Þriðjudagur, 31. mars 2009
Áfallahjálp?
Ég var að lesa frétt á visir.is þess efnis að starfsfólki Menntaskólans í Kópavogi hafi verið veitt áfallahjálp sökum þess að einn starfsfélagi þeirra var nýverið dæmdur fyrir að hafa barnaklám í vörslum sínum. Vissulega er þetta skelfilegur glæpur, en þarf virkilega að bjóða fólki áfallahjálp vegna þessa? Rétt er að tilgreina að þessi grein er ekki skrifuð vegna þessa tilgreinda atviks, heldur allra þeirra tilvika þar sem fólki er boðin áfallahjálp í ótrúlegustu kringumstæðum.
Það rifjaðist upp fyrir mér gömul frétt á mbl.is þar sem danskur læknir gagnrýnir áfallahjálpargleði samtímans. Hann segir, nokkurn veginn, að það sé verið að aumingjavæða samfélagið ef það þarf alltaf að veita áfallahjálp í hvert skipti sem eitthvað bjátar á.
Mér finnst skiljanlegt að fólk fái áfallahjálp þegar það hefur lent í lífsháska eða orðið vitni að slíku. En það þarf ekki áfallahjálp í hvert skipti sem einhverjar breytingar verða á högum fólks. Ég leyfi mér að vitna í orð danska læknisins hér:
Það hlýtur að enda með ósköpum ef samfélag okkar er þannig, að fólk lætur bugast við minnsta áfall. Það verður að búa fólk undir að það kann að verða vitni að einhverju óþægilegu um ævina og sem það verður að takast á við sjálft, ...
Er það ekki umhugsunarvert?
Fimmtudagur, 19. mars 2009
Smokkablæti Ratzinger páfa
Það er með ólíkindum hversu hugleikinn smokkurinn er Ratzinger páfa. Þessi vítisvél virðist halda vöku fyrir kallinum sem virðist líta á hann sem óvin kaþólsku kirkjunnar númer eitt. Líklega væri það afsakanlegt að Ratzinger héldi þessu fornaldarviðhorfi fram á Vesturlöndum þar sem við höfum þó almenna grunnþekkingu, en það er með öllu ólíðandi að Ratzinger lýsi þessu yfir þegar ítök kirkjunnar eru jafn sterk í Afríku og raun ber vitni. Þar getur smokkurinn spilað lykilhlutverk í að hefta útbreiðslu alnæmis, en meðan tryggir sauðir Ratzinger páfa fara að ráðum hans, sem grundvölluð eru í þráhygginni og dellukenndri kennisetningu, mun Afríka líða fyrir.
Hins vegar er skondið að sjá að skrifstofublók í Vatikaninu tyftaði Ratzinger páfa og sagði að hann hefði aðeins verið að ítreka skoðanir forvera sinna. Kannski hefur Ratzinger ekki sjálfstæða skoðun á málinu ... máské er hann bara jafn mikið fórnarlamb þráhyggju kirkjunnar eins og svo margir aðrir.
Aumingja kallinn!
Páfinn gagnrýndur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 11. mars 2009
Hallelúja!!!
Ég hvet dómsmálaráðherra til dáða í þessu þarfa verki. Sjálfkrafa skráning hvítvoðunga í trúfélag móður er skelfileg ráðstöfun og stríðir gegn heilbrigðri skynsemi.
Þetta eru sannarlega góðar fréttir :)
Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Þriðjudagur, 10. mars 2009
Hausatalning: Konur klikka gjörsamlega!
Ég var að fara yfir frambjóðendur í kosningum til forystu í VR. Þessar kosningar hafa ekki farið fram hjá neinum því margir telja að núverandi forysta hafi klikkað gjörsamlega og er líklega margt til í því. Mikil umræða hefur verið um þessi mál í fjölmiðlum, á blogginu og manna á milli.
Það var því með ákveðinni tilhlökkun sem ég renndi mér inn á vef VR í dag til að kynna mér frambjóðendur. Þarna hlyti að vera úrval fólks, karla og kvenna, sem byðu sig fram til forystu í stærsta verkalýðsfélagi landsins sem hefur umsjón með risavöxnum lífeyrissjóði.
Fyrst fór ég inn á vefsíðu þar sem frambjóðendur til formannskjörs voru kynntir, en þeir eru þrír. Þegar vefsíðan spratt fram á skjánum sá ég bara þrjá kalla, en engin var konan. "Piff", hugsaði ég, "mikið rosalega hljóta þá að vera margar konur í boði sem væntanlegir stjórnarmenn!"
Svo spratt upp vefsíðan með yfirliti yfir frambjóðendur í stjórnarkjöri og ég sá ekkert nema kalla. "Piff, piff, piff," sagði ég, "ég á bara eftir að skruna aðeins niður vefsíðuna því ég sé ekki nema helming hennar núna." Ég byrjaði að skruna og engin var konan! "Hmmmm, ég þarf augsýnilega að fara aftur yfir listann," sagði ég við sjálfan mig, "það hlýtur að vera í það minnsta ein valkyrja þarna!" En það var sama hvað ég leitaði; þetta voru allt synir einhverra, engin var dóttirin!
Það fyrsta sem ég hugsaði var að "auðvitað eiga einhverjar kellingar ekkert erindi í stjórn verkalýðsfélags!" Í huga mínum sá ég fyrir mér Gvend jaka þar sem hann fór fyrir hópi harðsnúinna karla, grjótharður og flottur. En þá mundi ég eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem hafði svo sannarlega í fullu tré við Jakann! Þar var fimm barna móðir sem lét sig verkalýðsmál varða í tæplega hálfa öld. Á kvennafrídeginum 24. október 1975, sem var mikill blíðviðrisdagur, flutti Aðalheiður barátturæðu og var í henni að finna eftirfarandi kafla:
Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið í heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna.
Á þessum tíma var konan að vakna, það er algjörlega klárt mál. En mér finnst eins og konan hafi dottað aðeins í þessum kosningum hjá VR. Og velur aldeilis tímann til þess! Nú þegar þjóðin (og VR félagar) þarf sérstaklega mikið á öllum góðum eiginleikum hennar að halda, þá dottar hún. Ekki er hægt að kenna körlum um þetta því enginn karl stóð í vegi fyrir konum þarna.
Ég vil taka fram að þessi pistill er skrifaður vegna þess að ég er hundfúll út í konur vegna þessa. Ég er hrikalegt karlrembusvín, en ekki algjört! Ég vil fleiri konur út um allt í þjóðfélaginu. Ég tel að þeirra sé sérstaklega þörf í réttindabaráttunni og lífeyrissjóðsmálum, enda eru þetta málaflokkar sem brenna mikið á öllum. Ég á litla, yndislega frænku sem þarfnast þess að vel sé búið í haginn fyrir hana þegar hún vex úr grasi, að hún getið notið alls til jafns við karla. Þess vegna er það þeim mun sorglegra að sjá bara ellefu karla í boði sem eru örugglega ágætir, flestir.
En þeir eru engar konur, svo mikið er víst!
Sunnudagur, 8. mars 2009
Hreinir sveinar Páfagarðs
Enn og aftur vilja hreinu sveinarnar í herdeildum Ratzinger páfa hlutast til um líf fólks. Þarna vildu þeir setja líf níu ára telpu á spil fyrir tvo frumuklasa sem hefðu líklega dregið hana til dauða, hefðu þeir fengið að þroskast betur. Þeir víluðu ekki fyrir sér að tefla lífi hennar í tvísýnu og sýndu þannig að þeir mátu líf hennar einskís meðan gjörðir þeirra sem vildu henni vel brutu í bága við þrúgandi kennisetningar kirkjunnar. Virðing þeirra fyrir lífi hennar er mun minni en ótti þeirra við að gengið sé gegn einhverju mest þrúgandi valdboði gagnvart konum sem til er.
