Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 18. október 2010
Ríkistrúin sundrandi
Ritstjóri Fréttablaðsins vælir og emjar í dag og telur á kristnum brotið vegna þess að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur, reyndar fyrir löngu síðan, komist að þeirri niðurstöðu að trúboð í skólum brjóti gegn sjálfsögðum og eðlilegum mannréttindum.
Viðbrögð ritstjórans eru í sjálfu sér eðlileg og skiljanleg, enda veit hann sem er að þegar hætt verður að ala börn upp í Ríkisskólum í Ríkistrú, þá mun hún fljótt og vel leggjast af og hverfa. Það er þessi hræðsla trúaðra sem hefur í gegnum tíðina orðið kveikjan að því að sótt er í yngstu börnin með offorsi, enda eru þau þannig innréttuð að þau trúa öllu sem fullorðna fólkið segir þeim. Því er það svo að ef einhver fullorðinn segir þeim að til sé Guð og að Jesús sé besti vinur barnanna þá trúa þau því svo heitt að þessi skynvilla helst hjá flestum fram á fullorðinsárin og þá sem hin 'fallega' barnatrú.
Svo má velta því fyrir sér af hverju Stephensen treystir sér ekki til þess að ala sín börn upp í trú. Af hverju vill hann útvista þessari fræðslu til skólans í stað þess að sjá um hana sjálfur? Tekur þetta of mikinn tíma? Er ávinningurinn minni en tilkostnaðurinn? Hefur hann eitthvað merkilegra að gera eftir kl. 17 á daginn og um helgar? Hefur hann ekki þekkingu til þess að ala sín börn upp í trú? Er hann ekki nógu trúaður til þess? Er hann máské of latur til þess? Guð einn veit líklega bara svarið við þessum spurningum.
En málið er að í skólum á að vera umhverfi þar sem allir eru jafnir. Gagnvart stærðfræði, líffræði og smíðum erum við öll jöfn, enda þurfum við ekki að taka siðferðislega eða heimspekilega afstöðu til þessara greina. Við getum og eigum öll að læra að lesa og skrifa, en það er ekkert sem segir að allir þurfi að taka trú. Það er ekkert sem segir að trú skuli boðuð öllum börnum í skólum, nema þá sérhagsmunir Ríkiskirkjunnar sem stendur á brauðfótum og þarf lífsnauðsynlega að nýliða nýfædd börn inn í galeiðuna til þess að eiga sér möguleika til framhaldslífs.
Og þar er trúboð í leik- og grunnskólum besta og skilvirkasta leiðin! Því trúin er auðvitað ekki persónulegt fyrirbæri í dag, heldur er hún Ríkisrekið apparat sem tekur við ómálga smábörnum í sínar raðir sem ekki hafa nokkurn möguleika á því að velja sjálf. Svo er þannig búið um hnútana að áður en börnin komast á þann aldur að þau öðlist nauðsynlega skynsemi til þess að velja, þá er búið að innræta þeim all rækilega þann Ríkissannleik að Jesús sé besti vinur barnanna.
Hún er dásamleg og persónuleg trú, þessi Ríkistrú, trúin sem kemur inn í skólana og og sundrar skólafélögum þannig að örfáir þurfa að vera á bókasafninu á meðan hinir lufsast í kirkjuferð eða hlusta á prestinn. Hún er yndisleg og hlý, þessi Ríkistrú, sem lætur örfáum krökkum líða eins og utanvelta á meðan félagarnir sauðast í trúarlega tengda viðburði.
En hún er best og yndislegust, þessi Ríkistrú, sem tekur ómakið af fólki eins og Stephensen og leysir það undan þeirri áþján að þurfa að sjá um trúboðið sjálft. Þar er hún best.
Miðvikudagur, 15. september 2010
Um trú ríkistrúaðra á Ríkiskirkjunni
Helstu meðmælendur Ríkiskirkjunnar segja hana sterka og eina af meginstoðum þjóðfélags vors. Hún sé samofin þjóðarsálinni og án hennar myndi þjóðin vaða eintóma villu. Þessir sömu aðilar tilgreina m.a. að það segi meira en mörg orð að um 80% landsmanna séu nú skráð í Ríkiskirkjuna.
En á sama tíma og þessi orð eru sögð, telja þessir sömu aðilar að Ríkiskirkjan geti ómögulega lifað án þess að vera í öndunarvél ríkisins. Getur verið að Ríkiskirkjan sé jafn aum og veik og helstu meðmælendur hennar vilja meina? Getur verið að hún sé það hrörleg og tilboð hennar svo lélegt að hún þurfi alla þá meðgjöf sem hún fær? Það er rétt að fara aðeins yfir stöðu mála.
Sjálfkrafa skráning nýfæddra barna í trúfélag
Þessu fyrirkomulagi var komið á þegar Ríkiskirkjan græddi hvað mest á því, þegar nær öll þjóðin var skráð í hana. Jafnvel á þeim tíma höfðu forsvarsmenn Ríkiskirkjunnar ekki meiri trú á henni en svo að þeir mátu að það þyrfti að skrá alla sjálfkrafa í hana við fæðingu, annars færi illa fyrir henni. Getur verið að þeir hafi vitað að fæstir myndu leita eftir skráningu sjálfviljugir?
Trúboð í leik- og grunnskólum
Í gegnum tíðina hafa prestar Ríkiskirkjunnar haft greiðan aðgang að ómótuðum hugum barna í leik- og grunnskólum. Þar hafa þeir komið inn, glaðbeittir og hressir og sungið um að Jesús sé besti vinur barnanna. Hvað eiga börnin að halda? Þeim er sagt að hlýða og trúa fullorðna fólkinu í skólanum og þá hlýtur Jesús að vera besti vinur barnanna, er það ekki? Það er s.s. ekki vegna þess að börnin hafi fundið það hjá sér að Jesús sé þessi frábæri vinur, heldur vegna þess að þeim var sagt að hann væri sá besti. Þetta er sko trú í lagi. Lengi býr að fyrstu gerð og þarna er sæinu sáð sem seinna verður að hinni 'fallegu' barnatrú.
Innheimta á trúarskattinum
Af einhverjum orsökum virðast ríkistrúaðir sannfærðir um að þessi stofnun sé algjörlega ófær um að innheimta sjálf sín félagsgjöld. Þeir eru svo vissir um getuleysi hennar að ekkert annað kemur til greina en innheimta trúarskattsins í gegnum skattkerfið. Það hvarflar aldrei að ríkistrúuðum að aðrir trúaðir myndi líklega greiða þessi gjöld af fúsum og frjálsum vilja eftir heimsendingu á almennum greiðsluseðli svona rétt eins og t.d. gerist hjá Stöð 2. Nei, trúaðir hljóta að vera svo nískir á tíundina sína að það verður að kría hana út úr þeim með skattheimtu. Reyndar er það þannig að biskup sjálfur hefur sagt að trúaðir myndu hætta að borga til kirkjunnar ef þeir gætu valið um það :) og hann hlýtur að vita það manna best! Í bréfi til Alþingis árið 2002 sagði Karl Sigurbjörnsson eftirfarandi:
Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun.
Þannig vildi hann tryggja að enginn hefði val um að borga sóknargjöldin og að frekar yrðu þau innheimt af trúlausum og látin renna annað en að þeir fengju að hagnast á trúleysi sínu :) Þetta segir auðvitað mikið um hversu mikla trú sjálfur biskup Íslands hefur á vöruframboði fyrirtækis síns.
Guðlastslögin
Já, það er lögbundið að það megi ekki hallmæla Guði og hans háu hirð. Það þarf svo sem ekki að segja mikið meira um hversu kjánalegt það er. Jú, sumir Ríkistrúarbloggarar hóta stundum að kæra þá sem þeir eru ósáttir við skv. þessum lögum. Þau eru s.s. einhverjum Ríkistrúuðum nokkurt skjól og huggun.
