Færsluflokkur: Lífstíll
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Ég elska ykkur ...
... en ég þarf að slíta sambandinu sem við höfum átt saman. Þetta hefur verið frábært þótt það megi segja að ég hafi gefið meira af mér í svita og tárum. En það skiptir ekki máli, þið hafið alltaf verið til staðar fyrir mig og fyrir það er ég þakklátur. En nú verð ég að halda áfram leið minni og ég vona að þið skiljið það. Við munum sjást á förnum vegi og ég mun heilsa þegar ég á leið hjá, en ég mun ekki staldra við. Ég hef sett markið hærra og þið nægið mér hreinlega ekki lengur. Ég er nokkuð viss um að það líður ekki á löngu uns það kemur einhver nýr til ykkar, enda verður að segjast að það er býsna gestkvæmt hjá ykkur, svo ekki sé meira sagt!
Vegstikur 1, 2 og 3 á Esjunni, ég mun aldrei gleyma ykkur! Vegstika 4 ... þú ert nýja stikan í lífi mínu. Vonandi sjáumst við oft í framtíðinni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 1. júlí 2007
Drekinn veginn!
Á fimmtudaginn var náði ég áfanga sem ég hef stefnt að um nokkurn tíma og það var að rölta upp að vegpunkti 5, 'Steini', á Esjunni. Ég er ekki mikill gönguhrólfur og því tók ég þetta í nokkrum áföngum. Sú ráðstöfun hefur gefist vel og skilað mér á þennan stað. Það er skemmst frá því að segja að göngutúr upp Esjuna er hin besta skemmtun. Þangað streymir fólk í löngum röðum og oft eru bílastæðin við fjallsræturnar þéttskipuð.
Í gær bætti ég svo um betur og fór upp að vegstiku 6, en hún er sú síðasta áður en farið er að glíma við Þverfellshornið sjálft. Stikan er í rúmlega 670 metra hæð yfir sjávarmáli og þar er hægt að njóta mergjaðs útsýnis yfir höfuðborgina og Reykjanesið. Síðasta kaflinn bíður um stund því ég er ekki jafn áræðinn og allar þær mömmur og ömmur sem geystust fram hjá mér og skoppuðu upp á topp eins og liprar fjallageitur. Ég tek ofan fyrir þessum glæsilegu freyjum sem skeiða upp fjallið án þess að blása úr nös!
Viðtakandi verkefni er að halda áfram þessu Esjubrölti og reyna þá að stytta ferðatímann ögn í hverri ferð. Alla jafna mun ég líklega mið við vegpunkt 4, enda er hann innan þægilegrar seilingar. En toppurinn er þarna og verður hann sigraður við gott tækifæri í góðra vina hópi!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 16. maí 2007
Kolviður
Ég kíkti rétt í þessu inn á vef Kolviðar, www.kolvidur.is. Þarna er að finna snjalla og þægilega leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki til þess að kolefnisjafna bifreiðar sínar þannig að notkun þeirra geti verið í góðri sátt við umhverfið.
Þetta er einfaldur og aðgengilegur vefur. Gestir gefa upp bílnúmer og áætlaðan akstur þeirra ökutækja sem þeir vilja kolefnisjafna og fá til baka áætlun um hversu mörg tré þarf að gróðursetja til þess að markmiðinu sé náð. Í mínu tilfelli eru það 39 tré sem gróðursett verða á Geitasandi á Suðurlandi. Svo er greitt með greiðslukorti og eftir það er ekið næsta árið í þeirri góðu vissu að búið sé að upphefja þá mengun sem viðkomandi ökutæki gefa frá sér.
Ég hvet alla til að kíkja á vef Kolviðs. Það eru traustir aðilar sem að verkefninu standa og er þeim vel treystandi til þess að inna þetta verkefni vel af hendi. Það er tilvalið að nota þjónustu Kolviðs sem tækifærisgjöf fyrir þá sem eiga allt (og þeir eru býsna margir hérlendis). Gefum kolefnisjöfnun í stað forgengilegra blóma, það er gjöf sem endist langa framtíð.
Það þarf svo ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt þetta er fyrir okkur sem íbúa jarðar og þá sér í lagi börnin okkar og barnabörn. Þau munu þurfa að bera byrðarnar í framtíðinni verði ekkert að gert.
Lífstíll | Breytt 20.5.2007 kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)