Tvær léttar og skemmtilegar spurningar ...

Íslenska þjóðkirkjanHér eru tvær einfaldar og laufléttar spurningar fyrir þig.

  1. Ef þú ert í trúfélagi, skráðir þú þig sjálf(ur) í það?
  2. Ef svo er ekki, játarðu raunverulega það afbrigði trúar sem það félag stendur fyrir?

Ef þú svaraðir 'nei' við báðum spurningum, þá ættir þú að lesa áfram. 

Af hverju ættirðu að íhuga að skrá þig úr trúfélaginu þínu? Jú, ef þú varst skráð(ur) í það við fæðingu, þá var sjálfkrafa gert ráð fyrir því að þú myndir ekki hafa neina skoðun á málinu seinna meir. Það var s.s. gert ráð fyrir því að þú myndir sjálfkrafa taka 'trú' móður þinnar. Líklega gekk hún í gegnum það sama.

Með því að íhuga gildi þessarar skráningar þá ertu að taka upplýsta og sjálfstæða ákvörðun, nokkuð sem þú fékkst ekki að gera rétt eftir fæðingu :) Þú ert að ákveða sjálf(ur) hvað hentar þér best í stað þess að ríkið og trúfélagið taki þá ákvörðun fyrir þig.

Athugaðu þótt þú svarir báðum spurningunum neitandi að þá ertu síður en svo ein(n) á báti. Langflestir Íslendingar voru við fæðingu skráðir í trúfélag, á hverju þeir höfðu svo seinna meir ekki neina sjálfstæða skoðun. En með því að íhuga þetta, þá ertu að taka upplýsta ákvörðun fyrir þig. Þú ert aldrei of ung(ur) eða of gamall/gömul til þess að huga að þessum málum.

Vera má að þú komist að þeirri niðurstöðu að þér finnist þú eiga heima í trúfélaginu og það er þá bara frábært. Svo er hinn möguleikinn sá að ef þú skoðar málið ofan í kjölinn að þá kemstu að því að það er engin ástæða fyrir þig að vera skráð(ur) í þetta trúfélag. Ef svo er, þá er rökrétt fyrir þig að breyta þeirri skráningu og skrá þig annað tveggja í annað trúfélag eða þá hreinlega utan trúfélaga.

Íhugaðu þetta fyrir 1. desember nk., en þá eru n.k. fardagar í þjóðskrármálum hérlendis. Ekki sætta þig við ríkisskráningu í trúfélag ef þú trúir raunverulega ekki.

Tengill á eyðublað á vef Þjóðskrár.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

1. Já.

2. Já.

En ég veit svo sem hvað þú ert að fiska eftir, og leyfi ég þeim hagstofutrúuðu að taka við.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 22.11.2011 kl. 11:25

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Óli Jón, hvers vegna leggur þú þig fram við að reyna að fá fólk til að skrá sig úr trúfélagi sínu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2011 kl. 13:01

3 Smámynd: Arnar

Gunnar, hann er að fá fólk til að hugsa um hvort það sé virkilega rétt skráð í 'sitt trúfélag'.

Arnar, 22.11.2011 kl. 13:54

4 identicon

Það er ríkiskirkjan sem er helsta vandamálið í trúmálum á íslandi; Fyrir það fyrsta er ekki hægt að reka ríkistrúfélag í siðmenntuðu landi, hvað þá lýðræðislegu.

Það er þjóðarskömm að slíku, svo ég tali ekki um að þetta Geimgaldrafélag ríkisins og örfárra hjátrúarfanboys er að kosta samfélagið að lágmarki 5000 milljónir á hverju ári.

Skítt með það þó Guðsteinn fari á fullorðinsárum og skrái sig í hjátrúar & galdrafélag fólks sem vill ekki vera dautt þegar það er dautt.. en að ríkið reki slíkt félag á kostnað almennings og í samkeppni við önnur galdrafélög er algerlega fáránlegt og óafsakanlegt.

DoctorE 22.11.2011 kl. 14:18

5 Smámynd: Óli Jón

Haukur: Þú fattar þetta :)

Gunnar: Ef þú lest pistilinn aftur þá sérðu að markmiðið er ekki að fá alla til þess að skrá sig úr trúfélagi sínu. Í fyrstu athugasemd svarar Haukur báðum spurningunum og skv. pistlinum er hann í góðum málum. Hann skráði sig sjálfviljugur í sitt trúfélag og játar berlega þá trú sem þar er boðuð. Lestu pistilinn minn aftur núna, og í þessa skipti með opnum hug, og haltu svo áfram að lesa þetta innlegg mitt.

Þannig er pistli mínum ekki beint að trúuðum, enda ættu orð mín ekki að geta hreyft við þeim (eða hvað?), heldur þeim sem eru Hagstofutrúaðir, en þeir eru skráðir í trúfélag án þess að trúa. Ef trúlaus maður er skráður í trúfélag, getum við þá ekki verið sammála um að opinberar staðtölur séu rangar? Gefur það ekki ranga mynd af stærð viðkomandi trúfélags ef í það eru skráðir ótilgreint margir trúlausir einstaklingar?

Þetta er það sem ég vil leiðrétta. Mín helsta þrá, altént í þessum efnum, er að opinberar staðtölur endurspegli raunverulega stöðu trúfélaga hérlendis, en það gerir þær ekki í dag. Ástæðan er, eins og þú veist jafn vel og ég, að árlega eru lang flest börn skráð í trúfélög móður þeirra við fæðingu. Vera má að þér finnist þessi ráðstöfun í lagi, en mér finnst hún óeðlileg og röng.

En það er þessari ráðstöfun að þakka að í dag eru 77% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna og það er mitt mat að þessar staðtölur séu rangar. Ert þú sáttur við þessa hlutfallstölu? Finnst þér tilurð hennar í lagi?

Svo hræddur er núverandi biskup við stórfelldan flótta úr trúfélögum að hann mælti gegn því í bréfi til Alþingis að fólk hefði af því fjárhagslegan ávinning að skrá sig úr trúfélagi. Hann veit sem er að það er fátt sem heldur í megnið af þeim sem skráðir eru í Ríkiskirkjuna, en hann vill ómögulega sjá á bak þessum 77% sem eru tekjustofninn hans.

Í stuttu máli þá er þetta bara einlæg viðleitni mín til þess að leiðrétta opinberar staðtölur. Þessi pistill grefur vonandi ekki undan trú þeirra sem raunverulega trúa, en fær hina vonandi til þess að skoða aðeins sín mál. Því vonandi er það ekki ósk þín, ágæti Gunnar, að í Ríkiskirkjunni séu skráðir einstaklingar sem ekki trúa?

Tög: Þjóðkirkja, Þjóðkirkjan

Óli Jón, 22.11.2011 kl. 16:25

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er augljóst hvað þú ert að segja í pistlinum, þarf ekki að lesa tvisvar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2011 kl. 17:52

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

... gerði það reyndar, til öryggis

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2011 kl. 17:53

8 identicon

Mitt svar er já, ég skráði mig sjálf í mitt trúfélag að vel yfirveguðu máli og trúi því sem þar er kennt.

Dagný 22.11.2011 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband