Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 9. apríl 2011
Vantrúarbingó um páskana
Ég hvet alla til þess að mæta í Vantrúar-bingóið um páskana, enda er þetta léttur og skemmtilegur leikur sem allir geta tekið þátt í. Líklegt er að skondin og skrýtin verðlaun verði í boði þannig að eftir einhverju er að slægjast. Þá er boðið upp á fínar veitingar í ofanálag.
Sumir spyrja sig oft í hinum ýmsu kringumstæðum hvað Jesús myndi gera og í þessu tilfelli er því auðsvarað ... hann myndi auðvitað skella sér í bingó á páskum :)
Þriðjudagur, 15. mars 2011
Tapararnir í Stjórnlagaþingskosningunni
Mér finnst óhemju skondið að fylgjast með málflutningi örfárra þeirra sem töpuðu í kosningu til Stjórnlagaþings. Daginn eftir að þjóðin hafnaði þessum einstaklingum, yfirleitt með afar afgerandi hætti, byrjuðu þeir að gera lítið úr Stjórnlagaþingi og voru svo ekki lengi að hoppa á Hæstaréttarskútuna og eru nú sammála því að kosningarnar hafi verið svo ólöglegar og svo bjagaðar að við ættum helst að leita ráðgjafar hjá gömlum austantjaldsþjóðum í þeim efnum í framtíðinni. Þetta er einstaklega kjánalegt og barnalegt.
Ég get vel skilið að það hafi verið sárt að vera hafnað, en þetta er bara kjánalegt og viðkomandi aðilum til hraklegrar minnkunar. Jafnið ykkur og snúið ykkur að verðugri málum!
Sjálfur vona ég að Stjórnlagaráð muni koma saman hið fyrsta og samþykkja að aðskilja skuli ríki og Ríkiskirkju hið snarasta, en það samband er grasserandi mein í samfélagi okkar.
Og svo mörg voru þau orð!
Þriðjudagur, 22. febrúar 2011
Traust þjóðar til Ríkiskirkju dalar enn
Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sést að Ríkiskirkjan nýtur stuðnings 33% þjóðarinnar sem hlýtur að teljast áfellisdómur yfir stofnun sem fær jafn mikla meðgjöf frá ríkinu og raun ber vitni. Á sama tíma vilja 75% þjóðarinnar aðskilnað á milli ríkis og Ríkiskirkju.
Áhugavert er að skoða þessar tölur í samhengi við það að ekkert fyrirbæri á Íslandi nýtur jafn mikilla forréttinda og Ríkiskirkjan. Vert er að hafa eftirfarandi í huga:
Langflestir Íslendingar voru skráðir í Ríkiskirkjuna við fæðingu. Þetta hefur þó ekkert með trúarstaðfestu að gera, enda fer þessi skylduskráning eftir trúfélagi móður sem að sama skapi hafði ekkert um hana að segja.
Ríkið innheimtir ófáa milljarða á ári fyrir Ríkiskirkjuna í klúbbgjöld. Hún er því afar vel fjármögnuð og líður ekki skort, svona veraldlega séð. Almenn samstaða virðist þannig vera um það að trúaðir muni aldrei borga félagsgjöld í trúfélag sitt og þess vegna eru þessir trúarskattar innheimtir með almennum sköttum. Þó er undarlegt að hugsa til þess að fólk greiðir sjálfviljugt félagsgjöld í íþróttafélögum, spilaklúbbum, félagasamtökum o.s.frv.
Ríkistrúin er beinlínis boðuð í leik- og grunnskólum. Möguleikar Ríkiskirkjunnar til þess að innræta litlum börnum trú hafa í gegnum tíðina verið fáheyrðir. Hún hefur notið þess að geta, fyrirvaralaust, fullyrt það við leik- og grunnskólabörn að Jesús sé besti vinur barnanna, einmitt á þeim aldri þegar þau gagnrýna ekkert sem fyrir þeim er haft, sérstaklega í skólanum. Hafa ber í huga að Ríkiskirkjan hefur aldrei barist fyrir því að fá að fara í tíma hjá háskólastúdentum og boða Ríkistrúna þar, enda yrði eftirtekjan rýr og það veit hún. Nei, ómótaðir hugar leik- og grunnskólabarna henta best fyrir trúarlegt innræti, það vita allir.
Börnum er smalað í ferminguna. Á ákveðnum tímapunkti í lífi grunnskólabarna hefur þeim verið smalað saman, purrkunarlítið, og troðið í gegnum fermingarfræðslu. Ekki er langt síðan að þessi fræðsla fór m.a.s. fram á skólatíma í mörgum tilfellum. Ég man t.d. þegar ég bægslaðist um á þessu færibandi að okkur var gert að mæta minnst 10x í kirkju á tímabilinu og taka helst foreldra með. Það er ekki nema von að enn mælist einhver kirkjusókn þegar stórum hópum barna og foreldrum þeirra er gert að mæta.
Ríkismessur í Ríkisútvarpi. Á Íslandi nýtur Ríkiskirkjan þeirra forréttinda að geta komið áróðri sínum til pöpulsins í gegnum ríkisstyrktan fjölmiðil. Það er nefnilega þannig að það nægir ekki að hafa kirkju í hverju hverfi þar sem kirkjubjöllur valda ónæði og óyndi í tíma og ótíma. Nei, það þarf líka að útvarpa messunum.
Í ljósi alls þessa er það stórmerkilegt að einungis þriðjungur þjóðarinnar skuli treysta Ríkiskirkjunni. Sjálfur hefði ég haldið að þessi tala ætti að vera 60-70%, eingöngu vegna þess hve öflug áróðurs- og innréttingarmaskína hennar er. En þrátt fyrir þessa maskínu eru 67% þjóðarinnar á því að Ríkiskirkjan sé ekki traustsins verð og 75% þjóðarinnar vilja rjúfa tengsl hennar við ríkið.
Ef ég væri forstjóri Ríkiskirkjunnar þá hefði ég miklar áhyggjur af þessu og myndi íhuga það vel að krefjast þess að allir væru látnir játa Ríkistrúna með lagaboði og jafnvel e.k. trúarlögreglu. Það virðist vera það eina sem gæti mögulega bjargað henni og í raun eina ríkisúrræðið sem Ríkiskirkjan hefur ekki nýtt sér hingað til.
En auðvitað ætti hann frekar að hlusta á þjóð sína og verða við óskum hennar. Væri það ekki hið kristilega í stöðunni?
Þriðjudagur, 25. janúar 2011
Hvað er einstakt við kristið siðferði?
Ég skora á alla þá sem telja sig fylgjandi þessu gönuhlaupi þingmannanna ginnheilögu að skilgreina hér í athugasemd hvað það er sem er einstakt við kristið siðferði. Hvað hefur kristið siðferði umfram almenna kurteisi og góða mannasiði? Af hverju geta kristnir foreldrar ekki náð sjálfir í Nýja testamentið og gefið börnum sínum? Af hverju geta þeir ekki sjálfir lufsast í kirkju með börnin sín?
Komið nú með alvöru svör en ekki bara 'það er bara eitthvað svo fallegt' eins og Guðni Ágústsson jarmaði ámátlega þegar spyrill í Kastljósi gekk á hann í fjórða skipti eftir svari við þessari sömu spurningu. Guðni, þrátt fyrir að vera skjaldsveinn kristins siðferðis í þessum umrædda Kastljóss-þætti, vissi ekki sjálfur hvað var svona einstakt við þetta sk. kristna siðferði.
Látið nú í ykkur heyra! Hvað er svona merkilegt við kristið siðferði?
![]() |
Starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 19. desember 2010
Kaþólikkar og samkynhneigð börn í 10. bekk
Í dæmigerðu kaþólsku ólundarkasti hampar Jón Valur Jensson, aðal kaþólikki Íslands, því að aðeins 2% stráka í 10. bekk hafi sofið hjá sama kyni og aðeins 1% stúlkna skv. nýlegri könnun. Þessu slær hann fram til þess að sýna fram á að samkynhneigðir séu svo lítill hópur að þeir eigi engan rétt á því sem við teljum vera sjálfsögð og eðlileg réttindi.
Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2008 kom í ljós að 4% kjósenda sögðust vera samkynhneigðir og það í 'sannkristnasta' landi heims. Það má gera ráð fyrir að Íslendingar séu eins innréttaðir og Bandaríkjamenn þegar kemur að kynhneigð, enda er mannskepnan afar einsleit skepna, svona heilt yfir litið. Út frá því má ætla að 12.694 Íslendingar hafi verið samkynhneigðir 1. janúar 2010. Á sama tíma voru 9.672 sálir skráðar á galeiðu kaþólskunnar hérlendis. Þannig voru rúmlega 3 þúsund fleiri Íslendingar samkynhneigðir en kaþólskir. Líklega eru sumir kaþólikkanna hýrir í þokkabót, en þora bara ekki að viðurkenna það sökum sleggjudómara á borð við Jón Val.
Ef samkynhneigðir, sökum fæðar sinnar, eiga ekki skilin sjálfsögð og eðlileg mannréttindi eins og flest okkur skynjum þau, af hverju ætti þá ekki að neita kaþólikkum um þessi sömu réttindi? Kaþólikkar eru, jú, bara lítill sértrúarsöfnuður sem heldur fram öfgakenndum skoðunum á íslensku samfélagi og leggst gegn baráttu annarra minnihlutahópa fyrir sjálfsögðum réttindum.
Ég bara spyr :)
PS. Ástæða þess að ég skrifa þetta hér en ekki sem athugasemd hjá Jóni Val er sú að hann útilokaði mig frá skrifum á bloggvef sínum og er ég þar í hópi fjölda fólks sem hefur kveðið kallskarnið í kútinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hann er ólatur að bregða bannsleggjunni á loft þótt enginn jarmi sárar en hann þegar hann sjálfur kennir á eigin meðölum, en Jón Valur er enn mest bannaði bloggari hér á Moggablogginu sökum öfgakenndra skoðana sinna. En það er gaman að sjá að réttsýnir bloggarar eru að veita Jóni Val nauðsynlegt aðhald í athugasemdaþræðinum sem fylgir ólundarkastinu hans.
PSS. Svo er auðvitað verðugt að velta fyrir sér hvaða fróun Jón Valur fær út úr því að skrifa um meinta fæð samkynhneigðra skólabarna? Af hverju sér hann ástæðu til þess að leggja 14-15 ára börn í einelti á opinberum vettvangi bara vegna þess eins að þau eru samkynhneigð? Hann gerir að umræðuefni að lífsánægja samkynhneigðra stúlkna í 10. bekk virðist minni en gagnkynhneigðra kynsystra sinna. Getur verið að hann átti sig ekki á því að hann er, með virkum hætti og einbeittum vilja, að stuðla að þessari skelfilegu óhamingju með ljótum og eineltiskenndum skrifum sínum?
PSSS. Loks bendi ég á könnun sem sýnir að í sumum tilfellum er fylgni á milli kirkjusóknar og þunglyndis á meðal nemenda í grunnskólum í Bandaríkjunum. Ég reikna með að Jón Valur muni sýna fram á, fullur af Guðlegri og kaþólskri réttlætiskennd, að allir þessir óhamingjusömu nemendur séu líklega bara allir hommar og lesbíur og því sé óyndi þeirra auðskiljanlegt :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.12.2010 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (95)
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Leiðréttu trúfélagaskráningu þína!
Ef þú ert skráð(ur) í trúfélag án þess að hafa beðið um það þá ættirðu að leiðrétta þann misskilning fyrir 1. desember, en sú dagsetning er notuð til að ákvarða hvert trúarskatturinn þinn rennur. Ef þú ert trúlaus eða í versta falli áhugalaus um trú þá ættirðu að skrá þig úr trúfélaginu svo þessi skattur renni beint í samneysluna (sjúkrahúsin, elliheimilin, vegina og allt hitt). Ella rennur þessi skattur líklega til Ríkiskirkjunnar.
Líttu inn á vef Vantrúar og aflaðu þér upplýsinga um hvernig þú getur leiðrétt þennan vonda og leiða misskilning!
Það er vel þessi virði ... trúðu mér :)
Fimmtudagur, 25. nóvember 2010
Dæmalaust vitlaus tillaga til þingsályktunar varðandi Ríkistrúboðið
Nú hefur misfríður flokkur þingmanna lagt fram tillögu til þingsályktunar vegna umræðu um umsvif Ríkiskirkjunnar í leik- og grunnskólum. Þetta fólk virðist algjörlega fullvisst um að kristni muni hreinlega gufa upp á Íslandi ef trúboð verður tekið úr starfi leik- og grunnskóla og auðvitað er því ekki rótt.
Ég hnýt um margar setningar í þessu ómerkilega plaggi, en þó þessa sérstaklega:
Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar trú og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
Þarna er talað um að í skólastarfinu verði reynt að haga málum þannig að sem flestir geti við unað þegar kemur að trúmálum. Einnig er talað um að leysa eigi ágreiningsmál sem upp kunna að koma :) Hvaða ágreiningsmál koma upp í skólanum varðandi t.d. stærðfræði, ensku, lestur eða heimilisfræði? Engin! Ég hef um nokkra hríð haldið því fram að ekkert í skólastarfi hafi sundrandi eiginleika nema trúin og aðkoma hennar og því prófaði ég að máta nokkur önnur orð í staðinn fyrir orðið 'trú' og er niðurstöðurnar hér:
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar leikfimi og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar stærðfræði og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar hannyrðir og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar lestur og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar líffræði og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar ensku og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar forritun og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar smíðar og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar heimilisfræði og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar náttúrufræði og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar föndur og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
- Þess verði gætt að mannréttindi minnihlutahópa hvað varðar tónmennt og lífsviðhorf verði í heiðri höfð og leitast verði við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma með sátt þannig að sem flestir geti við unað.
Svona má lengi reyna að máta hin ýmsu fög sem boðið er upp á grunnskólum inn í þessa setningu, en alltaf sést að niðurlag hennar, 'þannig að sem flestir geti vel við unað.' á hvergi við nema þegar orðið trú er sett þarna inn. Sýnir þetta ekki best hversu illa aðkoma trúarinnar leikur skólastarfið þegar það er umfram eðlilega og almenna kynningu á trú? Ef trúin er tekin út úr skólanum geta allir vel við unað, ekki bara flestir. Það er leitt að þetta fólk, og nokkrir aðrir, skuli ekki sjá það og finnist óhelgur tilgangur þess geta helgað þetta ógeðfellda meðal.
Það er leitt að þetta fólk skuli sætta sig við að bara flest börn geti vel við unað í stað allra.
Í tillögunni er talað um rétt Gideon-félagsins til að dreifa Nýja testamentinu í skólum. Það er algjörlega sjálfsagt að taka fyrir þessar heimsóknir vegna þess að ekki stendur til að banna Gideon-félaginu að dreifa þessari bók nokkurs staðar annars staðar. Nei, það dugar samt ekki, það verður að ná til allra ungra grunnskólabarna, annað dugar ekki.
Að lokum bið ég trúaða foreldra að velta einu atriði fyrir sér. Þegar kemur að kennslu og fræðslu um trú eru þeir hæfastir allra gagnvart sínum börnum. Þeir eru alla jafna ekki hæfastir þegar kemur að stærðfræði, líffræði, hannyrðum eða tónmennt, en það getur enginn frætt börnin þeirra um þeirra eigin trú eins og þeir sjálfir.
Þá kemur að þessum æpandi spurningum. Af hverju vilja þeir þá láta skólann um þetta? Af hverju vilja þeir taka eitt það kærasta og dýrmætasta í þeirra lífi og láta aðra um að útskýra það fyrir börnum sínum?
Mér finnst þetta risa stór spurning sem aldrei hefur verið svarað :)
Föstudagur, 12. nóvember 2010
Lítilþægni presta
Í sunnudagsmessu (þegar u.þ.þ. 26:30 mínútur eru liðnar) í Rúv segir Sr. Bára Friðriksdóttir m.a. eftirfarandi:
Börnin fylgja [trúuðum] foreldrum sínum að lífsskoðunum, eðlilega, eins og börn vantrúaðra fylgja sínum foreldrum.
Enn og aftur kemur það mér stórkostlega á óvart hversu lágt fulltrúar Ríkiskirkjunnar leggjast þegar þeir telja saman sauðina í hjörð sinni. Það er ótrúlegt að fulltrúi Ríkiskirkjunnar skuli ekki hafa meiri metnað en svo að finnast það vera í fullkomnu lagi að börn sauðist inn í trúar- eða vantrúarkerfi foreldra sinna. Það er s.s. alveg í fullkomnu lagi að þessi lífsskoðun gangi í ættum eins og fylgja eða draugur sem ekki er hægt að losna við. Ekki virðist vera gert ráð fyrir því að börnin eigi að hafa eitthvað um þett að segja svo fremi að flest þeirra verði skráð rétt í Þjóðskrá og verði ómeðvitaðir styrktaraðilar Ríkiskirkjunnar.
Niðurlæging Ríkiskirkjunnar verður alltaf meiri og meiri og sjálf á hún langmestu sökina á því sjálf.
Þriðjudagur, 26. október 2010
Páfinn telur vantrúaða vera nasista
Botninum í sorglegri umræðu um aðskilnað trúar og skóla er nú náð. Páfi Kaþólska þjóðarflokksins setti rétt í þessu eftirfarandi ósóma á vef flokksins:
"... ég ólst upp í nasistaríki sem bannaði kristinfræði sem þeim tókst að vísu ekki alveg að uppræta, því þýska þjóðin var trúuð eða svo til allir nema þeir sem aðhylltust nasisma."
Þarna vitnar páfi í orð þýskrar konu sem ólst upp í Þýskalandi millistríðsáranna og gefur þeim þannig gúmmístimplun Kaþólska þjóðarflokksins, hversu mikils virði sem hún svo er.
Í mínum huga erum við komin langt, langt fram hjá endastöð skynseminnar þegar heimskuleg vitleysa af þessari stærðargráðu er birt, en þetta kemur svo sem ekki á óvart þegar haft er í huga að 'sannkristnir' upplifa nú fjörbrot kirkju sinnar og efstu daga hennar og snúast því til varnar eins og afkróuð óargadýr (ég var að spá í að nota orðið 'meindýr', en hvarf frá því þótt hæfilegt væri).
Í stuttu máli: Biskupinn segir trúfrelsi stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð og kaþólski páfinn hérlendis gefur í skyn að við, sem erum vantrúuð og/eða trúfrjáls, séum nasistar.
Mikil er Guðleg mildi þeirra, kristilegt umburðarlyndi og geistleg gæska! Jesús Jósepsson væri örugglegu stoltur af þessum fríðustu og bestu í hópi skósveina sinna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sunnudagur, 24. október 2010
Vantrúaður biskup í heljargreipum óttans
Karl Sigurbjörnsson, forstjóri Ríkiskirkjunnar, er heltekinn ótta þessa dagana og er ástæðan sú að nú er vegið að helstu matarholu Ríkiskirkjunnar, aðgangi hennar að leik- og grunnskólabörnum.
Í gegnum tíðina hefur Ríkiskirkjan haft greiðan aðgang að þessum börnum með boðskap sinn og náð að sannfæra þau mörg um að Jesús sé besti vinur barnanna. Það er auðvitað ekkert snilldarverk að telja leikskólabarni trú um eitthvað þegar því hefur verið sagt að trúa öllu sem því er sagt í skólanum. Þetta er álíka erfið veiðimennska og þegar net eru lögð yfir heila á og alveg til botns - þeir eru fáir, fiskarnir, sem ná að synda í gegn.
Engan þarf að undra hvers vegna forstjórinn er svo óttasleginn. Hann lítur yfir kirkjubekkina og sér að meðalaldurinn hækkar stöðugt og það þrátt fyrir gegndarlaust trúboð í skólum. Viðskiptavinir Ríkiskirkjunnar fara ört gránandi. Jafnvel þótt litlu börnunum sé talin trú (kaldhæðni?) um að Jesús sé besti vinur barnanna, þá láta þau almennt ekki sjá sig í kirkju. Ég get bara ímyndað mér framtíðarsýn forstjórans þegar hann ímyndar sér heim þar sem hann kemst ekki að börnunum með trúboðið og þarf í staðinn að treysta á foreldra til að sjá um það sjálfir! Slíkt er auðvitað með öllu óhugsandi, enda sést það á greinaskrifum trúaðra í gegnum tíðina að þeir vilja ekkert með trúarlega uppfræðslu barna sinna hafa og telja að skólinn eigi að sjá um þetta fyrir þá. Þessir foreldrar hafa bersýnilega eitthvað annað og betra við sinn tíma að gera.
Og svo kveinar biskup yfir því að talið sé að Gídeon-félaginu sé óheimilt að dreifa Nýja testamentinu í grunnskólum. Enn veit hann sem er að það er ekki hægt að treysta foreldrum til þess að sjá um þessi bókamál, enda hafa þeir allt of mikið að gera við að kaupa hvers konar bækur aðrar fyrir börnin, s.s. úrkynjuðu bækurnar djöfullegu um Harry Potter. Ekkert barn fengi að upplifa þá gleði að glugga í Nýja testamentið sér til skemmtunar, sálrænnar næringar og andlegrar upplyftingar ef því væri ekki þröngvað upp á grunnskólabörn á skólatíma, það veit biskup. Loks gleymist í umræðunni að ekki stendur til að banna Gideon-fólkinu að heimsækja kirkjur og heimili :)
Þá sér hann ofsjónum yfir því að óháðir fagaðilar verði fengnir til þess að sjá um sálræna aðhlynningu til handa skólabörnum. Hann gefur lítið fyrir reynslu og menntun þessara fagaðila, enda séu prestar og djáknar miklu hæfari til þess að sjá um þessi mál. Hann gleymir að geta þess að í skóla taka guðfræðingar tvo áfanga í sálfræði á meðan sálfræðingar og geðlæknar eru eiginlega í slíkum vangaveltum allt sitt nám. En það telur auðvitað ekki mikið því geðlæknar og sálfræðingar boða ekki náð Guðs.
Karl Sigurbjörnsson sér djöfulinn í þessari tillögugerð Mannréttindaráðs, enda eru það engin mannréttindi sem skerða rétt hans til þess að boða og innræta litlum börnum hina einu og sönnu Ríkistrú. Hann sér ekki að mannréttindi séu fólgin í því að halda skólanum trúlausum þannig að allir sitji við sama borð, líka börnin sem skilin eru eftir ein í skólanum á meðan öll hin sauðast í kirkjuheimsókn eða í aðrar trúarlegar uppákomur. Karl Sigurbjörnsson telur sjálfsagt að meirihlutinn kúgi og þrúgi minnihlutann (sem í þessu tilfelli eru lítil og varnarlaus börn) og setji hann út í horn. Auðvitað vonar hann þó helst að þessir litlu óþekktarangar sjái að sér og komi með í Ríkiskirkjuna, sauðist inn á barnatrúarsporið og borgi svo sóknargjöldin þegar þau hafa aldur til.
Karl Sigurbjörnsson, réttsýnn og fullmektugur fulltrúi hins þríeina Guðs hérlendis, vill halda trúnni í skólunum því hann veit að sjaldnast er hún höfð fyrir börnum á heimilunum. Og það hefur áhrif á tekjustofninn hans í framtíðinni.
PS. Rétt er að velta fyrir sér af hverju biskup hefur ekki meiri trú á kirkju sinni en raun ber vitni. Getur einhver gefið skýringu á því hví hann er svo vantrúaður á Ríkiskirkjuna að hann telji hana ekki geta plumað sig upp á eigin spýtur?
![]() |
Vegið að rótum trúarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2010 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)