Mér finnst það huggulegt ... að hreinu sveinar Ratzinger páfa skuli vera tilbúnir til að fórna níu ára gömlu barni bara til þess að standa á eigin 'prinsippi'. Það er grand og stórmannlega gert af þessum hreinu og guðlegu sveinum! Ég er viss um að móðir og læknir telpunnar kunna þeim maklegar þakkir fyrir hlýhug á þessum erfiðu tímum! Nei, bíddu við ... þau voru víst bannfærð fyrir að bjarga lífi hennar. Hafi þessir óþokkar ævarandi skömm fyrir að láta líf barnsins ganga fyrir hagsmunum kaþólsku kirkjunnar! Þetta óhelga tvíeyki er best komið á ísköldum freranum sem bíður þeirra sem reknir eru út á túndrurnar utan ylvolgs faðms kirkjunnar. Þau hefðu auðvitað átt að treysta hreinu sveinum Ratzinger páfa og þannig sent telpuna út í nær vísan dauðdaga. Þá væru þeir góðir kaþólikkar.
Nú eru þeir bara vondir fyrrverandi kaþólikkar ... eða þannig!
Tengt efni: BBC - World Have Your Say
Vatíkanið tekur undir fordæmingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. mars 2009
Betur má ef duga skal!
Ég bendi á fyrri hugleiðingar mínar um þetta mál sem og góða grein Púkans.
Leggja fram frumvarp um persónukjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 16. janúar 2009
Voru engar konur?
Það er skondið að sjá að þegar haldið er Jafnréttisþing, væntanlega til þess að rétta skarðan hlut kvenna, að þá séu karlar fyrirferðarmeiri í fréttaflutningi tengdu því. Í tengdri frétt er talað við Þórólf Árnason og í þessari frétt er fjallað um erindi Ólafs Þ. Stephensen. Hér er svo fjallað um framsögu félagsmálaráðherra á þinginu. Tvö-eitt fyrir karla!
Hvar eru konurnar? Hafa þær ekkert um þetta mál að segja?
Akkur í að hafa konur í ábyrgðarstöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Einlæg afsökunarbeiðni forsætisráðherra
Þjóðinni hlýtur að þykja vænt um þessa afsökunarbeiðni Geirs H. Haarde, forsætisráðherra:
Hafi mér orðið eitthvað á, þá þykir mér það leitt.
Þarna fylgir sannarlega hugur máli. Iðrun og auðmýkt drjúpa af hverju orði.
PS. Geir finnst honum ekkert hafa orðið á :) fyrir þá sem ekki skilja brandarann hjá honum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2010 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Um talnaspekinginn sem kunni ekki að reikna ...
Ég horfði á talnaspeking í Íslandi í dag í gærkvöldi og sá hann þylja upp fyrirsjáanlegu spádóma sína þess efnis að næsta ár yrði viðburðarríkt, en að við hefðum í hendi okkar hvernig allt færi með viðbrögðum okkar. Snjall!
Það sem hins vegar sló mig var að talnaspekingurinn sagði (sjá 11:45 í myndskeiðinu) að Pýþagóras hefði komið með talnaspekina hingað vestur fyrir um 1100 árum síðan. Þetta afrek Pýþagórasar, að finna út þá flóknu aðferð að leggja saman tölur til að spá nákvæmlega fyrir um framtíðina, væri magnað eitt og út af fyrir sig. En það að hann dó fyrir um 2500 árum gerir þetta afrek Pýþagórasar að hreinu kraftaverki.
Getur verið að talnaspekingurinn hafi misreiknað sig? Nei, fjárinn hafi það! Þá væri hann líklega týpískur þristur (þ.e. manneskja sem kann ekki að reikna). Eða er það sjöa? En hann reiknar örugglega rétt þegar hann spáir, annars væru þetta ekki fræði og vísindi.
Þriðjudagur, 23. desember 2008
Er Ratzinger páfi hættulegasti öfgamaður heims?
Í dag kom Ratzinger páfi fram og flutti fagnaðarerindið að sínum hætti. Einhverjum hefur hann líklega óskað Guðs blessunar og allt það, en meginatriðið í málflutningi Ratzinger var það að samkynhneigð er jafn hættuleg mannkyni og eyðing regnskóganna!
Enn og aftur einblínir hinn þráhyggni Ratzinger páfi á kynlíf eða kynhegðan og er ekki einleikið hversu mikið þetta virðist fara í taugarnar hjá honum. Ég hygg að kynlíf og hugsanir um kynlíf hljóti að taka upp undir 75% vinnutíma hans, svo mikið er honum niðri fyrir þegar hann talar um það. Grunntónninn er svo sem ekki nýr því það er vitað að Ratzinger páfi og fylgilið hans hefur megnustu óbeit á samkynhneigðum. Hins vegar er það nýtt að hann skuli jafna samkynhneigð við eina mestu vá sem steðjar að mannkyni. Þar leggst Ratzinger páfi lægra en áður og er þá löngu til jafnað. Hatursáróður hans, sem sveipaður er í nær skotheldan búning skinhelginnar, hefur nú náð nýjum lægðum, en það kemur kalli örugglega ekki á óvart því hvert einasta orð í tölu hans í dag hefur verið vegið og metið af þeim kátu og skírlífi köllum sem skipa ráðgjafaráð hans. Köllum sem eru álíka sprengdir hlandi og Ratzinger þegar kemur að kynlífi.
Stundum velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki hægt að segja að þessi þráhyggja kaþólsku kirkjunnar sé bara einelti gagnvart sam- og tvíkynhneigðum? Er það í lagi að jafn voldug og auðug stofnun leggi einn hóp fólks í einelti, eins og raun ber vitni? Eru engir alþjóðlegir sáttmálar sem ná yfir svona hegðun? Ég veit reyndar að almennir mannasiðir og manngæska koma í veg fyrir svona hegðun, en þeim virðist ekki vera til að dreifa í þessu tilfelli. Þá veit ég það að ef þetta gerðist á skólalóð, þá væri gerandinn settur út í horn og látinn skammast sín. En kann kaþólska kirkjan að skammast sín? Hmmmm! Lítillæti og iðrun vegna misgjörða eru nær óþekkt fyrirbrigði innan hennar vébanda. En kannski mega sam- og tvíkynhneigðar eiga von á afsökunarbeiðni eftir 500-700 ár. Það tók kaþólsku kirkjuna t.d. ekki nema þúsund ár að biðja rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna afsökunar á ýmsum misgjörðum :) Hommar, lesbíur og þið sem hneigist að öllum ... ekki halda niðri í ykkur andanum :)
Ég hef áður sagt að það er verðugt rannsóknarefni að skoða hvers vegna forsvarsmönnum kaþólskunnar, aðallega, er jafn illa við samkynhneigða og raun ber vitni. Þá er það álíka áhugavert að skoða hvers vegna kynlíf er þessum kátu köllum jafn hugleikið og raun ber vitni. Sjálfur hef ég endurómað þekktar skoðanir á þessum kynjum, en vegir páfanna í þessum efnum eru algjörlega huldir þoku og því órannsakanlegir. Ég hvet lesendur einnig til að kynna sér sterka og mikilvæga grein mína um Ratzinger páfa og valkvæma pervertaprófið sem hann ætlar að leggja fyrir verðandi presta. Aðeins einn snjallasti maður í heimi gæti fundið upp slíkt bragð til að berjast gegn þeim illu kenndum sem hafa hrjáð marga kaþólska presta í gegnum tíðina.
Nú segir Ratzinger páfi að mörkin á milli karla og kvenna verði sífellt ógreinilegri. Líklega hefur hann verið í fallegu rauðu skónum sínum og gullbrydduðu úlpunni þegar hann sagði þetta, afar karlmannlegur og vígalegur á velli. En nóg um það, þótt það sé leitun að glysgjarnari köllum en páfum og kardinálum.
Í mínum huga er Ratzinger páfi reyndar að gera einn hlut sem gagnast mannkyni og það er að vera skírlífur, ef hann í raun nær að halda í sér, því það tryggir að erfðalína hans endar við hans lokadægur. Það er góður greiði sem hann gerir okkur hinum með þeirri ráðstöfun og vona ég innilega að hann nái að berja frá sér 'illar' langanir! Við þurfum jafn lítið á viðgangi svona kredduhugsana og haturs að halda eins og eyðingu regnskóganna. Munurinn á þessu tvennu er þó sá að Ratzinger páfa er í lófa lagið að breyta sínu viðhorfi meðan það er nokkuð flóknara að eiga við hitt.
Hvað varðar spurninguna sem ég varpa fram í yfirskrift þessa pistils, þá verð ég að svara henni neitandi. En Ratzinger páfi er, í mínum huga, mjög ofarlega á listanum!
Tengd frétt: Páfi varar við sam- og tvíkynhneigð