Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Tímamót hjá Framsókn ...

Ógnvænlegt og áhugavert verður að sjá hvaða háspilum Framsóknartvennan í Reykjavík muni spila út til þess að þjóna nýjum umbjóðendum sínum sem skriðu undan steinum rétt fyrir kosningar. Ljóst er að það var ekki flugvallarmálið sem kom tvíeykinu inn í Reykjavík, þar voru að verki mun dýpri og dekkri kenndir. Þetta sést t.d. á því að nokkrir öfgafyllstu og umdeildustu einstaklingar [1|2] samtímans fylktu sér á bak við sorglegan málstað Maddömunnar, kátir og hreifir.

En nú er Framsókn í Reykjavík komin með nýjan hóp viðskiptavina í kjölfar útspils sem formaður flokksins virðist samþykkja án fyrirvara. Þessi nýi hópur mun krefjast þess að Framsókn vinni fyrir kaupinu sínu og því mun flokkurinn, í Reykjavík altént, þurfa að hækka fordómatilboð sín jafnt og þétt. Það er einfaldlega bara úr svo djúpum brunni að ausa þegar fólk bægslast um í fordóma- og haturslauginni.

Það besta við þessi tímamót er þó það að nú hefur forysta flokksins val. Hún getur séð að sér og skipt yfir í manneskjulegri áherslur. Kjósendur myndu jafnvel fyrirgefa flokknum með tíð og tíma þann ljóta leik sem leikinn var í þeirri tapstöðu sem flokkurinn var kominn í hér í höfuðstaðnum. Þarna var drukknandi fólk að reyna hvað það gat til þess að halda pólitísku lífi og þótt engin reisn sé yfir bjargræðinu þá getum við flest okkar reynt að setja okkur í þeirra spor þótt við getum á engan hátt samþykkt útkomuna.

En velji Framsókn að halda áfram á þessari braut sem hún hefur nú opinberlega markað sér, hvort sem var í stundarbrjálæði taphræðslunnar eða með kaldri og hatursfullri yfirvegun, þá erum við sem þjóð í vondum málum.

Ísland fyrir Íslendinga? ... það kemur líklega í ljós!


Nokkur gullkorn úr stefnuskrá Kristna trúarbandalagsins

Jæja, það er gaman að sjá að Jón Valur hefur nú loksins staðið upp af koppnum, hysjað upp um sig brókina og tilkynnt um framboð sitt í öllum kosningum hérlendis sem í vændum eru nema auðvitað sveitarstjórnakosningunum eftir mánuð því hann hefur, jú, ekki haft nema 2-3 ár til þess undirbúa þetta. En dagljóst má telja að þessi þróttmikli einleikur á stjórnmálasviðinu myndi sópa að sér atkvæðum og myndi örugglega fá 50-100 hér í Reykjavík á góðum degi.

Ég gerði mér það til skemmtunar að fara í gegnum þá stefnuskrá Jóns Vals sem hengd var við frétt um framboðið á visir.is, en þar má margt misjafnt finna. Þar má finna nokkur skondin atriði eins og t.d. þetta gullkorn um trúfrelsi á Íslandi (áhugavert er að sjá að hinn sannkristni Moggi er ekki að flýta sér að birta þessa mikilvægu frétt):

Löghelgað verði í stjórnarskrá, að þrátt fyrir trúfrelsi á Íslandi njóti kristinn siður hér forgangs ...


Dagljóst er að kristinn siður mun auðvitað ekki eiga neinn uppdrátt hérlendis nema hann njóti forgangs á öllum sviðum. Auðvitað samræmist slíkt fullu trúfrelsi í heimi þeirra sem lifa nú síðustu góðu daga þess siðs. Við hin sjáum bara óttablandna ofsahræðslu í þessum orðum.

Svo kemur þessi sykurmoli um mál sem tengjast fjölskyldunni:

Fjölskyldumál  [Aths.: byrja skal hér á pósitífum áherzlum.]
Kristin stjórnmálasamtök hafna hjúskaparvígslu samkynhneigðra í kristnum kirkjum, þar sem hún gengur gegn orði Guðs og fyrirmælum frelsarans.
Kristin stjórnmálasamtök taka afstöðu gegn hinum fráleitlega kostnaðarsömu útgjöldum ríkisins til "kynbreytingar".

Ég get ekki einu sinni byrjað að ímynda mér hvers konar svartagallsraus hefði ratað inn í þennan hörmungakafla ef ekki hefði verið athugasemd þess efni að þarna skyldi teflt út pósitífum áherslum. En þetta ku allt vera afar jákvætt og dejligt í heimi sannkristinna. En manni hryllir við þeirri hugsun um hvernig þessi kafli hefði getað litið út ef Jón Valur hefði ekki áminnt sjálfan sig um að hafa hann á jákvæðu nótunum.

Svo kemur Jón Valur að einhverjum opinberum styrkveitingum til Samtakanna 78 sem miða að því að rétta af hallann sem verður til vegna fordómarauss hans og skoðanabræðra hans:

Bannað verði að opinbert fé sé notað til að kosta útsendingu fólks úr Samtökunum 78 eða öðrum slíkum samtökum til að hafa áhrif á afstöðu unglinga í kynferðismálum; foreldrafundir fái a.m.k. neitunarvald í þeim málum ...


Mig grunar að Jón Valur hafi nú ekki verið jafn snöggur til mótmæla og andstöðu þegar Gídeón-kónarnir seildust í ríkiskassann hér í denn og snöpuðu peninga, en það var allt önnur Ella, ægilega gagnkynhneigð, karlmannleg og innblásin Guðlegu testosteróni. Það er ekki sama hver á í hlut, Guðs útvaldir eða Guðs útkastaðir!

Um ríkiskerfið segir Jón Valur:

Ríkiskerfið
Fækka ber ríkisstarfsmönnum og draga úr rekstri óarðbærra ríkisstofnana; að leggja sumar þeirra niður kemur vel til greina, en fyrst ber að kanna, hve mjög þetta kerfi hefur þanizt út á síðustu áratugum og hvort eða hverju það hefur skilað, með hliðsjón af útgjöldunum.


Þeir rétti upp hönd sem sjá fyrir sér Ríkiskirkjuna þegar talað er um óarðbærar ríkisstofnanir! Það er gott að Jón Valur skuli sjá þessa matarholu í sparnaðarmálum og mun ég styðja hann með ráð og dáð í því að skera duglega niður í þeim óarðbæra bissniss (fyrir þjóðina, altént) sem rekstur Ríkiskirkjunnar er.

Í allri þessari upptalningarþulu saknaði ég þess að það gleymdist að telja upp það sem ætti að vera aðal baráttumál Kristilega stjórnmálaaflsins, nefnilega lögbindingu þeirrar heilögu skyldu Rúv að sýna þættina um Bibleman í öll mál. Það myndi sannarlega fá unga fólkið til þess að biðja um bláu bókina í skólanum :)

PS. Og hvernig er hægt að fullyrða að Jón Valur hafi einn haldið um fjaðurstafinn við samningu téðrar stefnuskrár? Jú, hin tilgerðarlega 'z' er fangamark hans, andlegu spörðin sem koma upp um kauða. Þeir sem nenna að plægja í gegnum þetta manifesto sjá að enginn annar hefur nennt að koma að samsetningu þess því zetan ríður þar þvers og kruss um héröð.


Tilraunin sem mistókst!

Æi, ef aðeins Ríkiskirkjan gæti varið stöðu sína í krafti þess að hún hefur um áratuga skeið verið styrkt um ótalda milljarða tugi í gjafafé, að hún hefur í gegnum tíðina fengið lungann af öllum nýfæddum börnum sjálfkrafa inn í félagatal sitt og að hún hefur um langt árabil haft greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum með boðskap sinn (hún hefur þó ekki viljað halda úti sömu þjónustu í framhalds- og háskólum, enda verra og leiðinlegra að eiga við fólk sem hefur sjálfstæða skoðun á söluvarningnum).

Hvað þarf meira til? Skylduskráningu í kristin trúfélög? Meira af seðlum? Fleiri kirkjur? Orð dagsins í Rúv kvölds, morgna, hádeginu, eftirmiðdaginn, með fyrra og seinna kaffinu og alls staðar þar á milli? Hvenær verður biskupi ljóst að þessi tilraun hefur fyrir löngu mistekist? Að Ríkiskirkjan er 10-20% trúfélag, ekki 70-90%? Að hún er að lognast út af sem sýnir sig í því að kirkjugestir eru almennt gamlir og gráhærðir (nema um þessar mundir þegar fermingarbörnin eru að ná í gjafirnar sínar) og valfrjáls nýliðun yngra fólks er gjörsamlega að mistakast þrátt fyrir t.d. ríkisskráningu við fæðingu? Í vefslóðinni hér undir sést hin raunverulega ásýnd Ríkiskirkjunnar, gömul og grá:

Lestur Passíusálma í Hallgrímskirkju: http://bit.ly/1hXkTqN

Biskup sjálfur hefur t.d. ekki nokkra einustu trú á því að sauðir hans muni í krafti trúarhitans borga sóknargjöld af fúsum og frjálsum vilja eins og kemur fram í bréfi til Alþingis árið 2002 þar sem hann segir m.a.:

"Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega árhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir þvi hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun."

Bréfið: http://bit.ly/1ji4hFF

Vonandi hætta forkólfar Ríkiskirkjunnar þessu sífellda sífri um að enginn vilji kaupa það sem þeir selja. Það er leiðinleg sölumennska og gerir fyrst og fremst lítið úr vörunni.

Gleðilega páska! :)
mbl.is Trúnni sópað undir teppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkan glymur kaþólskunni ...

Ánægjulegt er að sjá að hinn almenni kaþólikki gengur í berhögg við fordómafullar kenningar kirkjunnar í þeim hluta heimsins sem fengið hefur að njóta ávaxta upplýsingar og velmegunar. Þar hafnar þessi dæmigerði kaþólikki fordómum kaþólskunnar með hegðun sinni og villuskoðunum. Þetta kemur fram nýlega þegar 12 þúsund meintir kaþólikkar í 12 löndum voru spurðir um viðhorf sín til ýmissa lykilmála sem ógna allsherjarreglu og almennu siðferði eins og t.d. notkun smokksins. Þar sem menntunarstig er hærra hafnar fólk þessum bábiljum, en þar sem það er lægra umfaðmar fólk fordómana. Þannig kemur t.d. ekki á óvart að síðasta vígi kaþólskunnar er að finna í Afríku sem á um nokkurn veg að fara uns hún kemst að sömu niðurstöðu og heimsálfur sem geta boðið borgurum sínum betra hlutskipti.

Ég hvet alla áhugasama til þess að smella á krækjuna hér ofar og kynna sér niðurstöður könnunarinnar. Heilt yfir er þetta gleðileg og skemmtileg lesning, sérstaklega fyrir þá sem unna almennri heilbrigðri skynsemi og vilja sjá fordóma og kreddur á bak og burt.


Rangur maður á sakamannabekk

Þessi yfirheyrsla var löngu tímabær og illt er að höfuðpaurinn sjálfur, Ratzinger páfi, hafði náð að læðast burt af sviðinu því hans sök er mikil í þessu máli. Vonandi verður kauði kallaður fyrir nefndina og látin standa skil á ljótum gjörðum sínum! Þá er ljóst að í tíð forvera Ratzinger áttu sér stóð vond myrkraverk, en sá kall er nú horfinn og mun því ekki þurfa að sitja á sakamannabekk.
mbl.is „Ekkert umburðarlyndi“ segir páfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum klukkan glymur ...

Trúarskráning 1998-2013Enn og aftur meitlast utan af höfuðkirkju Íslendinga, þeirri kirkju sem misfyndnir segja þá sem þjóðin fylkir sér um. Þegar þessi frétt er lesin er gott að hafa í huga að þetta er líklega flest fólk sem var skráð í Ríkiskirkjuna við fæðingu og hefur aldrei með einum eða öðrum hætti orðið vart við þá skráningu enda hefur það aldrei verið spurt um þann gjörning eftir að það komst til vits og ára. Svo er gott að hyggja að því að þetta fólk hefur engan fjárhagslegan ávinning af þessari leiðréttingu á kolröngum staðtölum. Ríkiskirkjan skaddast hins vegar nokkuð fjárhagslega og þess vegna sér hún mikið eftir þessum villuráfandi sauðum sem nú hættir sér út á það andlega berangur sem fylgir skráningu utan trúfélaga.

En fyrir mitt leyti óska ég þessu fólki til hamingju með að hafa tekið afstöðu. Þær óskir mínar ná einnig til þeirra hundrað sem skráðu sig í Ríkiskirkjuna, að því gefnu að sú ákvörðun hafi verið upplýst og meðvituð sem er ekki gefin forsenda þegar kemur að skráningu í Ríkiskirkjuna, því þeir hafa bersýnilega velt sinni trúarvitund fyrir sér og fundið sér stað innan vébanda hennar. Vel gert!

Alltaf verður skýrara og skýrara að nú flæðir undan Ríkiskirkjunni og ríkisstyrktri trú þrátt fyrir allan ríkisstyrkinn! Helsta hald hennar nú er skráning hvítvoðunga í trúfélag, sem hún græðir mest á, trúboð í gegnum skólakerfið og ríkisstyrkur þegar kemur að trúartollinum því afar fáir myndu borga hann sjálfviljugir.

Og svo er einnig skemmtilegt að rangar staðtölur verða ögn réttari við þetta og þannig kvarnast utan af þeirri flökkusögu að 76% þjóðarinnar játi kristna trú :) sem er gott. Enginn vill rangar staðtölur svo allir geta unað sáttir við. 


mbl.is Eitt þúsund manns gengu úr þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg grein á bleikt.is

Þessi grein fer víða hérlendis um þessar mundir enda fjallar hún um átakanlega og sorglega atburðarás. Að mínu mati er álíka átakanlegt og sorglegt að orsakavaldinum, guði kristinna, er gert afar hátt undir höfði í þessum pistli og það algjörlega óverðskuldað því það var hann sem skapaði þetta vandamál í byrjun.

Það var guð kristinna sem lagði fyrir foreldrana að taka syni þeirra ekki eins og hann var. Það var guð kristinna sem sagði að sonurinn myndi ekki komast inn í himnaríki að öllu óbreyttu, að tilfinningar hans gerðu hann á einhvern hátt óverðugan. Það var guð kristinna sem notaði orðið 'viðurstyggð' yfir hátterni sonarins og litaði þannig hugi trúuðu foreldranna svo mikið að þau þurftu að hugsa sig um í langan tíma áður en þau, með semingi, tóku soninn í sátt.

Eitt það sorglegasta í þessu öllu saman er að í niðurlagi pistilsins kemur fram að foreldrarnir biðji til guðs kristinna um miskunn og fyrirgefningu, en af hverju ætti hann að miskunna þeim og fyrirgefa? Þau fóru eftir orði hans, þau litu á son sinn sem syndugan kynvilling og útskúfuðu hann í langan tíma með einum eða öðrum hætti. Í augum guðs kristinna gerðu þau allt rétt.

Þessi grein er því nokkuð hættuleg að mínu mati því í henni er ekki bent á hinn brotlega í málinu, þann sem syndavæddi eðlilegar tilfinningar sonarins og tærði með boðum sínum og bældi þá hlýju sem hann átti að fá frá foreldrum sínum. Fordómar gegn samkynhneigð eru nefnilega heimatilbúnir. Í dýraríkinu eru til fjölmargar dýrategundir sem hafa þessar kenndir, en aðeins einni þeirra er kennt að hatast út í þær og allir vita hver stendur þar að baki! Þeim aðila ber ekki að þakka fyrir neitt í þessu samhengi, það er óverðskuldað, nema auðvitað við viljum halda í þessa ljótu og meiðandi fordóma, þá ber að þakka margfalt! Myndum við þakka manni fyrir að búa um brotinn fótlegg ef það var hann sem vísvitandi braut hann? Myndum við þakka einhverjum fyrir að bjarga okkur frá drukknun bara af því að honum mistókst að drekkja okkur? Myndum við þakka brennuvargnum fyrir að slökkva bálið þegar húsið er brunarústir einar? Nei, það myndum við ekki gera og ég bið lesendur um að hafa það í huga við lestur pistilsins því þá sjá þeir að hinn brotlegi er allt í einu orðinn hetjan í handritinu.

Hafa skal það sem réttara reynist.

Svona í lokin, lesið eftirfarandi vers eins og þau eru skrifuð. Afsökunarmenn reyna að snúa út úr þessum skýra texta, sem ku vera innblásinn anda guðs kristinna, með því að tala um lélegar þýðingar, ólíka merkingu orða í frumritum o.s.frv. Dæmi hver fyrir sig.

- http://www.snerpa.is/net/biblia/mose-3.htm vers 18:22
- http://www.snerpa.is/net/biblia/kor-1.htm vers 6:9
- http://www.snerpa.is/net/biblia/rom.htm vers 1:26-27

PS. Rétt er að halda því til haga að þessir fordómar, sem stundum eru banvænir eins og dæmin sanna, koma bæði úr Gamla og Nýja testamentinu.


Leikskólabörn heimsækja kirkju

Á tímum sífellt meira gránandi kirkjusauða er það auðvitað stórkostlegt fréttaefni þegar börn heimsækja kirkju. Þetta eru reyndar leikskólabörn sem áttu líklega ekki frumkvæðið að þessari heimsókn, en þau fóru samt engu að síður. Kirkjan hlýtur að fagna þessu því þarna er markhópurinn, agnar lítil börn sem hafa ekki vitsmuni eða þroska til þess að meta tilboð kirkjunnar og boðskap hennar. Þetta er auðvitað besti hópurinn til þess að hafa á bekkjunum.

En til hamingju, kirkja, það komu börn í heimsókn sem virðist svo furðulegt og skrýtið að það ratar í Moggann sem frétt!

PS. En er samt ekki skondið að mamman í fréttinni virðist ekki hafa drifið í þessari heimsókn fyrr en ljóst var að leikskólinn myndi ekki sjá um þennan þátt trúaruppeldisins fyrir hana? Þetta virðist nokkuð dæmigert fyrir 'sannkristna' foreldra hérlendis, þeir treysta flestir á það að ríki og sveitarfélög sjái um innlagningu trúarinnar í börnin ... svona eins og Jesús vildi hafa það.


mbl.is Leikskólabörn fóru í kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrattinn og amman

Stundum er grátlega leiðinlegt að geta ekki 'lækað' einstakar athugasemdir við bloggfærslur hér. Aldrei hef ég þó fundið jafn illilega fyrir þessu eins og þegar ég las færsluna Af refsingum á miðöldum og úti í Afríku þar sem amman tók hús á skrattanum í athugasemdakerfinu.

Þetta er of gott til þess að láta það fram hjá sér fara!

PS. Ritningargreinin sem vísað er til er í 3. Mósebók 20:15 ... hún er umlukin öðrum miðaldargullkornum á báða bóga, hverju öðru kjánalegra.


Hvað gerir ráðherra sjálfur?

Auðvitað er fyrirsjáanlegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tali mærðarlega til fulltrúa Ríkiskirkjunnar á Kirkjuþingi, það gera allir almennilegir stjórnmálamenn sem vita hvað til síns friðar heyrir. Hún er væntanlega að bera í bætifláka fyrir það að landsfundur flokksins hafnaði kristilegum gildum um daginn, en þá hentaði ekki að hafa þessi úrvals gildi sem mælistiku á rétt og rangt.

En hún vill að ríkið herði róðurinn í innsetningu trúar í hugi lítilla barna og í framhaldi af því væri áhugavert að sjá hvers konar trúarlífi innanríkisráðherra lifir með sínum börnum. Fer hún reglulega með þau í kirkju? Lætur hún þau fara með bænir reglulega? Ræðir hún trúmál við þau? Kannar hún hug þeirra til annarra trúarbragða? Segir hún þeim skemmtilegar dæmisögur úr Biblíunni, t.d. söguna um það þegar Guð drekkti nær öllum á jörðinni í syndaflóðinu, líka börnum og kettlingum? Fer hún með þau í sunnudagaskóla? Lætur hún þau biðja borðbænir? Lætur hún þau jesúsa sig þegar einhver hnerrar? Þetta eru eðlilegar og sjálfsagðar spurningar til stjórnmálamanns og ráðherra sem vill efla og treysta ríkisforsjá í málaflokki sem er líklega sá sem er best til þess fallinn að vera án afskipta ríkisins. Svo vitnað sé í orð Jesúss sjálfs þá eiga kristnir menn bara að vera heima hjá sér, lokaðir einir inni í herbergi, þegar þeir nálgast guð sinn. Í besta falli þarf að treysta húsnæðislánakerfið og leigumarkað til þess að fólk geti farið eftir þessum fyrirmælum.

Ég efast reyndar ekki um vilja innanríkisráðherra í þessum efnum, en mér þætti þó gaman og áhugavert að sjá hennar framlag til innsetningar á trú í hugi barna sinna, þ.e. innsetningu á þeirri barnatrú sem ráðherra telur svo frábæra og sanngjarnt að lesa inn í hugi barna sem hafa ekki vitsmunalegar forsendur til þess að vega og meta á eigin verðleikum. Það væri nefnilega nokkuð skondið ef hún ætlar sér að treysta alfarið á ríkið í þeim efnum!


mbl.is Ráðherrar virði mannréttindi allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband