Færsluflokkur: Lífstíll
Laugardagur, 6. september 2008
Esjan fyrir alla!
Undanfarna mánuði hef ég vanið komur mínar á Esjuna og hefur það stúss haft mikil og góð áhrif á mig. Ég er þess fullviss að Esjan getur reynst öðrum jafn vel og enn betur ef hún fær smá aðhlynningu frá viðeigandi deild innan Reykjavíkurborgar.
Í mínum huga er auðveldlega hægt að gera Esjuna aðgengilegri fyrir fólk sem er að rífa sig af stað eftir langa kyrrsetu, en hún er frábær sem vettvangur æfinga fyrir alla. Í dag er leiðin upp fjallið mörkuð með nokkrum stikum, en það er mislangt á milli þeirra og því óhentugt að nota þær sem viðmið í markmiðasetningu. Leiðin upp að 4. stiku er um 2,5 km. að lengd og hefur hækkað um 400 metra þegar komið er á leiðarenda. Ef þessari leið væri skipt upp í 6-10 leggi væri auðvelt fyrir kyrrsetufólk að setja sér það raunhæfa markmið að ganga fyrst 250-400 metra nokkrum sinnum og bæta svo við þegar þrekið fer að aukast. Nú er vel hægt að segja að 250-400 metra göngutúr sé afar ómerkilegt markmið, en Esjan er þannig gerð að hún lætur fólk streða hvern einasta metra. Því er betra að byrja rólega og byggja svo hægt og bítandi ofan á þann árangur sem næst í stað þess að ætla sér um of og springa svo á limminu. Málið er að það er ekki vegalengdin sem er erfið, heldur hækkunin. Hækkunina þarf að brytja niður í viðráðanlega skammta þannig að fjallið verði aðgengilegt fyrir byrjendur. Ef það gerist, þá munu vinsældir Esjunnar aukast, sérstaklega meðal þeirra sem eru að byrja að hreyfa sig aftur eftir langt hlé.
Einnig er tilvalið að setja upp aðstöðu til æfinga á fjallinu eða við rætur þess. Í þeim efnum geta menn sótt hugmyndir í Öskjuhlíðina þar sem er að finna skemmtilega gönguleið sem brotin er upp með æfingatækjum á borð við það sem sést á meðfylgjandi mynd. Með svona aðstöðu myndi fjallið umbreytast í skemmtilegasta og sérstæðasta æfingasvæði í heimi! Á sama hátt mætti gera fólki auðveldara að setjast niður við og við og hvíla lúin bein.
Þá mætti setja upp skemmtilega aðstöðu við bílastæðin sem gerði teygjur auðveldari. Það myndi fækka tognunum á fjallinu og gera puðið árangursríkara. Á því svæði væri upplagt að setja upp einfaldar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja nýta sér fjallið til að komast í form.
Esjan hefur gert mörgum mikið gagn sem sést á þeim fjölda fólks sem sækir hana vikulega. Með þeim viðbótum sem lýst er hér að ofan mætti gera fjallið mun þægilegra viðureignar fyrir alla og þá sér í lagi fyrir fólk sem er að rífa sig upp úr kyrrsetunni eftir mislangt hlé. Viðbætur þessar eru ódýrar og einfaldar í innleiðingu, en gætu líklega orðið ein besta fjárfesting í bættri heilsu sem um getur!
Mynd: Dísin
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Urð og snjór, upp í mót ...
Í kvöld átti ég mína bestu stund á fjallinu. Ég og Villi kafari lögðum á fjallið um hálf sex og var þá orðið nokkuð rökkurt. Á leiðinni sáum við að vindstyrkur á Kjalarnesi var 4 m/s og reiknaði ég með því að þar af leiðandi væri nokkur gjóla á fjallinu, en það gat ekki verið meir fjarri sanni því allan þann tíma sem við vorum með fjallinu bærðist vart hár á höfði.
Við félagarnir kveiktum á framljósunum og lögðum í hann. Ákváðum við að fara upp í einni lotu, enda er það í raun besta leiðin. Það er nefnilega býsna þreytandi að stoppa og hvíla sig þegar allt kemur til alls, eins skrýtið og það er - vöðvarnir stífna og það verður erfitt að fara af stað aftur. Áfram paufuðumst við í gegnum fannfergið sem alla jafna náði upp í miðja kálfa, en var ósjaldan mun dýpra. Þannig sukkum við nokkrum sinnum gjörsamlega í djúpum sköflum sem gerði ferðalagið ekki auðveldara. Við áttum því láni að fagna að tveir göngumenn höfðu farið fyrr í dag á fjallið og nutum við þess að geta fetað í fótspor þeirra. Það hefði þó ekki verið verra að ryðja þarna nýja slóð, en það gerist þá bara síðar.
Eins og reynslan hefur kennt okkur, þá eru fyrstu metrarnir erfiðastir og er spottinn upp að stiku 2 nokkuð strembinn. En þegar hann er að baki virðist maður ná upp ákveðnum takti og eftirleikurinn verður mun auðveldari. Sú var raunin og við brutumst upp brekkuna, einbeittir. Í rökkrinu fundum við svo stiku fjögur eftir nokkra leit og var kærkomið að sjá þessa þolinmóðu vinkonu. Við stöldruðum hjá henni örstutta stund, vættum þurrar kverkar og héldum svo niður á við. Sú ferð var tíðindalítil fyrir utan það að áfram nutum við einstakrar veðurblíðu og þannig lauk bestu ferð minni á fjallið.
Nú höfum við félagarnir ákveðið að ganga á fjallið alla þriðjudaga og fimmtudaga strax eftir vinnu og láta veður og vinda hafa sem minnst áhrif á þá áætlun. Svo ætla ég að vera kominn að fjallsrótum á hádegi alla sunnudaga og eru þeir sem vilja slást í hópinn velkomnir.
Hraðar ... hærra!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 21. október 2007
Number One Son
Í dag brá ég mér á Esjunni í fylgd Number One Son, en það hefur lengið verið ætlun okkar að fara saman. Number Two Son komst ekki sökum þess að hann þurfti að vinna þannig að við vorum tveir sem röltum í dag. Mæting mín á fjallið hefur verið stopul undanfarið sökum slælegs veðurs og meiðslanna ógurlegu, en nú ætla ég að trekkja mig í gamla farið. Kálfinn var alveg til friðs enda var farið hægt og yfirvegað yfir. Ferðin var afar fín, en ég fann að það munaði aðeins um þetta tímabil þar sem ég hefi lítt sinnt fjallinu. Þó er von til þess að maður verður fljótari að ná sér á strik aftur en í sumar þegar maður byrjaði kaldur og frá grunni.
Number One Son fetaði sig einbeittur upp fjallið alla leið að stiku 4 og hafði almennt lítið fyrir því. Ferðin niður fjallið tók töluvert meira á, sem olli nokkurri undran. Við fórum þetta hægt og örugglega og ég reyndi að leiða drenginn í allan sannleikann um undraheima fjallsins; vonandi hefur hann fengið ögn breytta sýn á þessa gersemi sem bíður ætíð þolinmóð við túnfótinn. Nú er bara að gera þessar ferðir að föstum liðum í dagskrá vikunnar enda ættum við að vera að rölta þetta tvisvar sinnum saman.
Góður, Number One Son!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 8. október 2007
Gallabuxur
"Þessar fara þér örugglega vel! Nýjasta tískan, mjög smart!", sagði hún þolinmóð og bar fram enn einar buxurnar, þessar gráar. "En ég vil bara svona ljósbláar gallabuxur eins og ég er í og hef alltaf verið í". Hún hugsaði sig um, tók dýfu ofan í buxnasúpuna og birtist von bráðar með buxurnar, öðruvísi gráar með skrýtnum vösum, sem myndu bylta lífi mínu. "En ég vil bara svona ljósbláar gallabuxur eins og ég er í". Enn dýfði hún sér og kom upp með svartar buxur úr silkimjúku gallaefni sem voru örugglega mjög flottar. "En hvað um þessar?", spurði hún með þolinmæði sem konum eru einum gefin. "Þessar eru geggjaðar!" og sýndi mér dökkbláu gallabuxurnar með útsaumuðu vösunum sem eru víst að trylla alla í New York og Tokyo.
"Vér höndlum breytingar illa", sagði ég og kvaddi með trega.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. september 2007
Norðurljósin
Fótómakker minn, Villi kafari og húsamús, hafði samband í gegnum Messenger rétt áðan og tilkynnti mér að hann hefði fylgst með norðurljósum fremja gjörning sinn yfir höfuðstaðnum fyrr í kvöld. Ég vitnaði þau sjálfur fyrir u.þ.b. tveimur vikum síðan og gáfu þau fögur fyrirheit um fjölda næturferða á komandi vetri til að festa þau á mynd. Liðinn vetur er varðaður mörgum ferðum vítt og breitt um nærlendur höfuðborgarinnar og dagljóst má telja að komandi kuldatíð verður ekki síðri í þeim efnum.
Það vita ekki nema þeir sem sjálfir hafa reynt að það er fátt sem jafnast á við það að standa undir stjörnubjörtum himni í jökulkaldri stillu og keppast við að fanga litríkar ljósaslæðurnar sem á endanum gera ekki annað en að ganga manni úr greipum. Norðurljósin eru svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin, og í eltingarleiknum við þau sannast hið fornkveðna að það er ferðin sem mestu máli skiptir, ekki áfangastaðurinn. Heitt kakó á brúsa, loðfrolla á kolli og góður félagsskapur ... lífið verður vart betra.
Töfra síðustu ljósatíðar og forleikinn að þeirri næstu má sjá hér.
Swiss Miss!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 6. september 2007
Meiðsli
Yðar einlægur lagði á Esjuna kl. 20.00 í gærkvöldi í þeim tilgangi að sneiða aðeins af tímanum upp að 4. stiku. Ég byrjaði vel og gekk í einni lotu upp fyrir fyrri brúna og hálfa leið upp gilið á mínum besta tíma hingað til. En þá brast eitthvað í hægri kálfanum sem varð til þess að nú er kallinn draghaltur enda formlega orðinn einn þeirra sem þjást af íþróttameiðslum. Í gegnum tíðina hef ég gert óspart grín að íþróttamönnum og þótt það býsna sniðugt að þeir séu ósjaldan teygðir og togaðir að jafna sig eftir einhver meiðsli. Viðkvæðið hefur verið að góð, jöfn og markviss kyrrseta sé lykillinn að meiðslalausu lífi. Nú er ég hins vegar kominn í raðir þeirra sem skakklappast um sem fórnarlamb álagsmeiðsla og er það illt. Það góða í stöðunni er hins vegar það, skv. því sem göngumakker minn segir, að maður þarf reyndar að vera kominn úr allra lélegasta formi til þess að geta lagt þannig á skrokkinn að hann bregðist svona við. Ég hugga mig altént við það.
Nú liggur fyrir að fá tíma hjá sjúkraþjálfara til að fá bót þessa meins svo ég geti haldið göngunni áfram, mér til góðs. Það merkilega hefur gerst að ég hef sífellt meira og meira gaman af þessu stússi og má ég því vart til þess hugsa að liggja í kör. Vonandi á sjúkraþjálfarinn góða töfrapillu sem fiffar þetta til eins og skot ... annars verð ég illa svikinn.
En mikið eigum við kallar bágt þegar við eigum bágt! Vá!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 30. ágúst 2007
Fjörutíu og þrjár mínútur
Jæja, þá hafðist það loksins. Eins og vatnið holar steininn náði ég að sigra fjallið. Í kvöld rann ég upp hlíðar Esjunnar að fjórðu vegstiku í einum samfelldum rykk fyrir utan nokkurra sekúndna hlé (argh!!!) við neðri brúna. Þetta var magnaður sprettur; tími og rúm urðu að einu í endalausri samfellu sem markaðist af hverju skrefinu á eftir öðru. Makker minn, Hörður Helgi Helgason, sló taktinn og talaði mig í gegnum andlegu skaflana og þegar fjórðu vegstiku var náð í rökkrinu stóð tíminn í 42:30 mínútum. Það var sérdeilis mögnuð upplifun að ná þessu forna takmarki mínu; að komast að stiku 4 á 45 mínútum eða skemur og það fylgdi því mikil sælutilfinning að klukka stikuna áður en ég fleygði mér á daggarvota þúfu. Eftir að hafa slökkt þorstann í straumhörðum læknum sem rennur glaðlega hjá stikunni var haldið niður í grunnbúðir. Á leiðinni var að finna magnaða sýn á stórkostlegt sjónarspil þegar þokan herti silkimjúk tök sín á há- og láglendi og smeygði sér lipurlega um króka og kima. Þarna óskaði ég þess að hafa tekið með myndavélina og þrífót, en það verður víst ekki á allt kosið!
Það var eitt að ná þessu á tíma og annað að rölta þetta í nær samfelldum rykk. Ég fór hægt og rólega yfir í stað þess að geysast áfram og hvíla svo á milli. Auðvitað koma erfiðir kaflar, en ég fann að þetta var, svona heilt yfir, auðveldara og bersýnilega vænlegra til árangurs. Það má finna líkindi með þessu og verklagi afa míns; hann er ekki sá sneggsti þegar hann er að musast með spýturnar og velta þeim fyrir sér, en þegar dagur er að kvöldi kominn hefur hann afkastað margfalt miklu meiru með stanslausu juðinu en sá sem er stöðugt að spretta og stoppa til að ná mæðinni.
Í bili ætla ég að halda áfram að reyna við stiku 4 og reyna að upplýsa fleiri af þeim leyndardómum sem hún geymir. Ég sé það nefnilega betur í hvert skipti sem ég fer til fundar við hana að þrátt fyrir fálæti hennar búa í henni kosmískir kraftar og margslungnir straumar sem ókannaðir eru.
Engage!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 19. ágúst 2007
Síldarmannagötur
Í gær rölti ég ásamt 5H tvíeykinu (Hlyni Halldórssyni og Herði Helga Helgasyni) um Síldarmannagötur. Það er skemmst frá því að segja að rölt um íslenska náttúru í góðum félagsskap er hin besta skemmtun. Við lögðum upp frá Botni í Hvalfirði og fylgdum vel stikaðri leiðinni yfir í Skorradal þar sem Carnivore Convention 2007 beið hjá mömmu. Fyrsti kaflinn einkennist eðlilega af nokkru príli þar sem verið er að sigra fjallið, en þegar komið er upp á heiðina tekur við jöfn og góð gönguleið. Veðrið lék við okkur allan tímann; það var skýjað með köflum og léttur andvari lék um göngumenn. Þegar halla tók á ferðina sást æ oftar í þjóhnappa göngusveinanna sem voru með í för þar sem þeir stungu nefjum ofan í djúpblátt berjalyngið. Það var sem þeir hefðu aldrei séð bláber áður og tóku þeir hraustlega á. Þeir voru helteknir af berjagleði og væru líklega enn á beit í hlíðinni ef kjötveislan hefði ekki togað í.
Á morgun er markið sett á hefðbundna heimsókn á Esjuna, en í vikunni verður fjallið svo sigrað í eitt skipti fyrir öll þegar ég fer alla leið á toppinn.
Lesandi minn getur smellt hér til að líta myndir frá Síldarmannagötum.
Góðar stundir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. ágúst 2007
Laumudiskó
Laumudiskó (e. stealth disco) er hægt og bítandi að ryðja sér til rúms í heiminum og er tími til kominn! Laumudiskódansarar eru þeir sem læðast aftan að óafvitandi vinnufélögum eða vegfarendum og taka þar nokkur snör diskóspor án þess að viðkomandi verði varir við. Þetta er hægt að gera með og án myndupptöku, en auðvitað er svalara að eiga afrekið skjalfest í flottu myndskeiði.
Ég hvet lesanda minn til þess að líta á eftirfarandi myndskeið ... ég veðja á að hann verði farinn að laumudiskódansa á vinnustað sínum fyrr en síðar:
Diskó er lífið!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 13. júlí 2007
Leggjabrjótur
Með sínum hætti blés Brandur góðvinur minn til sóknar inn á íslensk víðerni í gær. Að gömlum sið féllu síðustu stykkin í stóru púsluspili á rétta staði á elleftu stundu, en allt hafðist. Fríður hópur fór úr Mosfellsbænum og leiðin lá í Hvalfjörðinn, hvaðan ganga yfir til Þingvalla myndi hefjast um magnaða leið sem nefnd er Leggjabrjótur. Aldur leiðangursmanna spannaði frá örfáum árum, snáðarnir, til nokkuð margra ára. Góð stemmning var í hópnum og mikill hugur, markinu skyldi náð með glans. Himinn var nær heiður og og aðstæður allar hinar ákjósanlegustu. Haldið var af stað þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sjö.
Öldungarnir í hópnum - hinir mögnuðu meistarar tölfræðinnar, Jón og Jóhanna hin góða Glósudís - tóku fljótt að sér hlutverk undanfara og leiddu sem slík hópinn um hlykkjótta stigu. Fyrstu sex kílómetrana var á sótt að brattanum, en eftir það skiptust á hæðir og lægðir uns það tók almennt að halla undan fæti skömmu eftir að níu kílómetra markinu var náð. Hópurinn áði klukkan átta og gæddi sér á nesti. Þar var farið yfir stöðu landsmála, þau reifuð og afgreidd. Þetta var eina hléið sem gert var og varði það í tuttugu mínútur eða svo.
Brandur geystist um hæðir og hóla eins og gimbur, enda er hann svo gisinn í vextinum að hann getur nýtt sér hinn ljúfasta andvara sem sterkan meðbyr. Björk, kona hans og samviska, rak iðulega lestina og hvatti snáðana tvo til dáða með umhyggju og natni sem mæðrum er einum gefin. Ljóst er að ef hlýju hennar og lipurðar í samskiptum við ungviðið hefði ekki notið við værum við kallarnir enn á stígnum með drengina á öxlunum. Eitthvað vógu þó verðlaunin sem drengjunum var lofað í skiptum fyrir tápmikla framgöngu, en farið verður með ungana í bíógrafið í næstu viku.
Við vorum svo búin að vera á röltinu í rétt liðlega fimm tíma þegar nafni minn og bjargvættur okkar kom keyrandi á móti okkar á umsömdum mótsstað. Þá vantaði örfáa metra upp á það að við næðum að fylla 14,5 kílómetra vegalengd, á hverri við hækkuðum okkur samtals um rétt rúma 700 metra. Þetta var laust fyrir miðnætti og framundan var akstur að Botni í Hvalfirði þar sem náð var í fararskjóta Brands. Gönguferðin var öll hin ágætasta, en næst verður farið fyrr af stað þannig að hægt sé að fara hægar yfir og njóta náttúrunnar betur. Á leiðinni eru mýmörg ljósmyndatækifæri sem fóru forgörðum sökum hraðrar (sem er auðvitað afstætt hugtak!) yfirferðar. En Leggjabrjótur er að baki og þá er bara að líta í kringum sig eftir næstu gönguleið.
Einhverjar tillögur?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)