Páfinn telur vantrúaða vera nasista

Botninum í sorglegri umræðu um aðskilnað trúar og skóla er nú náð. Páfi Kaþólska þjóðarflokksins setti rétt í þessu eftirfarandi ósóma á vef flokksins:

"... ég ólst upp í nasistaríki sem bannaði kristinfræði sem þeim tókst að vísu ekki alveg að uppræta, því þýska þjóðin var trúuð eða svo til allir nema þeir sem aðhylltust nasisma."

Jón Valur Jensson, páfiÞarna vitnar páfi í orð þýskrar konu sem ólst upp í Þýskalandi millistríðsáranna og gefur þeim þannig gúmmístimplun Kaþólska þjóðarflokksins, hversu mikils virði sem hún svo er.

Í mínum huga erum við komin langt, langt fram hjá endastöð skynseminnar þegar heimskuleg vitleysa af þessari stærðargráðu er birt, en þetta kemur svo sem ekki á óvart þegar haft er í huga að 'sannkristnir' upplifa nú fjörbrot kirkju sinnar og efstu daga hennar og snúast því til varnar eins og afkróuð óargadýr (ég var að spá í að nota orðið 'meindýr', en hvarf frá því þótt hæfilegt væri).

Í stuttu máli: Biskupinn segir trúfrelsi stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð og kaþólski páfinn hérlendis gefur í skyn að við, sem erum vantrúuð og/eða trúfrjáls, séum nasistar.

Mikil er Guðleg mildi þeirra, kristilegt umburðarlyndi og geistleg gæska! Jesús Jósepsson væri örugglegu stoltur af þessum fríðustu og bestu í hópi skósveina sinna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikill er nú ótti þinn að börn skuli fá að kynnast Kristi. Ekki hefurðu fyrir að skrifa um böl eiturlyfja og eineltis... en það er kannski eitthvað sem við ættum ekki að vera að eyða orðum í. En trúna skulum við fæla burtu! Hún getur ekki verið góð!

Freyr 26.10.2010 kl. 21:58

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hárrétt Freyr, við sjáum ekkert athugavert við eiturlyf og einelti! Svo er það auðvitað undarlegt að allt fólk vilji ekki að börnin sín aðhyllist trúarbrögðin þín. Vita þau ekki að þú hefir auðvitað rétt fyrir þér?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.10.2010 kl. 22:17

3 identicon

Þetta er löngu hætt að snúast um trúarbrögð. Menn vilja kenna þýsku og heimilisfræði, en trúarbrögð má ekki kynna. Vantrúa foreldrar vilja ekki að börn sín fái að upplifa neina trú vegna eigin ótta við trúna... hver sem ástæðan kann að vera. Og það er burtséð frá markmiðum kirkjunnar sem snúast um náungakærleika, heiðarleika og vinskap. Stórhættuleg fyrirbæri þar á ferð. Guðsótti tók nýja merkingu nýverið hjá Íslendingum. Aldrei í veröldinni myndu múslimar óttast trú á sama hátt og við. Aldrei!

Freyr 26.10.2010 kl. 22:26

4 Smámynd: Óli Jón

Freyr: Nú ætla ég að gefa mér að þú eigir börn vegna skrifa þinna. Getur verið að þú, sem foreldri, teljir þig svo óhæfan til þess að miðla trú þinni til barna þinna að þú viljir frekar að ókunnugir sjái um það fyrir þig? Eða hefurðu annað og betra að gera en að veita börnum þínum innsýn í trú þína? Eru önnur tilboð meira spennandi en trúarlífið? Bíó, tölvuleikir eða eitthvað annað?

Hvað er það sem veldur því að þú nennir þessu ekki eða getir þetta ekki og vilt því frekar að skólinn bara sjái um þetta?

Þú hefur reyndar nokkuð fyrir þér þegar þú talar um Guðsótta. Hins vegar er sá ótti alveg hjá trúuðum því þeir vita sem víst að trúartrektin í grunnskólanum er nauðsynleg fyrir viðgang trúarinnar. Þeir óttast þannig um Guð sinn sem í æ ríkari mæli er að detta út úr samfélaginu sökum þess að hann á ekkert erindi þar lengur. Það er hinn sanni Guðsótti sem lýsir sér m.a. í þeim krampakenndu viðbrögðum sem ég lýsi í grein minni hér ofar.

Óli Jón, 26.10.2010 kl. 23:09

5 identicon

Ég veit um svona vantrúaða sem má líkja við nasista en það eru félagar í vantrú sem réðust á atvinnutækið mitt í lítilmennsku sinni.

Gylfi Gylfason 26.10.2010 kl. 23:18

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hættu þessum dylgjum Gylfi.

Matthías Ásgeirsson, 27.10.2010 kl. 08:40

7 identicon

Skoðum Hitler aðeins
http://doctore0.wordpress.com/2010/10/25/hitler-loves-jeebu/

Nei, nei, hann Hitler er með sömu skoðun á kristni og biskup... surprise :)

doctore 27.10.2010 kl. 10:09

8 identicon

Eru vantrúar menn í fullri vinnu við að ritskoða moggabloggið? vantrú er orðið svona herflokkur þarsem þeir eru þjálfaðir í að rökræða við kristna haha -sé þetta fyrir mér-allir í röð -þyljandi eftir foringja Matthíasi....:)

Adeline 27.10.2010 kl. 12:02

9 identicon

Biddu bara afsökunar mistökum þínum Matti minn og þá verður satt látið kjurt liggja. Þangað til segi ég sannleikann áfram og læt ekki segja mér neitt annað.

Gylfi Gylfason 27.10.2010 kl. 12:37

10 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías Ásgeirsson, 27.10.2010 kl. 14:17

11 identicon

Þú fórst vísvitandi í skítkastherferð gegn vörumerki mínu með félögum þínum í votta viðurvist Matti og engin rökræðuhæfni fær því breytt. Skil ekki hvernig þú nennir að þrjóskast svo gegn eigin gerðum.

Gylfi Gylfason 27.10.2010 kl. 15:40

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitthvað á Óli Jón bágt með að lesa texta rétt (það er raunar algengur kvilli hjá vantrúarmönnum, þegar kemur að Biblíunni).

Nú er hann ekki aðeins búinn að gera undirritaðan að "páfa" (sic) "Kaþólska þjóðarflokksins", sem enginn er til (og heldur ekki kristinn þjóðarflokkur hérlendis), heldur auglýsir hann hér líka hástöfum vangetu sína til að lesa rétt út úr ósköp auðskilinni vefgrein, sem að mestu er endurtekning á Velvakandagrein þýzkfæddrar konu, sem upplýsti þar á merkilegan hátt um andkristið andrúmsloftið í Þriðja ríki Hitlers.

Óli Jón kallar eftirfarandi orð konu þessarar "ósóma":

"... ég ólst upp í nasistaríki sem bannaði kristinfræði sem þeim tókst að vísu ekki alveg að uppræta, því þýska þjóðin var trúuð eða svo til allir nema þeir sem aðhylltust nasisma."

Hvar er "ósóminn" í þessum orðum, Óli Jón?

En hér er færslan á vef Kristinna stjórnmálasamtaka í heild:

"Þýzk kona ber vitni um að stefna mannréttindaráðs anar í sömu átt og alræðishyggja

Ursulu Guðmundsson, sem verið hefur hér á landi í 61 ár, en ólst upp í Þýzkalandi, blöskrar, að afnema eigi gömul gildi eins og kristinfræði í skólum og leikskólum. "Það er algjör nasismi," segir hún í Mbl. í dag, "já ég segi nasismi, því sjálf hef ég reynslu af því þar sem ég ólst upp í nasistaríki sem bannaði kristinfræði sem þeim tókst að vísu ekki alveg að uppræta, því þýska þjóðin var trúuð eða svo til allir nema þeir sem aðhylltust nasisma."

Það er fróðlegt og tímabært að lesa hér um reynslu hennar:

"Fræðin lærði ég til 11 ára aldurs eða þangað til ég fór í heimavistarskóla á eyjunni Rügen, vegna loftárása þar sem ég bjó. Þessi skóli var ríkisrekinn af nasistum, við vorum með undir- og yfirforingja, kennslukonu og Hitlers-æsku og þar var bannað að kenna kristinfræði, meira að segja stóð til að afnema jólin.

Erum við á sömu leið og nasistar, þeir hvorki fermdu né skírðu börnin sín? Ég hef sjálf reynslu af því þar sem faðir minn aðhylltist nasisma og mætti ekki í kirkju þegar bróðir minn var fermdur. Ég kom til Íslands 1949 og var Þjóðverji, ég aðlagaðist öllum gildum í þessu landi og það ættu allir að gera sem vilja búa á Íslandi."

Þetta er mikilsvert að fá að lesa. Ýmsir í hópi vantrúarmanna hafa verið að halda því fram, að fjarri fari því, að það sé nokkuð hæft í því hjá Karli biskupi Sigurbjörnssyni, að tengsl séu milli afneitunar kristindóms og nazisma (nú eða kommúnisma, það sama á við þar). Jafnvel hafa heyrzt þær fullyrðingar, að Hitler sjálfur hafi verið kristinn og kaþólskur, af því að hann hafi verið skírður inn í þá kirkju! En því fer víðs fjarri, fyrir liggja staðreyndir og vitnisburðir um afneitun hans á kaþólskri trú bæði seint og snemma í lífinu." (Endir greinarinnar.)

Nazistar og kommúnistar ofsóttu kristna menn, það eru tengslin sem ég ræddi hér. Hvorir tveggja ýttu frá sér kristnu siðferði og reyndu að bæla það niður, hvorir tveggja létu tilganginn helga meðalið með illvirkjum sínum, en kristna afstaðan er sú, að jafnvel góður tilgangur getur ekki helgað ill meðul, sjá orð Páls postula í Rómv. 3.8.

Þrátt fyrir ítrekun alls þessa var hvergi gefið í skyn í pistlinum, að fólk, sem telur sig "vantrú[a]ð og/eða trúfrjál[t]", sé nazistar. En útrýming kristindóms úr skólum ber vott um þess konar offors og yfirgang, að það er greinilega angi af grófri forræðishyggju, og það mundi leiða ástand mála í skólunum að sömu niðurstöðu og nazisminn á Rügen og annars staðar í Þriðja ríkinu: að kristin hugsun verður bannhugsun eða álitin óverðug.

Þið takið greinilega ekkert tillit til þess, að kristið siðgæði eigi að móta skólastarfið samkvæmt námsskrá skóla. En ykkur verður ekki kápan úr því klæðinu að vinna þessa baráttu, sama hvað þið reynið, því að þar er foreldrum að mæta, tugþúsundum foreldra.

Jón Valur Jensson, 28.10.2010 kl. 01:01

13 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Ég kalla það ósóma þegar fólk er svo skinheilagt að geta nær fullyrt að ákveðinn hópur fólks sé nasistar. Þú talar um að ég geti ekki lesið úr þessum texta sem þú birtir, en ert sjálfur bersýnilega með Jesúlonjetturnar á nefinu þegar þú sérð ekkert við eftirfarandi texta:

"... ég ólst upp í nasistaríki sem bannaði kristinfræði sem þeim tókst að vísu ekki alveg að uppræta, því þýska þjóðin var trúuð eða svo til allir nema þeir [ergo: trúlausir] sem aðhylltust nasisma."

Allt venjulegt og vel meinandi fólk sér það strax að hér er talað um að þeir sem ekki trúi á einhvern Guð (og þá reyndar bara rétta Guðinn af ótal mörgum, reikna ég með) séu nasistar. Þú gerir þessi orð að þínum þegar þú lepur þau beint upp og birtir án nokkurs fyrirvara! Þú ættir að prófa að taka Jesúlonjetturnar af nefinu og þá sérðu hvers konar ósóma þú varst að birta þarna. En líklega sannast hér hið fornkveðna að enginn er blindari en sá sem ekki vill sjá! Þú, sem hossar því reglulega að þú hafir stúderað við Cambridge, ættir að vita það.

Þér veitist það harla auðvelt að dylgja um að ég og mín skoðanasystkin séum nasistar. Nú veit ég auðvitað ekki hvort þú gerir þér fyllilega grein fyrir hvers konar ásökun þetta er og vona helst að svo sé ekki. En ef þú virkilega heldur þessu blákalt fram með fullri rænu þá þykir mér þú leggjast afar lágt, jafnvel fyrir mann sem treður marvaðann í forarpolli í nauðvörn fyrir vondan málstað.

PS. Ertu að segja að fósturvísir kristins þjóðarflokks hérlendis stýrist ekki helst af kaþólskum áherslum? Er þessi selskapur ekki helst knúinn áfram af sannkaþólskum gildum; vanþóknun á samkynhneigðum, smokknum og öðrum álíka fyrirbærum þegar hann er ekki að endurvarpa þínum áherslu- og hugðarefnum þegar þú endurritar eigið blogg þarna? Nú eru 15 manns skráð um borð í þessa dómsdagsgaleiðu undir styrkri skipsstjórn þinni ... hversu mörg þeirra leggjast flöt við pilsfald Ratzinger páfa?

Óli Jón, 28.10.2010 kl. 11:16

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

SS-menn áttu að að játa trú á guð, svo miklir trúleysingjar voru nasistarnir. Þeir meira að segja fordæmdu efnishyggju (ekki í merkingunni "meiri peninga!") í stefnuskrá sinni, svo miklir trúleysingjar voru nasistarnir.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.10.2010 kl. 11:28

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það virðist ekki liggja vel fyrir þér að lesa úr texta, Óli Jón; ert eflaust sterkari á einhverju öðru svelli. Hún Ursula talar í approximations, rétt eins og Biblían, þar sem "allir" merkir mjög oft "flestir"; hugsunin er ekki stærðfræðileg. Þar að auki var þetta á þeim tíma þegar flestir höfðu alizt upp við eindregna kristna trú og undantekningarnar frá kristinni trú heyrðu fremur til undantekninga, þá oft í tengslum við róttæka pólitíska afstöðu og þá einna helzt nazíska og marxíska.

Það var því enginn að dylgja um að þú og þín skoðanasystkini væruð nazistar, mér dytti það ekki í hug, enda eru mörg ykkar nær hinum hefðbundna sósíalisma. En frekjan í Siðmennt og Vantrú gagnvart skólum landsins og fyrst og fremst börnunum hefur sömu áhrif og stefna nazista í þessum málum, þ.e.a.s. ef þessum fámennu hópum tekst þetta ætlunarverk sitt með hjálp hins skringilega, geðþóttafulla "mannréttindaráðs".

Kristin stjórnmálasamtök eru ekki kaþólsk, heldur almennt kristin, eins og sá kristindómur er, sem birtist t.d. í trúarjátningunum. Við höfum sömu afstöðu og kenningartrúir kristnir menn í öllum trúarsamfélögum í því efni, að Biblían – einnig Nýja testamentið! – bannar mök samkynja fólks. Hjalti Rúnar getur upplýst þig manna bezt um það, að í þessu efni erum við í KS trúrri Biblíunni en líberalprestarnir í Þjóðkirkjunni; grænsápuguðfræðin er hinna síðarnefndu, ekki okkar í KS! Og einungis tveir í 14 manna KS-hópnum eru kaþólskir (einn er nýlátinn, og hann var ekki kaþólskur).

Sömuleiðis er andstaða okkar í KS við fósturdeyðingar mjög útbreidd meðal sanntrúaðra kristinna manna í flestöllum kirkjum, enda eru þeir ekki einungis áhugasamari en almennt gerist um siðferði og gjarnari á að kynna sér upplýsingar um hina ófæddu en vantrúaðir, heldur er beinlínis að finna texta í Gamla og Nýja testamentinu sem varða hina ófæddu og virðingu fyrir lífi þeirra, en andstöðu við þá, sem ráðast á það líf; sbr. frásögnina um vitjun Maríu, og t.d. er talið líklegt, að farmakoi í NT, eiturbyrlarar, séu þeir sem "hjálpa" konu til fósturdeyðingar með lyfjum; og þessi andstaða við fósturdráp kemur afar skýrt fram í einu elzta riti frumkirkjunnar, Didache (Kenningu hinna tólf postula, frá því um eða fyrir 100 e.Kr.).

Sáralítið ef nokkuð hefur verið skrifað um smokkinn á vef KS; ef þú finnur eitthvað, minntu mig á það. En niðurstöður fyrir leit á þeim vef að þessum orðum þar: smokkurinn, smokkinn, smokk, smokka, eru þessar: "Engar bloggfærslur fundust." Annars er alveg sárasaklaust í sjálfu sér að blogga um smokkinn, gerir þú það ekki sjálfur?

Hjalti, þessi guðstrú SS-manna var ekki kristin að eðli.

Jón Valur Jensson, 28.10.2010 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband