Færsluflokkur: Bloggar

Lífsnauðsynlegir varahlutir

FramhliðÞað er gaman að sjá að liðsmenn Íslands í dag skuli nú fjalla um líffæragjöf, eitt þessara mikilvægu mála sem einhvern veginn fara iðulega á milli skips og bryggju. Þetta er hinum lifandi mikið hagsmunamál enda hefur tækni og færni lækna í tengslum við líffæraflutninga. Í raun má líta á það að synja beiðni um líffæragjöf eftir andlát sem einum eigingjarnasta verknaði sem um getur því það er nokk ljóst að við gerum ekki mikið við hinar jarðnesku leifar okkar eftir okkar dag, hvort sem það er líf eftir þetta eða ekki. Að flestum skuli þykja betra að vita af lífsnauðsynlegum varahlutum í bræður okkar og systur þar sem þeir gera ekkert gagn, það er ofar mínum skilningi.

BakhliðAuðvitað ætti þetta ekki að vera nein spurning hjá neinu okkar. Við eigum að hyggja að þessu mikilvæga máli meðan við höfum tök á og gera þær nauðsynlegu ráðstafanir svo við getum gert gagn þegar við loksins fjörum út. Tillaga þingmannsins Ágústs Ólafs Ágústssonar varðandi þetta mál er af hinu góða og við eigum að nýta ökuskírteini til þess að koma þessum vilja okkar á framfæri. Í raun ætti einnig að nýta debet- og greiðslukort til þess arna, enda ganga mun fleiri með þau á sér að staðaldri. Í millitíðinni er hægt að nálgast kort á vef landlæknis, fylla það út og prenta. Ég var sjálfur ekki hrifinn af því korti og bjó mér því sjálfur til mitt eigið sem er einfaldara og skýrara (altént að mínu mati). Þetta kort er ég með í veskinu og vona ég að það rati í réttar hendur ef tilefni gefst til.

Er ekki mál til komið að við tökum nú vel á þessu máli af óeigingirni og gefum leyfi til þess að nýta megi líffæri okkar til góðra verka þegar við höfum skrölt síðasta hringinn hér! Ef einhver heldur að hann hafi þörf fyrir hjarta, nýru, lifur eða lungu eftir að hann hrekkur upp af, verður sá hinn sami fyrir miklum og sárum vonbrigðum :)


Gígabæti hér og gígabæti þar!

millionaireHér kemur stutt saga um tvo stórkaupmenn sem seldu sams konar vöru á markaði. Varan þótti ætíð vera dýr, hvert stykki kostaði tvöþúsundogfimmhundruðkall, og báru stórkaupmennirnir það ætíð fyrir sig að þeir hefðu mikinn kostnað af því að útvega og selja vöruna og því gætu þeir ekki haft verðið lægra. Nú bar svo við að smákaupmaður nokkur hóf að selja sams konar vöru, nema hvað hann bauð hana þannig að viðskiptavinir hans borguðu lítið eitt meira en þess í stað gátu þeir tekið eins mikið af vörunni og þeir vildu. Þegar þetta var raunin gátu stórkaupmennirnir skyndilega boðið viðskiptavinum sínum það að þeir borguðu að sama skapi lítið eitt meira og gátu þá á móti tekið næstum því eins og þeir vildu af vörunni.

Það þarf ekki snilling til að sjá að sagan sem hér fór á undan er hryllingssaga og flestir lesendur eru væntanlega búnir að sjá að stórkaupmennirnir eru Síminn og Vodafone, en smákaupmaðurinn er Hive. Varan er svo niðurhal gagna frá útlöndum.

Það er stórmerkilegt að hugsa til þess að Síminn selur hvert gígabæti af útlandaniðurhali á tvöþúsundogfimmhundruðkall, Vodafone telur sig geta haft hagnað af því að selja það á helmingi þess verðs. Eftir að hafa varið þessa svívirðilega verðlagningu í langan tíma með því að bera sig aumlega geta þessir stórkaupmenn allt í einu selt lágmark 40 gígabæti á þúsundkall! Er ekki eitthvað skrýtið við þetta? Vara sem áður þurfti að kosta hundraðþúsundkall (40 x 2.500) selst nú á þúsundkall eða eitt prósent af því verði sem áður var sagt þurfa til að standa undir kostnaði og skila eðlilegri álagningu! Oft er munurinn reyndar mun meiri, því sk. öllu getur ótakmarkað niðurhal innifalið mun meira gagnamagn en þetta. Best er þó að nota 40 gígabætin sem viðmiðun. Hvernig víkur því við að allt í einu skuli þetta vera hægt?

Það er hald mitt að íslenskir netnotendur hafi um langan tíma verið hafðir að ginningarfíflum þegar stórkaupmennirnir Síminn og Vodafone gátu komist upp með það. Við borguðum hundraðfalt verð (sbr. dæmið hér að ofan) í skjóli þess að annað hvort höfðu þessi fyrirtæki með sér samantekin ráð eða með framtaksleysi sínu héldu niðri eðlilegri samkeppni. Í raun réttri er hér um að ræða mál sem líkja má beint við stóra olíusamráðsmálið, en samkeppnisyfirvöld og Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki haft döngun í sér til að kanna þetta. Netnotendur bjuggu við okurkjör í helköldum faðmi risanna þar til peðið Hive kom til skjalanna. Den tid, den sorg?

Skulda stóru símafyrirtækin netnotendum ekki afsökunarbeiðni vegna þessa? Ótakmarkað? Hmmm!!Ef ef svo er, er það líklegt að hún komi einhvern tíma fram?

Í lokin má einni spyrja hvort eðlilegt geti talist að fyrirtæki geti auglýst "ótakmarkaða" notkun sem síðan er í raun takmörkuð þegar á hólminn er komið? Eru þessi vinnubrögð ekki dæmi um svik og blekkingar af versta tagi í viðskiptum? Hvenær varð "ótakmarkað" að "svolítið mikið, en alls ekki ótakmarkað ef þú lest skilmálana til enda, sem við vitum að þú gerir bara alls ekki!"? Er endalaust hægt að slá upp slagorðum sem byggja á fölskum forsendum í grunninum og skáka endalaust í skjóli endalausra skilmála og sex punkta leturs?


Google og hreindýramosinn

HýsingarskemmaÞað eru til þrír kaupendur að allri raforku sem nokkurn tíma verður hægt að framleiða hérlendis og í heimi viðskipta eru þeir holdtekjur hins heilaga grals. Þessir aðilar eru nú í höfrungahlaupi um öll Bandaríkin í leit að hagkvæmum stöðum til uppsetningar á orkufrekum starfsstöðvum. Það er fernt sem ræður för hjá þessum fyrirtækjum:

  • Kostnaður
  • Staðsetning
  • Rekstraröryggi
  • Umhverfisáhrif

Þessi fyrirtæki eru Google, Microsoft og Yahoo! og leita þau nú logandi ljósi að heppilegum stöðum til að setja upp tröllauknar hýsingarskemmur (e. server farms). Í grein sem birtist í Fortune á síðasta ári er m.a. farið yfir það að Google er að setja upp starfsstöð sem mun hýsa hálfa til eina milljón netþjóna. Þetta leggur sig út á rúmlega þrjá öfluga netþjóna á hvern einasta Íslending sem býr hérlendis ef miðað er við hæsta gildi en þegar Google á í hlut er venjulega talið ráðlagt að miða hátt.

Forseti vor færði á dögunum í mál þennan möguleika til orkusölu og er það vel. Þarna var kastljósinu beint að raunhæfum valkosti við álversvæðinguna þar sem orkan okkar er nýtt til góðra verka, en um leið gæti myndast frjór jarðvegur fyrir störf sem byggjast fremur á hyggjuviti. Með þessu er ég ekki að segja að framleiðsla áls hérlendis sé ekki góðra gjalda verð því það er mat mitt að umhverfisvæn (eins og hægt er) framleiðsla áls hérlendis sé til hagsbóta fyrir alla heimsbyggð. Hins vegar má segja það sama um allan orkufrekan iðnað og ef ég gæti valið, þá myndi ég velja þekkingariðnað umfram þungaiðnað.

Eins og staðan er í dag erum við þó engan veginn í stakk búin til að taka á móti fyrrgreindri þrenningu því netsamband okkar við útlönd hlýtur að teljast eitt það lélegasta sem um getur hjá þróuðum ríkjum. Meðan við eigum samband okkar við útlönd undir nagþörf skoskrar rottu getum við ekki boðið þeim hingað. Við verðum að fjölga sæstrengjum og tryggja þar með öflugt samband við umheiminn. Staðsetning landsins gefur hýsingarskemmu hérlendis færi á að þjóna mörkuðum í BNA og Evrópu jöfnum höndum, en til þess að það geti orðið verður að koma netsambandi í lag.

Ég skora á eitthvert framboðanna sem eru að taka slaginn í komandi kosningum að gera könnun á þessu máli. Einhver flokkanna þarf að eigna sér þetta mál og gera það að sínu svo það eigi möguleika á að hljóta brautargengi. Það er reyndar mitt mat að VG séu ekki hæfir til þess arna því orðið 'hreindýramosi' kemur líklega aldrei fram í viðskiptaáætlun fyrir svona verkefni. Það er verkefni okkar Íslendinga að nýta þá umhverfisvænu orku sem við búum yfir. Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og tilbeðið stöku mosaþembur á kostnað heimsbyggðarinnar. Við eigum og getum vel nýtt orkuna í sátt við umhverfið; það er okkar framlag í baráttunni við hlýnun í andrúmsloftinu.


Það er vel hægt að flokka fólk!

Flokkunarkerfi Hótels SöguForráðamenn Hótels Sögu virðast kunna listina við að flokka fólk og ættu þeir að deila þessari þekkingu með okkur hinum. Ég hef oft lent í gleðskap þar sem er fullt af skemmtilegu fólki, en svo eru ein eða tvær leiðindamanneskjur með. Stundum er þetta fólk ekki sammála mér um eitthvað, stundum er það hávært og stundum er það bara hundleiðinlegt af því að það er það sjálft. Á þessum stundum hef ég óskað þess að kunna aðferð til að hafa bara skemmtilegt fólk í mannfögnuðum.

Nú geta veisluhaldarar og aðrir sem skipuleggja samkomur fólks tekið gleði sína því þetta er ekki vandamál eftirleiðis. Við notum bara Fólksflokkunarkerfi Hótels Sögu og eftir það verða öll partí skipuð rétta fólkinu en ekki einhverju liði sem sumir vilja ekki fá!

Verður þetta ekki æðislegt?


mbl.is Ómögulegt að flokka ferðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listinn

Velkomin (eða hypjaðu þig í burtu!!!)Ég tel rétt að forráðamenn Hótels Sögu geri annan (eða báða) eftirtalinna lista og birti á vef sínum:

  • listi yfir æskilegt fólk (mega gista á hótelinu)
  • listi yfir óæskilegt fólk (mega EKKI gista á hótelinu)

Þetta er til mikils hagræðis fyrir fólk sem getur þá kannað hvort það sé velkomið í viðskipti eða ekki. Það er augsýnilega ekki sjálfgefið að hver sem er geti gist hjá Sögu og því gott að hafa þetta uppi á borðinu (og Netinu).


mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt vandamál í nýjum búningi

Starcraft er líka íþrótt! :)Þetta er gamalt vandamál í nýrri birtingarmynd. Góður vinur minn minnti á það um daginn, þegar "hinn" unglingurinn fór af hjörunum af sama tilefni, að það eru til sagnir af einstaklingum í Rómarveldi hinu forna sem ekki gátu hætt að leika teningaspil. Vandamálið er það að fólki hættir til að líta á tölvuleikjaspilun sem annars flokks afþreyingu sem helst er stunduð af nördum sem ekki komast á séns (líklega vegna þess að þeir spila tölvuleiki).

Hið sanna í málinu (altént að mínu mati) er að vel heppnaður tölvuleikur getur tekið öðru kyrrsetusporti fram á öllum sviðum. Skjót hugsun, snarræði og útsjónarsemi er aðalsmerki góðra spilara í mörgum leikjum og ættu þeir því að vera jafnir, helst þó ofar, skák og bridds í virðingarstiganum.

Það er nú líklegt að við tölvuleikjaspilarar munum þurfa að búa við þetta ástand um sinn meðan fordómapúkarnir úreldast. Svo legg ég til að við bönnum fótbolta því einu sinni heyrði ég um strák sem var dýrvitlaus af því að hann fékk ekki að vera úti að spila með vinum sínum. Af hverju rata fréttir af slíkri öfughneigð ekki í Moggann?

Hmmmm?

PS. Ég skora á aðra gránandi spilara (e. gray gamers, spilarar sem farnir eru að grána aðeins í vöngum) að kynna sér Starcraft. Líklega er það mesti snilldarleikur sem komið hefur fram og hentar okkur vel sem þurfum snarpa heilaleikfimi af og til.


mbl.is Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan - geistlegt fasteignafélag?

kirkjanÍ Kompás-skammti kvöldsins var merkilegt að sjá forstjóra 'Þjóðkirkjunnar' verja það gegndarlausa magn fjár sem árlega er ausið í þessa stofnun. Hann nefndi m.a. að 'Þjóðkirkjunni' væri falið að sjá um 200 hús og byggingar á þjóðminjaskrá um allt land og þótti mér það býsna merkilegt því ég hef aldrei séð 'umsjón fasteigna' nefnda sem eitt af kjarnaverkefnum hennar. Er það ekki við hæfi að Þjóðminjasafnið fengi þá fjármuni sem ætlaðir eru til þess arna og taki verkefnið að sér, enda má ætla að þar sé innanborðs betri þekking og kunnátta en innan 'Þjóðkirkjunnar'. Jesús Jósepsson var víst sonur trésmiðs, en það gerir ekki þjóna 'Þjóðkirkjunnar', fullmektuga fulltrúa hans, hæfa til þess að sjá um svona menningarverðmæti enda eru húsasmíðar og fasteignaumsjón líkast til bara valfög í guðfræðinni.

Þá nefnir biskup Vinaleiðina sem tilboð 'Þjóðkirkjunnar' og innlegg hennar í mikilvægum málaflokki. Ég tel það sama eigi við hér og gildir um umsjón fasteigna; er ekki betra að beina fjármunum til félagsþjónustunnar eða annarra hæfra aðila þar sem hægt er að fá sérfræðinga (sem ekki koma til fundar við krakkana okkar hoknir af trúboðaskyldum) til að taka þetta þarfa verkefni að sér? 'Þjóðkirkjan' tekur að sér að skilgreina verkefni fyrir sjálfa sig til að vernda hagsmuni sína meðan hún er í raun að taka fé frá stofnunum sem eru mun hæfari til viðkomandi starfa.

Í ljósi ofangreinds er reyndar gaman að velta fyrir sér 'tilboðs' líkingu biskups í þessu samhengi. Ég líki þessu 'tilboði' hans við það að ég færi í Bónus þar sem starfsmaður tæki af mér tíuþúsundkall við innganginn, en leyfði mér svo að velja úr pínulítilli tilboðskörfu það sem mér litist á óháð því hvort þar væri eitthvað sem mér litist á eða hefði þörf fyrir. Það er harla aumt tilboð sem neytandinn er þegar búinn að borga dýru verði óháð því hvort hann vill eða þarfnast þess sem í boði er.

Íslendingar eru í síauknum mæli að hafna 'Þjóðkirkjunni' með því að gera sér sérstaka ferð í Borgartúnið og skera á tengsl sín við hana. Ég þykist vita að þeir Íslendingar sem vilja ekkert með 'Þjóðkirkjuna' hafa séu umtalsvert fleiri en staðtölur segja til um, en flestir hafa bara hreinlega ekki fyrir því að skjótast í Borgartúnið og ganga frá skilnaðinum. Er ekki réttara að fólk þurfi að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna'? Okkur þætti yfirgengilegt ef öll börn væru skráð í Val eða Víking við fæðingu, hví gildir ekki hið sama um 'Þjóðkirkjuna'?

Það er mitt mat að þjóðin ætti að sameinast um að gera tilraun í eitt ár. Skráum alla úr 'Þjóðkirkjunni' og í Háskóla Íslands. Þeir sem nú þegar hafa skráð sig úr 'Þjóðkirkjunni' hafa þegar gefið sitt svar og því eru þeir undanskildir í þessari tilraun. Skoðum svo eftir árið hversu margir hafa haft fyrir því að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna', en það er mat mitt að þeir yrðu nokkuð færri en þeir örfáu sem lögðu leið sína til Þingvalla hér um árið á kómískasta flopp Íslandssögunnar. Þar kæmi glögglega í ljós hverjir tækju 'tilboði' 'Þjóðkirkjunnar' og þá væri hægt að skera úr hvort hún beri nafn með rentu eða hvort hún sé bara sá sértrúarsöfnuður sem ég tel mig vita að hún í raun er.

Þetta veit forstjóri 'Þjóðkirkjunnar' mætavel og því reynir hann finna kompaníinu framtíðarverkefni svo aurarnir haldi áfram að rúlla inn þótt sauðirnir hverfi frá jötunni. Það skiptir litlu þótt þessi verkefni séu ekki í neinum tengslum við áður skilgreinda kjarnastarfsemi 'Þjóðkirkjunnar'; hún getur vel verið fasteignafélag eða félagsþjónusta. Áhugavert verður að sjá hvar 'Þjóðkirkjuna' ber næst niður í verkefnavali sínu. Flugumsjón? Leigubílaakstur? Laxeldi?

Spyr sá sem ekki veit!


Metan

Það er prýðileg grein á baksíðu Moggans í dag þar sem talað er um að nú myndist nægilegt magn metans í sorpurðunarstaðnum í Álfsnesi til að knýja alla bíla í Mosfellsbæ. Þetta eru í senn góðar og slæmar fréttir. Góðar sökum þeirra möguleika sem þetta gefur á að knýja 3-4 þúsund bíla með metani og slæmar vegna þess að í dag eru aðeins 55 bílar á götum Reykjavíkur sem nýta þetta frábæra eldsneyti. Málið er nefnilega þannig með metanið að það mengar ekki neitt þegar það er notað sem eldsneyti fyrir bíla! Alls ekkert! Ekki baun í bala! Nú kann einhver að segja að þetta sé algjör vitleysa, en þetta leggst þannig út:

  • Metangasmyndun er óumflýjanleg aukaafurð sorpurðunar
  • Sorpu er skylt að safna saman og brenna því metangasi sem myndast í stað þess að það farið út í andrúmsloftið
  • Ef gasið er notað á bíla verður til sama mengun og ef gasinu væri brennt beint á söfnunarstað

Ergó, mengunin verður til hvort eð er! Spurningin er bara sú hvort hún komi til vegna algjörlega gagnslauss bruna á sorpurðunarstað eða hvort hún komi í stað bensínmengunar frá bílum?

Í dag er það afar hagkvæmt að reka metangasbíl. Skrifari prófaði um daginn metanbílinn VW Touran og reyndi það á eigin skinni að hann er afar léttur á fóðrum. Hverjir 100 kílómetrar á þessum 7 manna lúxusbíl kostuðu tæpar 700 krónur. Þannig hefðu 450 kílómetrarnir kostað um 3.150 krónur og hver man eftir því að hafa síðast fyllt á stóran, sjö manna bíl fyrir rétt rúmlega þrjú þúsund kall? Metanbílar keyra því ekki aðeins mengunarlausir (sbr. ofangreinda röksemd), heldur eru þeir mun hagkvæmari í rekstri. Ekki spillir fyrir að í dag er gefinn afsláttur af aðflutningsgjöldum sem nemur 350 þúsund krónum sem gerir þá ódýrari í innkaupum líka.

Ég skora á tveggja bíla fjölskyldur sem fara daglega um Ártúnsbrekkuna að íhuga það að skipta öðrum bílnum út fyrir metanbíl. Þannig er hægt að njóta þess að keyra innanbæjar í fullkominni sátt við náttúruna á metanbílnum, en nota bensínhákinn þegar fara skal út fyrir borgarmörkin. Þar er nefnilega komið að helsta annmarkanum í metanvæðingunni, það er aðeins ein áfyllingarstöð og er hún á Höfðanum. Staðsetning þessarar stöðvar markar þannig þann ferðaradíus innan hvers metanbílar geta athafnað sig. Fyrir tveggja bíla fjölskyldur er þetta ekki vandamál.

Ég hvet alla áhugasama til að prófa að skoða metanbíl, ég þykist viss um að þeir hjá Heklu taki vel á móti áhugasömum. Það finnst ekki nokkur munur á honum og bensínbíl í akstri, munurinn liggur í töluverðum sparnaði og hreinna andrúmslofti.


Djörfung og dugur

Þakka ber það sem vel er gert, en betur má ef duga skal. Með djörfung og dug mætti gera Ísland að Kuwait norðursins með því að setja í gang svo mikla framleiðslu vetnis að við gætum knúið bíla okkar og skip með innlendum orkugjafa í stað innfluttra. Þetta er ekki fjarlægur eða óraunhæfur draumur; heyrst hefur að Kárahnjúkavirkjun ein gæti framleitt nægt vetni til þessa arna og jafnvel með smá afgangi til útflutnings. Bílaframleiðendur bjóða nú flestir vetnisbíla og fullyrða að þeir verði samkeppnishæfir í verði árið 2010. Ísland á möguleika því að framleiða og nota grænasta vetni í heimi; framleitt með vatnsafli í fullkominni sátt við náttúruna.

Við gætum sett okkur það að markmiði í dag að hætta innflutningi á erlendum orkugjöfum eftir 10 ár og nýta alfarið íslenska, vistvæna orku. Þetta er ekki fjarlægur draumur, markmiðið er í hendi ef við hugsum nógu stórt. Í raun er það skylda okkar gagnvart börnum okkar og barnabörnum að gera þetta því með þessu myndum við verða leiðandi afl í þessari umræðu á heimsvísu og þannig gætum við haft margfalt meiri áhrif til góðs en t.d. með árs setu í Öryggisráði sameinuðu þjóðanna, en kosningabarátta okkar til hennar mun víst kosta fimmfalt það sem nú er verið að leggja í vetnið skv. Moggafréttinni. Það væri áhugavert ef einhver talnaglöggur lesandi þessara skrifa myndi setja inn sem athugasemd áætlaðan árlegan orkuinnflutning okkar. Skrifari giskar á að hann hlaupi á 10-20 milljörðum árlega. Það er nú bærilegur arður af einni grænustu framkvæmd sem sagan hefur hingað til séð.

Hér er fimm-punkta-planið mitt sem einhver góður stjórnmálamaður ætti að taka upp og gera að sínu:

  • Hefjum stórvirka framleiðslu vetnis
  • Gefum góða afslætti af aðflutningsgjöldum vetnisbíla
  • Fjölgum vetnisstöðvum á landinu
  • Hættum innflutningi hefðbundinna orkugjafa eftir 10 ár

Fimmti punkturinn er að gera Hjálmar Árnason að vetnisforingja landsins til að leiða þessa áætlun, enda er hann sá stjórnmálamaður sem hefur talað hvað lengst og með samfelldustum rómi um þetta mál.

Ef við gerum þetta myndum við fá slíka góðviljainnstæðu meðal borgara heimsins að við gætum gert að hval á Austurvelli án þess að nokkur gerði athugasemd við það! Svo yrðum við líka sjálfstæð þegar kæmi að orkumálum og líklega er það einhvers virði líka.


mbl.is Ríkið setur 225 milljónir í vetnisverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vive la France!

Það er alltaf gaman að því þegar vísindin sækja fram á hárréttum stöðum. Við hin svefnsjúku styðjum Fransarana í þessu merka rannsóknarstarfi. Því til sönnunar hef ég gefið mig fram við franska sendiráðið til að gerast sjálfboðaliði í þessu ágæta starfi. Í reynd hef ég þegar byrjað mínar eigin rannsóknir og dotta því eins oft og ég get í vinnunni. Fyrstu niðurstöður benda til þess að tíminn líður mun hraðar í vinnunni ef maður sefur meirihluta vinnutímans. Þessar niðurstöður lofa góðu, en ég mun halda áfram minni vinnu til að staðfestingar.

Zzzzzzzzz ...


mbl.is Frakkar kanna kosti þess að blunda í vinnutíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband