Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

150 milljóna króna smölunarleiðangur Ríkiskirkjunnar

Ríkiskirkjan nagar nú skjaldarrendur og heitir því að fjölga í sauðatali sínu með öllum ráðum. Ekki virðist duga að fá flest nýfædd börn 'gefins' inn á félagatalið fyrir tilstuðlan ríkisins því í fjöldatölum rétt nær hún að halda sjó, en gefur eftir hlutfallslega eftir því sem Íslendingum fjölgar.

Íslendingar eru nefnilega svo vitlausir að ótilneyddir taka þeir ekki við boðskap kirkjunnar. Ótilneyddir borguðu þeir ekki félagsgjöldin, ótilneyddir skrá þeir sig ekki í félagatal hennar, ótilneyddir fara fæstir í kirkju, ótilneyddir fræða fæstir börn sín um kristni og ótilneyddir biðja fæstir bænirnar sínar reglulega.

Eitthvað er stórkostlega mikið að og það veit nefndin þegar hún segir: "Verði ekki brugðist við er líklegt að þróun til fækkunar í þjóðkirkjunni haldi áfram næsta áratug og sígi niður undir 60% af mannfjöldanum eins og virðist stefna í víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum." Hún mun reyndar fara miklu neðar en það, en á meðan nýfæddum börnum er raðað í jötuna gerist það bara hægt.

En í stað þess að skoða vöruna, fyrirbærið sem fólk er að hafna, og kanna hvort hún eigi yfir höfuð erindi við þjóðina sem hafnar henni verður farið í fáránlega dýra markaðssókn fyrir Guð, Jésús og heilagan anda hérlendis. Eins og segir í skýrslu útbreiðslunefndar eru tækifærin fjölmörg:

Mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyrir enn Ríkiskirkjunni
Já, gögn Þjóðskrár sýna eitt falsaðasta félagstal sem fyrirfinnst í heiminum, en það er grundvallað á því að ríkið hefur í gegnum tíðina skráð nokkurra daga börn í trúfélög. Þeir sem gera sér slíkar trakteringar að góðu er lítilþægasta og metnaðarminnsta fólk sem fyrirfinnst.

Trú á Guð er enn almenn (yfir 70%)
Nýleg könnun Gallup sýnir að 51% þjóðarinnar telur sig trúað og þá ekki bara á gamla Guð. Miðað við þessa könnun eru kristnir komnir í minnihluta þjóðarinnar.

Meirihluti telur enn að trú sé mikilvæg í lífi sínu
Þetta er stórmerkilegt því hvar er þá þetta fólk? Ekki mætir það í kirkju, ekki biður það bænirnar sínar og ekki vill það borga trúartollinn. Þetta er eins og að segjast vera harður aðdáandi Liverpool en horfa aldrei á leik, eiga ekki treyju, spila ekki FIFA 2015 og þekkja ekki leikmennina.

Meirihlutinn lætur fermast
Krakkarnir græða stórt á því að fermast, nóg um það sagt :)

Mikil meirihluti telur enn að kirkjulegar athafnir við fæðingu og dauða séu mikilvægar
Gaman væri að sjá gögn þess efnis, þau eru ekki birt í skýrslunni. Mig grunar þó að fólk telji mikilvægt að fagna nýjum einstaklingum og kveðja á gömlu. Sjá betur næsta lið.

Skírnin er almenn og mikil þáttaka er í útfararþjónustu kirkjunnar
Að sama skapi má benda á fánýti trúarinnar með því að benda á þá staðreynd að í veraldlegum athöfnum mætir jafn mikið af fólki, enda fer fólk í þessar athafnir til þess að fagna nýjum einstaklingi eða kveðja brottfarinn. Þetta veit nefndin vel þegar hún segir að "fáir stunda 'persónubundna kirkjusókn'", þ.e. að fáir fari í kirkju fyrir sig.

Áhugavert verður að sjá hvernig þessi stórsókn Ríkiskirkjunar fer. Hún vill fara inn í skólana skv. skýrslunni, enda eru gjöfulustu miðin þar. Og til áréttingar þá er ekki verið að tala um framhalds- og háskóla. Nei, þar er fólk orðið of upplýst og gagnrýnið. Leik- og grunnskólarnir gefa best því þar þurfa áheyrendur að þegja að meðtaka allt sem fyrir þá er lagt sem, hmmm, heilögum sannleik.

Getum við ekki þó verið sammála um að ef hún klikkar er orðið dagljóst að Íslendingar vilja þetta ekki og ef hún lukkast bara pínulítið að slíkur árangur sé of dýru verði keyptur?

En ljóst er að nefndin telur framtíðina dökka því í skýrslunni segir: "Starfshópurinn telur að það liggi beint við að kirkjan vinni út frá þeim styrkleika sem felst í þessari stöðu á meðan hún er fyrir hendi." Já, hún hefur ekki mikla trú á því að núverandi staða mun halda og því þurfi að reiða til höggs á meðan þetta er þó svo gott því þetta er eins gott að það verður.

PS. Mér líst vel á þetta sem nefndin segir: "Haldinn verði einn stór viðburður á hverju ári sem með einhverjum hætti er táknrænn fyrir starfið og tengist áhersluatriði þess árs." Er ekki til skipulag frá árinu 2000 sem er í raun alveg ónotað?


Brandari gærdagsins

"Ef farið væri í mál við þjóðkirkjuna þá kæmi það í ljós að hún hefur barist fyrir réttindum samkynhneigðra og er þar í fararbroddi."
# Gísli Gunnarsson, fulltrúi vígðra í kirkjuráði, árið 2015.

"Hjónabandið á það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana."
# Karl Sigurbjörnsson, þáverandi biskup Ríkiskirkjunnar, árið 2006.

Ekki myndi ég fá Ríkiskirkjuna til þess að berjast fyrir mig ef þetta er það sem hún gerir þegar hún er í fararbroddi.

Er ekki kominn tími á leiðréttingu á trúfélagaskráningu einhvers staðar?

 


Leyfum Gideonistum að heimsækja grunnskólana

Hin þróttmiklu stjórnmálasamtök, Íslenskir krossmenn, sendu frá sér álit um daginn í hverju talað var um að leyfa ætti Gideonistum að fara með trúboð sitt í leik- og grunnskóla. Krossmennirnir gerðu reyndar enga kröfu um að leyfilegt yrði að fara í framhalds- og háskóla því þar eru sauðirnir ekki eins meðfærilegir, en það er annað mál.

Ég er því sammála að hleypa eigi Gideonistum í skólana og mega þeir þá hafa með sér gítar og spila og tralla með krökkunum. Þeir mega segja að Jesús sé besti vinur barnanna og að án hans lifi börnin innantómu og holu lífi. Þeir mega segja að án Jesúss muni þeim ekki farnast vel í handanlífinu, en með Jesús sér við hlið muni þau eiga eilífðarvist á himnum með liðsmönnum Kristilega krossfestingarbandalagsins undir glymjandi harmonikkuspili allan daginn, alla daga.

Það eina sem þeir geta ekki gert er að afhenda bláa kverið, en þess í stað mega þeir afhenda gjafabréf á hverju stendur að handhafi bréfsins eigi tilkall til Nýja testamentisins hja Gideonistum og sé handhafinn ávallt velkominn í heimsókn til þess að heimta þessa himnagjöf.

Ef börnin gera aðsúg að höfuðstöðvum Guðs á Íslandi við Langholtsveginn svo þau geti sefað hungur sitt í orð Guðs er ljóst að þessa tilraun mætti gera aftur að ári. Verði mæting hins vegar dræm er að sama skapi ljóst að Gideonistar eiga ekkert erindi til ungu kynslóðarinnar og sé þeim því best að spara trén, þessa fallegu sköpun Guðs, og láta af þessari þráhyggjuhegðun.

Er þetta ekki fín leið til þess að skerá úr um þetta leiðindamál í eitt skipti fyrir öll?

PS. Fyrir öll börnin sem þetta lesa og geta ekki beðið eftir þessu flotta nýmæli: Þið getið heimsótt Gideonistana að Langholtsvegi 111 alla virka daga á milli kl. 12-15:50 og fengið ykkar eigið eintak af Nýja testamentinu. Athugið þó að eftir klukkan 14 getur framkvæmdastjórinn þó brugðið sér af bæ og því er betra að vera fyrr á ferðinni!


Lífæð Ríkiskirkjunnar fyrir gerðardóm?

Ég vona að þetta mál (Rúv: Kirkjan líklega með ríkið fyrir gerðardóm) fari snarlega fyrir gerðardóm og fái þar málefnalega meðferð. Þessi ömurlegi gjörningur, sem vélað var um af hópi gamalla fermingardrengja í denn tíð sem ekkert vit virðast hafa á samningagerð, hefur reynst íslenskri þjóð allt of dýr og tímabært er að vinda ofan af honum. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um verðmæti jarðanna hefur Ríkiskirkjunni aldrei tekist að lifa af gæðum landsins og ítrekað þurft að leita til ríkisins til þess að fá pening. Þegar jarðirnar gáfu lítið af sér var farið til ríkisins og þegar sauðirnir hættu að borga sóknargjöldin var ríkið látið sjá um innheimtuna á trúartollinum.

Þessir fjármunir eru notaðir til þess að byggja og viðhalda, að mestu, tómum kirkjum um allt land og borga laun presta sem fá rúmlega hálfa milljón á mánuði sem er 200 þúsund krónum meira en læknakandidat fær.

Ríkið þarf að segja upp jarðasamningnum, taka til sín ákveðinn hluta jarðanna sem það er sannarlega búið að borga upp í topp og skila afgangnum. Síðan þarf að afleggja sóknargjaldakerfið því engin skynsamleg rök eru fyrir því að hverju ríkið þurfi að borga félagsgjöld í einni gerð félaga (gjöldin eru ekki innheimt lengur, þetta er bara greiðsla úr ríkinu pr. sauð).

Aðeins þá kemur í ljós hver raunverulegur hugur þjóðarinnar er til Ríkiskirkjunnar, en það má hafa í huga við þær vangaveltur að hlutdeild hennar á trúarmarkaðnum hefur rýrnað um rúmlega prósentustig árlega undanfarin fimmtán ár og það þrátt fyrir að enn tíðkast sjálfvirkar skráningar nýfæddra barna í trúfélag.

Guð blessi Ísland :)

 

PS. Ég veðja á að Ríkiskirkjan muni ekki fara með þetta mál fyrir gerðardóm því þrátt fyrir allt getur hagur hennar aldrei orðið betri en hann er nú. Peningarnir flæða inn frá ríkinu og hún veit að hún fengi ekki nema brot af þeim fjárhæðum ef hún þyrfti að reiða sig á sóknarbörn sín.

PSS. Þrátt fyrir meintar fjárhagslegar hremmingar slær Ríkiskirkjan ekkert af og byggir nýja kirkju í Hafnarfirði. Er það merki um kröm að streðast við að auka við fitulagið? Ég held ekki. Einhvers staðar hlýtur að vera til dæmisaga um ráðsmanninn sem eyddi umfram efni. Kannski þekkja ráðsmenn Ríkiskirkjunnar ekki þessa sögu? Kannski þyrfti Gideon að beina spjótum sínum að Biskupsstofu í stað 5-6 ára barna? Kannski?


... þarf hún ekki að endurspegla trúarskoðanir einstaklinga.

Í þessari frétt Moggans kemur fram að enn hriktir í fúnum stoðum Ríkiskirkjunnar því þrátt fyrir linnulausa ríkisvélskráningu nýfæddra og trúlausra barna í trúfélög þá fækkar sauðum í félagatali hennar. Ég hef svo sem oft tjáð mig um þessi mál og ætla ekki að bæta í það núna fyrir utan það að segja hve bjartsýnn ég er á framtíðina í þessum efnum og hversu jákvæð þessi þróun er því með þessu er í það minnsta verið að leiðrétta kolrangar staðtölur í opinbörum gagnagrunnum.

Það er nefnilega þannig að merking í Þjóðskrá segir ekkert til um trúarhneigðir þess fólks sem skráð var í trúfélag við fæðingu. Þetta sér blaðamaður Moggans þegar hann segir:

"Þar sem að skráningin byggir einungis á tilkynningum til þjóðskrár þarf hún ekki að endurspegla trúarskoðanir einstaklinga.

Því má leiða traustum líkum að því að fjöldi þess fólks sem skráð er í trúfélög í dag séu þar algjörlega að tilefnislausu. Þetta sýnir sig í því að í dag skrá sig t.d. fleiri úr Ríkiskirkjunni en fæðast inn í hana og það án þess að fólk hafi af því fjárhagslegan ávinning að skrá sig úr samvistum við þessa stofnun.

En eins og ég sagði, þá er ég bjartsýnn og jákvæður vegna framtíðarinnar. Leiðréttingin hvað varðar Ríkiskirkjuna er rúmlega prósentustig árlega og þótt hún gangi of hægt fyrir sig sökum þess að ekki má hrófla við þessum tekjustofni hennar, þá er þetta samt að bíta hægt og rólega. Haldi áframhaldandi þróun áfram verður skráð félagatal hennar komið undir 50% innan 20 ára, en sú þróun mun þó verða hraðari því fólk skráir sig úr eða deyr frá henni hraðar en hægt er að ríkisvélskrá litlu börnin í hana.

Já, það er því full ástæða til bjartsýni og jákvæðni :)


mbl.is Fækkar í Þjóðkirkjunni en fjölgar í Siðmennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál til komið!

Loksins er þetta þjóðþrifamál í sjónmáli. Þessi lög voru kjánalegur óþarfi þegar þau voru samin og samþykkt og eru jafn óþörf í dag.

Nú eigum við bara eftir að henda bingólögunum út í hafsauga líka og svo skráningu nýfæddra barna í trúfélög og svo ríkisfjármögnun trúfélaga og svo ...

Það er nóg eftir, því miður :(


mbl.is Bann við guðlasti verði afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreddur og fordómar á undanhaldi

Mikið er gaman að sjá að á heimsvísu flæði almennt undan fordómafylkingu Jóns Vals, Gylfa Ægissonar og Útvarps Sögu. Það er helst þar sem trú hefur náð að sýra fólk í vanþróaðri löndum sem hægt er að finna sjónarmið á borð við þau sem áðurnefndir menn og fyrirbæri standa fyrir, en í upplýstari hlutum heimsins eiga þau hreinlega ekki upp á pallborðið. Jafnvel í hinu rammkaþólska Írlandi sjá sauðirnir að fordómarnir eru tærandi og byggðir á illu innræti, en á móti kemur þá seljast smokkar ágætlega þarlendis þannig að í raun hefur kaþólskan ekki jafn mikil tök þar og ætla mætti.

Þetta er vondur dagur fyrir kreddubandalag Kristna þjóðarflokksins (lesist Jón Val), veftröllið Gylfa Ægisson og það vesalings fólk sem fylgir þeim að málum. Fyrir okkur hin er hann hins vegar bjartur og góður því þarna var enn eitt lóðið lagt á vogarskál sanngirni og réttlætis.

Til hamingju hommar, lesbur og velgjörðarfólk, ykkar er dagurinn. Hinir geta bara sleikt sárin í skugganum.


mbl.is Já-sinnar fagna sigri á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfæddu börnin hunsa Ríkiskirkjuna

Ef rýnt er í tölur sem innanríkisráðherra sendi frá sér nýverið sem svar við spurningum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög kemur margt sniðugt í ljós. Af gögnunum má ráða að nýfædd börn kjósa í æ ríkari mæli að standa utan trúfélaga og þá sér í lagi Ríkiskirkjunnar og er það þróun sem vart hefur orðið undanfarin ár.

Grafíð sýnir fjölda lifandi fæddra barna hérlendis [gult], útreiknaðan fjölda nýfæddra barna sem ættu að hafa valið sér Ríkiskirkjuna sem trúarlegt athvarf m.v. hæsta hlutfall árið 2006 [rautt], raunverulegan fjölda nýfæddra barna sem kjósa skráningu í Ríkiskirkjuna [blágrænt] og loks fjölda barna sem Ríkiskirkjan hefur orðið af í gegnum tíðina vegna óþekktar í þjóðinni [appelsínugult].

Hvað veldur þessum hörmungum sem munu valda Ríkiskirkjunni fjárhagslegum erfiðleikum í framtíðinni þegar ríkið skal rukkað um trúarölmusuna og sálnaregistan hefur styst? M.v. upphæð ölmusunnar í ár mun þetta uppátæki kosta Ríkiskirkjuna tæpar 39 milljónir árlega þegar full áhrif hafa komið fram. Það munar nú um minna hjá stofnun sem keppist og streðast við að safna í kornhlöðurnar þótt á endanum ekkert safnist saman þar. Þetta eru ógnvænleg tíðindi fyrir þetta meinta fjöregg þjóðarinnar sem, að sögn, á svo mikla inneign í þjóðarsálinni, en virðist aldrei geta innleyst hana með nokkrum hætti.

Áhugavert verður að fylgjast með þróun appelsínugulu línunnar í framtíðinni, en mér segir svo hugur að vegur hennar fari vaxandi um leið og blágræna línan muni hníga í djúp trúleysis og andlegrar örvæntingar.


Og enn flýtur undan henni ...

Í athygliverðri frétt Kjarnans frá í gær kemur í ljós að 56% þjóðarinnar, marktækur meirihluti, er andvígur ríkisfjármögnun Ríkiskirkjunnar á meðan um 27% vilja ríkisfjármögnun. Eins og við er að búast þá er yngra fólkið meira andvígt gjafafé frá ríki til kirkju og eldra fólk fyllir upp í minnihlutahópinn sem vill ríkjandi fyrirkomulag ölmusunnar. Það segir okkur enn og aftur að hin gránandi kirkja á litla peningalega inneign hjá þeim sem munu byggja Ísland og að fjárhagsleg hnignun hennar er jafn óumflýjanleg og gangur tímans fram á við.


Hvað í Biblíunni er marktækt og hvað ekki?

Ég tel afar mikilvægt að með Biblíunni fylgi ítarlegt yfirlit yfir þá kafla hennar sem ekki standast skoðun og þarf því ekki að taka bókstaflega. Í fjölda mörg ár var Nýja testamentinu t.d. dreift til ungra skólabarna sem hefðu örugglega þegið slíkt yfirlit í stað þess að vera sagt að þarna væri um óhrekjanlegan sannleik að ræða. Hefðu börnin haft svona yfirlit til hliðsjónar þegar þau lásu Nt af áfergju, þá hefði það máské sparað þeim það hugarvíl sem til verður þegar fólk reynir að sætta órökrétta og ósanna hluti í huga sér.

Nú er það svo að meginþorri almennings hefur ekki haft færi á því að mennta sig í Guðfræði til margra ára og hefur því hreinlega ekki þá miklu þjálfun og reynslu sem þarf til þess að greina í sundur uppspunann og hið sanna. Því er ósanngjarnt að þeir sem betur vita útbúi ekki svona yfirlit fyrir þetta fólk til þess að koma í veg fyrir ranga túlkun á þessu gamla skrifelsi manna sem fólki hefur í gegnum tíðina verið uppálagt að taka sem sannleik, jafnvel heilögum sannleik.

Mér sýnist liggja lóðbeint við að presturinn í Bústaðakirkju hefji þessa vinnu því hann virðist hafa þetta á hreinu. Það liggur auðvitað beint við að setja trúarjátninguna efst á listann og semja svo fyrirvara sem lesinn er upp áður en farið er með hana því bersýnilega er ekkert að marka hana.


mbl.is Prófið sé í Vantrúarkristni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband