Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Úrsagnir úr Ríkiskirkjunni
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og í dag á þetta gamla heilræði svo sannarlega við. Mikið hefur verið rætt um úrsagnir úr Ríkiskirkjunni undanfarna daga og ekki að ástæðulausu. Þetta er nefnilega besta leiðin fyrir trúlausa og þá sem er sama um trú að sýna hug sinn til kirkjunnar og framgöngu hennar. Þetta er líka frábær leið fyrir trúaða að sýna í verki að þeir kunni ekki að meta þau vinnubrögð sem Ríkiskirkjan hefur viðhaft í viðkvæmum málum.
Ég bendi því á þessa síðu þar sem hægt er að fá allar upplýsingar um hvernig áhugasamir bera sig að. Ef þú ert ósáttur við framkomu Ríkiskirkjunnar undanfarið, þá er þetta síðan fyrir þig!
PS. Sumum getur fundist það vera dónaskapur að segja sig úr Ríkiskirkjunni. Þeim er bent á að líklega var þeim sýndur sá dónaskapur í upphafi að þeir voru skráðir í hana strax við fæðingu án þess að þeir hefðu nokkuð um það að segja. Ríkið og kirkjan gerðu ráð fyrir að viðkomandi myndi sjálfkrafa taka upp trú móður sinnar, sem líka var gert ráð fyrir að myndi taka upp trú móður sinnar o.s.frv. Dónaskapurinn átti sér því stað þá, en ekki núna þegar fólk getur sjálft tekið sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 28. ágúst 2010
Sérfræðingur í kynlífsmálum
Ég var eitt sinn bannfærður af bloggi fyrir að spyrja hvernig Páll postuli væri þess umkominn að leggja heimsbyggð línurnar þegar kemur að kynlífi. Þessi sami einstaklingur bannfærði mig síðan af öðru bloggi sem hann rekur, en það er önnur saga :)
Það eru víst til ótal tilvitnanir í postulann þar sem hann fabúlerar fram og til baka um kynlíf, en minna sést skrifað (lesist: ekkert) um hvernig hann öðlaðist sína stöðu sem sérfræðingur í lystisemdum holdsins. Páll postuli hafði t.d. uppi harðar yfirlýsingar um hversu ósæmilegt kynlíf tveggja karla væri, en það kemur hvergi fram hvernig hann komst að þessari niðurstöðu eða hvað liggur henni til grundvallar.
Mér þætti því áhugavert að sjá skýringu á því hvernig postulinn öðlaðist þessa sérfræðiþekkingu sína, enda er hann leiðandi afl í mótun skoðana milljóna kristinna um allan heim sem fylgja kennisetningum hans í blindni. Í raun á það fólk jafnvel enn meiri heimtingu en ég á því að vita þetta því það þarf að fara eftir (í orði, altént) þeim boðum og bönnum sem postulinn boðaði í öndverðu.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Laugardagur, 21. ágúst 2010
Um skriftir
Nokkur umræða er nú um skriftir og vægi þeirra. Allur meginþorri almennings telur að heill barna eigi að hafa forgang umfram trúnaðarskyldu presta við sóknarbörn sín meðan nokkur ólíkindatól vilja að sakbitnir misyndismenn njóti fulls trúnaðar. Forstöðumaður Kaþólska þjóðarflokksins skrifar t.d. pistil í dag á bloggsvæði flokksins þar sem hann tekur undir þau orð Geirs Waage að glæpamenn eigi að njóta fulls trúnaðar óháð því hverjar syndir þeirra eru.
Það leiðir mig hins vegar að því að íhuga hvaða gildi skriftir (eða játning gagnvart sálusorgara) hafa í dag. Í mínum huga eru skriftir hálfgerður óskapnaður sem komið var á laggirnar til þess eins að auka vægi og ítök presta í lífum sóknarbarna sinna. Ef sakbitinn einstaklingur kemur til prests á auðvitað að hvetja viðkomandi að fara til lögreglu og játa þar misgjörðir sínar fyrir veraldlegu valdi í stað þess að leggjast flatur fyrir presti sem í raun gefur viðkomandi upp sakir gegn því að hann iðrist. Nei, kirkjan vill síður að þessi glæpamaður neyðist til að fara til lögreglu og því hefur hann þennan góða kost sem hann getur valið í staðinn, kost sem er Guði í raun betur þóknanlegur en veraldlegt réttlæti.
Hver sem er getur gert sér upp iðrun, sé hann nógu sakbitinn og því hef ég trú á því að margir ótíndir glæpamenn hafi gengið keikir frá fundum sínum með prestum í gegnum þar sem þeir röktu syndaregistu sína og fengu aflausn í staðinn. Prestur á ekki að dæma í veraldlegum málum; hann á að koma allri vitneskju um saknæmt athæfi til veraldlegra yfirvalda.
Með því að hylma yfir með glæpamönnum og sparsla í brotna samvisku þeirra er kirkjan að setja sig ofar landslögum. Hún setur einn mann í sæti dómara og böðuls þar sem presturinn leggur línurnar fyrir glæpamanninn svo samviska hans geti orðið hrein og tær að nýju.
Kirkjan hefur þannig engan rétt til þess að bjóða glæpamönnum upp á valkost við veraldlega réttvísi, en í dag bjóðast 'sannkristnum' glæpamönnum tveir kostir:
- farðu til lögreglu, játaðu og taktu út veraldlega refsingu gagnvart allra augum (sekt og/eða fangelsi)
- farðu í leyni til prests, játaðu í leyni gagnvart einum manni og taktu út þá leynilegu refsingu sem þú velur þér sjálfur (bænabeiðsla og/eða flengingar?)
Er þetta ekki dásamlegur valkostur fyrir 'sannkristna' glæpamenn? Iðrast pínulítið, biðja ögn og jafnvel flengja sjálfan sig ... og þú kemur út eins og nýhreinsaður hundur, klár í leðjuslaginn að nýju?
Í raun má segja að það sé helber dónaskapur við réttlætiskennd þjóðar að þessi seinni valkostur skuli vera í boði. En þetta hentar kristinni kirkju prýðilega, að því er virðist, enda býður hún þennan kost áfram, 'sannkristnum' glæpamönnum landsins til þæginda og hægðarauka.
Þagnarskyldan er algjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þriðjudagur, 13. júlí 2010
Kaþólikkar = góðir, múslimar = vondir?
Kristin stjórnmálasamtök, betur þekkt sem Jón Valur Jensson, gera athugasemd við það að ofbeldismenn í Norður-Írlandi séu kenndir við kaþólskuna á meðan það er dagljóst að markalínur í ofbeldi á Írlandi hafa lengi verið dregnar á milli kaþólskra og mótmælenda. Það er algjör tilviljun hvort fólk fæðist sem kaþólskt eða mótmælendur, en það skal alið upp í hatri á hinum. Þetta er í raun eins og lélegur söguþráður í sápuóperu, ef nánar er skoðað. Kristin stjórnmálasamtök, betur þekkt sem Jón Valur Jensson, bera sig aumlega og kenna mótmælendum um illt uppeldi þessara kaþólsku sprengjuvarga og ofbeldisseggja. Er ekki gaman hvernig trúin sameinar og byggir upp frið? Hún byggir brýr og umvefur alla hlýju :)
Hins vegar er skondið að sjá að Jón Valur Jensson, æðstiklerkur Kristinna stjórnmálasamtaka, gerðist jafn sekur um álíka alhæfingar ekki alls fyrir löngu í þessari tímamóta grein, Öfgamúslimar frá Úzbekistan ætluðu sér hryðjuverk gegn Norðmönnum. Þar þótti æðstaklerknum ekkert athugavert við að stimpla nokkra meinta ofbeldismenn sem múslima. Mun æðstiklerkur Kristinna stjórnmálasamtaka draga þá grein sína til baka í kjölfar fyrrgreindra skrifa eða gilda aðrar og rýmri reglur um kaþólikka en múslima?
Það er gott að geta sett öðrum reglurnar án þess að þurfa að fara eftir þeim sjálfur :) Sannlega, sannlega er gott að vera kaþólskur og réttsýnn!
Kaþólikkar köstuðu sprengjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Laugardagur, 26. júní 2010
Trúaðir, vantrúaðir og allir hinir sem er alveg nákvæmlega sama
Hann er mæðulegur, pistillinn á vef þeirra þrettán sem biðja og biðja um kristinn þjóðarflokk. Í pistlinum eru alþingismenn sakaðir um mikið hirðuleysi þegar kemur að málefnum Ríkiskirkjunnar. Það er mæðst yfir því að EKKI EINN alþingismaður greiddi atkvæði gegn nýlegu frumvarpi sem tryggði öllum Íslendingum jöfn mannréttindi hvað varðar hjónaband og talað um að fráhvarf þingmanna frá kristnum gildum.
En er þetta ekki bara lýsandi fyrir stöðuna í trúmálum hérlendis? Er þetta ekki í raun afar góð birtingarmynd þess áhugaleysis sem þjóðin öll hefur gagnvart trú og trúmálum? Þeir voru 49, þingmennirnir sem samþykktu frumvarpið. Ég ætla að vera afar höfðinglegur í garð hinn þrettán vongóðu um kristinn þjóðarflokk og gefa mér það að allir þeir 14 alþingismenn sem heima sátu séu sannkristnir, en hafi ekki þorað að sýna það í þessari atkvæðagreiðslu. Það merkir að 78% alþingismanna eru fráhverfir trú eða setja í það minnsta almenn mannréttindi ofar gömlum trúarkreddum. Við vitum þó vel að mun fleiri alþingismenn hefðu samþykkt frumvarpið, andstæðingar þess eru teljandi á fingrum annarrar handar.
Þannig tel ég að þessi atkvæðagreiðsla sýni í raun hversu lítið fylgi trúin hefur í raun og veru hérlendis. Í mínum huga eru trúaðir annars vegar og trúlausir/vantrúaðir hins vegar álíka stórir hópar, 10-15% hvor hópur. Á milli þeirra eru hins vegar hin 70-80% sem er alveg sama og hefur enga skoðun á málinu á hvorn veginn sem er.
Þetta er hin raunverulega staða í trúmálum hérlendis í dag. Nú geta trúaðir vitnað í Þjóðskrá og sagt að 80% Íslendinga séu skráðir í Ríkiskirkjuna og er það alveg rétt. Það segir hins vegar ekkert um hversu trúaðir þeir eru. Ég bendi t.d. á afar dræma þátttöku í Kristnitökuhátíð árið 2000 og pínlega lélega mætingu undanfarin ár í Bænagöngur. Þá eru kirkjur landsins sjaldan þéttsetnar. Það er hins vegar alltaf fullt upp í rjáfur á Hinsegin dögum :)
Staðan er í því þannig að við erum nokkur algjörlega forhert á sitthvorum jaðrinum sem höfum sitthvora skoðunina. Stórum meirihluta þjóðarinnar sem skrönglast þar á milli gæti hins vegar ekki verið meira sama :) og gildir einu hvort hann er skráðir í Ríkiskirkjuna eða ekki!
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Föstudagur, 11. júní 2010
Skiljum að ríki og kirkju!
Það er ánægjulegt að sjá að okkur sem viljum aðskilnað ríkis og kirkju hefur bæst liðsauki, en það er Jón Valur Jensson sem afþakkar pent afskipti veraldarhyggjufólks þegar kemur að kirkju. Þetta eru orð kallsins:
Ég frábið mér álit veraldarhyggjumanna um það, hvað kristnar kirkjur eigi að gera í þessu máli þeir eiga ekkert með það a[ð] gera að stýra kristnilífi í landinu.
- Jón Valur Jensson, 11. júní 2010.
Ég vænti þess að sjá Jón á morgun, laugardaginn 12. júní kl. 14, við Hallgrímskirkju að krefjast þess að ríki og kirkja verði aðskilin. Þá getur kirkjan hans haldið áfram að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar án nokkurra afskipta frá þessu bévítans veraldarhyggjuliði.
Áhugasamir kynni sér málið á Facebook.
PS. Ég er þó viss um að Jón Valur vill áfram fá 5-6 milljarðana sem ríkið eys árlega í kirkjuna. En bara ekki að fulltrúar skattborgara, þessir fjárans veraldarhyggnu þingmenn, hafa neitt um það að segja hvernig þeim er varið!
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. júní 2010
Eru lesbíur betri foreldrar?
Tímaritið Time birti nýverið áhugaverða grein um könnun sem sýnir að börn sem alin eru upp af lesbíum virðast hafa betri sjálfsmynd, ganga betur í skóla og sýna betri hegðun. Í könnuninni er talað um börn sem alin eru upp af lesbíum í sambúð eða einhleypum, sem voru yfirlýstar lesbíur þegar þær undirgengust tæknifrjóvgunarmeðferð.
Þessi grein sýnir að gamlar kreddur um vægi þeirrar gamaldags fjölskyldumyndar sem ákveðnir þrýstihópar í þjóðfélaginu halda á lofti eiga ekki við rök að styðjast. Vissulega er gott fyrir börn að alast upp í fjölskyldu þar sem mamma og pabbi búa saman, en þessi rannsókn sýnir að það fjölskyldumynstur er ekki endilega það besta.
Í greininni kemur fram að 41% barnanna sem könnunin tók til sögðu frá því að þau hefðu glímt við stríðni, útskúfun og mismunun vegna fjölskylduaðstæðna sinna, sem er auðvitað tilkomið vegna fordóma og þröngsýni, en þrátt fyrir það voru þau í jafn góðu andlegu jafnvægi á sautjánda aldursári og jafnaldrar þeirra.
Ein skýringin á þessu er sú að lesbískar mæður virðast herða sig enn betur í uppeldinu vegna þeirra fordóma sem þær vita að börn þeirra munu verða fyrir. Þær verja meiri og betra tíma með börnum sínum og ræða betur við þau um margvísleg málefni, s.s. kynferðismál, fjölbreytileika í mannlífinu og umburðarlyndi.
Þetta sýnist mér vera skilaboðin sem fordóma- og kreddufulla fólkið ætti að taka til sín. Þetta fólk verður að sætta sig við að þeirra sýn á lífið og tilveruna er ekki endilega sú rétta. Nýir tímar og meiri upplýsing ættu að opna augu þessa fólks fyrir því að hugsanlega séu til aðrar og betri leiðir í mannlífinu.
Sunnudagur, 6. júní 2010
Íslensk ríkistrú að hætti Kim Jong-Il
Í gær mættu nokkrir tugir Íslendinga á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju og stóðu fyrir þeirri kröfu sinni að skilið verði á milli ríkis og kirkju. Því miður varð fundarfólki ekki að þeirri ósk sinni í þetta skiptið, en vaktin verður staðin reglulega í sumar og verður það vonandi til þess að þetta mál þokast aðeins áfram.
Meirihluti þjóðarinnar styður það að skilið verði á milli ríkis og kirkju skv. Gallup-könnun, en 74% þeirra sem tóku afstöðu eru þessu fylgjandi. Þetta er tímanna tákn, en trú er á hallandi fæti í nútíma þjóðfélagi þar sem upplýsingin þrífst betur.
Í grein á visir.is segir biskup að það sé ekkert til sem heiti algjör aðskilnaður á milli ríkis og kirkju. Það kemur auðvitað ekki á óvart að vel launaður ríkisstarfsmaðurinn skuli verja stöðu sína með kjafti og klóm, en vert er að skoða hvað hann segir í þessari grein. Þar talar hann t.d. um Norður-Kóreu og gefur bersýnilega lítið fyrir þeirra verklag í trúmálum, en hvað er gert hér á Íslandi árið 2010:
- Nýfædd börn eru skráð í trúfélag móður
- Ríkiskirkjan stundar ríkisstyrkt trúboð í leik- og grunnskólum
- Ríkið rukkar inn klúbbgjöld fyrir trúfélög með sköttum
Þetta lítur út fyrir að vera eins Norður-Kóreskt og verið getur og væri Kim Jong-Il líklega bara stoltur af þessari skipan mála :) Ég veit ekki hvað stjórnvöld í Norður-Kóreu gætu gert meira fyrir ríkistrú, ef hún væri til þar á annað borð? Er hægt að gera mikið meira en að skrá börn í trúfélög án þeirra samþykkis? Eða þá að fara inn í leikskóla og boða þeim ríkistrú meðan þau geta ekki beitt gagnrýnni hugsun og valið fyrir sjálf sig það sem hentar þeim best? Er þetta ekki ríkisforsjá í anda Norður-Kóreu eins og hún gerist best (eða verst, líklega).
Biskup segir að trú og samfélag séu samofin. Hann hefur að hluta til rétt fyrir sér, en hann getur þess ekki að á undanförnum áratugum hafa þessi tengsl verið að rakna upp og er nú svo komið að þau vega ekki þungt. Ef svo fer fram sem horfir munu þau hverfa nær algjörlega, en það er hreinlega bara í takt við aukna upplýsingu og frjálsa hugsun. Hann vill að kirkjan sé sterk, en hún er bara ekki sterkari en sauðirnir sem henni fylgja; sauðunum sem hefur fækkað mikið undanfarið og fækkar stöðugt meira. Það sem biskup meinar, í raun, er að kirkjan er háð ríkinu um fjármuni enda ekki auðvelt að reka apparat sem sogar til sín 5-6 milljarða árlega. Þannig eru þræðirnir sem liggja á milli ríkis og kirkju mest fjárhagslegir, en hafa lítið með andlega næringu að gera.
Ég hef áður sagt að kirkjunni væri mestur greiði gerður með því að skera hana frá ríkinu. Þá finnst mér það líklegt að Jesúsi Jósepssyni myndi ekki lítast á það bákn sem nú bægslast um í samfélaginu og kostar 5-6 milljarða á krepputímum.
En hann upplifði reyndar aldrei þá sönnu gleði sem fylgir því að vera ríkisstarfsmaður í þjónustu Guðs :)
PS. Annars er þetta tal um ríki og kirkja hálfgert blaður, en nokkrir embættismenn viðhalda í raun þeirri tengingu með öllum ráðum. Það er tengingin á milli þjóðar og kirkju sem er málið, en hún er nær öll horfin!
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 2. júní 2010
Af hverju páfinn þarf aldrei að biðjast afsökunar!
Í nýjasta tölublaði Time er fjallað um Ratzinger páfa og þá erfiðu stöðu sem hann er í. Það er lýsandi fyrir stöðu páfa að yfirskrift greinarinnar er Why Being Pope Means Never Having To Say You're Sorry eða Af hverju það að vera páfi merkir að þú þurfir aldrei að biðjast afsökunar.
Í greininni er fjallað um ömurlega stöðu Ratzinger páfa sem virðist eiga afar erfitt, svona almennt, að játa mistök og biðjast afsökunar. Það er t.d. tekið dæmi um það að þegar hann var bara aumur kardináli árið 2000 þá var hann beðinn um að skrifta um syndir kaþólsku kirkjunnar hvað varðar hinn illræmda Rannsóknarrétt. Þegar Ratzinger kvaddi sér hljóðs sagði hann: "that even men of the church, in the name of faith and morals, have sometimes used methods not in keeping with the Gospel in the solemn duty of defending the truth" eða "að stundum þyrftu jafnvel kirkjunnar menn, í nafni trúar sinnar og siðferðis, að beita aðferðum sem ekki samræmdust Guðspjallinu til að vinna þá heilögu skyldu sína að verja sannleikann." Svo mörg voru þau iðrunarorðin og er það dagljóst að Ratzinger kardinála, nú Ratzinger páfi, fannst Rannsóknarrétturinn hafa farið fram með eðlilegum hætti í starfsemi sinni. Hann um það, en það kemur líklega ekki á óvart að Ratzinger hafði viðurnefnið Rottweiler Guðs í sinni tíð, svo harðsnúinn þótti hann og harðfylginn. Það var því vel valið þegar Ratzinger var ráðinn til að stýra þeirri stofnun í Páfagarði sem tók við af Rannsóknarréttinum. Það þarf mann með ákveðna gerð innréttingar til að stýra slíkri deild og Ratzinger sýndi vel að hann var réttur maður í því starfi.
Eitt af því sem Ratzinger páfi á erfitt með að horfast í augu við í dag er að þegar hann var erkibiskup í München árið 1980 þá brást hann rangt við í máli níðingsprets sem undir honum þjónaði. Níðingurinn slapp billega meðan fórnarlamb eða lömb hans kvöldust. Svo er auðvitað illæmt bréfið sem hann skrifaði öllum biskupum árið 2001 þar sem hann lagði línurnar varðandi það hvernig ætti að þagga niður níðingsmál innan vébanda kirkjunnar. Ratzinger hefur nefnilega alltaf þótt meira vænt um kirkjuna sína en sauðina sem til hennar teljast, enda er af nógu að taka þar sem 1,1 milljarður manna sauðast þar inni. En bréfið illræmda virðist hafa verið listasmíð því í mars sl. sagði biskup í Brasilíu að mál níðingspresta væru innanhússmál kirkjunnar og ættu ekkert erindi til veraldlegra yfirvalda. Orðrétt sagði hann "að það væri hálf skrýtið ef kirkjan ásakaði einn af sonum sínum." Einmitt, það er hálf skrýtið ef maður er kaþólikki.
Svo er þetta allt mun erfiðara fyrir vikið þegar haft er í huga að páfi á ekki að geta gert mistök. Páfi hefur ávallt verið talinn óskeikull og óbrigðull, en það er öðru nær. Sakaskrá hans er þvílík að hann ætti að vera hokinn af öllum þessum syndum, er það er öðru nær. Rottweilerinn biðst ekki fyrirgefningar, enda hvernig getur óskeikull páfi iðrast? Hver getur veitt honum aflausn synda hans? Í Markúsarguðspjalli segir:
Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.
Markúsarguðspjall, 9:42
Ratzinger páfi er að fullu samsekur þegar hann hefur bæði aðstoðað brotamann með beinum hætti að komast undan réttvísinni og lagt öðrum reglurnar um hvernig þeir geri slíkt hið sama. Hvar er þá mylnusteinninn hans?
Vandi kaþólsku kirkjunnar liggur líklega í bjagaðri sjálfsmynd og uppblásni sjálfsmati. Hún telur sig vera fulltrúa Guðs hér á jörðu og, sem slík, óbrigðul og óskeikul. Páfagarður er sem sagt sendiráðs almáttugs Guðs hér á jörðu og Ratzinger páfi er sendiherrann með allri þeirri friðhelgi sem slíkri vegtyllu fylgir. Og þar er komið svarið við spurningunni sem kastað var fram í upphafi, Ratzinger páfi telur sig yfir slíkt hafinn!
Dramb er falli næst, segir gamalt máltæki, og það sannast hressilega hér.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. maí 2010
Kaþólska kirkjan er sannarlega EKKI afl til góðs í þessum heimi
Það er auðvelt fyrir meintan skírlífisbiskupinn að lýsa því yfir að stundum verði mæður bara að deyja með ófæddum börnum sínum, enda er hann ekki að tala um sitt eigið líf. Þetta kristallar viðhorf kaþólskunnar til kvenna, en konur eru álitnar það verðlausar innan vébanda hennar að þær geta aldrei vænst þess að fá nokkurn frama í faðmi feitu kirkjunnar. Nei, slíkt er alfarið frátekið fyrir meinta skírlífa kalla.
Ég vek athygli á grein sem ég skrifaði í byrjun nóvember á síðasta ári eftir að hafa horft á kappræður á milli málsvara kaþólsku kirkjunnar annars vegar og andstæðinga hennar hins vegar. Því miður er ekki hægt að finna þessar kappræður í heild sinni á Netinu, eftir því sem ég best fæ séð, en hér og hér er hægt að horfa á snillinginn Stephen Fry. Hann fer þarna prýðilega vel yfir það hvers vegna kaþólska kirkjan er ekki afl til góðs í þessum heimi!
Ég hvet alla sem hafa áhuga á því að kynna sér þetta að lesa greinina og svo þær athugasemdir sem eftir fylgja. Þar má glögglega sjá að kaþólska kirkjan er ekki afl til góðs þrátt fyrir fánýtar tilraunir kaþólskra til að sýna fram á annað.
Hvað varðar fréttina, þá á þessi nunna, sem var bannfærð af kirkjunni, eftir að þakka þetta miskunnarverk fyrr en síðar :)
Nunna bannfærð fyrir fóstureyðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)