Já, svona er staðan. Ríkistrúaðir hafa ekki trú á sinni kirkju nema að
- allir séu skráðir í hana við fæðingu
- allir séu munstraðir í hana í leik- og grunnskólum
- félagsgjöld í hana séu innheimt með skatti
- enginn megi tala illa um hana í almennri umræðu
Þetta kalla ég ofurtrú á sínum málstað! :)
Sunnudagur, 12. september 2010
Ber þá enginn ábyrgð?
Það er orðið býsna þreytt, þetta gamla viðkvæði um að enginn hefði getað gert neitt eftir árið 2006. Vera má að á árunum 2006-2008 hafi engar leiðir verið færar úr ógöngunum, en afsakar það þá hegðun að gera ekkert? Nei, allt gott fólk reynir hvað það getur. Ef Geir Haarde hefði t.d. komið hreint fram við þjóðina árið 2006 og sagt nákvæmlega hver staðan væri, þá þyrfti ekki að draga hann fyrir dóm í dag. En hann kaus að gera ekkert og í raun kaus hann að bæta í því á þessum tíma fór hann í reisu um heiminn til að kynna fyrir öllum sem vildu heyra að hér væri allt í góðu standi. Það væru bara vitleysingar hjá Den Danske Bank sem væru hallærislegir og fúlir. Svo þegar allt fór á versta veg setti hann upp eymdarsvipinn og bað Guð að blessa Ísland.
Ég er á því að það þurfi að beita þessu úrræði, Landsdómnum, þjóðarinnar vegna. Það er ekkert réttlæti í því að ráðherrar fái frítt spil þegar þeim var beinlínis falið að hafa þessi mál í lagi. Í besta falli voru þeir gróflega vanhæfir og í versta falli stýrðust þeir af annarlegum hvötum. Ég persónulega vil altént fá að vita í hvorn flokkinn Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir falla.
Þess vegna er Landsdómur ekki sjónarspil, heldur þjóðinni nauðsynlegur í dag.
![]() |
Landsdómur er sjónarspil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Úrsagnir úr Ríkiskirkjunni
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og í dag á þetta gamla heilræði svo sannarlega við. Mikið hefur verið rætt um úrsagnir úr Ríkiskirkjunni undanfarna daga og ekki að ástæðulausu. Þetta er nefnilega besta leiðin fyrir trúlausa og þá sem er sama um trú að sýna hug sinn til kirkjunnar og framgöngu hennar. Þetta er líka frábær leið fyrir trúaða að sýna í verki að þeir kunni ekki að meta þau vinnubrögð sem Ríkiskirkjan hefur viðhaft í viðkvæmum málum.
Ég bendi því á þessa síðu þar sem hægt er að fá allar upplýsingar um hvernig áhugasamir bera sig að. Ef þú ert ósáttur við framkomu Ríkiskirkjunnar undanfarið, þá er þetta síðan fyrir þig!
PS. Sumum getur fundist það vera dónaskapur að segja sig úr Ríkiskirkjunni. Þeim er bent á að líklega var þeim sýndur sá dónaskapur í upphafi að þeir voru skráðir í hana strax við fæðingu án þess að þeir hefðu nokkuð um það að segja. Ríkið og kirkjan gerðu ráð fyrir að viðkomandi myndi sjálfkrafa taka upp trú móður sinnar, sem líka var gert ráð fyrir að myndi taka upp trú móður sinnar o.s.frv. Dónaskapurinn átti sér því stað þá, en ekki núna þegar fólk getur sjálft tekið sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir.
Laugardagur, 21. ágúst 2010
Um skriftir
Nokkur umræða er nú um skriftir og vægi þeirra. Allur meginþorri almennings telur að heill barna eigi að hafa forgang umfram trúnaðarskyldu presta við sóknarbörn sín meðan nokkur ólíkindatól vilja að sakbitnir misyndismenn njóti fulls trúnaðar. Forstöðumaður Kaþólska þjóðarflokksins skrifar t.d. pistil í dag á bloggsvæði flokksins þar sem hann tekur undir þau orð Geirs Waage að glæpamenn eigi að njóta fulls trúnaðar óháð því hverjar syndir þeirra eru.
Það leiðir mig hins vegar að því að íhuga hvaða gildi skriftir (eða játning gagnvart sálusorgara) hafa í dag. Í mínum huga eru skriftir hálfgerður óskapnaður sem komið var á laggirnar til þess eins að auka vægi og ítök presta í lífum sóknarbarna sinna. Ef sakbitinn einstaklingur kemur til prests á auðvitað að hvetja viðkomandi að fara til lögreglu og játa þar misgjörðir sínar fyrir veraldlegu valdi í stað þess að leggjast flatur fyrir presti sem í raun gefur viðkomandi upp sakir gegn því að hann iðrist. Nei, kirkjan vill síður að þessi glæpamaður neyðist til að fara til lögreglu og því hefur hann þennan góða kost sem hann getur valið í staðinn, kost sem er Guði í raun betur þóknanlegur en veraldlegt réttlæti.
Hver sem er getur gert sér upp iðrun, sé hann nógu sakbitinn og því hef ég trú á því að margir ótíndir glæpamenn hafi gengið keikir frá fundum sínum með prestum í gegnum þar sem þeir röktu syndaregistu sína og fengu aflausn í staðinn. Prestur á ekki að dæma í veraldlegum málum; hann á að koma allri vitneskju um saknæmt athæfi til veraldlegra yfirvalda.
Með því að hylma yfir með glæpamönnum og sparsla í brotna samvisku þeirra er kirkjan að setja sig ofar landslögum. Hún setur einn mann í sæti dómara og böðuls þar sem presturinn leggur línurnar fyrir glæpamanninn svo samviska hans geti orðið hrein og tær að nýju.
Kirkjan hefur þannig engan rétt til þess að bjóða glæpamönnum upp á valkost við veraldlega réttvísi, en í dag bjóðast 'sannkristnum' glæpamönnum tveir kostir:
- farðu til lögreglu, játaðu og taktu út veraldlega refsingu gagnvart allra augum (sekt og/eða fangelsi)
- farðu í leyni til prests, játaðu í leyni gagnvart einum manni og taktu út þá leynilegu refsingu sem þú velur þér sjálfur (bænabeiðsla og/eða flengingar?)
Er þetta ekki dásamlegur valkostur fyrir 'sannkristna' glæpamenn? Iðrast pínulítið, biðja ögn og jafnvel flengja sjálfan sig ... og þú kemur út eins og nýhreinsaður hundur, klár í leðjuslaginn að nýju?
Í raun má segja að það sé helber dónaskapur við réttlætiskennd þjóðar að þessi seinni valkostur skuli vera í boði. En þetta hentar kristinni kirkju prýðilega, að því er virðist, enda býður hún þennan kost áfram, 'sannkristnum' glæpamönnum landsins til þæginda og hægðarauka.
![]() |
Þagnarskyldan er algjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 13. júlí 2010
Kaþólikkar = góðir, múslimar = vondir?
Kristin stjórnmálasamtök, betur þekkt sem Jón Valur Jensson, gera athugasemd við það að ofbeldismenn í Norður-Írlandi séu kenndir við kaþólskuna á meðan það er dagljóst að markalínur í ofbeldi á Írlandi hafa lengi verið dregnar á milli kaþólskra og mótmælenda. Það er algjör tilviljun hvort fólk fæðist sem kaþólskt eða mótmælendur, en það skal alið upp í hatri á hinum. Þetta er í raun eins og lélegur söguþráður í sápuóperu, ef nánar er skoðað. Kristin stjórnmálasamtök, betur þekkt sem Jón Valur Jensson, bera sig aumlega og kenna mótmælendum um illt uppeldi þessara kaþólsku sprengjuvarga og ofbeldisseggja. Er ekki gaman hvernig trúin sameinar og byggir upp frið? Hún byggir brýr og umvefur alla hlýju :)
Hins vegar er skondið að sjá að Jón Valur Jensson, æðstiklerkur Kristinna stjórnmálasamtaka, gerðist jafn sekur um álíka alhæfingar ekki alls fyrir löngu í þessari tímamóta grein, Öfgamúslimar frá Úzbekistan ætluðu sér hryðjuverk gegn Norðmönnum. Þar þótti æðstaklerknum ekkert athugavert við að stimpla nokkra meinta ofbeldismenn sem múslima. Mun æðstiklerkur Kristinna stjórnmálasamtaka draga þá grein sína til baka í kjölfar fyrrgreindra skrifa eða gilda aðrar og rýmri reglur um kaþólikka en múslima?
Það er gott að geta sett öðrum reglurnar án þess að þurfa að fara eftir þeim sjálfur :) Sannlega, sannlega er gott að vera kaþólskur og réttsýnn!
![]() |
Kaþólikkar köstuðu sprengjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 26. júní 2010
Trúaðir, vantrúaðir og allir hinir sem er alveg nákvæmlega sama
Hann er mæðulegur, pistillinn á vef þeirra þrettán sem biðja og biðja um kristinn þjóðarflokk. Í pistlinum eru alþingismenn sakaðir um mikið hirðuleysi þegar kemur að málefnum Ríkiskirkjunnar. Það er mæðst yfir því að EKKI EINN alþingismaður greiddi atkvæði gegn nýlegu frumvarpi sem tryggði öllum Íslendingum jöfn mannréttindi hvað varðar hjónaband og talað um að fráhvarf þingmanna frá kristnum gildum.
En er þetta ekki bara lýsandi fyrir stöðuna í trúmálum hérlendis? Er þetta ekki í raun afar góð birtingarmynd þess áhugaleysis sem þjóðin öll hefur gagnvart trú og trúmálum? Þeir voru 49, þingmennirnir sem samþykktu frumvarpið. Ég ætla að vera afar höfðinglegur í garð hinn þrettán vongóðu um kristinn þjóðarflokk og gefa mér það að allir þeir 14 alþingismenn sem heima sátu séu sannkristnir, en hafi ekki þorað að sýna það í þessari atkvæðagreiðslu. Það merkir að 78% alþingismanna eru fráhverfir trú eða setja í það minnsta almenn mannréttindi ofar gömlum trúarkreddum. Við vitum þó vel að mun fleiri alþingismenn hefðu samþykkt frumvarpið, andstæðingar þess eru teljandi á fingrum annarrar handar.
Þannig tel ég að þessi atkvæðagreiðsla sýni í raun hversu lítið fylgi trúin hefur í raun og veru hérlendis. Í mínum huga eru trúaðir annars vegar og trúlausir/vantrúaðir hins vegar álíka stórir hópar, 10-15% hvor hópur. Á milli þeirra eru hins vegar hin 70-80% sem er alveg sama og hefur enga skoðun á málinu á hvorn veginn sem er.
Þetta er hin raunverulega staða í trúmálum hérlendis í dag. Nú geta trúaðir vitnað í Þjóðskrá og sagt að 80% Íslendinga séu skráðir í Ríkiskirkjuna og er það alveg rétt. Það segir hins vegar ekkert um hversu trúaðir þeir eru. Ég bendi t.d. á afar dræma þátttöku í Kristnitökuhátíð árið 2000 og pínlega lélega mætingu undanfarin ár í Bænagöngur. Þá eru kirkjur landsins sjaldan þéttsetnar. Það er hins vegar alltaf fullt upp í rjáfur á Hinsegin dögum :)
Staðan er í því þannig að við erum nokkur algjörlega forhert á sitthvorum jaðrinum sem höfum sitthvora skoðunina. Stórum meirihluta þjóðarinnar sem skrönglast þar á milli gæti hins vegar ekki verið meira sama :) og gildir einu hvort hann er skráðir í Ríkiskirkjuna eða ekki!
Föstudagur, 11. júní 2010
Skiljum að ríki og kirkju!
Það er ánægjulegt að sjá að okkur sem viljum aðskilnað ríkis og kirkju hefur bæst liðsauki, en það er Jón Valur Jensson sem afþakkar pent afskipti veraldarhyggjufólks þegar kemur að kirkju. Þetta eru orð kallsins:
Ég frábið mér álit veraldarhyggjumanna um það, hvað kristnar kirkjur eigi að gera í þessu máli þeir eiga ekkert með það a[ð] gera að stýra kristnilífi í landinu.
- Jón Valur Jensson, 11. júní 2010.
Ég vænti þess að sjá Jón á morgun, laugardaginn 12. júní kl. 14, við Hallgrímskirkju að krefjast þess að ríki og kirkja verði aðskilin. Þá getur kirkjan hans haldið áfram að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar án nokkurra afskipta frá þessu bévítans veraldarhyggjuliði.
Áhugasamir kynni sér málið á Facebook.
PS. Ég er þó viss um að Jón Valur vill áfram fá 5-6 milljarðana sem ríkið eys árlega í kirkjuna. En bara ekki að fulltrúar skattborgara, þessir fjárans veraldarhyggnu þingmenn, hafa neitt um það að segja hvernig þeim er varið!
Miðvikudagur, 9. júní 2010
Eru lesbíur betri foreldrar?
Tímaritið Time birti nýverið áhugaverða grein um könnun sem sýnir að börn sem alin eru upp af lesbíum virðast hafa betri sjálfsmynd, ganga betur í skóla og sýna betri hegðun. Í könnuninni er talað um börn sem alin eru upp af lesbíum í sambúð eða einhleypum, sem voru yfirlýstar lesbíur þegar þær undirgengust tæknifrjóvgunarmeðferð.
Þessi grein sýnir að gamlar kreddur um vægi þeirrar gamaldags fjölskyldumyndar sem ákveðnir þrýstihópar í þjóðfélaginu halda á lofti eiga ekki við rök að styðjast. Vissulega er gott fyrir börn að alast upp í fjölskyldu þar sem mamma og pabbi búa saman, en þessi rannsókn sýnir að það fjölskyldumynstur er ekki endilega það besta.
Í greininni kemur fram að 41% barnanna sem könnunin tók til sögðu frá því að þau hefðu glímt við stríðni, útskúfun og mismunun vegna fjölskylduaðstæðna sinna, sem er auðvitað tilkomið vegna fordóma og þröngsýni, en þrátt fyrir það voru þau í jafn góðu andlegu jafnvægi á sautjánda aldursári og jafnaldrar þeirra.
Ein skýringin á þessu er sú að lesbískar mæður virðast herða sig enn betur í uppeldinu vegna þeirra fordóma sem þær vita að börn þeirra munu verða fyrir. Þær verja meiri og betra tíma með börnum sínum og ræða betur við þau um margvísleg málefni, s.s. kynferðismál, fjölbreytileika í mannlífinu og umburðarlyndi.
Þetta sýnist mér vera skilaboðin sem fordóma- og kreddufulla fólkið ætti að taka til sín. Þetta fólk verður að sætta sig við að þeirra sýn á lífið og tilveruna er ekki endilega sú rétta. Nýir tímar og meiri upplýsing ættu að opna augu þessa fólks fyrir því að hugsanlega séu til aðrar og betri leiðir í mannlífinu.
