Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Flóttinn heldur áfram ...

... en hvernig væri þetta ef fólk hefði af því fjárhagslegan ávinning að segja sig úr Ríkiskirkjunni? Látum fyrri biskup svara þeirri spurningu:

"... munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda þá árlegu fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ.á.m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun."

Jæja, fækkun um eitt prósentustig árlega er líklega bara það besta sem gefst :)


mbl.is Fækkar enn í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskirkjan er ríkiskirkja

Leitt er að sjá spámann, stofnanda, formann, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og (næstum því) eina félagsmann Kristilega framboðsbræðingsins fara með rangt mál og það vísvitandi. Veit hann ekki af því að á himnum ku vera yfirnáttúrulega súpervera sem heldur utan um svona syndir og neitar fólki um inngöngu í óðalssetur sitt ef nægilega mikið fleipur safnast saman?

Þannig fer spámaðurinn með ægilega mikið rangt mál þegar hann geysist fram á ritvöllinn á einum af fjölmörgum bloggvefjum hans (lágmark sjö talsins) undir yfirskriftinni 'Þjóðkirkjan er ekki "ríkiskirkja"'. Það er í eftirfarandi tveimur meginatriðum sem spámanninum verður helst fótaskortur á sannleiksbrautinni:

Einhverjir kunna nú að spyrja hvers vegna þessi leiðrétting á ranghugmyndum spámannsins sé ekki hnýtt við upphaflega grein hans. Skýringin er einföld og er hún sú að spámaðurinn hefur hreinlega lokað á alla þá sem reynt hafa að leiðrétta rausið í honum í gegnum tíðina og iðulega rekið hann á pínlegt gat. Spámanninum finnst nefnilega best að lifa eins og Guðslastslögin verndi hann líka og býr sér því til þennan undarlega veruleika með því að útiloka alla þá sem veita honum minnstu viðspyrnu.

PS. Þeir sem vilja kynna sér betur ömurlegustu, og um leið stórkostlegustu, eymingjagjöf sem þekkist í sögu lands og þjóðar ættu að kynna sér frábæra greinaröð Brynjólfs Þorvarðarsonar. Hún segir allt sem segja þarf um hve vondur og óskiljanlegur gjörningur jarðakaupasamningur ríkis og Ríkiskirkju raunverulega er.


Fyrirsjáanleg og gleðileg þróun

Þrátt fyrir alla þá meðgjöf sem Ríkiskirkjan fær þá molnar stöðugt undan henni. Hún fær meginþorra barna sjálfkrafa skráð í félagatal sitt við fæðingu, algjörlega óverðskuldað, en samt fækkar börnunum sem henni eru eignuð.

Ekki er hægt að segja að grunnskólabörn séu trúuð eða trúlaus því þau hafa engar forsendur til þess að taka upplýsta ákvörðun um málið. Ef þetta er raunin, þá finnast að sama skapi mörg Sjálfstæðis- og Samfylkingarbörn í þeirra röðum, en fá Framsóknar, en það er nú bara kjánalegt því enginn heilvita maður gerir ráð fyrir því að börn tileinki sér sjálfkrafa stjórnmálaskoðanir foreldra sinna. Afstaða til trúar virðist þó vera það léttvæg að rétttrúuðum og hagsmunaaðilum finnst sjálfsagt að ætla að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar og teljist þannig trúa því sama og hún (en í raun er hún sama marki brennd og þau því áður fór hún í gegnum sömu hringekjuna). Þeim er ekki einu sinni treyst til þess að meta hvað þau geti verið lengi úti. Þau fæðast trúlaus og trúa svo í raun bara því sem fyrir þeim er haft.

Trúarskoðanaskráning ríkisins er svo sér kapítuli út af fyrir sig, enda ótrúlega sorglegt að í nútíma samfélagi haldi það Orwellska skrá um meintar lífsskoðanir fólks. Persónulega þætti mér nytsamara að halda registu yfir hvort fólk hafi gaman af Starcraft eða ekki.

En þetta er víst það sem þarf til þess að lengja líftíma Ríkiskirkjunnar. Skrá börn sjálfkrafa í trúfélög, keyra þau á skólatíma í bænahald í kirkjum af því þau kjósa frekar barnaefni í sjónvarpi, smala þeim í ferminguna, afhenda Nýja testamentið í skólanum o.s.frv. Ég tel eðlilegt næsta skref í þessum efnum vera að lögbinda hreinlega það að allir Íslendingar játi trú Ríkiskirkjunnar svo hægt sé að hætta þessum kjánalega skollaleik. Það er heiðarlegra og mun skilvirkara því þá komast sauðirnir ekki upp með að hafa skoðun á málinu og jafnvel segja sig frá apparatinu þegar þeir hafa aldur og skynsemi til. Þá sparar það stórar fjárhæðir í rútukostnaði.

Amen eftir efninu!


mbl.is Fimmtungur skólabarna utan kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfs árs uppgjör Kristilega þjóðarbandalagsins

Nú eru réttir sjö mánuðir síðan Kristilega þjóðarbrotið geystist fram á völlinn og tilkynnti með miklu írafári að loksins væri biðin á enda. Jón Valur og nafnlausu postularnir hans tólf hefðu loksins hrist af sér slyðruna og slenið og tilkynnt um formlega stofnun hinna einu sönnu kristilegu stjórnmálasamtaka hérlendis eftir margra ára þrotlausan undirbúning myrkranna á milli.

Mikið væri nú gaman að fá yfirlit yfir gengi þessara þróttmiklu samtaka á þessum tíma sem liðinn er, en miðað við gegndarlausan áhuga íslensku þjóðarinnar á málefnum samtakanna ætti þeim nú að hafa vaxið fiskur um hrygg og félagatalið bólgnað hraustlega. Ég giska á að í samtökunum hljóti nú að vera í kringum 10-15 þúsund manns sé tekið mið af þeirri eftirvæntingu sem ríkti eftir útspili þeirra á sínum tíma. Því vona ég að samtökin upplýsi nú um hvernig mál hafa skipast þar á bæ og hvort bölbænir þjóðarinnar og afneitun Ríkiskirkjunnar hafi nokkuð haft teljandi áhrif.

Það er líklega nokkur ósigur ef fjöldi félaga nær ekki að fylla 10 þúsund, en óhugsandi er að hann sé minni en 5 þúsund, slíkt væri eiginlega hálfgert rothögg fyrir þessi elskulegu samtök sem þjóðin hefur beinlínis beðið eftir.

Ég þori varla að hugsa til þess hve sárt það væri fyrir málstaðinn ef félagatalan næði ekki 3 þúsund sálum, sem er reyndar alveg óhugsandi. En samt, það gæti auðvitað gerst í þjóðfélagi sem hefur fjarlægst gildi Jóns Vals og harðlínustefnu í hinum ýmsu málum. En 3 þúsund? Nei, fjárinn hafi það.

En fyrst maður er byrjaður að fabúlera, þá er auðvitað áhugavert að velta því fyrir sér hvers konar niðurlæging fælist í því ef félagatalið næði ekki þúsund sauðum. Þetta er auðvitað óhugsandi, en samt. Þúsund? Hmmm.

Færri en fimm hundruð? Er það raunverulega möguleiki? Getur það verið að félagatal Kristilega örflokksins telji innan við fimm hundruð? Það er, jú, handhafi sannleikans og umboðsaðili hinn sönnu kristilegu gilda hérlendis. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekkert með þau hafa og því eru samtök Jóns Vals síðasta vígi hinna réttsýnu. Þeir hljóta að vera fleiri en fimm hundruð!

Og þá er það möguleikinn sem við þorum varla að nefna, en nefnum hann þó samt. Hvað ef sauðirnir eru færri en hundrað? Eigum við orð til þess að lýsa því? Nei, engin!

En sá möguleiki er þó eftir að félagatalan hafi lítið sem ekkert breyst. Ef svo væri, sem er alls ekki og í raun óhugsandi, þá væri ljóst að þjóðin hefur gjörsamlega hafnað tilboði Jóns Vals og öllum hans málflutningi. En auðvitað hefur hún ekki gert það, henni er jafn illa við homma og allt hommalegt og honum. Þetta er því ekki í myndinni.

Jæja, ég hef aðeins reifað stöðuna og farið yfir nokkra fjarstæðukennda kosti í henni. Ég hlakka til að sjá hvoru megin 15 þúsund talsins félagatalið liggur, enda hlýtur 6-7 ára undirbúningur að bera ríkulegan ávöxt. Því bíð ég spenntur eftir hálfs árs uppgjörs hins eina sanna kristilega framboðs hérlendis þar sem uppskeran verður kynnt í löngu máli.

Lifið heil.


Áhugaverð lestur úr Biblíunni

Ég bendi á áhugaverða pistla frá Illuga Jökulssyni sem hann flutti nýverið á Rás 1.

Því miður er takmarkaður birtingartími á vefnum og því hvet ég áhugasama til þess að njóta hið fyrsta.

Góðar stundir.


Þetta gengur ekki upp!

Rúmlega fimm þúsund manns, mest aldrað fólk, bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum, sumir hverjir í rúmlega 500 daga og samt eru til extra peningar fyrir Ríkiskirkjuna. Þessi gjafmilda og eymingjagóða nefnd vill ausa fé í hundraða milljóna vís í Ríkiskirkjuna. Þegar slíkar niðurstöður eru bornar á torg hlýtur maður að reikna með því að þessi alvöru verkefni ríkisins, þessi verkefni sem skipta einhverju máli, séu þegar full fjármögnuð. En þegar um fimm þúsund manns bíða eftir aðgerðum og ráðamenn kjósa að ausa meira fé í trúarpyttinn, þá er ljóst að forgangsröðunin er röng. Vera má að hlutaðeigandi séu með þessu að tryggja sér betri vist í handanlífinu, en dagljóst má telja að þau gæði gagnast þessum fimm þúsund lítt.

Eitthvað stemmir ekki í þessari jöfnu.


mbl.is Yfir 5.000 bíða eftir aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hreppir hnossið?

Nú þegar bænakvakið eftirsótta fær ekki lengur inni í Rúv þá hlýtur spurningin að vera hvaða útvarpsstöð önnur hreppir þetta hnoss? M.v. þá miklu eftirspurn sem kristnir nefna í kvörtunarpistlum sínum ætti ekki að vera erfitt að finna kvakinu annað heimili á öldum ljósvakans. Aðrar stöðvar hljóta því að standa í langri röð og biðja blíðlega um að fá að útvarpa þessum vinsælum dagskrárliðum.

En svo má auðvitað alltaf biðja fyrir endurkomu kvaksins á Rúv :) bænin er, jú, öruggasta leiðin til þess að ná sínu fram. 


mbl.is Orði kvöldsins og Morgunbæn hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum því eins og kristnitakan hérlendis

Líkindin á milli þessarar frásagnar og 'fallegu' sögunnar af því hvernig Íslendingar voru neyddir til þess að taka upp kristna trú eru sláandi mikil. Í báðum tilfellum er fólkinu gefið það 'frjálsa' val að taka upp nýjan sið eða deyja ella sem auðvitað verða seint taldir jafn góðir kostir.

Leitt er að sjá þessa endurgerð hryllingssögunnar um norsku biskupana Friðrek og Þangbrand, en sá síðarnefndi fór með ofbeldi um Ísland í viðleitni sinni til þess véla og neyða landsmenn til þess að láta af meintum barbarisma. Þrátt fyrir hernaðarlega yfirburði náði Þangbrandur þó ekki betri árangri en svo að fáir þáðu tilboð hans og einhverjir 'kusu' frekar að deyja og sækja sinn rétt í Valhöll frekar en að selja sig undir vald og pínu þess guðs sem Brandur bauð. Eftir að hafa skrönglast um landið um nokkra hríð lyppaðist hann aftur til Noregs og lýsti þeirri skoðun sinni fyrir Ólafi konungi blátönn að Íslendingar myndu líklega ekki láta segjast sem auðvitað pirraði nafna minn umtalsvart, enda metnaðarfullur mjög. Svo hefur nú kannski spilið inn í að elska guðs hans er auðvitað afar skilyrt og því hefur blátönnin talið öruggast að tryggja sér handanvist með afgerandi hætti. Hann hneppti því nokkra syni íslenskra höfðingja í gíslingu og sendi aftur sveit manna hingað til þess að reka kristniboðið ofan í kokið á Íslendingum með góðu eða illu.

Skemmst er frá því að segja að Íslendingar tóku upp þennan nýja sið með í augum glýjuglampann sem stafaði frá nýfægðum norskum sverðum og spjótum, en kristnu sölu- og ofbeldismennirnir þurftu þó m.a. að slá af fyrstu meginkröfu boðorðanna sem er krafa hins óörugga guðs um að enginn skuli aðra guði hafa. Já!, Íslendingar fengu s.s. formlega undanþágu frá fyrsta boðorðinu sem sýnir hversu brátt norskum sölumönnum trúarlegu snákaolíunnar var orðið í brók því ef eitthvað er þá ætti þetta ákveðna boðorð að vera það síðasta sem tekið væri út af borðinu, en raunin varð sú að það var það fyrsta sem fauk. Þessir norsarar voru bersýnilega miklir prinsippmenn!

Já, það er nöturlegt að sjá söguna endurtaka sig í austrinu því hún er ljót og helsti boðskapur hennar er sá að hægt er að koma jafnvel versta málstað fyrir borð með næglega miklum yfirgangi og sannfærandi hótunum um dauða og limlestingar.

PS. Skyldi þessi frásögn af vösku trúarsölumönnunum eystra verða fléttuð inn í trúfræðilega kennslu í grunnskólum til þess að sýna hvernig sagan endurtekur sig? Það er auðvitað sumpart áhugavert fyrir litlu krílin að geta fylgst með þessari framvindu í rauntíma, en fyrst og fremst grunar mig þó að þau muni helst fyllast sorg vegna framvindunnar hérlendis fyrir rúmlega 1000 árum síðan ef atburðirnir í austrinu eru rétt útskýrðir fyrir þeim.


mbl.is Reka kristna menn frá Mosul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmlega 400 manns segja sig úr Ríkiskirkjunni

Þetta hlýtur að vera forstjórum Ríkiskirkjunnar mikið áhyggjuefni því svona fréttir hafa sést reglulega á þriggja mánaða fresti í fjölmiðlum um langt árabil. Hún rétt nær að halda sjó hvað fjölda sauða varðar þrátt fyrir töluverða fjölgun Íslendinga á tímabilinu og þrátt fyrir að nýfæddu Guðsblessuðu börnin eru langlanglangflest vélskráð í hana við fæðingu. Sérhver þenkjandi maður sér það í hendi sér að ríkisskráning hvítvoðunga er það eina sem heldur einhverju lífi í sauðatali Ríkiskirkjunnar og skal því engan undra að Ríkiskirkjan stendur grimman vörð um þessa vélskráningu, enda er hún líklega algjörlega í samræmi við það sem Jesús Jósepsson lagði fyrir á sínum tíma.

En þetta þokast í rétta átt, hægt og bítandi :)


mbl.is Nærri fimm hundruð úr Þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólabörn mega alls ekki fá Nýja testamentið

Eldur og brennisteinnEymingja skólabörnin í Reykjavík, öll sem eitt hreinlega sólgin í Nýja testamentið, glíma við óyfirstíganlegar hindranir í árangurslausri leit sinni að Bláu bókinni. Það er nefnilega þannig að settar hafa verið margvíslegar óyfirstíganlegar hindranir í veg þeirra sem gera það að verkum að algjörlega er vonlaust fyrir litlu afhelguðu og trúlausu krílin að nálgast Bláa kverið sem er auðvitað forsendan fyrir því að Guð almáttugur, sem virðist þó ekki eiga roð í Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, finni leið að trúarsneyddum hjörtum þeirra.

Ef aðeins það væri hægt að nálgast Bláa kveðlinginn með öðrum hætti en í gegnum trúboð í skólum. Ég sé fyrir mér heim þar sem trúarsvelt skólabörn geta farið í bókabúð og keypt Bláu skáldsöguna (sem er auðvitað fráleitt mál í sjálfu sér, að börnin myndu vilja borga fyrir þetta), flett henni upp á Internetinu eða lagt leið sína til ríkisstyrktra félagasamtaka á borð við Gídéónístana og fengið fabúlasjónina þar ókeypis (með ríkisstyrk, auðvitað).

Nei, trúlaus skólabörnin í Reykjavík eiga ekki örugga vist vísa í handanlífinu á meðan ríkisstyrktum Gídéónístum er meinað að stunda trúboð sitt á fengsælustu miðunum, í grunnskólanum þar sem börnunum er uppálagt að trúa öllu því sem þeim sem sagt. Þetta eru metnaðarfullir veiðimenn sem þarna fara um, en standa nú frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum í starfi sínu fyrir almáttugan Guð sem þó má sín einskís gagnvart Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar eins og áður kom fram. Þó mun þessi Guð einhvern tíma hafa látið rigna eldi og brennisteini yfir saklaust fólk fyrir minni sakir þannig að honum virðist ekki finnast þetta stórmál og ef honum er slétt sama, gæjanum sem getur farið sínu fram með eldi og brennisteini, hvað eru aðrir þá að pípa?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband