins
- kemur þú frá Raufarhöfn, majónes?
- taktu fimm menn með þér, Ingvar stórskotaliði, og verðu Bakarabrekkuna til síðasta manns!!!!
Íslenskur her verður líklega eini hvatinn fyrir óvinveitta aðila að ráðast á okkur því þeir munu væntanlega vilja sjá það skemmtiatriði sem þessi herdeild mun verða. Grínið er þó grátt því reynslan sýnir að það er ekkert til sem kalla má "passlega stór og hagkvæmt rekinn" her. Her sogar til sín fjármagn og til gamans má geta að skv. Wikipedia fara 17% af fjárlögum BNA í hernaðarstúss. Skv. því myndi íslenskur her taka til sín 60 milljarða sem líklega færu í skriðdreka í sauðalitunum.
Það væri nú samt býsna flott að vera í hernum og heyra: "Þetta veltur allt á þér, Ólafur sérsveitarselur ... þú verður að koma í veg fyrir að óvinurinn geti komist á land við ylströndina! Þú mátt beita öllum ráðum til að það gerist ekki!".
Þvílík sæla!
![]() |
Meirihluti hlynntur stofnun varaliðs lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Lífsnauðsynlegir varahlutir
Það er gaman að sjá að liðsmenn Íslands í dag skuli nú fjalla um líffæragjöf, eitt þessara mikilvægu mála sem einhvern veginn fara iðulega á milli skips og bryggju. Þetta er hinum lifandi mikið hagsmunamál enda hefur tækni og færni lækna í tengslum við líffæraflutninga. Í raun má líta á það að synja beiðni um líffæragjöf eftir andlát sem einum eigingjarnasta verknaði sem um getur því það er nokk ljóst að við gerum ekki mikið við hinar jarðnesku leifar okkar eftir okkar dag, hvort sem það er líf eftir þetta eða ekki. Að flestum skuli þykja betra að vita af lífsnauðsynlegum varahlutum í bræður okkar og systur þar sem þeir gera ekkert gagn, það er ofar mínum skilningi.
Auðvitað ætti þetta ekki að vera nein spurning hjá neinu okkar. Við eigum að hyggja að þessu mikilvæga máli meðan við höfum tök á og gera þær nauðsynlegu ráðstafanir svo við getum gert gagn þegar við loksins fjörum út. Tillaga þingmannsins Ágústs Ólafs Ágústssonar varðandi þetta mál er af hinu góða og við eigum að nýta ökuskírteini til þess að koma þessum vilja okkar á framfæri. Í raun ætti einnig að nýta debet- og greiðslukort til þess arna, enda ganga mun fleiri með þau á sér að staðaldri. Í millitíðinni er hægt að nálgast kort á vef landlæknis, fylla það út og prenta. Ég var sjálfur ekki hrifinn af því korti og bjó mér því sjálfur til mitt eigið sem er einfaldara og skýrara (altént að mínu mati). Þetta kort er ég með í veskinu og vona ég að það rati í réttar hendur ef tilefni gefst til.
Er ekki mál til komið að við tökum nú vel á þessu máli af óeigingirni og gefum leyfi til þess að nýta megi líffæri okkar til góðra verka þegar við höfum skrölt síðasta hringinn hér! Ef einhver heldur að hann hafi þörf fyrir hjarta, nýru, lifur eða lungu eftir að hann hrekkur upp af, verður sá hinn sami fyrir miklum og sárum vonbrigðum :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Bílatryggingar
Hér vil ég rifja upp frábæra hugmynd, hvers vitjunartími á vonandi eftir að renna upp. Þetta er hugmynd sem myndi einfalda líf margra og bæta tryggingavernd í umferðinni.
Hugmyndin er sú að lögboðnar skyldutryggingar ökutækja verði innheimtar í gegnum eldsneytissölu. Þannig væri lítilli upphæð bætt við verð hvers eldsneytislítra og rynni hún í sameiginlegan tryggingasjóð. Þetta hefði marga kosti í för með sér:
- Trygging er til staðar meðan það er eldsneyti á tanknum (enginn keyrir ótryggður)
- Tryggingar taka mið af stærð ökutækis (lítið eyðir litlu, stórt eyðir meiru)
- Tryggingar verða breytilegur kostnaður (í samræmi við notkun ökutækis)
Það hlýtur að vera sanngirnismál að hægt sé að tengja tryggingakostnað við notkun. Hví skyldi sá sem keyrir 10 þúsund kílómetra árlega borga það sama í tryggingar og sá sem keyrir 20 þúsund kílómetra? Að öllu öðru jöfnu er hætta á tjóni 50% minni og því ætti tryggingartaki að njóta þess.
Hægt væri að ná fram mikilli hagræðingu með því að einfalda söluleið þessara trygginga á þennan hátt. Sölu- og innheimtukostnaður væri lítill sem enginn. Aðrar tryggingar yrðu áfram seldar í gegnum tryggingafélögin, enda um valkvæma kosti að ræða.
Ég tek það fram að þetta er ekki mín hugmynd, ég heyrði hana á ferð um Vestfirði fyrir 15 árum síðan. Nú er vitjunartími hennar kominn.
Föstudagur, 23. febrúar 2007
Það er vel hægt að flokka fólk!
Forráðamenn Hótels Sögu virðast kunna listina við að flokka fólk og ættu þeir að deila þessari þekkingu með okkur hinum. Ég hef oft lent í gleðskap þar sem er fullt af skemmtilegu fólki, en svo eru ein eða tvær leiðindamanneskjur með. Stundum er þetta fólk ekki sammála mér um eitthvað, stundum er það hávært og stundum er það bara hundleiðinlegt af því að það er það sjálft. Á þessum stundum hef ég óskað þess að kunna aðferð til að hafa bara skemmtilegt fólk í mannfögnuðum.
Nú geta veisluhaldarar og aðrir sem skipuleggja samkomur fólks tekið gleði sína því þetta er ekki vandamál eftirleiðis. Við notum bara Fólksflokkunarkerfi Hótels Sögu og eftir það verða öll partí skipuð rétta fólkinu en ekki einhverju liði sem sumir vilja ekki fá!
Verður þetta ekki æðislegt?
![]() |
Ómögulegt að flokka ferðamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.2.2007 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)