Sunnudagur, 6. júní 2010
Íslensk ríkistrú að hætti Kim Jong-Il
Í gær mættu nokkrir tugir Íslendinga á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju og stóðu fyrir þeirri kröfu sinni að skilið verði á milli ríkis og kirkju. Því miður varð fundarfólki ekki að þeirri ósk sinni í þetta skiptið, en vaktin verður staðin reglulega í sumar og verður það vonandi til þess að þetta mál þokast aðeins áfram.
Meirihluti þjóðarinnar styður það að skilið verði á milli ríkis og kirkju skv. Gallup-könnun, en 74% þeirra sem tóku afstöðu eru þessu fylgjandi. Þetta er tímanna tákn, en trú er á hallandi fæti í nútíma þjóðfélagi þar sem upplýsingin þrífst betur.
Í grein á visir.is segir biskup að það sé ekkert til sem heiti algjör aðskilnaður á milli ríkis og kirkju. Það kemur auðvitað ekki á óvart að vel launaður ríkisstarfsmaðurinn skuli verja stöðu sína með kjafti og klóm, en vert er að skoða hvað hann segir í þessari grein. Þar talar hann t.d. um Norður-Kóreu og gefur bersýnilega lítið fyrir þeirra verklag í trúmálum, en hvað er gert hér á Íslandi árið 2010:
- Nýfædd börn eru skráð í trúfélag móður
- Ríkiskirkjan stundar ríkisstyrkt trúboð í leik- og grunnskólum
- Ríkið rukkar inn klúbbgjöld fyrir trúfélög með sköttum
Þetta lítur út fyrir að vera eins Norður-Kóreskt og verið getur og væri Kim Jong-Il líklega bara stoltur af þessari skipan mála :) Ég veit ekki hvað stjórnvöld í Norður-Kóreu gætu gert meira fyrir ríkistrú, ef hún væri til þar á annað borð? Er hægt að gera mikið meira en að skrá börn í trúfélög án þeirra samþykkis? Eða þá að fara inn í leikskóla og boða þeim ríkistrú meðan þau geta ekki beitt gagnrýnni hugsun og valið fyrir sjálf sig það sem hentar þeim best? Er þetta ekki ríkisforsjá í anda Norður-Kóreu eins og hún gerist best (eða verst, líklega).
Biskup segir að trú og samfélag séu samofin. Hann hefur að hluta til rétt fyrir sér, en hann getur þess ekki að á undanförnum áratugum hafa þessi tengsl verið að rakna upp og er nú svo komið að þau vega ekki þungt. Ef svo fer fram sem horfir munu þau hverfa nær algjörlega, en það er hreinlega bara í takt við aukna upplýsingu og frjálsa hugsun. Hann vill að kirkjan sé sterk, en hún er bara ekki sterkari en sauðirnir sem henni fylgja; sauðunum sem hefur fækkað mikið undanfarið og fækkar stöðugt meira. Það sem biskup meinar, í raun, er að kirkjan er háð ríkinu um fjármuni enda ekki auðvelt að reka apparat sem sogar til sín 5-6 milljarða árlega. Þannig eru þræðirnir sem liggja á milli ríkis og kirkju mest fjárhagslegir, en hafa lítið með andlega næringu að gera.
Ég hef áður sagt að kirkjunni væri mestur greiði gerður með því að skera hana frá ríkinu. Þá finnst mér það líklegt að Jesúsi Jósepssyni myndi ekki lítast á það bákn sem nú bægslast um í samfélaginu og kostar 5-6 milljarða á krepputímum.
En hann upplifði reyndar aldrei þá sönnu gleði sem fylgir því að vera ríkisstarfsmaður í þjónustu Guðs :)
PS. Annars er þetta tal um ríki og kirkja hálfgert blaður, en nokkrir embættismenn viðhalda í raun þeirri tengingu með öllum ráðum. Það er tengingin á milli þjóðar og kirkju sem er málið, en hún er nær öll horfin!