Miðvikudagur, 19. september 2007
HlaupaMSN
"Af hverju getum við ekki fengið MSN?", spurði lítill frændi minn fyrir nokkrum mánuðum síðan. Honum sýndist allir vinirnir vera með MSN og vildi ekki vera eftirbátur þeirra. Ég stakk upp á því við hann að hann fengi sér HlaupaMSN og uppskar undrunarsvip aldarinnar. Drengurinn varð nokkuð spenntur enda hélt hann að þarna væri komin spennandi lausn á ömurlegu ástandi.
"Sko, HlaupaMSN virkar þannig að þú hleypur einfaldlega til þeirra sem þú vilt segja eitthvað við og segir það við þá. Svo hleypurðu til baka og bíður eftir svari sem auðvitað kemur með öðrum HlaupaMSN skilaboðum!". Sá stutti var nokkra stund að melta þetta og virtist reyna að finna á þessu jákvæða hlið. En þrátt fyrir mikil heilabrot var nokkuð ljóst að það var fátt spennandi við HlaupaMSN og því meir sem hann dvaldi við málið, því ömurlegri varð tilhugsunin.
Sagan endar ekki hér því til þessa dags liggur hugsunin um HlaupaMSN svo þungt á drengnum að stundum hrekkur upp úr honum eftir langa og þunna þögn; "Iss, það getur ekki verið neitt varið í þetta HlaupaMSN!". Svo dettur hann aftur ofan í djúpa þanka og reynir að sjá fyrir sér glataðan heim sem byggir á HlaupaMSN.
Run, Forrest, run!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 6. september 2007
Meiðsli
Yðar einlægur lagði á Esjuna kl. 20.00 í gærkvöldi í þeim tilgangi að sneiða aðeins af tímanum upp að 4. stiku. Ég byrjaði vel og gekk í einni lotu upp fyrir fyrri brúna og hálfa leið upp gilið á mínum besta tíma hingað til. En þá brast eitthvað í hægri kálfanum sem varð til þess að nú er kallinn draghaltur enda formlega orðinn einn þeirra sem þjást af íþróttameiðslum. Í gegnum tíðina hef ég gert óspart grín að íþróttamönnum og þótt það býsna sniðugt að þeir séu ósjaldan teygðir og togaðir að jafna sig eftir einhver meiðsli. Viðkvæðið hefur verið að góð, jöfn og markviss kyrrseta sé lykillinn að meiðslalausu lífi. Nú er ég hins vegar kominn í raðir þeirra sem skakklappast um sem fórnarlamb álagsmeiðsla og er það illt. Það góða í stöðunni er hins vegar það, skv. því sem göngumakker minn segir, að maður þarf reyndar að vera kominn úr allra lélegasta formi til þess að geta lagt þannig á skrokkinn að hann bregðist svona við. Ég hugga mig altént við það.
Nú liggur fyrir að fá tíma hjá sjúkraþjálfara til að fá bót þessa meins svo ég geti haldið göngunni áfram, mér til góðs. Það merkilega hefur gerst að ég hef sífellt meira og meira gaman af þessu stússi og má ég því vart til þess hugsa að liggja í kör. Vonandi á sjúkraþjálfarinn góða töfrapillu sem fiffar þetta til eins og skot ... annars verð ég illa svikinn.
En mikið eigum við kallar bágt þegar við eigum bágt! Vá!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 30. ágúst 2007
Fjörutíu og þrjár mínútur
Jæja, þá hafðist það loksins. Eins og vatnið holar steininn náði ég að sigra fjallið. Í kvöld rann ég upp hlíðar Esjunnar að fjórðu vegstiku í einum samfelldum rykk fyrir utan nokkurra sekúndna hlé (argh!!!) við neðri brúna. Þetta var magnaður sprettur; tími og rúm urðu að einu í endalausri samfellu sem markaðist af hverju skrefinu á eftir öðru. Makker minn, Hörður Helgi Helgason, sló taktinn og talaði mig í gegnum andlegu skaflana og þegar fjórðu vegstiku var náð í rökkrinu stóð tíminn í 42:30 mínútum. Það var sérdeilis mögnuð upplifun að ná þessu forna takmarki mínu; að komast að stiku 4 á 45 mínútum eða skemur og það fylgdi því mikil sælutilfinning að klukka stikuna áður en ég fleygði mér á daggarvota þúfu. Eftir að hafa slökkt þorstann í straumhörðum læknum sem rennur glaðlega hjá stikunni var haldið niður í grunnbúðir. Á leiðinni var að finna magnaða sýn á stórkostlegt sjónarspil þegar þokan herti silkimjúk tök sín á há- og láglendi og smeygði sér lipurlega um króka og kima. Þarna óskaði ég þess að hafa tekið með myndavélina og þrífót, en það verður víst ekki á allt kosið!
Það var eitt að ná þessu á tíma og annað að rölta þetta í nær samfelldum rykk. Ég fór hægt og rólega yfir í stað þess að geysast áfram og hvíla svo á milli. Auðvitað koma erfiðir kaflar, en ég fann að þetta var, svona heilt yfir, auðveldara og bersýnilega vænlegra til árangurs. Það má finna líkindi með þessu og verklagi afa míns; hann er ekki sá sneggsti þegar hann er að musast með spýturnar og velta þeim fyrir sér, en þegar dagur er að kvöldi kominn hefur hann afkastað margfalt miklu meiru með stanslausu juðinu en sá sem er stöðugt að spretta og stoppa til að ná mæðinni.
Í bili ætla ég að halda áfram að reyna við stiku 4 og reyna að upplýsa fleiri af þeim leyndardómum sem hún geymir. Ég sé það nefnilega betur í hvert skipti sem ég fer til fundar við hana að þrátt fyrir fálæti hennar búa í henni kosmískir kraftar og margslungnir straumar sem ókannaðir eru.
Engage!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 30. ágúst 2007
Gúrka?
Er það virkilega fréttnæmt að varningur hér heima sé oft á tíðum dýrari en tíðkast erlendis? Er það réttlætanlegt að fréttastofa (Stöðvar 2 í þessu tilviki sem oftar) taki fyrir eitt fyrirtæki á frjálsum markaði og flytji slíka frétt framarlega í aðalfréttatíma? Ég þekki ekki þetta mál með IKEA en ég hef aldrei gert mér nokkrar grillur um að IKEA hér heima geti alla jafna boðið verð sem er sambærilegt við það sem sjá má á stórum milljónamörkuðum erlendis, hvað þá að hægt sé að bjóða lægra verð. IKEA býður varning sem seint verður talið til nauðsynjavöru og því er enginn neyddur þangað í viðskipti. Fjölskyldur á Íslandi gætu afar vel komist af án þess að leggja nokkurn tíma leið sína í verslun IKEA, en þær kjósa engu að síður að versla þar. Væri ekki tilhlýðilegra að Stöð 2 horfði í eigin rann, en þar þykir mönnum ekki tiltökumál að eyða á rúmlega milljarði króna í nokkrar fótboltamyndir! Er það ekki hreinlega mesta klikkun sem um getur?
En aftur að IKEA sem hefur hingað til verið þekkt að því að bjóða góða vöru á góðu verði. Sjálfur hefur ég nokkrum sinnum lagt leið mína í Kauptún til að borða þar hádegismat, en hann er óvíða ódýrari m.v. gæði. Ég mun renna í IKEA bráðlega og kaupa mér fatahengi enda treysti ég þeim afar vel til þess að skaffa mér slíkt á góðu verði.
Ég hugsaði reyndar um það sem kom fram í niðurlagi upptalningar fréttakonunnar ötulu. Þar sá hún að einhver skápur kostaði 6% minna hér en í milljónalandinu Svíþjóð, en fannst það augsýnilega afar ómerkilegt og lítt fréttnæmt. Er það þó ekki stóra fréttin?
Líklega, en ógeðslega er það leiðinleg frétt!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. ágúst 2007
Astrópían rokkar!
Ég var að koma frá einni ánægjulegustu lífsreynslu í bíó sem ég hef upplifað. Astrópían heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum og ég heyrði að það átti við um býsna marga sem voru umhverfis mig í bíóinu. Salurinn lifði sig vel inn í myndina og hláturinn kom í bylgjum með reglulegu millibili. Aðstandendur Astrópíunnar eru engir aukvisar í sínu fagi, svo mikið er víst.
Astrópía er frábær mynd hvernig sem á hana er litið. Beint fyrir aftan mig sátu þrír nördar sem augsýnilega líkaði vel hvernig þeirra veruleiki var tengdur inn í myndina. Allt um kring voru foreldrar á öllum aldri með börn á öllum aldri og allir skemmtu sér konunglega. Það magnaða var að í flestum tilfellum voru nördar, venjulegt fólk og við sem erum á mærum beggja heima samtaka í að hafa gaman af sömu hlutunum. Sagan er góð, umgjörðin mögnuð og leikurinn hreint afbragð.
Þá verð ég illa svikinn ef Astrópían á ekki eftir að skipa sér í allra efstu sæti á listanum yfir vinsælustu íslensku myndirnar. Hún hefur allt til að bera og rúmlega það. Þeir örfáu sem eru óvissir um hvort myndin henti þeim ættu hreinlega að láta á það reyna ... ég er viss um að þeim verður komið þægilega á óvart. Ef viðkomandi hafa ekki gaman af Astrópíunni geta þeir þó glaðst við, því þar fá þeir endanlega staðfestingu á því að þeir séu ótrúlegir og óforbetranlegir fýlupokar!
Smá larp ... einhver?
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. ágúst 2007
Fjörutíu og níu mínútur
Í dag náði ég mínum besta árangri á Esjunni hingað til þegar ég rölti, másandi og masandi, upp í fjórðu stiku á rétt innan við 49 mínútum. Hið gamla markmið mitt, að ná þangað á 45 mínútum, er innan seilingar og vonast ég eftir að ná því fyrir mánaðamótin. Þá tekur við spurning hvort ég haldi áfram að reyna við fjórðu stiku eða hvort ég hækki mig um eina. Hvort tveggja hefur sína kosti og galla ... ég spái í þetta áfram uns 45 mínútna markinu er náð. Ég hvíli fram á þriðjudag og fer þá.
Urð og grjót ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 19. ágúst 2007
Síldarmannagötur
Í gær rölti ég ásamt 5H tvíeykinu (Hlyni Halldórssyni og Herði Helga Helgasyni) um Síldarmannagötur. Það er skemmst frá því að segja að rölt um íslenska náttúru í góðum félagsskap er hin besta skemmtun. Við lögðum upp frá Botni í Hvalfirði og fylgdum vel stikaðri leiðinni yfir í Skorradal þar sem Carnivore Convention 2007 beið hjá mömmu. Fyrsti kaflinn einkennist eðlilega af nokkru príli þar sem verið er að sigra fjallið, en þegar komið er upp á heiðina tekur við jöfn og góð gönguleið. Veðrið lék við okkur allan tímann; það var skýjað með köflum og léttur andvari lék um göngumenn. Þegar halla tók á ferðina sást æ oftar í þjóhnappa göngusveinanna sem voru með í för þar sem þeir stungu nefjum ofan í djúpblátt berjalyngið. Það var sem þeir hefðu aldrei séð bláber áður og tóku þeir hraustlega á. Þeir voru helteknir af berjagleði og væru líklega enn á beit í hlíðinni ef kjötveislan hefði ekki togað í.
Á morgun er markið sett á hefðbundna heimsókn á Esjuna, en í vikunni verður fjallið svo sigrað í eitt skipti fyrir öll þegar ég fer alla leið á toppinn.
Lesandi minn getur smellt hér til að líta myndir frá Síldarmannagötum.
Góðar stundir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Hugleiðingar um tölvuleiki
Í nýrri grein BusinessWeek um tölvuleikjaiðnaðinn sést að árlegur vöxtur hans er áætlaður rúmlega 9% næstu fjögur árin. Í fyrra var velta markaðarins á heimsvísu tæpir 32 milljarðar Bandaríkjadala en verður komin upp í um 49 milljarða Bandaríkjadala árið 2011.
Það er merkilegt að sjá að hægt og bítandi er farið að horfa meira á tölvuleiki sem þjónustu frekar en vöru. Þannig hafa leikir á borð við World of Warcraft og Second Life fest fyrirkomulag áskriftar í sessi þar sem spilarinn greiðir mánaðarlegt gjald gegn aðgangi að margvíslegri þjónustu. Þá eru mörkin á milli stafrænu heimanna og raunheims stöðugt að verða óskýrari. Þess eru dæmi að háskólar séu byggðir í Second Life þar sem alvöru kennsla fer fram. Þá eru fasteignasalar farnir að bjóða þjónustu sína á sama vettvangi. Fyrirtæki nýta sér haftalaust umhverfi leikjanna í æ ríkari mæli t.d. til starfsmannaþjálfunar og símenntunar. Bandaríski herinn hefur lengi nýtt sér tölvuleiki til að þjálfa dáta sína og heldur hann m.a.s. úti afar vinsælum leik, America's Army, sem ætlað er að auka áhuga ungs fólks á herþjónustu.
Auglýsingar hafa birst í leikjum undanfarin ár og þá sér í lagi íþróttaleikjum hvers konar. Nú er farið að bera á því að auglýsingaskilti séu reist um víða velli í leikjaheimum. Hvergi er hægt að mæla áhorf eins nákvæmlega og í tölvugerðum heimum þar sem það er vitað með 100% vissu hvort auglýsingu bar fyrir augu spilara eða ekki, þ.e. annað hvort er hún á skjánum eða utan hans. Það vakti nokkra úlfúð meðal spilara þegar það fréttist að auglýsingar myndi birtast í leiknum Battlefield 2142 og frestaði útgefandi leiksins, EA Games, þeim fyrirætlunum um sinn. Þar átti að stíga næsta skref í því að sérsníða birtingar auglýsinga því í leiknum er hægt að meta hvort spilari sé sókndjarfur eða haldi sig til hlés? Tekur hann málin í sínar hendur og leiðir hóp manna í orrustu eða er hann leiðitamur? Lætur hann vel að stjórn eða ekki? Rekst hann vel í hópi eða fer hann einn síns liðs. Sé spilarinn ágengur og sókndjarfur má ætla að hann sjái auglýsingar um t.d. hraðskreiða sportbíla meðan rólegri spilarar fái að líta auglýsingar um venjulega fólksbíla.
Í jarðbundnari leikjum á borð við Second World eða The Sims Online er hægt að mæla hegðun fólks enn nánar. Er spilarinn sparsamur og hagsýnn eða eyðir hann stöðugt í nýjustu græjurnar? Hefur hann gaman af því að vera heima hjá sér og hugsa um heimilið eða er hann stöðugt á ferðinni út um allt? Kaupir hann dýran og vandaðan varning eða reynir hann að þræða útsölurnar? Í þessum leikjum má fá sérdeilis nákvæmar upplýsingar um hegðun fólks sem nýtast vel til markaðsfærslu á hvers konar varningi. Stafrænir heimar eiga þannig eftir að verða draumastaðir markaðsmanna sem munu geta komið skilaboðum sínum á framfæri með ótrúlegri nákvæmni.
Framundan eru spennandi tímar fyrir okkur sem höfum gaman af tölvuleikjum. Múgvistun á eftir að stórauka framboð af góðu efni og tæknin er orðin svo fullkomin að í dag er hægt að skapa næstum hvað sem hugurinn getur ímyndað sér. Innan skamms tíma verður tölvuleikur á útgáfudegi aðeins fyrsta birtingarmynd hans áður en múgurinn tekur að sér að þróa hann áfram í áttir sem enginn hefði fyrirfram getað giskað á.
Game on!
Mánudagur, 6. ágúst 2007
Laumudiskó
Laumudiskó (e. stealth disco) er hægt og bítandi að ryðja sér til rúms í heiminum og er tími til kominn! Laumudiskódansarar eru þeir sem læðast aftan að óafvitandi vinnufélögum eða vegfarendum og taka þar nokkur snör diskóspor án þess að viðkomandi verði varir við. Þetta er hægt að gera með og án myndupptöku, en auðvitað er svalara að eiga afrekið skjalfest í flottu myndskeiði.
Ég hvet lesanda minn til þess að líta á eftirfarandi myndskeið ... ég veðja á að hann verði farinn að laumudiskódansa á vinnustað sínum fyrr en síðar:
Diskó er lífið!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Framtíð tölvuleikja?
Ég kynnti mér nýverið leikinn Little Big Planet sem mun innan tíðar verða fáanlegur fyrir Playstation 3 leikjatölvuna. Þetta er magnaður leikur sem brýtur blað í tölvuleikjasögunni með einstakri uppbyggingu sinni. Í grunninn er þetta þrautreynt leikjamódel þar sem spilarinn hleypur fram og til baka og leysir margvíslegar þrautir. Það sem hins vegar gerir leikinn sérstakan er að spilarar geta á öllum stundum haft áhrif á umhverfi sitt. Þeir geta hannað ný borð, breytt köllunum sínum og hvað annað sem hugurinn getur kokkað. Svo geta þeir vistað allt sem þeir hafa búið til á Playstation Network þar sem aðrir spilarar geta nálgast borðin og spilað þau.
Múgvistun (e. crowdsourcing) hefur að nokkru leyti birst í leikhaheimum hingað til og þá helst með því að framleiðendur leikja hafa gert spilurum kleift að búa til kort, borð eða sk. 'mod' við leiki. Þetta er hins vegar ný nálgun þar sem spilurum er gert afar auðvelt að skiptast á hugverkum sínum með skipulögðum hætti.
Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að þarna geta allir lagt sitt lóð á vogarskálarnir. Sumir myndu segja að það eina sem þetta leiði af sér sé rusl í stríðum straumum og að engum sé treystandi til að búa til og hanna tölvuleiki nema sérhæfðu fólki. Það er næsta víst að 95% af því sem spilarar Little Big Planet munu búa til verði algjört rusl sem enginn muni hafa gaman af, en þá eru 5% eftir. Ef milljón manns spila leikinn að staðaldri, þá eru 50 þúsund spilarar í 5% flokknum. Ef þessir spilarar eru að skila frá sér gæðaefni þá eru þeir margfalt stórvirkari en nokkur leikjaframleiðandi gæti nokkurn tíma verið. Ég hygg að það sé fátítt að fjölda hönnuða sem koma að einum leik fari yfir 50, þ.e. þeir sem koma beint að hönnun og uppsetningu korta og borða. Múgvistunin myndi þannig leiða þúsund sinnum fleiri hönnuði að borðinu og það án nokkurs kostnaðar fyrir framleiðandann!
Í framtíðinni eigum við eftir að sjá meira af þessu. Framleiðendur búa til grind og regluverk ásamt fyrsta kaflanum í sögunni, en eftir það taka spilararnir við. Lýðræðið mun ráða, verk þeirra sem standast ekki dóm spilaranna munu ekki ná hylli en framlag þeirra sem eitthvað kunna til verka mun ná vinsældum. Fyrir vikið munum við sem spilum leiki njóta meiri fjölbreytni og meiri gæða fyrir minna verð.
Að lokum hvet ég lesendur til að kynna sér leikinn Little Big Planet með eftirfarandi vefslóðum:
- gametrailers.com (nokkur myndskeið)
- youtube.com (tvö myndskeið)
Game on!