Vantrúaður biskup í heljargreipum óttans

Forstjóri RíkiskirkjunnarKarl Sigurbjörnsson, forstjóri Ríkiskirkjunnar, er heltekinn ótta þessa dagana og er ástæðan sú að nú er vegið að helstu matarholu Ríkiskirkjunnar, aðgangi hennar að leik- og grunnskólabörnum.

Í gegnum tíðina hefur Ríkiskirkjan haft greiðan aðgang að þessum börnum með boðskap sinn og náð að sannfæra þau mörg um að Jesús sé besti vinur barnanna. Það er auðvitað ekkert snilldarverk að telja leikskólabarni trú um eitthvað þegar því hefur verið sagt að trúa öllu sem því er sagt í skólanum. Þetta er álíka erfið veiðimennska og þegar net eru lögð yfir heila á og alveg til botns - þeir eru fáir, fiskarnir, sem ná að synda í gegn.

Engan þarf að undra hvers vegna forstjórinn er svo óttasleginn. Hann lítur yfir kirkjubekkina og sér að meðalaldurinn hækkar stöðugt og það þrátt fyrir gegndarlaust trúboð í skólum. Viðskiptavinir Ríkiskirkjunnar fara ört gránandi. Jafnvel þótt litlu börnunum sé talin trú (kaldhæðni?) um að Jesús sé besti vinur barnanna, þá láta þau almennt ekki sjá sig í kirkju. Ég get bara ímyndað mér framtíðarsýn forstjórans þegar hann ímyndar sér heim þar sem hann kemst ekki að börnunum með trúboðið og þarf í staðinn að treysta á foreldra til að sjá um það sjálfir! Slíkt er auðvitað með öllu óhugsandi, enda sést það á greinaskrifum trúaðra í gegnum tíðina að þeir vilja ekkert með trúarlega uppfræðslu barna sinna hafa og telja að skólinn eigi að sjá um þetta fyrir þá. Þessir foreldrar hafa bersýnilega eitthvað annað og betra við sinn tíma að gera.

Og svo kveinar biskup yfir því að talið sé að Gídeon-félaginu sé óheimilt að dreifa Nýja testamentinu í grunnskólum. Enn veit hann sem er að það er ekki hægt að treysta foreldrum til þess að sjá um þessi bókamál, enda hafa þeir allt of mikið að gera við að kaupa hvers konar bækur aðrar fyrir börnin, s.s. úrkynjuðu bækurnar djöfullegu um Harry Potter. Ekkert barn fengi að upplifa þá gleði að glugga í Nýja testamentið sér til skemmtunar, sálrænnar næringar og andlegrar upplyftingar ef því væri ekki þröngvað upp á grunnskólabörn á skólatíma, það veit biskup. Loks gleymist í umræðunni að ekki stendur til að banna Gideon-fólkinu að heimsækja kirkjur og heimili :)

Þá sér hann ofsjónum yfir því að óháðir fagaðilar verði fengnir til þess að sjá um sálræna aðhlynningu til handa skólabörnum. Hann gefur lítið fyrir reynslu og menntun þessara fagaðila, enda séu prestar og djáknar miklu hæfari til þess að sjá um þessi mál. Hann gleymir að geta þess að í skóla taka guðfræðingar tvo áfanga í sálfræði á meðan sálfræðingar og geðlæknar eru eiginlega í slíkum vangaveltum allt sitt nám. En það telur auðvitað ekki mikið því geðlæknar og sálfræðingar boða ekki náð Guðs.

Karl Sigurbjörnsson sér djöfulinn í þessari tillögugerð Mannréttindaráðs, enda eru það engin mannréttindi sem skerða rétt hans til þess að boða og innræta litlum börnum hina einu og sönnu Ríkistrú. Hann sér ekki að mannréttindi séu fólgin í því að halda skólanum trúlausum þannig að allir sitji við sama borð, líka börnin sem skilin eru eftir ein í skólanum á meðan öll hin sauðast í kirkjuheimsókn eða í aðrar trúarlegar uppákomur. Karl Sigurbjörnsson telur sjálfsagt að meirihlutinn kúgi og þrúgi minnihlutann (sem í þessu tilfelli eru lítil og varnarlaus börn) og setji hann út í horn. Auðvitað vonar hann þó helst að þessir litlu óþekktarangar sjái að sér og komi með í Ríkiskirkjuna, sauðist inn á barnatrúarsporið og borgi svo sóknargjöldin þegar þau hafa aldur til.

Karl Sigurbjörnsson, réttsýnn og fullmektugur fulltrúi hins þríeina Guðs hérlendis, vill halda trúnni í skólunum því hann veit að sjaldnast er hún höfð fyrir börnum á heimilunum. Og það hefur áhrif á tekjustofninn hans í framtíðinni.

PS. Rétt er að velta fyrir sér af hverju biskup hefur ekki meiri trú á kirkju sinni en raun ber vitni. Getur einhver gefið skýringu á því hví hann er svo vantrúaður á Ríkiskirkjuna að hann telji hana ekki geta plumað sig upp á eigin spýtur?


mbl.is Vegið að rótum trúarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð lesning, og sammála er ég nær öllu.

Að kalla mann-eplið forstjóra hæfir honum

mikið frekar!

Guðmundur H. Jónsson 24.10.2010 kl. 18:30

2 identicon

Ákaflega vel fram sett eins og venjulega!

kv,

Björk

Björk 24.10.2010 kl. 19:32

3 identicon

Af hverju leysir þú ekki vanda þjóðarinnar víst þú ert svona snjall?

Sveinn 24.10.2010 kl. 21:18

4 Smámynd: Óli Jón

Guðmundur: Takk fyrir þetta. 

Björk: Takk kærlega :)

Sveinn: Nei, þú ert snjall, Sveinn! Sá snjallasti :) Allra snjallasti!

Óli Jón, 24.10.2010 kl. 21:32

5 identicon

Það vill svo til að mikill meirihluti aðhyllist krisna trú, og ekki veit ég að það skaði börn að vera frædd um hana, eða aðra trú. Að reyna úthýsa henni úr skólum boðar ekki gott, enda hef ég það á tilfingunni að það sé ekki markmið þeirra sem ekki vilja hana í skólum eða annarstaðar. Held AÐ ÍSLENDINGAR ÞURFI Á ALLT ÖÐRU EN MEIRI SUNDRUNGU.

haukur Gunnarsson 24.10.2010 kl. 22:01

6 Smámynd: Óli Jón

Haukur: Það er reyndar talað um að rétt rúmlega helmingur sé kristinnar trúar þegar miðað er við klassíska skilgreiningu. Hins vegar er það í raun undarlegt að fleiri skuli ekki telja sig trúaða þegar haft er í huga að langflest leik- og grunnskólabörn hérlendis í gegnum tíðina hafa farið í gegnum trúartrektina í skólunum.

Þessi trúartrekt er samansett úr eftirfarandi þáttum (þér til upplýsingar):

  • sjálfvirk skráningi nýfæddra barna í trúfélag móður (því auðvitað munu þau trúa á það sem mamma þeirra trúir því það er ekkert mál að velja trú fyrir lítil börn, enda er hún ekki persónulegt fyrirbæri á neinn hátt)
  • trúboð þar sem prestar og djáknar koma í skólann og syngja og tralla um að Jesús sé besti vinur barnanna ... áheyrendur eru 5-11 ára börn sem trúa öllu sem fullorðna fólkið í skólanum segir þeim (ekki beint beysin sölumennska þar!)
  • fermingarfræðslan þar sem nær allir krakkar á ákveðnum aldri voru sjanghæjaðir úr skólanum í harðkjarna trúboð

Ég er nokkuð viss um að langflestir landsmanna væru Valsarar ef 90% allra nýfæddra barna væru skráð í Val við fæðingu, fengu þjálfara Vals í heimsókn í skólann þar sem hann ræddi um hvað Valur væri æðislegt félag og svo væru allir teknir í skemmti- og þjálfunarbúðir Vals á 14. aldursári.

Eða hvað heldur þú? Er þetta eitthvað til að stæra sig af? Sumir gætu líkt þessu við fiskveiðar í tunnu ... hvaða vitleysingur sem er fær alltaf á öngulinn á meðan það er fiskur í tunnunni :)

Óli Jón, 24.10.2010 kl. 22:19

7 Smámynd: Bjarni FJ

Hvort ætli væri betra ...

... að allir væru trúlausir ... eða ... að allir væru kristnir?

Ég meina ... í hvorum heiminum vildir þú frekar lifa?

Bjarni FJ, 24.10.2010 kl. 23:47

8 Smámynd: Óli Jón

Bjarni: Best er ef allir geta valið sjálfir þegar þeir hafa aldur og þroska til. Reyndar finnst mér trú vera hið mesta óþurftar fyrirbæri sem skaðar heiminn mun meira en hún gerir honum gott og sæi ég ekki eftir henni, hyrfi hún t.d. í nótt.

Þar er aldeilis komið fínt bænarefni fyrir nóttina! :)

Óli Jón, 25.10.2010 kl. 00:02

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Algjörlega ósammála þér í þessu efni, en ég er kristinnar trúar og tel ályktun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar vanhugsaða forsjárhyggju þar sem tilraun er gerð til þess að þjóna minnihlutahóp vísindatrúarafla í þjóðfélaginu.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 25.10.2010 kl. 00:15

10 Smámynd: Óli Jón

Guðrún: Ég reikna með að þú teljir þig trúaða. Hefði Jesús þinn Jósepsson liðið kúgun minnihlutans til þess að meirihlutanum gæti liðið vel? Hefði Jesús þinn Jósepsson verið ánægður með það að nokkrir krakkar séu teknir til hliðar þegar skólabekkjum þeirra er sturtað í gegnum trúartrekina? Hefði Jesús Jósepsson verið ánægður með það að t.d. eitt barn sé eftir hjá húsverðinum í skólanum þegar öll hin lufsast með prestinum í kirkju?

Er það eitthvað sem þú getur sætt þig við til þess að kristnir foreldrar þurfi ekki að leggja það á sig að fræða börn sín um þeirra trú? Það eru, jú, bara nokkur börn í hverjum bekk sem líða fyrir þetta. Ekkert rosalega mörg, kannski eitt, tvö eða þrjú.

Óli Jón, 25.10.2010 kl. 00:27

11 identicon

Eru þau ekki nema eitt, tvö eða þrjú sem sitja eftir á meðan öll hin fara í gegnum trúartrektina? Hvað gera þessi eitt, tvö eða þrjú á meðan? Fara þau heim?

Dimmalimm 25.10.2010 kl. 00:42

12 Smámynd: Óli Jón

Dimmalimm: Máské eru þau stundum fleiri. Þau þurfa að hanga í skólanum og fá oft enga kennslu á meðan. Ef þau eru heppin, þá geta þau gónt á bíómynd eða spilað tölvuleiki.

Óli Jón, 25.10.2010 kl. 00:48

13 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Hvað trú er það sem meinar barni sínu (12ára dreng) að sækja afmæli bekkjasystkyna sinna ef stúlkur eru í hópnum. Fæddur Íslendingur,sá eini í bekknum sem þolir þessar öfgar,ekki er þetta kristlegt.

Helga Kristjánsdóttir, 25.10.2010 kl. 04:18

14 identicon

Ef þeir/þær sem eftir sitja fá að horfa á bíómynd, spila tölvuleiki eða fá frí á meðan hinir fara í gegnum trúartrektina þá er ég nú viss um að þau séu ekkert ósátt við sitt hlutskipti.

Dimmalimm 25.10.2010 kl. 05:16

15 Smámynd: Óli Jón

Helga: Trúin er það eina í skólakerfinu sem sundrar vinahópnum. Ég veit ekki hvaða trú á við þarna, en ljótt er ef rétt reynist.

Dimmalimm: Þú ert s.s. á því að velferð nokkurra barna sé lítið gjald að greiða fyrir þann munað nokkurra kristinna foreldra að þurfa ekki að stússast í því að fræða börn sín um kristna trú? Þú heldur s.s. að það sé ákjósanlegt að vera tekinn út úr hópnum og settur til hliðar?

Óli Jón, 25.10.2010 kl. 08:30

16 identicon

Er það ekki bara kostur að vera "setur til hliðar" á meðan aðrir þurfa að fara í gegnum grautfúla trúartrekt - og fá kannski að horfa frekar á bíómynd eða spila tölvuleik í staðinn?

Guð veit að ég hefði frekar viljað það á sínum tíma heldur en að þurfa að fara til og hlusta á Þorberg.

Dimmalimm 25.10.2010 kl. 10:18

17 identicon

Annars á ég fimm börn, fædd '92, '94, '95 og '98 og verð að segja alveg eins og satt er að ég hef aldrei orðið vör við trúboð í skólanum fyrir utan fermingarfræðsluna sem mér hefur fundist að mætti missa sig af síðan ég var sjálf fermd árið 1974 ... ekki vegna trúboðs heldur vegna þess hve hún var innilega leiðinleg.

Mér finnst öll þessi hneykslun varðandi þessar tillögur mannréttindanefndar vera fellibylur í fingurbjörg.

Dimmalimm 25.10.2010 kl. 10:26

18 Smámynd: Óli Jón

Dimmalimm: Það má vel vera að það sé skárri kostur að sitja einn og spila tölvuleik í stað þess að fara í trúarlega athöfn í skólanum, en það ýtir undir sérgreiningu sem aftur getur t.d. leitt til eineltis. Það hlýtur líka að taka á litla sál að vera tekin burt frá vinum sínum fyrir nokkuð sem viðkomandi hefur ekki skoðun á, enda er þarna um kreddur foreldranna að ræða, bæði þeirra trúuðu og hinna vantrúuðu.

Fellibylur í fingurbjörg :) flott lýsing. En ef það væri ekki trúboð skólum, þá væri það sem andvari í andaglasi!

Óli Jón, 25.10.2010 kl. 10:39

19 identicon

Hvað segið þið, tapaði Karl seðlaveski, eða er hann að sjá fram á að veskið sitt þynnist ef hann nær ekki að eitra huga ungra barna til að borga biskup og prestum laun til dauðadags?
Og hvað segið þið, er hann tilbúinn að traðka á mannréttindum barna og foreldra til að fá þykkt búnt í veskið sitt um hver mánaðarmót(~1 milljón+)

doctore 25.10.2010 kl. 11:28

20 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábær pistill Óli Jón

Hreinn og tær texti, og yndislegar líkingar. 

Ég lenti í trúartrektinni en læknaðist nokkrum árum síðar.

Titlaði mig sem Valsara í Framhverfinu sem pjakkur, en læknaðist (að mestu) af liðaátrúnaði upp úr tvítugu.

Mig grunar að þessi ofsafengnu viðbrögð eigi eftir að koma í bakið á biskupi og kirkjunnar mönnum. Sjá þeir ekki að fullur aðskilnaður er leiðin fram á við, þá geta þeir iðkað öfgafyllri útgáfu af kristni, stofnað sérstaka skóla og þjálfað hryðjuverkahópa til starfa í útlöndum (eða Vestfjörðum) (svona eins og pakistanar gera/gerðu  til að grafa undan Indverska Kashmir).

Arnar Pálsson, 25.10.2010 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband