Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gleðitíðindi fyrir páska

Þrátt fyrir margháttaða neyðaraðstoð frá ríkinu fjarar undan Ríkiskirkjunni á öllum sviðum. Félagatal hennar rýrnar að jafnaði um 1% árlega sem er magnað eitt og sér, en hreint ótrúlegt þegar haft er í huga að mikill fjöldi nýfæddra barna er skráður í hana við fæðingu og að peningum ausið í hana hægri vinstri.

Tvennt er gott við það að 4805 Íslendingar leiðrétta skráningu sína hjá Trúareftirliti ríkisins. Annars vegar er undið aðeins ofan af meingölluðum staðtölum um trúarlíf þjóðarinnar, en vegna margháttaðra vélabragða hefur þeim verið haldið utan marka þess veruleika sem venjulegt fólk hrærist í. Helsta dæmi því til sönnunar er að fyrir 20 árum var því haldið fram að um 90% þjóðarinnar væru kristin sökum þessarar skráningarbellibragða. Hins vegar sparast tæplega 52 milljónir í ár vegna þessa sem geta þá nýst til fjármögnunar á aðkallandi og krefjandi verkefnum.

Þegar dæmið er skoðað 10 ár aftur í tímann kemur í ljós að Ríkiskirkjan hefur tapað um 614 milljónum á þessari óþægð sauðanna, en samtals nemur nettó fækkunin rétt tæplega 14 þúsund manns. Einhver hluti þeirra hefur leitað í önnur trúfélög og hluti þeirra endar utan trúfélaga, en þar hefði það fólk hvort eð er verið hefði ríkið ekki vélskráð það í trúfélag við fæðingu, Ríkiskirkjunni til heilla og án nokkurs ágóða fyrir viðkomandi sauð.

Til hamingju, Íslendingar, þessar fréttir eru afar góð páskagjöf :)


mbl.is Þjóðkirkjufólki fækkar hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um ríkisstofnunina Þjóðkirkjuna

Í frétt Moggans í dag segir:

Í greinargerð biskups segir að jafnan hafi verið gengið út frá þeim skilningi að biskupsstofa væri ríkisstofnun eða opinber stofnun sem lúti stjórn biskups Íslands sem forstöðumanns stofnunarinnar. Biskup fari þannig eins og hver annar forstöðumaður ríkisstofnunar með ábyrgð á og ráðstöfunarrétt yfir tekjum stofnunarinn­ar í því skyni að uppfylla þær skyldur sem á biskupsembættinu hvíli samkvæmt lögum frá Alþingi, starfsreglum og samþykktum kirkjuþings og öðrum heimildum.

Aumir leikmenn geta nú varla haft réttari skoðun á málinu en biskup. Þjóðkirkjan = ríkisstofnun = ríkiskirkja ... svo einfalt er það.

Er lífið ekki dásamlega skondið og skemmtilegt :)

#jonvalur #predikarinn


mbl.is Deila um völd innan þjóðkirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útvarp Saga og trúleysi Íslendinga

Útvarp Saga - vantrú á ÍslandiÍ niðurstöðum nýrrar könnunar Útvarps Sögu sést glögglega á hve miklum hrakhólum kristin trú verður hérlendis í framtíðinni. Henni mun hafa tekist að glopra niður yfirburðastöðu upp á vel rúmlega 90% markaðshlutdeild niður í 31%. Sú staða er auðvitað ágæt út af fyrir sig, ég er t.d. viss um að sértrúarsöfnuðurinn Catch the Fire yrði afar sæll með hana, en ríkisstofnun sem hefur um ómunatíð fengið ótæpilegan stuðning frá ríkinu í formi fjár og aðstöðu getur ekki gert sig sæla með svona hrakfarir.

En hvað svo?

Trúleysi er glögglega það sem fólk vill, en rétt um 60% þjóðarinnar mun velja þann góða kost. Þetta mun gerast þrátt fyrir að Ríkiskirkjan fái fúlgur fjár í meðlag frá ríkinu, að óvitar verði skráðir í hana við fæðingu og að hún fái að útvarpa messum á Rúv :) Nei, sex af hverjum tíu einstaklingum munu játa trúleysi og svo munu auðvitað fleiri bætast í þann hóp. Þetta mun gerast þrátt fyrir að trúleysi fái ekki nokkurn stuðning frá ríkinu. Reyndar má færa fyrir því góð rök að með vélskráningu ríkisins á nýfæddum óvitum í trúfélög sé beinlínis gengið fram með oddi og egg gegn trúleysi, en þrátt fyrir allt er sá ógeðfelldi gjörningur bara að hægja á þróuninni, ekki breyta henni.

Hósanna, hósanna!

Velkomnir, Íslendingar, í trúlausa framtíð. Í sjálfu sér mun þó ekkert breytast. Þið hugsið hvort sem er lítið sem ekkert um trú, farið lítið sem ekkert í kirkju í trúarlegum erindagjörðum og hafið í raun lítið sem ekkert hugsað um trú nema þá þegar æ vaxandi fjöldi ykkar velur að hafna Ríkiskirkjunni með úrsögn (sem þið þurfið sjálfir að vasast í, ríkið skráir ykkur bara í hana). Því hefur þetta í raun engin áhrif á ykkur því trú markar ekki djúp spor í líf ykkar nú, það sýna skoðanakannanir.

Því er við hæfi að óska ykkur til hamingju með þessa framtíð sem vísindaakademía Útvarps Sögu sér fyrir. Hún verður frábær!!!

PS. Ekki þarf að efast um niðurstöðurnar því þær eru afurð vinnu færustu sérfræðinga þjóðarinnar í gerð og framkvæmd skoðanakannana hérlendis.


Bingólögleysan

Merkilegt er til þess að hugsa að hérlendis skuli vera tilgreint í lögum að ekki megi spila bingó einn ákveðinn dag ársins. Þó er það skiljanleg þegar haft er í huga að fátt er hræðilegra fyrir kristna trú en almenningur spilandi bingó og storkandi gamla Guði í dillandi léttuð á meðan hann ætti að vera sakbitinn, társtorkinn og ekkasoginn vegna örlaga jólabarnsins í denn tíð.

En svo er hin hliðin á þessum peningi sem er sú að flestir Íslendingar láta sig föstudaginn langa sig lítið varða og þótt fæstir þeirra leggi sig eftir því að spila bingó á þessum degi ætti réttur þeirra til þess að vera sjálfsagður. En nú er viðbúið að afturhaldsöflin, þau sem ekki hafa trú á því að guð þeirra geti lifað af bingóspil, láti í sér heyra eins og þau gerðu þegar guðlastslögin voru aflögð. Reyndar er gott að hafa það mál til hliðsjónar því ekkert breyttist við þann gjörning. Fólk gengur ekki um guðlastandi um torg og bingóspil gegn Guði mun ekki vaxandi kirkjunni yfir höfuð. En ef það þó gerist, þá verður líklega góð ástæða fyrir því.

Fögnum því þessu framfaraskrefi, bingó er skemmtilegur leikur sem á rétt á sér alla daga ársins.


mbl.is Vilja bingólögin í burtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstyrkt dreifing á Nýja testamentinu hérlendis

Meðmælendur Nýja testamentis dreifingar Gídeón-félagsins hafa ítrekað hossað þeirri skrökulygi að félagið sé rekið fyrir sjálfsaflafé. Hins vegar er alltaf að koma betur í ljós að það getur ekki lifað án ríkisstyrkja frekar af flest annað trúarlegt.

  • Fyrsta skjalfesta dæmið er frá árinu 1962 þegar stjórn félagsins fer fram á við ríkið að því verði veittur 25 þúsund króna styrkur til útbreiðslu Nýja testamentisins meðal íslenskra skólabarna.
  • Annað skjalfesta dæmið er frá árinu 1993 þegar félagið fær styrk frá ríkinu að fá 50 þúsund króna styrk til kaupa á Nýja testamenti og Davíðssálmum og Biblíum.
  • Þriðja skjalfesta dæmið er úr nútímanum þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í veraldlegu landi, úthlutar félaginu 150 þúsund krónur í rekstrarstyrk á 70 ára afmæli þess.

Hér eru komin þrjú skjalfest dæmi um ásækni Gídeónista í ríkiskrónurnar og jafnvel Guð sjálfur almáttugur og alsjáandi hefur örugglega ekki yfirlit yfir hversu mörg tilfelli eru til viðbótar sem ekki hafa litið dagsins ljós!

Þetta sannar enn og aftur að Guð þrífst ekki á Íslandi án ríkisstuðnings. Bakland hans er einfaldlega ekki nógu sterkt til að hann geti komist af á ríkisstyrkja. Ríkið þarf því alltaf að skaffa, borga og bjarga trúartengdum apparötum til að þau geti veitt menn til þjónustu við Guð.

Skrýtið.

PS. Svo má leiða líkur að því að verið sé að gera börnum ljótan grikk með Gídeónska trúarpotinu þegar þessi rannsókn er höfð til hliðsjónar.


En kannanir Útvarps Sögu eru samt betri ...

Ég vann veðmálið :)

Í gærkvöldi veðjaði ég við góðan félaga og vin um að Jón Valur Jensson, sem ann 'skoðanakönnunum' Útvarps Sögu hugástum, myndi reyna að rífa niður skoðanakönnun Siðmenntar og það stóðst. Riddarinn sjónumhryggi pískaði draghaltan klárinn áfram í morgun og hökti til móts við vindmyllurnar sem halda fyrir honum vöku.

Félagi! Þú skuldar mér hundraðkall :)

PS. Svo hvet ég alla til að líta á niðurstöður úr tímamóta könnun Siðmenntar sem sýna glögglega hve langþreytt íslenska þjóðin er á öllu tilstandinu í kringum Ríkiskirkjuna. Vonandi les löggjafinn þetta vel og vendilega því útkoman hlýtur að vera andlag umtalsverðra breytinga í trúarlöggjöf landsins.


Rúm 26% þjóðarinnar óæskileg í embætti forseta

Í samtali við Kjarnann staðfesti biskup Ríkiskirkjunnar þá skoðun sína að einn af hverjum fjórum landsmönnum séu óæskilegir í embætti forseta Íslands, en áður hafði Agnes viðrað hana árið 2012. Þessu til stuðnings vísir biskup í stjórnarskrá landsins í hverri Ríkiskirkjan fær skilgreind forréttindi umfram önnur trúfélög. Ekki er óeðlilegt að gera því skóna að hún hefði séð að sér á þeim tíma sem liðinn er, en svo er ekki.

Í raun eru þeir óæskilegu þó mun fleiri því straumur fólks frá kirkjunni undanfarin ár sýnir að fjöldi fólks á ekki samleið með henni og mun fleiri en Trúar- og lífsskoðanaeftirlit ríkisins sýnir.

Þetta er enn eitt dæmi þess að fullkomið trúfrelsi er ekki til staðar hérlendis og að nauðsynlegt er að klára vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar til að koma í veg fyrir svona gáleysislegan og hættulegan málflutning. Þá sýnir þetta einnig að fullur aðskilnaður ríkis og Ríkiskirkju er nauðsynlegur svo svona gáleysishjal biskups fái ekki aukið vægi í krafti þeirrar fordæmalausu forréttindastöðu sem stofnun hennar er í.


En hvað varð um börnin?

Ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós þegar nýjustu tölur frá Trúar- og lífsskoðanaeftirliti ríkisins eru skoðaðar. Ef gamla spakmælið um að börnin séu framtíðin er haft í huga sést skjótt að framtíð Ríkiskirkjunnar er ekki björt.

Fjöldi barna, aldurinn 0-17, hefur farið hríðlækkandi frá 1998 og fer úr 70.700 niður í 59.300 í fyrra sem er fækkun um rúmlega 16%. Hafa ber í huga að á þessum tíma hefur ríkið vélskráð nýfædd vöggubörn í trúfélög sem hefur skilað Ríkiskirkjunni rúmlega 39 þúsund ´félögum´ á tímabilinu. Líklega hefði eitthvað af þessu fólki skráð sig í Ríkiskirkjuna, en erfitt er að meta það því Íslendingar eru ekki vanir því að þurfa að skrá sig í hana, en eru að ná þeim mun meiri leikni í því að skrá sig úr henni.

Því er ljóst að þessi þjónusta ríkisins hefur ekki bara reynst kirkjunni vel, hún er henni bókstaflega lífsnauðsynleg. Þetta sést best á því að í dag er Ríkiskirkjunni reiknuð 73,7% þjóðarinnar, en væri þessi vélskráði fjöldi dreginn frá dytti sú tala niður í 61,9%. En svo er það sem skiptir Ríkiskirkjuna mestu máli og það eru glerharðir peningarnir. Auðvelt er að reikna út hve mikils virði þessi hjörð er þegar kemur að styrkveitingu ríkisins í formi sóknargjalda, en ég eftirlæt öðrum það, þeim til annað hvort gleði eða hryllings.

Af framansögðu sést vel hve lítið Ríkiskirkjan á upp á pallborðið hjá þjóðinni. Þrátt fyrir alla meðgjöfina í formi fjármagns frá ríkinu, trúboðs í skólum og vélskráningar nýfæddra barna rýrnar hlutdeild hennar í sálnabúskað þjóðarinnar um 0.9% á milli ára. Ekki er undarlegt að ríkið þurfi að styrkja hana um 150 milljónir á næstu fimm árum svo hún geti eygt möguleika á að fanga fleiri sauði.

Gleðilegt nýtt ár, Ríkiskirkja, sem líklega færir þér þó bara fleiri hörmungarfréttir á sviði fjármögnunar og nýliðunar. En sá uppsker sem hann sáir, er það ekki?

PS. Hvað varð svo um börnin? Getur verið að ein skýringin sé sú að þeim ofbauð að ríkið skyldi hafa skráð þau í trúfélag við fæðingu? Hver veit?

 

Fjármagn frá ríkinu

Biskup Ríkiskirkjunnar á visir.is, 18. desember 2015

"En þetta er mjög sniðugt hjá þeim [Zúistum]. Þetta er klárt fólk, bráðsniðugt. Það sér þarna möguleika á því að fá fjármagn frá ríkinu."

Þarna lýsir biskup því hvernig trúfélag, sem er að fullu sambærilegt við Ríkiskirkjuna, er skipað snjöllu og bráðsniðugu fólki sem hefur séð möguleika á að fá fjármagn frá ríkinu. Ekki þarf að leita langt til að finna fyrirmyndir þess.

Vert er að halda til haga að biskup talar ekki um margumtöluð og ímynduð 'sóknargjöld' þarna, heldur talar hún um hlutina eins og þeir eru, fjármögnun frá ríkinu sem sniðugt, nei bráðsniðugt, fólk getur komist í.

PS. Munurinn á Zúistum og Ríkiskirkjunni er reyndar sá að Zúistar ætla að koma aurunum til sauða sinna á meðan Ríkiskirkjan getur hreinlega ekki fengið nógu mikið af peningum fyrir sjálfa sig eins og alþjóð veit.


Þegar biskup kveður Ríkiskirkjuna ...

Kjarninn skrifar í dag grein í hverri vitnað er í tal Pétur Kr. Hafstein um að Ríkiskirkjan sé beitt ofbeldi. Er hann þá að vísa í að ríkið hafi krafist þess að viðræður fari fram um ómegðarstyrki ríkisins til trúfélaga í tengslum við að styrkur ársins 2016 var hækkað hressilega. Pétur segir að samningar skuli standa og er það rétt. Hins vegar þarf eitthvað vit að vera í samnningum svo þeir séu pappírsins virði og er rétt að fara yfir einn lið jarðakaupasamningsins og bera hann saman við veruleikafirringarmælistikuna góðu.

Skoðum 60. grein samnings ríkis og Ríkiskirkju frá árinu 1997:

Launagreiðslur og réttarstaða starfsmanna.
60. gr.
Ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu.
Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
Fjölgi prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., skal ríkið greiða laun eins starfsmanns á biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar tala starfsmanna á biskupsstofu í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.
Launagreiðslur annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar eru ríkinu óviðkomandi.


Ekki þarf flókinn útreikning til að sjá að þessi grein er gjörsamlega út í hött og hefur bara verið samin með hagsmuni Ríkiskirkjunnar í huga.

Árið eftir að samningurinn tekur gildi eru 244.893 sauðir skráðir í Ríkiskirkjuna og gef ég mér að fjöldinn árið 1996 hafi verið svipaður. Til einföldunar miða ég við töluna 245 þúsund og geng þá út frá því að . M.v. forsendur samningsins borgar ríkið undir einn biskup, tvo vígslubiskupa, 138 presta og prófasta og 18 starfsmenn Biskupsstofu. Með þetta í huga er hægt að byrja að reikna.

Breytingar á fjölda presta miðast við að fimm þúsund sauðir sæki að eða hverfi frá Ríkiskirkjunni. Ef fimm þúsund hverfa frá kirkjunni standa 240 þúsund og það fækkar um einn prest. Þetta getur alls gerst 49 sinnum þar til enginn er skráður í Ríkiskirkjuna og getur þannig fækkað um 49 presta m.v. þessa grein.

Breytingar á fjölda starfsfólks Biskupsstofu miðast við að það fjöldi eða fækki um tíu presta. Sé tekið mið af dæminu hér ofar hefur prestum fækkað um 49 og fækkar starfsfólki því um fjóra og standa þá 14 eftir.

Því er staðan sú ef/þegar enginn verður skráður í Ríkiskirkjuna munu eftirtaldir aðilar eftir sem áður verða á launaskrá ríkisins:

biskup (1)
vígslubiskupar (2)
prestar og prófastar (89)
starfsfólk (14)

Hafa ber í hug að ef/þegar þessi sviðsmynd verður að veruleika verður ekkert af þessu fólki skráð í Ríkiskirkjuna, en starfar samt fyrir hana. M.a.s. biskup mun hafa skráð sig úr Ríkiskirkjunni sem sýnir best hve vondur þessi samningur er og hve illa var að honum staðið.

Nú mun einhver benda á að þetta geti aldrei gerst, að sú stund muni aldrei renna upp að enginn verði skráður í Ríkiskirkjuna og er það líklega rétt. Samningurinn ætti hins vegar að miðast við þann möguleika á sama hátt og hann gerir ráð fyrir að ef skráðar sálir í Ríkiskirkjuna telji 500 þúsund verði prestum fjölgað í 189 og starfsfólki á Biskupsstof í 23. En af því að samningurinn gerir ekki ráð fyrir að kirkjan geti hreinlega lagst af er hann ekki í lagi. 

Sökum þessa er eðlilegt að endurskoða þessi mál í víðu samhengi. Þau einkennast öll af ómöguleika á alla kanta og aðeins hagsmunum Ríkiskirkjunnar er þjónað með þeim. Þess vegna fagna ég því að ríkið krefjist viðræðna um fjárreiður Ríkiskirkjunnar, en hef svo sem ekki miklar væntingar til að eitthvað komi úr því. Ríkiskirkjan hefur aldrei plumað sig upp á eigin spýtur eftir að hún byrjaði að hrærast á frjálsum markaði og ríkið hefur alltaf skorið hana úr snörunni.

Engin ástæða er til að ætla að öðruvísi verði farið núna ... en það er samt verðugt bænarefni!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband